EldarnirSigríður Hagalín. Eldarnir: Ástin og aðrar hamfarir.

Benedikt bókaútgáfa, 2020. 287 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2021

Sigríður Hagalín er ekki í neinum feluleik í þriðju skáldsögu sinni, Eldunum. Sagan hefst í lokuðu rými þar sem sögukona okkar liggur og berst við að ná andanum, reynir að láta síðustu súrefnisdreggjarnar endast meðan hún talar við lesandann í fyrstu persónu og rifjar upp veturinn sem leið. Þetta er íhugul kona á fimmtugsaldri; kannski var hún ekki alltaf svona ljóðrænt hugsandi, hún gefur í skyn að sýn hennar á lífið og heiminn hafi breyst á undanförnum mánuðum.

Framan við meginmálið, áður en við troðum okkur inn í myrkrið til hennar, gefur að líta lista yfir „helsta sögufólk“ og þá má strax sjá að þetta er engin venjuleg skáldsaga. Hér eru fleiri embættismenn með merkilega titla en maður er vanur: forstöðumaður Jarðvísindastofnunar (það er sögukonan sjálf), stjórnarformaður Jarðvísindastofnunar, fagstjóri jarðvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, yfirlögregluþjónn almannavarna, ríkislögreglustjóri, forstjóri Landhelgisgæslunnar og fleiri og fleiri. Á eftir þessum nafnalista kemur opnumynd af eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga.

Sagan gerist í nálægri framtíð. Þegar neðansjávargos hefst undan Reykjanesi í næsta nágrenni við Keflavíkurflugvöll kemur fram að flugið er „fyrst núna að rétta úr kútnum eftir faraldurinn“ (38). Þar er væntanlega átt við Covid-19-faraldurinn sem enn geisar þegar þetta er skrifað. Sagan gerist á hálfu ári, frá mars fram í september, og er hugsuð í hring því hún endar þar sem hún byrjar, í loftlausa rýminu með sögukonu. Neðansjávargosið í sögubyrjun reynist bara vera fyrsta vers.

Sigríður Hagalín lýsti afleiðingum dularfullra hamfara á þjóð sína í fyrstu skáldsögu sinni, Eylandi (2916). Þar teiknar hún upp af óhugnanlegri nákvæmni hvað gerist þegar landið einangrast. Eins mætti búast við að Eldarnir drægju nosturslega fram hvað gerðist ef það gysi í grennd við höfuðborgina. Raunar er geysimikill fróðleikur um gosvirkni, eldstöðvar og afleiðingar eldgosa í bókinni, aðallega settur fram með ótal beinum tilvitnunum í þekkt jarðfræðirit og aðrar prentaðar heimildir auk spennandi vangaveltna og kenninga sögukonu. Samtölin um gosvirkni eru sannfærandi og tilvitnanir í fræðirit alltaf upplýsandi og stundum alveg dásamlegar (t.d. 115). En erindi Sigríðar í Eldunum er ekki að sýna fram á hverjar afleiðingar slíkra hamfara yrðu, í þetta sinn er hún aðallega að skapa manneskju og sýna viðbrögð hennar við ævi sinni og örlögum.

 

Anna

Jarðvísindamaðurinn Anna Arnardóttir er dóttir annars jarðvísindamanns, goðsagnar í sínum vísindaheimi, ávöxtur undarlegs og endaslepps sambands hans við Guðrúnu Olgu, skáld og þýðanda. Móðirin yfirgaf þau feðginin í frumbernsku Önnu og hvarf úr landi um skeið og Anna litla var alin upp við vísindi af öllu tagi hjá pabba sínum, sem orðinn var roskinn þegar hún fæddist. Hins vegar fékk hún hvorki að heyra ævintýri né barnasögur í bernsku, pabba hennar fannst það tímaeyðsla. Það segir því átakanlega sögu um hungur hvað hún hangir í eina ljóðinu sem hún kann þegar allt er komið á heljarþröm, barnaþulunni gömlu: „Sofinn er fífill / fagur í haga /mús undir mosa, / már á báru, /lauf á limi, / ljós í lofti, / hjörtur á heiði, / en í hafi fiskar. / Sof þú nú sæl / og sigurgefin. / Sofðu, ég unni þér.“

Foreldrar Önnu eru báðir sérvitringar sem Sigríður dregur upp sterkar og minnisstæðar myndir af og Anna er innhverfur einfari eins og foreldrar hennar. Hún virðist ekki eiga neina ættingja og enga vini fyrir utan einn vinnufélaga. Mat Önnu á sjálfri sér er að hún sé „samkvæmt öllum almennum viðmiðum … frekar leiðinlegur vinnufíkill“ (137).

Anna elskaði föður sinn heitt og saknar hans ævinlega. Tilfinningarnar til móðurinnar eru flóknari enda hafa samskipti þeirra aldrei verið góð. Þegar Anna segir henni frá tilvonandi eiginmanni sínum í upphafi sambands þeirra er móðirin fljót að lesa í hug hennar: „Þú ert ekki ástfangin. Þú getur það ekki. Þú ert eins og ég.“ Anna mótmælir kröftuglega en móðirin ítrekar:

Þú ert alveg nákvæmlega eins og ég, ónæm fyrir ástinni. Það er allt í lagi, þá áttu bara meiri orku eftir fyrir annað, vinnuna, þessi vísindi þín. Fólk sem er ónæmt fyrir ástinni hefur tækifæri til að verða eitthvað í lífinu. (78)

Móðirin hafnar ekki aðeins dóttur sinni heldur kallar hún yfir hana bölvun með þessum orðum. Þó er móðirin ekki „vond“ eins og stjúpurnar í ævintýrunum, hún er mun flóknari persónuleiki en svo. Einn áhrifamesti kafli bókarinnar er frásögn af „ævintýraferð“ mæðgnanna út í Gróttu þegar telpan er tólf ára; þar birtist nöturleg mynd af konu sem þráir að uppfylla móðurhlutverkið en ræður ekki við það. Það er einmitt þá sem Guðrún Olga fer með barnaþuluna fyrir dóttur sína og maður getur ímyndað sér hvað hún hefði getað gefið henni af menningarlegum auðævum ef samband þeirra hefði verið eðlilegt. Ef hún hefði til dæmis látið hana lesa bókina um Önnu Kareninu eða ljóð Önnu Ahkmatovu sem hún er að þýða – tvær „Önnur“ sem hefðu getað verið Önnu dóttur hennar stoð í lífinu.

Anna heillar lesandann með yfirgripsmikilli þekkingu sinni á jarðfræði og mælsku þegar hún segir ólærðum frá. Hún er kennari og þó að við sjáum hana ekki með nemendum sínum lætur henni greinilega vel að tala svo að jafnvel börn skilji. Það er arfur frá föðurnum. Um leið og hún fræðir miðlar hún sýn Íslendinga á jarðelda og freistar þess að skýra sérkennilegan áhuga okkar á þeim sem jaðrar við aðdáun, jafnvel ást, og er svo furðulega laus við ótta.  Skemmtileg mynd af þessu er þegar vísindamennirnir keyra á leið að gosstöðvunum fram úr bíl skreyttum hvítum borðum, „brúðurin heldur á kampavínsglasi … spennt að gifta sig í hvítu með svartan gosmökkinn í baksýn, myndirnar verða geggjaðar“ (62).

Höfundi er mikið í mun að lesandinn skilji Önnu og meti hana fyrir það sem hún er, kannski af því að hún vonar að þá geti hann fyrirgefið henni. Því Anna svíkur allt sem henni er heilagt. Hún svíkur starfið sitt með því að leggja hugarorkuna í annað en það sem er að gerast í iðrum jarðar. Hún svíkur manninn sinn með því að taka upp logandi heitt ástarsamband við annan mann. Og það sem kvelur hana mest: Hún gleymir dóttur sinni á ögurstundu.

 

Heimilið og hjónabandið

Anna er gift skattalögfræðingnum Kristni Fjalari og á með honum tvö börn, son á þrítugsaldri, Örn Ögmund, og átta ára dóttur, sem hún hefur skírt tveim laxnesskum nöfnum, Sölku Snæfríði. Þrátt fyrir þessi myndarlegu nöfn kallar Anna dóttur sína „stubb“ eins og pabbi hennar kallaði hana litla. Það með öðru sýnir að Anna lítur á sig sem föðurinn endurborinn.

Við fáum tvíræða mynd af hjónabandinu strax í upphafi. Anna og Kristinn vakna að morgni fyrsta dags sögunnar en láta sem þau sofi og sögukona hugsar: „Það er margt verra en að liggja hlið við hlið og þykjast sofa.“ (15) Þau búa í glæsilegu einbýlishúsi í útjaðri höfuðstaðarins, sérvöldu af eiginmanninum handa henni, besta jarðvísindamanni landsins (19). Heimilið er nútímalega smart og endurspeglar framakonuna og hið hentuga hjónaband, en vinnuherbergið, „grenið“ hennar, kemur upp um hana; hún er önnur en hún vill sýnast vera.  Arkitektinn sem Kristinn ræður til að lífga upp á heimilið sér klofninginn í húsmóðurinni undireins, hún les Önnu eins og opna bók ekki ólíkt móðurinni. Grenið reynist síðan eiga sér samsvörun í híbýlum elskhugans.

Anna og Kristinn eru of upptekin af störfum sínum til að sækja menningarviðburði. Menningarleg fátækt þeirra kemur vel fram þegar sonurinn ákveður að fara til útlanda í nám í leikmyndagerð. Ef foreldrar hans fylgdust eitthvað með leikhúslífinu myndu þau vita hvað þetta er spennandi listgrein en fyrir þeim er hann bara að kasta framtíð sinni á glæ. Skýra mynd af mæðginunum fær lesandi þegar Anna kemur óvænt heim úr sumarbústað og finnur ummerki um gleðskap sem henni gremjast mjög (85 og áfram). Þar sést vel hvað skurnin utan um geðprýði Önnu er þunn.

 

Tveir menn

Ólíkt Önnu er eiginmaðurinn Kristinn heilsteyptur og traustur persónuleiki. Þau Anna eru rétt rúmlega tvítug þegar hún verður ólétt eftir stutt kynni og finnst varla ástæða til að segja honum frá því að hún ætli að fá fóstureyðingu. Lýsingin á því hvernig Kristinn fær hana ofan af því er falleg og gefur innsýn í vænan mann. Mann sem tekur afleiðingum gjörða sinna án þess svo mikið sem að andvarpa, sem huggar og styður (76), sem sýnir konu virðingu og hjálpar henni að taka réttar ákvarðanir án þess að beita þrýstingi, bara rökum (79), sem gerir góðverk án þess að auglýsa það (109–110). Hann „gerir allt fyrir konu sína“, eins og sagt er, og þó að hann taki ekki djarfar ákvarðanir – velji til dæmis pena skyrtukjólinn en ekki rauða sumarkjólinn (111) – er það sannarlega ekki hans sök þótt illa fari.

En þótt Kristinn sé svona gegnumvænn maður eru þau Anna svo ólík að í rauninni hefðu þau ekki átt að eigast. Móðirin hafði rétt fyrir sér með það. Hann kom inn í líf Önnu þegar hún var sem berskjölduðust, rétt eftir föðurmissinn, og hún lét undan rökum hans. Að þessu sögðu bjargaði hann henni sennilega frá sjálfskaða – jafnvel sjálfseyðingu.

Elskhuginn Tómas er alger andstæða Kristins í útliti jafnt sem innræti þótt fjarri fari því að hann sé nokkurt skítmenni. Þegar Anna lýsir Kristni fyrst er hann „í gráum buxum og hvítri skyrtu … þunnt, ljóst hárið eins og geislabaugur um höfuðið“. Þegar hún heimsækir Tómas fyrst er hann „úlfslegur um höfuðið, órakaður með hárið í einni bendu, í snjáðum þungarokksbol …“ (144) Engill og ári? Hann er gríðarlega aðlaðandi, eins og Sigríður lýsir honum, en hið innra er hann eiginhagsmunaseggur, finnst sjálfsagt að hrifsa það sem hann langar í. Það sem skiptir sköpum er að hann hefur ástríðuna sem Kristin vantar. Tómas heitir Adler að eftirnafni; ekki kemur fram að hann sé af erlendum ættum en kannski hefur það sína merkingu að Alfred Adler var austurrískur geðlæknir og brautryðjandi í sálarfræði einstaklingsins og „adler“ er þýska orðið yfir örn.

Tómas er ljósmyndari en hann hefur líka bókmenntalegan áhuga eins og kemur skemmtilega fram í þrefi þeirra elskendanna um ljóðlist. Hann reynir að hugsa myndirnar sínar eins og ljóð: „Að þær sýni eitthvað annað og meira en hlutina sem eru á þeim, ég reyni að afhjúpa fegurðina á bak við efnisheiminn. Það er minn skáldskapur, segir hann.“ (154)

Og þetta, segi ég og lyfti steininum á móti, er minn skáldskapur. Djúpberg úr iðrum jarðar. Gabbró er ljóð fyrir mér, öll sú fagurfræði sem ég þarf. (154–5)

Tómas höfðar til þeirrar hliðar á Önnu sem alltaf hefur verið falin á bak við hið skynsama barn og hina bældu konu. Ef hún hefði átt eðlilega bernsku þyrfti hún síður á Tómasi að halda. Það uppgötvar hún að lokum og sættir sig við þá uppgötvun þótt hún komi of seint.

 

Ástin

Í sögubyrjun hefur staðið yfir skjálftahrina úti fyrir Reykjanesi; það voru kunnuglegar upplýsingar úr veruleikanum þegar bókin kom út. Anna fer í könnunarflug yfir skjálftastöðvarnar fyrsta morgun sögunnar og þar hittir hún Tómas í fyrsta sinn. Hann ætlar að mynda gosið. Eins og gjarnan í klassískum ástarsögum fer hann í taugarnar á henni fyrst en það mun breytast. Óróinn á Reykjanesskaganum fær endurspeglun í óróanum í sinni Önnu sem er ekki fullnægð þótt hún sé í toppstöðu á öllum vígstöðvum, utan sem innan heimilis.

Anna hefur agað sig alla ævi og er alvarlega vannærð tilfinningalega þegar hún hittir Tómas. Enda borðar hún yfir sig. Og Sigríður fullvissar okkur um að honum líði eins. En eru þau ástfangin? „Whatever in love means,“ eins og Bretaprins sagði á frægum blaðamannafundi forðum daga. Eða er þetta heiftarlegt kast af losta? Sigríður sér fyrir tortryggni lesandans á tilfinningar elskendanna og lætur Önnu lesa sér til um „þennan skrítna sjúkdóm“ sem þau Tómas eiga í höggi við (201), ástarbrímann, og lýsa honum af aðdáunarverðri fræðilegri nákvæmni fyrir Tómasi. Anna efast innst inni um einlægni Tómasar – og sjálfrar sín, ef til vill þráir hún einkum að afsanna kenningu móður sinnar um að hún geti ekki elskað. Enda er það ekki þessi tryllta tilfinning  sem léttir bölvuninni af henni. Það gerist þegar hún sannar fyrir sjálfri sér í sögulok að hún geti elskað og hafi elskað. Að móðir hennar hafði á röngu að standa.

 

Jarðvísindamyndmál

Sigríður Hagalín vandar sig við að draga upp myndir af eldunum, þar sameinast skáldið og fréttamaðurinn. Þegar Anna flýgur að neðansjávargosstöðvunum horfir hún „eins og dáleidd á gráan strókinn brjótast upp úr hafinu og inn í bláan himininn, bólstrarnir bólgna og opnast í sífellu, springa út eins og skelfileg blómstur, æxlisvextir úr gufu, gasi og gjósku. Eins og opnað hafi verið fyrir gáttir vítis, illskan streymi óhamin út í sköpunarverkið.“ (45)

Eðlilegt er að Anna beiti jarðfræðimyndmáli þegar hún lýsir atvikum úr lífi sínu, þetta er málið sem hún kann. Besta dæmið um þetta er lýsingin á fæðingum barnanna:

Hugur minn einbeitti sér að því á meðan líkami minn rifnaði í sundur, reiknaði mótstöðu og seigju, hvernig jarðskorpan rís yfir kvikuhólfinu, landið gliðnar og þrýstingurinn eykst, þar til skjálftarnir gefa til kynna að tíminn sé kominn, gosið að hefjast, og kvikan þrýstir sér í gegnum jarðlögin eftir gosrásinni og upp á yfirborðið. Ég hélt dauðahaldi í höndina á manninum mínum, kreisti aftur augun og einbeitti mér að kröftunum undir mér, undir dýnunni og sjúkrarúminu og gólfi sjúkrahússins, ég stefndi niður um kjallarann og grunninn, í gegnum mjúka, þykka moldina, hrjúfa mölina og svo klöppina undir spítalanum, elsku blessað Reykjavíkurgrágrýtið.“ (198)

Og ástin er líka eldur:

      Ó, hvað ég er einföld. Einföld og heimsk og fávís um öflin sem ég stend andspænis, eins og óviti frammi fyrir gereyðingarvopni. Veð áfram, vopnuð barnslegri forvitni og bjartsýni, með fiðring í hjartanu og blik í augunum, ég tek áskoruninni, læt freistast, þigg boðið og heimsæki vinnustofu Tómasar Adler […] Eldar brenna í iðrum jarðar og heimur minn er við það að farast, en ég er grunlaus um hættuna, of upptekin af eigingjarnri ástríðu minni til að hugsa um hana. (158)

Sigríður Hagalín setur sér fyrir stórt og erfitt verkefni í þessari skáldsögu eins og í sínum fyrri bókum. Efnið er ekki eins frumlegt og óvænt og í Eylandi en þótt óleyfilegar ástir séu ekki nýstárlegt söguefni í sjálfum sér er baksviðið sem ástir Önnu og Tómasar fá býsna mikilfenglegt. Persónusköpunin er vönduð og rætur vanda söguhetjunnar ná djúpt. Það fylgir því sönn ánægja að lesa sögu Önnu – þó að maður voni sannarlega að atburðir hennar eigi aldrei eftir að gerast.

 

Silja Aðalsteinsdóttir