Margrét Tryggvadóttir. Sterk.

Reykjavík: Mál og menning 2021. 280 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2022

Sterk

Sterk (2021)

Á síðasta ári hlaut skáldsagan Sterk eftir Margréti Tryggvadóttur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur. Hún hefur síðan aflað sér fleiri viðurkenninga, vakið athygli og umræðu og skyldi engan undra. Bókin fjallar um flókin málefni sem varða okkur öll og gerir það af nærgætni og á sannfærandi hátt. Þetta er bók sem kjörin er til kennslu í efri bekkjum grunnskóla, þar sem hún er bæði spennandi og líkleg til að vekja vitrænar umræður um sjálfsmyndir, þjóðerni, kynhneigð og kyngervi.

Frá upphafi er ljóst að aðalpersónan Birta er trans, og upphafsorð bókarinnar benda til þess að einhver beiti hana grófu ofbeldi þann fyrsta febrúar, svo lesandi rennir ef til vill grun í að hér sé um hatursglæp að ræða. Svo spólar frásögnin aftur í tíma til sjötta janúar og lesandi fylgist hægt og bítandi með atburðarásinni vinda fram að þessum afdrifaríka degi, en ekki er allt sem sýnist. Þegar dagsetningin loks rennur upp verður framvindan svo hröð að erfitt er að leggja bókina frá sér.

Í frásögninni tvinnast saman daglegt líf Birtu, vonir hennar, þrár og sárar minningar úr fyrra lífi, við sívaxandi grunsemdir hennar um að sambýlingar hennar séu fórnarlömb mansals og að dularfullur leigusalinn sé jafnvel ábyrgur. Fyrr en varir er Birta komin í ómögulega stöðu, hætta leynist við hvert fótmál og angar málsins teygja sig svo víða að engin leið er að vita hverjum innan lögreglunnar er treystandi. Þannig er Sterk í senn ungmennasaga og glæpasaga, en jafnframt er hún bók um kyngervi og sjálfsmyndir, um réttinn til að skilgreina sjálf hver við erum – og um leið andstöðu íhaldssams samfélags við þann rétt.

Þar sem Margréti tekst best upp er í persónusköpun Birtu og innri togstreitu hennar: Gagnvart hennar fyrra lífi vestur á fjörðum, heimaslóðum hennar þar sem hún hefur orðið fyrir háði, spotti og óvild fyrir það eitt að vera sú sem hún er, jafnvel af hálfu foreldra sinna. Gagnvart hinum nýja griðastað í Reykjavík sem sömuleiðis verður henni óöruggur. Gagnvart líkama hennar sem er karlmannlegur, skeggrótinni og öðrum líkamshárum sem hún þarf að raka. Gagnvart því hvort skólasystir hennar Jóhanna viti hver hún er, hvort hún geti laðast að henni, hvort hún laðist þá að þessum karlmannlega líkama sem Birta vill losna úr, og allt veldur þetta henni nagandi sjálfsefa.

Ósjálfrátt létti henni að hugsa til þess að hún gæti rakað sig vel og vandlega áður en hún hitti Jóhönnu aftur, sérstaklega ef Jóhanna kæmi aftur til hennar. Á sama tíma þyrmdi yfir hana við tilhugsunina um að vakna aftur við hlið Jóhönnu með nýsprottna skeggrót og brodda um allan líkamann. Það var eins og innan í henni væri oddhvass hlutur sem snerist og særði hana í hvert skipti sem hún hugsaði um Jóhönnu og ferlið sem var fram undan hjá henni sjálfri. Hún vissi nokkurn veginn hvað Jóhönnu fyndist um hana núna, allavega eins og hún var þegar hún hafði haft tíma til að græja sig, en hún gat ekki vitað hvað Jóhönnu myndi finnast um hana eins og hún sjálf vildi verða. (198)

Eintal Birtu við sjálfa sig er að mínu mati veigamesti þáttur bókarinnar, og hvernig kvíði, sjálfsmyndarkrísa og minningar um fyrri auðmýkingu hennar haldast í hönd við að fá hana til að efast sífellt um sjálfa sig og um það hvaða augum aðrir sjá hana. Sér fólk hver hún er, og hvað hugsar það um hana, hvað segir það um hana þegar hún snýr í það baki? Þannig býr Birta við stöðugt óöryggi, jafnt í hinu innra sem ytra lífi.

Eitt er þó minna sannfærandi og það er skerandi andstæðan milli Vestfjarða og Reykjavíkur, því svo virðist sem Birta mæti sama og engum fordómum eða háðsglósum fyrir sunnan. Besta vinkona hennar, Blær, er líka trans og virðist ekki glíma við sambærilega áfallastreitu og Birta, enda hafa foreldrar hennar og allir aðrir sýnt henni vísan stuðning. Ástarsamband Birtu og Jóhönnu gengur snurðulaust fyrir sig ef frá er tekinn kvíði Birtu gagnvart því hvað Jóhanna sjái eiginlega við hana. Allt er eðlilegt í skólanum og pólsku meðleigjendur hennar taka henni með umhyggju. Þannig lítur Reykjavík út eins og paradís við hliðina á heimabyggð Birtu þar sem fordómar og illt umtal grasserar. Þessar andstæður þóttu mér heldur svarthvítar. Að undanteknum skuggalega leigusalanum Magnúsi þá mæta Birtu engir utanaðkomandi erfiðleikar í höfuðborginni.

Textinn er ágætlega skrifaður og Margrét dregur víða fram glettnar líkingar, til dæmis þegar rafhlaupahjólum er líkt við yfirgefna gíraffa (190). Á köflum eru lýsingar þó óþarflega nákvæmar og hægja allverulega á textanum þegar hægt væri að koma sér að efninu og láta lesanda um að fylla í eyðurnar, en þetta er að vísu minniháttar aðfinnsla.

Svo setti hún köttinn niður á gólf, sótti bakpokann og dró upp lasanjað frá kvöldinu áður sem var búið að velkjast um í plastdollu síðan um morguninn. Hún sótti disk í skáp og reyndi að koma matnum eins snyrtilega og hún gat á hann, setti boxið yfir og stakk diskinum inn í örbylgjuofninn. Svo sótti hún skurðarbretti, ostaskera og skásta hnífinn til að skera brauðið. Hún náði líka í diska, hnífapör og glös og lagði á borð fyrir þær tvær. (193)

Ég beið lengi eftir að kötturinn á listilega hannaðri kápu Höllu Siggu skyti upp kollinum og varð ekki fyrir vonbrigðum. Þar lætur Margrét hendingu ráða framvindu sögunnar og kötturinn reynist gegna lykilhlutverki í atburðarásinni, og hvað örlög hans snertir sýnir höfundur að hún er óhrædd við að taka gróteska en rétta ákvörðun – segi ég þótt kattelskur sé. Óhugnaðurinn sem fylgir þótti mér æði raunverulegur og þar dregur höfundur ekkert af sér. Táknrænt er að alla bókina lokast dyr smám saman í kringum Birtu, og þegar allar dyr eru lokaðar undir lok sögu, þá er engin leið út nema að brjóta vegg. Þótt gatan Miðholt sé ekki til þá á hún sér raunverulega fyrirmynd sem ég mun líta aðeins öðrum augum í framtíðinni, og sömuleiðis hornhúsið niðurnídda í Brautarholti. Allt verður þetta ljóslifandi þeim sem er staðkunnugur og hægur leikur væri fyrir kennara að leiða nemendur um söguslóðir bókarinnar, þar sem helstu atburðir eiga sér stað á afmörkuðu svæði frá Rauðarárholti til Skólavörðuholts.

Bókinni fylgir stuttur eftirmáli sem hvetur lesendur til að kynna sér hinsegin málefni enn frekar á vefnum Hinsegin frá Ö til A sem er vel til fundið og ýtir enn frekar undir þá skoðun mína að bókin sé kjörin til kennslu á unglingastigi.

Eitt verður þrátt fyrir allt að viðurkenna, að eins óhjákvæmilegt og það er fyrir rithöfund að fjalla um reynsluheim sem honum er framandi, þá er erfitt fyrir sískynja að fjalla um hinsegin málefni — og ekki mitt að dæma hversu vel hefur til tekist. Einhverjum kynni jafnvel að þykja það lítt við hæfi þar sem reynsluheimur trans fólks er einstakur og erfitt að setja sig í spor þess. Að því sögðu kemur fram í eftirmála að Margrét naut ráðlegginga frá trans einstaklingum og er það til fyrirmyndar. Þá verður ekki deilt um að þetta er mikilvægur málaflokkur sem nauðsynlegt er að setja á oddinn í menningarefni ætluðu börnum og ungmennum, já og fullorðnum líka. Ekki veitir okkur af innsýn og uppfræðslu. Reykjavík er því miður ekki nándar nærri eins laus við dómhörku og hún virkar í bókinni. Af tvennu umdeilanlegu þykir mér sá kostur vænni að höfundar fjalli um hinsegin málefni sé það gert af virðingu og nærgætni, líkt og mér finnst Margrét Tryggvadóttir gera í Sterk, frekar en að skrifa aðeins um eigin reynsluheim og láta fyrir vikið eins og trans fólk sé ekki til. Vandamálið er einmitt að þar til nýlega átti trans fólk sér varla stað í íslenskum bókmenntum. Ég bæði trúi því og vona að það sé smám saman að breytast.

Sterk eftir Margréti Tryggvadóttur þykir mér, með öllum nefndum fyrirvörum, takast vel til að búa til heilsteypta og fallega, örlítið brotna en þó sterka, persónu úr Birtu. Aðrar persónur eru minna mótaðar en það er kannski sök sér því fyrst og síðast er þetta bókin um Birtu, og vonandi verður hún öðrum ungum Birtum hvatning á komandi árum. Samfélagið er að opnast meir en áður og breytast og bókmenntirnar með. Mér þykir það góð breyting. Og Sterk þykir mér góð bók.

 

Arngrímur Vídalín