Gyrdir Smáprósar

Gyrðir Elíasson: Pensilskrift: Smáprósar I og Þöglu myndirnar: Smáprósar II.

Dimma, 2022, 267/271 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2023

 

 

Gyrðir Elíasson er fyrir löngu orðinn þjóðþekktur fyrir verk sín sem samanstanda af ljóðabókum, skáldsögum og smásagnasöfnum og nú hefur bæst í safnið smásagnaprósasafn í tveimur bindum: Þöglu myndirnar og Pensilskrift. Safnið geymir 377 prósa og eins og gera má ráð fyrir í verki eftir Gyrði úir þar og grúir af dularfullum persónum og atburðum sem á stundum eru dularfullir og jafnvel annarlegir. Prósarnir eru mislangir, allt frá þremur línum upp í rúma blaðsíðu, og einstaka prósar kallast á innan og á milli bóka. Má þar sem dæmi taka „Lestur I og 2“ í Þöglu myndunum og „Lestur II“ í Pensilskrift. Þessir þrír textar draga upp myndir af fólki sem dundar sér við lestur og eru á yfirborðinu kyrrlátar en undir niðri er ólga sem dregur fram ákveðið öryggisleysi og/eða einmanaleika. Í einum textanum situr maður einn úti á palli og les en verður síðan að fara inn þegar fer að rigna. Í sömu mund verður honum litið til himins og sýnist sjá andliti bregða fyrir á milli skýja. Þá fer um hann viss ónotakennd sem hann hristir af sér „og gengur inn í húsið, sem er fullt af flugum, dauðum og lifandi.“ (P161) Eini félagsskapurinn sem maðurinn hefur eru flugur, sem sumar eru dauðar, sem gæti endurspeglað návist dauðans í lífi þessa einmana manns.

Hin hárfína lína milli lífs og dauða birtist víða, stundum í því ósagða, til dæmis í „Fregn“ úr Þöglu myndunum en þar fær sögumaður upphringingu sem tekur verulega á. Hver fregnin er fær lesandi ekki að vita en hún verður til þess að sögumaður hendir símanum út í á. Það breytir þó engu – orðin hafa verið sögð og lífið verður aldrei eins og áður. (205) Í öðrum sögum er návist dauðans áþreifanlegri og stundum grátbrosleg, eins og glöggt má sjá í sögunni „Maður á blautu glerþaki“. Maður nokkur tekur þá vafasömu ákvörðun að kítta í þakið á sólstofunni sinni í grenjandi rigningu með þeim afleiðingum að hann steypist fram af, fær heilmikið högg á höfuðið, staulast inn og deyr. (Þ 71–72)

Í Pensilskrift er keimlík saga um mann sem fer að laga sólstofuþakið í rigningu en það kann greinilega ekki góðri lukku að stýra því hann týnir einnig lífinu við þá iðju! (71) Háskinn í umferðinni fær sitt pláss í áhrifaríkum og sterkum textum á borð við „Árekstur“ og „Vaknað“ úr Þöglu myndunum. Í síðarnefnda textanum hefur ökumaður lagt úti í vegkanti til að hvíla sig en verður vitni að banaslysi þegar tveir bílar skella saman í beygju á veginum. Sú sýn fylgir honum alla tíð. Og kona verður viðskila við mann sinn, hugsanlega að eilífu, þegar veitingavagninn sem hún er stödd í slitnar aftan úr lest. (Þ 84) Bilið milli feigs og ófeigs er alltaf stutt, eins og segir annars staðar í öðrum texta.

Hversdagslegt amstur er viðfangsefni margra texta. Lýst er alls kyns ferðalögum um landið og sögusviðið er vandlega tilgreint með örnefnum. Staldrað er við, ýmist til þess að hugsa eða skoða landslagið, og oftast eru persónur einar á ferð. Ef ferðafélagi er viðstaddur er oft lítið um orð eða samræður innihaldslitlar, sem undirstrikar tengslaleysi persóna við heiminn og sjálfar sig. Fólk óttast slæmar fréttir og svarar þess vegna ekki í síma heldur þjáist eitt í þögn og einsemd, líkt og í sögunni „Vetur“ í Þöglu myndunum. Og æpandi einveran sem víða er lýst kristallast í ljóði sem heitir einmitt „Einsemd“ úr Pensilskrift:

Á daginn sat ég við gluggann og horfði út, niður á túnin sem voru djúpgræn af sífelldri vætunni. Það rigndi á hverjum einasta degi, allan daginn. Ég fór ekkert út, sat bara þarna við borðið og hugsaði um allt það sem ég hafði ekki gert í lífinu og ætlaði að gera, en líka það sem ég hafði gert og hafði ekki ætlað að gera. Enginn kom að hitta mig, og það var allt í lagi. (50)

Óhugnaður á það til að lauma sér inn í formi launfyndni, eins og í prósanum „Matarhefðir“ en þar segir af heimilisföður „sem hafði einhverntíma lesið að Frakkar sætu við matborðið í þrjá tíma með fjölskyldunni, og fékk þá hugmynd að svona vildi hann hafa það líka. (Þ 134–135) Hann kemur þessari hefð á og heldur henni árum saman þó að börnin reyni að malda í móinn. Allir verða að sitja við matborðið frá klukkan sex til níu hvað sem tautar og raular, og faðirinn hvetur syni sína til þess að fá sér vatnsblandað rauðvín við litla hrifningu þeirra. Sagan er vissulega fyndin en miskunnarlaust heimildisofbeldi er um leið afhjúpað. Sama er upp á teningnum í sögunni „Hreinsun“ úr Pensilskrift en þar segir frá alræmdum handrukkara sem flytur á Voga á Vatnsleysuströnd, ákveðinn í að byrja nýtt líf. Hann er staðráðinn í að uppræta allan óþverra úr bænum og fyrr en varir fara gárungarnir að kalla ströndina Hassleysuströnd. En svo hverfur þessi ágæti maður aftur til fyrri starfa þar sem „hnéskeljar og borvélar komu stundum við sögu“. (77–78) Talandi um óþægindi; þau gera vissulega vart við sig við lestur prósans „Liðnir dagar“:

Upptökuheimilið niðri á sjávarbakkanum, nokkur vindbarin tré í kring og hvít girðing, fáeinir hestar á beit í túnfætinum. Engan var að sjá umhverfis húsið, en okkur fannst við sjá andlitum bregða fyrir á glugga efri hæðar. „Hér held ég sé ekki gott að vera,“ sagðir þú og hrylltir þig. Ég sagði þér ekki að hér hefði ég einmitt verið – ég sagði þér ekki ástæðuna fyrir því að hér hafði ég stöðvað bílinn. Og svo ókum við af stað. (Þ 32)

Önnur gráglettin saga með þungum undirtón er „Nostalgía“ úr Pensilskrift. Hún hefst á hugleiðingum fullorðins manns sem sendur var í sveit sem barn og unglingur. Þar var honum þrælað út eins og tíðkaðist á árum áður, fékk lítið að borða og grét sig í svefn á kvöldin. „En löngu síðar, þegar hann var orðinn fullorðinn maður, fannst honum stundum að þetta hefði verið besti tími ævinnar.“ (143) Kaldhæðnin er undirstrikuð með því að á hverju sumri ekur hann með fjölskyldu sína að þessu býli sem komið er í eyði. Þar situr fjölskyldan drykklanga stund uns eitt barnið spyr hvort það hefði verið gaman þarna. „Ógleymanlegt,“ svarar pabbinn, „algjörlega ógleymanlegt.“ Reyndar verður lesandi að ráða í þá gátu hvort harðræðið sé ógleymanlegt eða hvort minningarnar eru að svíkja manninn!

Samtíminn birtist í nokkrum textum, minnst er á brunann í Notre-Dame og Kóvíd fær sinn skammt í sögunni „Ásjónur“ úr Þöglu myndunum (203– 204). Þar segir af ógnvænlegum keisara, Kóvíð XIX, sem lætur þá skipun út ganga að nú skuli allir hylja ásjónur sínar og enginn þorir að mótmæla því. En þegar einvaldurinn fellur frá fellur tilskipunin úr gildi og allir anda léttar, nema náttúran. Nú hanga grímur í öllum trjám þrátt fyrir öll umhverfismarkmið og í því felst ádeilan. Málefni metoo-byltingarinnar eru tekin fyrir í „Dúkkuheimilinu“ og „Gaslýsingu“ (Þ 65 og 193–4), snjöllum og sterkum sögum þar sem tilfinningin fyrir ófrelsi og innilokun er áþreifanleg.

Í textum Gyrðis Elíassonar renna hversdagsleiki og furðuhlutir saman eins og ekkert sé eðlilegra, andrúmsloftið er á köflum afslappað þrátt fyrir kynlegan undirtón í sögum sem stundum svipar til þjóðsagna. Og eins og oft hjá Gyrði fara draugar á flakk en í þessu sagnasafni fylgir þeim ákveðin ógn, sögupersónur vita af þeim á sveimi en vilja síst af öllu mæta þeim. Undirliggjandi ógn skilar sér vel í sögunni „Dyrnar“ úr Þöglu myndunum. Sögumaður kemur við í Herdísarvík þar sem vinur hans dvelur í húsi Einars Benediktssonar. Það er blíðskaparveður svo þeir félagar fara í göngutúr en skilja dyrnar eftir opnar. Þegar þeir koma til baka bregður svo við að dyrnar eru ekki einungis lokaðar heldur harðlæstar. Vinurinn kippir sér ekki upp við það og skríður inn um glugga en sögumanni er um og ó, hann hafnar boði um gistingu og forðast staðinn æ síðan. Höfundur dregur upp skýrar andstæður á milli kyrrðarinnar sem ríkir þegar vinirnir rölta um í logninu og síðan óróans sem skapast í huga sögumanns þegar hann kemur að læstum dyrum. Andstæður sem þessar birtast hvarvetna í verkinu; ást og missir, sorg og gleði, ást og ástleysi, kyrrð og rótleysi, tilgangur og tilgangsleysi.

Textarnir eru oft glettnir þó að alltaf glitti í alvöruna en töfrar sagnanna eru ekki síst fólgnir í stílnum sem er eins og vel bruggaður seiður, kristalstær og ferskur. Og leiftrandi frásagnargleði sögumanns ríkir ofar öllu í þessu margslungna prósasafni sem hér hefur aðeins verið tæpt á.

Sigríður Albertsdóttir