Guðni Th. Jóhannesson. Gunnar Thoroddsen – ævisaga.

JPV útgáfa, 2010.

Úr Tímaritit Máls og menningar 3. hefti 2011

Gunnar Thoroddsen – ævisagaSumarið 1980, voru enn hveitibrauðsdagar ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens. Stjórnin var mynduð í febrúar sama ár og naut í fyrstu slíkra vinsælda í skoðanakönnunum að fátítt mátti heita í lýðræðisríki. Stjórnin naut meira að segja stuðnings meirihluta kjósenda Sjálfstæðisflokksins, sem átti þó að heita helsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Þótt skoðanakannanir, samkvæmt ströngum vinnubrögðum félagsvísinda, hafi verið skammt á veg komnar í byrjun níunda áratugarins (a.m.k. eins og þær voru iðkaðar af reykvísku síðdegisblöðunum), leiddu þær í ljós að stjórn Gunnars Thoroddsens naut býsna mikils fylgis allan starfstíma sinn.

Þessi stuðningur kemur yfirleitt ungum sagnfræði- og stjórnmálafræðinemum í opna skjöldu. Gamlir andstæðingar stjórnarinnar – og þá ekki síst fylgismenn Geirs Hallgrímssonar í innanflokkserjum Sjálfstæðismanna – hafa verið mun iðnari við að semja eftirmæli hennar en gömlu stuðningsmennirnir. Sú hugmynd að Ísland hafi verið í rjúkandi rúst frá 1980 til 1983 ætti því ekki að koma á óvart.

Í ágúst 1980 voru slíkar vangaveltur fjarri lagi. Dr. Gunnar var með öll tromp á hendi, í þeirri sérkennilegu aðstöðu að gegna embætti forsætisráðherra í fullum fjandskap við formann síns eigin stjórnmálaflokks. Staða Geirs Hallgrímssonar var svo veik að stuðningsmenn Gunnars ræddu það opinberlega hvort réttara myndi að Geir viki eða hvort huga ætti að stofnun nýs stjórnmálaflokks utan um forsætisráðherrann.

Skátar hjóla í templara

Ágúst 1980 markaði líka upphaf að útgáfu nýs tímarits á Íslandi. Skátahreyfingin og Frjálst framtak hófu útgáfu barnablaðsins ABC. Fyrsta heftið kostaði 1.660 krónur og hafði að geyma uppljóstranir hins hviklynda stjórnarþingmanns Guðrúnar Helgadóttur um ný ævintýri Jóns Odds og Jóns Bjarna. Þegar kom að útgáfu jólaheftisins (sem nefndist reyndar ABCD vegna skammvinnrar vörumerkjadeilu við auglýsingastofuna ABC) var verðið komið upp í 1.990 krónur. Hækkunin er gott dæmi um óðaverðbólgu þessara ára, sem stjórninni tókst aldrei að koma böndum á og hefur litað minningu hennar æ síðan.

ABC var hvorki byltingarblað í formi né efnistökum. Það var þó óneitanlega ívið nútímalegra en keppinauturinn Æskan, sem Stórstúka Íslands hafði gefið út frá árinu 1897 og var þakin heilræðum neðanmáls: „Drekkið aldrei fyrsta staupið“ og „Munið að læra lexíurnar ykkar fyrir skólann“. Tromp beggja blaðanna voru litprentuðu teiknimyndasögurnar. Stolt Æskunnar var norski hrakfallabálkurinn Smørbukk eða „Bjössi bolla“ (sem þótti offitusjúklingur á sínum tíma, en teldist líklega meðalmaður í dag).

Hið framsækna ABC birti hins vegar (í rangri og tilviljanakenndri tímaröð) söguna um Kalla í knattspyrnu eða Billy’s Boots. Sagan segir frá Kalla, eða munaðarleysingjanum Billy Dane, sem verður knattspyrnusnillingur í hvert sinn sem hann reimar á sig knattspyrnustígvél gamla miðframherjans „Dead-Shot“ Keen. Þrátt fyrir mikilvægi skónna, tekst Kalla furðuoft að glata þeim á ögurstundu og reynir þá á snarræði greiðvikinna húsvarða eða snjallra skóara.

Fótboltastrákarnir

Kalli í knattspyrnu er hluti af rótgróinni bókmenntagrein: strákafótboltabókum. Slíkar sögur eru öskubuskuævintýri um persónur sem keppa að tilteknu markmiði, hvort sem það er að leika fyrir landsliðið, verða atvinnumenn í knattspyrnu eða bara skora sigurmarkið á héraðsskólamótinu og vera borinn útaf í gullstól. Oftar en ekki þarf söguhetjan að yfirvinna fötlun, fordóma eða ættleysi sitt og leiðin að lokasigrinum er mörkuð af ótal smáorrustum með dramatík sem takmarkast þó af mörkum hins raunhæfa í knattspyrnuleikjum táningaliða.

Ævisaga Gunnars Thoroddsens eftir Guðna Th. Jóhannesson er að sumu leyti strákafótboltabók. Hún er saga keppnismanns í stjórnmálum, sem nýtur sín best þegar komið er út í kosningar, prófkjör eða við að smala á landsfundi. Embættin og vegtyllurnar eru bikararnir og medalíurnar. Best er að verða landsliðsfyrirliði á Bessastöðum, næstbest að hampa Íslandsmeistaratitlinum nokkur ár í röð – sem forsætisráðherra.

Áhugamaðurinn um íslenska stjórnmálasögu drekkur í sig frásögnina af pólitískum væringum, en áttar sig á því eftir miðja bók að hún fjallar fyrst og fremst um kosningar. Þá er Gunnar bestur. Á milli þeirra tekur svo við eirðarlaus biðin eftir næstu rimmu, álíka tilgangslaus og myndarammarnir sem sýndu Kalla knattspyrnukappa sendast fyrir ömmu sína eða stunda heimanámið.

Gunnar Thoroddsen er borgarstjóri í Reykjavík um tólf ára skeið og almennur borgarfulltrúi nokkru lengur. Á þeim tíma eru stórar ákvarðanir teknar sem varða þróun og uppbyggingu höfuðstaðarins, ekki hvað síst í orkumálum þar sem ráðist er í stórvirkjanir í Sogi og stórfellda hitaveituvæðingu. Lesandi bókarinnar fær þó aldrei á tilfinninguna að þróun mála hefði orðið með verulega ólíkum hætti þótt Gunnars hefði ekki notið við eða jafnvel þótt aðrir flokkar hefðu verið við stjórnvölinn.

Þannig þarf lesandinn að halda vel einbeitingunni til að fylgjast með hvort hægri- eða vinstristjórnir eru við völd í þinginu eftir því sem sögunni vindur áfram. Hitamál eins og hersetan eða uppbygging stóriðju sigla áreynslulítið framhjá, meðan Gunnar býr sig undir næsta kosningaslag í héraði.

Sókn í stöðutákn

Einhver kynni að freistast til að kenna sagnaritaranum um þessar áherslur – að gamli íþróttafréttaritarinn og Stjörnumaðurinn úr Garðabænum hafi látið boltablætið hlaupa með sig í gönur. Einföld upprifjun á stjórnmálaferli Gunnars Thoroddsens bendir hins vegar til að svo sé ekki. Gunnar var einfaldlega stjórnmálamaður sem var að mestu leyti drifinn áfram af kappinu sem fylgdi kosningabaráttu og metorðagirnd, sem stundum gat tekið á sig skrítnar myndir. Þannig er merkilegt að sjá hvernig Gunnar lét sér það lynda sem fjármálaráðherra í Viðreisnarstjórninni að vera settur á hliðarlínuna þegar kom að hinum stórfelldu breytingum á íslensku efnahagslífi sem sú stjórn knúði í gegn.

Gunnar var sjálfur meðvitaður um ímynd sína sem hugsjónalítils stjórnmálamanns. Í metsöluviðtalsbók Ólafs Ragnarssonar við Gunnar frá árinu 1981, leggur landsfaðirinn mikla áherslu á að breyta þeirri mynd. Þannig hefst bókin á langri umfjöllun um ræðu Gunnars á norrænu stúdentamóti árið 1935, þar sem kallað var eftir fullum sambandsslitum Íslands og Danmerkur. Að mati Gunnars markaði ræðan þáttaskil í baráttunni fyrir stofnun íslensks lýðveldis. Ekki hafa þó allir tekið undir þá kenningu.

Bikaraskápur fótboltastráksins Gunnars er glæsilegur: yngstur allra sem kjörnir hafa verið á Alþingi, borgarstjóri, þingmaður, ráðherra, lagaprófessor og sendiherra. Gunnar hugsar þó sífellt um að bæta ferilskránna enn frekar. Þannig er kostulegt að lesa frásögnina af því þegar hann felur undirmanni í forsætisráðuneytinu að taka saman lista yfir forsætisráðherra sem skammlífastir hafa orðið í embætti og merkir við eftir því sem stjórnin þraukar lengur og hann þokast sjálfur niður listann.

Hégómleiki dr. Gunnars er löngu kunnur. Saga þess efnis hefur lengi verið höfð í flimtingum í fjölskyldu greinarhöfundar. Afi heitinn, Haraldur Steinþórsson, var frá táningsaldri virkur félagi í Sósíalistaflokknum og gegndi meðal annars formennsku í Æskulýðsfylkingunni. Eftir bæjarstjórnarkosningarnar 1946 var hann skipaður fulltrúi sósíalista í stjórn Íþróttavallar Reykjavíkur, Melavallarins – sem Gunnar stýrði um árabil. Afi, sem þá var að spreyta sig við lögfræðina í Háskólanum (þótt stjórnmálavafstrið ætti eftir að taka allan tímann frá lexíunum) varð afar spenntur, enda kominn í sitt fyrsta pólitíska embætti fyrir hönd flokksins.

Gunnari var hins vegar ekki skemmt. Prófessorinn í lagadeildinni gat ekki hugsað sér að sitja á jafnréttisgrundvelli í nefnd með nemanda sínum – og það kommúnista – jafnvel þótt aðeins væri um að ræða stjórn íþróttavallar. Viðbrögð hans voru einföld: stjórnin var ekki kölluð saman. Það var ekki fyrr en rúmlega ári seinna, eftir að flokkurinn var búinn að senda afa til Ísafjarðar til að gerast oddviti sósíalista fyrir vestan að hægt var að funda um viðhald á sturtuklefum og lagfæringar á miðasölunni. (Þessa sögu vantar tilfinnanlega í 650 síðna doðrantinn, en ég treysti á að úr því verði bætt í kiljuútgáfunni.)

Horft í eigin barm

Það merkilega er, hversu meðvitaður Gunnar Thoroddsen er um eigin hégómleika og getur jafnvel gantast með hann sjálfur. Við sagnritunina hafði Guðni Th. Jóhannesson úr að moða fjölda persónulegra heimilda úr fórum Gunnars, þar á meðal dagbækur og ókjörin öll af minnisblöðum og smásneplum um allt milli himins og jarðar. Sá Gunnar sem þar birtist er ekki á stalli, heldur persónulegur og sjálfsgagnrýninn. Þessi hlið gerir það líka að verkum að aðalpersónan öðlast samúð lesandans í stað þess að vera gjörsamlega óþolandi.

Eins og fram hefur komið, þarf aðalsögupersóna í fótboltastrákabók að ryðja úr vegi hindrunum: meðfæddum eða í umhverfi sínu. Afburðanemandinn og landsverkfræðingssonurinn Gunnar er ekki ýkja trúverðugur í því hlutverki. Gunnar er kominn af valdafólki og frá upphafi nánast sjálfkjörinn til forystuhlutverks. Það er því merkilegt að sjá hvernig honum tekst ítrekað að upplifa sig nánast sem utangarðsmann og að ímynda sér feril sinn markaðan af andstöðu og undirferli öfundarmanna.

Þessi sjálfsmynd kallaði óneitanlega á valkvætt minni stjórnmálaforingjans. Þannig álítur Gunnar það svívirðu þegar Framsóknarmenn beita valdi sínu til að tryggja sínum manni stöðu við lagadeild Háskólans, en telur síðar sjálfsagt réttlætismál að Sjálfstæðisflokkurinn veiti sér bankastjórastöðu. Skjótur stjórnmálaframi Gunnars á þrítugsaldri verður heldur ekki skýrður nema með því að Ólafur Thors og aðrir forystumenn flokksins hafi haft tröllatrú á honum.

Ólafur leyfir Gunnari að freista þess að endurvekja Nýsköpunarstjórnina árið 1949 undir sinni stjórn. Fáeinum misserum eftir að formaður Sjálfstæðisflokksins er fús til að láta Gunnari í té forsætisráðherrastólinn hefur orðið fullur trúnaðarbrestur þeirra á milli.

Vík milli vina

Frá sjónarhorni marxistans, sem vill leita stórra efnahagslegra skýringa á framrás sögunnar í stóru jafnt sem smáu, er það nánast óþolandi að þurfa að skýra flokkadrætti sem mótuðu íslenska pólitík um áratugi með særðu stolti og illskiljanlegri kergju milli manna. Undan því verður þó ekki komist. Stuðningur Gunnars við Ásgeir tengdaföður sinn í forsetakosningunum 1952 var aldrei fyrirgefinn. Líkt og aðrir þeir sem fjallað hafa um þessar afdrifaríku kosningar, á Guðni bágt með að skýra einþykkni Ólafs Thors og ofsafengin viðbrögð hans við því að Gunnar hafi tekið fjölskyldutengslin fram yfir flokkslínuna.

Í þessu máli er samúð Guðna með söguhetju sinni augljós og skiljanleg. Hann leggur ríka áherslu á að Gunnar hafi komið eins hreint og heiðarlega fram og honum var unnt. Samkvæmt því bar Ólafur Thors höfuðábyrgð á klúðrinu, með því að draga úr hömlu að taka ákvarðanir um hvort og hvern flokkurinn skyldi styðja. Skemmtilegt er að lesa saman umfjöllun Guðna um aðdraganda forsetakjörsins annars vegar, en Matthíasar Johannesen hins vegar í helgimyndarævisögu hans um Ólaf Thors.

Eitt af því sem hinar opinskáu dagbókafærslur víkja að, er neysla Gunnars á áfengi. Ofneysla ýmissa íslenskra stjórnmálamanna á víni um miðbik tuttugustu aldar er þekkt fyrirbæri, sem þó hefur lítið verið fjallað um í ævisögum. Gunnar er ekki eini pólitíkus þessara ára sem sjá má á myndum þreytulegan með sólgleraugu innan dyra við ýmis tilefni. Að þessu leyti brýtur umfjöllun bókarinnar um drykkjuskap leiðtogans blað, þótt af henni megi raunar helst ráða að áfengisneyslan hafi fremur verið Gunnari til persónulegs ama en að hún hafi komið niður á störfum hans.

Kjaftasögur um drykkjuskap sköðuðu stjórnmálamenn af kynslóð Gunnars Thoroddsens ekki svo mjög. Slíkt þótti nánast tilheyra á karlavinnustaðnum Alþingi. Verra þótti Gunnari að sitja undir sögum um meintan stuðning sinn við Þýskaland nasismans á árunum fyrir stríð. Umfjöllun bókarhöfundar um nasistadaður ungra Sjálfstæðismanna á fjórða áratugnum er afar áhugaverð. Sérstaklega er athyglisvert að sjá hversu sjálfsagt flokksforystunni þótti að horfa til Þýskalands til fyrirmyndar um skipulag og áróðurstækni, s.s. með búningaklæddu fánaliði.

Uppgjörið við frjálshyggjuna

Líklega hafa þó allmargir stjórnmálaáhugamenn flett hratt í gegnum kaflana um fyrri hluta síðustu aldar, til að komast sem fyrst að „djúsí“ efninu: valdabaráttu Gunnars og Geirs, sem náði hámarki með myndun ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Alþýðubandalags og Gunnarsmanna árið 1980.

Fyrrum pólitískir samherjar Gunnars vönduðu honum ekki kveðjurnar vegna hinna meintu svika, sem þeir töldu einvörðungu sprottin af persónulegum metnaði eða hefndarþorsta. Í bókinni rekur Guðni hins vegar ágætlega hugmyndafræðilegan ágreining sem var að myndast innan Sjálfstæðisflokksins í tíð hinnar lítt farsælu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 1974 til 1978 og tengdist tilraunum yngri manna í forystusveitinni til að teyma flokkinn til hægri. Umfjöllun um ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens hefur til þessa að miklu leyti snúist um óðaverðbólguna og misheppnaðar tilraunir til að ráða niðurlögum hennar.

Fyrir vikið hafa ýmis önnur viðfangsefni stjórnarinnar fallið í skuggann, svo sem margvíslegar breytingar og umbætur á sviði félagsmála. Hér er að nokkru leyti við Gunnar sjálfan að sakast. Á lokaspretti ævilangrar minnisvarðasmíðar fataðist leiðtoganum flugið, hann gældi of lengi við óraunhæfar hugmyndir um framboð og stofnun nýrrar stjórnmálahreyfingar fyrir kosningarnar 1983, þá kominn vel á áttræðisaldur og farinn að heilsu. Þá brást draumur hans um að ná að sigla í höfn endurskoðun stjórnarskrárinnar, þótt ýmsar af hugmyndum hans hafi um síðir náð fram að ganga.

Í umfjöllun sinni um ævisögu Gunnars Thoroddsens í tímaritinu Sögu, skiptir Sverrir Jakobsson íslenskum stjórnmálaleiðtogum upp í tvo meginhópa: þá sem höfðu hugmyndafræðileg áhrif þrátt fyrir að sitja stutt á valdastólum og hina, sem verða fremur metnir á grunni þess hversu þaulsetnir þeir voru í embættum. Seinni hópurinn, sá með bikarasafnið, státar af mörgum slyngum pólitíkusum og er Gunnar einn þeirra flinkustu. Upp í hugann kemur textabrot eftir Hinrik Bjarnason, sem reyndar var ort um allt annað og öðruvísi ólíkindatól: „Galdrar voru geymdir í gömlu skónum hans …“

 

Stefán Pálsson