Einar Kárason. Ofsi.

Mál og menning, Reykjavík. 2008.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2009.

 

OfsiFrásögnin af Flugumýrarbrennu í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar er vafalaust ein áhrifamesta frásögn Sturlungu. Sturla undirbýr lýsinguna af brennunni af útsjónarsemi og listfengi hins mikla sögumanns. Hann raðar upp svipmyndum af sáttargjörð sinni og Gissurar Þorvaldssonar, fyrirboðum og beyg og kaldri frýju Þuríðar Sturludóttur sem rekur mann sinn Eyjólf ofsa út í hina hörmulegu brennuför. Hann dregur upp mynd af ríkmannlegri brúðkaupsveislu Halls Gissurarsonar og Ingibjargar dóttur sinnar á Flugumýri sem snýst upp í ómælanlegan harmleik um leið og gestir hverfa á braut. Lýsingin á brennunni sjálfri er slík snilldarfrásögn að vart er hægt að hugsa sér að skýra megi frá hryllingi og grimmd með viðlíka stillingu í stíl og nákvæmni í sviðsetningum. Við finnum hitann á okkar eigin skinni og getum vart dregið andann í reykjarkófinu með fólkinu á bænum. Þegar öllu virðist lokið beinir Sturla auga frásagnarinnar að Gissuri sem einn lifir í rústum bæjarins. Gissuri er lýst nánast með orðum hans sjálfs þar sem hann leynist í útihúsi í frostkaldri sýrunni. Hann sleppur inn í kirkju hrollkaldur og hrakinn á sál og líkama og er snúið til lífs af Hallfríði garðafylju. Hápunkturinn er þó enn eftir er hann lítur líkamsleifar sonar síns og Gróu konu sinnar og menn sjá hagl stökkva úr augum hans. Hefndarinnar var ekki langt að bíða.

Hvernig er hægt að gera þessu efni betur skil í skáldsögu? Er einhverju við frásögn Íslendingasögu að bæta? Verðum við einhvers vísari þó að við setjum frásögnina í nútímalegri orð? Getur rithöfundur á 21. öld bætt einhverjum dráttum við mynd manns sem lifði atburðina sjálfur? Frásögn Sturlu eru vitaskuld ýmsar skorður settar. Hann leyfir sér ekki að ólíkar persónur segi hug sinn með beinum hætti, þó að hann kunni ýmsar útsmognar aðferðir til að afhjúpa hugsanir og hvatir persónanna. Íslendingasaga er ekki skáldsaga eins og Ofsi Einars Kárasonar, en engu að síður er hún bókmenntaverk sem lýtur eigin frásagnarlögmálum, enda dregur Sturla hvergi dul á hverjum augum hann lítur atburði aldar sinnar. Það gerir Einar Kárason ekki heldur, en sjö hundruð og fimmtíu árum eftir atburðina getur hann tekið sér rýmra skáldaleyfi en Sturla sem skrifaði fyrir menn sem þekktu atburðina sjálfir, eins og Hrafn Oddsson sem leikur stórt hlutverk í Íslendingasögu og Ofsa, og lifði Sturlu sagnaritara. Í Íslendingasögu er Sturla eini sögumaðurinn, þó að fleiri raddir heyrist vissulega í ræðu og kveðskap, en í Ofsa ganga margar ólíkar persónur fram á sviðið, háar sem lágar, og opna hug sinn, lýsa tilfinningum og skoðunum. Einar Kárason rýnir af miklu næmi inn í kviku persónanna og rekur rætur grimmdarverksins á Flugumýri til skaplyndis og geðslags þeirrar persónu sem safnaði liði gegn Gissuri og saga Einars ber nafn sitt af. Ofsi geymir safaríka og margslungna lýsingu á þeim atburðum sem urðu á Íslandi árin 1252–3.

Það er snilld Einars að ramma frásögnina af Flugumýrarbrennu með Eyjólfi ofsa Þorsteinssyni frá Hvammi í Vatnsdal. Eyjólfur var ekki í hópi mestu höfðingja á Íslandi á Sturlungaöld en gekk þó um tíma næstur Þórði kakala og átti laungetna dóttur Sturlu Sighvatssonar, Þuríði Sturludóttur. Hvers vegna gekk Eyjólfur gegn langþráðum sáttum Sturlunga og Gissurar? Sturla skýrir brenniför Eyjólfs með því að Þuríður kona hans hafi eggjað hann til voðaverksins að hætti kvenna Íslendingasagna. Sú söguskýring er einföldun á flókinni pólitískri atburðarás en sýnir engu að síður hvernig frásagnarháttur Sturlu er steyptur í mót Íslendingasagna, ekki síst á þeim stöðum í frásögninni þegar mikið liggur við. Einar Kárason leitar hins vegar skýringarinnar í skapbrestum Eyjólfs og geðsveiflum sem slævðu dómgreind hans og sjálfsöryggi og teymdu hann loks út í ógæfuna. Ofsi fjallar ekki aðeins um brennuna, þó að sú frásögn sé vissulega hápunktur sögunnar, heldur afhjúpar skáldsagan mannlega veikleika og bresti, miskunnarleysi og minnimáttarkennd og þau takmörk sem verkum mannanna eru sett.

Uppbygging Ofsa er markviss. Skipta má skáldsögunni í sex hluta: inngangskafla í fimm köflum, fjóra meginhluta og þriggja kafla eftirmála eftir brennuna. Partarnir sex eru greindir í sundir með fimm innskotum, tíðindagrein úr uppdiktuðum Hegranessannál frá árinu 1253 og fjórum fréttabréfum Heinreks Hólabiskups til Hákonar gamla Noregskonungs. Innskotin eru mjög vel heppnað frásagnarbragð. Þau setja atburði sögunnar í sögulegt samhengi og leiða lesendur í gegnum flækjur frásagnarinnar. Innskotin geyma einnig sjónarhorn gestsins og eru því skemmtilegt mótvægi við frásagnir þess íslenska fólks sem hrærðist í atburðunum miðjum og hefur orðið í sögunni. Hinn norski Heinrekur kom til Íslands á skipi með Þorgilsi skarða Böðvarssyni og Gissuri Þorvaldssyni árið 1252 og tók þá við biskupsembætti á Hólastað. Í bréfunum gefur Heinrekur konungi skýrslu af landsháttum og þjóðfélagsástandi á Íslandi og þykir deilur Íslendinga næsta óskiljanlegar og óvenju heiftúðugar. Hann rekur fyrir kóngi hvernig atburðum vindur fram og hvernig óvæntar sættir virðast takast á Flugumýri til þess eins að fuðra upp í eldi einum degi síðar. Heinreki sýnist ekki eftirsóknarvert fyrir konung að innlima þessa óóútreiknanlegu og sérlunduðu útkjálkaþjóð inn í norska konungsríkið.

Í fimm fyrstu köflunum ganga þrjár lykilpersónur fram, Eyjólfur Þorsteinsson fyrstur, síðan Gissur og loks Þuríður Sturludóttir. Eyjólfur hefur orðið þrisvar en Gissur og Þuríður einu sinni hvort um sig. Slegið er markvisst á strengi óöryggis, óróleika og nagandi efa í þáttum Eyjólfs, en á milli hljóma raddir Gissurar og Þuríðar. Gissur er í Noregi og hugsar leiðir til að koma á friði á Íslandi en Þuríði er efst í huga hefndin eftir föður sinn, hefndin sem mun fullkomnast í lok sögunnar. Þessar tvær andstæðu tilfinningar fléttast inn í alla söguna; þráin eftir friði og sáttum og sá djúpi sársauki sem grimmdarverk aldarinnar skilja eftir sig og gefur engin grið. Rétt eins og í Íslendingasögum vekja fyrstu kaflar Ofsa hugboð um þá sögu sem í hönd fer.

Jafnvel þó að Eyjólfur tengi söguna alla saman og sé gerandinn í grimmdarverkinu miklu, er hann ekki í aðalhlutverki í helstu atburðum sögunnar. Hann tekur ekki þátt í lánlausri suðurför Hrafns og Sturlu og illu heilli er hann ekki hafður með í ráðum í sáttargjörð Sturlu og Gissurar. Í öllum sex pörtum sögunnar er þó vikið að Eyjólfi. Eftir inngangsþáttinn er einn kafli í hverjum hluta sögunnar helgaður honum og þannig lifir grunurinn sem vakinn er í inngangi sögunnar. Dregnar eru upp áleitnar myndir af skaphöfn hans, taumlausri gleðinni eina stundina og myrkrinu í sálinni þá næstu. Einar lýsir af einstökum skilningi hvernig þrengist um hugsanir Eyjólfs þar til að eggjun Þuríðar verður honum um megn. Þegar kemur að brennunni sjálfri er hann eiginlega horfinn sögunni, enda kominn á vald svörtu hundanna; við sjáum hann ekki í bardaganum fyrr en brennumenn hverfa á braut.

Kaflar skáldsögunnar bera nöfn einstakra persóna sem hver um sig lýsir atburðum og persónum frá sínu sjónarhorni. Skipta má persónunum í fjóra hópa. Í þeim fyrsta eru aðalpersónur sögunnar eins og Eyjólfur ofsi og Þuríður Sturludóttir, Gissur og kona hans Gróa Álfsdóttir, Hrafn Oddsson, Helga Þórðardóttir, kona Sturlu Þórðarsonar, og Kolbeinn grön Dufgusson, einn hinn hugrökku Dufgussona. Næstar er að telja persónur eins og Ingibjörgu Sturludóttur, Hall Gissurarson, Ásgrím Þorsteinsson, Þorstein grenju og Hallfríði garðafylju. Þriðja hópinn fylla þær persónur sem standa að nokkru utan við frásögnina en bæta við nýjum sjónarhornum, eins og Þorsteinn Hjálmarsson á Breiðabólsstað, Sólmundur í Djúpadal og Hólmsteinn á Ökrum, en í þeim fjórða eru gestirnir, Heinrekur biskup og annálaritarinn tilbúni.

Frásagnir persónanna eru yfirleitt sannfærandi og tekst Einari að gefa hverri og einni sín sérkenni. Athyglisverðastar eru tilraunir Einars til að gefa þeim orðið sem fá ekki að mæla í Íslendingasögu Sturlu, eins og konum og lægra settum bændum. Í þeim lýsingum nýtur hugarflug hans sín best og þar kallast skáldsagan eftirminnilega á við texta Sturlu. Þrjár höfðingjakonur lifna við í bókinni. Gróa Álfsdóttir birtist við hlið Gissurar í frásögn Sturlungu en tekur hvergi til máls þó að hún sé vissulega sýnileg á Flugumýri og í brennunni. Í Ofsa stígur hún fram, hógvær en þó gagnrýnin, og áhersla er lögð á fríðleika hennar. Í köflum hennar og Hallfríðar garðafylju verða til nánast upphafnar myndir af efnilegum sonum Gissurar sem uxu úr grasi á meðan Gissuri dvaldist um sex ára skeið í Noregi. Allt önnur og andstæð heimilismynd blasir við í frásögn Þuríðar Sturludóttur. Hún er hvöss í gagnrýni sinni á mann sinn; skaphörð og afdráttarlaus í skoðunum, enda fær Einar lánaða drætti úr mynd Steinvarar föðursystur hennar í Sturlungu. Á bæ Eyjólfs og Þuríðar ríkir ekki ró eða hamingja, þar eru engin börn að leik umvafin ástríki móður og Hallfríðar fóstru; heldur eltir heimilisfólkið skugginn af hrottalegum vígum á Örlygsstöðum og þeir atburðir ítrekað rifjaðir upp af Þuríði og móður hennar Vigdísi, frillu Sturlu Sighvatssonar. Þriðja konan er Helga Þórðardóttir, dóttir hinnar miklu kempu Jóreiðar Hallsdóttur í Sælingsdalstungu. Helga stígur tvisvar fram í sögunni. Fyrri kaflinn geymir óborganlegar lýsingar á Sturlu sagnaritara, en í þeim síðari mælir harmi slegin móðir þegar hún hugsar til dóttur sinnar nýsloppinnar úr hildarleiknum á Flugumýri og um fáranleika sáttanna.

Það er gaman að velta fyrir sér hvaða sögumenn Einar velur. Framan af eiga aðalpersónurnar sviðið en eftir tilvitnunina í Hegranessannál, þar sem lýst er fyrirboðum í aðdraganda Flugumýrabrennu, víkur sögunni norður í Skagafjörð. Fjölgar þá innslögum frá öðrum einstaklingum og sagan verður um leið fjölbreyttari og kvikari. Hispurslaus frásögn Sólmundar í Djúpadal af grimmilegri útreið Skagfirðinga í Flóabardaga og á Haugsnessfundi er einstaklega áhrifarík. Svo er einnig um kaldranalegan kafla Hólmsteins bónda á Ökrum sem vaknar upp og sér elda brenna á Flugumýri. Eftir að hafa ráðfært sig við Sólmund ákveður hann að láta höfðingjana um að drepa hver annan – enda er Gissur utanhéraðsmaður.

En hvernig lýsir Einar brennunni? Hann fylgir í raun mjög náið lýsingu Íslendingasögu í brennuköflunum og fer vel með safaríkan texta Sturlu, bætir inn drætti hér og þar en fellur ekki í þá gildru að búa til nýjar sviðsetningar sem gætu jaðrað við tilfinningasemi. Frásögn Einars verkar eins og tilbrigði um stef, en þungur hljómur Íslendingasögu ómar alls staðar í gegn. Einar leggur lýsinguna af brennunni í munn aðeins fjórum viðstaddra, tveimur brennumönnum og tveimur konum sem lifðu brennuna af. Þorsteinn grenja vann sér til frægðar í Íslendingasögu að hrinda Gróu í eldinn og verður hann í sögu Einars ímynd illmennisins í brennunni sem eggjar til vondra verka og sér ekki hið góða í neinum manni. Myndin af Þorsteini jaðrar við að vera of einsleit í illsku sinni. Andstæða Þorsteins er hetjan Kolbeinn grön. Kolbeinn kemur fram á nokkrum stöðum í Ofsa. Hann fylgdi Eyjólfi einn bræðra sinna í brennuförinni og er frásögn hans af atburðinum af allt öðrum toga en Þorsteins, hetjuleg og raunsæ en angurvær í senn. Honum tókst að drepa Árna beisk og hefna þar með Snorra, og bjarga Ingibjörgu úr eldinum. Það vekur athygli að Gissur lýsir ekki brennunni og þeim harmi sem hann verður fyrir, heldur beinir Einar kastljósi sínu að tveimur heimiliskonum á Flugumýri, hinni þrettán vetra Ingibjörgu Sturludóttur og Hallfríði garðafylju. Síðustu orð Gissurar er ræðan sem hann flytur í brúðkaupinu; eftir það mælir hann ekki í sögunni. Við sjáum hann og Gróu aðeins með augum Ingibjargar og Hallfríðar sem bjargaði lífi Gissurar í kirkjunni.

Lesandi saknar þess ekki fyrr en hann sleppir bókinni að einn sögumann vantar í Ofsa: Sturlu Þórðarson sagnaritara. Jafnvel þó að Ofsi segi í öllum aðalatriðum sömu sögu og Íslendingasaga þá er eins og Einar nálgist Sturlu af of mikilli varfærni. Hann reisir sögu sína á orðum Sturlu Þórðarsonar í Íslendingasögu en gengur ekki svo langt að gefa honum orðið í skáldsögunni. Sturla er engu að síður bráðlifandi í Ofsa; snjallar setningar eru fengnar að láni úr Íslendingasögu og honum er lýst af list og næmi. Þær lýsingar hitta beint í mark og ber hæst í köflum Hrafns Oddssonar og Helgu Þórðardóttur, konu Sturlu. Sturla Einars er hrifnæmur og forvitinn grúskari sem nýtur sín ekki í valdatafli höfðingjanna eða hernaði en er hrókur alls fagnaðar í mannfagnaði og veislum. Hann líkir eftir látbragði og rödd viðmælanda sinna án þess að vita af því og heldur mönnum hugföngnum með því að segja Huldar sögu af innsæi og mikilli frásagnarlist. Það tekst Einari Kársyni líka í þessari bráðskemmtilegu og vel hugsuðu bók.

 

Guðrún Nordal