Ragnar Axelsson og Mark Nuttall: Veiðimenn norðursins.

Crymogea, 2010, 272 bls.

Páll Stefánsson og Chinamanda Ngozi Adiche. Áfram Afríka.

Crymogea,  2010, 240 bls.

Jónatan Grétarsson og Guðmundur Andri Thorsson. Andlit.

Salka, 2010, 224 bls.

Sigurgeir Sigurjónsson og Einar Kárason. Poppkorn.

Forlagið, 2010, 224 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2011.

Við erum það sem athygli okkar beinist að, engu síður en það sem við borðum. Um það vitnar nánast öll ljósmyndun. Stakar ljósmyndir í dagblöðum og tímaritum hafa ef til vill ámóta vægi og slitrótt samtöl við höfunda þeirra á almannafæri en samankomnar á bók opinbera þær persónulegt viðhorf þeirra til ljósmyndarinnar og lífsins. Það sem gerst hefur í íslenskri ljósmyndun á undanförnum árum er að ljósmyndarar hafa í auknum mæli horfið frá því að tjá sig með vísan í íslenskt landslag en beina sjónum sínum þess í stað að mannlífi, breytilegu þjóðfélagsmynstri og jafnvel pólitískum álitamálum. Að einhverju leyti má rekja þessar breytingar til átakastjórnmála undangengins áratugar, en einnig til aukinnar meðvitundar íslenskra ljósmyndara um ljósmyndasöguna, nýmæli í erlendri ljósmyndun og tilkomu Ljósmyndasafnsins.

Um leið hefur dregið saman með „einskærum“ ljósmyndurum og þeim starfsbræðrum þeirra sem gera sig gildandi á myndlistarvettvangi. Allt er þetta uppskrift að heilmikilli gerjun í íslenskri ljósmyndun sem vart sér fyrir endann á. Til marks um þessa gerjun – eða grósku – er að aldrei hafa verið gefnar út eins margar vandaðar bækur með myndum íslenskra ljósmyndara og á síðasta ári, bæði bækur með „hefðbundnum“ landslagsljósmyndum og ljósmyndabækur um afmörkuð efni. Og það sem er nýtt við þessa útgáfu er að hún er að hluta til samstarfsverkefni íslenskra og erlendra aðila, alþjóðastofnana, útgefenda og fleiri. Sem er auðvitað traustsyfirlýsing til handa hlutaðeigandi ljósmyndurum.

Norðurhjaraóður

Veiðimenn norðursinsStærsti viðburður ársins í þessum geira íslenskrar bókaútgáfu er tvímælalaust útgáfa Crymogeu á Veiðimönnum norðursins, úrvali ljósmynda eftir Ragnar Axelsson frá Grænlandi og sjálfstjórnarhéraðinu Nunavut í Kanada en þær eru afrakstur ferða hans um þessi harðbýlu lönd á tímabilinu 1987–2010. Fyrir þessar ljósmyndir hefur Ragnar – Raxi – hlotið margháttaðar viðurkenningar og einhverjar þeirra hafa birst í tímaritum á borð við Life, National Geographic, Newsweek, New York Times og Stern. Nokkrar þeirra komu einnig fyrir í fyrri bók hans frá norðurslóðum, Andlit norðursins, sem út kom árið 2004.

Eins og margir aðrir blaðamenn fylgdist ég gjörla með ljósmyndum Raxa. Raunar varð ekki fram hjá þeim horft, því lengi vel voru þær stolt og prýði Morgunblaðsins um helgar. Þar fyrir utan voru þær ígildi margra fréttadálka um stóra viðburði, jafnt hörmulega sem gleðilega. Ég held ég megi fullyrða að enginn annar ljósmyndari hafi notið viðlíka hylli kollega sinna – og keppinauta – á öðrum dagblöðum. Í mínum ranni, þar sem unnu ljósmyndarar með umtalsverðan metnað, dæstu menn iðulega af einskærri hrifningu yfir hugkvæmni og harðfylgi Raxa. Og það sem meira var, Raxi færðist stöðugt í aukana í ljósmyndun sinni. Hann lét ekki staðar numið við fréttatengdar myndir, heldur hóf að setja saman frásagnir í ljósmyndaformi um daglegt líf fólks á afskekktum stöðum á Íslandi og annars staðar, sem eru flottur fótósjúrnalismi, og með bestu ljósmyndaverkum sinnar tegundar sem gerð hafa verið hér á landi.

Landslagsmyndir og portrettmyndir vöfðust ekki heldur fyrir Raxa, heldur öðluðust nýja vídd í höndum hans, þökk sé trúnaði hans við eðlismót sígildrar svarthvítrar ljósmyndunar. Og þegar hvarflaði að manni að sennilega væri Raxa fyrirmunað að taka litljósmyndir, hóf hann að birta slíkar myndir í háum gæðaflokki. Það er kannski þetta sem Páll Baldvin Baldvinsson átti við þegar hann talaði um „stílleysi“ Raxa sem ljósmyndara í bókaþættinum Kiljunni; það sem ég mundi hins vegar kalla óvenjulega fjölhæfni hans. Ég mundi ganga lengra og segja að þegar á þessa stóru heild er litið bæri Raxi höfuð og herðar yfir aðra starfandi ljósmyndara á landinu. Ekki svo að skilja að slíkar útnefningar skipti hann máli.

Í Veiðimönnum norðursins fær Raxi viðhlítandi umgjörð utan um norðurslóðamyndir sínar, öllu veglegri en í Andlitum norðursins, sem þó var fallega samsett bók. Munurinn liggur í brotinu: stórum opnunum sem gera ljósmyndaranum kleift að gera skil víðáttunum og einsemdinni sem er fylgifiskur hennar en líka stórbrotnum bakgrunni hins hetjulega hversdagslífs íbúanna á þessum slóðum. Það er nánast sama hvar borið er niður, alls staðar blasa við áhrifamiklar myndir: portrett af körlum, konum og börnum, almennar mannlífsstúdíur, svipmyndir af búskaparháttum, miskunnarlaust vetrarlandslagið, veiðiskapur af ýmsu tagi, bráðin: selir, hvalir, og hvítabjörn. Að ógleymdum þarfasta þjóninum, hundinum. Prentun myndanna fór fram í Kína og hefur tekist býsna vel.

Raunar er bókin tvískipt og get ég ekki gert upp við mig hvort það er kostur eða galli. Þriðjungur hennar mundi sennilega flokkast undir mannfræði en þar fjallar skoski norðurslóðafræðingurinn Mark Nuttall um lifnaðarhætti og menningu grænlenskra ínúíta og frænda þeirra í Nunavut; þessum kafla fylgja litljósmyndir eftir Raxa og lýsandi myndatextar. Síðan tekur við hið eiginlega „ljósmyndakonsept“ hans, svarthvítar myndir, fleygaðar af stuttum frásögnum hans af því sem á daga hans drífur meðal frumbyggja. Hér reiðir Raxi sig á áhrifamátt myndanna sjálfra, því engar upplýsingar er að finna um það sem er að gerast í þeim. Þær hefðu örugglega ekki skemmt upplifunina af ljósmyndunum. Og ef tekið er tillit til erfiðra aðstæðna sem Raxi hefur oftlega þurft að glíma við á ferðum sínum um norðurhjarann hefði verið gaman að fá upplýsingar um þær myndavélar og filmur sem gögnuðust honum best á þeirri vegferð.

Ferðalög ljósmyndarinnar

Áfram AfríkaÞeir sem starfað hafa með Páli Stefánssyni þekkja elju hans og ósérhlífni við myndatökur en einnig rótleysi hans, þörf hans fyrir að vera á stöðugum ferðalögum með myndavélina á lofti. Ljósmyndun hans er angi af söfnunarástríðu, löngun til að sanka að sér landslagi og mannlífi á fjarlægum slóðum. Í eðli sínu eru ljósmyndir Páls því eins konar sjálfsævisaga, litríkar frásagnir af því sem hann sér í gegnum (Carl Zeiss) linsur sínar; fremur en meðvituð viðleitni til að komast til botns í því sem blasir við honum hverju sinni. Upplag þeirra Raxa er því ólíkt; Páll ferðast um Afríku þvera og endilanga á þremur árum í leit að myndum en Raxi eyðir rúmlega tuttugu árum ævi sinnar í að mynda nágrannaþjóð okkar hér á norðurhjara. Hér er ekki um tvær misgóðar aðferðir að ræða, heldur mismunandi skilning þeirra félaga á markmiði ljósmyndunar. Svo vitnað sé í fleyg orð Johns Szarkowski, fyrrum forstöðumanns ljósmyndadeildar Nútímalistasafnsins (MOMA) í New York: „Á ljósmyndin að vera sem spegill, endurkast listamannsins sem tók hana, eða sem gluggi sem horfa má í gegnum til aukins skilnings á veröldinni?“

Ljósmyndaverkefnið Áfram Afríka, sem gat af sér bók með sama nafni, er eins og sniðið fyrir Pál, hraðferðir um Afríku í því augnamiði að skrásetja knattspyrnuáhugann í álfunni í tilefni af Heimsbikarnum í Suður-Afríku 2010. Páll fer um fjórtán Afríkulönd: Benín, Búrkína Faso, Egyptaland, Eþíópíu, Fílabeinsströndina, Gana, Grænhöfðaeyjar, Kamerún, Malí, Marokkó, Senegal, Suður-Afríku, Tansaníu og Tógó og dregur hvergi af sér. Alls staðar þar sem sparktuðra af einhverju tagi gengur manna á milli, úti á götum, á frumstæðum leikvöngum, í skógarrjóðrum, á skólalóðum, í flæðarmálinu, innan um nautgripi og annan kvikfénað, að ógleymdum glæsilegum leikvöngunum í Suður-Afríku, þar er Páll mættur til frásagnar með Hasselblad-vélar sínar um hálsinn. Miðað við þær aðstæður sem opinberast okkur í mörgum þessara ljósmynda má ímynda sér hve mikið ljósmyndarinn hefur þurft að leggja á sig við öflun þeirra. Og eins víst að án persónutöfra sinna hefði Páli ekki tekist að komast eins nálægt hinu unga knattspyrnufólki og raun ber vitni; margar eftirminnilegustu ljósmyndir bókarinnar eru einmitt andlitsmyndir af því.

Að þessari bók stendur einvalalið, því sjálfur Didier Drogba ritar formála, nígeríski rithöfundurinn Chinamanda Ngozi Adiche leggur til grein um knattspyrnu í heimalandi sínu (skáldsagan Hálf gul sól eftir hana er til á íslensku) og helsti sérfræðingur í afrískri kanattspyrnu, Ian Hawkey, fjallar um þróun íþróttarinnar í álfunni. Ef eitthvað er líður bókin fyrir of margar og of einhæfar myndir. Páll beinir sjónum sínum fyrst og fremst að spilamennskunni en hirðir minna um aðdraganda hennar og veröldina að baki henni. En eins og í öllum ljósmyndabókum sem Páll hefur sett saman er hér margt hrífandi mynda inni á milli.

Í sveita síns andlits

AndlitJónatan Grétarsson stimplaði sig rækilega inn á íslenskan sjónmenntavettvang með sýningu sem hann hélt í Hafnarborg fyrir tæpum þremur árum. Þar gat að líka feiknstórar og dramatískar andlitsmyndir af íslensku listafólki í svarthvítu, þar sem yfirstærðir og hörð lýsing voru notuð til að draga fram tímans rúnir í sérhverri ásjónu. Manni varð ósjálfrátt hugsað til svarthvítra andlitsmynda Jóns Kaldal og öllu minni ljósmynda Kanadamannsins Yusufs Karsh af frægu fólki. Nú hefur Jónatan fylgt þessari sýningu eftir með mikilli bók sem nefnist Andlit, þar sem finna má úrval andlitsmyndanna af sýningunni, auk mynda sem hann hefur tekið í kjölfarið.

Ljósmyndun Jónatans stjórnast af tvenns konar, og ekki endilega andstæðum, viðhorfum. Annars vegar býr í honum rómantíker sem lítur upp til listamanna af öllu tagi; bókin er ekki síst lofsöngur um sköpunargáfu þeirra og uppsafnaða reynslu, eins og hún birtist í sjálfstæðu hári og velktum andlitsdráttum, mörkuðum af margra áratuga striti í aldingarði listarinnar. Á hinn bóginn má segja að viðleitni ljósmyndarans sé lituð af atburðum í íslensku þjóðfélagi á undanförnum árum; ekki síst kröfunni um uppgjör og gegnsæi. Hyllingar Jónatans eru öðrum þræði nokkurs konar uppljóstranir, atlögur að hégómaskap svokallaðra þekktra „andlita“ og ímyndarsköpuninni í menningargeiranum. Tilþrifamestar eru þær ljósmyndir þar sem fyrirsetinn- eða -sætan eru á sömu bylgjulengd og ljósmyndarinn; mæta til leiks í sveita síns nakta og varnarlausa andlits. Aðrir eru slóttugri og mæta með props: hatta eða gleraugu í yfirstærð. Eða setja upp lítil leikrit fyrir ljósmyndarann, geifla sig og gretta „on cue“ eins og sagt er. Af þeim meiði eru litmyndir Jónatans af helstu Vesturportsleikurum í leikgervum. Þar finnst undirrituðum „konseptið“ fara úrskeiðis, þar sem umfjöllunarefnið eru karakterar úr leikbókmenntunum, ekki leikararnir sjálfir, þótt að sönnu komi þeir líka fyrir ófarðaðir annars staðar í bókinni.

Valinkunnur hönnuður, Ámundi Sigurðsson, er ábyrgur fyrir útliti bókarinnar sem er að mestu einfalt og þénugt. Stök andlit í öllu sínu veldi eru sterkasti hluti hennar; lesandinn opnar bókina og þykist alls staðar hitta fyrir lifandi fólk. Sumt af þessu fólki hittir hann kannski oftar en hann kærir sig um, af óútskýrðum ástæðum nýsist ljósmyndarinn fyrir um vinnuaðstöðu sumra listamanna en ekki annarra, og honum þykja þeir félagar Bjarni Þórarinsson og Guðmundur Oddur ósegjanlega myndrænir, ef marka má það rými sem lagt er undir þá. Hljómsveitamyndir gera ekkert fyrir mig persónulega en þær eiga sennilega að auka á fjölbreytnina. Í bók með slíkri fjöld svipmikilla andlita er texta næstum því ofaukið en Guðmundi Andra Thorssyni tekst á aðdáunarverðan hátt að skapa kyrrlát augnablik í miðju streymi ljósmyndanna, og fylla þau með mannlýsingum í formi knappra prósa.

Hirðljósmyndari hljómsveitanna

PoppkornÁ undanförnum árum hefur Sigurgeir Sigurjónsson notið mikillar velgengni á bókamarkaði, ekki síst fyrir viðvarandi áhuga erlendra ferðamanna á íslensku landslagi. Í bókum eins og Lost in Iceland og Volcano Island markaðssetur hann „landslagskonseptið“ með nýjum hætti, gerir Ísland að hipp og kúl áfangastað fyrir ævintýragjarna ferðalanga. Sömuleiðis sníður hann brot bókanna að þörfum (og pyngju) sem flestra og fylgir „konseptinu“ eftir með áprentuðum bolum sem finna má í öllum túristaverslunum á landinu. En sem ljósmyndari á Sigurgeir sér sennilega sterkari rætur í mannlífsmyndum en landslagsmyndum. Fyrsta ljósmyndabók hans, Svip-myndir (1982) var uppfull með manna- og þjóðlífsmyndir, og fyrir nokkrum árum endurtók hann leikinn, gaf þá út metsölubókina Íslendingar í samstarfi við Unni Jökulsdóttur.

Sigurgeir var einnig ötull skrásetjari framvindunnar í íslenskri dægurtónlist á sjöunda og áttunda áratugnum, enda var þetta hans (og okkar) tónlist. Myndir hans birtust í blöðum og tímaritum, á plötuumslögum og plakötum, en flestar urðu auðvitað eftir í fælnum, eins og gengur. Nú hefur Sigurgeir farið í fælinn, dregið saman úrval mynda frá þessu tímabili og gefið út undir heitinu Poppkorn. Í formála rekur Sigurgeir tildrög þess að hann hóf að fylgjast með popptónlistarmönnum; eins og aðrir varð hann fyrir áhrifum af tísku- og poppljósmyndurunum Philippe Halsmann og David Bailey sem er aftur fyrirmynd ljósmyndarans í kvikmynd Antonionis, Blow-up (1966).

Poppmenning þessara ára er því hið yfirlýsta umfjöllunarefni Sigurgeirs en innan tíðar rennur upp fyrir lesandanum að fremur rýrt er á því stykki. Hljómsveitirnar eru mikið til þær sömu (Hljómar, Tónar, 5 pence, Óðmenn, Pops, Flowers, Trúbrot …) og uppstillingarnar sömuleiðis. Var poppmenningin á Íslandi virkilega svona fábreytt í den? Hvar eru hringferðirnar um landið og sveitaböllin? Síðan er ljóst að Sigurgeir túlkar fyrirbærið „poppmenning“ býsna frjálslega, því u.þ.b. fjórðungur myndanna eru ýmist portrettmyndir af þekktu fólki úr íslensku þjóðlífi eða skrásetningar atburða á borð við eldgosið í Heimaey og hingaðkomu Nixons og Pompidous. Hafsteinn miðill? Þorgeir Þorgeirson? Jónas Árnason? Gylfi Gröndal? Með fullri virðingu fyrir poppmenningu efast ég um að þessir heiðursmenn hefðu viljað láta draga sig í þann dilk. Sem breytir því ekki að margar portrettmynda Sigurgeirs eru magnaðar. Þær verðskulda einfaldlega eigin bók.

Myndum Sigurgeirs fylgja textar eftir Einar Kárson í „Ég man“-stíl Georges Pérec sem Þórarinn Eldjárn beitti með eftirminnilegum hætti fyrir nokkrum árum. Sýnilega hentar þessi knappi og ljóðræni stíll Einari ekki eins vel; gefur honum ekki tök á að teygja lopa og klykkja út með mergjaðri „punchline“. Þess í stað reiðir hann sig á skyndilegar og tilfyndnar hugdettur úr misminni. Sumt af því sem hann „man“ er beinlínis rangt. Til dæmis var SÚM aldrei skammstöfun fyrir Samband Ungra Myndlistarmanna.

 

Aðalsteinn Ingólfsson