Sendiherrann og Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson eftir Braga Ólafsson.

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2011.

Tókuð þið eftir hvað þetta rennur saman í fallega runu? Ógnarlangur titill ógnarlangrar skáldsögu Braga Ólafssonar, Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson, gæti fullt eins heitið „Sendiherrann og handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson eftir Braga Ólafsson“. Enginn myndi taka eftir því þótt sendiherrann slæddist þarna inn líka, enda kemur sendiherra nokkuð við sögu í síðarnefndu bókinni, og það er fullkomlega við hæfi að það séu tveir höfundar í lok romsunnar líkt og það eru tveir höfundar að kvikmyndahandritinu.

En við skulum stilla okkur um hártoganir.

Sendiherrann

Sendiherrann (2006)

Þær eru nokkuð ólíkar, tvær fyrstu skáldsögurnar í boðuðum skáldsagnakvartett Braga Ólafssonar. Fyrri bókin, Sendiherrann, sem á titilsíðu ber undirtitilinn ljóð í óbundnu máli, kom út árið 2006 og var auk annarra viðurkenninga tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Fljótlega boðaði höfundur einskonar framhald þeirrar bókar en þó var það ekki fyrr en fjórum árum síðar, 2010, sem það birtist. Á þessum árum sem liðu gekk mikið á í íslensku samfélagi og því er kannski eðlilegt að verkin séu jafn ólík og raun ber vitni. En þegar grannt er skoðað má samt sjá ýmislegt í Sendiherranum sem einskonar fyrirboða þeirrar óreiðu sem magnast stöðugt í Handritinu (en svo verður skáldsagan nefnd héðan í frá) og mögulega mætti, með góðum vilja, skoða sem afsteypu af þeirri óreiðu sem magnaðist í íslensku samfélagi þessi fjögur ár sem liðu milli sagna. Enda er eitt af þemum beggja verka það hvernig lífið hermir stöðugt eftir skáldskapnum, eða smeygir sér inn í skáldskapinn.

Það líf sem birtist í skáldsögunum er auðvitað skáldað líf; og líf skálda, því aðalpersónur beggja verka eru höfundar af ýmsu tagi, ljóðskáld, rithöfundur og þýðandi, kvikmyndagerðarmaður og svo auðvitað höfundur Handritsins, sögukonan Jenný Alexson (sem reyndar er einnig glæpasagnahöfundur). Eða eins og segir um Örn í Handritinu: „það kemur honum síður en svo á óvart að hans eigið líf elti eitthvað í þeim skáldskap sem honum er efst í huga í augnablikinu; slíkt virðist fremur regla en undantekning – og í huga hans helsta notagildi skáldskaparins: að styðja við lífið í því verkefni að hanna atburðarás þess“. [1]

Umfjöllun um skáldskap er því meðal þess sem bindur skáldsögurnar tvær, ekki síður en sameiginlegt persónugallerí, en hluti persóna Handritsins hefur áður verið nefndur í Sendiherranum. Aðalpersóna Sendiherrans er ljóðskáldið Sturla Jón Jónsson en hann er utan sviðs í Handritinu. Þar eru þeir faðir Sturlu Jóns, Jón Magnússon, og félagi hans, Örn Featherby, aðalpersónurnar, auk þess sem sögukonan Jenný Alexson minnir í sífellu á sig. Framhaldsbókin ferðast því dálítið skemmtilega afturábak, þó að hún mjakist líka ofurlítið áfram í tíma, og snýr því hefðbundnum frásagnarformúlum við, því að þar er öllu algengara, ef um fjölskyldusögur er að ræða, að byrja á eldri kynslóðinni. Að þessu sögðu mætti vel fjalla um þessar tvær fyrstu bækur kvartettsins sem fjölskyldusögur og þá sérstaklega sögur af samskiptum feðga (sem eru erfið í báðum bókum og hjá öllum kynslóðum), enda er á einum stað í Handritinu beinlínis vísað til skrifa tékkneska rithöfundarins Franz Kafka um samband hans við föður sinn. Feðgaþráðurinn verður þó látinn öðrum eftir.

Annað samfélagslegt atriði sagnanna er kreppan. Þótt tímarammi bókanna beggja sé haust 2006 og kreppan þar með ekki komin þá er hún mjög nálæg í þeirri seinni, aðallega þó í vitund lesandans sem les bókina á krepputímum. Bragi hnýtir ofurlítið í gróðærið í Sendiherranum (meðal annars verða kaup ljóðskáldsins á rándýrum frakka í einni fínustu herrafataverslun bæjarins ákaflega táknræn í því samhengi) og heldur svo áfram að leika sér með þann þráð í Handritinu. Þetta kemur meðal annars fram í óvæntum áhuga lyfsalans nýríka Alfreðs Leós Thorarensen á að framleiða kvikmynd eftir tvo hálfútbrunna kalla sem engan feril eiga að baki á þessu sviði; sá áhugi á reyndar síðan eftir að fjara út. Í síðasta hluta Handritsins hamrar höfundur svo á tákreppandi vandræðalegum yfirlýsingum forseta landsins um útrásarvíkingana og tengir fimlega átökum við Breta og Þorskastríðunum (undirliggjandi eru IceSave reikningarnir, sem voru ekki einu sinni orðnir að (tærri snilldar)hugmynd þá) en sagan gerist að hluta til í Hull.

Að þessu leyti mætti vel flokka Handritið með hinum svokölluðu kreppubókum sem tröllriðu haustútgáfunni 2009 en létu minna á sér kræla ári síðar. En nei, ég ætla heldur ekki að fjalla um þennan þráð, enda er hann aðallega til staðar í annarri bókinni. Ég ætla að sleppa mér í textaleikjum og skoða skáldskapinn í sögunum, bæði hvernig hann birtist og hvernig um hann er fjallað. Þetta þýðir þó ekki að hinu félagslega verði varpað fyrir borð, þvert á móti þá ætti að vera augljóst að skáldskapur er hápólitískt fyrirbæri og snertir öll svið samfélagsins, eins og kreppan sýndi svo sannarlega fram á.

Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson

Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson (2010)

Ljóð í óbundnu máli og kvikmyndahandrit

Sendiherrann og Handritið eiga það sameiginlegt að vera skáldsögur sem fjalla um sköpun annars skáldskapar, nánar tiltekið ljóða- og kvikmyndahandrita. Sem slíkar eru þær því að einhverju leyti margfætlur og bera einkenni þessara forma, þótt seint verði reyndar sagt að Sendiherrann sé ljóðræn (þó að vissulega séu greinarnar tvær sem ljóðskáldið Sturla Jón skrifar um ljóðahátíðina næsta ljóðrænar). Hinsvegar er Handritið mjög myndræn bók, bæði hvað varðar lýsingar á kvikmyndahandritinu sjálfu og þá sérstaklega það hvernig þeir félagar ímynda sér að hinn heimsfrægi aðalleikari kvikmyndarinnar sjái fyrir sér atburði í kvikmyndahandriti sem hann kemur aldrei til með að leika í, því kvikmyndahandritið fjallar um dauða hans eftir að hann lendir í uppnámi á veitingahúsi áður en kvikmyndunin hefst. Ennfremur ‘sér’ sögukonan Jenný Alexson ýmsa atburði ‘fyrir sér’ og þannig er hinn myndræni þáttur ítrekaður.

Ljóðið er hinsvegar fyrst og fremst til umræðu í Sendiherranum. Einnig mætti hugsa sér að skáldsagan virki líktog ljóð í óbundnu máli að því leyti að þar á sér stað stöðug frestun, jafnvel merkingarfrestun að hætti kenninga afbyggingarinnar, [2] allavega frestun á atburðum, en sagan segir í stuttu máli frá því hvernig Sturla Jón fer ekki á ljóðahátíðina sem hann hefur þó ferðast alla leið til Litháen til að sækja. Sömuleiðis forðast hann að takast á við ýmislegt sem kemur upp í þessari stuttu heimsókn til Litháen, svo sem þegar frakka hans er stolið, hann stelur öðrum frakka, og það kemst upp að handritið að nýjustu ljóðabók hans er stolið. Og loks forðast hann að koma heim en sagan endir á því að hann fer með konu sem hann hittir, ekki á ljóðahátíðinni, heldur í tengslum við hana, til Hvítarússlands, í stað þess að nýta flugmiðann til Íslands. Að þessu leyti má segja að sagan minni á ljóð, en eitt einkenna ljóða er einmitt merkingarfrestun, fjölföldun möguleika á merkingu sem ævinlega hlýtur að koma í veg fyrir einfaldar niðurstöður eins og þær að setjast uppí flugvél og drattast heim.

Hér er ekki úr vegi að bera Sendiherrann aðeins saman við fyrri bækur Braga en fyrstu skáldsögur hans tvær, Hvíldardagar (1999) og Gæludýrin (2001), fjalla einmitt um menn sem forðast í lengstu lög (og það eru verulega löng lög) að takast á við líf sitt og þá ýmsu óvæntu atburði sem það býður uppá (eins og að fara í frí og fá óvæntan gest). Í þriðju skáldsögunni, Samkvæmisleikjum (2004), ber einnig nokkuð á þessari tilhneigingu aðalpersónunnar en hún er þó orðin nokkuð ólík þeim fyrri, bæði meiri um sig og myrkari. Sendiherrann er síðan á einhvern hátt rökrétt framhald fyrstu sagnanna, hafandi breitt úr sér í anda þeirrar þriðju, auk þess að virka, allavega svona í baksýn, sem einskonar uppsláttur eða tilhlaup að þeim flæðandi doðranti sem Handritið er. [3]

Persónur Handritsins eru kannski ekki alveg jafn átakafælnar og Sturla Jón og aðrar fyrri persónur Braga, þótt vissulega forðist þær markvisst að takast á við aðsteðjandi verkefni, eins og það að gera upp föðurarfinn og skrifa kvikmyndahandritið. Hinsvegar hefur frestunin – eða hikið – heltekið textann, sjálfa frásögnina, sem skríður stöðugt undan öllum tilraunum til að ná taki á atburðum bókarinnar. Þetta birtist vel í þeim ógnarlöngu setningum sem fara í að segja frá einföldustu atriðum – setningum sem smitast síðan yfir á umfjöllun um bókina.

Fráfarandi ljóðskáld

Sturla Jón hefur þó tekið mikilvæga ákvörðun í Sendiherranum. Hann ætlar að hætta að skrifa ljóð og snúa sér alfarið að prósaskrifum. Óbundnu máli. Upphafsatriði bókarinnar vísar til þessarar ákvörðunar en þar er ljóðskáldið fráfarandi að kaupa sér nýjan frakka fyrir marga marga fimmþúsundkalla. Sú athöfn að kaupa sér nýjan frakka verður ákaflega táknræn fyrir þá umbreytingu sem Sturla Jón ætlar að gera á lífi sínu og skáldskap en í skáldskap má finna dæmi um það hvernig frakkinn er tákn eiganda síns, eða þeirrar persónu sem klæðist honum. Þekktust er líklega saga Gogols, „Frakkinn“, en á einum stað nefnir Sturla einmitt Pétursborgarsögur Gogols. [4] Samt lætur Sturla Jón svo lítið að fara á ljóðahátíð sem honum er boðið á í litlu heilsulindarþorpi nærri Vilníus, höfuðborg Litháens. Hann hefur enda nýlega sent frá sér ljóðabókina fullyrðingar, sem hlotið hefur jákvæðar viðtökur. Ekki er hann þó sérlega spenntur fyrir þessari uppákomu, eins og kemur fram í grein sem hann skrifar um hátíðina áður en hann fer á hana, en sú grein á að marka upphafið að tilfærslu hans í skáldskap, frá ljóði yfir í prósa.

Inn í söguna blandast minningar Sturlu Jóns um látinn frænda sinn, Jónas Hallmundsson, en sá hafði fargað sér ungur að aldri og áfengissjúkur. Ástæðan fyrir þessum minningum um Jónas verður ljós þegar á líður söguna en þegar Sturla er kominn til Vilníus segir faðir hans, Jón Magnússon, syni sínum frá því að fram hafi komið ásakanir um að ljóðabók Sturlu Jóns, fullyrðingar, sé stolin, að mestu byggð á óútgefnu handriti Jónasar. Símtal þeirra feðga um þetta mál á sér stað á veitingastað en eftir að Jón hefur lesið fréttina um meintan ritstuld Sturlu fyrir son sinn uppgötvar ljóðskáldið að nýja fína frakkanum hans hefur verið stolið. Stuttu síðar stelur Sturla Jón svo sjálfur álíka frakka á öðru veitingahúsi og staðfestir þannig þjófnað sinn á ljóðum Jónasar – það að ganga í frakka annars manns samsvarar því að gerast sá maður á einhvern hátt, og því spegla ritstuldurinn (það að gefa ljóð annars út sem sín eigin) og frakkastuldurinn hvor annan.

Sendiherrann er því að vissu leyti tvífarasaga, saga um klofið sjálf, Sturlu Jón ljóðskáld, sem stelur ljóðum annars, og hinn nýja Sturlu Jón prósahöfund, sem stelur frakka og kemur ekki heim frá ljóðahátíðinni heldur flytur til Hvítarússlands. Þetta kemur ennfremur fram í greinunum tveimur sem hann skrifar um ljóðahátíðina. Aðra greinina semur hann áður en hann fer af stað, og sýnir hún slíkar samkomur í fremur háðuglegu ljósi, en hin er skrifuð frá Litháen og þar birtist fremur upphafin sýn á mátt ljóðsins. Ritstjóra menningartímaritsins sem á að vera vettvangur greinanna líst mun betur á þá síðari en hinsvegar er sú fyrri mun nær upplifun Sturlu af hátíðinni. Þótt Sturla efist um gæði fyrri greinarinnar eftir því sem líður á bókina þá er hann í fyrstu upphafinn af eigin sköpun og sér skrifin sem „uppgjör“ sitt „við ljóðlistina“ og vísi „að því sem framundan væri“, auk þess að vera „sanngjörn og vingjarnleg greining á ástandi ljóðlistarinnar í nútímanum“. [5]

Allt þetta snýr svo að þeirri stöðugu umræðu um skáldskap sem á sér stað í Sendiherranum. Umfjöllunin um stöðu ljóðsins er augljós. Ekki aðeins hvað varðar Sturlu Jón sjálfan heldur hina þjófstolnu bók hans sem var á sínum tíma samin ljóðinu til háðungar, af hinum unga og róttæka Jónasi sem stelur sjálfur línum héðan og þaðan úr vinsælum skáldskap síns tíma (um miðjan áttunda áratuginn). Með þessu móti kemur Bragi á framfæri ísmeygilegri gagnrýni á heim skálda og skáldskapar sem tekur sig stundum of alvarlega. Sú gagnrýni er þó aldrei einföld eða hrein, því jafnhliða íróníunni er sagan þungavigtarverk hvað varðar ‘úttekt’ á stöðu skáldskapar í kjölfar innrásar póstmódernismans og þá sérstaklega hvað varðar samspil skáldskapar við (eigin) veruleika og annan skáldskap. Þannig sér Sturla ýmsa atburði fyrir sér sem atriði í skáldsögu, eins og þegar hann hugsar til barna sinna fimm og „staðnæmist eitt andartak og reynir að sjá þau fyrir sér á sama hátt og alvitur höfundur raunsæislegrar skáldsögu myndi gera, hefði hann ákveðið að lýsa sonum og dætrum Sturlu Jóns“. [6] Á þennan hátt tekst Braga að koma að sjónarhorni hins alvitra höfundar raunsæisskáldsögu og um leið dregur hann athygli lesandans að því hvers konar verk hann er að lesa.

Og hverskonar verk er lesandi Sendiherrans með í höndunum? Því er ekki gott að svara. Það ber vissulega ýmis einkenni raunsæisskáldsögu og býr meira að segja yfir nokkuð dramatískum hvörfum að hætti slíkra sagna, auk þess að vera einhverskonar þroska saga en jafnframt snýr sagan öllum viðmiðum raunsæislegs skáldskapar á haus, ekki síst sjálfum söguþræðinum eða sögufléttunni. Það sem kannski einkennir Sendiherrann umfram allt sem skáldsögu er að þetta er saga um eitthvað sem ekki gerist því skáldið fer aldrei á ljóðahátíðina. Hann lítur reyndar örstutt við en stendur þá í fyrstu við barinn og er svo um stund inni í matsalnum, áður en hann tekur rútuna til baka til Vilníus. Sömuleiðis er ferðin sjálf vandkvæðum bundin, því Sturla kemur aldrei til baka. Hann fer til Hvítarússlands en það er ekki að sjá að sú ferð sé á neinn hátt upphaf að einhverju nýju, heldur fyrst og fremst flótti frá því gamla, ritstuldinum og ýmsu öðru óþægilegu sem kemur upp á þeim tíma sem Sturla er í Litháen.

Segja mætti því að skáldsagan Sendiherrann fjalli öðrum þræði um það hvernig ber að forðast söguþráð eða sögufléttu, með því að hörfa skipulega undan öllu því sem gefur til kynna rökrétta framvindu og ríghalda sér í það að standa í stað, jafnvel fara afturábak, sniðganga atburði sem kalla á átök og halla sér að flöskunni ef allt annað þrýtur. Enda sannfærist faðir Sturlu Jóns, Jón Magnússon, um að sonur hans sé kófdrukkinn þegar ljóðskáldið hefur lýst fyrir honum, „sérkennilegri atburðarás í tengslum við frakkastuldinn, ljóðahátíðina í Litháen og samdrátt hans og skáldkonunnar“. [7]

Hið óendanlega handrit [8]

Það vantar hvorki áfengi í Handritinu né skort á sögufléttu. Í grunninn er sagan einföld, tveir tæplega sjötugir karlar sigla til Englands til að sækja föðurarf annars og skrifa kvikmyndahandrit. Þó er ekkert einfalt við Handritið, eins og kemur strax í ljós í titlinum, því hér hefur sú list að forðast framvindu sem einkenndi Sendiherrann tekið á sig alveg nýja mynd í krafti sögukonunnar Jennýjar Alexson sem virðist gersamlega ómögulegt að halda sig við efnið og fyllir söguna linnulausum útúrdúrum sem stundum eru útúrdúrar úr útúrdúrum.

Einu sinni las ég dáldið skemmtilega fræðilega útlistun á því hvernig óreiða er fyrirbæri sem vindur ævinlega uppá sig. Óreiða er ástand sem stigmagnast ef ekki er gripið inní og málin tekin föstum tökum, á endanum tekur hún yfir og gleypir heiminn. [9] Þetta var reyndar kenning um fantasíubókmenntir sem eru svona almennt séð nokkuð fjarlægar bókum Braga Ólafssonar en samt á þessi lýsing nokkuð vel við Handritið, því auk þeirrar tilvistarlegu fantasíu sem birtist í kvikmyndahandritinu sjálfu þá er form raunsæisskáldsögunnar sent svo langt út í móa útúrdúranna að það hefur í raun hverfst yfir í andstæðu sína, fantasíuna. Eitt af því sem gerir söguna fantastíska, eða ævintýralega, er einmitt það að það er ekki einu sinni alveg ljóst hver er höfundur hennar, eða réttara sagt, hver segir hana, hverjum og hversvegna. Þó eru í það minnsta tveir höfundar skrifaðir fyrir henni, Jenný Alexson og Bragi Ólafsson.

Margir lesendur kannast væntanlega við frásagnaraðferðina frá líflegum kvöldverðarumræðum (eða umræðum í hverskyns líflegum félagsskap), þarsem sagðar eru linnulausar sögur, oft hafðar eftir einhverjum öðrum, ævinlega brotnar upp af innskotum og aukaatriðum, hliðarsporum og skyndilegum vangaveltum eða hugdettum. Sögurnar spinna sig að því er virðist sjálfkrafa áfram einsog einhverskonar lífvera, einhver úr hópnum kannast við einhvern aðila úr sögunni, flókin tengsl myndast og flækjast enn frekar. Fyrr en varir leysist sagan upp í frumeindir sínar, enginn man lengur hver er að segja hana, því allir taka þátt og halda svo áfram að segja sínar útgáfur í næsta félagsskap. Texti Braga er hreinlega ölvaður af þessari frásagnartækni sem vissulega gerir lesanda nokkuð erfitt fyrir en skapar um leið dásamlega stemningu, margslungið líf (margradda er fræðilega hugtakið) og krefur hann um að takast á við textann, bókina, söguna, sögumanninn (eða konuna), söguhöfund, söguvitund, höfund.

Og um hvað er svo Handritið? Miðað við fyrri skáldsögur Braga þá er þessi óvenju innihaldsrík af söguþráðum og plottum, þótt ekkert þessa leiði sérstaklega til eins eða neins, enda sjálfsagt aldrei markmiðið. Tveir kallar, tæplega sjötugir, leggja upp í sjóferð til Hull. Tilgangur ferðarinnar er tvíþættur. Annarsvegar er annar, Örn Featherby, að sækja föðurarf sinn, tæplega tvöhundruð mokkasíur – og þar með er virðulegur herrafatnaður orðinn hreyfiafl í sögunni rétt eins og í Sendiherranum – og hinsvegar ætla þeir félagar, sem hafa alla ævi burðast með listamannsdrauma án þess að gera nokkurn tíma nokkuð við þá, að skrifa handrit að kvikmynd. Jón Magnússon er nefnilega menntaður kvikmyndagerðarmaður en hefur aldrei snert á kvikmyndagerð síðan hann útskrifaðist heldur starfað sem bókavörður. En núna er stóra tækifærið upp runnið, gamall skólafélagi þeirra og bissnissmaður, Alfreð Leó Thorarensen, býðst óvænt til að fjármagna kvikmynd ef þeir geti lagt fram handrit.

Kallarnir verða uppveðraðir við þetta og taka að spinna á milli sín margvíslegar háfleygar hugmyndir: meðal annars á myndin alls ekki að innihalda frásögn, söguþráð eða framvindu, heldur að vera einskonar myndflétta (svona ekki ólíkt skáldsögum Braga sjálfs, sem hann virðist hér hamingjusamlega gera gys að), og eitt af því sem ruglar frásögnina er þegar lesandi dettur inní lýsingar á þessari kvikmynd sem á stundum er séð útfrá höfundum handritsins, stundum frá sögukonunni og stundum (og það er mest ruglandi) frá sjónarhóli ímyndaðs frægs kvikmyndaleikara sem ætlar að taka að sér hlutverkið og les handritið, allölvaður, í flugvél á leiðinni til Íslands.

Inn í þetta æsispennandi plott blandast svo framhald sögunnar sem sögð er í Sendiherranum en þar er einmitt vísað til ætlaðrar kvikmyndar: „Að vísu hafði hann nýlega minnst á að gamall skólabróðir hans, einhver lyfsali, ætlaði að fjármagna kvikmynd sem Jón og vinur hans, Örn Featherby, höfðu haft í undirbúningi um nokkurt skeið“. [10] Undir lok bókarinnar er þetta svo staðfest frekar þegar Jón spyr son sinn „hvort hann hafi verið búinn að segja honum frá hugmynd þeirra Arnar um uppnámið á veitingahúsinu; bíómynd sem núna sé útlit fyrir að verði gerð“. [11] Í Handritinu komast lesendur svo að því að Sturla Jón situr sem fastast í Hvítarússlandi jafnframt því að fregnir berast að því að ekki aðeins hafi hann stolið nýjustu ljóðabókinni sinni heldur alls ekki mætt á ljóðahátíðina.

Ekki má heldur gleyma lífi sögukonunnar sjálfrar, Jennýjar Alexson, en það kemur þónokkuð við sögu. Bæði vegna þess að faðir hennar, sem var sendiherra (varla tilviljun?), hafði átt nokkur samskipti við föður Arnar, Englendinginn Chas Featherby, og svo einfaldlega vegna þess að hún dregur stöðugt athygli að sjálfri sér og því að hún sé að segja þessa sögu, beinlínis þröngvar sér reglulega inní frásögnina, með sögum af sér og drykkfelldum sambýlismanni sínum, Þorbirni Gesti, sem ekki aðeins þýðir lýsinguna á kvikmyndahandriti þeirra félaga yfir á ensku (og umsemur í leiðinni), heldur breiðir út undarlegar sögur um Sturlu Jón og líf hans í Hvítarússlandi.

En hver er þessi Jenný Alexson og af hverju er hún að segja söguna? Það er hinn óttarlegi leyndardómur sem aldrei verður upplýstur, en tengsl hennar við þá félaga eru þau að hún er systir Fannýjar Alexson, móður Sturlu Jóns og fyrrverandi eiginkonu Jóns Magnússonar.

Höfundurinn

Í hefðbundnum bókmenntafræðum er greint á milli þriggja ‘radda’ skáldverks. Fyrstan ber að telja Höfundinn sem er sá sem setur nafn sitt á bókina og skrifar hana (væntanlega, þó er aldrei að vita, sbr. ljóðabók Sturlu Jóns), svarar spurningum um hana í viðtölum og virkar sem tengibrú yfir í höfundarverkið, önnur verk sama höfundar. Höfundi skal ekki ruglað saman við Söguhöfund sem er einskonar innri rödd sögunnar, sjónarhorn hennar eða vitundarmiðja, sá sem kemur skipan á efnið og kemur ýmsum skoðunum á framfæri í gegnum raddir persóna. Söguhöfundur er síðan alls óskyldur sögumanni, þótt hann sé einnig fulltrúi höfundar að því leyti að hann stígur fram og segir söguna og dregur á stundum athyglina að því að hann er að segja sögu. [12] Í póstmódernískum bókmenntum hefur mikið verið gert úr því að draga þetta lið allt fram á sjónarsviðið og hampa því og jafnframt sá ákveðnum skáldskaparlegum efa um stöðu höfundarins sjálfs með því að hrista upp í þessum greinarmun á höfundi, söguhöfundi og sögumanni [13] en því má þó ekki gleyma að sögumenn sem vekja athygli á sjálfum sér eru órjúfanlegur hluti af sögu (raunsæislegu) skáldsögunnar sjálfrar.

Í Sendiherranum er, eins og áður var nefnt, nokkuð gert af því að draga athyglina að skapnaði skáldverksins þegar aðalpersónan sér sjálfa sig og atburði sem senur í skáldsögu. Þessi tilfinning fyrir söguhöfundi eða mögulega sögumanni er síðan ítrekuð í síðari hluta sögunnar þegar Sturla Jón er séður í speglum (á hótelherbergjum og börum) og þannig færist sjónarhornið um stund út fyrir hann, án þess þó að hægt sé að fyrirbyggja með öllu að þar sé hann sjálfur að skoða sjálfan sig utanfrá. Þessar fínlegu truflanir á frásagnarvitundinni í Sendiherranum eru síðan teknar og þeim klesst yfir alla framrúðuna á Handritinu, svo að í raun verður þessi spurning um stöðu söguhöfundar og sögumanns að einu aðalatriði bókarinnar, líkt og útúrdúrarnir halda söguþræðinum gangandi. Reyndar er bara alls ekki hægt að tala um söguþráð, afsakið mig, en ég bara get ekki orða bundist yfir því að þessi myndlíking um þráð sögunnar er gersamlega útúr kú þegar Handritið er annars vegar. Frekar myndi ég tala um trosnað band, eða jafnvel upprakinn vefnað, kögur, já dúska; allt annað en samþættaðan þráð sem er uppistaðan í samhangandi vefnaði.

Hvernig sem orðalagið má vera, þá er það Jenný sem segir söguna og þjónar að mestu leyti sem sögumiðja eða vitund og þarmeð einskonar söguhöfundur líka. Nema að á stundum þá ‘sökkvir’ hún sér svo niður í söguna að hún samsamast sjónarhorni persóna sinna, aðallega þeirra Jóns og Arnar, auk þess sem útúrdúrar hennar virðast grunsamlega tengdir framvindu sögunnar, eins og kemur berlega í ljós þegar hún beinlínis fregnar atburð sem hún gæti ekki hafa vitað af, nema vegna þess að hún var rétt í þessu að lýsa símtali þarsem þetta kom fram: „því upplýsingarnar um Svan koma frá Alfreð í gegnum símtólið hans Jóns Magnússonar, og ef allt skal vera rétt, og öllu haldið til haga, á ég ekki að hafa aðgang að slíkum samskiptum“. [14] Þegar lesandi leggur þetta saman við ansi nákvæmar upplýsingar Jennýjar af væntanlegum atburðum (og á hvaða síðu þeir muni birtast) og afleiðingum þeirra, svo og því að hún viðurkennir að hún sé í raun þekktur glæpasagnahöfundur sem gefið hefur út undir dulnefni, þá er hætt við að upp komi sá kvittur að sagan sé í raun öll uppdiktuð af þessari Jennýju, að hún sé ekki sögumaður heldur höfundur (eða ‘höfundur’).

En bíðum við, á einum stað virðist Jenný missa tökin á skapnaði sínum en það er þegar kemur að skipinu sjálfu, sem á margan hátt er þungamiðja verksins. Þeir Jón og Örn ferðast sumsé með skipi til Hull vegna flughræðslu þess síðarnefnda og Jenný lýsir því yfir að hún sé alls ekki viss um hverskonar skip þetta er. Það er í sjálfu sér grunsamlegt en ekki batnar staðan þegar í ljós kemur að hún skilur heldur ekki vel af hverju skipið er á þessari leið og enn síður afhverju það bara bíður í höfn eftir heimför þeirra félaga (sem komast aftur heim öfugt við Sturlu Jón, enda er aðkoman að Reykjavíkurhöfn ein af lykilsenum bókarinnar). Skipstjórinn gantast með þetta: „eitthvað um þá einkennilegu ákvörðun skipafélagsins að „geyma dallinn tæpa viku í höfn, eins og hann væri í einhverri sóttkví““ [15] en Jenný er dálítið áhyggjufull: „Gæti hugsast að það sé ég, Jenný, sem ræð því hversu lengi skipið liggur óhreyft við bryggju? Sá langi tími þjónar auðvitað engu öðru en því sem á sér stað í lífi Arnar og Jóns“. [16]

Hér getur lesandi ekki annað en velt fyrir sér hver sé í raun að segja söguna, eða réttara sagt búa hana til, og hvort mögulega standi einhver ‘höfundur’ á bakvið söguna og geti hvenær sem er tekið fram fyrir hendurnar á Jennýju og fyrirskipað atburði, eða atburðaleysi, eins og að láta heilt skip, með manni og mús, bíða tæpa viku í höfn. Er þetta þá kannski alltsaman dæmi um fyrrgreint „notagildi skáldskaparins: að styðja við lífið í því verkefni að hanna atburðarás þess“? [17]

Því skáldskapurinn er alltumvefjandi í Handritinu og spinnst stöðugt saman við lífið. Þeir Jón og Örn byggja kvikmyndahandrit sitt til dæmis á dagblaðafrétt af óvæntum fundi útrásarvíkinga með heimsfrægum leikara og tengja eftirminnilegu uppnámi á veitingahúsi sem þeir félagar hafa sjálfir upplifað. Í handritinu á hinn heimsfrægi leikari, eða persónan sem hann leikur, sem er líka heimsfrægur leikari, að deyja í uppnámi á veitingahúsi. Þetta uppnám tekur síðan stöðugum breytingum eftir því sem þeir heyra fleiri sögur af uppnámum á veitingahúsum og lenda sjálfir í slíkum. Í raun má segja að Handritið virki eins og einskonar samloka, eða hálfmánakaka, því í ljós kemur að ýmsir atburðir í síðari hluta bókarinnar elta uppi atburði í kvikmyndahandriti Jóns og Arnar, sem, merkilegt nokk, fjallar meðal annars um föðurarf.

Og líkt og ekkert verður úr heimsókn Sturlu Jóns á ljóðahátíðina verður ekkert úr neinu í Handritinu, síst af öllu handritinu sjálfu. Þeir félagar, rígbundnir í útúrdúra Jennýar og að auki háðir kófdrukknum frænkum Arnar, lenda í einskonar þeytivindu atburða sem drepur öllu vandlega á dreif og því fæst hvorki botn í föðurarfinn né kvikmyndina. Það fæst ekki einu sinni botn í margboðað morð á fyrstu síðum bókarinnar, því Jenný neitar skyndilega allri vitneskju um hvort yfirhöfuð af því verður. [18]

„Að hanna atburðarás lífsins“

Það er því alveg ljóst að ef skáldskapurinn á að hanna atburðarás lífsins þá er það líf allsundurlaust, allavega ef Bragi Ólafsson er höfundurinn. Í fræðum sem snúa að æviskrifum er það viðtekið að frásagnarformúlan sé nýtt til að hrófla upp einhverjum strúktúr í ævi fólks, líkt og við erum stöðugt sjálf að færa líf okkar í sögur og koma þannig reiðu á það. [19] Frásagnarformúlan sem slík, upphaf, miðja og endir, er auðvitað skálduð, tilbúin leið til að raða atburðum upp og skipa þeim í samhengi orsaka og afleiðinga. Því er óhætt að segja að útgáfa Braga í þessum tveimur skáldsögum sé öllu raunsæislegri en hnitmiðuð bygging raunsæisskáldsögunnar, því miðað við hana er lífið stöðugur útúrdúr, óskipuleg tilraun til að forðast erfiðleika, óþægindi og áhættu, frekar en markviss ferð.

Bragi dregur einmitt sjálfur fram þekkta frásagnarformúlu til að sýna framá hvernig hún stenst ekki en það er sú formúla sem sett er fram í handbók kvikmyndahandritagerðarmanna, Ferð höfundarins eftir Christopher Vogler, og er byggð á hetjusagnaformúlu jungistans og goðsagnafræðingsins Josephs Campbells. [20] Sú formúla byggist síðan á sálgreiningu, kenningum Carls Jungs um þróun og þroska sjálfsins (sem byggist, líkt og hetjuformúla Campbells og saga Braga, á karlkynssjálfi/hetju (reyndar gæti verið áhugavert að skoða Handritið í þessu ljósi sem sögu Jennýjar Alexson sjálfrar)). Samkvæmt þessari formúlu fær hetjan ævintýraútkall sem henni líst ekki á í upphafi en lætur þó læriföður hafa sig út í að leggja af stað í ferð, þarsem mætir henni ýmiskonar mótlæti, auk þess sem hún eignast aðstoðarmenn og andstæðinga. Að lokum kemst hetjan heim, reynslunni ríkari, ný og betri manneskja, og hefur öðlast einhverskonar fjársjóð, ‘gjöf’, sem gagnast bæði henni sjálfri og öðrum. Þeir félagar Jón og Örn máta sig við þessa formúlu sem er auðvitað heimfæranleg á næstum hvaða ferð sem er (nema helst ferð Sturlu Jóns á ljóðahátíðina, því hann fer ekki einu sinni á hátíðina, snýr aldrei til baka og fær engan fjársjóð en stelur að vísu frakka).

Handritið er svo stútfullt af allskyns skáldskaparlegum táknum, textatengslum og tilvísunum (meðal annars í Sendiherrann en frakkar koma nokkuð við sögu) að það hálfa væri yfirdrifið og það er greinilega ‘ætlun’ höfundar að valta yfir allar tilraunir til að negla niður nokkuð sem líkist niðurstöðu eða að sætta sig við að um ‘tilviljanir’ geti verið að ræða. Sem slík er sagan bæði rannsókn á skáldsagnaforminu, eins og Jón Yngvi Jóhannson bendir á í ritdómi sínum, og háðsádeila á slíka rannsókn. [21]

Það sem báðar sögurnar eiga sameiginlegt er að hvað sem öllum ferðum og tilviljunum líður þá bregst skáldskapurinn. Ljóðahátíðin er húmbúkk, ljóðabókin stolin, greinin sem átti að marka nýtt upphaf misheppnuð, kvikmyndahandritið kemst aldrei af hugmyndastiginu en versnar bara sífellt eftir því sem meira er unnið í því. Höfundarnir vonlausir, kvikmyndagerðarmaðurinn Jón hefur aldrei gert kvikmynd og rithöfundurinn Örn hefur aldrei gefið neitt út og sjálf sögukonan Jenný virðist ekki einu sinni hafa stjórn á eigin skáldverki. Einu listamennirnir sem virðast eiga erindi eru löngu látið ljóðskáld sem gerði grín að ljóðum samtíma síns og tilgerðarlegur myndlistamaður sem hefur gerst tónskáld, auk líffræðings sem stundar ljósmyndun. Allur þessi misheppnaði skáldskapur er svo aftur á móti færður í form afar velheppnaðra skáldverka. [22] Þar með myndast enn ein áhugaverð samræða skáldskapar og lífs, lífs skáldsins í þessu tilviki frekar en skáldaðs lífs, þó að mér sé um megn að átta mig á hvort þetta sé dæmi um að lífið elti skáldskapinn eða skáldskapurinn lífið, nema hvorttveggja sé.

Að lokum er ekki úr vegi að nefna að stuttu eftir að skáldsagan Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson kom út lést leikarinn Leslie Nielsen. Um hann er stuttlega fjallað í Handritinu en þeir félagar eru ekki sammála um ágæti hans og því er hann varla hinn mikli erlendi leikari sem fenginn er til að leika aðalhlutverkið í kvikmyndinni inni í kvikmyndahandritinu en deyr áður en til þess kemur. En Leslie Nielsen dó, samt.

 

Úlfhildur Dagsdóttir

 

Tilvísanir

 1. Bragi Ólafsson, Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson, Reykjavík, Mál og menning 2010, bls. 58.
 2. Hér vísa ég fyrst og fremst til kenninga franska heimspekingsins Jacques Derrida um hina eilífu merkingarfrestun sem er innbyggð í allan texta. Sjá til dæmis Of Grammatology (á frönsku De la grammatologie 1967), þýð. Gayatri Chakravorty Spivak, Baltimore og London, The Johns Hopkins University Press 1976. Merkingarfrestunin kemur einfaldlega til af því að það er ómögulegt að ráða yfir endanlegri merkingu texta, af þeirri ástæðu að ritaður texti byggist á notkun á tungumáli og orðum sem eiga sér sína sögu og hefðir og þannig alltaf einhverskonar merkingarauka sem birtist meðal annars í myndmáli.
 3. Í ritdómi sínum um Handritið bendir Hjalti Snær Ægisson á að Bragi hafi horfið frá því að tálga niður textann í fyrstu skáldsögum sínum yfir í algert flæði og vaðal í Handritinu. Flutt í Víðsjá á RÚV 1. 12. 2010. Ritdóminn má nálgast á ruv.is.
 4. Pétursborgarsögur komu út í íslenskri útgáfu hjá Hávallaútgáfunni árið 2004, Geir Kristjánsson þýddi „Kápuna“.
 5. Bragi Ólafsson, Sendiherrann: ljóð í óbundnu máli, Reykjavík, Mál og menning 2006, bls. 113 og 76.
 6. Sendiherrann, bls. 146.
 7. Handritið, bls. 152.
 8. Umfjöllun mín um Handritið byggist á ritdómi sem ég skrifaði fyrir bokmenntir.is, desember 2010.
 9. Sjá Rosemary Jackson, Fantasy: The Literature of Subversion, London og New York, Methuen 1986 (1981). 1
 10. Sendiherrann, bls. 33.
 11. Sama, bls. 357.
 12. Sjá um höfundarraddir, Shlomith Rimmon- Kenan, Narrative Fiction: Contemporary Poetics, London og New York, Routledge 1996 (1983), sérst. kafla 7, „Narration: levels and voices“.
 13. Ég hef fjallað um þetta í skrifum mínum um Sjón, til dæmis í yfirlitsgreininni „„ég vil að þið sjáið mig fyrir ykkur“: myrkar fígúrur, rauðir þræðir og Sjón“ á bokmenntir.is (2001) og „Skyldi móta fyrir landi? Af leirmönnum, varúlfum og víxlverkunum“, Skírnir, haust 2002.
 14. Handritið, bls. 296.
 15. Sama, bls. 407.
 16. Sama, bls. 172–173.
 17. Sama, bls. 58.
 18. Ég er þó ekki sammála Hjalta Snæ í því að þetta þýði að Handritið sé hálfklárað verk og að niðurstöðuleysið stafi af því að þetta er bók númer tvö í fjögurra bóka seríu. Ég tel einmitt að niðurstöðuleysið sé markmið út af fyrir sig, niðurstaða, ef svo má segja. Sjá ritdóm Hjalta Snæs Ægissonar á vef RUV, síðast skoðað 3. 2. 2011.
 19. Gunnþórunn Guðmundsdóttir hefur fjallað um þetta í skrifum sínum, sjá til dæmis bók hennar Borderlines: Autobiography and Fiction in Postmodern Life Writing, Amsterdam og New York, Rodopi 2003.
 20. Bók Voglers kom út í íslenskri þýðingu Sigurgeirs Orra Sigurgeirssonar árið 1997, en er upphaflega útgefin árið 1992. Bók Campells, The Hero with a Thousand Faces, er frá árinu 1949.
 21. Sjá ritdóm Jóns Yngva Jóhannssonar í Fréttablaðinu, 30. 11. 2010. Ritdóminn má nálgast á vef Fréttablaðsins, síðast skoðað 2. 2. 2011.
 22. Einar Falur Ingólfsson bendir einmitt á þetta í ritdómi sínum um Handritið í Morgunblaðinu, 4. 12. 2010. Dóminn má nálgast á mbl.is, síðast skoðað 2. 2. 2011