Stefán Snævarr. Kredda í kreppu: Frjálshyggjan og móteitrið við henni.

Heimskringla, háskólaforlag Máls og menningar, 2011.

Einar Már Jónsson. Örlagaborgin: Brotabrot úr afrekasögu frjálshyggjunnar – fyrri hluti.

Ormstunga, 2012.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2012

Ekki leið langur tími frá því þrír helstu bankar landsins féllu haustið 2008 uns bækur tóku að birtast um ástæður þess og aðdraganda. Sjónarhorn höfunda voru nokkuð ólík, m.a. röktu starfsmenn og jafnvel stjórnendur bankanna reynslu sína af hugarfarinu og vinnumenningunni sem þreifst innan þeirra og hafði þær afleiðingar sem allir þekkja. [1] Segja má að þannig hafi orðið til ákveðin bókmenntagrein sem náð hafi hápunkti sínum og endalokum með Rannsóknaskýrslu Alþingis vorið 2010.

Enda þótt skýrslunni hafi ekki verið ætlað að eiga lokaorðið um efnið virðist, kannski af skiljanlegum ástæðum, ekkert rit hafa komið út eftir hana sem hefur sögu bankahrunsins og tengdra atburða að meginumfjöllunarefni. Þess í stað tóku bækur að birtast sem deildu á þá stjórnmálalegu hugmyndafræði sem á að hafa búið hegðun bankanna, lagalegri umgjörð þeirra og stefnu, að baki, a.m.k. frá því þeir voru einkavæddir. Er þar átt við frjálshyggjuna eða nýfrjálshyggjuna, eins og hún hefur verið nefnd á sl. áratugum.

Fyrst í þessum flokki kom út greinasafnið Eilífðarvélin, sem skoðaði umrædda hugmyndafræði á gagnrýninn en nokkuð mismunandi hátt, en svo rit Stefáns Snævars, Kredda í kreppu: Frjálshyggjan og móteitrið við henni, og Örlagaborgin: Brotabrot úr afrekasögu frjálshyggjunnar – fyrri hluti eftir Einar Má Jónsson. [3] Verður hér gerð grein fyrir tveimur síðastnefndu bókunum.

Ítarlegir ritdómar hafa birst um þessar bækur í tímaritinu Þjóðmálum [4] þar sem þeim ásökunum er hafnað að frjálshyggjan hafi átt sök á bankahruninu. En rit af sama umfangi frjálshyggjunni til varnar hefur ekki litið dagsins ljós. Þau sem þó hafa komið út snúast fremur um að kynna trúarleg rök fyrir græðgi [5] eða að boða – í formi sjálfshjálparrits – útópíska samfélagssýn þar sem tryggt sé að opinberar eftirlitsstofnanir o.fl. dragi ekki úr persónulegri ábyrgð hvers og eins á eigin lífi. [6]

En hvað einkennir þessi tvö uppgjörsrit við frjálshyggjuna? Svo óvenjulega vill til að höfundar Kreddu í kreppu og Örlagaborgarinnar eru báðir háskólakennarar sem dvalið hafa og starfað áratugum saman erlendis en segjast hafa fundið hjá sér þörf til þess að reyna að forða landsmönnum undan frekari áföllum af völdum umræddrar stefnu. Hvorugur þeirra lýsir sér sem mótföllnum kapítalísku hagkerfi, heldur aðeins þeirri stefnu við rekstur þess sem frjálshyggjan er.

Það er sammerkt með báðum höfundum að rit þeirra eru að stórum hluta skrifuð hagfræðinni til höfuðs. Umfram allt vakir þó fyrir þeim að taka hana niður af stalli raunvísinda en að þeirra áliti eiga margir hagfræðingar það til að fella af þeim stalli sama óvænta dóminn um hin ýmsu samfélagslegu álitamál, þ.e.a.s. „einkavæðið!“. Hagfræðin eigi hins vegar fremur heima meðal t.d. félagsvísinda og jafnvel lista. Með þessu virðist mér þó ekki sem umræddir höfundar kasti barninu með baðvatninu, þ.e. varpi öllum hagfræðilegum rökum í stjórnmálaumræðu fyrir róða, enda gegna rök af því tagi mikilvægu hlutverki í gagnrýni þeirra á frjálshyggjuna. En takist þeim að sýna fram á þetta ofdramb hagfræðinnar telja þeir sig um leið geta svipt frjálshyggjuna tilkalli sínu til vísindalegra yfirburða yfir aðrar stjórnmálastefnur og að hún glati þannig „samkeppnisforskoti“ sínu á þær.

Miðjan harða og hentistefnan mjúka

Kredda í kreppu – Frjálshyggjan og móteitrið við henni

Kredda í kreppu – Frjálshyggjan og móteitrið við henni (2011)

Það sem heimspekingurinn Stefán Snævarr býður upp á í stað frjálshyggjunnar, er hafi átt „ekki eilítinn þátt í hruni Íslands og kreppu heimsins“ (13), er engin algild samfélagsskipan til handa öllum jarðarbúum, heldur „móteitur“ sem hann nefnir „miðjuna hörðu og hentistefnuna mjúku“. Eins og nafn þessa elixírs gefur til kynna eru birtingarmyndir hans ólíkar eftir aðstæðum. Ekki sé því um að ræða stjórnmálastefnu sem væri gagnstæð en samhverf frjálshyggjunni, eins og Stefán álítur marxismann vera, heldur sveigjanlega afstöðu sem hafni kreddufestu bæði til hægri og vinstri.

Núverandi aðstæður krefjist þess hins vegar að gagnrýnin beinist að mestu að hægri kreddum, þ.e. þeim sem í sameiningu skilgreini frjálshyggjumanninn. Þær eru: a) „enginn má hindra einstaklinginn í að gera það sem honum sýnist svo fremi hann skaði ekki aðra“, b) ríkið eigi ekki að gera annað en að vernda frelsisréttindi einstaklingsins og c) sjá til þess að leikreglum markaðarins sé fylgt, því d) „frjáls markaður er kjölfesta frelsisins“ og e) „tryggir mönnum betri kjör en önnur efnahagskerfi“ (25).

Stefán bendir t.a.m. á að kennisetningar (d) og (e) séu engan veginn augljós sannindi, enda megi mótsagnarlaust halda öðru fram, og tínir hann til ýmsar vísbendingar þess að þær verði heldur ekki studdar út frá reynslu undangenginna áratuga. Þannig sé það ríkið sem helst geti tryggt að markaðsviðskipti fari fram með sæmilega frjálsum hætti og það sé fremur blandað hagkerfi en algerlega frjáls markaður sem tryggi bestu kjörin.

Hann hafnar því ekki að einkafyrirtæki búi yfir mikilvægri þekkingu og innsýn sem geri þeim kleift að þróa ýmsar nýjungar – en það þýði heldur ekki að ríkið einkennist þar með af þekkingar- og frumkvæðisskorti, heldur hafi það oft betri yfirsýn, auk þess sem einkafyrirtæki byggist gjarnan á þekkingu sem hafi orðið til vegna þess að ríkið hafi veitt skattfé í rannsóknir sem höfðu ekki fjárhagslegan gróða að skammtímamarkmiði. Auk þess hafi fyrir löngu sýnt sig að á sumum sviðum eigi ekki að ríkja samkeppni milli einkaaðila, heldur fari best á því að ríkið annist þjónustu á borð við vitavörslu. Hyggilegast sé að ríki og einkaaðilar leiki saman af fingrum fram en ekki t.a.m. eftir niðurnjörvuðum áætlunum.

Þetta má orða svo að í stað fylgispektar við algildar formúlur leggi höfundur Kreddu í kreppu áherslu á mikilvægi þess að menn beiti dómgreind sinni við mismunandi aðstæður, enda ekki til sérstök regla um hvernig eigi að fylgja reglum. Samfélögin og hefðir þeirra séu ólíkar og því sé ekki hægt að halda því fram í nafni meintrar fræðikenningar að mannseðlið sé eitt og hið sama á öllum öldum og stöðum. Þannig hafi Hagmennið (homo economicus) ekki alltaf verið til, þ.e. sú afstaða að láta öll önnur sjónarmið lönd og leið en þau að selja fyrir hæsta verðið og kaupa fyrir það lægsta. Slíkt geti ekki verið eitthvert eilíft eðli mannsins.

Að vísu heldur Stefán því fram að rannsóknir bendi til þess að réttlætiskennd og samúð séu áskapaðir eiginleikar manna og gæti hann með því virst boða algilt samfélagslegt eðli manna en hann er fljótur að bæta við að „[m]ikilvægust [sé] þó sú staðreynd að mannskepnan er illútreiknanleg, hennar eðli er ekki auðfundið“ (254). En þar eð mannseðlið er ekki eitt eru markaðir og ríki heldur ekki öll eins. Allt sé þetta aðstæðubundið: Í sumum þjóðfélögum gagnist aukið markaðsfrelsi, í öðrum verði það til þess að frelsið snúist upp í andhverfu sína, auðhelsi. Það geti í raun verið enn svæðisbundnara hvaða stefnu beri að fylgja hverju sinni og jafnaðarstefnan átt við um aðgang manna að heilbrigðisþjónustu en markaðshyggjan ein um verðbréfaviðskipti. En hvar mörkin liggja verður reynslan að skera úr um, hvernig sem hún er síðan metin eða mæld.

Enn fremur reynist mjög erfitt að finna einhlíta skilgreiningu á lykilhugtaki frjálshyggjunnar, frelsinu; væntanlega megi aðeins hrekja vissar kenningar um frelsið en ekki sanna neina. Leggur Stefán því til að notast sé við mismunandi gerðir frelsis eftir samhengi. En fyrir vikið verður frelsisskilningur frjálshyggjumanna (sjá (a) í upptalningunni hér að ofan) æði þröngur, einkum vegna þess hvernig þeir forðist að líta á manninn sem samfélagsveru, t.d. myndu þeir „aldrei viðurkenna að uppeldi geti aukið eða minnkað frelsi manna“ (181) og „hljóti að viðurkenna að bann við mansali sé frelsisskerðing“ (169).

Í umfjöllun sinni um aðgreiningu Isaiahs Berlin á jákvæðu og neikvæðu frelsi, þ.e. sjálfræði og kvaðaleysi, segist Stefán – í góðu samræmi við öfgalausa miðjustefnu sína – vera „neikvæður jákvæðnisinni“: Slíkur maður „lætur sér nægja að berjast gegn gefnum takmörkunum á sjálfræði í stað þess að berjast fyrir algeru sjálfræði“ (176). Og „sem hentistefnumaður hlýt ég að játa að frelsið er ekki heilög kýr,“ (189), þ.e. ekki tilgangur í sjálfu sér, ólíkt því sem frjálshyggjumenn boða.

Þessi sjálfslýsing höfundar er í samræmi við aðrar, t.d. segist hann aðhyllast „neikvæða jafnaðarmennsku“: Í því felst að hann er „ekki endilega fylgismaður mikils jöfnuðar“ (303), forðist stórtækar og áhættusamar þjóðfélagstilraunir í anda „lýðræðislegs sósíalisma“ (219) og mælir þess í stað með svokölluðu „lágmarksvelferðarríki“, sem sjái til þess „að allir borgarar njóti lágmarksöryggis“ (282) en geri þá ekki háða opinberri aðstoð. Þó segist Stefán einnig vilja 1) „koma í veg fyrir að menn fari á vonarvöl og verði jafnt örbjarga sem valdlausir“, 2) „tryggja öllum sem jöfnust tækifæri“, 3) „berjast gegn auðvaldi“, 4) „efla eftirspurnarhliðina, neytendur“ þegar þess þarf og 5) draga með þessum hætti úr þjóðfélagslegum kostnaði af misskiptingu auðs (304–307). Ef til vill er það því nokkuð vandrataður vegur sem „miðjan harða og hentistefnan mjúka“ vill vísa mönnum. [7]

Í skólaspeki miðalda þróaðist svonefnd quæstio-aðferð við að rökræða heimspekileg og guðfræðileg efni. Var þá fyrst fjallað um eina skoðun, því næst um andstæða skoðun og loks sett fram hin rétta skoðun með tilliti til kosta og galla hinna. Segja má að höfundur Kreddu í kreppu fylgi með nokkuð samfelldum hætti svipaðri aðferð, auk þess sem hann setur fram rök sín eða mótrök í tölusettum liðum uns hann í lokin telur upp meginniðurstöður bókarinnar í 30 atriðum eða „þesum“.

Þótt þetta sé óneitanlega heldur fastmótað mynstur hefur það þann kost að setja í upplýsandi samhengi fjölda samtímahugmynda og tilgátna um samfélags- og efnahagsmál, réttlæti, lýðræði og sjálfið. Höfundur er ekki ragur við að kynna lesendum skoðanir sínar en með því að fylgja „miðjunni hörðu“ virðist mér hann oft forðast að taka eina stefnuna fram yfir aðra sem illskárri kost. Þótt það teldist seint til dygða í stjórnmálum þarf það alls ekki að vera ókostur hjá fræðimanni heldur til marks um vönduð vinnubrögð, sem birtast líka í því hversu ófeiminn Stefán er að viðurkenna það þegar hann skortir rök fyrir ákveðinni tilgátu eða til þess að geta tekið afstöðu.

Þótt „miðjan“ eigi ekki að vera neitt „miðjumoð“ hefði maður þó stundum viljað sjá minni varfærni í umfjöllun hans um t.d. ólíkar kenningar um kosti og galla hnattvæðingar en kannski er þar á ferðinni efni sem glannalegt væri að fella einfaldan dóm um. Sjálfur leggur hann áherslu á að reyna fremur „að finna viðunandi rök fyrir sæmilega þolanlegu skipulagi samfélagsins“ (219) og að hann sé umfram allt „spurnarmaður, ekki svaramaður!“ (161).

Almennt má segja að höfundur sé jafnan glöggur á veilur í málflutningi þeirra sem hann fjallar um. Það vill stundum brenna við í gagnrýnni umfjöllun manna um kenningar sem þeir eru ósammála að þeir fari töluvert mýkri höndum um þær sáttalausnir sem þeir tefla sjálfir fram og ber lof Stefáns á t.a.m. ígrundað lýðræði (þ. deliberative Demokratie) Habermas eða hnekkingarlýðræði (e. contestory democracy) Pettits þess merki (224–227). Eins hefði hann mátt gera betur grein fyrir tilgátu sinni um að til séu samréttindi „hópa, jafnvel heilla samfélaga“ (243). Því eru þá ekki líka til samsvarandi skyldur hópa? Og erum við þá ekki farin að brjóta okkur leið út úr einstaklingsmiðaðri hugsun frjálshyggjunnar um réttindi og skyldur og gera grein fyrir ákveðnum veruleika sem hún er blind á?

Í umfjöllun sinni um rökvísi Hagmennisins, þ.e. eigingirnina eða sérgæskuna, tekur Stefán fram að strangt til tekið trúi frjálshyggjumenn því ekki endilega að menn séu eigingjarnir í eðli sínu og vitnar því til sönnunar í skilgreiningu Friedman-hjónanna á sérgæsku („self-interest“): „It is whatever it is that interests the participants, whatever they value, whatever goals they pursue.“ (245) Einhvern veginn virðist mér þá sem botninn sé dottinn úr þeirri kenningu að ekki megi trufla gerendur á frjálsum markaði sem leitist við að hámarka eigin hag (og gagnist þar með óbeint samfélaginu öllu skv. kenningunni um ósýnilegu höndina): Stefán tekur fram á sama stað að það sé „illmögulegt að vera bæði Friedman-sinni og telja að menn geti valið milli græðgi og gæsku“ (244).

En ef „eigin hagur“ getur merkt hvað sem er, þá getur hann allt eins birst sem meðvituð andstaða við græðgi, hvernig sem við síðan hugsum okkur þá andstöðu. Að þessari mótsögn virðist mér ekki hugað í bókinni. En atriði sem þetta breyta því ekki að í Kreddu í kreppu er að finna urmul af skörpum greiningum sem gagnlegt er að skoða oftar en einu sinni.

Homo historicus

Örlagaborgin

Örlagaborgin (2012)

Í upphafi Örlagaborgarinnar vekur sagnfræðingurinn Einar Már Jónsson athygli á því að „þrátt fyrir hrunið og það sem í kjölfar þess fylgdi, er eins og ýmsar af […] kennisetningum [frjálshyggjunnar] standi enn án þess að nokkur hafi tilburði til að vefengja þær“ (11). Þessi staðreynd hafi orðið honum hvatning til þess að leggja til atlögu við frjálshyggjuna – en á umfangsmeiri hátt en gert hafi verið til þessa: „það verður að fara lengra og athuga hvernig þessar kenningar urðu til, hvaða hlutverki þær gegndu og hvernig þær bárust áfram; það þarf semsé að kafa ofan í þessi fræði og skoða hvað kunni að vera að baki vígorðanna.“ (12)

Miðast efni þessa fyrra bindis verksins við það og fjallar einkum um svonefnda klassíska hagfræði, því frjálshyggjan er umfram allt „skýr og afmörkuð kenning í hagfræði“ sem hvílir „á ákveðnum hugmyndum um eðli mannsins og samfélagsins“ þótt sú stjórnarstefna að „hrinda þeirri kenningu í framkvæmd, móta efnahagslífið og reyndar þjóðlíf allt eftir forskrift hennar [sé] einnig nefnd frjálshyggja“ (28). Þessi stjórnmálastefna, sem hafi á undangengnum áratugum gengið út á að „einkavæða allt, bæði það sem þjóðnýtt var á tímum velferðarþjóðfélagsins og annað sem áður hafði yfirleitt verið talið í verkahring ríkisvaldsins“ (32–33), byggist því í raun á ákveðnum skóla innan hagfræðinnar:

Þeir sem kalla sig „frjálshyggjumenn“ styðja sig einkum við verk fáeinna hugsuða á 18. öld og fyrri hluta hinnar 19. sem eru þeirra Gamla testamenti: það er Adam Smith og rit hans um Auðlegð þjóðanna sem er Lögmálið, og svo Thomas Malthus og David Ricardo, að ógleymdum árgölunum John Locke og Bernard Mandeville sem eru Spámennirnir. (29)

Sú frásagnaraðferð sem Einar Már beitir þegar hann fjallar um þennan straum í hugmyndasögunni er þó með óhefðbundnara móti því hann bregður upp svipmyndum af 1) sögulegum viðburðum er tengjast sögu frjálshyggjunnar, 2) lætur ólíkar söguhetjur taka til máls og lýsa eigin hugmyndum og 3) teflir fram misjafnlega raunhæfum valkostum við þá atburði sem sagan geymir (og mætti kalla „sagnfræði í þáskildagatíð“). Þessar „sýningar“ birtast lesanda innan svokallaðrar Örlagaborgar sem er þrískipt eftir þessum ólíku tegundum frásagna.

Ritinu er því ætlað að vera í senn heimspekilegt verk og glæpareyfari og telur höfundur best fara á að lýsa því sem „skáldsagnfræði“ án þess þó að það teljist vera „söguleg skáldsaga“. Með því að velja þessa flóknu nálgun gefur höfundur sér meira frelsi en leyfist innan hefðbundinnar sagnfræði við að sýna fram á einn helsta boðskap verksins, þ.e. hvað framvinda sögunnar er háð mörgum tilviljunum og hvernig hún hefði getað orðið önnur en raunin varð. Ekki verður þó séð að með þessu sé slakað á lágmarkskröfum til fræðirita nema að því leyti að blaðsíður í heimildum eru ekki tilgreindar, sem er miður því ekki hefði textinn og læsileiki hans liðið fyrir það.

Til þess að skýra úr hvaða jarðvegi klassísk hagfræði er sprottin fjallar höfundur um breytingar í þjóðfélagsgerð á Bretlandi og stöðu landsins í alþjóðastjórnmálum fram yfir aldamótin 1800. Einna mikilvægastar virðast honum þar vera svokallaðar „girðingar“ frá lokum miðalda og fram á miðja 19. öld, þ.e.a.s. eignarnám landeigendaaðals og stórbænda á „almenningi“ eða beitilöndum sem smábændur nota í sameiningu. Þessar jarðir girða þeir fyrrnefndu af og nota undir stórfellda sauðfjárrækt og ullarútflutning. Bændur sem misstu þannig beiti- og ræktarlönd sín tóku því ekki þegjandi og hljóðalaust en máttu sín þó æ minna fyrir ráðandi öflum eftir því sem á leið. Samfélög þeirra, sem byggst höfðu á ríkri samvinnu, samábyrgð og almennri kunnáttu í búskap, urðu að víkja fyrir landbúnaði „sem rekinn er út frá gróðasjónarmiði einstaklings einu saman“ (91): fjöldi þeirra fer á vergang og áður blómlegar sveitir leggjast í eyði.

Samhliða þessari þróun til aukins kapítalisma taka viðhorf að breytast til fátæktar hjá efri stéttum en einnig innan siðfræði og guðfræði. Eftir því sem atvinnulausum fátæklingum fjölgar dregur úr þeirri siðferðislegu skyldu að veita þeim aðstoð. Þess í stað eru þeir álitnir bera ábyrgð á eigin óförum, einkum vegna þess hversu „latir“ þeir séu. Höfundur spyr:

En hvernig gátu þessi umskipti orðið? Ég held að eina haldbæra skýringin sé sú að þessi viðhorf séu sprottin upp við mjög sérstakar aðstæður meðal yfirstéttar sem hleypir gersamlega fram af sér beislinu í græðgi og skákar í því skjólinu að enginn geti skakkað leikinn, ekkert vald sé henni sterkara, hún komist því upp með hvað sem er. Tilfinningarnar gagnvart lágstéttunum mótast þá af þeirri nokkuð svo útbreiddu reglu, að menn fara að hata þá sem þeir ræna og féfletta og eigna þeim allt illt. Við aðrar kringumstæður hefðu þessi viðhorf sennilega átt talsvert erfiðara uppdráttar. (121)

Þessi fyrirlitning á fátæklingum og lægri stéttum hafi síðan skilað sér inn í klassíska hagfræði og frjálshyggjuna, s.s. í lögmálinu sem kennt er við J.-B. Say (305–7).

Annar þáttur bætist við þessa þjóðfélags- og hugarfarsbreytingu, þ.e. „almenna framfarakenningin“ um að mannkynið taki framförum eftir ákveðnum lögmálum „ofar vilja eða gerðum einstakra manna“. Þetta kann að virðast koma illa heim og saman við sterka einstaklingshyggju frjálshyggjusinna en þó fallast þeir jafnan á að skuggahliðar framfaranna megi „skýra sem nauðsynlegar fórnir sem menn verði að færa fyrir framfarirnar svo þær geti haldið áfram“ (193). Þannig hafi verið óumflýjanlegt og til lengri tíma litið þess virði að með „girðingunum“ hafi „vísindalegur landbúnaður“ tekið við af „óvísindalegum“.

Þriðji áhrifaþátturinn er svo sá að fyrir vissa heppni verður Bretland að „lávarði heims“ seint á 18. öld og drottnar yfir heimshöfunum og heimsversluninni en það gagnast landinu við að ná efnahagslegri stórveldisstöðu sinni, er byggist á „óheilagri þrenningu“ baðmullariðnaðar, vélvæðingar og þrælasölu. Þessari breyttu stöðu Breta fylgdu umskipti í viðskiptastefnu þeirra: Til þess að geta byggt upp innlendan baðmullariðnað höfðu þeir til þessa fylgt strangri verndarstefnu. „En þegar þeir voru búnir að ná undirtökunum, losa sig við keppinauta og þurftu að hafa ótepptan aðgang að mörkuðum um allan heim, sneru þeir við blaðinu og þá varð „frjáls verslun“ jafn mikill sannleikur og verndarstefnan hafði áður verið.“ (174–5) Hin klassíska hagfræði er þá til í fullmótaðri mynd til þess að rökstyðja og löghelga þá stefnubreytingu.

Nú eru til ólíkar túlkanir á þessum sögulegu fyrirbærum og eflaust hægt að setja spurningarmerki við einstaka atriði í þessari frásögn. [8] Fyrir höfundi vakir fyrst og fremst að sýna að þessi sögulegu ferli hafi mótað hugmyndakerfi klassískrar hagfræði sem og verið forsendan fyrir því hversu miklum áhrifum hún náði og virðist mér sú röksemdafærsla býsna sannfærandi. Það hafi því verið aðstæður eða samverkan langtímaþróunar af þrennum toga sem kölluðu eftir slíku kenningakerfi fremur en að það hafi fyrir eigin verðleika orðið að ráðandi hugmyndafræði.

Til þess að sýna fram á að svo sé tekur Einar Már til við að rýna í kenningar höfunda klassísku hagfræðinnar og rökin sem þeir færa fyrir þeim. Mesta umfjöllun verðskuldar Auðlegð þjóðanna eftir Adam Smith. Í henni er að finna þær hugmyndir sem frjálshyggjan byggist helst á og lítur á sem óbifanleg lögmál sem Smith hafi leitt í ljós fyrstur manna og með því markað þáttaskil í sögu hagfræðinnar. „[R]étt er að vera á varðbergi þegar einhver ritsmíð er hafin á stall og kveikt á reykelsi“ (151) segir Einar Már og bendir á að fæstar þessara hugmynda hafi fyrst birst í Auðlegð þjóðanna, jafnvel hugmyndin um „ósýnilegu höndina“, sem Smith sé svo þekktur fyrir (enda þótt hún skipti fjarska litlu máli í sjálfu ritinu), eigi sér sína fyrirrennara.

Nú þarf það ekki að vera galli á riti, nema síður sé. En röksemdafærslurnar fyrir meginkenningunum í Auðlegð þjóðanna virðast þó ekki mjög burðugar í endursögn Einars. Að hætti eðlisfræði Newtons leitar Smith grundvallarlögmálsins sem skýri öll fyrirbæri efnahagslífsins í „tilhneiging[ u] mannsins til að vera í sífellu að býtta og versla með alla hluti“ (214), enda þótt augljóst megi teljast að flest fólk sé fegið að þurfa ekki að standa í slíku.

Áður en Einar Már beinir sjónum að helstu kennisetningunum sem frjálshyggjan hefur eimað úr ritinu kannar hann hvort ekki megi bera í bætafláka fyrir Smith með þeim rökum að ekki sé hægt að ætlast til þess að kenningar hans séu hafnar yfir tíma en að þær hafi þó átt vel við þegar hann var uppi. En jafnvel það reynist erfitt því Smith ofgerir að mati Einars hlut markaðarins innan efnahagskerfisins: markaðurinn hafi fremur verið miðhæðin í efnahagsbyggingunni.

Á lægsta stiginu hafi einkum farið fram vöruskipti milli bænda sem lutu öðrum lögmálum en leitinni að hámarksgróða og á efsta stiginu hafi stórkaupmenn unnið að því að losna undan allri samkeppni með því að komast í einokunaraðstöðu og ráða verðlaginu. Á miðstigi markaðarins hafi samkeppnin auk þess síður staðið um verð en um athygli viðskiptavinanna. „Kenningin um sjálfstýrðan markað, sem móti efnahagslífið samkvæmt framboði og eftirspurn, er því hugarsmíð“ (227), ályktar Einar.

Út af fyrir sig er ekkert í þessari gagnrýni sem útilokar að hægt sé að koma á sjálfstýrðum markaði, og þarf því að skoða hvernig Smith sá fyrir sér að slíkur markaður gæti virkað. Stoðirnar sem kenning Smiths um hann hvílir á – og eru um leið helstu kennisetningar frjálshyggjunnar – eru þrjár, þ.e. 1) markaðslögmálin þar sem ósýnilega höndin vinnur sína vinnu öllum til hagsbóta, 2) mikilvægi þess að skipta sér ekki af gangvirki markaðarins og 3) kenningin um Hagmennið.

1) Sú sýn að það sé heildinni til hagsbóta ef hver og einn hefur eigin hag að leiðarljósi (en fórni ekki eigin hagsmunum) byggist á hugmyndinni um „náttúrulegt samræmi hagsmunanna“. En sú hugmynd „stendur og fellur með þeirri kenningu að vinnan ein skapi verðið og þannig sé til eitthvert „náttúrulegt verð“ sem markaðsviðskipti geti byggst á og tryggi að hver fái að lokum sinn hlut“ (245). Eins og Einar bendir á býður sú kenning ekki upp á nein endanleg rök fyrir því hvert hið náttúrulega verð eigi að vera (233), því tveir af þremur þáttum þess, ágóði og landleiga, byggjast ekki á vinnuframlagi launþega, heldur einokunarstöðu vinnuveitenda, sem reyna að hækka leiguna og eigin ágóða sem mest þeir geta. Hagsmunir hvors um sig eru þá heldur ekki í neinu samræmi, „náttúrulegu“ eða öðru. Til þess að markaðurinn verði öllum til hagsbóta þyrfti hann auk þess að vera „gagnsær“, þ.e. allar upplýsingar á honum aðgengilegar, og hver maður að hugsa „rökrétt“ innan hans. En hvorugt er sjálfgefið, eins og þekkt dæmi voru þegar um á tímum Adams Smith, s.s. „Túlípanaæðið“ eða -bólan í Hollandi 1630–37:

Af þessu má nú ráða að í „markaðsviðskiptum“ er engan veginn hægt að treysta því að menn hafi nokkra hugmynd um það hverjir þeirra raunverulegu hagsmunir eru og hagi sér skynsamlega eftir því. […] Þess vegna eru engin markaðslögmál einhlít, það verða bólur og hrun og markaðirnir bregðast eins og við blasir á þessum síðustu tímum. Ef „ósýnilega höndin“ skyldi nú leynast einhvers staðar er hún afskaplega hrekkjótt og margan manninn hefur hún teygt á asnaeyrunum fram af bjargbrúninni. (250)

2) Út frá hugmynd sinni um markaðslögmálin lítur Adam Smith á hvers konar afskipti af samspili einstaklinga á markaði, s.s. stéttarfélög er berjast fyrir sameiginlegum hagsmunum meðlima sinna, sem tegund „einokunar“ er trufli samkeppnina. „En fyrir þessu eru ekki nokkur rök,“ segir Einar og ekkert sem sýnir að samkeppni án afskipta leiði ekki að lokum til einokunar. Þvert á afskiptaleysisboðskap Smiths í slíkum tilvikum hafi ríkisvaldið – sem slíkur „einokunaraðili“ – gripið inn í gangverk frjáls markaðar til þess að lágmarka skaðann af uppskerubresti og hungursneyð á 18. öld; annað hefði ekki verið ábyrgt. Í því ljósi birtust kenningar Smiths sem „einstrengingslegar, meinlokukenndar og í rauninni alrangar. […] Dómstóll reynslunnar hafði þegar vísað þeim á bug áður en Adam Smith hafði lokið við að lesa þær fyrir“ (257). Honum til málsbóta megi þó segja að hann hafi ætlað ríkisvaldinu veigamikið hlutverk en þó aðeins utan efnahagslífsins, s.s. að mennta lágstéttirnar til þess að gera þær að ábyrgum og skynsömum borgurum og var Smith þar langt á undan sinni samtíð.

3) Í samræmi við nýja afstöðu manna til fátæktar, sem áður var minnst á, heldur Adam Smith því fram að maðurinn sé í eðli sínu latur og fáist ekki til þess að gera neitt nema hann geti vænst peninga fyrir. Á þessum einkennilega mannskilningi hvíli hugmyndin um Hagmennið sem „rökrétt“ hegðun í samskiptum manna á markaði.

Svo stiklað sé á stóru í seinni hluta ritsins, þá er þar einnig fjallað um kenningar Thomasar Malthus og Davids Ricardo og þær afgreiddar sem loftkastalar er hafi takmörkuð tengsl við veruleikann (en umtalsverð áhrif á samfélagið!). Höfundur bregður svo upp mynd af því þjóðfélagi sem komst næst því að fylgja kennisetningum klassískrar hagfræði, þ.e. England á 19. öld: Alþjóðaverslunin hefur gert tilganginn með „girðingunum“ óþarfan, meiri stéttakúgunar gætir en í nágrannalöndum og líf vinnandi fólks í borgum er hreinn óhugnaður.

Í löngum lokakafla verksins er hægfara hnignun frjálshyggjunnar með auknu opinberu eftirliti um og upp úr miðri 19. öld lýst um leið og frjálshyggjumenn gerast æ eindregnari í málflutningi sínum eins og til þess að reyna að koma í veg fyrir óhjákvæmilegan dauða stefnunnar. En loks er hún þó borin hátíðlega til grafar með prósessíu helstu söguhetja í „afrekasögu“ hennar.

Ég vona að þessi yfirferð yfir efni verksins og efnistök höfundar nýtist les endum á ferð þeirra um óvæntar beygjur og króka í völundarhúsi Örlagaborgarinnar, því þetta er sannarlega heillandi verk með hrífandi frásögnum og hugmyndaauðgin, stílsnilldin og hnyttnin slík að unun er að lesa. Verkinu hefur einnig verið lýst sem einni mikilvægustu bók undanfarinna ára [9] og óhætt að taka undir margt af því lofi sem hún hefur hlotið. Engu að síður má segja að hún hafi enn ekki hlotið þá gagnrýnu skoðun t.d. hagsagnfræðinga sem mér virðist hún verðskulda. [10]

Í ritdómi sínum um Örlagaborgina er það einkum fernt sem Atli Harðarson gagnrýnir: 1) Með tilgátum sínum um valkosti við söguna ýi bókarhöfundur m.a. að því að Bretum hefði farnast betur undir einveldi sterks konungs en landeigendaaðli sem hafi leitt „girðingarnar“. Hins vegar verður ekki mikið um slíkar tilgátur fullyrt og raunar endaði slíkt stjórnarfar annars staðar með byltingu. 2) Höfundur ýki m.a. eymd íbúa iðnaðarborga á 19. öld og hagsmunagæslu hugsuða eins og Johns Locke fyrir landeigendaaðalinn. 3) Myndin sem hann dragi upp af frjálshyggjunni sé of einsleit: staðreyndin sé sú að þótt fáir kannist við að aðhyllast þá stefnu liti hún sjónarmið ólíkra stjórnmálahreyfinga og sé því nokkuð fjölskrúðug. Þess vegna sé ekki hægt að kenna „frjálshyggjunni“ um bankahrunið og heimskreppuna þar eð hún hafi hvergi verið til í þeirri ómenguðu útgáfu sem Einar Már gagnrýni. 4) Hann gangi of langt þegar hann segi frjálshyggjumenn líta á Hagmennið sem mannseðlið sjálft; það sé líkan til þess að spá fyrir um hegðun manna við ákveðnar aðstæður og gagnist sem slíkt en megi heldur ekki taka of alvarlega.

Mér virðist nokkuð til í þessari gagnrýni en þó vera ástæða til þess að bregðast við ýmsu í henni:

1) Vissulega dregur Einar Már upp sveitasælukennda mynd af lífsháttum smábænda áður en þeir hröktust af jörðum sínum og leiðir hjá sér spurningar um hvort umrætt landbúnaðarþjóðfélag hafi enn verið efnahagslega sjálfbært en einblínir þess í stað á „græðgi yfirstéttar“. Engu að síður er ekki hægt að láta eins og söguleg dæmi skorti í bókinni þar sem tilraunastofa klassískrar hagfræði, þ.e. England á 19. öld, er borin saman við nágrannalönd, t.d. hvað varðar kjör smábænda eftir „girðingarnar“ eða refsingar fyrir smávægileg brot á eignarrétti.

2) Ég eftirlæt öðrum að meta kosti og galla iðnbyltingarinnar [11] en fæ raunar ekki séð að í Örlagaborginni sé því beinlínis haldið fram að mannkynið hefði haft það betra án hennar, enda værum við þá raunar komin út í mjög tilgátukenndar hugleiðingar. Atli bendir á að þegar Einar haldi því fram að Locke leggi réttinn til lífs að jöfnu við eignarréttinn stangist það á við stað í verki hans Ritgerð um ríkisvald og fæ ég ekki annað séð en að sú athugasemd sé réttmæt. En fyrst hér er rætt um ýkjur tel ég ekki síður hæpið af Atla að eigna Einari þá skoðun að „hægt sé að koma í veg fyrir kreppur og áföll með því einu að hafna öllum ráðum frjálshyggjumanna“. [12] Það er vissulega rétt að boðskapur Örlagaborgarinnar sé sá að hagfræðikenningar frjálshyggjunnar séu húmbúkk og þjóðfélagslegar afleiðingar hennar hrein hörmung. En að það merki að nóg sé að forðast öll ráð hennar til þess að fyrirbyggja allar efnahagskreppur í framtíðinni – það er einfaldlega útúrsnúningur.

3) Ábendinguna um of einsleita mynd frjálshyggjunnar í verki Einars Más tel ég vera nokkuð réttmæta. Hins vegar er Örlagaborginni mér vitanlega ekki ætlað að vera greinargerð um sögulegar birtingarmyndir frjálshyggjunnar heldur umfram allt að svipta klassíska hagfræði sakleysisdulu sinni og tilkalli til óskeikulleika. Ber því að skoða málflutning höfundar í því ljósi. Raunar gerir Einar Már þann fyrirvara við þá skýru mynd sem hann dragi af stefnunni að frjálshyggjumenn „skortir […] aldrei rök til að brjóta gegn eigin reglum ef þeir álíta að það henti hagsmunum þeirra betur, og sjá ekki nokkra minnstu mótsögn í því. […] Þess vegna er út í hött að ímynda sér að eitthvert regindjúp þurfi að liggja á milli frjálshyggju og klíkukapítalisma“ en sú aðgreining er einmitt kjarninn í uppgjöri íslenskra frjálshyggjumanna við hrunið; „þvert á móti er […] frjálshyggjan afskaplega handhægt tæki sem klíkukapítalisminn getur beitt fyrir sig“. (33)

4) Einnig kann gagnrýni Atla á beitingu Hagmennisins í Örlagaborginni að vera réttmæt. Hins vegar lítur frjálshyggjan – sem stjórnmálastefna en ekki aðeins hagfræðikenning – á gróðaleit í samræmi við hegðun Hagmennisins sem bæði eðlilega og æskilega og að það sé því til marks um þröngsýni að standa í vegi fyrir henni. Svo dæmi sé tekið af handahófi um slík viðhorf má rifja upp glefsur úr ræðu Þórs Sigfússonar, þáverandi framkvæmdastjóra þess sem þá hét Verslunarráð Íslands, frá árinu 2004:

Stóra hugarfarsbreytingin í samfélaginu er auðvitað að við samfögnum þeim sem græða í stað þess að fordæma þá eins og áður tíðkaðist. [… En sú] umræða sem hér fer nú fram um markaðsráðandi öfl og auðhringa hefur án efa haft neikvæð áhrif á þá þróun sem þegar var farin af stað í fjárfestingum fyrirtækja á sviðum sem áður hafa verið nær alfarið einokuð af ríkinu. […] Öll þessi umræða nú er að leiða til þess að athafnamenn, sem hefðu hugsanlega lagt fé í verkefni á þeim sviðum sem þörf er á einkaframtaki í, halda að sér höndum. Þeir vilja ekki verða sakaðir um að stefna að því að eignast Ísland og kunna sér ekki hófs með því að bjóðast til að eiga og reka Sundabraut, tónlistar- og ráðstefnuhús, hjúkrunarheimili eða jafnvel skóla.[…] Þetta var kannski einmitt það sem andstæðingar frjáls markaðsbúskapar og einkavæðingar vildu sjá að gerðist með þessari umræðu um græðgi fyrirtækja og íslenska auðhringi […]. [13]

Það var því, samkvæmt Þór, „þessari umræðu“ að kenna að ekki tókst að einkavæða „hjúkrunarheimili eða jafnvel skóla“ og reka þau af sama glæsibrag og önnur „markaðsráðandi öfl og auðhringa“ hér á landi. Eflaust má, að hætti frjálshyggjumanna í dag, reyna að halda því fram að það ævintýri allt hafi ekki varðað stefnu þeirra á neinn hátt þar eð henni hafi ekki verið framfylgt í ómengaðri mynd. En ef það telst ekki lengur vera frjálshyggja að skipta opinberum embættismönnum út fyrir fjárfesta sem eðlilegt teljist að hegði sér eins og Hagmenni, eins og mér virðist Þór boða hér, vildi ég gjarnan vita í hverju sú stefna geti enn falist í sinni tærustu mynd.

Fjölbrigði mannheima

Ekki er að finna einhlíta skýringu fyrir því í Kreddu í kreppu hvers vegna frjálshyggjan hafi orðið á ný svo áhrifamikil undanfarna áratugi en seinna bindi Örlagaborgarinnar er ætlað að skýra upprisu hennar úr ríki dauðra hugmynda. (En hversu „dauð“ var hún þá í raun og veru?) Spurning er hvort höf undur þess muni afgreiða hana sem hverja aðra tískustefnu sem menn smitast af líkt og kvefi, eins og honum var tamt að halda fram í bók sinni Bréfi til Maríu. Ekki svo að skilja að Einar Már hafni t.d. efnahagslegum skýringum, heldur býður hann fremur upp á samspil milli slíkra skýringa og menningarlegra orsakaþátta um leið og hann hafnar allri nauðhyggju um þróun sögunnar.

Kannski einkennir báðar bækurnar sem hér eru til umfjöllunar viss tilhneiging til þess að gera frjálshyggjuna að afmarkaðra fyrirbæri en hún reynist vera í stjórnmálum samtímans, eins og Atli Harðarson segir gæta í Örlagaborginni. Sú miðjumennska sem Stefán Snævarr segist vera fulltrúi fyrir og álítur að „frjálshyggjan sé 45% góð, 55% vond“ (335) virðist í raun vera býsna útbreidd afstaða um mestallt litróf stjórnmálanna á meðan yfirlýstur frjálshyggjuflokkur eins og Frjálsir demókratar í Þýskalandi telst nánast vera í útrýmingarhættu. Enn á ný gætir sterkrar tilhneigingar til þess að leita „markaðslausna“ á efnahagsvanda samtímans og eru rit þeirra Stefáns og Einars Más holl lesning um hvert inntak þeirra og afleiðingar eru.

Erfitt er að alhæfa um þessa hluti í stjórnmálum samtímans en þessum lausnum virðist beitt til jafns við ríkisafskipti til þess að efla atvinnulífið eða ákveðna geira þess. Hér á landi hafa kröfur um ríkisafskipti í þágu stóriðju verið háværari á hægri væng stjórnmálanna á meðan vinstri menn hafa fremur talað fyrir því að skapa stöðugan ramma er gefi fyrirtækjum af ólíkum toga kost á að spretta fram af sjálfsdáðum. Hefur frjálshyggjan þar með færst frá hægri og til vinstri? Ekki er ég viss um að margir séu tilbúnir að fallast á það, hvort sem þeir teljist vinstra eða hægra megin á hinu pólitíska litrófi.

En aftur að bókunum tveimur. Hér er augljóslega um býsna ólík verk að ræða: Örlagaborgin fjallar um tilurð, innihald og áhrif gamallar hagfræðistefnu á meðan Stefán Snævarr á einkum í samræðu við samtímahugsuði innan ólíkra fræðasviða. Báðir beita þeir stílvopninu af kunnáttu en með mjög ólíkum hætti þó. Samt er einhver undirliggjandi samhljómur milli þessara verka, því það sem Stefán kallar „hentistefnu“ sína rímar að ýmsu leyti við sjónarhól Einars Más, þ.e. sú afstaða „að ekki sé nein regla fyrir því hvernig beita eigi reglu“ og að virða beri „fjölbrigði mannheima“, fyrir utan samdóma álit þeirra um „eymd hagfræðinnar“ (Kredda í kreppu, s. 32–33).

Mér virðist raunar meira upplýsandi að líta á þessa afstöðu sem gagnrýni í anda gamaldags húmanisma eða „fornmenntastefnu“ á kreddutrú í samtímanum, s.s. á þröngan mannskilning frjálshyggjunnar, mettaðan af vísindahyggju. Eða eins og ímyndaður höfundur verksins Homo historicus. Kritik der politischen Ökonomie kemst að orði í Örlagaborginni, eftir að hafa kynnst ólíkum menningarheimum og lifað og hugsað innan þeirra: „ekki er hægt að gera grein fyrir manninum eins og hann er með neinni alhæfingu, hvorki sem hagmenni né neinu öðru, því hinn sögulegi maður hlýtur að vera sífelldum breytingum háður, koma stöðugt fram í nýjum gervum (480).“

 

Egill Arnarson

 

Tilvísanir

  1. Sjá ágæta umfjöllun Stefáns Pálssonar um umræddar bækur: „Rýnt í rústirnar: Bókmenntagrein verður til“, Tímarit Máls og menningar, 2010 · 1, s. 93–101.
  2. Eilífðarvélin: uppgjör við nýfrjálshyggjuna (ritstjóri: Kolbeinn Stefánsson), Háskólaútgáfan: Reykjavík 2010.
  3. Stefán Snævarr: Kredda í kreppu: Frjálshyggjan og móteitrið við henni, Heimskringla, háskólaforlag Máls og menningar: Reykjavík 2011 og Einar Már Jónsson: Örlagaborgin: Brotabrot úr afrekasögu frjálshyggjunnar – fyrri hluti, Ormstunga: Reykjavík 2012.
  4. Atli Harðarson: „Hvað er nýfrjálshyggja?“, Þjóðmál, haust 2010, 3. hefti, 6. árg., s. 85–93; sami: „Sagnfræðileg predikun“, Þjóðmál, haust 2012, 3. hefti, 8. árg., s. 76–82 og Geir Ágústsson: „Í nafni hentistefnunnar“, Þjóðmál, haust 2012, 3. hefti, 8. árg., s. 86–91. Ritdómar Atla eru um Eilífðarvélina og Örlagaborgina en gagnrýni Geirs um Kreddu í kreppu.
  5. Richards, J.W.: Peningar, græðgi og Guð: hvers vegna kapítalisminn er lausnin en ekki vandamálið, (Elín Guðmundsdóttir þýddi), Ugla: Reykjavík 2011. Sjá guðfræðilega gagnrýni á hana eftir Ragnar Gunnarsson: „Nokkrir þankar um Guð og stjórnmálin: Umfjöllun um bókina Peningar, græðgi og Guð eftir John W. Richards“, Bjarmi, tímarit um kristna trú, 2. tbl., 106. árg., júlí 2012, s. 12–17.
  6. „Nauðung getur aðeins átt sér stað með ofbeldi eða hótun um ofbeldi. […] Þetta gildir hvort sem um er að ræða ofbeldi til að sporna við reykingum eða til að refsa fólki fyrir að borga ekki skatta í þágu banka og annarra fyrirtækja sem reiða sig á ríkisstuðning eða til að neyða fólk til að borga fyrir áskrift að útvarpsstöð eða til að stjórna innihaldi matvæla eða ofbeldi gegn minnihlutahópum eða ofbeldi sem ætlað er að bæta stöðu minnihlutahóps.“ (Gunnlaugur Jónsson:Ábyrgðarkver: bankahrun og lærdómurinn um ábyrgð, Sögur: Reykjavík 2012, s. 82.) Ekki má heldur gleyma útgáfu á helstu skáldsögum Ayns Rand en nú þegar hafa Uppsprettan (Þorsteinn Sigurlaugsson þýddi, Almenna bókafélagið: Reykjavík 2011; hún kom raunar fyrst út í íslenskri þýðingu undir heitinu Uppruninn (Fjölsýn: Reykjavík 1990)) og Undirstaðan (Elín Guðmundsdóttir þýddi, Almenna bókafélagið: Reykjavík 2012) komið út og reglulegum greinaskrifum frjálshyggjusinna í tímaritið Þjóðmál. Vafalítið gleymi ég einhverju í þessari upptalningu en í raun má segja að merkilegt nokk standi útgáfa á verkum frjálshyggjumanna í þó nokkrum blóma um þessar mundir.
  7. Í ritdómi sínum um bókina lýsir Geir Ágústsson hentistefnu Stefáns sem þægilegri aðferð til þess að afsaka öll mistök sem geti orðið við útfærslu hennar; þá sé alltaf hægt að kenna einhverjum utanaðkomandi þáttum um: lélegri framkvæmd, misskilningi á stefnunni o.s.frv. – en aldrei stefnunni sjálfri. (Geir Ágústsson: „Í nafni hentistefnunnar“, Þjóðmál, haust 2012, 3. hefti, 8. árg., s. 86–87.) Nú á sú gagnrýni ekki aðeins við um miðju- og hentistefnu, eins og reynslan sýnir, en hún vekur þó óneitanlega spurningu um hvort ekki sé líklegra að hentistefna Stefáns birtist í stjórnmálum sem slík tækifærismennska, þar eð minna fer fyrir stefnufestu í henni.
  8. Stefán Snævarr segir t.a.m. „mjög umdeilt“ að það „hafi verið búandkörlum efnahagslega skaðvænlegt eður ei […] að bithagar og veiðilendur sem allir gátu áður nýtt að vild“ voru „einkavædd“ á 18. öld (276). Raunar hefur heimildin sem hann vísar í í því sambandi aðeins að geyma afdráttarlausan neikvæðan dóm um „girðingarnar“ og því má segja að út frá því gerist Stefán hér sekur um óhóflega hófsemi í túlkun. (Cheyney C. Ryan: „Yours, Mine and Ours: Property Rights and Individual Liberty“, Reading Nozick: Essays on Anarchy, State, and Utopia, (ritstjóri Jeffrey Paul), Basil Blackwell: Oxford 1982, s. 323–343.)
  9. Gauti Kristmannsson: „Örlagaborgin“, Hugrás, vefrit Hugvísindasviðs, 21.06.2012. Sjá: http://www.hugras.is/2012/06/orlagaborgin/.
  10. Dæmi um ítarlega fræðilega gagnrýni á annað verk Einars Más er að finna í ritdómi Davíðs Kristinssonar og Hjörleifs Finnssonar, „„Sápukúlur tískunnar“. Um Bréf til Maríu eftir Einar Má Jónsson“ (Hugur, tímarit um heimspeki 19 · 2007, s. 142–178).
  11. Um ólíkar túlkanir á iðnbyltingunni sjá t.d. pistil Stefáns Snævars: „Iðnbyltingin og Einar Már“, Eyjan, 23.09.2012. Sjá: http://blog.pressan.is/stefan/2012/09/23/idnbyltingin- og-einar-mar/.
  12. Atli Harðarson: „Sagnfræðileg predikun“, Þjóðmál, haust 2012, 3. hefti, 8. árg., s. 77.
  13. „Fyrirtækjasamsteypur í íslensku umhverfi. Ræða eftir Þór Sigfússon á fundi FVH 13. maí 2004“, Viðskiptaráð Íslands, 13.05.2004. Sjá: http://www.vi.is/um-vi/frettir/nr/318/.