Guðbergur Bergsson. Missir. Stuttsaga.

JPV útgáfa, 2010.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2011

Missir

Missir (2010)

Nýjasta skáldsaga Guðbergs Bergssonar Missir, fjallar um gamlan mann sem liggur í rúmi sínu milli svefns og vöku. Hann á erfitt með svefn og setur þess vegna eyrnatappa í eyrun og tekur svefnlyf. Hann fer reyndar ekki að sofa fyrr en undir morgun og rumskar ekki fyrr en komið er fram yfir hádegi. Hann hefur breytt venjum sínum, hann var vanur að vakna snemma og fara til vinnu en nú er allt breytt. Í sögunni kemur fram að hann hefur misst konu sína og börnin eru flutt að heiman. Hann þarf ekki að vakna til að sinna skyldustörfum og hann virðist lifa meira af vana en lífslöngun eða eins og segir í sögunni „hann rígheldur í lífið en hann gerir ekkert til að lengja það“ (bls. 7).

Í mókinu rifjar þessi aldraði maður upp brot og slitur úr ævi sinni. Hann er í raun að bíða eftir að kaffið hitni í katlinum svo hann geti lagað sér kaffi eða te. Honum er ekki alveg ljóst hvort hann hefur farið fram úr og hitað vatnið. Hann hefur ekki neinar áhyggjur því ketillinn slekkur á sér sjálfur og það flæðir ekki vatn á parketið. Suðan eða suðið er leiðarminni í sögunni allri. Maðurinn klæðir sig og gáir til veðurs eins og honum var kennt þegar hann var strákur en leggst svo aftur uppí og fær sér lúr, vaknar við suð en áttar sig ekki á hvort það kemur úr katlinum eða er bara suð í eyrunum.

Það er sem sagt í þessu móki eða drunga sem sögunni er miðlað til lesandans. Guðbergur nær að skapa sterkt andrúmsloft eins og lesandinn þekkir svo vel úr mörgum fyrri sagna hans. Í Missi lýsir Guðbergur því hvaða áhrif það hefur á líf aðalpersónunnar að verða ástfanginn og tengjast annarri persónu órjúfandi böndum. Skuldbindingin gerir það að verkum að hann fórnar sér og hugsar um konuna sem hann elskar þar til yfir lýkur og hann stendur uppi einmana og gamall að lokum. Dregin er upp nærgætin en ófegruð mynd af lífshlaupi gamla mannsins.

Hversdagslegum atriðum er lýst í fáum orðum en svo hnitmiðuðum að lesandinn fær nokkuð nákvæma innsýn í ofur venjulega ævi aðalpersónunnar. Hann greinir frá því í stuttu máli hvernig það atvikaðist að hann kynnist konu sinni eftir að hafa misst þá fyrri. Hann var þá bakveikur og gat ekki unnið erfiðisvinnu og var fluttur út á land. Það gerði ástamálin flókin að hann hafði áður hafnað ást þeirrar konu sem hann nú hrífst af. Eftir ýmsar flækjur og innskotssögur af ástamálum og samböndum giftist hann þessari konu sem segist reyndar ekki geta elskað hann nema að vissu marki. Inn í söguna fléttast ýmiskonar ástaflækjur annarra persóna sem renna saman við ástamál aðalpersónunnar. En allt er þetta í samræmi við hugarástand gamla mannsins sem rifjar upp atvik úr lífi sínu milli svefns og vöku og ýmsu slær saman í minningabrotum hans sem kannski gerist ekki í raun og veru. Þetta miðar að því að gera söguþráðinn óljósan og allt að því dulúðugan, jafnvel ljóðrænan á köflum.

Í Missi lýsir aldraði maðurinn því hvernig síðari kona hans missir heilsuna á undan honum, veslast upp og deyr þó hún sé yngri. Honum finnst þetta að vonum óréttlátt, í stað þess að njóta ævikvöldsins við tómstundaiðju í herbergi sem hann hefur innréttað á loftinu, bíður hans það erfiða hlutskipti að hugsa um sjúkling sem verður æ meira ósjálfbjarga. Hann finnur kokkinn í sjálfum sér og fer að elda mat og ferst það vel úr hendi, hann hugsar um að láta eiginleika hráefnisins njóta sín í stað þess að eyðleggja matinn með malli eins og venjulegar húsmæður gera.

Guðbergur lýsir sambandi náinna ástvina á sannfærandi hátt í Missi. Hann dregur upp á þá fínu línu sem er á milli ástar og haturs í hjónabandinu, lýsir því vel hvernig tilfinningarnar vega salt milli væntumþykju og viðbjóðs. Konunni líkar ekki við þennan góða mat sem maðurinn hennar eldar og þráast við að kyngja honum og lætur hann leka niður hökuna af einberri þrjósku. Guðbergur getur reyndar ekki alveg stillt sig í frásögninni og bregður á leik sem gerir hana ærslafulla og jafnvel groddalega á köflum, til dæmis þegar hann líkir matnum við „kúk“ sem þarf að skeina af trantinum. Lesendur Guðbergs kippa sér ekki upp við þessar lýsingar. Hann hefur dálæti á svona andstæðum þar sem matur og saur eru tvær hliðar á sama peningi. Hið líkamlega er ávallt til staðar í verkum hans og hinn frjói leikur með tungumálið og andstæðurnar, tvöfalt eðli allra hluta er stöðugt afhjúpað í verkum hans.

Sagan fjallar eins og áður segir um ellina, missi ástvinar og einmanaleikann sem fylgir í kjölfarið. Einn af eiginleikum mannsins er trygglyndið sem hann sýnir látinni eiginkonu sinni. Draumur þeirra var að fara í siglingu saman til Færeyja en eftir að hún veikist verður ekkert úr því. Gamla manninum finnst hann vera skuldbundinn til að fara í þessa sjóferð og gerir sér grein fyrir að hann losnar aldrei við konuna meðan hann lifir.

Hann fær þá snilldarlegu hugmynd að láta brenna hana og geyma jarðneskar leifar hennar í krukku eða eins segir í sögunni: „Á hverjum morgni fengi ég mér hana út í kaffið eða teið, ögn í teskeið af ösku og þegar hún væri komin í mig og hefði sameinast líkama mínum, því vatni sem holdið er, færi ég með hana í langa sjóferð, vatn í vatni, aska í ösku, og sameinast með missi beggja.“ (bls. 72). Lok sögunnar snúast síðan um útfærslu þessarar hugsunar. Hin miðlægu tákn, vatnið og askan, leika hér aðalhlutverkið í fullkomlega rökréttum endi. Guðbergur sýnir hér enn hversu djúphugull hann er, gamli maðurinn heldur í síðasta hálmstráið, treinir sér hinar jarðnesku leifar eiginkonunnar meðan þær endast.

Guðbergur Bergsson hefur einu sinni enn sent frá sér áhugaverða skáldsögu. Hún er ekki löng (enda undirtitill hennar stuttsaga) en rík að innihaldi. Hver einasta blaðsíða er hlaðin merkingu og byggingin er mjög hnitmiðuð, fléttan þétt og hvergi óþarfa málalengingar. Sagan fjallar um efni sem mörgum finnst óþægilegt, sjúkdóma, elli og hrörnun. Samfélagið vill sem minnst af hinum gömlu og sjúku vita, enginn vill annast þá sem eru veikir og ósjálfbjarga. Þetta hlutskipti bíður samt allra sem eldast og verða gamlir.

Í Missi tekst Guðbergi að segja sögu „venjulegs“ gamals manns sem snertir okkur öll, hann segir raunsanna sögu einstaklings sem hefur miklu víðari skírskotun. Guðbergur
hefur oft deilt á samfélagið með bitru háði og ögrað lesendum með lýsingum á líkamsstarfsemi og fjörugu hvatalífi. Í dag er reyndar erfiðara að ganga fram
af fólki en á sjöunda áratug síðustu aldar þegar fyrstu verk hans litu dagsins ljós.

Höfundarverk Guðbergs einkennist ekki síst af einhvers konar leit að kjarna mannlegrar tilveru og hefur hann gert margvíslegar tilraunir með skáldsagnaformið í verkum sínum. Fyrsta sagan sem vakti verulega athygli og hneykslaði marga var Tómas Jónsson. Metsölubók. Þar var aðalpersónan líka gamall maður eða öllu heldur karlfauskur sem bjó í kjallaraíbúð í Hlíðunum. En gamli maðurinn í Missi er af allt öðru sauðahúsi og þeir eiga fátt sameiginlegt nema það að vera gamlir. Tómas var mótaður af hugsunarhætti kynslóðarinnar sem óx úr grasi um aldamótin 1900 en nafnleysinginn í nýjustu skáldsögu Guðbergs er samtímamaður og býr í Reykjavík.

Einhverjum kann að finnast þessi saga lítt upplífgandi, hún er vissulega nokkuð dapurleg á köflum og tilbreytingarlítil eins og ellin sjálf. Tíminn líður hægar á elliheimilum er haft fyrir satt og Guðbergur nær að lýsa þessu á trúverðugan hátt, vatnið ýmist sýður eða kólnar á víxl og gamli maðurinn ýmist dottar eða rumskar og rekur síðan minningar sínar. Styrkur sögunnar Missis er fólginn í sálfræðilegu innsæi höfundar sem fjallar um viðkvæmt og vandmeðfarið efni á meistaralegan hátt. Missir er saga sem snertir okkur, vekur okkur til umhugsunar um rök mannlegrar tilveru, um ellina, hrörnunina og dauðann.

 

Guðbjörn Sigurmundsson