Vilborg Dagbjartsdóttir. Ljóðasafn.

JPV útgáfa, 2015.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2016

Í fyrra kom út ljóðasafn Vilborgar Dagbjartsdóttur en þá voru liðin fimmtíu og fimm ár frá útkomu hennar fyrstu ljóðabókar. Í fimmtíu og fimm ár hefur hún með brögðum skáldskaparins, trúað okkur fyrir leyndarmálum sínum, sorgum og gleði og gefið okkur hlutdeild í hugsunum sínum um okkur í heiminum.

Vilborg Dagbjartsdóttir: LjóðasafnTil þessarar köllunar kom hún vel útbúin, fóstruð af bændaættum sem hafa varðveitt minningar þjóðarinnar mann fram af manni, verklag og vísdóm í áranna rás. Fólki sem var undirgefið árstíðunum, sóldýrkendum sem þreyðu skammdegið við „blaktandi týru í heimskautanóttinni“ og sinntu samfellunni. Hverju verki var afmörkuð stund sem fylgdi gangi náttúrunnar. Þetta er drjúgt veganesti til að „slöngva þéttriðnu neti upp í dimmblátt himindjúpið“ en að öðru leyti var ekki mulið undir hana Vilborgu. Harður heimur sendi hana í sárum úr foreldrahúsum aðeins ellefu ára gamla og uppfrá því varð hún að sjá fyrir sér sjálf. Engin furða að hún skipaði sér ung í raðir sósíalista og síðar rauðsokka. Hún er byltingarkona og er alveg til í „að gera uppsteyt á torginu / hneyksla hina rétttrúuðu í samkunduhúsinu / og velta um borðum mangaranna / í musterisgarðinum.“ Og það er heldur engin furða að hún valdi sér uppreisnarmann til samfylgdar í lífinu, skáldið og kvikmyndagerðarmanninn Þorgeir Þorgeirson.

Iðavellirnir á Vestdalseyri verða tákn fyrir glataða Paradís í ljóðum Vilborgar. Þaðan kemur henni Boggu á Hjalla óbrigðult formskynið, vissan og kjarkurinn til þess að meðtaka það framsæknasta í heimi skáldskapar sem samtími hennar bauð upp á. Af sjónarhóli hefðarinnar sér hún til allra átta, eins og sannur heimsborgari.

Í Vilborgu suðar niður aldanna sem hún framfleytir og lofsyngur í gjörbreyttum nútímalegum hversdegi okkar. Hún helgar hversdaginn í lífi sínu og ljóðum, kaupir rós á Allrasálnamessu og spjallar við granna sinn garðhlyninn dag hvern. Við finnum fyrir sóldýrkandanum, sem ólst upp við rafmagnsleysi og tekur sólstöðuvaktina á lengsta degi ársins, saumar ljósadúk til að breiða á borðið í skammdeginu. Hún stendur föstum fótum í biblíu- og goðafræði norrænni og grískri, og segir á einum stað að þegar stundin nálgist sitji þeir Gabríel og Hermes á rúmstokknum hennar en Hermóður Baldursbróðir bíði fyrir dyrum úti til að ferja hana yfir ána Gjöll. Allt líf Vilborgar er varðað eyktarmörkum, helgisiðum, kerlingagöldrum og goðmögnum.

Hinn máttugi galdur Vilborgar og sérstaða felst meðal annars í hversdagslegri umgjörð margra ljóða hennar. Vilborg er barnakennari og húsmóðir og er trú rótum sínum og reynsluheimi í skáldskapnum. Guð vitjar hennar þar sem hún situr yfir kaffi og sígó. Á tilgerðarlausu ljósu máli yrkir hún um rósir í eldhúsvaski og leifar á borðstofuborði og fangar þaðan tákn úr ljóðum Lorca, bleika rós sem vill ekki springa út, keilu, hníf, epli. Hún er orðvís svo undrum sætir og geigar hvergi í miði sínu, hvort sem orðin eiga að ýfa hárfína kennd, hlátur eða framfleyta í samhengi sínu heilli menningarsögu. Þó að yrkisefnið sé óravítt er það sett fram á svo einfaldan hátt að sumum yfirsést dýptin. Í gráum hverdagsleikanum glitrar á perlur, segir skáldið, „þetta var bara ómerkileg glerperla / samt flutti hún þér skilaboð / dularfull og náin / aðeins þér“.

Hún segir okkur kannski frá gesti sem þarf að drífa sig heim úr boði hennar en dauðatákn og vísanir benda til víðari skírskotunar. Feigt skáld situr undir sölnandi laufkrónu, tæmir úr glasi sínu og kveður. Nokkur laufblöð hrynja á borðið, það er komið haust. Og leiðin í vinnuna upp í Austurbæjarskóla, ummyndast í ferð yfir fjallveg í vorhreti, eða vegferð manns, og þjóðar. „Tvísýnt var að leggja á holtið / þegar hann stóð úr skörðunum / við Iðnskólann // Fátt um kennileiti / varðan horfin – rofin dys/“ Það glittir í kross í dimmviðri lífsins. Lóan boðar ekki vorkomuna heldur tístið í tölvuspilum barnanna. Heil tæknibylting tjáð í andstæðunum villt náttúra og manngerð og tísti tölvuspilanna andspænis lóusöng.

Börn skipa stóran sess í skáldskap barnakennarans. Um þau yrkir hann af virðingu og ást og vitnar oft í hreinskilna spurn þeirra og hlutlæga tjáningu, sem á sér huglægan undirtón sem skáldið nemur. Stúlkan Dýrleif ber syndir heimsins á ungu baki sínu og er að verða of sein í skólann. „Klukkan í turninum er að verða / og Dýrleif grætur / við erum of seinar …“ Óttinn stigmagnast í takt við klukkuna. Skáldið róar Dýrleifi með galdrastefi „Það er ekki þér að kenna! / Það er ekki þér að kenna“ og reynir að stugga burt angist sem á sér dýpri rætur; „og klukkan í turninum byrjar að slá“, kveður upp dóminn.

Drengur starir hugfanginn á hvíta ósnerta snjóbreiðu á skólalóð og tekur að teikna línur með sporaslóð á óskrifað skólaportið. Hvert barn er nýtt upphaf. Landnámsmaður, geimfari með dinglandi létta skólatösku á bakinu, tekur til við að breyta veröldinni og skilur eftir sig spor. Mjöllin er dúnmjúk sem er hverfult efni því auðvitað skefur í sporin. Bogga litla liggur í stráum á Vestdalseyri og orðar ósk sína. Á efri árum man skáldið aðeins drauminn sem bjó í huga hennar, ekkert annað og spyr hvort hugarfylgsnin séu ekki raunveruleikinn.

Svona fer hún Vilborg létt með þetta en hún leynir á sér. Það er hægt að lesa ljóðin hennar á mörgum plönum en það er ekki verra að hafa lesið biblíuna, kynnt sér gríska og norræna goðafræði, og kannski katólskt messuform, höfunda sem hún nikkar til í ljóðum sínum, helstu viðburði sögunnar, íslenskar útsaumsgerðir, verklag eldsmiðsins og nákvæm heiti náttúrufyrirbrigða á landi, lofti og legi.

Annað sérkenni Vilborgar er goðsögusmíði. Hvort sem borið er niður í barnasögur hennar eða ljóð, spretta goðsögurnar fram í kunnuglegu umhverfi. Í grasagarðinum í Laugardal gerast biblíusögur í nútímanum, uppreisnarmaður er handtekinn eins og Kristur. Maríurnar eru enn að gráta krossfestu börnin sín, flóttamenn geta ekkert keypt fyrir baunaskálarnar sínar, og hvergi er eftir steinn að halla höfði sínu, því landinu hefur þegar verið skipt. Í draumi mætir skáldið karli á þröngum klettastíg ofan við eyraroddann, með hatt og barðið slútir yfir annað augað. Hún þykist eiga við hann margt vantalað en undan hattbarðinu glittir í hitt augað, auðvitað logandi af girnd. Því „jafnvel Óðinn sjálfur á ekki nema eitt vantalað við konur“. Jörðin er súperbolti, heimurinn sirkustjald og Guð er trúður, voða vitlaus og í allt of stórum skóm; „samt missir hann engan af boltunum sínum.“ Skrýmslið voðalega Götulallinn er hættulegur „…með mannabein í maganum / augun loga / og skjóta gneistum / hann spýr reyk / og eimyrju / eitrar loftið“. „Sólin: stór rauður sleikibrjóstsykur / Skýin: þeyttur rjómi / Aldan: hlæjandi smástelpa“ sem étur sandkökurnar sem þú bakar í fjörunni. Það er varasamt að stíga niður úr þunnri jarðskorpunni, ofan í snarkandi eldinn. Jörðin er gorkúla sem við höfum skemmt, mengað „og af skefjalausri græðgi / mokað upp / og tæmt að innan“ og hún óttast að: „… tóm námugöngin / uppþornaðar olíulindirnar / og heitavatnsæðarnar / falli saman“ og hún hrapi ofan í „fúlan kerlingareldinn“.

Og enn berast okkur ljóð af Bókhlöðustígnum. Í nýjasta ljóði ljóðasafnsins yrkir Vilborg um hálkuna sem lokar hana inni, fangelsar: „… bílarnir snúast / spólandi / á snarbröttum Bókhlöðustígnum. / Ég horfi út í / iðukófið / grýlukertin / eins og rimlar/ fyrir stofuglugganum.“

Það er við hæfi að ljúka þessari hugleiðingu á ljóði sem Vilborg yrkir í orðastað Fedru:

Ó, Seifur!
Þú gafst mér ekki
rúm í húsi dagsins

því snuðra nú
hundar mínir
í sölnuðu laufi
á dimmum skógarstígnum

Ég bíð þess
að máninn rísi
þá verður vígljóst

Ég legg eitraða ör
á streng
og spenni bogann
Skot mín geiga ekki
Skot mín geiga ekki

Halldóra Thoroddsen