Kona lítur viðBrynja Hjálmsdóttir: Kona lítur við.

Una útgáfuhús 2021. 80 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2022.

Ljóðið virðist blómstra þessi misserin. Ljóðaútgáfa er mikil, ljóðaupplestrar eru haldnir um allan bæ eða í streymi, ljóðum rignir inn í ljóðasamkeppnir og stöku ljóðabækur fá jafnvel gagnrýni í dagblöðum. Viðurkenningin Maístjarnan er veitt fyrir útgefna ljóðabók og þótt ljóðin mættu sannarlega vera meira áberandi í almennri umræðu um bókmenntir ber þó að fagna því að ljóðið virðist halda velli og eiga upp á pallborðið – eða í það minnsta upp á náttborðið – hjá lesendum.

Brynja Hjálmsdóttir er ein þeirra sem hefur verið áberandi í þessari bylgju ungra skálda hér á landi. Hún hefur vakið athygli fyrir femínísk og meitluð ljóð þar sem sterkt myndmál fær að njóta sín í hárnákvæmum ljóðlínum. Brynja gaf út aðra ljóðabók sína, Kona lítur við, fyrir síðustu jól og nú á vormánuðum hlaut hún Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóðið „Þegar dagar aldrei dagar aldrei“. Fyrri ljóðabók hennar, Okfruman (Una útgáfuhús, 2019), var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna árið 2019 og valin besta ljóðabókin hjá starfsfólki bókaverslana sama ár. Kona lítur við var tilnefnd til Maístjörnunnar nú í ár. Einnig er nýkomið út eftir Brynju leikrit á prenti sem ber nafnið Ókyrrð og hún samdi ávarp Fjallkonunnar þann 17. júní síðastliðinn sem flutt var af Sylwiu Zajkowsku. Það er því ljóst að tími Brynju Hjálmsdóttur á skáldasviðinu er hafinn og það verður spennandi að fylgjast með áframhaldandi þróun hennar sem ljóðskáldi og leikskáldi.

Kvenleg reynsla og óhugnaður

Í fyrstu ljóðabók Brynju, Okfrumunni, birtist kvenlæg rödd í heilstæðu ljóðverki, rétt eins og í Kona lítur við. Ljóðabækurnar tvær eiga það sameiginlegt að umfjöllunarefnin tengjast reynsluheimi kvenna á einn eða annan hátt. Einnig heldur Brynja áfram að koma lesendum sínum á óvart með dassi af óhugnaði og sterkum ljóðmyndum. Hér eru þó á ferð gjörólík verk.

Í Okfrumunni fylgjum við lífshlaupi konu frá upphafi til enda og þótt ljóðabókin sé ein heild birtast ólík form í ljóðunum. Þau eru fjölbreytt að gerð og stærð og takturinn breytist eftir því hvar við erum stödd á ævivegi hennar.

Endurtekur: hér er enginn hundur

Öllum svörtum hundum hefur verið útrýmt

Klifurjurtin í garðinum þínum
fléttar sig ekki utan um líkneski af svörtum hundi
þau hafa verið urðuð öll með tölu

Þegar það er nótt er enga svarta hunda að sjá
í felum
upp við svarta húsveggi
(Okfruman, bls. 59)

 

Í Kona lítur við má heyra annan brag, þótt ljóðmyndirnar séu einnig áhrifamiklar. Umfjöllunarefnið er stærra og ópersónulegra og hefur að sama skapi víðari skírskotun. Í Okfrumunni erum við stödd í innra lífi, í Kona lítur við erum við hluti af samfélagi, við göngum á milli persóna, heyrum á tal fólks og berum skynbragð á fáránleika mannlegs samfélags. Í Okfrumunni birtist hringrásin bersýnilega, hún birtist í okfrumunni sjálfri, framan á kápunni og í myndmáli ljóðanna. Í Kona lítur við er því öfugt farið. Við förum inn öðrum megin og komum hinum megin út, við förum áfram eða stöndum í stað, en aldrei í hring. Speglanir í stað þróunar. Það sama má segja um takt ljóðanna.

Það er eitthvað í stíl Brynju sem minnir á skáldskap kvenna sem settu mark sitt á bókmenntir 20. aldarinnar, Svövu Jakobsdóttur, Ástu Sigurðardóttur og einnig mætti nefna Kristínu Ómarsdóttur. Ekki er þar með sagt að Brynja sé að skrifa sig inn í ákveðna ljóðahefð heldur frekar að gæta megi áhrifa frá þessum skáldum, og ekki er það leiðum að líkjast. Þetta verður sérstaklega áberandi í Kona lítur við – verki sem vísar út fyrir sig en er á sama tíma hér um bil laust við að vísa í nútímann sem það er sprottið upp úr.

 

Staðið í gættinni

Kona lítur við skiptist í þrjá hluta og segja má að fyrsti og þriðji hlutinn standi sem einhvers konar bókastoðir við annan hluta, en hann ber sama heiti og ljóðabókin sjálf. Áður en haldið er áfram verður að minnast á hönnun bókarinnar en hún er heildstæð og rímar vel við innihald bókarinnar. Kjartan Hreinsson er skrifaður fyrir hönnun og umbroti en það er Brynja sjálf sem er höfundur kápumyndar og svarthvítra mynda í bókinni, sem minna óneitanlega á dúkristur Ástu Sigurðardóttur.

Bókin hefst á tilvitnun úr Opinberunarbókinni, sem fjallar um komu heimsendis, og í textabrotinu er borg Skækjunnar lýst. Tilvitnunin endar á eftirfarandi orðum:
„Þau munu eta hold hennar og brenna hana í eldi því að Guð hefur lagt þeim í brjóst að gera vilja sinn og vera ásátt um að fela dýrinu að ráða ríkjum, allt til þess er orð Guðs koma fram. Og konan, sem þú sást, er borgin mikla sem ríkir yfir konungum jarðarinnar.“ (Opinberunarbók 17:15–18)

Hér slær ljóðskáldið tóninn fyrir það sem koma skal í verkinu, bæði með sterkum myndum sem birtast ljóslifandi fyrir lesandanum, með hliðstæðum þar sem merkingunni er snúið á hvolf, og síðast en ekki síst um stöðu konunnar. Það má segja að tilvitnunin virki sem einhvers konar akkeri fyrir verkið en í henni sjáum við einnig fyrstu karnívalísku myndina þar sem það neðsta verður efst, viðteknum venjum er snúið á hvolf, en þetta er sterkt þema í gegnum ljóðverkið. Þriðji hluti bókarinnar er síðan í beinu samtali við tilvitnunina, en hann ber titilinn „Í borg Skækjunnar“. Það kemur ef til vill á óvart að rekast á tilvitnun úr Biblíunni í bók eftir ungt skáld á Íslandi í dag en það er erfitt að sjá að verkið eigi í samtali við kristna trú að öðru leyti. Brynja leitar þó í frásagnarmáta goðsagna og trúarlegra texta á köflum.

Annað stef sem við sjáum í heildarverkinu er hugmyndin um dyr, hvort sem þær standa opnar eða eru lokaðar, að minnsta kosti eru þær til að byrja með lokaðar lesandanum. Dyrnar birtast okkur í upphafi, í svarthvítri mynd af stóru skráargati. Í fyrsta hlutanum, sem ber titilinn „Óramaðurinn“, fylgjumst við með veru sem kemur að læstum dyrum. Hún fylgist þess vegna með manninum í gegnum skráargat:

Dreymir
um að vera maður
með mönnum
sem gera sig gildandi
já þeir eru svo gildir
og gildandi

Ó!

[…]

(Bls. 19)

Óramanninn dreymir um að vera maður með mönnum, verða eins og guð og hafa völd. Á meðan fylgist Veran með utan frá, því henni var ekki hleypt inn. Hér birtist strax beinskeytt gagnrýni skáldsins á samfélag okkar, kynjapólitík og aðgengi. Þetta gerir hún með hárbeittum tóni án þess þó að fjalla á nokkurn hátt um samtíma okkar, enda eru ljóðmyndirnar miklu frekar tímalausar og tala inn í þennan goðsagnakennda frásagnarhátt. Veran – augljósast er að hún sé kona, en gæti einnig tilheyrt hvaða minnihlutahópi sem er – bíður fyrir utan. Síðar sjáum við Óramanninn breytast í „bólstraðan lítinn Guð“.

Hér er á ferð einföld mynd, sem minnir á glerþakið sem iðulega er talað um í sambandi við stöðu kvenna og annarra hópa. Þessi mynd setur tóninn fyrir það sem á eftir kemur. Þessar lokuðu dyr eru nauðsynlegar til að hægt sé að halda áfram. Og að sjálfsögðu verður karnívalið og gróteskan til í dyragættinni.

 

Kona býður

Segja má að annar hluti verksins sé meginpartur þess, en öll ljóðin þar hefjast á orðinu Kona og á eftir fylgir sögn. Mörg ljóðanna standa í pörum þar sem upphafslínan er sú sama en það sem á eftir fylgir er gerólíkt og kemur lesandanum í opna skjöldu. Í þessum hluta blandar skáldið saman hárfínum húmor, yfirdrifnum og gróteskum myndum og beittri samfélagsrýni.
Í ljóðinu „Loforð“ stingur konan fingrunum inn í fiskabúr þar sem „Digrir píranafiskar / naga undurblítt / í puttana // narta gegnum hold / gegnum fingur og lófa / kljúfa handlegginn í tvennt // En það gerir ekkert til / grær áður en hún giftir sig.“ (Bls. 43)

Dýr eru áberandi í ljóðum Brynju, en í Kona lítur við standa þau sjaldnast fyrir eitthvað, eins og í Okfrumunni, heldur mynda ákveðna stemningu og minna á költ-hryllingsmyndir þar sem óhugnaðurinn blandast við hið kvenlæga á óvæntan hátt. Þannig verða til óvæntar hliðstæður á milli hins manngerða og náttúrunnar og á sama tíma eru brotnar upp fyrirfram mótaðar hugmyndir samfélagsins um konuna og hið kvenlæga.

Ljóðin í öðrum hluta hafa sterka hrynjandi og rytminn situr í lesandanum. Það verður í raun óhjákvæmilegt að lesa sum ljóðin upphátt, og helst fyrir hóp af fólki. Í mörgum ljóðunum má finna dásamleg dæmi um „kvenlegt talmál“. Til dæmis í ljóðinu „Fórn“:

segir:
ég vona að þú gubbir ekki mikið
þegar þú sérð hana

segir:
þetta
er nú
voðalega
ómerkilegt
(Bls. 39)

Hér er snúið upp á þekktar klisjur sem oft eru ætlaðar konum. Þær eru svo teknar skrefinu lengra svo fáránleikinn blasi við. Og það er fáránleikinn, óhugnaðurinn og fantasían sem fær að njóta sín ofar öllu í ljóðum Brynju:

rostung hefur rekið
á land
allur útblásinn bleikur og glansandi
eins og mennsk kona
með tvíbura í maganum
(Úr „Blaut og köld“, bls. 38)

Hér er rostungnum líkt við ófríska konu en ekki öfugt, og úr verður sterk og óvenjuleg mynd. Einnig myndast spennandi andstæður við hvernig líkami ófrískrar konu er settur fram. Mennska konan er notuð til að lýsa einhverju sem þykir heldur ókræsilegt, frekar en að upphefja kvenlíkamann og steypa hann í mót gyðjunnar eða móðurlíkamans. Hið líkamlega og hið mannlega fer ekki endilega saman, heldur fer gegn því sem þykir fallegt samkvæmt hefðbundnum staðalmyndum.

 

Opnað upp á gátt

Í þriðja og síðasta hluta bókarinnar snúum við til borgar Skækjunnar sem birtist okkur í upphafi. Nú hefur dyrunum verið lokið upp í öllu sínu veldi og það sem blasir við er veröld þar sem ríkir óvænt skipulögð óreiða, þar sem konur ráða ríkum. Þriðji hlutinn á í samtali við fyrsta hlutann, “Veran” snýr aftur, henni tekst að opna dyrnar og við blasir borg Skækjunnar:

Í borg Skækjunnar er alltaf heitt á könnunni
og alltaf standa dyrnar opnar

Allar segja jú
komdu inn elskan
komdu bara inn
og vertu ekkert að fara úr skónum
(Bls. 62)

Það er í fyrstu óljóst hvort borg Skækjunnar sé útópía, dystópía eða framtíðarsýn. Þó kemur fljótt í ljós að borgin hefur það umfram samtímann að konurnar sem þar búa eru ekki bundnar sömu skyldum og konur í samfélagi okkar í dag. Hér fá gróteskar og húmorískar myndir skáldsins að njóta sín, þar sem hún ímyndar sér hvernig er að lifa í þessari borg þar sem frjálsar konur ráða. Lýsingarnar eiga síðan í óbeinu samtali við ljóðin úr öðrum hluta, því nú getur konan stigið út úr sínu fasta formi og verið það sem hún vill vera, eða fær að minnsta kosti að stjórna því hvernig hlutum er lýst, því hún hefur völdin:

Mér finnst þetta flott
finnst ég eins og göfug véfrétt úr vísindaskáldsögu skrifaðri af konu
sem fjallar um heim fullan af konum

Fingurnir þrútna og krumpast og þær segja:

Þetta eru mínir fingur og þeir eiga að vera svona.
(Bls. 67)

Heildaryfirbragð ljóðverksins Kona lítur við er sterkt og vandvirknin sem Brynja sýnir í þessu verki gefur góð fyrirheit um næstu verk hennar. Húmorinn liggur undir yfirborðinu og býr ekki síst í rytmanum sem Brynja nær að skapa og er á sama tíma nútímalegur og gjörsamlega tímalaus. Hér er einnig á ferðinni fínasta partýbók. Jú, þetta eru ef til vill stór orð en ég stend við þau; ljóð Brynju henta vel til upplesturs fyrir hóp fólks; þau tala inn í samfélagið, eru fyndin og skilja eitthvað eftir hjá þeim sem les og hjá þeim sem hlustar. Þau vekja viðbrögð, bæði við yfirdrifnum lýsingum af mannlegri hegðun og því ómannlega sem birtist í ljóðunum; því náttúrulega og því yfirnáttúrulega.

Vonandi munu ljóð Brynju Hjálmsdóttur því fá að dynja í matarboðum, saumaklúbbum, fjölskylduboðum og eftirpartýum, ég get lofað ykkur að þau munu bæta stemninguna.

Guðrún Baldvinsdóttir