Styrmir Gunnarsson. Í köldu stríði. Barátta og vinátta á átakatímum.

Veröld, 2014.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2015

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið stærsti flokkur landsins lengst af frá því að flokkastjórnmál urðu allsráðandi á Íslandi. Hann var stærsti flokkurinn í Reykjavík þar til 2010 þegar Besti flokkurinn breytti hinu pólitíska landslagi í höfuðborginni; R-listinn var bandalag flokka og fyrir honum tapaði Sjálfstæðisflokkurinn meirihlutanum 1994. Flokkurinn hefur verið aðili að ríkisstjórnum lengur og oftar en allir aðrir flokkar, reyndar lengst af beint og óbeint nema 2009–2013, 1988–1991, 1980–1983, 1978–1979, 1971–1974 og 1956–1958. Það er að segja alltaf nema í alls um 16 ár frá utanþingsstjórninni sem sat við stofnun lýðveldisins. Þetta eru sex ríkisstjórnir sem allar nema ein hafa setið minna en eitt kjörtímabil.

Í köldu stríði. Barátta og vinátta á átakatímum.Sjálfstæðisflokkurinn hefur því haft völdin í um það bil 54 ár af 70 árum lýðveldisins. Hann er flokkurinn; mikliflokkur. Hann hefur ráðið ríkiskerfinu í meginatriðum öll þessi ár og þó hann hafi verið utan stjórna hefur það verið of stuttur tími til að breyta valdaaðstöðu hans nema að takmörkuðu leyti; langflestir æðstu embættismenn allra ríkisstofnana voru löngum skipaðir af honum. Jafnframt hefur hann haft flokkslegt pólitískt vald yfir stærsta blaði landsins Morgunblaðinu frá upphafi nútímastjórnmála á Íslandi. Hann hefur einnig haft veruleg áhrif á þá fjölmiðla sem fjölmiðlasamsteypan 365 hefur ráðið yfir. Og hann réði Ríkisútvarpinu að miklu leyti í áratugi bæði með útvarpsstjórum, útvarpsráði og menntamálaráðherrum og hann beitti því valdi miskunnarlaust. Þá hefur hann haft verulegt pólitískt vald í mikilvægustu stofnunum eins og lögreglunni, öllum bönkunum, Hæstarétti, Landsvirkjun, Seðlabankanum, Flugmálastjórn, flestum sýslumannsembættum landsins, utanríkisþjónustunni að miklu leyti með ráðherrum eða sterkum sendiherrum, eina síðdegisblaði landsins mjög lengi, Vísi. Líka helstu menningarstofnunum þó frá því séu nokkrar undantekningar eins og Kristján Eldjárn í Þjóðminjasafninu og Vigdís Finnbogadóttir í leikhúsinu eru skýr dæmi um. Þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn ráðið yfir mikilvægustu hagsmunasamtökum landsins, það er samtökum atvinnurekenda, Vinnuveitendasambandi, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Kaupmannasamtökunum lengst af, Samtökum atvinnulífsins eins og þau heita núna. Stórfyrirtækin hafa yfirleitt verið undir forystu flokksmanna í Sjálfstæðisflokknum. Þá lagði hann sig fram um að stýra almennum samtökum eins og íþróttahreyfingunni; löngum voru leiðtogar hennar þekktir flokksmenn í Miklaflokki. Eina undantekningin frá svo að segja algerum völdum flokksins í landinu voru samvinnuhreyfingin og bændasamtökin sem Framsóknarmenn réðu og kölluðu „félagskerfi“ landbúnaðarins og svo réði flokkurinn litlu í verkalýðshreyfingunni þangað til Landssamband íslenskra verslunarmanna kom inn í ASÍ.

Flokkurinn gerði reyndar sérstaka valdaatlögu að verkalýðshreyfingunni sem hann vildi ráða líka. Þar komst hann til forystu á sjöunda áratugnum og varð næststærsti flokkurinn á þingum Alþýðusambandsins, næstur á eftir Alþýðubandalaginu. Þegar fyrsta vinstri stjórnin var mynduð 1956 taldi flokkurinn mikla vá fyrir dyrum þegar hann í fyrsta sinn í tólf ára sögu lýðveldisins var utan ríkisstjórnar. Hann neytti allra bragða til að bregða fæti fyrir hana. Flokkurinn – fer vel á þessu, stór stafur og ákveðinn viðskeyttur greinir – ákvað þá að efna til erindrekstrar um allt land til þess að koma undir sig fótunum í verkalýðsfélögum. Fjórir menn störfuðu að þessum erindrekstri frá í maí og fram í september sumarið 1957. Á sama tíma var Morgunblaðið grimmara í kaupkröfum en nokkru sinni fyrr og síðar. Erindrekar flokksins fóru um allar sýslur landsins og skrifuðu skýrslur um ferðir sínar. Árangurinn varð verulegur, að eigin sögn, „stofnaðar voru verkalýðsmálanefndir eða útnefndir sérstakir fulltrúar þar sem verkalýðsfélög voru starfandi, og þannig verið lagður grundvöllur að skipulegri baráttu Sjálfstæðismanna í verkalýðsfélögum um land allt.“ [1] Það sem skyggði á 1957 voru annars vegar „kommúnistarnir“ – það er stuðningsmenn Sósíalistaflokksins/ Alþýðubandalagsins – í verkalýðsfélögunum og hins vegar framsóknarmennirnir í kaupfélögunum. Þá var Tíminn talinn betra blað víða, sögðu þeir, en Ísafold sem var málgagn Sjálfstæðisflokksins úti á landi. Það var erfitt viðfangs sögðu þeir ennfremur og „á stöku stað hafði sá áróður Tímans náð að festa nokkrar rætur, að Morgunblaðið hefði hvatt til verkfalla.“ Fyrsta svæðið sem sagt er frá í skýrslunum er Dalasýsla en þar þekki ég allvel til; þar er Friðjón Þórðarson langbestur, segir erindrekinn – kemur mér ekki á óvart. Í Fellsstrandarhreppi sem var einn níu hreppa Dalasýslu eru nefndir menn á sjö bæjum sem styðji flokkinn. Og svo framvegis um allt land. Hér verður ekki farið yfir þessa skýrslu í smáatriðum en hana hef ég haft undir höndum lengi og mun á þessu ári afhenda hana handritadeild Landsbókasafns eða Þjóðskjalasafni. Skýrslan er alls 49 síður. [2]

En það þurfti að gæta að fleiri þáttum. Flokkurinn var til dæmis ekki nógu sterkur meðal kennara. Þá er að ganga í það:

Reykjavík 22. júlí 1954
Kæri vinur!
Við erum nú að reyna að gera nákvæma spjaldskrá yfir alla kennara á landinu.
Ég sendi þér því nöfn yfir þá kennara, sem mér er sagt að starfandi séu í kjördæmi þínu og treysti þér til að merkja þá og senda mér síðan listann til baka, sem fyrst og ekki síðar en 15. ágúst.
Ég verð að biðja þig að fara með þetta sem algert trúnaðarmál, því enginn má fá að vita um, að við erum að vinna að þessu.
Með beztu kveðju.
Gunnar Helgason.

Bréfið er skrifað á haus Sjálfstæðisflokksins.

Á vefnum bjarnibenediktsson.is – sem er afar fróðlegur vefur undir Borgarskjalasafni – er að finna margháttaðar upplýsingar um persónur fólks og pólitískar skoðanir einstaklinga. Þannig er þar svo dæmi sé tekið listi yfir alla íbúa á Skólavörðustíg árið 1932 og alls staðar kemur fram hvaða stjórnmálaskoðanir þeir hafa. Þá er á vef þessum skjal sem er sagt vera dagbók Inga R. Helgasonar í nokkra daga sumarið 1951 [3] og fleira og fleira. Engar skýringar eru á vefnum um það af hverju þetta skjal Inga er þarna enda er uppruni þess vafasamur. Álfheiður Ingadóttir, dóttir Inga, afhjúpaði ósannindin um þetta skjal í blaðagrein 24. janúar síðastliðinn, en skjalið sýnir hvernig andstæðingar sósíalista unnu á þessum árum. Það skal tekið fram að Borgarskjalasafnið brást myndarlega við ábendingum Álfheiðar og er það sannarlega þakkar vert. [4]

En flest það sem hér hefur verið nefnt er þó löglegt og samkvæmt þeim reglum sem tíðkuðust í samfélaginu. Það sýnir að völdum Sjálfstæðisflokksins fylgdi víðtæk skráning á skoðunum fólks og enginn fékk að vera óhultur. Það var ekki til svo lítil íbúðarhola í landinu að auga stóra bróður, Flokksins mikla, fylgdist ekki með högum fólks því eftirlitinu með pólitískum skoðunum fylgdi eftirlit með öllu öðru. Til að mynda er fróðlegt plagg í þessum skjölum Bjarna Benediktssonar þar sem skráð eru „til gamans“ viðhorf sextíu íslenskra rithöfunda til stjórnmálaflokka árið 1953. [5]

Gallinn var sá að Flokkurinn var svo risastór og völd hans svo ofboðsleg að hættan á misnotkun var meiri þarna en nokkurs staðar annars staðar. Skrár annarra flokka voru eins og tíst í spörfugli borið saman við lúðrasveit þegar Flokkurinn var annars vegar. Hann gat vegna stærðar sinnar notfært sér þessar upplýsingar við að ráða fólk í vinnu, við að dæma fólk, við að neita öðrum um vinnu. Frá slíku er til dæmis sagt í ævisögu Gunnars Thoroddsen eftir Guðna Th. Jóhannesson.

Að þessu leytinu bjuggum við á Íslandi í einsflokksríki og valdaþörf/- sýki Flokksins átti sér engin takmörk; lögin voru honum nefnilega ekki endilega fjötur um fót. Það hefur nú komið í ljós að hann lét takmörk laganna ekki stöðva sig. Hann óð áfram eins og skriðdreki yfir allt og inn í hvert einasta hús. Það liggur líka í eðli máls að sá sem hefur völd vill a) tryggja þau völd og b) auka þau völd.

Styrmir Gunnarsson segir í bók sinni (bls. 13) „að í þeirri baráttu hafi stundum verið réttlætanlegt að fara út fyrir þau mörk sem beri að jafnaði að halda sig innan við eðlilegar aðstæður.“

Hér verða nefnd þrjú dæmi þar sem flokkurinn fór langt yfir þau mörk sem lögin setja:

Skotfimi í skjóli lögreglustjórans

Styrmir Gunnarsson segir frá því í bók sinni Í köldu stríði að hópur manna hafi æft skotfimi með stuðningi lögreglustjórans í Reykjavík en undir forystu Birgis Kjarans sem þá var orðinn starfsmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann hafði áður verið í flokki þjóðernissinna ásamt Sigurjóni seinna lögreglustjóra Sigurðssyni og Gunnari Árnasyni föður Styrmis Gunnarssonar. Styrmir segir:

Á barnsaldri fékk ég að fara á skotæfingar, sem fóru fram í kjallara húss Helga Magnússonar við Hafnarstræti. Þetta voru æfingar með skammbyssur. Mér var sagt að það væri bannað að eiga byssur á Íslandi. Ég heyrði þá segja að þeir hefðu fengið byssurnar lánaðar frá Sigurjóni Sigurðssyni lögreglustjóra, sem var mágur Birgis, og hafði líka starfað í Flokki þjóðernissinna fyrir stríð. Kjartan Jónsson bróðir Bjarna læknis hafði aðstöðu til að nota kjallarann í þessu skyni vegna starfa sinna hjá Helga Magnússyni. Voru þetta ekki saklausar skotæfingar áhugamanna? Var veruleikinn sá að í umróti sem var í íslensku samfélagi á þeim tíma hafi lögreglustjórinn verið að undirbúa varalið, sem hægt var að kalla til? (bls. 29).

Einmitt: Var hér í undirbúningi varalið framhjá lögum og reglum landsins um leið og lög um meðferð skotvopna voru brotin? Þessi frásögn Styrmis um skotæfingarnar er eina heimildin sem til er um að pólitísk samtök hafi verið að æfa sig í byssunotkun – með byssum frá yfirmanni lögreglunnar í Reykjavík! Rétt er að geta þess að upplýsingar um byssueign lögreglunnar hafa áður komið fram meðal annars í bókum Vals Ingimundarsonar og Guðna Th. Jóhannessonar.

Í vopnalögum eins og þau eru nú er þessi grein: „12. gr. Enginn má eignast eða nota skotvopn nema að fengnu skotvopnaleyfi. Leyfið veitir lögreglustjóri í umdæmi þar sem umsækjandi á lögheimili. Lögreglustjóra er heimilt að veita undanþágu frá skilyrði um að hafa skotvopnaleyfi fyrir þann sem er á æfingum á vegum viðurkenndra skotfélaga á viðurkenndu æfingasvæði.“ Þetta er gamalt ákvæði; þarna var því framið lögbrot. Þarna fór Sjálfstæðisflokkurinn yfir mörkin sem lögin settu og lögin eru sett lýðræðislega af meirihluta alþingis.

Þessar upplýsingar Styrmis er svo rétt að lesa í samhengi við frásögn Ásgeirs Péturssonar fyrrverandi sýslumanns, alþingismanns og formanns orðunefndar í ævisögu sinni Haustlitum [6] þar sem hann segir frá því að starfrækt hafi verið um 900 manna varalið til hliðar við lögregluna og án lagaheimilda, en örugglega með heimild og í samstarfi við lögreglustjóra. Hluti hópsins var reyndar að morgni 30. mars 1949 löggiltur sem varalögregla segir Ásgeir. Er hægt að löggilda einhverja sem varalögreglu?! Í bók Guðna Th. Jóhannessonar Óvinir ríkisins kemur fram að 30. mars voru 85 manns með hjálma, kylfur og armbönd í fánalitunum og faldi hópurinn sig í þingflokksherbergi Sjálfstæðisflokksins. Þessi hópur var í beinu sambandi við lögreglustjórann og tengiliðirnir í átökunum voru meðal annarra Ásgeir Pétursson og Eyjólfur Konráð Jónsson. (Guðni Th. Jóhannesson Óvinir ríkisins bls 86–87).

Eykon rétti mér blaðsnifsi

En Styrmir Gunnarsson lætur ekki við það eitt sitja að greina frá pólitískum skotæfingum í aðdraganda þess að stofnað var varalið – og eftir upplýsingar Styrmis hlýtur sú spurning reyndar að vakna hvort varaliðið hafi verið vopnað öðru en kylfum 1949. Þeirri spurningu verður vonandi einhvern tímann svarað. Reyndar vitum við að Sjálfstæðisflokkurinn treysti á það eftir árið 1951 að bandaríski herinn kæmi valdastéttinni á Íslandi til hjálpar ef á þyrfti að halda. Það var reyndar rætt í forystu Sjálfstæðisflokksins að kalla bandaríska herinn til vegna átakanna 1949 að því er fram kemur í Haustlitum.

Það sem mesta athygli hefur vakið úr bók Styrmis er hins vegar þetta:

Eykon [7] rétti mér blaðsnifsi með símanúmeri og sagði að ég ætti að hringja í það hvað ég gerði. Næstu árin hitti ég heimildarmann okkar reglulega, helzt að kvöldlagi eða næturlagi, á mismunandi stöðum, þar sem ólíklegt var að til okkar sæist, skrifaði það niður sem hann hafði að segja og vélritaði upp ítarlegar skýrslur. Ég vissi að afrit af þeim fóru beint til tveggja manna, Bjarna Benediktssonar, dómsmálaráðherra og Geirs Hallgrímssonar, borgarstjóra. Að auki hafði ég grun um, en ekki vissu, að þau færu líka í bandaríska sendiráðið. (bls. 111)

Bjarni var þarna varaformaður Sjálfstæðisflokksins og hafði nokkrum misserum áður verið ritstjóri Morgunblaðsins og þar áður menntamálaráðherra. Þetta gerðist 1961; Styrmir er 23gja ára.

Hér eru á ferðinni stórtíðindi:

1) Ungur maður var ráðinn til þess að skrifa skýrslur fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins þar á meðal sjálfan dómsmálaráðherrann.
2) Þær fóru að öllum líkindum til bandaríska sendiráðsins
3) Til þess að veita upplýsingar var keyptur maður sem sagðist vera flokksmaður í Sameiningarflokki alþýðu – Sósíalistaflokknum. Einhver notaði orðið slefberi í þessu samhengi.

Það verður að taka fram áður en lengra er haldið að það er gott að Styrmir skuli segja frá þessum skýrsluskrifum sínum. Það er að vísu lögbrot sem varðar allt að fimm ára fangelsi að skrifa slíkar skýrslur fyrir erlent ríki. Eða eins og segir í almennum hegningarlögum, 93. grein: „Stuðli maður að því, að njósnir fyrir erlent ríki eða erlenda stjórnmálaflokka beinist að einhverju innan íslenska ríkisins eða geti beint eða óbeint farið þar fram, þá varðar það …1) fangelsi allt að 5 árum.“ Semsé lögbrot. Það nýja í þessari bók Styrmis er það að þeir sem stunduðu njósnirnar um okkur íslenska sósíalista hafi fengið greiðslur fyrir viðvikið. Það hefur aldrei verið staðfest fyrr. Þannig segir Guðni Th. Jóhannesson í bókinni Óvinir ríkisins bls. 171:

Sósíalistar héldu því fram að þeir væru margir sem aðstoðuðu Bandaríkjamenn við gagnaöflunina og þægju fyrir greiðslur. Um það finnast ekki aðgengilegar heimildir. Samstarfsmennirnir voru flestir til hægri á vettvangi stjórnmálanna og unnu væntanlega af hugsjón einni saman.

Nei, Guðni, ekki af hugsjón einni saman.

Það hefur oft komið fram áður að bandaríska sendiráðið hafi fylgst með íslenskum vinstri mönnum; þannig voru á listum þeirra mörg hundruð manna sem voru reyndar ekki allir í Sósíalistaflokknum, þar voru menn utan flokka og flokksmenn annarra flokka, til dæmis Þjóðvarnarflokksins. (Guðni Th. Jóhannesson Óvinir ríkisins.)

Þjóðviljinn komst oft nærri þessari starfsemi bandaríska sendiráðsins og vorið 1962 sagði blaðið frá handskrifuðum pappírum, skýrslum, um einstaklinga sem höfðu verið tengdir Sósíalistaflokknum. Af því tilefni sagði blaðið í leiðara í maímánuði:

Þegar menn lesa skýrslur þær sem Þjóðviljinn birtir dæmi um ættu þeir að hafa í huga að hliðstæðar skýrslur um þá sjálfa hafa verið sendar til bandaríska sendiráðsins, samdar af Íslendingum sem hafa tekið greiðslu fyrir að njósna um landa sína í þágu erlends ríkis …

Þegar ég las þetta sautján ára fannst mér að svona fullyrðingar Þjóðviljans gætu varla verið sannar. Það fer enginn að njósna um Íslendinga fyrir peninga og gefa skýrslur um það í útlensku sendiráði, hugsaði ég, enda bara strákur af Fellsströndinni. Bók Styrmis sýnir því miður að ég hafði rangt fyrir mér. Þegar Þjóðviljinn fullyrti að þetta væru njósnaskýrslur sem hefðu verið skrifaðar fyrir bandaríska sendiráðið þá var því neitað meðal annars af þeim sem hafði skrifað skýrslurnar. Við það sat – þar til nú að Styrmir flettir ofan af hliðstæðri starfsemi.

Brot á lögum um meðferð skotvopna og á landráðagrein hegningarlaganna voru reyndar ekki einu lögbrotin sem forráðamenn Sjálfstæðisflokksins stunduðu og lögðu blessun sína yfir á þessum áratugum þegar þjóðin bjó við einsflokksstjórn Flokksins mikla víðs vegar um þjóðfélagið.

Stálu einkabréfum fólks

Þeir stálu einkabréfum nokkurra íslenskra stúdenta sem voru við nám austantjalds og birtu þau í bók sem Heimdallur gaf út. Hjalti Kristgeirsson einn þeirra sem hafði skrifað bréfin stefndi Heimdalli vegna þessa. Kveðinn var upp dómur í borgardómi snemma á árinu 1974 þar sem Heimdalli var gert að greiða Hjalta miskabætur auk þess sem Heimdallur skyldi greiða allan málskostnað. Þannig var Heimdallur dæmdur fyrir að stela einkabréfum og fyrir að birta þau í bók. Lítillega er komið inn á þessar skýrslur, SÍA-skýrslurnar, í bók Styrmis. Þetta voru sendibréf sem íslenskir stúdentar í Austur- Evrópu skrifuðu á sjötta áratugnum og hafa að geyma sérlega glöggar greiningar og gagnrýni á ástandinu í svokölluðum sósíalískum ríkjum. Sá sem kom skýrslunum á framfæri við Flokkinn eða sótti þær – stal þeim – á vegum hans kom þeim til Bjarna Benediktssonar dómsmálaráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins segir Styrmir. (bls 115)

Hér hafa verið nefnd þrjú alvarleg dæmi um lögbrot Sjálfstæðisflokksins þar sem Flokkurinn birtist sem fjandasveit þess lýðræðiskerfis sem hann þóttist vera að verja.

Hér verður ekki farið yfir hleranirnar sem Sjálfstæðisflokkurinn lét stunda. En niðurstaðan er sú að eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem stundaði reglulega lögbrot gegn öðrum Íslendingum var ekki Alþýðubandalagið; það var Sjálfstæðisflokkurinn.

Sjálfstæðisflokkurinn reyndi víðar fyrir sér. Þeir stofnuðu heilt bókmenntafyrirtæki til að keppa við Mál og menningu. Reyndu að gera róttækum rithöfundum lífið leitt. Settu upp hundshaus þegar Halldór Laxness fékk Nóbelsverðlaunin; þannig mætti menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins ekki þó boðinn væri á Nóbelshátíðina í Stokkhólmi og ríkisstjórn Íslands lét sem hún tæki varla eftir Nóbelsverðlaununum og eftirlét Alþýðusambandinu að taka á móti Halldóri þegar hann kom heim með verðlaunin. Sjálfstæðisflokkurinn reyndi alls staðar að koma völdum sínum að; til dæmis vildi menntamálaráðherra hans ráða því hvaða málarar tækju þátt í alþjóðlegri myndlistarsýningu 1953. (Draumurinn um hreint form. Listasafn Íslands 1998 eftir Ólaf Gíslason) Sami hótaði að láta rífa Listamannaskálann ef hann yrði leigður fyrir kosningaskrifstofu Sósíalistaflokksins í Reykjavík og enn var sami að verki þegar ákveðið var að svipta myndlistarmenn styrk sem lofað hafði verið til áðurnefndrar alþjóðlegrar sýningar – af því að ráðherrann fékk ekki að ráða því hverjir tækju þátt í sýningunni. Allt gerðist þetta 1953. Og nú verður að rifja það upp að Sósíalistaflokkurinn var ekki jaðarflokkur og ekki fámenn klíka. Hann fékk 28,5% atkvæða í borgarstjórnarkosningunum 1946.

Einsflokkskerfi

Þarna var hugmyndafræði einsflokkskerfisins að verki; en komum að því síðar, fyrst um bók Styrmis. Það er mikilvægt sem fram kemur á síðu 14 að hann telur að skýrslurnar sem samstarfsmaður hans skrifaði „hafi ekki að geyma nein stórtíðindi og mörgum mun finnast þetta karp eitt.“ Ég er sammála því; skýrslurnar eru aðallega um innanflokksátök í Sósíalistaflokknum og Alþýðubandalaginu á þessum tíma. Þau átök snerust um skipulagsmál hreyfingarinnar; ekki um áherslur í innanlandsmálum né utanríkismálum. Þau átök sem sagt er frá voru tæknileg en ekki pólitísk nema að mjög litlu leyti.

Styrmir segir um niðurstöður njósnanna: „Sú vitneskja veitti okkur ákveðna öryggistilfinningu.“ (bls 113). Það er nú gott, þá var til einhvers barist! Skýrslur Styrmis eru yfirleitt ekki beint frá fundum í Sósíalistaflokknum eða Alþýðubandalaginu. Uppljóstrarinn hefur engar upplýsingar úr æðstu stofnunum þessara flokka nema af afspurn, en hann hefur setið nokkra félagsfundi í Sósíalistafélagi Reykjavíkur og í Æskulýðsfylkingunni í Reykjavík og tvo fundi í Alþýðubandalaginu í Reykjavík.

Samtals eru birtir 33 kaflar úr skýrslum og greinum sem Styrmir hefur skrifað eftir uppljóstraranum. Frásagnirnar eru frá tímabilinu 1961 í október og fram í ágúst 1968. 14 þættir eru frá árinu 1963, 10 frá árinu 1962. Rosalega stór hluti er um framboðsmál Alþýðubandalagsins vorið 1963. Hefur einhver áhuga á því ennþá? Stundum fellur uppljóstrarinn fyrir eigin frásagnargleði og Styrmir með honum. Þannig segir hann til dæmis frá fundi í einni deild Sósíalistafélags Reykjavíkur þar sem einn þeirra sem stunduðu nám í AusturÞýskalandi kom á fundinn: „Skýrði hann frá því að hann stundaði nám við skóla þar sem kennd væri pólitík og njósnir en myndi hafa annað nám að yfirvarpi …“ (bls. 123) Ekki verður að telja líklegt að stúdentinn hafi sagt svona frá.

Á einum stað er sagt frá því að þeir Brynjólfur Bjarnason og Jón Rafnsson muni flytja tillögu um að reka Einar Olgeirsson úr flokknum. Bull. Á nokkrum fleiri stöðum í skýrslunum eru svona stórkarlalegar fullyrðingar sem styrkja ekki trúverðugleika þeirra. Var uppljóstrarinn að ljúga að Styrmi og hafa hann að fífli? Stundum.

Að sumu leyti er öll þessi umræða til marks um botnlausan barnaskap. Það vissu allir allt um alla í Reykjavík á þessum árum; við vorum svo fá. Og það er ótrúleg einfeldni að sitja á kvöldin og nóttunni og borga manni fyrir að dæla í sig þvælu sem engu máli skipti þegar upp er staðið eins og Styrmir viðurkennir. Barnaskapurinn lýsir sér líka í því að tala um áhrif íslenskra sósíalista á þessum áratugum eins og þau hafi öll verið runnin undan rifjum Kremlverja. Hvað með Dagsbrún, Iðju, Félag járniðnaðarmanna, Trésmiðafélagið, Iðnnemasambandið, Einingu á Akureyri, meirihlutann í Neskaupstað? Hverjir stóðu í lappirnar og sömdu um atvinnuleysistryggingar, verkamannabústaði, aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, félagsmálapakkana alla? Var landhelgin kannski færð út í 12 sjómílur eða 50 eftir skipunum frá Kreml? Hverslags vitleysa er þetta?

Í bókinni er sagt frá bréfi sem Kjartan Ólafsson framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins hafi skrifað með einhverjum íslenskum stúdent í Austur-Þýskalandi svo sá mætti gifta sig. Kjartan vottaði hver hann væri. Hvað er eiginlega merkilegt við það bréf? Þurfa ekki allir einhverja staðfestingu á því hverjir þeir eru ef þeir gifta sig? Austur-þýsk stjórnvöld höfðu engin sambönd við íslensk stjórnvöld og hlutu því að snúa sér til þeirra sem sendu viðkomandi námsmann til Austur-Þýskalands. En hvernig komst uppljóstrari yfir þetta bréf? Ætli því hafi ekki verið stolið af skrifborði í Tjarnargötu 20? Þar hafi jafnvel verið á ferðinni uppljóstrari tvö sem Styrmir segist ekki hafa vitað hver var.

Styrmir og félagar hans voru sannkallaðir kaldastríðsmenn og hann talar um þá sem slíka í bókinni. Og það var gert ráð fyrir þeim sem slíkum á öllum sviðum. Þannig var lagt að Matthíasi Johannessen að njósna fyrir breska sendiráðið þegar hann færi til Sovétríkjanna. (bls. 114) Hann neitaði því. Njósnasveitir Bandaríkjanna voru yfir og allt um kring. Alþjóðlegu stúdentasamtökin voru fjármögnuð fyrir CIA peninga (bls. 118). World Assembly of Youth,WAY, voru fjármögnuð af bandarísku leyniþjónustunni. Þess vegna voru þessi samtök vestrænnar æsku lögð niður. Hver fjármagnaði annars sex vikna boðsferð Styrmis Gunnarssonar til Bandaríkjanna?

Hver var uppljóstrarinn? Það skiptir engu máli lengur en Styrmir segir frá því að viðkomandi hafi samþykkt að skýrslurnar yrðu birtar.

Margt í bókinni lýsir ótrúlegum barnaskap, eins og það að einn vina Styrmis hafi orðið Sjálfstæðisflokksmaður ævilangt af því að Gunnar Thoroddsen borgarstjóri útvegaði mömmu hans íbúð. Svo lítilla sanda er þessi vinur ekki. En þetta lýsir líka viðhorfum valdsins. Til að halda völdum var gott ráð að gera fólki greiða – á kostnað skattgreiðenda.

Styrmir notar oft orðið vinur. Of oft finnst mér og orðið einkavinur er líka of oft notað. Hvers lags vinátta er það líka, svo eitt dæmi sé nefnt, að láta mynda vini sína með rússneskum diplómat utan við veitingastað, að birta svo myndina í Morgunblaðinu og gefa þar með í skyn að þessir tveir „vinir“ Styrmis geti verið landráðamenn þó hann viti að þeir hafi alls ekki getað verið það? Er þetta vinátta kalda stríðsins? Þekki það ekki, en svona „vinátta“ er ógeðfelld. Þetta er ekki vinátta.

Þetta er einn sérkennilegasti kafli bókarinnar, það er hvernig höfundur vefur saman frásagnir af jafnöldrum sínum í Skeggjabekknum inn í skýrslurnar af innanflokksátökum í Alþýðubandalaginu. Það var vissulega alvarlegt mál og ekkert grín að gefa það í skyn að menn sætu á svikráðum við Ísland með makki við starfsmenn sovéska sendiráðsins. Myndin af tveimur „vinum“ Styrmis fyrir utan veitingastaðinn Naustið með rússneskum sendiráðsstarfsmanni átti að sanna það að málstaður vinstri manna í landhelgismálinu sem var þá efst á baugi væri runninn undan rifjum Rússa. Í frásögn Ragnars Arnalds af þessum atburði í áttræðisafmæli Kjartans Ólafssonar kom fram að Jón Baldvin Hannibalsson hafi af þessari ástæðu verið á skrám sem KGB-maður árum saman. Þetta er ljótur leikur að gefa í skyn að blásaklausir menn séu jafnvel landráðamenn.

Og um einstök atriði bókarinnar: Gott er hjá Styrmi að tala um sig og félaga sín sem „kaldastríðsmenn“ (bls. 229) Merkileg er frásögnin af því þegar þeir Björn Bjarnason reiddust Eykon og félögum í þinginu fyrir að standa að samþykkt um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd á alþingi. (bls. 232) Þarna var Eykon orðinn formaður utanríkismálanefndar og Geir Hallgrímsson utanríkisráðherra og þekkti ég þá báða á þessum tíma, sérstaklega Eykon; við urðum góðir kunningjar á síðustu misserum hans í þinginu. Þá voru félagar hans í Sjálfstæðisflokknum oft vondir við hann – fannst mér. Svona breytast hlutverk manna með tíð og tíma. – Styrmir fjallar um viðurkenningu Eystrasaltslandanna sem varð til á vegum ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar, líka við Alþýðubandalagsmenn, studdum þá viðurkenningu heils hugar. Við Alþýðubandalagsmenn vorum ekki aðeins með Eystrasaltsríkjunum; við vorum nefnilega á móti heimsvaldastefnu Sovétríkjanna. Það er fráleitt sem oft er gert að eigna Jóni Baldvini Hannibalssyni einum þessi tíðindi um leið og hitt er líka fráleitt að reyna að gera lítið úr hlut Jóns Baldvins eins og stundum er reynt.

Það eru nokkrar staðreyndavillur í bókinni, flestar smávægilegar og hefði verið auðvelt að útrýma þeim. Nefni bara þessar: Jón Baldvin Hannibalsson var ekki varamaður Guðmundar J. Guðmundssonar í borgarstjórn því Guðmundur var ekki borgarfulltrúi heldur varaborgarfulltrúi 1966–1970. – Aksel Larsen var ekki formaður Danska kommúnistaflokksins 1968; hann var rekinn úr þeim flokki 1958. – Lúðvík Jósepsson beitti sér fyrir því að Ragnar Arnalds yrði formaður Alþýðubandalagsins; það er því rangt að gefa í skyn að hann hafi viljað eitthvað annað eins og gert er í einhverri skýrslunni. Einar Olgeirsson beitti sér hins vegar fyrir því 1963 að Ragnar yrði þingmaður fyrir Alþýðubandalagið. – Þingkosningar fóru fram 2. og 3. desember 1979 – Hér verður látið staðar numið.

Af hverju?

Af hverju skrifar Styrmir þessa bók? Svo vill til að á sama tíma og hann byrjaði að skrifa skýrslurnar um og upp úr 1961 var Styrmir að tengjast fjölskyldu Finnboga Rúts Valdimarssonar og hefur kannski vaxið í áliti þar á bæ við skrif sín um Sósíalistaflokkinn í Morgunblaðið. Þessi tengsl Styrmis við Marbakkafjölskylduna vöktu athygli. En ég tel að meginskýringarnar á því að Styrmir segir frá þessum tíðindum nú hljóti að vera þær að hann óttist að þær komi fram frá öðrum síðar í samhengi sem er honum óhagstæðara en þegar hann segir frá því sjálfur. Styrmir sér ekki eftir því sem hann gerði og ber sér mjög á brjóst þess vegna. Ég er syndlaus, ég er syndlaus – en eru slík hróp ekki einmitt til marks um það að hann sé ósáttur við þennan kafla í lífi sínu? Þarf endilega að játa upphátt með öskrum? Styrmir segir að bókin sé framlag til uppgjörs og sátta í framhaldi af því. Það er þakkarvert og fagnaðarefni.

Um málið almennt vil ég segja þetta að lokum:

Barátta Sjálfstæðisflokksins var þegar öllu er á botninn hvolft eins og barátta valdaflokksins í eins flokks ríki. Þetta hefur hent marga stjórnmálaflokka sem hafa haft mikil völd lengi. Bókin Fra embedsmannsstat til ettpartistat eftir Jens Arup Seip sýnir hvernig þetta var í Noregi, þá undir ægivaldi Verkamannaflokksins. (Universitetsforlaget Oslo 1963.) En norski verkamannaflokkurinn stóð með verkalýðshreyfingunni – að öðru leyti varð valdastefna þessara tveggja annars gjörólíku flokka svipuð að mörgu leyti. Völdin eru vandmeðfarin og spilla flestum sem hafa þau til langframa. Þegar flokkur er farinn að njósna um samferðamenn sína úr öðrum flokkum þá er voðinn vís. Hér er ekki verið að líkja neinum við einsflokksríkin í Austur-Evrópu en hugurinn leitar óhjákvæmilega þangað, ekki síst til þeirra ríkja eins og Austur-Þýskalands þar sem komið var á gervifjölflokkakerfi. Þar voru flokkar með ýmsum nöfnum sem höfðu jafnvel alþjóðleg samskipti. Einn þeirra Þýski bændaflokkurinn var til dæmis í reglulegum samskiptum við Framsóknarflokkinn hér á landi.

Vissulega réði Sjálfstæðisflokkurinn ekki alveg öllu á Íslandi og við bjuggum aldrei við einsflokksstjórn en hann hafði hæfileika til þess að tengjast í allar áttir; það lá í eðli Ólafs Thors sem var formaður Sjálfstæðisflokksins fram yfir 1960. Framsóknarflokkurinn gegndi mikilvægu hlutverki í að takmarka völd Sjálfstæðisflokksins, það gerðist einkum úti á landi og utan höfuðborgarsvæðisins í kaupfélögunum og í samvinnuhreyfingunni; oft varð hann samt allt of líkur Sjálfstæðisflokknum. Alþýðuflokkurinn var líka samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokksins langtímum saman en varð því miður stöðugt líkari honum að hugmyndafræði í efnahagsmálum að ekki sé minnst á utanríkismálin eftir 12 ára viðreisnarstjórn. Meira að segja Sósíalistaflokkurinn vann með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn í tvö og hálft ár, nýsköpunarstjórninni, sem hentaði báðum flokkunum við að eyða stríðsgróðanum og að byggja upp íslenskt atvinnulíf, velferðarkerfi og skólakerfi. Það segir reyndar sitt um þroskastig stjórnmálaumræðunnar á Íslandi að einn aðalhugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins telur að Sósíalistaflokkurinn hafi notað tímann í nýsköpunarstjórninni til að búa sig undir byltinguna.

Höfðu skrif Morgunblaðsins innan úr flokknum hjá okkur áhrif? Ekki á þeim árum sem Styrmir fjallar um. En Styrmir og Morgunblaðið héldu áfram iðju sinni eftir 1968 með því að vaða inn í hreyfingu vinstri manna á skítugum skónum, komust þannig inn á gafl í Alþýðubandalaginu eftir 1985 og seinna í Vinstri hreyfingunni, grænu framboði. Kannski gerir Styrmir grein fyrir því í næstu bók? Og gaman væri að vita hverjir þeir voru þá uppljóstrararnir.

Sjálfstæðisflokkurinn hafði – allsherjarvald á Íslandi í áratugi. Flokkurinn trylltist þegar hann missti völdin; verstur varð hann 1956–1958. Hann fór algerlega á límingunum 2009–2013. Aðrar eins aðfarir hafa aldrei sést fyrr eða síðar í íslenskum stjórnmálum sem betur fer. Kaflaskipti urðu með Reykjavíkurlistanum 1994. Þó er vald Flokksins enn allt of mikið og það þarf að breytast. Geta orðið ný kaflaskipti á næstunni með nýjum landvinningi vinstri manna? Þá þurfa þeir að horfa á heiminn í stóru samhengi um leið og þeir leggja rækt við íslenska menningu, jöfnuð, lýðræði, sterkt velferðarkerfi, vandað menntakerfi og hafna misrétti og kunna að virða sjálfbæra þróun í efnahagsmálum þó það kosti minni lífskjarabata en ella væri. Vonandi tekst að finna nýja sameiginlega pólitíska hugsun vinstri manna. Svo mikið er víst að menn kaldastríðsins tefja þá för ekki mikið lengur.

Styrmir hefur á undanförnum árum oft vakið athygli fyrir að fara aðrar leiðir en tíðkanlegar hafa verið í flokki hans. Það birtist fyrst í afstöðu hans og Morgunblaðsins til greiðslu fyrir aðgang að sjávarauðlindinni sem þá vakti mikla athygli og reiði í röðum margra útgerðarmanna. Þá hefur hann á seinni árum skrifað margt um beint lýðræði sem er allrar athygli vert. Hann hefur jafnvel stutt þjóðaratkvæðagreiðslur sem flokkssystkini hans höfðu alltaf verið á móti áður. Það er reyndar athyglisvert að maður sem aldrei var kosinn til trúnaðarstarfa skuli nú kalla á lýðræði. En batnandi manni er best að lifa. Hann hefur verið einn áhrifamesti stjórnmálamaður Íslands í hálfa öld án þess að hafa nokkurn tímann lagt verk sín fyrir kjósendur. Bókin er lipurlega skrifuð og greið aflestrar.

Svavar Gestsson

 

Tilvísanir

  1. Þessi tilvitnun er úr skýrslu erindrekanna sem höfundur þessarar greinar hefur undir höndum.
  2. En hvernig er annars með skýrslur af flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins og gerðabækur? Þær eru allar lokaðar inni í Valhöll. Er ekki tímabært að þær verði opnaðar fyrir almenningi? Öll gögn Alþýðuflokksins, Kommúnistaflokksins, Sósíalistaflokksins og Alþýðubandalagsins sem fundist hafa eru aðgengileg á opinberum söfnum. Þar eru líka meðal annars sendibréf einstaklinga úr forystu þessara flokka.
  3. http://www.borgarskjalasafn.is/Portaldata/21/Resources/bjarni_ben/2_hluti_ stjornmalamadurinn/askja_2–15/ork_01/Ingi_R_Helgason_Br_f_1951.pdf. Sótt 20.1. 2015.
  4. Sjá grein Álfheiðar Ingadóttur í Fréttablaðinu 24.1. 2015.
  5. http://www.borgarskjalasafn.is/Portaldata/21/Resources/bjarni_ben/2_hluti_ stjornmalamadurinn/askja_2–11/ork_06/Skrifa__til_gamans,_hvar_sext_u__slensk_ sk_ld_og_rithoefundar_munu_hafa_hallast_ a__vi_.pdf. Sótt 20.1.2015
  6. Ásgeir Pétursson: Haustlitir, minningaþættir. Almenna bókafélagið 2006.
  7. Eykon: Eyjólfur Konráð Jónsson ritstjóri Morgunblaðsins og seinna alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn.