Eiríkur Örn Norðdahl. Heimska.

Mál og menning, 2015.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2016

„Stóra breytingin er sú að við erum sjálfviljug að gefa eftir persónuupplýsingar og fáum á móti aðgang að þessu tæki til þess að geta fylgst með fólki í kringum okkur,“ segir Andrés. „Ég kalla þetta stafræna nánd. Það er jákvætt vegna þess að nánd er alltaf góð.“ [1]

HeimskaÍ viðtali við Fréttablaðið í lok ársins 2010 ræddi almannatengillinn Andrés Jónsson Facebook notkun Íslendinga, en þá voru 83% þjóðarinnar skráð á miðilinn. Nú, sex árum síðar hafa samfélagsmiðlar aðeins aukið þátt sinn í tilverunni. Sífellt fleiri forrit bjóða einstaklingum að leyfa öðrum að fylgjast með sér. Hægt er að deila myndum úr lífi sínu, hugsunum, skoðunum og hlaupaafrekum í gegnum ógrynni miðla og þannig má auka „stafrænu nándina“ við samferðamenn. Á undanförnum árum hafa margir tjáð efasemdir sínar um þessa nánd; til að mynda var því nýlega haldið fram að aukinn kvíði á meðal barna væri í sterkum tengslum við notkun samfélagsmiðla. [2]

Áhrif samfélagsmiðla á samfélagið eru undir í nýjustu bók Eiríks Arnar Norðdahl, Heimsku. Þar veltir hann fyrir sér samtímanum undir formerkjum „óskilgreindrar framtíðar“, eins og sögusviðinu er lýst á kápu bókarinnar, þar sem myndavélar eru við hvert fótmál og hver sem er getur fylgst með hverjum sem er á netinu. Í bókinni geta persónur tengst „eftirlitinu“ en það er forrit sem er eins konar þróuð útgáfa af samfélagsmiðlum og forritum á borð við „Google maps“. Það leitar uppi staðsetningu þína í heiminum og býður öðrum að fylgjast með þér. Flestar persónur Heimsku sýna litla andstöðu við eftirlitið, ólíkt viðbrögðum margra í raunveruleikanum sem hryllir við ágangi samfélagsmiðla inn á einkalífið og setja t.d. límmiða yfir innbyggðar myndavélar fartölva sinna af ótta við að einhver sé að fylgjast með þeim. Persónur Heimsku spegla sig í eftirlitinu og upplifa sig mikilvægar við tilhugsunina um að einhver sé að fylgjast með þeim. Að fjöldanum líki við þær. Í bók Eiríks er sýniþörfin því orðin að normi, sýnileiki á netinu, við öll tilefni, staðfestir tilvist manns. En jafnóðum slær rafmagnið út.

Heimska er stór bók. Þrátt fyrir að hún sé mun styttri en systurbækur hennar Gæska (2009) og Illska (2012), kemur hún víða við og tekur á ýmsum álitamálum samtímans af hörku. Sé bókunum þremur stillt saman má með góðum vilja og túlkunargleði að leiðarljósi greina samtal um þróun mannsins frá 20. öld til okkar tíma og inn í framtíðina. Ef tesan Gæska (samtíminn) og antitesan Illska (fortíðin) eiga í átökum – hið góða og hið illa – er útkoman Heimska (framtíðin). Ekki er það vænleg útkoma fyrir vestræna hugmyndasögu en í ljósi yfirvofandi loftslagsbreytinga af mannavöldum virðist slík dystópísk niðurstaða ekki fjarri lagi. Bókin skipar sér í hóp skandinavískra bókmennta sem hafa verið skilgreindar sem „skandinavískar sektarkenndarfrásagnir“ (e. Scandinavian Guilt narratives). Það eru frásagnir þar sem meðvitund um að forréttindi skandinavískra persóna er á kostnað fólks í öðrum heimshlutum, hvort sem snýr að ómannúðlegum framleiðsluháttum, lokuðum landamærum, stríðsrekstri eða öðrum þáttum, er í forgrunni. [3]

Margt hefur nú þegar verið sagt um Heimsku en bókin býður upp á ýmis konar umræður, í fræðilegu samhengi ekki síst við hugmyndir Michels Foucault um vald og eftirlit. Það sem helst vakti athygli þessa lesanda eru vangaveltur um frelsi rithöfunda til að framsetja undirskipaða þjóðfélagshópa í samfélaginu og virkni dystópíu í textanum.

Heimska er saga rithöfundanna Áka og Lenítu Talbot, hjóna á fertugsaldri sem starfa á Ísafirði en fljótlega bíður samband þeirra skipbrot. Líkt og í Illsku er frásögnin brotin upp með textum í pistlastíl. Hugrenningarnar sem þar birtast þjóna þeim tilgangi að setja persónur og atburði sögunnar í víðara samhengi og tengja þær við framtíð mannsins, skynjun hans á tímanum og hegðun fólks á samfélagsmiðlum. Einnig gegna íslenskar menningarstofnanir stóru hlutverki, starfsmenn Forlagsins, Fréttablaðsins og ritstjórar útvarpsþáttarins Víðsjá koma fram og staðsetja þannig frásögnina í nálægri framtíð sem gefur höfundi færi á að vera í nánu samtali við samtímann.

Þau Áki og Leníta lenda í því óláni að uppgötva, eftir margra mánaða vinnu, að þau hafa, að miklu leyti, skrifað sömu bókina, Akmeð og Akmeð. Án þess að nefna það við hvort annað ákveða þau bæði að skrifa um sýrlenska flóttamenn á Íslandi, starfsemi ISIS og sjálfsmynd Íslendinga (s. 53) Með því að gera aðalpersónurnar að rithöfundum sem starfa í íslensku samfélagi gefst Eiríki tækifæri til að ræða ólíka afstöðu fólks til listarinnar og hlutverks hennar í samfélaginu. Í bókinni snertir hann á notkun fjölmiðla og útgefenda á persónulegri reynslu höfunda í kynningu á bókum sínum og umræðu um stöðu höfunda gagnvart umfjöllunarefni sínu. Í viðtali við Fréttablaðið lýsir Leníta sínum Akmeð á eftirfarandi hátt:

Akmeð er óður til sjálfsmyndarinnar, sagði Leníta. Hún fjallar um merkingu þess að vera Íslendingur; um það hvernig maður sér aðra, hvernig þeir sjá mann, hvernig maður sér aðra sjá mann og þannig hring eftir hring. Í aðra röndina söguleg skáldsaga – byggð á nákvæmri heimildavinnu – en í hina eins konar fornleifagröftur í sál þjóðarinnar, jafnvel álfunnar allrar. (s. 53)

Stíll Eiríks er sem fyrr beittur og hnitmiðaður. Hann hefur einstaka færni í að framsetja flóknar og margslungnar hugmyndir á hráan en jafnframt skýran hátt. Í Heimsku er það ekki bara „skriðþungi mannkynssögunnar“ sem ryðst fram, eins og Illsku var lýst, heldur er það framtíð mannskepnunnar sem liggur undir. „Hvað er að gerast?“ spyr textinn í sífellu, eða „hvar erum við nú?“ eins og David Bowie spurði í lagi sínu árið 2013. „Vituð ér enn, eða hvað?“ spurði Völvan forðum í Völuspá.

Sagan gerist sem áður segir á Ísafirði og hentar sú staðsetning vel fyrir umfjöllun þar sem samfélagsmiðlar eru í forgrunni en heimi samfélagsmiðla hefur gjarnan verið lýst sem svo að þar verði allur heimurinn að smábæ. Þó að gagnvart alheimssamfélaginu myndi Reykjavík falla undir sömu skilgreiningu þá skerpir notkun Ísafjarðar enn frekar á einkennum eftirlitsins eða samfélagsmiðla. Að hverfa inn í fjöldann er nær ómögulegt í heimi þar sem með tveimur smellum má komast að upplýsingum um menntun, starfshætti, fyrrum maka, þróun á hárstíl og öðrum persónuupplýsingum hvers og eins.

Enn fremur er í sögunni dregin upp mynd af Ísafirði sem samfélagi fjölmenningar. Þar starfar fólk frá ýmsum heimshlutum og meirihluti persóna ber nöfn sem svipar til bandarískra eða evrópskra nafna. Persónur sem bera útlensk nöfn eru þó ekki kynntar inn sem aðfluttar eða uppruni þeirra rakinn sérstaklega, líkt og í Illsku. Frásögnin gefur þannig til kynna að þróun hafi átt sér stað í íslensku samfélagi og í þessari ísfirsku framtíð séu slíkar ættartölur óþarfi. Hér er vegið að hreinum dystópískum lestri bókarinnar. Framsetning íslensks samfélags þar sem íbúar koma frá ýmsum löndum án þess að því sé veitt sérstök athygli felur í sér nokkuð jákvæða, jafnvel útópíska, framtíðarsýn um fjölmenningarsamfélag.

Sjónarhorn bókarinnar er að mestum hluta bundið þeim Áka og Lenítu, sem eru afar upptekin af eftirlitinu og þá sérstaklega af því að fylgjast hvort með öðru þar. En líkt og er með samfélagsmiðlana í samtímanum hefur fólk mismikinn áhuga á eftirlitinu, sumir njóta þess að láta aðra fylgjast með sér, aðrir eru meðvitaðir um að það er agatæki, eins konar trygging þess að þú gerir ekkert af þér. Það sem skilur helst að eftirlitið og samfélagsmiðla samtímans er að persónur Heimsku hafa ekki vald til að ákvarða hvaða hluta lífs þeirra er miðlað áfram fyrir tilstuðlan eftirlitsins. Þær veita ekki aðeins innsýn inn í líf sitt þegar þær trúlofa sig, ljúka við háskólagráðu eða á öðrum tyllidögum eins og tíðkast á samfélagsmiðlum nútímans. Það er engin sía til staðar, heldur má fylgjast með persónunum á baðherberginu og í svefnherberginu: „Það reið enginn lengur bakvið luktar dyr, skeit enginn lengur í einrúmi. Og hvers vegna ættu þeir líka að gera það? Það var hvorki skammarlegt að skíta eða ríða. Það gerðu allir.“ (s. 9)

Þessi breyting á afstöðu til samfélagsmiðla, frá því að byggja upp glansmynd til afskiptaleysis má því túlka sem ákveðinn spádóm. Að í framtíðinni muni manneskjur fá nóg af byrðinni sem fylgir því að hanna og framsetja fullkomna ímynd af sjálfum sér, en geti þó ekki sagt skilið við „nándina“ sem fylgir samfélagsmiðlum.

Á meðan persónur í verkinu velta fyrir sér hvernig þær geti best vakið athygli á sjálfum sér hristir höfundur stöðugt upp í veröld þeirra. Sífelldar rafmagnstruflanir koma persónum úr jafnvægi og grafa undan tilveru þeirra en í bókinni slær rafmagnið tíðum út – og oft með skelfilegum afleiðingum. Rafmagnsleysið minnir á að kerfið sem persónurnar eru hluti af er fallvalt og getur hrunið á hverri stundu. Þær eru hluti af samfélagi sem stendur ekki undir sér og það skapar óöryggi meðal persóna. Flöktandi rafmagnið má einnig lesa sem skírskotun til fallvaltleika þess orkuöryggis sem Íslendingar búa við í Ddag og þess ótta sem ríkir varðandi áhrif loftslagsbreytinga og sviptinga í náttúrunni á líf fólks um allan heim. Þessi meðvitund birtist ítrekað í bókinni:

[S]vo kveikti hann sér í annarri sígarettu, dró djúpt ofan í sig, lúinn, stjarfur með hugann við spássíur og heddera, með seyðing í fingrunum af þreytu þegar hann dró fram símann til að taka mynd af fjallinu, firðinum, gylltri röndinni sem myndi brátt hopa fyrir nótt, fyrir vetri, þegar slokknaði á sólinni og heimurinn skrapp saman í glóðina sem hékk einsog í lausu lofti framan við nefbroddinn á honum, skrapp saman í síðasta djúpa andardráttinn, síðasta þunglyndislega andvarpið og plastkenndan smellinn sem barst úr hátalara símans þegar Ragúel tók mynd af veröld sem var ekki lengur og yrði ekki aftur í bráð. (s. 166)

Í ljósi þessa veruleika má túlka sjálfhverfuna sem er að finna hjá persónum Eiríks, bæði í hegðun þeirra gagnvart eftirlitinu og ásókn í samfélagsmiðla, sem sjálfsvörn. Í stað þess að minnka umsvif sín gerir maðurinn sig breiðari og reynir að taka yfir meira rými til að minna á og skjalfesta tilvist sína. Hér er dregin upp sannfærandi mynd af þráhyggju samfélags gagnvart sjálfu sér og ótta við eigin framtíð. Eiríkur notfærir sér rafmagnsleysi á snjallan hátt til þess að brjóta upp atburðarásina og skipta um stefnu innan frásagnarinnar.

Í persónum Áka og Lenítu verður einnig til ákveðið samtal við höfundarverk Eiríks. Í Illsku birtast meðal annars innflytjendur í íslensku samfélagi og það viðmót sem þeir verða fyrir af hálfu Íslendinga. Höfundur teflir því fram persónum sem takast á við svipuð málefni og birtast í fyrri bókum hans og lætur þær verða fyrir gagnrýni vegna þess. Áki og Leníta þurfa að svara fyrir það hvers vegna það sé í lagi að fjalla um undirskipaða hópa í íslensku samfélagi og hvort þau sem íslenskir höfundar geti tekist á við sársaukafyllri þætti mannkynssögunnar án þess að blikna. Það samtal er vel heppnað og gerir frásögnina marglaga sem dýpkar úrvinnslu efnisins. Í Heimsku stígur ritstjóri Víðsjár fram og lýsir yfir sinni afstöðu til viðfangsefnis Áka og Lenítu:

Í hvaða rétti eru tveir hvítir millistéttarhöfundar af kristnu bergi brotnir að ryðja sér í gegnum átakasögu litaðra múslima á Íslandi og Evrópu einsog þeir eigi hana, einsog Akmeð og Akmeð séu í raun réttri forfeður Áka og Lenítu Talbot, en ekki Fatímu og Múhameðs? Hvar er rödd þeirra í þessum sirkus? Hefur einhver haft fyrir því að spyrja? (s. 77–78)

Hvernig eiga íslenskir höfundar að vinna með fjölmenningu á Íslandi? Hvaða rétt hafa þeir á að nota einstaklinga sem eru undirskipaðir í íslensku samfélagi sem einhvers konar þjóðarspegil, til að átta sig á merkingunni að vera Íslendingur „Hefur einhver haft fyrir því að spyrja?“

Eftir að bækur Áka og Lenítu koma út upphefst fjölmiðla- og markaðsstríð þeirra á milli þar sem sambandsslit þeirra og persónulegar yfirlýsingar verða vopn í baráttunni. Í hatrömmum átökum milli Áka og Lenítu vegna útgáfu bóka þeirra sem rata bæði á síður Fréttablaðsins og Tímarits Máls og menningar tekur Áki upp á því að vísa í orð bandaríska rithöfundarins Norman Mailer:

Norman Mailer sagði fyrir margt löngu að rithöfundur gæti án alls verið nema leifanna af hreðjum sínum; mínar legg ég á borðið, allt sem ég á, allt sem ég get gefið, sál mína, sársauka, gleðina og ógleðina. (s. 56)

Sú pörun er sérlega áhugaverð í ljósi þess að Norman Mailer skrifaði á sinni tíð umdeilda ritgerð „The White Negro: Superficial Reflections on the Hipster.“ [4] Þar gerir hann eins konar menningarfræðilega tilraun til að útskýra hvers vegna kynslóð hvítra ungmenna í New York á árunum 1920–1950 sóttu mikið í félagsskap svartra listamanna. Skýringin, samkvæmt Mailer, var sú að þau voru þjökuð af tilgangsleysi í kjölfar heimsstyrjalda, helfararfrásagna og atómsprengja. Þessi hvítu ungmenni lifðu í veruleika þar sem dauðinn vofði yfir og leituðu því í menningu svartra til þess að upplifa vímu.

Mailer vildi meina að svartir hefðu ávallt lifað í þessu tilvistarlega rými þar sem dauðinn hefði verið þeim nærri og því einkenndist menning þeirra, að hans mati, af skammvinnri ánægju. Hann fer mikinn í lýsingum sínum og segir að þessa þrá megi glöggt sjá í djasstónlist sem væri í raun fullnægingarhróp svarta mannsins. Í djassinum byggi einhver frumkraftur sem skýrði hvers vegna hópar hvítra forréttindamanna í Bandaríkjunum sóttu í tónlist þeirra og félagsskap. [5]

Vísunin í Mailer magnar upp þann þráð bókarinnar sem snýr að þjóðerni og valdi, þær siðferðilegu spurningar sem snúa að skrifum þeirra Áka og Lenítu. Áki fjallar um einstakling sem flytur frá Sýrlandi til Íslands og notar þá persónu til að vinna með hina íslensku þjóðarsál en Mailer skrifaði um menningarhóp sem hafði (og hefur enn) undirskipaða stöðu í samfélaginu en á ritunartíma ritgerðarinnar var mikill uppgangur í réttindabaráttu svartra.

Rithöfundarnir Mailer og Áki eru báðir í forréttindastöðu innan eigin samfélags. Þeir reyna að staðsetja sig með hinum jaðarsettu andspænis hnignandi samfélögum sínum, Mailer í tilgangslausum heimi eftirstríðsáranna og Áki í afsprengi hins brenglaða vestræna neyslusamfélags. Þannig stillir Eiríkur persónum þeirra upp samhliða þekktri kenningu Edward Said um sköpun vestrænnar sjálfsmyndar í gegnum þörf Vestursins fyrir Austrið. [6] Það er, síendurtekin sjálfsmyndarsköpun Vestursins sem byggir á yfirburðum þess gagnvart hinum, restinni af heiminum.

Í Heimsku skapar Eiríkur á mjög hugmyndaríkan og klókan hátt framtíð sem er nauðalík samtíma okkar. Í þeirri framtíð leitar fólk að tilgangi, aðalpersónurnar sækja hann í heim listarinnar, í sköpunina og viðurkenninguna, á meðan dimm saga vestrænnar menningar og óörugg framtíð vofir yfir. Þau sjálfhverfu persónueinkenni sem brjótast fram í heimi samfélagsmiðla eru sett í samhengi við viðbrögð persóna við óöruggri framtíð og meðvitund um grimman samtíma. Því hver kann að búa í vellystingum á meðan aðrir þjást? Hversu mörg kattarmyndbönd á youtube þarf Íslendingur að horfa á til þess að gleyma ofhlöðnu bátunum á Miðjarðarhafi?

Sólveig Ásta Sigurðardóttir

Tilvísanir

  1. „Átta af hverjum tíu Íslendingum skráðir á Facebook“, Vísir, 30. desember 2010.
  2. „Stóraukinn kvíði meðal barna“, RÚV, 19. janúar 2016
  3. „Scandinavian Narratives of Guilt and Privilege in an Age of Globalization (Scanguilt)“, Universitet i Oslo, 31. janúar 2014, sótt 20. janúar 2016. Vefslóð: https://www.hf.uio.no/english/research/theme/scandinavian-narratives-of-guilt-and-privilege/ 
  4. Norman Mailer, The White Negro, San Francisco: City Lights Books, 1957.
  5. Mailer var harðlega gagnrýndur fyrir ritgerð sína, ein þekktasta gagnrýnin er grein rithöfundarins James Baldwin, „The Black Boy Looks at the White Boy“.
  6. Edward Said, Orientalism, Penguin, New York, 2003. [Frumútgáfa 1978].