Kristmundur Bjarnason. Amtmaðurinn á Einbúasetrinu: Ævisaga Gríms Jónssonar.

Iðunn, 2008.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2009.

Amtmaðurinn á einbúasetrinu

Óvíst er að nafn Kristmundar Bjarnasonar sé sérlega þekkt utan hóps áhugamanna um þjóðleg fræði eða innvígðra Skagfirðinga. Því má gera sér í hugarlund að fáum séu ljós afrek þessa starfsama Skagfirðings á akri bókmennta og fræða. Hann hefur verið afkastamikill á sviði byggðasögu og skagfirskra fræða, skrifað Sögu Dalvíkur í fjórum bindum, ævisögu merks eyfirðings, Þorsteins í Skipalóni, og bók um Grím Thomsen, auk mikils fjölda greina um tengd efni. Við sem steyptum okkur í æsku yfir sérhverja bók Enid Blyton hugsum hlýlega til hans fyrir þýðingar á verkum bresku skáldkonunnar, en auk þeirra þýddi Kristmundur fjölmargar aðrar sígildar bókmenntir, eins og sögur Walters Scott, svo einungis einn áhrifamikill höfundur sé nefndur. Þá eru ótalin mikilsverð óbein áhrif Kristmundar á menningar- og bókmenntalíf á Íslandi. Til dæmis naut stórskáld þeirra Skagfirðinga og þjóðskáld síðar, Hannes Pétursson, skjóls í æsku hjá „Dænda“ eins og hann kallaði Kristmund sem var ódeigur að svara sífelldri spurningahríð bráðþroska barns um lífið og tilveruna – til að mynda um saltmagn í hverju mannstári. Á Sjávarborg hjá Kibba var líka í sveit á yngri árum annar rithöfundur af skagfirskum ættum sem síðar átti eftir að gera garðinn frægan; Arnaldur Indriðason.

Og nú sendir hinn aldurhnigni fræðimaður á Sjávarborg frá sér merkilega ævisögu; Amtmaðurinn á Einbúasetrinu, um Grím Jónsson sem um árabil var amtmaður norðan og austan með aðsetur á Möðruvöllum í Hörgárdal. Grím amtmann hefur ekki borið hátt í Íslandssögunni hingað til og mynd hans þar mest tengd Norðurreið Skagfirðinga 1849 sem hrópuðu hann af, og skömmu síðar gaf Grímur upp öndina. Og var lítt saknað af löndum sínum, var sagt, en Norðurreiðin hefur oft verið túlkuð í rómantísku byltingarljósi sem ávöxtur júlíbyltingarinnar í Frakklandi og hræringa á meginlandinu. Þar hafi hetjulegir bændur í sjálfsprottinni hreyfingu alþýðunnar hrópað niður illa þokkaðan valdsmann.

En málið er vitaskuld miklu flóknara – eins og Kristmundur leiðir í ljós í þessari efnismiklu, vönduðu og vel skrifuðu bók. Um Norðurreiðina er fjallað ítarlega og niðurstaða Kristmundar er talsvert önnur en hin einfaldaða, rómantíska mynd sem fyrr var lýst. Svo virðist sem hópur skagfirskra sýslumanna og stórbokkabænda, með Gísla Konráðsson og Espólínfeðga sem prímus mótora, hafi lengi haft illan bifur á Grími og blásið í glæður fjandskapar gegn honum. Þarna mættust stálin stinn, sýslumenn vanir að fara sínu fram en Grímur var þeim ekki auðveldur, fastur fyrir og stífur á meiningunni. Þeim tekst að lokum að gera hann að táknmynd hins óbilgjarna valds sem hægt var að hrópa gegn: Lifi þjóðfrelsið! Drepist kúgunarvaldið! En hetjuskapurinn reynist ekki meiri en svo að eftir Norðurreið og andlát amtmanns fara bændur undan í flæmingi, mæta ekki í yfirheyrslur og vilja lítt við byltingarandann kannast. Sú lýsing verður öll næsta brosleg og birtir manni Norðurreið sem persónulegt uppgjör fremur en hugmyndalega uppreisn, að stærstum hluta ráðabrugg fáeinna óvildarmanna Gríms Jónssonar.

En Kristmundur bendir líka á samhengið í sögunni og hin hugsanlegu áhrif Norðurreiðar. Eitt hið hörmulegasta væri þá Pereatið í Lærða skólanum ári síðar þegar snillingurinn og valmennið Sveinbjörn Egilsson var hrópaður niður af frökkum skólapiltum sem vildu ekki sæta aga eða stilla drykkju í hóf. Hann nefnir að forsprakkarnir höfðu fyrr drukkið dús með beggja handa járninu Kristjáni bæjarfógeta, fyrrum skrifara Gríms og meintum kærasta dóttur hans, sem vafalaust hefur ekki latt þá. Engu máli skiptir í sögunni þótt Sveinbjörn hafi ef til vill verið of stífur á meiningunni og ræða hans yfir skólapiltum hafi ekki verið sérlega taktísk. Pereatið stytti ævi Sveinbjörns Egilssonar, landi og þjóð til óbætanlegs tjóns.

Hin áhugaverða spurning í þessu samhengi er vitanlega af hverju andstaðan við Grím sprettur upp og að hve miklu leyti ástæður óvinsælda hans liggja í persónu Gríms sjálfs. Í sjálfu sér er öll bókin svar við þeirri spurningu. Og svarið er ítarlegt. Kristmundur hefur leitað víða fanga, nýtur þess að hafa víðfeðma sýn á menn og málefni, og þekkja persónur og leikendur og allt baksviðið til hlítar. Sú viðamikla þekking höfundar er helsti styrkur bókarinnar. Þess vegna getur Kristmundur leyft sér í þessari bók, hugsanlega í meira mæli en í fyrri verkum, að leggja út af heimildunum og jafnvel sviðsetja, túlka atburði, varpa fram tilgátum og spurningum sem af þeim leiða. Allt er það gert af varfærni og smekkvísi, og flestar ályktanir höfundar eru sannfærandi og vel undirbyggðar.

Jafnframt því sem Kristmundur kannar rækilega allt umhverfi og uppvöxt Gríms, þá skyggnist hann inn í sálarlíf hans. Sem dæmi um slíka athugun má nefna þessa mikilvægu lýsingu á Grími ungum, sem skýrir hvers vegna hann tekur svo nærri sér að fá ekki embætti sem hann átti aldrei raunverulega möguleika á:

Hvers vegna fær þetta honum svo mikils? Eru dagdraumar frá bernskuárum enn svo ofarlega í huga hans? Þegar hann var umkomulaus piltur í ríki þeirra Stefánunga, höfðu metnaðardraumar tíðum sótt á hann, orkugjafi þeirra var vafalítið runninn frá „ætt hinni miklu“, eftir leynistigum sálarlífs, þar sem móðurást, særður metnaður og hefndarhugur falla í sama farveg. Móðir hans og systir hafa aldrei dregið dul á að hlutverk hans mundi verða og ætti að verða að gera veg þeirra sem mestan, lyfta þeim báðum upp úr vinnukonusessi í virðingarstöðu. Allt þetta hafði brugðist að honum þótti. Þó hafði hann heima og heiman verið talinn líklegri til frama en aðrir landar. Hann er „hinn mikli landi vor“. Vinir og kunningar – og jafnvel andstæðingar – telja sjálfsagðan hlut að hann skipi eitt virðulegasta embætti landsins. (90–91)

Hér leitar Kristmundur skýringa á lyndisfari og draumum Gríms í uppvextinum, en hann missti ungur föður sinn og ólst upp hjá metnaðarfullri móður sem verður ráðskona hjá Ólafi Stephensen stiftamtmanni. Grímur er því vinnukonusonur í miðju veldi þeirra Stefánunga. Þar hafa líklega tekið sér bólfestu í honum draumar og heitstrengingar um að verða einhvern tíma þeirra jafnoki, sýna að vinnukonusonurinn gæti orðið maður með mönnum – og bæði móðir og systir blása í þessar glæður. Í bréfum systur hans, konu gullsmiðsins á Bessastöðum sem síðar varð, gætir takmarkalausrar dýrkunar á þessum eldri bróður og henni finnst ekkert nógu gott fyrir hann. Námið styrkir svo þessa eðlisþætti Gríms, og þar skiptir mestu máli nám hans í hernaðarlist og svo frami í hernum. Það mótar staðfestu hans og aga, og gerir hann að því er virðist nánast ónæman fyrir ýmsum blæbrigðum valdsins og nauðsyn þess að stundum þurfi að slá af reglufestu. Hann verður sá prinsippfasti amtmaður sem veigrar sér ekki við óvinsælum ákvörðunum, en er um leið sanntrúaður á að lögum og reglum skuli fylgt í hvívetna, jafnvel þótt hann sjálfur hafi um þau efasemdir. Slíkt kallar ekki beint á lýðhylli.

Það kemur hins vegar vel fram í bókinni að ekki hefur alltaf verið auðvelt að vera yfirvald Íslendinga á 19. öld. Bjarni Thorarensen, eftirmaður og forveri Gríms í embætti, orðar það svo að hann upplifði sig sem amtmann yfir tómum höfðingjum, svo miklir burgeisar væru Norðlendingar og teldu sig óbundna af lögum. Þeir Bjarni og Grímur eiga til dæmis í stöðugu basli við að fá landsmenn til þess að sinna matjurtarækt og garðyrkju. Andstaða Íslendinga við kálát er allspaugileg. Bjarni nefnir að vinnuhjú setji jafnvel það skilyrði fyrir að ráða sig í vist að garðamatur verði ekki borinn á borð fyrir þau!

Bjarni skáld er kannski þegar upp er staðið sá sem best skilur Grím og gerir sér grein fyrir kostum hans og göllum. Hann segir á einum stað um Grím: „Hann er einhvör hinn dyggðugasti maður sem ég þekki, en Guð hjálpi geðsmunum hans.“ Þessi setning fer nálægt því að teikna upp mynd af Grími í einni setningu. Margt verður til þess að auka á óhamingju Gríms og erfiðleika, eins og Kristmundur fer rækilega í gegnum. Hjónabandið er stormasamt þar sem dönsk eiginkonan festir ekki yndi á Íslandi, ómegðin mikil og skuldir hrannast upp, meðal annars vegna tildurs og metnaðar, og skuldahalinn fylgir honum í gröfina. Þá virðist Grímur býsna fljótt verða haldinn þeirri hugsun, sem verður kannski hans mesta mein, að hann fái ekki þá upphefð sem hann eigi skilið. Væntingarnar og metnaðurinn var svo hátt stilltur að hann hlaut að verða fyrir vonbrigðum. Skiljanlega verður Grímur nokkuð beiskur og þunglyndur á síðara skeiði sínu sem amtmaður norðan og austan, þar sem hann situr einn og yfirgefinn á Möðruvöllum, tannlaus og kvalinn innvortis, og harmar hlutinn sinn. Fjölskyldan öll er í Danmörku, hann sér ekki út úr augum í skuldasúpunni og frekari framavonir virðast brostnar. Hann hallar sér þá æ meir að flöskunni, umgengst fáa og hrekur þá sem enn geta talist til vina, eins og Þorlák gamla í Skriðu, frá sér í misskilningi og hofmóði. Því verður hann kjörinn skotspónn þeirra sem vilja hefna þess sem áður hallaðist í samskiptum við amtmannaveldið, og sú mynd sem Kristmundur dregur upp af kollegum sínum í fræðimannastétt, Espólínfeðgum og Gísla Konráðssyni, er engin sérstök glansmynd. En það er athyglisvert út af fyrir sig að helstu andstæðingar hins reglufasta og smámunasama amtmanns skuli vera tveir sagnaritarar sem ekki hafa hingað til þótt þeir ábyggilegustu í greininni.

Eitt af því sem kemur á daginn í bók Kristmundar er að Grímur reynist ekki vera það forstokkaða íhald sem stundum hefur verið talið. Einn fárra embættismanna er hann til dæmis hlynntur Fjölni og víkur meira að segja góðu að Fjölnismönnum, áttar sig á því að sá kraftur sem þeim ungu mönnum fylgdi gæti orðið landi og þjóð mikilvægur. Það var meira en gamall vinur hans og lagsbróðir, Bjarni Þorsteinsson amtmaður á Stapa, gat þolað og varð nokkur vík milli þeirra vina í kjölfarið. Bjarni, sem Grímur Thomsen kallaði Stapaköttinn, lagði mikla fæð á Fjölni eftir að þar birtist harðorður ritdómur um bók hans um fólksfjölda og efnhagsmál á Íslandi. En það segir sitt um Grím að hann hlífði ekki vini sínum heldur sagði Bjarna kost og löst á bók hans; sagðist til dæmis alls ekki sammála þeirri meginniðurstöðu Bjarna að fólki mætti alls ekki fjölga á Íslandi því landið bæri það ekki.

Hinn frægi systursonur Gríms amtmanns, nafni hans Thomsen, kemur raunar ekki mikið við sögu og má vel sakna hans. Saga hans liggur þó að mestu utanvið ramma bókarinnar auk þess sem Kristmundur hefur gert honum skil á öðrum vettvangi. Engu að síður fer ekki hjá því að lesandi hugleiði líkindi þeirra frænda. Á milli þeirra nafna virðist hafa verið eins konar friður á yfirborðinu, þótt sú hugsun sé áleitin að þeir hafi ekki alveg átt skap saman. Ef til vill hafa þeir verið of líkir, stoltið og metnaðurinn hinn sami, þótt stórbokkaháttur yngra Gríms hafi trúlega slegið móðurbróður hans út.

Þótt margþætt persónulýsing Gríms amtmanns sé meginþáttur bókarinnar, þá felur hún einnig í sér mjög mikilvæga lýsingu á umbrotatíma í íslenskri sögu, fyrri hluta 19. aldar í árdaga sjálfstæðisbaráttunnar. Bók Kristmundur ber vitaskuld þess merki að vera að nokkru málsvörn fyrir Grím. Það er eðlileg hneigð í ævisögu af þessu tagi, ekki síst þegar fjallað er um embættismann sem hefur mátt búa við nokkuð einhliða mynd í sögunni til þessa. En Kristmundur lokar ekki augunum fyrir göllum Gríms eða reynir að gylla mynd hans umfram efni, fjarri því. Hann gæðir hins vegar mynd Gríms fleiri blæbrigðum, og skýrir hin dramatísku örlög hans. Af þeim sökum mun þessi bók tilheyra lykilverkum um þennan merkilega tíma í Íslandssögunni.

 

Páll Valsson