Sjón. Ég er sofandi hurð.

JPV útgáfa, 2016.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2017

„En fyrst og fremst er það formsins vegna að ég festi niður stund og stað, svo þér sé ljóst hvar við erum stödd og hvenær, og til þess að gefa þessum upphafskafla þá vigt og stöðu sem hæfir því sem á eftir fer – það er að segja svo ekki fari á milli mála að saga mín kallist á við aðrar meiriháttar sagnarlistir og hið langa og síklingjandi nafnakall frá draumkvæðum á skinnbók til framtíðarkvikmynda, frá öfugmælavísum til guðspjalla, frá þjóðsögum um móra bruggaðan af lyfjum til innhringds kjaftagangs í dagblöðum, frá ferðabókum gáfaðra kvenna til teiknimyndasagna um stökkbreytt börn […]“ (379–380)

CoDex 1962Þessi orð sögumannsins Jósefs Löwe fylgja í kjölfar yfirlýsingar hans um að hafi tiltekinn atburður „átt upphaf sitt í Reykjavík fyrsta dag aprílmánaðar árið nítjánhundruðsextíuogeitt þá gæti það allt eins hafa gerst hálfum mánuði fyrr“ (379). Við erum því stödd í margföldum blekkingarvef; 1. apríl er dagur gabbsins og því óáreiðanlegur í sjálfu sér, að auki er hann kannski ekki ‚rétt‘ dagsetning. Upphafskaflinn sem vísað er til er vissulega upphafskafli skáldsögunnar Ég er sofandi hurð eftir Sjón (Sigurjón Birgi Sigurðsson), en þó ber að hafa í huga að hún er þriðja verkið í þríleiknum CoDex 1962 og því er þessi ‚stund og staður‘ upphafsins, sem festur er niður ‚formsins vegna‘, dálítið á reiki.

Allt er þetta svo í takt við sögumanninn sjálfan, en í þessari lokabók þríleiksins afhjúpast hann lesendum loks og reynist hreint ekki sá sem hann hafði áður sagst vera.

Skáldið Sjón (Sigurjón Birgir Sigurðsson) hefur í verkum sínum unnið markvisst með form og formúlur og leikið sér að því að kollvarpa hefðum og ögra lesendum með því að segja sínar sögur á þann hátt sem þeir síst búast við. Í Stálnótt (1987) fjallar hann um úthverfamenningu ungmenna í formi framtíðarvísindahrollvekju, draugasagan Engill, pípuhattur og jarðarber (1989) er ástarsaga um andóf og sögulegu skáldsögurnar Skugga-Baldur (2003), Argóarflísin (2005), Rökkurbýsnir (2008) og Mánasteinn (2013) eru vissulega stútfullar af sögulegum viðburðum og sviðsetningum, en alveg án þess að gefa færi á línulegu ferðalagi lesanda.

Þríleikurinn CoDex 1962 er að sama skapi óvenjulegt verk, og í raun einstakt í íslenskri bókmenntasögu. Tilurð verksins spannar meira en tvo áratugi, en fyrsta bókin, Augu þín sáu mig, kom út árið 1994. Næsta bók, Með titrandi tár, birtist sjö árum síðar, 2001, og svo liðu heil fimmtán ár þar til sú þriðja, Ég er sofandi hurð, leit dagsins ljós. Og sú bók, eins og áður hefur verið sagt, hleypir hinum tveimur í uppnám, endurskrifar söguna og umskapar sögumanninn og aðalpersónuna.

Fyrri bækurnar tvær einkenndust af samtali tveggja persóna, með áherslu á sögu sögumannsins í bland við inngrip hlustandarinnar. Sögumaðurinn rekur sögu sína aftur til síðari heimsstyrjaldar þar sem gyðingur á flótta, Leó Löwe, fær húsaskjól í gistihúsi í smábæ í Þýskalandi. Þar hittir hann þjónustustúlkuna Marie-Sophie sem hlúir að honum og saman móta þau barn úr leirklumpi sem Löwe hefur í hattöskju. Marie-Sophie er þungamiðja verksins, en til hliðar við þessa atburði er annar söguþráður sem fjallar um Gabríel erkiengil sem uppgötvar að hann er í raun hún. Þessi kynusli á sér svo samhljóm í hlustöndinni, en í Ég er sofandi hurð kemur fram að hún er transkona og nefnist Aleta.

Önnur bókin hefst á því að Leó er staddur á skipi sem siglir til Íslands. Reyndar byrjar hún ekki þar (ekkert af þessu er einfalt) en framhaldið af sögu Löwe hefst þar. Fyrir farið þarf hann að gjalda gullhring sinn og þegar á land er komið þarf hann að endurheimta gullið, því það er af alkemískum ættum og gætt þeim krafti að gefa leirbarninu líf. Eftir ævintýralegar uppákomur sem tengjast umsókn um ríkisborgararétt, verslun með frímerki, amerískum guðfræðingi og glímukappa frá Niggertown og rússneskum sendiráðsfulltrúa með rófu fær Löwe gullið í hendur á ný og sagan endar með því að barnið opnar augun.

Sjálfur býður höfundur upp á leið til að lesa þríleikinn sem þrenningarsögu. Það er Aleta sem orðar þetta svo í Sofandi hurðinni: „hún var ekki mikill frásagnarfræðingur, en nóg hafði hún lesið, heyrt og séð til þess að vita að sögur Marie-Sophie og Leós Löwe voru saga móðurinnar og saga föðurins […] og saga Jósefs var saga sonarins“ (514). Jafnframt er henni ljóst að sú saga verði ekki sögð nema að litlum hluta, að „[s] jálfur myndi hann ekki segja nema brot“, því frásögnin er full af útúrdúrum sem endurspegla sjúkdóm hans: „Líkt og bein sjúklings með steinmannssýki bregst við höggi með því að mynda með hraði nýjan beinvef á höggstaðnum, þá óf hugur Jósefs sögu í hvert sinn sem erfið hugsun eða minning sótti á hann“ (514). Ein þessara sagna er um uppruna hans sjálfs í helförinni, en Aleta rústar þeirri blekkingu með því að segja honum frá raunverulegri móður hans, sem var útigangskona að nafni Brynhildur Helgadóttir. Hún leitaði stundum á náðir Leós sem gaf henni húsaskjól og mat og tók loks á móti barni hennar og ól það upp sem son sinn.

Brynhildur þessi var einkar hávaxin enda dóttir tröllvaxins fornaldarfræðings, Helga Steingrímssonar, sem var fyrirmynd bergrisans, verndarvættar Suðurlands, í skjaldarmerki Íslands. ‚Bergrisinn‘ kallast á við frásagnir af berserknum sem er nefndur stuttlega í upphafi Augu þín sáu mig, en fær heilan upphafskafla í Með titrandi tár. Þar er líka sagt frá Helga og börnum hans, en sonur hans Ásgeir, er myrtur.

Þannig spinnast þræðir saman héðan og þaðan úr verkinu og mynda vef CoDexins, enda segir ein sagan frá vefarastúlkunni Bláþræði sem er sérfræðingur í litum og vefur óvart örlítið sandkorn í hina frægu mynd La Dame à la licorne. Nafnið útleggst á íslensku sem jómfrúin og einhyrningurinn og gæti vel vísað til sögunnar um Gabríel(u) sem einmitt hittir einhyrning og jómfrú í Augunum.

Vefnaðurinn þéttist svo enn þegar í ljós kemur að tilgangur samtals Aletu og Jósefs er rannsókn sem unnin er á vegum erfðalíftæknifyrirtækisins Codex. Inn í söguna fléttast saga stofnanda þess, en Aleta hlustar á þá sögu af segulbandi sem óvart fylgdi í upptökutækinu sem henni var fengið við verkefnið. Það er yfirmaðurinn sjálfur, erfðafræðingurinn Hrólfur Zóphanías Magnússon, sem ræður Aletu, en hann er að gera rannsókn á árganginum 1962, en óvenjumargir úr þeim árgangi þjást af sjúkdómum sem rekja má til stökkbreytinga vegna þess að „geislavirkni í andrúmslofti á Íslandi [var] orðin meiri en nokkru sinni fyrr“ (404) í kjölfar mikilla kjarnorkutilrauna stórvelda kalda stríðsins. Meðal þeirra er Jósef sem „var haldinn þeim afar sjaldgæfa sjúkdómi sem á íslensku kallast steinmannssýki en á læknamáli Fibrodysplasia ossificans progressiva“ (427).

Sögurnar þrjár eru svör við spurningalista Aletu sem er einnar síðu langur og í fimmtán liðum, allt frá nafni, fæðingardegi og fæðingarstað, til foreldra, búsetu, skólagöngu, áhugamála og eftirminnilegra atvika og drauma (428). Fyrstu tvær skáldsögur þríleiksins eru svarið við fyrstu fjórum spurningum listans: a) Nafn, b) Fæðingardagur og ár, c) Fæðingarstaður, d) Foreldrar (uppruni/ menntun/atvinna) (461). Síðasta spurningin svarar að nokkru leyti afganginum af spurningunum, en þó ekki alveg, eins og áður hefur komið fram, því sífelld hliðarspor frásagnar Jósefs koma í veg fyrir að hann geti lokið við að segja eigin sögu.

Seinna fær Hrólfur Aletu til að taka þátt í annarri rannsókn, en sú felur í sér smíð gervigreindar sem vitkast fljótt og áttar sig á að maðurinn er að eyða vistkerfi hnattarins og útrýmir því mannkyninu með þeim afleiðingum að „Loftslagsbreytingar taka að ganga til baka [og] [j]örðin verður söm og hún var fram yfir hádegi á sjötta degi sköpunarinnar“ (563). Bókin sem við erum að lesa, CoDex 1962 er eins og sandkornið í vefnaði Bláþráðar, eitt örlítið textaskjal í „kaldri og djúpri vitund ofurhugbúnaðarins“ sem geymir „[a]llt sem maðurinn hefur skráð um sjálfan sig“ (562–3) og þar með heimsmynd alla. Þannig rætist dómsdagsspáin sem boðuð var í fyrstu bókinni, en þar er Gabríel(a) erkiengill við það að fara að blása í lúður sinn sem boðar heimsendi.

Saga árgangsins 1962 er jafnhliða rakin í áhrifamiklum köflum sem bera yfirskriftina „Dansinn“ en þar eru skráðir fæðingar- og dauðdagar þessa árgangs. Fyrst eru þau börn sem andast við fæðingu eða síðar sama ár og síðan áfram. Hver nýr hópur látinna ákallar þau sem eftir lifa, sá síðasti inn á sviðið er Jósef sjálfur og kallar á skáldið Sjón.

II

Augu þín sáu migÞríleikurinn er saga um sköpun og eyðingu, fæðingu og dauða, sjálfsköpun og sjálfseyðingu. Og varðveislu inn í óljósa framtíð – en þess má geta að Sjón er einn af þátttakendum í verkefni sem felst í því að skrifa texta fyrir framtíðina. [1] Sköpunarsagan inniheldur tilvísanir til kristni og gyðingdóms, eins og fram kemur í tilvitnuninni hér að ofan, þar sem jörðin „verður söm og hún var fram yfir hádegi á sjötta degi sköpunarinnar“ (562). Gabríel kemur úr sama sagnaheimi og sjálfur umskapar sögumaðurinn sig í anda hinnar gyðinglegu sögu af leirmanni sem á hebresku nefnist golem ( מלג ).

Hugmyndin er fengin að láni frá guði sem mótaði Adam úr rauðum leir jarðarinnar. Með kabbalískum galdri getur maðurinn gert eins, mótað mann úr leir en öfugt við guð getur hann ekki blásið manninum lífsanda í brjóst og því er góleminn lífgaður með orði sem ritað er á enni hans eða stungið upp í munn hans. Þekktasta sagan af sköpun gólems er frá Prag, en þaðan er einmitt Löwe Sjóns. Frá Prag koma einnig þekkt skáldverk sem tengjast góleminum, skáldsaga Gustafs Meyrink, Der Golem (1915) og kvikmyndir Paul Wegeners, Der Golem (1915 og 1920). Einnig má nefna leikrit Karel Čapek, R.U.R. Rossumovi univerzální roboti eða Alþjóðlegir róbótar Rossums (1921), en þar er orðið róbót í fyrsta sinn notað um tilbúna veru. Sjón vísar mjög til Meyrinks í Augu þín sáu mig en nefnir einnig róbot Rossums, og leikritið gengur aftur í Ég er sofandi hurð í verkefninu sem Hrólfur stofnar utanum hina nýju gervigreind og nefnist „The Reykjavík Unilingua Research, skammstafað R.U.R.“ (560). Verkin tengjast gotnesku og framúrstefnu og því má vera ljóst að gólem Sjóns tilheyrir heimi hrollvekja, furðusagna og vísindaskáldsagna – auk þess að hafa smitast af framúrstefnu.

Þessi miðalda- og forsögulega fyrirmynd er færð til samtímans í sögu Sjóns, en í Augu þín sáu mig er síðari heimsstyrjöld umgjörð ofsókna gegn gyðingum. Í Með titrandi tár er þessi rammi gyðingaofsókna útfærður í umfjöllun um þjóðerni, eins og ljóst má vera af titli verksins; annarsvegar útfrá þjóðernishyggju og hinsvegar sem könnun á þjóðerni Íslendinga, hvernig það var skapað og mótað.

Áherslan í báðum verkunum er á mótun, tilbúning og það að skapa nýja (mann)veru í krafti samsláttar efnis og anda. Góleminn telst vera skrýmsli, þar sem hann verður til án getnaðar og fæðingar, utan við yfirráðasvæði guðs. Hann er búinn til úr vessum Prag og Löwe og síðan lífgaður í augum Marie- Sophiear – en það er hún sem er vísað til í titlinum ‚augu þín sáu mig‘. Að auki vísar þessi sköpun í krafti augnaráðs augljóslega til höfundarnafnsins Sjón. Samkvæmt þjóðsögunni um góleminn er honum neitað um tungumál, og þar með eiginlegt líf, en eins og ljóst má vera af lýsingunni á sköpun gólemsins – lífgun með orðum – er vald á tungumáli nauðsynlegt til sköpunar. [2] En þetta málleysi á greinilega ekki við um gólem Sjóns, sem sjálfur er einmitt skapari; það er hann sem segir sögurnar í Codexinum, sögur sem jafnframt fjalla um tilurð hans sjálfs og þá sérstaklega það hvernig hann umskapar sig sem þjóðsagnaveruna gólem.

Allar bækurnar einkennast af ríkri sjálfsmeðvitund. Umfjöllun skáldsagnanna um eigin sköpun er spegluð í sköpun gólemsins og því er hugtakið ‚sjálfsaga‘ hér sérlega viðeigandi. Verkin þrjú „fjalla[…] um sjálf[…] sig“ og eru bæði „sjálfsvísandi“ og „sjálfsmeðvituð“, auk þess að lýsa beinlínis mótun sjálfsmyndar eða sjálfsveru. [3]

Skáldsögurnar í CoDex 1962 mynda saman margfalda sköpunarsögu. En þær snúast ekki einungis um eigin sköpunarferli heldur er hér fjallað um sköpun á nýju mannkyni; sæborgum. Sæborgina má skilgreina sem samþáttun lífrænna og ólífrænna þátta sem eru innbyrðis háðir, en umfram allt er hún tilbúin vera, afkvæmi tækni, tilrauna, galdra. Uppruni hennar er ekki einn og einfaldur heldur samsettur úr fjölbreyttri blöndu goðsagna, vísinda og skáldskapar. Sæborgin er tákn um endurskoðun mennsku og jafnframt endurmat á kynjum og kyngervum, tvíhyggjunni sem einkennir hugmyndir um og viðhorf til kynja. [4] Alls konar kynusli er í þríleiknum og sköpun gólemsins helst í hendur við það verkefni að losna úr viðjum hefðbundinna kynjaímynda og hugsa út fyrir andstæðuparið karl-kona með sínum einfölduðu gagnkynhneigðu viðmiðum. [5]

Fyrri tvö verkin í CoDex 1962 vísa mjög til hrollvekjunnar, bæði gotnesku skáldsögunnar og nýrri hrollvekja. Í slíkum skáldsögum er spurningin um mennskuna miðlæg og í vísindaskáldsögunni er hún enn fyrirferðarmeiri. Verkin þrjú bera einmitt undirtitla sem vísa til bókmenntagreina, Ástarsaga, Glæpasaga og Vísindaskáldsaga. Ástarsagan birtist í sambandi Marie-Sophie og Leós sem skapa saman leirbarnið – án holdlegra kynna. Glæpasagan tengist fyrst og fremst morðinu á Ásgeiri, móðurbróður Jósefs en vísindaskáldsagan er í raun yfir og allt um kring, einkum þó í umfjölluninni um erfðatækni og geislavirkni í Ég er sofandi hurð, og loks í eftirmála verksins þar sem lýst er tilurð gervigreindarinnar sem að lokum eyðir mannkyninu.

Þannig eru vangavelturnar um mennsku og sköpun sem birst höfðu á ýmsan hátt í fyrri verkum enn til staðar í Sofandi hurð. Í Augu þín sáu mig var textinn hlaðinn sögum af tilbúnum verum og gervimennsku ýmiskonar, allt frá piparkökukörlum til tilbera, en í Með titrandi tár er sjónum beint að tilurð íslendinga með sérstakri áherslu á varúlfa. Í Ég er sofandi hurð er sviðið svo víkkað út og nær til mannkynsins sjálfs og sköpunarverka þess sem að lokum taka heiminn yfir, gervigreindin hafnar alfarið mennskunni og endurskapar jörðina sem veröld nýja og góða.

Codex 1962 er bæði upphaf og endir, vísað er til sköpunar mannkyns á ýmsan hátt og loks eyðist það í eftirmála. Þessi hrynjandi fellur inn í dauðadansinn sem myndar áhrifamikið stef í Sofandi hurð. Eftir því sem á líður verður nærvera hans ágengari, þar til sögumaðurinn bætist í hóp hinna dauðu og ákallar höfundinn, Sjón.

III

Nærvera höfundarins er eitt af einkennum verka Sjóns. Í ljóðabókinni ég man ekki eitthvað um skýin (1991) kemur skáldið fram á fremstu síðu:

(ég vil að þið sjáið mig fyrir ykkur:
dökkt hár og fölt andlit. lítil augu
bak við sólgleraugu og rauðar varir
luktar um suðuramerískan vindil.)

Fremst í bókinni og á bakkápunni er svo að finna svarthvíta teikningu sem samsvarar lýsingunni. Birgitta, eitt af hliðarsjálfum Sjóns (sbr. Sigurjón Birgir) kemur fyrir sem persóna í ljóðabókunum Birgitta (hleruð samtöl) (1979) og Reiðhjóli blinda mannsins (1982). Í ljóðabókinni Leikfangakastalar sagði hún það er ekkert til sem heitir leikfangakastalar (1986) er mynd af höfundi, tíu ára gömlum, á forsíðu og baksíðu – og á hverri síðu bókarinnar. Í Stálnótt (1987) er Johnny Triumph (Jón Sigur, Sigur-jón) örlagavaldur atburðarásarinnar og í Engill, pípuhattur og jarðarber (1989) minnir lýsingin á skugga aðalsöguhetjunnar mjög á sjálfsmynd Sjóns úr Skýjunum. Í Rökkurbýsnum (2008) birtist höfundurinn enn á ný, en þar er nærvera hans ekki eins áberandi, þó inngrip hans í atburðarásina og hugarheim söguhetjunnar sé dramatískt. Höfundurinn stígur fram á mjög óvæntan hátt í blálokin á Mánasteini (2013) og tengir söguna af drengnum sem var ekki til beint við sína eigin fjölskyldusögu.

Í Augu þín sáu mig og Með titrandi tár er nærvera höfundar ekki eins sýnileg, en hinsvegar er lögð áhersla á nálægð sögumanns, sem jafnframt er að lýsa eigin tilurð. Lesanda grunar að sögumaður sé í raun höfundurinn Sjón, því þeir vakna til lífsins á sama degi, 27. ágúst 1962. Í ljós kemur þó að Jósef Löwe er ekki Sjón, en þeir eru skólabræður í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og hittast einu sinni: „Einn morguninn […] ávarpaði ég ungskáldið þar sem það sneri baki í mig og drakk kaffi úr plastmáli“. Þá kallaði skáldið sig enn S.jón með punkti milli essins og jónsins, en „[þ]etta var veturinn nítjánhundruðogáttatíu til nítjánhundruðáttatíuogeitt“ og skáldanafnið enn í mótun. Jósef veit að það fer „í taugarnar á honum“ að vera kallaður „„Ess-jón““ og ávarpar hann því þannig. Skáldið „ætlaði að hvessa sig við mig […]“ en hættir við þegar hann sér að „það var strákurinn í hjólastólnum sem hafði sagt þetta“ og spyr í staðinn, „hver ert þú?“ Og Jósef, sem veit að „Sjón var súrrealisti og lærisveinn hins brjálaða listamanns Alfreðs Flóka“, svarar: „Ég er parísarhjól, ég er kuðungur, ég er sofandi hurð“. Þetta svar notar Sjón síðar „í ljóð sem hann nefndi „Pappír“ (501). Jósef giskar á að hann hafi verið „búinn að gleyma því að honum hafði ekki dottið það í hug sjálfum. Þar skildi ég eftir mig spor“ (501). Og viti konur: í fimmtu ljóðabók Sjóns, Reiðhjól blinda mannsins (1982), er einmitt ljóðið „Pappír“:

Hún er með tvö höfuð
vaxhöfuð vafið inn í svart klæði
og skrautmálað fuglshöfuð úr tré
úr gogginum seytlar grænn vökvi
það er hafið
hún safnar því í skál
frystir og skrifar á ísinn:
Ég er parísarhjól ég er kuðungur
ég er sofandi hurð.

Hér er lýst gervimanneskju, höfuðin tvö eru úr vaxi og tré. Og ljóðið er líka prýðisdæmi um súrrealískt myndmál þar sem líkingarnar bregða á leik með efnislega eiginleika hluta: hafið kemst fyrir í skál og hurðin sefur. [6] Og ef marka má titilinn er hafið líka pappír – og skáldkonan tvíhöfða er skapari alls (hafið er upphaf lífsins). Ljóðið vísar því til sköpunar og eyðingar, rétt eins og þríleikurinn sjálfur. Orð Jósefs um ‚sporin‘ sem hann skilur eftir eru á sama hátt dæmi um (sjálf)sköpun og tilvísun til dauða hans sjálfs.

Ennfremur er senan dæmi um enn eina birtingarmynd skáldsins Sjóns í eigin texta. Hér kemur hann ekki fram sem skapari eða örlagavaldur, heldur er hann að nokkru leyti að segja eigin sköpunarsögu, frá þeim tíma sem hann var að mótast sem skáld. Veturinn 1980–1981 var hann búinn að gefa út tvær ljóðabækur (Hvernig elskar maður hendur kemur út árið 1981, en þá hefur skáldið sleppt punktinum og kallast Sjón) og stofna súrrealistahópinn Medúsu. Og hann nefnir til sögunnar sinn helsta áhrifavald, listamanninn Alfreð Flóka. Þessi stutti kafli (rétt tæp blaðsíða) er því enn eitt dæmið um lýsingu á tilurð, að þessu sinni höfundarins sjálfs – sem deilir afmælisdegi með sögupersónu sinni.

IV

Með titrandi tárÁstarsaga – glæpasaga – vísindasaga: þessar bókmenntagreinar hafa ekki verið taldar til fagurbókmennta heldur eru gjarnan flokkaðar í lægri þrepum virðingarstiga bókmenntastofnunarinnar. Súrrealistar hafa gjarnan sótt innblástur til þess háttar rita sem talin voru höfða til ‚lægstu hvata‘. [7] Það að tefla saman fagurbókmenntum og slíkri ‚list‘ felur í sér ákveðna ósvífni sem hentaði framúrstefnufólki vel og þetta nýtir Sjón sér vel í Codexinum. Í Augu þín sáu mig er vísað til þekktra expressíónískra kvikmynda, spennumynda síns tíma; í Með titrandi tár koma hasarblöð og Drakúla við sögu og einnig er vísað til hasarblaða í Ég er sofandi hurð. Eins og fram kemur hér í upphafi nefnir Jósef teiknimyndasögu ‚um stökkbreytt börn‘, en þar er vísað til X-Men seríunnar sem notið hefur mikilla vinsælda allt frá árinu 1963. Sögurnar fjalla um það hvernig ungmenni öðlast ýmsa (ofurmannlega) hæfileika í krafti stökkbreytinga sem gefið er í skyn að séu af völdum geislamengunar. Aleta fundar með ‚hafgúu‘ sem einnig er af-mynduð vegna stökkbreytingar og sú lifir sig inn í umbreytingu sína líkt og Jósef. Samtal Umsagni r u m bækur TMM 2017 · 2 133 þeirra endar á því að hafgúan líkir Aletu við þennan stökkbreytta árgang og ítrekar þannig sambandið milli viðmælanda og viðfangs. Líkt og hin stökkbreyttu er Aleta sæborg, umformuð í krafti tæknilegs inngrips.

Segja má að þessi myndasaga sem gengið hefur í endurnýjaða lífdaga í kjölfar vinsælla kvikmynda sé undirliggjandi þema allrar skáldsögunnar en einnig má sjá ummerki reyfara af djarfara taginu. Því það sem á (kannski) upphaf sitt 1. apríl 1961 er nefnilega kynlífsmessa mikil, sem leiðir til barnsfæðinga ársins 1962. Allt hefst þetta með því að frú Thorsteinsson, ófullnægð kona á besta aldri, fer út úr húsi um miðja nótt og á holdlega fundi með fjórum karlmönnum í tveimur köflum sem bera yfirskriftina „LEYNDARDÓMUR SVARTA ÞRÍHYRNINGSINS“. Titillinn vísar í þekkta reyfara frá fyrri hluta síðustu aldar sem gjarna báru álíka titla, eins og Leyndardómar Parísarborgar (1843, ísl. þýð. 1929–1930) og íslenska útgáfan, Leyndardómar Reykjavíkur (1932–33). Svarti þríhyrningurinn vísar auðvitað í skaut konunnar, en á þessum tíma var hin hamslausa háreyðing kynfærasvæðisins ekki hafin. Þvert á móti þótti vel loðinn og dökkur þríhyrningur konunnar afar erótískur og var vinsælt viðfangsefni listamanna.

Textatengslin teygja sig líka yfir í íslenskar samtímabókmenntir, því fyrri kaflinn ber undirtitlana „(69 af stöðinni)“ og „(Frúin sem læðist)“ og sá síðari „(Frá föstudagskvöldi til laugardagsmorguns)“ og „(Klámvísa). 79 af stöðinni er fræg skáldsaga Indriða G. Þorsteinssonar (1955), Músin sem læðist (1961) er fyrsta skáldsaga Guðbergs Bergssonar og „Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns“ er titill illræmdrar smásögu Ástu Sigurðardóttur frá árinu 1951, en tíu árum síðar, sama ár og frú Thorsteinsson flekar fjóra karlmenn á einni nóttu, kom einmitt út smásagnasafn Ástu og bar titil smásögunnar. Loks má nefna Vögguvísu (1950) eftir Elías Mar. Sögur Indriða og Ástu fjalla um frjálsar ástir kvenna, 79 af stöðinni um ástandið og „Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns“ um drukkna konu sem hent er út úr veislu því hún fer á fjörurnar við mann sem hún girnist. Músin sem læðist lýsir því hvernig unglingsdrengur brýst undan kúgun móður sinnar og í Vögguvísu missir ráðvilltur unglingspiltur bæði sveindóminn og fótanna.

Að þessu leyti líkist Ég er sofandi hurð meira Með titrandi tár en Augu þín sáu mig, því í þeirri síðarnefndu eru textatengslin fyrst og fremst erlend, meðan sú fyrrnefnda gerist á Íslandi og fjallar meðal annars um það að vera ‚íslenskur‘. Hurðin sækir mjög til íslensks veruleika, en samhengið er jafnframt afar alþjóðlegt, eins og áður hefur komið fram.

Og allar einkennast sögurnar af samspili við aðrar sögur. Góleminn segir ekki aðeins sína sögu heldur stíga aðrar persónur fram og segja sínar sögur og þannig fær sjálf sagnalistin mikið vægi og rúm. Frásagnartæknin byggir á því að flétta saman atburði, bæði sögulega og skáldaða, sögur sem eiga sér jafnvel stað innan annarra sagna, goðsagnir, myndskeið og margvíslegar tilvísanir, svo úr verður þéttur, fjölskrúðugur og sérstæður sagnavefur. Sjón blandar saman staðreyndum og skáldskap og gerir engan greinarmun þar á, sagnfræðin rennur saumlaust inn í skáldskapinn og skáldskapurinn ummyndar söguna. Þessi samansaumaði skapnaður endurspeglar svo sköpun gólemsins sjálfs, en hann birtist í verkum Sjóns sem samsett vera, mótaður og (um) myndaður úr efniviði sem sóttur er í bókmenntir, kvikmyndir, trúarbrögð, stríð, mannkynssögu, þjóðsögur og myndasögur.

Áherslan á úrvinnslu texta kemur vel fram í orðaskiptum sögumanns og hlustandar í Augu þín sáu mig, þegar hún segir: „Ekki fleiri sögur!“ og hann svarar „En þetta er bókmenntaleg tilvísun!“; „Hún lætur [söguna] kallast á við heimsbókmenntir“ (205–6). Tilvitnunin úr Ég er sofandi hurð í upphafi þessarar umfjöllunar ítrekar þessa áherslu: „svo ekki fari á milli mála að saga mín kallist á við aðrar meiriháttar sagnarlistir“ (379), og rekur síðan þær fjölmörgu bókmenntagreinar og frásagnir sem að sögu hans koma.

Frásagnaraðferðin er lýsandi dæmi um textatengsl (intertextualité) eins og þau birtast í kenningum bókmenntafræðingsins og sálgreinandans Júlíu Kristevu. Textatengsl er hugtak sem Kristeva skilgreinir sem tilfærslu eða víxlun eða ferðalag eins táknkerfis yfir í annað. Þessi tilfærsla textatengslanna felur í sér „gagnkvæm skipti og umbreytingu“ á báðum þeim orðræðum sem víxlunin tekur til. [8]

Þannig umbreytir Sjón stöðugt sögunni um góleminn, allt frá því að segja hana sem sögu af tilurð barns (góleminn birtist alltaf fullorðinn og alskapaður í þjóðsögum og skáldverkum) yfir í að afhjúpa að í raun er ekki um gólem að ræða, heldur mann sem þjáist af sjaldgæfum sjúkdómi og samsamar sig þessari goðsagnaveru. Jafnframt segir hann sögur af tveimur öðrum persónum, Aletu, sem er líka að umbreytast og Hrólfi, sem á segulbandinu rekur sína sögu um það hvernig hann skapar sjálfan sig sem ofurmenni, eftir að hafa gefist upp á þeim draumi að verða rithöfundur. Í staðinn (endur)skrifar hann sögu líkamans í krafti erfðatækninnar og eyðir svo mannkyninu með því að stuðla að sköpun gervigreindar, eins og áður segir.

Sögum þessara þriggja er teflt saman í Ég er sofandi hurð og jafnframt er minnt á sjálfa frásögnina á ýmsan hátt, tilurð hennar og tilfærslu. Allar sögurnar sem fléttast inn í textann eru augljóst dæmi, svo og segulbandið, rannsóknin og spurningalistinn.

Ljósasta dæmið um sjálfsögulega hlið textatengslanna er þó áherslan á sagnamennsku og samspil sögumanns og hlustanda. Þetta kemur vel fram í kafla rétt fyrir miðju Ég er sofandi hurð. Þar hallar Jósef sér aftur í sófann eins og til að ná meiri fjarlægð milli sín og Aletu, líkt og „bilið á milli þeirra gefi honum þá frásagnarlegu fjarlægð sem hann þarf að hafa á sjálfan sig til þess að sagan sé trúverðug“, jafnframt því að geta betur fylgst með hlustönd sinni og tryggt að athygli hennar bresti ekki með því að hagræða „þræði og áherslum“. En kannski er tilgangurinn annar, „hefur Jósef óvart gripið til eins af elstu brögðum sagnameistaranna, þeirra sem láta sér ekki nægja að hafa andlegt vald á áheyrendum sínum heldur taka stjórnina á líkama þeirra strax í sögubyrjun með því að lækka róminn og halla sér aftur á bak svo að þeir halli sér fram“ (447). Þessi „hörfandi upphafshreyfing sögumanns […] dregur áheyrendur hans með honum yfir ósýnileg landamæri sagnaheimsins – og staðfestir þar með að allar sannar bókmenntir tala til búksins jafnt sem hugans“ (448). Aleta hallar sér fram og „við þá samstilltu hreyfingu tekst með þeim sáttmáli um hver sé leiðsögumaðurinn og hverjir ferðalangarnir í ferðinni sem þá er að hefjast“. Og í upphafi ferðar „bera allir sömu von í brjósti“ (447):

Að hlutverkin haldist óbreytt söguna á enda, mælandinn haldi athygli hlustenda sinna, að enginn og ekkert glatist á leiðinni, allra síst sjálf sagan þar sem stundum kann að verða laust fyrir fæti, þverhnípt, hált, kargaþýft og mýrarblautt, eða í hana opnast dauðadjúpar sprungur sem allt steypist ofan í: plöntur og dýr, mannverur og skrímsl, guðir og dauðinn sjálfur, ásamt þeim margvíslegu dönsum og ævintýrum sem verða til fyrir stefnumót þessara tegunda í borgum og sveitum, á himni og hafsbotni, að nóttu sem á degi, í sálinni og holdinu – en skyldi allt fara á versta veg þá eigi leiðsögumaðurinn í handraðanum þráð sem hægt er að lesa sig eftir upp úr hvaða eldslogandi pytti sem er, svo opnist leið gegnum fjöll og yfir firnindi. (447–8)

Og það er einmitt þetta sem Sjóni tekst svo afskaplega vel í Ég er sofandi hurð. Hann heldur vel utanum alla þræði verksins, bæði almennt séð og þá sem bókstaflega eru nefndir á síðunum (þræðir eru ákveðið þema verksins og rekja ættir sínar til þráðar sem birtist í lok Augu þín sáu mig). Leiðsögumaðurinn glatar engu þó leiðin sem hann velur feli í sér króka fremur en keldur og iðulega verði til ‚stefnumót‘ ólíkra hluta í ‚dauðadjúpum sprungum‘, en slík eru einmitt einkenni súrrealismans. Höfundurinn hefur þetta allt í sínum öruggu höndum og fatast hvergi flugið, hvort sem er að svæfa hurðir eða vekja lesendur

 

Úlfhildur Dagsdóttir

 

Tilvísanir

  1. http://www.thebookseller.com/news/icelandic- writer-sj-n-named-next-contributorfuture-library-414176, síðast skoðað 9. apríl 2017.
  2. Sjá Byron L. Sherwin, The Golem Legend: Origins and Implications, London, University Press of America, Inc. 1985.
  3. Sjálfsaga er orðið sem notað er fyrir ‚metafiction‘. Ástráður Eysteinsson, „Þetta er skáldsaga: Í sama klefa eftir Jakobínu Sigurðardóttur“, Umbrot: Bókmenntir og nútími, bls. 214.
  4. Donna Haraway, „A Cyborg Manifesto: Science, Technology, and Socialist- Feminism in the Late Twentieth Century“, Simians, Cyborgs and Women: The Reinvention of Nature, Routledge, London 1991. Sjá einnig bók mína Sæborgin: Stefnumót líkama og tækni í ævintýri og veruleika, Reykjavík, Bókmennta- og listfræðistofnun og Háskólaútgáfan 2011.
  5. Kristján B. Jónasson, „Ár stöðugleikans: Um nokkrar skáldsögur sem komu út á árinu 1994“. Gagnkynhneigt viðmið er þýðing á hugtakinu ‚heteronorm‘, sjá hugtakalista Ástu Kristínar Benediktsdóttur, https://astabenediktsdottir.wordpress.com/hinsegin-bokmenntir/hugtakalisti/, síðast skoðað 19. mars 2016.
  6. Anna Balakian, Surrealism: The Road to the Absolute, Chicago og London, University of Chicago Press 1986 (1959) Balakian, bls. 152–156.
  7. Robin Walz, Pulp Surrealism: Insolent Popular Culture in Early Twentieth-Century Paris, Berkeley, University of California Press 2000.
  8. Julia Kristeva, Revolution in Poetic Language, þýð. Margaret Waller, New York, Columbia University Press 1984 (La révolution du language poétique 1974), bls. 59–60. Helsta umfjöllun hennar um textatengsl er í grein sem þýdd hefur verið á íslensku undir heitinu „Orð, tvíröddun og skáldsaga“, þýð. Garðar Baldvinsson, Spor í bókmenntafræði 20. aldar: Frá Shklovskíj til Foucault, ritstj. Garðar Baldvinsson, Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir, Reykjavík, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands 1991 [1969]