Bergur Ebbi. Skjáskot.

Mál og menning, 2019.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2020.

SkjáskotÍ harmleikjum Shakespeares taka áhorfendur gjarnan eftir því að aðalpersónan er horfin af sviðnu í fjórða þætti; aðrar persónur verksins, og um leið minni háttar, eru þá í forgrunninum um stundarsakir og atburðir taka á sig einhverja lykkju. Þeir sem bera ekki skyn á undirölduna halda kannski að þetta sé útúrdúr, þeir horfa fram og aftur um sviðið og spyrja hvar söguhetjan sé, og vita ekki að hinn ítursnjalli meistari kunni að halda á mörgum þráðum í senn. En þar sem hann rataði jafnt um baksvið sem leiksvið, hafði hann líka aðra ástæðu og praktískari. Hann vildi semsé gefa aðalleikaranum kost á að slappa af smástund til að búa sig undir átökin í fimmta þætti þar sem boginn er spenntur til hins ýtrasta og allt ríður á frammistöðu hans. Ég veit ekki hvort menn hafa tekið eftir að svipað gerist í ferli rithöfunda, reyndar alveg óvitandi held ég: eftir hina hörðu baráttu við fyrstu bókina hvíla þeir sig andartak í annarri bókinni – semsé þá í „öðrum þætti“ ef svo má segja – meðan þeir eru jafnframt að herða sig upp fyrir næstu þætti, átökin í framhaldi ferilsins. Í fyrstu bókinni hafa þeir sagt það sem þeim lá brýnast á hjarta þegar þeir voru að leggja af stað, en svo þarf að þroska nýjar hugmyndir, eða kannski öðlast önnur og víðari sjónarhorn sem koma síðan til skjalanna í framhaldinu.

Þetta er kannski erfitt skref en þó nauðsynlegt, og má Bergi Ebba það sem yfir margan gengur. Fyrsta bók hans á þessu sviði, Stofuhiti, fékk verðskuldað lof, enda var þar gengið á hólm við kolkrabba nútímans, netskrímslið með öllum þess sogskálum, svo varla getur skorinorðara verið. Í því synti hann sterklega móti straumnum. Í annarri bók sinni um þessi efni, Skjáskoti, heldur hann sig að nokkru leyti við sama svið, en í meira logni. Eins og Hamlet var í Englandi í fjórða þætti er Bergur Ebbi í bílaleik í Boston í upphafi síns annars þáttar, segjandi „brumm, brumm“. Svo fer hann reyndar ýmsar leiðir og endar á nokkuð óvæntan hátt í súrrealisma.

Þegar hann lagði af stað í ferðina ætlaði hann að smeygja sér í spámannsgallann og horfa fram á veginn, eins og hann segir skýrum orðum í bókarlok:

Það var upphafleg hugmynd mín að þessi bók ætti að fjalla um framtíðina. En séu kaflar bókarinnar fram að þessu skoðaðir hafa þeir ekki fjallað um framtíðina nema að litlu leyti. Bókin er um nútíðina – eða raunar um umrót síðustu tíu ára, sem eru í fortíðinni. Það var alltaf ætlun mín að garfa aðeins í síðustu tíu árum til að ná að spyrna mér almennilega inn í framtíðina. En kannski er nóg að ná bara spyrnu og eftirláta þér, kæri lesandi, að semja þína eigin spádóma. (bls. 157)

Ástæðuna fyrir því að Bergur Ebbi beygði út af veginum sem hann ætlaði að fara skýrir hann þegar í upphafi bókarinnar: menn eru hættir að trúa á framtíðarspár, segir hann, „Hver hefur svo sem trú á spádómum lengur? Er það ekki hreinlega til marks um hroka að spá fyrir um framtíðina?“ (bls. 10) Þetta stafar meðal annars af því að þær framtíðarspár, sem mikil tíska var að setja fram á „fyrri áratugum“ og menn lögðu oftsinnis mikla trú á, hafa einfaldlega ekki ræst. Þær miklu „framfarir“ og umturnun mannlífsins sem hugsandi menn töldu að væru á næsta leiti, enda byggðar á óstöðvandi framförum vísinda og tækni, sem enginn dró þá í efa, hafa gufað upp einhvers staðar. Menn ganga ekki um í hvítum samfestingum og taka inn pillur í stað þess að borða máltíðir, segir Bergur Ebbi, og það rísa ekki heldur neinar nýlendur á Mars undir tunglunum tveimur sem höfundur Tarsan-bóka ímyndaði sér að vörpuðu silfruðu ljósi á landslagið (en það gera þau ekki). Við þetta mætti bæta að það eru ekki heldur komnir bílar sem ganga fyrir kjarnorkuofni í margar mannsævir án þess að það þurfi að hlaða þá og geta hafið sig lóðrétt til flugs. Það eru enn til banvænir sjúkdómar, og líka sjúkdómar sem leika menn grátt þó þeir séu ekki lífshótandi, eins og sagt er á læknamáli, og enginn hefur enn náð 150 ára aldri. Það hyllir heldur ekki undir það að menn geti stjórnað veðrinu eða sett upp risaspegil úti í geimnum fyrir aftan jörðina sem endurspeglar sólarljósið og afnemur nóttina. Í staðinn fyrir þessar glæstu framtíðarsýnir vísindamanna með glýju í augum, eru ýmsir skuggar að hrannast upp við sjóndeildarhring, sem margir kynoka sér þó við að líta á. Dómur Bergs Edda er ótvíræður:

Framtíðin er bara kaótísk – og flestar spár dagsins í dag byggjast á mismunandi útfærslum á allt-getur-gerst-óreiðukenningum. Við vitum hreinlega ekkert hvað mun gerst næst. […] Það eina sem við vitum er að allt getur gerst! (bls. 10-11)

Og þetta undirstrikar hann í mergjuðum orðskviðum:

Það er búið að taka framtíðina af okkur. […] Framtíðin hvarf af því að hættum að trúa á hana. Tuttugasta öldin, með öllum sínum trufluðu hugsjónum, drap framtíðina. (bls. 11)

Eftir þessar hugleiðingar grípur Bergur Ebbi sem sagt í stýrið á sínum Chevrolet Suburban, eða hvað það nú heitir, og beygir af vegi. Það er svosem gott og gilt í öðrum þætti, en fyrr eða síðar verður þó að halda ótrautt áfram og takast á við þá miklu framtíðar-hýdru sem nú er að teiknast upp í þokunni. Meira um það seinna.

Frá þeirri braut sem Bergur Ebbi heldur nú eftir er vítt útsýni en ekki sérlega fagurt. Það er sá nútími sem við lifum í og höfundur takmarkar nokkurn veginn við þann áratug sem nú er að líða, með einstaka framtíðarhillingum. Þetta er sá akur sem hann hefur áður plægt en nú vill hann sökkva arðinum dýpra, og skoða þá kosti sem jarðvegurinn býður upp á. Þar virðist fátt geta vaxið nema flækjur af illgresi, og þeim horfum lýsir höfundur nokkuð almennt þegar í byrjun:

Ég skal bara segja hvað ég óttast mest. Ég óttast að allt samhengi hverfi úr tilverunni […] Og það er heimsendirinn sem ég miða við í mínum spádómi. Ég held að hann verði ekki að veruleika. Ég er bjartsýnismaður. En ég held að heimsendir mannkynsins sé ekki tortíming í eldi, heldur þvert á móti, eilíf útþensla merkingar og visku sem endar með því að einstaklingar eiga ekki roð í þann margfalda massa sem þeir innbyrða á hverjum degi. (bls. 14-15)

Þetta samhengisleysi skoðar hann frá ýmsum hliðum. Rót þess er síðasta iðnbyltingin, „hin fjórða“ segir hann, „stafræna byltingin eða tölvubyltingin“, sem byggist á nettengingu heimila, spjaldtölvu, snjallsíma og öðrum slíkum tólum. Með henni komu ýmislegir fylgifiskar, sítenging um daga og nætur, stöðugur skermakláði, og ekki síst tölvuleikir, klámbylting, svo og einelti, að sjálfsögðu, sem gengur nú í endurnýjun lífdaga. Á þennan hátt er hún að „má út skilin milli tölvutækninnar og mannsins. Í raun er ekkert eftir á milli manns og tölvu í dag nema þessi næfurþunni skjár. Þetta gler sem við erum sífellt að pota í og á það til að brotna. Þar stöndum við í dag.“ (bls. 52)

Af þessu hlýst svo samhengisleysið; dæmi um það eru túrhestarnir í Boston sem flykkjast að húsi Paul Revere vegna þess að appið segir þeim að það sé eitthvað merkilegt – en þeir hafa enga hugmynd um hvað er svo sem merkilegt við það.

Þetta er hverju orði sannara, en hægt væri að ganga enn lengra. Í samhengisleysinu myndast dauðadjúpar gjár þar sem alls kyns skrímsli geta leynst, svo sem falsfréttir og mótsagnir. Um þessar mundir hef ég lesið í blöðum, kannski í sama blaðinu, greinar um þær miklu auðlindir sem hægt er að nýta í Ballarhafi þegar ísinn hverfur, botnlausa olíupotta og jarðgas, og svo um leið greinar sem útskýra að til  þess að forðast meiri háttar hörmungar sé nauðsynlegt að láta megnið af slíkum auðlindum liggja grafkyrrt í iðrum jarðar, snerta þær ekki. Þarna er samhengisleysið orðið að kleyfhugasýki.

Þetta teygir sig svo allmiklu víðar, í rauninni er tölvan með öllum sínum öppum búin að taka völdin:

Apple […] sendir mér tilkynningu í gegnum skjáinn: „You Have a New Memory“ og birtir mér myndir af skemmtilegum degi úr lífi mínu. Apple minnir mig á að ég eigi minningu. Apple setti merkimiða á ákveðinn dag í lífi mínu. Apple sagði mér að hér væri um að ræða ágætis minningu, því Apple hefur búið til sams konar minningar fyrir milljónir annarra, og Apple getur það vegna þess að ég er tilbúinn að festa rafræna merkimiða á líf mitt. Apple veit hvenær ég tók myndirnar og hvar. Apple veit meira að segja líka hvort mér líki yfirleitt við fólkið sem ég tók myndir af þann dag, því það sér hvort ég hafi tekið af því myndir áður. (bls. 80)

Á þennan hátt hefur allt merkingu: „Sér hinn stafræni heimur ekki til þess að allt sé flokkað og kyrfilega merkt? Er þetta kannski ástæða þess að það er erfitt að finna nokkurn skapaðan hlut lengur sem hefur enga merkingu? Það er búið að finna öllum upplýsingum farveg. Það er ekki hægt að meina ekkert lengur.“ (bls. 70)

Á netinu er allt lagt að jöfnu, ekkert hefur lengur samastað og tíma í tilverunni, því allar víddir eru horfnar, ekki síst tímavíddin. Nú er hægt að gera mann ærulausan fyrir eitthvað sem hann hefur látið frá sér fara einhvern tímann fyrir löngu, í allt öðru samhengi (um það segir höfundur: „Ummæli sem látin falla í ákveðnu samhengi geta litið illa út í öðru samhengi“ (bls. 142), en það er afskaplega hóflega sagt). En jafnframt er allt merkilegt:  „í dag er eiginlega ekki hægt að finna neitt sem ekki er merkilegt“, segir Bergur Ebbi (bls. 60), það er vegna þess sem hann kallar einu sinni „vegsömun hins ómerkilega“ og bætir svo við:

Kannski vantar samhengi í veröldina af því að við erum of upptekin af því að dásama allan fjandann. Það vantar afstöðu. Við erum enn að súpa seyðið af því að Jesús Kristur okkar tíma (Jobsarinn) rétti okkur bara lítið tæki á stærð við rúgbrauðssneið og sagði: Þetta er frábært tæki. Og síðan þá höfum við haldið að við þurfum að dásama allt sem þetta tæki miðlar, alveg óháð því hversu mikið drasl það er. (bls. 68)

En ef allt hefur „merkingu“ og er „merkilegt“ má líka segja að ekkert hafi merkingu, því hún byggist á því að ekki sé allt lagt að jöfnu, sumt teljist „merkingarlaust“, semsé að eitthvert system sé í öllum galskapnum á netinu.

Þetta er allt rétt og satt hjá Bergi Ebba, en nú er ýmsu við þetta að bæta, og má þá fyrst telja að þetta samhengisleysi sem venjulegir menn finna er ekki samhengisleysi fyrir alla. Netið veit nefnilega allt um notendur þess, það veit svo miklu, miklu meira um þá en þeir geta nokkurn tíma sjálfir vitað. Og sú vitneskja er ekki samhengislaust hrúgald. Það veit flest það sem á daga þeirra hefur drifið, það þekkir áhugamál þeirra út í æsar, og ef lækin eru nógu mörg getur það skyggnst inn í sálarlíf þeirra, smekk, tilfinningar og þess háttar. Á þetta allt hendir það fullar reiður, með sínum algrímum getur það gert úr þessu öllu saman heildarmynd af því tagi sem guðfræðingar miðalda töldu að drottinn allsherjar einn gæti séð.

Og netið liggur ekki á þessari visku sinni. Sem stendur miðlar það fyrst og fremst auglýsendum og öðrum slíkum kaupahéðnum af henni, eins og menn geta séð í smáu og stóru. Má rifja upp dæmið af manninum sem sendi vini sínum póst um að hann hefði hug á að kaupa sófa og fékk þá tölvufylli af tilboðum um legubekki alls konar. En mun verra fylgir á eftir, og verður þá að nefna auglýsingaskrifstofuna sem útbjó einhvers konar sálarprófíla af kjósendum og seldi stjórnmálaflokki svo hann gæti miðað sinn áróður persónulega við hvern og einn. Kannski sent honum nokkrar falsfréttir með, eða eins og Bergur Ebbi segir: „Falsfréttir eru afleiðing af því að upplýsingaflóðið er slíkt að þeir háværustu geta fiskað upp það sem hentar þeim best og afskrifað restina sem vitleysu“ (bls. 101). Og það verður enn auðveldara ef þeir geta haft algrím fyrir hátalara.

Þegar litið er á þá þróun sem sífellt er að verða á netinu, má gera ráð fyrir að þetta sé aðeins upphafið, og er það fagnaðarlaus framtíðarsýn. Þetta skynjar Bergur Ebbi fyllilega og hann sér óljóst eina kraftbirtingu hennar: áreksturinn milli holds og rafmagns.  Hann segir:

Það hefur verið fjallað um þessa sérstöku tíma sem við lifum á, þar sem við erum búin að gagnavæða stóran hluta tilveru okkar en stöndum þó kyrfilega á jörðinni, með fætur úr kjöti. Og hvergi er þessi togstreita milli rafheima og kjötheima jafn áberandi og við núning fingra okkar á snertiskjám snjalltækja okkar. […] Skjárinn er það sem skilur á milli okkar og tækninnar. Síðustu landamærin. Einu landamærin. (bls. 158).

Bergur Ebbi byrjar og endar á bjartari nótunum: „Ég er bjartsýnismaður“ segir hann strax í upphafi bókarinnar, og undir lokin lýsir hann yfir: „Maðurinn á ekki í stríði við vélina. Tölvur munu ekki taka stjórnina“ (bls. 125). En ekki er víst að allir muni taka undir þetta, og það er þess vegna sem nú er einkum þörf á innblásnum spádómum af því tagi sem Bergur Ebbi hafði fyrst í huga. Þeir þurfa að vera margir, því framtíðin er jafnan opin, en vel grundvallaðir, svo menn geti skoðað í sem flesta kanta þá kosti sem kunna að vera framundan.

Spádómar um framtíðina hafa gjarnan verið tvenns konar, annars vegar hafa menn ímyndað sér að umliðin þróun héldi áfram og framlengdu hana þá á sömu nótum, eða menn álitu – eða vonuðu – að einhverjir risu gegn henni og sveigðu inn á aðrar brautir. Framfarakenningin ýtti undir fyrri tegund spádómanna í mikilli bjartsýni, og nú bendir allmargt til þess að sitthvað af því tagi geti ræst, en því fylgir ekki lengur nein bjartsýni. Menn velta því einungis hvernig þeir geti komist af, leigt sér íbúð á tunglinu eða sest að á afskekktum stað og ræktað garðinn sinn. Mikil þörf er á spádómum af síðara taginu, en þeir eru erfiðari. Og nú er bara að bretta upp ermarnar.

 

Einar Már Jónsson