Erla Hulda Halldórsdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir, Þorgerður H. Þorvaldsdóttir. Konur sem kjósa: Aldarsaga.

Sögufélag, 2020. 781 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2021

 

Konur sem kjósaÍ eftirfarandi ritdómi hyggst ég ræða hið stóra og mikla verk Konur sem kjósa: Aldarsaga. Hér er óneitanlega stórvirki á ferð sem gefur, eins og titillinn gefur til kynna, yfirlit yfir sögu kosninga íslenskra kvenna síðustu hundrað ár. Verkið er afrakstur samvinnu fjögurra kvenna sem allar hafa stundað miklar rannsóknir á þessu sviði og skipta höfundar með sér ellefu köflum verksins, ásamt því að skrifa suma kaflana sameiginlega. Formgerð verksins er nokkuð sérstök, en jafnframt afar áhugaverð, en í hverjum kafla beina höfundar sjónum að einu tilteknu kosningaári, og ásamt því að fjalla um þær tilteknu kosningar með tilliti til kosningaþátttöku kvenna er rýnt í þær miklu samfélagsbreytingar sem orðið hafa frá síðustu kosningum sem fjallað var um. Eins og höfundar greina frá í inngangi er „leiðarhnoð“ verksins kosningar til Alþingis. En með „því að byggja frásögnina upp í tengslum við ellefu kosningaár má taka sneiðmyndir af stjórnmálasögu kvenna á þeim hundrað árum sem konur hafa haft tækifæri til að kjósa og bjóða sig fram til þings.“ (23) Þannig gefa höfundar lesanda greinargóða yfirsýn yfir réttindabaráttu kvenna, þá sigra sem unnist hafa og ýmis bakslög sem einnig hafa orðið.

Áður en farið er nánar út í efni ritsins vil ég aðeins ræða formgerð þess og uppsetningu. Verkið er í fyrsta lagi stórt að sniðum og ríkulega myndskreytt. Hver kafli er aukinn með innskotum þar sem fjallað er sérstaklega um ýmis atriði tengd kvenréttindabaráttunni og einnig er í hverjum kafla fjallað um elstu konuna sem kaus í kosningum þess árs. Þeir kaflar eru sérstaklega athyglisverðir og gefa innsýn í bæði ævi og störf kvenna, sem og breytinguna á bæði lífsháttum og tíðarandanum. Inngangur að verkinu sjálfu, ásamt inngangi að hverjum kafla fyrir sig, er hafður með stóru letri sem gerir verkið mun fljótlesnara en ætla mætti við fyrstu sýn. Einnig þarf að minnast á skærrauða litinn sem prýðir kápuna, en ásamt því að vera einstaklega fallegur hæfir hann viðfangsefninu augljóslega fullkomlega og er því ekki annað hægt að segja en að bókin sjálf sé mikill og fagur gripur.

Vandasamt verkefni er að skrifa ritdóm um stórvirki af þessu tagi og augljóslega gefst ekki rúm til þess að fjalla ítarlega um allt það sem verkið hefur fram að færa. Mun ég því einungis fara lauslega yfir þá þætti sem mér fannst sérstaklega áhugaverðir – sem ég vona að gefi um leið ágætt yfirlit yfir ritið. Þar má sérstaklega nefna umræðurnar um réttindi kvenna, baráttuna fyrir þeim og hvernig þau hafa breyst í tímans rás. Með þessu er ekki ætlunin að gera einstökum köflum hærra undir höfði en öðrum því að framlag allra höfunda til verksins eru framúrskarandi.

Kveikjan að bókinni var hundrað ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna árið 2015, eins og höfundar lýsa í inngangi. Útgangspunkturinn, eða „rauði þráðurinn“, er „spurningin um hvenær konur urðu fullgildir borgarar í samfélaginu.“ (20) Þannig er ekki einungis einblínt á hvenær konur öðluðust tiltekin réttindi, þ.e. þau voru fest í lög, heldur er ekkert síður mikilvægt að mati höfunda að greina hvenær konur fara í raun og veru að nota sér þau réttindi. Höfundar grípa því til hugtaka úr fræðunum, svo sem almannasviðs og einkasviðs, til að skýra mismunandi hlutverk kynjanna í samfélaginu, þar sem hefðbundin störf karla (sérstaklega stjórnmálin) tilheyra hinu fyrra en hefðbundin kvennastörf, svo sem barnauppeldi og heimilisstörf, hinu síðara. Einnig skýra höfundar frá því að mikilvægt hugtak í frásögninni sé hið margumtalaða feðraveldi sem kvennahreyfingin hefur ávallt, á einn eða annan hátt, verið í baráttu gegn. Að dómi höfunda er þetta „hugtak sem á sér djúpar rætur í vestrænni menningu en í fræðilegu samhengi kvenna- og kynjasögurannsókna er feðraveldi hugmyndakerfi; siðir, venjur og lagasetningar sem styrkja yfirráð karla yfir konum. Hið óeiginlega feðraveldi lýsir sér í ríkjandi viðhorfum og hegðun sem erfitt getur verið að festa hendur á en hið eiginlega feðraveldi var sannarlega til staðar víða um lönd og lýsti sér í lögum og reglum sem tryggðu yfirráð karla yfir konum.“ (20–21).

Í inngangi er einnig farið stuttlega yfir hugtakið kvennahreyfing og höfundar útskýra hvaða merkingu þær leggja í það. Eins og þær benda á er hugtakið ekki endilega eins einfalt og telja mætti. Ekki hafa allar kvennahreyfingar barist fyrir kvenréttindum á sömu forsendum og því hefur greinarmunur verið gerður „á annars vegar kvennahreyfingu (kvennasamtökum) sem studdu yfirráð karla og ríkjandi gildi, og hins vegar femínískri kvennahreyfingu, þar sem kynbundið valdakerfi er dregið í efa.“ (21) En höfundar útskýra þó að þær notist við fremur víða skilgreiningu í rannsókn sinni, og er kvennahreyfingin í meðförum þeirra hugtak sem nær „yfir öll kvennasamtök sem börðust fyrir bættri stöðu kvenna, hvort sem þau voru femínísk, unnu að félagslegum umbótum eða voru í eðli sínu íhaldssöm.“ (22) Er hér því um regnhlífarhugtak að ræða sem nær yfir alla kvenréttindahreyfingu 20. aldar og þau ólíku samtök sem mótuðu hana.

Fyrsta kosningaárið sem sjónum er beint að er 1916, en þá voru fyrstu kosningar íslandssögunnar eftir að konur fengu kosningarétt og máttu þar með bjóða sig fram til þings. Í kaflanum er kosningarétturinn sjálfur í aðalhlutverki, ásamt aðdragandanum að honum. Eðli málsins samkvæmt er Bríet Bjarnhéðinsdóttir fyrirferðarmikil, sagt er frá stofnun Kvenréttindafélags Íslands 27. janúar 1907 á heimili hennar, ásamt baráttunni fyrir fullum stjórnarfarslegum réttindum kvenna, eflingu félagsskaps kvenna og þekkingu. Einkar athyglisvert er að lesa um alþjóðasamstarfið, en eins og höfundar lýsa því „voru baráttukonur á Norðurlöndum duglegar við að koma á samskiptum milli landa með bréfasendingum og boðum á fundi.“ (67) Einnig benda þær á að „allmargar íslenskar konur fóru til náms til Danmerkur (einnig Noregs) eða bjuggu þar í lengri eða skemmri tíma. Slík persónuleg kynni og sambönd skiluðu sér inn í íslenska kvennabaráttu“ (67). Ítarlega er fjallað um þá miklu og ólíku andstöðu sem kosningaréttur kvenna mætti, á þeim forsendum að hann myndi leiða til þess að konur gæfu hefðbundin störf sín upp á bátinn – nokkuð sem talið var að leiddi beint til upplausnar samfélagsins. Eitt það athyglisverðasta í þessari umfjöllun er hvernig ýmsum hugmyndum um séreðli kvenna var beitt gegn baráttu þeirra – en einnig notað í meintum stuðningi við þær.

Talað var niður til kvenna í blöðum og á Alþingi, þegar kvenréttindi voru til umræðu, því þótt kvenfrelsismálið ætti sér talsmenn í hópi karlmanna, utan þings og innan, voru þar líka karlar sem töldu sig vita betur en konur hvað þær væru færar um að gera. Orð margra karlmanna eru mótsagnakennd blanda af hugmyndum um mannréttindi (þar með talin kvenréttindi) og eðlishyggju; þeirri hugmynd að karlar og konur séu ólík að eðlisfari. Árið 1911 sagðist þingmaður til dæmis hlynntur því að konur fengju jafnrétti á við karlmenn jafnvel þótt „gáfnafari og lundarfari sé ólíkt farið og konur skorti oftast dómgreind á við karlmenn“. Dómgreindarskortinn taldi hann konur vinna upp með öðrum kostum.  Hér er talað beint inn í hugmyndir um svokallað séreðli kvenna; Annars vegar að siðferðilegir yfirburðir kvenna nýttust vel á tilteknum sviðum stjórnmálanna og hefðu góð áhrif á þau og karla, og drægju úr dónaskap. Á hinn bóginn var það hugmyndin um „fávisku“ kvenna, dómgreindarleysi og skort á rökhugsun, sem lifði góðu lífi næstu áratugi og var óspart notuð gegn konum. (69)

Hér má auðvitað velta fyrir sér að hve miklu leyti slíkar hugmyndir séu enn notaðar gegn konum, því þótt fáir ræði beint um séreðli kvenna með eins afdráttarlausum hætti nú og þá – hvað þá beint úr ræðupúlti Alþingis – er ljóst að enn má sjá leifar af þessum hugmyndum í umræðum samtímans. Nægir þar að nefna hugtakið hrútskýring (e. mansplaining), sem margir femínistar hafa notað til að lýsa þeirri tilhneigingu karla að útskýra fyrir konum eitthvert tiltekið viðfangsefni – jafnvel þeirra eigin reynslu. Lesturinn á fyrri köflum verksins, um aðstæður kvenna og ríkjandi viðhorf í þeirra garð á fyrri hluta 20. aldar, er þannig sérstaklega áhugaverður að því leyti að þeir virðast við fyrstu sýn lýsa framandi heimi – sem þegar nánar er að gáð reynist ekki endilega eins framandi og við myndum vilja.

Kosningarnar 1916, sem mikil bjartsýni hafði ríkt yfir, urðu að lokum nokkur vonbrigði. Einna helst þau að Bríet Bjarnhéðinsdóttir náði ekki kjöri. Höfundar rekja ýmsar ástæður þess, einkum 40 ára aldursákvæðið sem Bríet gagnrýndi og kallaði „hinn nafnfræga, íslenska stjórnviskulega búhnykk“ (78). Þrátt fyrir þessa takmörkun á kosningaréttinum hvatti hún konur til að láta hana ekki yfirskyggja þau réttindi sem þær höfðu þó fengið. Önnur veigamikil takmörkun á kosningaréttinum var fátækt, eða eins og höfundar lýsa því: „Allt til ársins 1934 missti einstaklingur, karl eða kona, sem neyddist til að þiggja sveitarstyrk, kosningaréttinn nema styrkurinn hefði verið greiddur til baka (sem flestum var ómögulegt) eða stjórnvöld hefðu ákveðið að fella skuldina niður. Fátækt var gjarnan samtvinnuð þáttum á borð við kyn, aldur, fötlun eða heilsuleysi, hjúskaparstöðu og ómegð.“ (80)

Næst er fjallað um kosningarnar 1926 og er sá kafli að miklu leyti helgaður ýmsum kvennasamtökum sem sprottið höfðu upp á þeim tíma. Er þar fjallað töluvert um húsmæðrastefnuna, sem höfundur, Erla Hulda Halldórsdóttir, lýsir sem „að ýmsu leyti andsvar[i] við nútímanum“. (135) Sérstaklega er athyglisvert að lesa um þær ólíku hugmyndir um konur sem umræðan einkenndist af. Eins og Erla Hulda lýsir því var umræðan flókin og konur ekki alltaf samkvæmar sjálfum sér, en fæstar „vildu afneita kvenleikanum eða kvenlegum eiginleikum og móðureðlið var í hávegum haft, líka meðal ákafra kvenréttindakvenna. Á yfirborðinu snerist umræðan um það hvort konur væru vitsmunalega færar um að standa körlum á sporði og þá um leið hvort þær sem eftir því sóttust eyðilegðu sitt „kvenlega eðli““. (134) Í viðamikilli umfjöllun um aðstæður kvenna og þau margþættu störf sem þær sinntu, ásamt umræðum þess tíma um réttindi þeirra, dregur hún fram „rauðan þráð“ í þessum umræðum sem er óttinn „um að konur taki samfélagið yfir og steypi því á hvolf“. (144) En þetta er ótti sem að einhverju leyti er enn sjáanlegur, þótt hann hafi vissulega breyst og eigi sér nú aðrar og vægari birtingarmyndir.

Margt hefur þannig áunnist í kvennabaráttunni en á leiðinni hafa orðið ýmis bakslög. Ritið býður einmitt upp á afar áhugaverða rannsókn á endalausri togstreitunni þar á milli sem birtist með ýmsum hætti. Til dæmis í kaflanum um kosningarárið 1937, en þar fjallar Ragnheiður Kristjánsdóttir um millistríðsárin og hvernig víða var þrengt að réttindum kvenna þá. Þetta á einkum við í þeim löndum þar sem fasistar komust til áhrifa en einnig voru sett ýmis lög sem takmörkuðu rétt kvenna annars staðar, til dæmis í Bandaríkjunum, og mikill stuðningur var við slíkt hér á landi. Sérstaklega er áhugavert að lesa um íslensku kommúnistahreyfinguna í kaflanum og hvernig forysta hennar, sem samanstóð af körlum, reyndi að höfða til kvenna með ýmsum hætti. Minnst er á smásöguna „Örbirgð“ eftir Kristínu Sigfúsdóttur og kvenímyndina sem dregin er upp í aðalpersónunni Sveitar-Guddu sem á ekki einu sinni klútinn sem hún grætur í. Eins og Ragnheiður bendir á kynnir Kristín „til sögunnar persónu sem er eins réttlítil og aum og nokkur manneskja gat orðið í íslensku samfélagi á þessum tíma – konu sem var sístritandi, niðurbrotin og allslaus sveitarómagi. Þess háttar kvenímynd var ríkjandi í stjórnmálaorðræðu kommúnista.“ (209) Jafnframt er fjallað um þær konur sem virkar voru í kommúnistahreyfingunni, eins og Indíönu Garíbaldsdóttur og Ingibjörgu Steinsdóttur. Er kommúnistahreyfingin þó aðeins einn angi af stjórnmálastarfi kvenna á fjórða áratugnum sem var margslungið, eins og Ragnheiður fer yfir.

Ef við stökkvum aðeins fram í tímann, til kaflans um kosningarárið 1974 sem skrifaður er af Þorgerði H. Þorvaldsdóttir, má glögglega sjá hversu mikið hefur áunnist á þeim tíma. Þorgerður nefnir að árið 1970 hafi verið „1968 kvennanna“, en það er árið sem ný kvennahreyfing kom til sögunnar, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Hér á landi var birtingarmyndin Rauðsokkahreyfingin sem var nátengd hinni alþjóðlegu hreyfingu. Þorgerður rekur hvernig umræðan um slæma stöðu kvenna í samfélaginu, ásamt dræmri stjórnmálaþátttöku þeirra, einkenndi allan áratuginn. Mikil umræða var um foreldrahlutverk og þingmennsku, „þar sem sjónum er eingöngu beint að mæðrum en ekki feðrum“, sem Þorgerður segir að hafi verið „á margan hátt lýsandi fyrir ríkjandi viðhorf í samfélaginu“ (440).

En viðhorfin voru þó að breytast. Sérstaklega með tilkomu Rauðsokkahreyfingarinnar, en hún var „hvort tveggja í senn, vettvangur umræðu og aðgerða, en um leið áhrifamesti gerandinn í þeirri uppstokkun á kynjakerfinu sem hrundið var af stað á áttunda áratugnum.“ (440) Ásamt því að rekja það margþætta starf sem Rauðsokkahreyfingin stóð fyrir, ekki síst margvíslegar aðgerðir sem lýstu raunveruleika kvenna með táknrænum hætti, ræðir Þorgerður með einkar athyglisverðum hætti tengsl kvennabaráttunnar við stéttabaráttu. Hún minnist á þá lífseigu gagnrýni að íslenska kvennahreyfingin hafi að langmestu leyti snúist um að fjölga áhrifastöðum í þjóðfélaginu fyrir háskólamenntaðar millistéttarkonur sem skeyttu litlu sem engu um kjör þeirra kvenna sem stóðu lægst í þjóðfélagsstiganum.

Þorgerður telur þessa gagnrýni vera „ómaklega“ og bendir á að þær „konur sem voru í framlínu Kvenréttindafélagsins á fyrstu áratugum 20. aldar tilheyrðu sannarlega yfirleitt efri lögum samfélagsins. Eitt af stóru baráttumálum þeirra var hins vegar að bæta kjör fátækra kvenna og barna“ (443). Hún bendir einnig á að með tilkomu Rauðsokkahreyfingarinnar hafi stéttahugtakið og kjör láglaunakvenna orðið miðlægt í starfseminni. Á ráðstefnu rauðsokka, sem haldin var í Skógum í júní 1974, var þessi stefna staðfest, en eins og Þorgerður orðar það var þar „tekist á um hugmyndafræðilegan grundvöll Rauðsokkahreyfingarinnar, sem endaði með róttækri vinstri beygju“. Í tillögu sem samþykkt var með miklum meirihluta var því lýst yfir að „barátta kvenna fyrir jafnrétti kynjanna verði ekki slitin úr tengslum við baráttu undirokaðra stétta“. (443)

Síðasti kafli verksins fjallar um kosningarárið 2017 og er skrifaður sameiginlega af öllum höfundunum fjórum. Höfundar fjalla um þann margbreytileika sem hefur einkennt þjóðfélagið, og þar með kvennahreyfinguna, á þessum tíma. Rætt er sérstaklega um fyrirbæri eins og #metoo-byltinguna, Klaustursmálið og Druslugönguna, ásamt stöðu kvenna í þjóðfélaginu almennt. Einkar athyglisverður kafli í þessari frásögn fjallar um nýju verkalýðsforystuna sem birtist í kjöri Sólveigar Önnu Jónsdóttur sem formanns Eflingar og Drífu Snædal sem forseta ASÍ. En höfundar greina auknar áherslur í verkalýðsbaráttunni sem lið „í þverþjóðlegri þróun“, og að talað „hefur verið um nýja femíníska bylgju, þar sem meðal annars hugmyndinni um kvennaverkfall eða kvennafrí var beitt til að að krefjast í senn bættrar stöðu í einkalífinu og á vinnumarkaði.“ (680)

En þrátt fyrir það sem hefur áunnist í baráttunni þegar komið er fram á okkar tíma eru blikur á lofti. Í umfjöllun sinni og greiningu á öðrum áratug 21. aldar komast höfundar að þeirri niðurstöðu að eftir því sem leið á áratuginn hafi það orðið „æ ljósara að þrátt fyrir söguna um sigurgöngu norrænna samfélaga í átt að sífellt fullkomnara jafnrétti var þar, líkt og í svo mörgum öðrum löndum, til staðar þung undiralda gegn frelsi kvenna, innflytjenda og hinsegin fólks. Ógn stafaði af íhaldssömum hreyfingum sem hömpuðu hefðbundnum kynjahlutverkum og vildu skerða fengin réttindi ýmissa hópa.“ Því komast þær að þeirri niðurstöðu að baráttunni „fyrir réttlæti er aldrei lokið og það er mikilvægt að hafa í huga það sem fræðimenn telja að hafi haft mest áhrif á framgang réttlætis og aukin völd kvenna: Femínísk umræða um jafnréttismál og stöðugur þrýstingur kvennahreyfinga.“ (691)

Þannig er staðan nú og ekki er vanþörf á áframhaldandi baráttu. Þessi ritdómur er skrifaður í miðjum stormi enn annarrar bylgju #metoo-hreyfingarinnar, sem ekkert lát virðist vera á. Eitt af því sem einkennt hefur þessa nýjustu bylgju er að karlmenn hafa í síauknum mæli stigið fram og annaðhvort lýst yfir stuðningi við konur, með því að segjast trúa þolendum, eða viðurkenna opinberlega misbresti í samskiptum sínum við konur. Ásamt því að karlmenn stíga fram og lýsa eitruðum karlmennsku viðhorfum, einna helst í búningsklefum fótboltamenningarinnar.

Eru þessar umræður og deilur í fullum gangi þegar þetta er skrifað, og eitthvað sem ég vil ekki taka neina sérstaka afstöðu til hér. Ekki nema þá að mæla innilega með lestri þessa stórvirkis, fyrir alla auðvitað, en sérstaklega þá karlmenn sem segjast vilja leggja kvenréttindabaráttunni lið. Því hér er fjallað með afar yfirgripsmiklum og vönduðum hætti um allar þær margþættu hliðar kvenréttindahreyfingarinnar og kvennabaráttu á 20. öld og fram á þá 21. Bókin sýnir svo ekki verður um villst hversu mikilvægur drifkraftur fyrir samfélagslegum breytingum kvennahreyfingin hefur verið, ásamt því hversu nauðsynleg hún er í baráttunni fyrir bættri framtíð. Ekki einungis fyrir konur, heldur allt fólk.

 

 Jóhann Helgi Heiðdal