Jónas Reynir Gunnarsson, Dauði skógar.

JPV útgáfa, 2020. 180 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2021

 

„Síðustu ár hafði ég fundið fyrir sívaxandi leiða á því að horfa á veröldina í gegnum gler.“[1]

 

Dauði skógar

Dauði skógar er þriðja skáldsaga rithöfundarins og ljóðskáldsins Jónasar Reynis Gunnarssonar. Í fyrri skáldsögum Jónasar höfum við kynnst aðalpersónum í krísu. Þær eru áttavilltar, í leit að réttri braut og merkingu í lífinu; réttri, eða í það minnsta nýrri. María í Millilendingu og Daníel í Krossfiskum eiga það sameiginlegt að vera ung og leitandi, bæði dálítið umkomulaus og rótlaus. Magnús, aðalpersónan og sögumaðurinn sem við hittum fyrir í Dauða skógar er talsvert eldri en fyrirrennarar hans í verkum Jónasar, fjölskyldufaðir á miðjum aldri, en eirðarleysið og dálítið týnt blikið sem við sjáum fyrir okkur í augum hans er þó kunnuglegt.

Dauði skógar gerist á tveimur tímaplönum og er skipt í fjóra hluta. Þar sem frásögnin hefst eru atburðirnir sem knýja söguna áfram þegar liðnir og sögumaður okkar, sem við vitum ekki enn hvort sé fyllilega treystandi eða ekki, er staddur á Spáni. Hann segir beint út að þangað hafi hann farið til að hverfa.

Jónasi tekst vel að byggja upp spennu í fyrsta hluta sögunnar. Sögumaður er á flótta, segir hann okkur, og strax á næstu blaðsíðu fá lesendur að vita að skógurinn sem við hittum fyrir í titlinum hafi hulið hættulegt leyndarmál: Undir honum leyndust sprengjur. Þar með telur lesandi sig auðvitað vita að hér sé kominn prímus mótor, aflmiðja í framvindu sögunnar. Við fáum meira að segja teiknaða skýringarmynd, örlítið klunnalega, af sprengjunum sem eru í laginu „eins og kaffibrúsar með stéli“. (9)

En Dauði skógar er samt engin spennusaga með sprengingum, þótt þar verði vissulega sprenging. Hún er mun frekar rannsókn á rótarkerfinu innra með manneskjunum en skóginum sem hvarf.

 

Rótarkerfi, rótleysi

Skógurinn sem um ræðir leikur veigamikið hlutverk í sögunni enda tengist Magnús honum sterkum tilfinningaböndum. Faðir hans hóf skógræktina eftir að foreldrar hans létust með skömmu millibili og þá tengir Magnús hann sömuleiðis bernskuminningum um móður sína sem lést ung. Þeir feðgar voru tveir í heimili alla æsku Magnúsar, og nú er faðir hans orðinn háaldraður og farinn að kalka.

Strax á fyrstu blaðsíðu veltir sögumaður fyrir sér minningum og hvernig þær myndast í heilanum. Jónas er ákaflega myndvís sem ljóðskáld og hér fær tréð, skógurinn, margþætt hlutverk.

„Þegar við deyjum skiljum við eftir mynstur ákveðinna taugafruma í heilum þeirra sem þekktu okkur. Við erum í raun eins og gróður inni í heilum hvert annars. Vöxum og kvíslumst um þetta mjúka og vota andslag, sem kallast helst á við fenin sem fyrstu skógarnir spruttu upp úr.“ (7)

Við sjáum þannig rótarkerfi skógarins fyrir okkur sem minningakerfi, jarðneska heimild um fólkið sem ræktaði skóginn, foreldra sögumanns. Þessi nánu tengsl eru undirstrikuð enn frekar með því að faðir sögumanns deyr örskömmu eftir að aurskriðan grandar skóginum, dauðsfallið virðist raunar bein afleiðing af áfallinu sem fólst í því að sjá fortíðina rifna upp með rótum, svo að segja.

Missir skógarins, og föðurins, hefur djúpstæð áhrif á Magnús en rótleysi hans og óeirð í lífinu hefur þó með fleira að gera. Hann hefur sjálfur nýlega gengið í gegnum breytingar á sínum högum, selt fyrirtæki sem hann byggði upp og hagnast nokkuð vel á því. Hann er hættur að vinna og dundar sér helst við að keyra um á stóra jeppanum sínum og kaupa sér hinn og þennan óþarfa á Amazon. Hér rekumst við á aðra mynd, stef sem ómar endurtekið í sögunni, það um glerið, sjónina og sjónarhornið.

Fyrirtæki Magnúsar seldi gler, þar lá sérhæfing hans. „Ég hugsaði bara um gler,“ (25) segir hann okkur í upphafi bókar og glerið snýr sífellt aftur sem tákn fyrir einangrun, glerið er tengslaleysið, það sem skilur hann frá umheiminum. Magnús setti hljóðeinangrandi gler í gluggana í eldhúsi fjölskyldunnar og nú þrengir það að honum, hljóðin innan eldhússins magnast upp en hann er aðskilinn frá lífinu fyrir utan.

[…] ég hafði mælt með þessu hljóðeinangrandi gleri við viðskiptavini, mælt með misþykku gleri með góðu loftbili, gasfylltum rúðum og filmu milli glerjanna til að ná næstum algjörri hljóðdempun, án þess að átta mig á því hvað einangrun þýðir í raun og veru. Ég var lítið heima yfir daginn þegar ég vann og lifði því ekki með gluggunum í sínu venjulega umhverfi. Hafði ekki áttað mig á að þeir einangruðu alltof vel. (28)

Myndin endurtekur sig víðar. Síðar í sögunni sækir Magnús sífellt meira í sólstofuna sem hann byggði sjálfur við húsið, með gleri frá eigin fyrirtæki, og fylgist með börnum sínum að leik í garðinum, úr fjarlægð. Örskömmu fyrir andlát föður Magnúsar sér hann hann fyrir sér þar sem hann liggur í rúmi sínu á elliheimilinu og starir á rigninguna leka niður glerið sem Magnús setti sjálfur í gluggann. Það er orðið að skilum milli heima, milli feðganna. Þetta stef, um að horfa á heiminn í gegnum gler, nær síðan hápunkti í lok þriðja hluta sögunnar, þegar Magnús setur á sig sérstök gleraugu eða hjálm til þess að stjórna flugi drónans sem hann keypti á Amazon. Þar er hann loks alveg aðskilinn frá heiminum, sér hann frá nýju sjónarhorni. „Hjálmurinn setti ekki á mig augnblöðkur heldur tók þær af. Ég hafði verið blindur á heilt skilningarvit. Svona var þá veröldin. Hún var ekki það sem ég sá út um bílrúðuna.“ (136). Hér verða hvörf í sögunni, hulunni er svipt af nýjum veruleika, en hann springur í loft upp, splundrast með svo afdrifaríkum hætti að glerbrotunum rignir yfir líf fjölskyldunnar og hún leggur á flótta.

 

Ógnin og kímnin

Jónasi tekst einkar vel að draga upp sannfærandi og heilar persónur í fjölskyldu og umhverfi Magnúsar. Kjarnafjölskyldan er hér í miðju sögunnar, um hana hverfist allt. Eiginkona hans, Hildur, virkar sannarlega dálítið leiðinleg en aðallega dauðþreytt á því að vera verkstjóri heimilisins. Við sjáum hana auðvitað með augum Magnúsar, það fer aldrei á milli mála að það er sýn hans sem sögumanns sem er miðlað til okkar í verkinu. Þetta er undirstrikað frekar með stuttum útúrdúrum eða skýringum hans sem á stundum eru innan sviga. Magnúsi verður ítrekað hugsað til liðinna tíma, þegar þau Hildur voru að byggja húsið, þegar hún gekk með börnin þeirra, þegar þau voru nánari. Við upplifum þannig söknuð hans og tengslaleysi, en það er ekki fyrr en í fjórða hluta, eftir uppgjör á milli þeirra hjóna, að lesendur skynja að Hildur deilir þessum söknuði.

Börnin, unglingurinn Alli og hin átta ára gamla Elín, eru svo alveg sérlega áhugaverðar persónur. Alli er fámáll og afskiptinn og um hann takast hjónin á. Magnús afskrifar ýmsar mislukkulegar gjörðir hans sem bernskubrek, uppátæki unglings sem er að reyna að takast á við lífið. Það er erfiðara að afsaka þá hegðun hans að elta bekkjarsystur sína og njósna um hana, en Magnús tekur þó til varna fyrir son sinn, allt þar til í fjórða hluta þegar glerbrotaregnið virðist jafnvel hafa stungið á það kýli og Magnús, og fjölskyldan öll, neyðist til þess að horfast í augu við gjörðir sonarins. Dóttirin Elín er aftur á móti kvíðið barn og sýnir jafnvel merki um áráttuhegðun, hún verður harmi slegin eftir fráfall afa síns og óttast bæði stríð og dauða.

Yfir fjölskyldulífinu hvílir þessi hægláta ógn – í tengslaleysi hjónanna, í eltihrellishegðun Alla, í kvíða Elínar og ótta við herþotur og ýmsar aðrar hamfarir. Að sama skapi hvílir ógn yfir smábæjarlífinu. Náttúruhamfarir, miklar rigningar, hafa einangrað þorpsbúa og aurskriðan sem hrífur skóginn með sér er ein afleiðing þeirra. Magnúsi verður ítrekað hugsað til samræðna föður síns við vininn Harald, en báðir hafa þeir alla tíð haft þungar áhyggjur af framtíð heimsins og orðið tíðrætt um hnattræna hlýnun.

Nefndur Haraldur er afskaplega skemmtileg aukapersóna, gamall karl í smáþorpi sem þverneitar að falla inn í stereótýpuna í meðvitund sinni um aðsteðjandi vandamál og viðleitni til þess að leysa þau, stundum með afskaplega frumlegum og fyndnum leiðum.

Samhliða þessari kyrru ógn sem vomir yfir ískrar texti Jónasar nefnilega af húmor og launfyndni. „Lán í óláni hversu illa gekk að draga fjölskylduna þangað í lautarferðir, hugsaði ég þegar sprengjurnar komu í ljós í skóginum,“ segir á blaðsíðu 12. Skömmu síðar rifjar Magnús upp að faðir hans hafi selt sláttuvélina sína fyrir margt löngu og í staðinn slegið garðinn með ljá, sem varð eðlilega til þess að hann var uppnefndur „maðurinn með ljáinn“ og Magnús sjálfur „sonur dauðans“. (15)

Jónas hefur alveg sérstakan hæfilega til þess að miðla því spaugilega og grátbroslega í tilverunni, og sá hæfileiki nýtur sín afar vel í Dauða skógar.

 

Eftir glerbrotaregnið

Sem áður sagði er skáldsögunni, sem er stutt, tæpar 180 síður, skipt í fjóra hluta. Í fyrsta hluta grandar aurskriðan skóginum, í öðrum hluta finnast sprengjurnar, þótt við sem lesendur höfum raunar vitað af þeim áður, og í þriðja hluta verður vaxandi óþol og eirðarleysi Magnúsar til þess að veruleiki fjölskyldunnar splundrast eftir hið afdrifaríka drónaflug. Í þeim fjórða eru þau flúin til Spánar, á Costa del Sol, til að komast undan nærgöngulu augnaráði þorpsbúa sem vita allir af því sem gengið hefur á.

Þessi síðasti hluti virðist við fyrsta lestur dálítið úr tengslum við aðra framvindu sögunnar, og umhugsunarvert af hverju höfundur hefur valið að færa svo stóran hluta hennar á það sögusvið. Miðað við endurteknar vísanir til þess að Magnús væri þar staddur á flótta kom það til að mynda talsvert á óvart að hann væri þar ekki einsamall, á flótta undan sjálfum sér, heldur með fjölskyldunni allri í nokkuð hefðbundinni sólarlandaferð. Það kemur þó í ljós að tilfærslan út úr míkrókosmós fjölskyldunnar í þorpinu, yfir í stærra samhengi meginlandsins, er afar mikilvægt fyrir þau og Jónas vinnur þar áfram með stef sem við höfum áður séð í verkinu.

Hljóðin í nóttinni á Spáni halda vöku fyrir Magnúsi, nú er hann ekki lengur hljóðeinangraður innan eigin glerbúrs. Heilsubrestur sem hefur leitað á hann með aðsvifum og ógleðiköstum virðist ágerast og hann er hræddur við maurana sem elta uppi minnstu matarleifar og mylsnu og éta hræ af eðlu sem Elín hefur eignað sér á svölunum. Nú snúast hlutverk þeirra hjóna við og Magnús er sá sem reynir hvað hann getur að halda öllu hreinu og í röð og reglu. Í draumi rata bæði herþotur og tundurdufl inn í vitund hans, í beinu samtali við ógnina sem hefur verið viðloðandi líf hans heima, en hér fær draumurinn farsælan endi. Og í niðurlagi bókarinnar eygjum við sömuleiðis von í samskiptum hjónanna og fjölskyldunnar allrar, og komumst að því að þrátt fyrir allt höldum við með Magnúsi, í einangrun sinni og rótleysi.

Dauði skógar er ekki löng skáldsaga en tangarhald hennar á lesanda helst löngu eftir að lestri er lokið, rótarkerfið nær langt út fyrir síðurnar. Jónas byggir söguna af öryggi og skrifar leikandi stíl með sinni einstöku blöndu af trega og húmor. Hún er besta bók höfundar til þessa og varða á ferli höfundar sem er að skapa sér sitt aldeilis sérstaka pláss og rödd í íslenskum bókmenntaheimi.

 

 

Sunna Dís Másdóttir

 

Tilvísanir

[1] Dauði skógar, s. 61, hér eftir er vísað til blaðsíðutals innan sviga.