Jónas Reynir Gunnarsson. Millilending.

Partus, 2017. 176 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2018

MillilendingInnkoma Jónasar Reynis Gunnarssonar á skáldabekk 2017 var með eindæmum glæsileg. Leiðarvísir um þorp, lítið ljóðakver sem hverfist um Fellabæ, hinn dálítið óskáldlega heimabæ Jónasar, gaf strax til kynna að þarna væri komin ung rödd með skýrum persónueinkennum og penni með vald á forminu. Þær væntingar sprungu síðan út með tilþrifum í Stórum olíuskipum, ljóðabók sem hreppti Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Snjöll og heildstæð bók, full af eftirminnilegum ljóðmyndum:

„Í íbúð manns liggja föt í hrúgum eins og ættingjar hans hafi gufað upp.“

En vitaskuld vakti skáldsagan Millilending mesta athygli, kannski að nokkru leyti í krafti þess að vera skáldsaga en ekki ljóð. En þar var ljóst að íslenskum rithöfundum sem vinna með óbundið mál hafði bæst eftirtektarverður liðsauki til jafns við skáldbræður og -systur í ljóðlistinni.

I

Í allri þróunarsögu mannkynsins, hundruð þúsunda eða milljóna ára, api eða hvað það sem við vorum, hljóðið í gerviefnum að nuddast saman. Og þarna sat ég og hlustaði á það eins og ekkert væri eðlilegra. (13)

Í Millilendingu fylgjumst við með Maríu, ungri stúlku, í nokkurra klukkustunda dvöl hennar í Reykjavík áður en hún flytur til föður síns í Danmörku. Samband hennar við kærastann sem hún bjó með í Brighton hefur farið út um þúfur og hugmyndin er að hún nái áttum í lífinu með hjálp pabbans. En þar sem hún þarf að millilenda í Reykjavík hefur henni verið falið lítið verkefni: að taka með sér litasett, sem var í eigu listmálarans Karls Kvaran, og færa föður sínum, sem líka málar. María er bæði meðvituð um skipbrotið sem líf hennar hefur lent í og full af mótþróa gegn þeirri áætlun sem hún telur að henni verði gert að fylgja. Aðallega er hún þó á valdi lífsmynsturs djammarans, og í hönd fer atburðarás sem er bæði viðburðarík og tíðindalítil. Það gerist margt þennan dag og þessa nótt, en tilfinningin er að flest af því hafi gerst oft áður. Meðfram ferðalagi Maríu milli áfangastaða í borginni fáum við að skyggnast inn í líf hennar í Brighton og sjáum hana eiga erfiða stund með öðrum fyrrverandi kærasta í borginni og aðra með ömmu sinni sem deilir áhyggjum föðurins um hvert hún stefnir. Eða stefnir ekki.

Sagan er sögð í fyrstu persónu, það er María sem hefur orðið, hennar sjónarhorn er okkar sjónarhorn, myndin af henni er myndin sem hún kýs að mála. Samt er það nú svo að allt sem hún segir og gerir, hvernig hún túlkar það sem hún gerir og hvernig aðrir bregðast við henni, afhjúpar hana meira en hún ætlast til, kemur upp um hana. Þessi galdur fyrstupersónufrásagna er ekki öllum gefinn en Jónas Reynir hefur fullt vald á honum.

Við hittum Maríu fyrst í Leifsstöð þar sem hún bíður eftir Gauja vini sínum. Við fáum strax að vita að þar fer ekki skarpasti hnífurinn í skúffunni:

Áður en ég fór frá Brighton hringdi ég í Gauja og laug að honum að ég væri að smygla e-pillum til landsins. Ég þarf alltaf að gera hann spenntan fyrir að sækja mig, annars kemur hann ekki. Ekki að hann sé slæmur vinur. Það er bara erfitt að treysta á hann, því hann hefur enga ábyrgðartilfinningu. (7)

Þessi upphafssetning sögunnar gefur okkur mikilvægar upplýsingar og skýra tilfinningu fyrir persónum, hugsunarhætti þeirra og kringumstæðum. Fyrstu kynni, sem atburðir sögunnar bæði staðfesta og grafa undan. Gaui lætur bíða eftir sér, þrátt fyrir að vera talin trú um að vera persóna í spennandi atburðarás með von um vímuefni í kaupbæti, enda reynist lýsing Maríu á ábyrgðartilfinningu hans þokkalega nærri sannleikanum. En upphafsblaðsíðurnar, þar sem María situr í Leifsstöð og bíður Gauja, og styttir sér stundir við að skoða fólkið, gefa okkur tilfinningu fyrir persónu sem atburðir sögunnar brjóta að hluta til niður. Hún virkar sjálfsörugg og athugul, vel þess umkomin að fella dóma um það sem hún sér. Hún er fyndin. Trúverðug líka og gagnrýnin á sjálfa sig; hún segir okkur frá tískuslysinu sem er úlpan hennar. Hún talar um eiturlyf og neyslu af kæruleysi frístundaneytandans, sem kannski og kannski ekki hefur stjórn á inntökunni.

Það er fyrst og fremst þessi stjórn á gangi mála sem smám saman kemur í ljós að María hefur ekki, nema með því að fljóta með straumnum og líta svo á að hún ráði för, að þar sem hún lendir sé þar sem hún vill vera:

Það er eins og allt sem ég geri endi með hræðilegri eftirsjá og nú fannst mér eins og það væri ekki lengur nein bið á því, mér leið bara alltaf eins og fávita yfir öllu sem ég var að díla við um leið og ég var að díla við það. (117)

Jafnvel sú stjórn riðlast smám saman á þessum klukkustundum þar sem hún flakkar um Reykjavík í tilraunum til að efna það sem hún hafði lofað en ekki síður í leit að leiðum til að efna það ekki. María vill gjarnan halda áfram áhyggjulausu lífi hins stefnulausa djammara, þó að óþolið gagnvart því sé líka orðið allnokkuð og þeir sem elska hana séu við það að gefast upp.

II

Píslarganga Maríu um Reykjavík er drifin áfram af mótþróa gegn þeirri framtíð sem faðir hennar hefur fyrirskipað og hún lofað að gangast undir eftir skipbrotið í Brighton. Drifin áfram af uppreisnargirni, en það er ekki síður máttur vanans sem teymir hana í bæinn, á fornar djammslóðir.
Lýsingar bókarinnar á reykvísku skemmtanalífi samtímans er raunsönn og nöturleg. Það á bæði við um upplifun okkar af tíma Maríu á skemmtistöðunum og vandræðaganginum á leiðinni milli þeirra, og ekki síður um lýsingar hennar á því sem fyrir augu ber.

Það var ekkert áhugavert þarna hinum megin við glerið. Allt copy-paste af sömu smekklausu túristunum með Iceland-húfur eða sjúskað háskólapakk með vax í hárinu að byrja djammið. Háskólakrakkarnir í voða fínum fötum, skjálfandi, að bogra yfir bjórdósum eins og þeir væru með kryppu. Þrír strákar í jakkafötum gengu fram hjá, allir með Tuborg-dósabjór. Ég mundi eftir leiðinlegu stelpunum í háhæluðu skónum sem voru að rífast um hvaða bland þær ættu að kaupa. Djammið var til þess að þessir tveir hópar gætu hist og eignast börn saman. (64)

Ferð Maríu út á lífið er ekki skemmtiferð. Í henni er engin gleði, engin eftirvænting í aðdraganda kvöldsins. Það er einhver hversdagsþreyta, skyldurækni í barferðunum. Þetta er bara það sem hún gerir, lífshættir frekar en tilbreyting. Meira að segja María sjálf gerir sér á stundum grein fyrir þessu:

Það var eins og tíminn væri að líða hjá öllum nema mér. Ég sat bara þarna, ein, og gerði ekki neitt. Og ekkert gerðist, ég fann ekki fyrir lífinu í kringum mig. Allt var svo langt í burtu. (116)

En okkur er gert alveg ljóst að þótt hún geti séð þetta þá er aðdráttarafl óbreytts ástands æði sterkt. Vafalaust er hægt að lesa Millilendingu sem greiningu á fíkli í afneitun, og hin glæsilega uppbyggða og óþægilega heimsókn til ömmunnar verður vart túlkuð öðruvísi en að þar sjáum við samskiptamynstur alkóhólista við fjölskyldumeðlim sem stendur í vegi fyrir áframhaldandi gleði. Það er hins vegar of þröngt sjónarhorn. Lífskrísa Maríu virðist miklu fremur snúast um óþol gagnvart hversdagsleikanum en leit eftir næsta fixi. Með því að hafna þeim brautum sem henni bjóðast, en skorta neistann til að skapa sínar eigin, er María lent á leiðum sem þrengja jafnvel enn meira að henni en borgaralínan sem henni stendur til boða undir verndarvæng föður síns.

Það er síðan til marks um margræðni textans að á einum af lægstu punktunum í vegferð Maríu heldur Gauji, smáði vitleysingurinn, sá eini sem hún telur sig örugglega geta litið niður á, yfir henni ræðu um hvar hamingjuna sé að finna sem væri ekkert ólíklegt að rekast á á fyrirlestramyndbandasíðunni TED talks:

– Stundum þarf maður bara að líta í kringum sig. Horfa á allt draslið. Ég meina, sjáðu þetta. Sjáðu hvað þetta er fallegt, sjáðu allt fólkið. Ég skil ekki að heimurinn, þú veist, alvöru heimurinn, þetta hérna, ég skil ekki af hverju þetta er ekki í fréttum á hverju einasta kvöldi. (143)

Að sjá fegurðina í alvöru heiminum er náttúrlega sérlega dýrmætur eiginleiki. En ef danskösin á reykvískri krá korter í þrjú verður eina birtingarmynd „alvöru heimsins“ er kannski vandi á höndum.

III

Persónulýsing og afhjúpun Maríu, sem og tíðarandamyndin af djammmenningu reykvískra eilífðarunglinga, eru þau viðfangsefni Jónasar Reynis sem lesandi verður fyrst og mest var við í Millilendingu. En það er ýmislegt fleira í gangi. Það er til dæmis ómaksins vert að lesa þessa sögu sem einhvers konar svar eða tilbrigði við The Catcher in the Rye eftir J.D. Salinger. Tvær eyðimerkurgöngur ráðvilltra ungmenna um næsta ólíka borgarfrumskóga. Í báðum sögunum eilítill varnarræðutónn í sögumönnunum sem færir höfundarnir láta „koma upp um sig“. Bæði María og Holden Caulfield eru talsvert verr stödd í tilverunni en þau kæra sig um að horfast í augu við.

Eins getur verið gaman að hugsa um Íslandsheimsókn Maríu sem „Quest“ eða „för“, formgerð úr goðsögum og ævintýrum þar sem sagt er frá raunum sem söguhetja ratar í við að vinna afrek; finna fjársjóð, bjarga einhverjum úr háska eða endurheimta glataðan dýrgrip. Jafnframt velkist sennilega enginn lesandi í vafa um að þessi för mun mistakast. Það er erfitt að ímynda sér útgáfu sögunnar þar sem María kemur litum Karls Kvaran óskemmdum til föður síns, eftir fórnir og mannraunir. Andhetjur vinna ekki hetjudáðir, nema þá óvart.

Nákvæmlega hvernig litatúpum málarans reiðir af er síðan bæði óvæntur og eftirminnilegur hápunktur sögunnar og leiðir okkur að einni hlið enn sem hægt er að skoða sögu og vanda Maríu út frá: myndlistinni.

Nafn Karls Kvaran er væntanlega ekki valið af tilviljun úr lista yfir íslenska myndlistarmenn á Wikipediu. Eigandi litanna sem allt snýst um er einn þekktasti og mögulega einarðasti fulltrúi strangflatarmálverksins; þar sem geómetrískt samspil lita og forma er með öllu slitið úr samhengi við heiminn. Merkinguna er einungis að finna í samtali skoðandans við verkið sjálft. Ef við teygjum þá hugmynd til rökréttra endimarka má jafnvel segja að merkinguna sé í raun að finna í litunum sjálfum, innan í túpunum sem María á að sækja.

Undir lokin, þegar djammferð Maríu er að ljúka á dapurlegan og fyrirsjáanlega dæmigerðan hátt með innihaldslausum og hálf-ósamþykktum kynmökum við ókunnugan strák á Stúdentagörðunum, rifjast upp fyrir henni áhrifarík listreynsla. Þar stendur hún frammi fyrir ókláraðri mynd Adolphs Menzel af Friðriki mikla að ávarpa hershöfðingja sína fyrir orrustu. Engan Friðrik er samt að finna á myndinni, þar sem hann ætti að vera er striginn auður. María samsamar sig bæði með málaranum, sem þrátt fyrir yfirburðatækni sína hefur gefist upp, og ekki síður hershöfðingjunum sem standa þarna til eilífðarnóns: „Horfa bara á auða manneskju. Og vera að bíða eftir að hún segi þeim hvað þeir áttu að gera.“ (171)

Sjálf átti hún áður ekki í neinum vandræðum með að fylla eyðurnar merkingu:

Þegar ég var lítil gat ég setið við eldhúsborðið og málað og skrifað og gert alls kyns bull án þess að pæla í hvað ég væri að gera. Gat alltaf ímyndað mér mynd sem var miklu flottari en sú sem ég teiknaði. Teiknaði alltaf bara forljóta spýtukalla og krass eins og krakkar gera en sá svo fyrir mér kastala og síki og krókódíla og alls konar ævintýri út úr teikningunni. Einhverja hunda og morðingja og fjölskyldur sem voru að gera eitthvað og allar persónurnar áttu sér stóra sögu. Þetta var allt þarna þó að myndin væri óskiljanleg. (156)

Þessum hæfileika virðist María hafa glatað. Ólíkt Gauja, sem sér fegurðina í tilbreytingarleysi djammsins og skilur ekki af hverju það er ekki í fréttum daglega.

Hún sér þess vegna sjálf enga merkingu í uppreisninni stóru, þegar hún makar litunum dýrmætu á ísinn á Tjörninni, þaðan sem þeir munu hverfa á nokkrum klukkustundum, eða í síðasta lagi þegar hlánar:

… þegar ég var að dreifa litaklessunni á ísinn var ég ekki að ímynda mér neitt. Ég veit ekki af hverju ég var að þessu. (156)

Hún sér hana ekki, en við sjáum hana. Lesandinn horfir á Maríu gegnum augu hins klára en sjálfsréttlætandi sögumanns sem Jónas Reynir hefur ákveðið að hún sé. Við vitum af hverju hún var að þessu. Það er dramatísk nauðsyn að för Maríu misheppnist. Það er sálfræðileg nauðsyn að hún geri þessa skammlífu tilraun til fáfengilegrar uppreisnar gegn því sem hún sér sem ill örlög en við kannski sem bjargræði.

Öllu þessu þyrlar þessi ágæta skáldsaga Jónasar Reynis Gunnarssonar upp. Það er mikið öryggi í efnistökum þessa nýbyrjaða höfundar sem með kröftugri innkomu á tvö af helstu sviðum fagurbókmenntanna hefur skapað sér nafn og bókmenntaunnendum allnokkrar væntingar.

Þorgeir Tryggvason