Gunnar F. Guðmundsson. Pater Jón Sveinsson – Nonni.

Opna, 2012.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2013.

Pater Jón Sveinsson – NonniVið sem höfum lengi lifað í bókum hér á landi hljótum að eiga okkur persónulega sögu af samskiptum við skáld og rithöfunda, til dæmis þá Jón Sveinsson og Halldór Laxness. Nonni varð okkur í bernsku samferða inn í bókaheiminn og Halldór tók síðan við okkur.

Í mínu dæmi og sjálfsagt margra annara varð Nonni sérstaklega freistandi lesefni og fyrirmynd vegna þess að bækurnar um hann sögðu frá dreng úr litlu plássi á hjara veraldar sem hvarf frá góðri móður og kyrrum kjörum til að kynnast Heiminum handan við Hafið – þetta var allt þeim mun ævintýralegra vegna þess að enginn af þeim sem ég þekkti á þeim tíma hafði komið út fyrir landsteinana. Og Nonni ætlaði ekki aðeins að sjá undur veraldar heldur ætlaði hann sér mikið hlutverk: hann hafði lent í sjávarháska með Manna bróður sínum og þá strengt þess heit að gerast trúboði eins og Frans Xavier, jesúíti sem fór til Austurlanda. Altént fór það svo, að á Nonnabókaárum sínum setti þessi lesandi hér sér þrjú markmið í lífinu og má rekja eitt og hálft af þeim til Nonna og hans fordæmis. Ég ætlaði að eignast heilan vegg af bókum, éta Napóleónsköku eða Drottningarperu í Kaupmannahöfn eins og Nonni gerði og gerast trúboði í Kína. Með því móti ætlaði ég bæði að herma eftir heiti Nonna og fordæmi Ólafs kristniboða. Sú ætlan varð að vísu ekki að veruleika en þess í stað fékk ég að ljúka minni Nonnasögu með því að leika lítið hlutverk í þýskri sjónvarpsmynd um þennan fróðlega landa okkar.

Löng bið eftir hamingju

Svo líður tíminn og Gunnar F. Guðmundsson sagnfræðingur gerir okkur þann mikla greiða að setja saman ítarlega og vandaða ævisögu Jóns Sveinssonar – og gefur okkur, gömlum aðdáendum Nonnabóka, prýðilegt tækfæri, ekki aðeins til að kynnast nánar manninum og höfundarverki hans heldur sætir ævisagan og þeim tíðindum að hún hlýtur að gjörbreyta þeim hugmyndum um Jón Sveinsson og Nonna hans sem við gerðum okkur í saklausri lestrarbernsku.

Líklegast er að við höfum dregið þá ályktun af Nonnabókunum og vinsældum þeirra að Jón Sveinsson hafi átt góða daga allt frá því hann hefur nám í boði fransks greifa og aðalsmanns, gengur síðan í reglu jesúíta, fæst við kennslu og ritstörf sem koma honum til vegs og virðingar í því stórveldi sem kaþólska kirkjan er. En þegar skyggnst er um heimildir og velt við flestum steinum eins og Gunnar Guðmundsson gerir af stakri samviskusemi, þá blasir allt annað við.

Árið 1934 skrifaði Jón Sveinsson bók sem heitir „Hvernig Nonni varð hamingjusamur“ og segir frá komu sinni til Frakklands og námi í kaþólskum skóla í borginni Amiens þar sem meðal annars var reynt að ala upp efnispilta frá Norðurlöndum með það fyrir augum að þeir tækju síðar þátt í því að snúa löndum sínum frá Lúthers villu. Reyndar er það svo, að Jón Sveinsson var alla tíð í feluleik með einmitt þetta: að greifinn franski er ekki „Íslandsvinur“ sem kostar hann til mennta, heldur jesúíti sem er kappsamur um kaþólsk trúboðsáform á Norðurlöndum, þau sömu og síðar áttu eftir að opna dyr fyrir Halldóri Laxness í klaustrinu í Clervaux í Lúxembúrg. Greifinn, sem Jón gefur allan heiður af skólagöngu sinni, borgaði sjálfur ekki grænan eyri honum til uppihalds. Það gerði hinsvegar kaþólsk kona sem hafði misst son sinn í stríði Frakka við Þjóðverja. Nonni var í góðu sambandi við þessa fósturmóður sína allt til dauðadags hennar – en minnist hvergi á hana í ritum sínum, þótt undarlegt megi sýnast (247).

Hvað um það: Jón Sveinsson býr til eftir á þá túlkun að hann hafi af eigin frumkvæði og í anda þess heitis sem hann gaf í sjávarháska í Eyjafirði fengið áhuga á að helga líf sitt þjónustu við kirkjuna kaþólsku. Það er hagræðing á sannleikanum, en svo mikið er víst að áhugann hafði hann – hann segir til dæmis í bréfi frá menntaskólaárunum að hann „færist allur í aukana“ þegar hann hugsar til þess að innan tíðar muni hann „færa mínum kæru samlöndum hin andlegu náðarmeðöl“ (200).

En síðan leiðir Gunnar Guðmundsson það ofurvel í ljós, að „hamingjan“ var ekki á næsta leiti. Vegur Jóns Sveinssonar í reglu jesúíta var grýttur og varðaður mörgum vonbrigðum. Reglan var ströng og krafðist járnaga og skilyrðislausrar hlýðni hvers liðsmanns við yfirboðara sína. Nonna var meira að segja synjað um að fá að vera við dánarbeð kærs bróður síns, Manna, sem einnig hafði gengið í reglu jesúíta. Jón reyndi sem best hann gat að láta allt yfir sig ganga, að taka öllu „með þolinmæði og gleði“ (233), en sú auðmýkt reynist honum erfið. Hann er að námi og prestvígslu lokinni látinn starfa með jesúítum í Danmörku við kennslu í menntaskóla sem þeir ráku og reynir líka fyrir sér sem trúboði meðal Dana. En allt gengur það heldur dapurlega. Átök innan reglunnar (m.a. milli franskra og þýskra jesúíta), ágreiningur um það hvaða lönd eða svið hver tekur að sér og hvað beri að gera – allt verður þetta til þess að draumur hans um að flytja kaþólskan boðskap á Íslandi rætist ekki.

Í Danmörku virðist honum farið illa með sína starfskrafta, hann ber kala til yfirboðara sinna, allt er sem unnið fyrir gýg. Hann trúir dagbók sinni frá Danmerkurárunum fyrir því að allur hans „brennandi áhugi“ og „postullegur eldmóður“ sé „kafnaður, dauður“. Hann er ekki prestur að sálarfari ef svo mætti segja, hann er ekki sæll í sinni einsemd eins og t.d. annar kaþólskur höfundur, trappistamunkurinn Thomas Merton. Og hinir dimmu dagar í lífi jesúítans íslenska voru margir og lítt bærilegir. Í bréfi sem Jón skrifaði íslenskum fornvini sínum löngu síðar (1931) tekur hann mjög djúpt í árinni: „Í meira en þrjátíu ár fannst mér stöðugt eins og ég hefði verið grafinn lifandi og óskaði þess oft að ég mætti deyja“ (292).

Um þessa hluti þagði Jón Sveinsson að mestu alla ævi – og það er að líkindum bæði vegna hins kaþólska aga sem hann gekkst undir, þeirrar heimanfylgju sem bannar sjálfsvorkunn og loks vegna þeirra gleðilegu umskipta sem hann nefnir í fyrrgreindu bréfi frá 1931, þá 74 ára gamall. Hann segir: „En svo allt í einu varð ég frjáls og til mín kom hamingjan, og hún hefur fylgt mér síðan eins og þjáningin gerði áður“ (292).

Í sælureit

Hamingjan sem hér er nefnd – það er hlutskipti rithöfundarins, höfundar bókanna um Nonna og hans sælu ævintýri á heimaslóðum og á leið hans út í heim. Ritstörfin urðu, eins og ævisöguhöfundur sýnir ágætlega, Jóni Sveinssyni sú meina bót sem sköpum skipti – athvarf, uppreisn, göfugur tilgangur, endurheimt sambands við aðrar manneskjur. Hann fann sér svar við einsemd og vonbrigðum með því „að hverfa aftur til bernsku sinnar, leita á vit upprunans í íslenskri náttúru“ og gerði sér úr minningum og hugsýn „sælureit þar sem hann gat átt athvarf í stormum lífsins. Þar fann hann sjálfan sig aftur, varð djarfur og hraustur, jafnoki annarra og í góðri sátt við umhverfi sitt og samferðamenn“ (379).

Slíkri niðurstöðu verður ekki í móti mælt, né heldur þeirri sem reifuð er á öðrum stað: Jón Sveinsson leggur í bókum sínum svo mikla áherslu á það frelsi sem Nonni hefur eða tekur sér til að stefna sér í ævintýri (og háska) og ljúka þeim með heiðri og sóma – að bókarhöfundur spyr hvort Nonnabækurnar séu ekki „öðrum þræði andófsbókmenntir, viðbrögð höfundar við því ófrelsi sem hann taldi sig verða fyrir í strangri reglu, lofsöngur um það sem hann þráði en fékk ekki notið til fulls nema í draumum sínum og bókum“ (333).

Við eigum auðvelt með að samþykkja að Nonnabækurnar séu höfundinum sjálfum í senn raunabót og staðfesta í tilverunni. Því þurfum við ekki að undrast það, þótt bækurnar sýni að í heimi Nonna ríki „heiðríkjan ein“ (59) – að þar sé gott mannlíf, fagurt um að litast og skemmtilegt, þar bíði við hvert fótmál „yndislegar lífshættur“ eins og Halldór Laxness komst að orði í grein um kynni þeirra Nonna. („Við Nonni“, Reisubókarkorn). Við búumst við því að Jón Sveinsson fegri æskuár sín í Nonnabókum – slíkt gera menn yfirleitt sem rifja upp þá tíma þegar allt var þeim nýtt og gerðist í fyrsta sinn. En samt er það svo, að lesanda ævisögunnar kemur á óvart, hve mikið djúp er einatt staðfest milli þess sem gerðist í raun og þeirra atburða sem lesendur Nonnabóka kynntust. En þá hluti hefur Gunnar Guðmundsson skoðað af heiðarlegri þrautseigju og fundvísi – og hafði reyndar gert grein fyrir þeim í grein sem hann birti í tímaritinu „Merki krossins“ og nefndi „„Sannleikurinn“ í Nonnabókunum“ (1. hefti 2006).

Gunnar sýnir til dæmis fram á að sjálf æskuár Jóns Sveinssonar hafa verið miklu erfiðari og dapurlegri en ráða má af bókunum. Eins og Jón Sveinsson gat sjálfur lesið um þegar hann komst fullorðinn í dagbækur föður síns, var sambúð foreldranna ýmsum meinum blandin – móðir hans kom ólétt eftir annan mann í hjónabandið, faðir hans drakk stundum illa, hélt kannski framhjá. Basl og eymd við bæjardyr: til dæmis er Nonni tökubarn, sendur burt frá móður sinni, þegar tilboðið fræga um nám í Frakklandi berst henni. Um allt þetta þegja Nonnabækur – og því ekki það? Jón Sveinsson vildi af mörgum ástæðum segja frá því einu í bókum sínum sem gott væri og uppbyggilegt.

Hér er líka ýmislegt sem ekki kemur öðrum við: ekki vill hann í neinu kasta skugga á minningu móður sinnar – enn síður en hann vildi kasta rýrð á sína kirkju t.d. með því að viðra opinberlega sambúðarvanda í Jesúfélaginu. Því kemur það heldur ekki svo mjög á óvart þegar Jón Sveinsson verður uppvís að því að skálda lýsingu á hjartnæmri skilnaðarstund þeirra móður hans – hann setur inn í frásögn af þeim degi í „Nonna“ þann sára söknuð sem hann fann til löngu síðar, hugsandi til þess að hann átti aldrei eftir að sjá móður sína framar (88).

Hvers konar sannleikur?

Einkennilegra en þöggun eða fegrun er þó það, hve mikið af atburðum Nonnabóka reynist tilbúningur. Gunnar Guðmundsson rekur það allt ítarlega, bæði í ævisögunni og fyrrnefndri grein. Í bókunum fer mikið fyrir slíkum atburðum sem gera allt stórbrotnara og meira spennandi fyrir lesendur og auðvelda Nonna um leið að vera það fágæta íslenska veraldarundur á ferð um heiminn sem mörgum finnst hann vera og hann vill helst vera sjálfur. Viðureignir við ísbirni í bókunum „Á Skipalóni“ og „Nonni“ áttu sér aldrei stað. Ferðir með Valdimar yfir sundið til Svíþjóðar og um Sjáland með átökum við „sjóræningja“ (sænskt óknyttagengi), og tvísýn samferð með sígaunum („brúna fólkinu“) á sirkusreisu – allt á þetta meira skylt við uppákomur í frægum skemmtisögum en veruleikann (sjá 143 og víðar).

Án illkvittni skulum við taka eftir því, að allt lyftir þetta undir sjálfsmynd Nonna – hann er gerður bæði hugrakkari og úrræðabetri en efni standa til og hann bregst alltaf rétt við – ekki síst þegar minni máttar eru beittir yfirgangi. Einna lengst gengur tilbúningurinn í sögunni af því þegar Nonni og Manni fara á sjó, lenda í lífsháska, vinna heit sem áður var nefnt um að feta í fótspor frægs kristniboða og er svo fyrir guðs mildi bjargað um borð í franskt herskip. Gunnar Guðmundsson sýnir fram á að ekkert af þessu gerðist í raun og veru. Jón Sveinsson er hér að leggja drög að helgisögu um líf sitt ef svo mætti segja: treystum guði og allt mun vel fara.

Það kemur fram, að Jón Sveinsson gerir sér vel grein fyrir því að hann hafi tilhneigingu til að ýkja. Og í upphafi ritferils síns segir hann í bréfi til móður sinnar að sögur sínar séu „að nokkru leiti skáldskaparrit því alt hefur ekki hændt mig selv“ (285). Samt lagði hann út á við ávallt sterka áherslu á að allt sem í bókunum stæði hefði sannarlega „komið fyrir hann sjálfan“. Í formála annarar þýskrar útgáfu „Nonna“ segir hann:

Því miður hafa nokkrir litið svo á að „Nonni“ sé skáldsaga sem segi aðeins frá uppdiktuðum atburðum. Nonni er nafn sem ég bar í raun og veru í barnæsku, og í bókinni greini ég frá raunverulegum, sönnum – ekki skálduðum – atburðum úr æsku minni. Einmitt það gefur bókinni eiginlegt gildi að hún segir ekkert nema sannleikann. (328)

Og Gunnar bætir því við að Jón Sveinsson hafi ítrekað það oft síðar að allt væri satt og rétt sem í Nonnabókum stæði. Hann útskýrir þetta misræmi á þann velviljaða hátt, að Jón Sveinsson hafi í senn viljað ná sem best til lesanda sinna – m.a. með æsilegri atvikum en lífsreynslan þekkti – og um leið segja uppbyggilegar dæmisögur úr sínum heimi sem flyttu þann boðskap að því bæri að treysta „að handan við hverja raun væri gleði og hamingju að finna“ (328). Og hann teldi sig ná bestum árangri við þennan erindrekstur með því að hamra á því, að sögur hans væru sannar „því að fyrir honum var sannleikurinn ekki fólginn í nákvæmri endurgerð raunverulegra atburða heldur í boðskap og inntaki frásagnarinnar“ (423).

Þetta er allt vel sennilegt – en tekur ekki frá lesandanum þá freistingu að sjá hér stefnt í nokkra siðferðilega tvísýnu: eru hæpnar og þó afdráttarlausar staðhæfingar um „raunverulega atburði“ leyfilegar sé tilgangurinn góður og þar með „sannur“? Hafa menn ekki lengi og mikið hamast einmitt á jesúítum fyrir að þeir telji að tilgangurinn helgi meðalið? Þessu mætti svara með því til að mynda, að ekki bregði Nonni á frjálsan leik með ímyndunaraflið til þess að hefna sín eða ná sér niðri á nokkrum manni – en samt, samt stendur eftir einhver gáta sem kallar á betri lausn.

Alltaf barn í hugsun

Það er um margt gott að höfundur ævisögunnar Gunnar Guðmundsson er sjálfur maður kaþólskur – hann ratar þá betur en utanaðkomandi um hugarheima Nonna og höfundar hans. Hann er mildur og kurteis í dómum eins og vænta má, en þó ekki svo að rödd gagnrýni þagni með öllu. Gunnar gerir sér t.d. grein fyrir því að þeir sigrar sem rithöfundurinn Jón Sveinsson vinnur með vinsælum Nonnabókum eru tvíbentir. Hann verður eftirlæti þúsunda barna „á öllum aldri, ekki sem hinn fullþroska maður Jón Sveinsson heldur sem drengurinn Nonni frá sögueynni Íslandi. Við það hlaut hann þá ást og umhyggju sem hann hafði alla tíð þráð en var um leið hnepptur í fjötra á þroskaferli sínum sem listamaður. Hann komst aldrei út úr sagnaheimi Nonnabókanna“ (320).

Það er víst og satt. Og Jón Sveinsson trúði því sjálfur, að þegar hann barnungur yfirgaf land sitt og móður hefðu umskiptin verið svo róttæk að „sálarlíf mitt staðnaði“ og þótt hann „mótaðist að nýju“ hafi hann jafnframt „varðveitt sálarlíf 12 til 13 ára unglings“ (8). Og það er þetta sálarlíf sem ræður mestu um viðbrögð einnig gamals manns og frægs rithöfundar við heiminum. Þegar Nonni kemur til New York árið 1936 horfir hann á þessa öfgafullu skýjakljúfaborg í undarlegu sakleysi bernskrar trúarvitundar og hripar þessi orð í dagbók sína: „Því hærri sem húsin rísa og því meiri sem mannfjöldinn verður, því nær okkur er miskunn guðs almáttugs“ (380). Á

þessum tíma eru veður öll válynd en það er einatt sem Jón Sveinsson sé ekki í heiminum, altént á hann ofur bágt með að ná þar áttum. Hitler nær völdum í því landi þar sem Nonnabækurnar urðu vinsælastar, sjálfur heimsækir hann Japan og er ótrúlega vel tekið – en þar er herská stórveldishyggja þegar farin að leggja undir sig nálæg lönd og ríki með báli og brandi. Vitanlega hugnast Jóni Sveinssyni ekki að stórstyrjöld kunni að vera í nánd, en engu að síður var hann furðu varnarlaus gagnvart bæði nasisma og japanskri heimsvaldastefnu og reiðubúinn til að fallast á þau rök sem höfð voru uppi til að réttlæta kröfur þessara afla um „lífsrými“ eins og það hét þá.

Þetta varnarleysi tengist því vafalaust að síbernska Jóns Sveinssonar hélt honum alltaf frá pólitískum sviptingum og þar með viðleitni til að blanda sér í grimmm deilumál á þeirri „öld öfganna“ sem hann lifði. Hann fann sér athvarf í bernsku sinni á „öld sakleysisins“ og þar kaus hann að dvelja með hjálp ritstarfa sinna. Honum fannst að hans „raunverulega líf“ (377) hefði fyrst byrjað þegar hann fór að skrifa bækur rúmlega fimmtugur. Þá varð hann hamingjusamur, þá varð hann mun frjálsari en hann hafði áður verið. Þá gat hann leyft sér að víkja frá undirgefni og hlýðni við sína ströngu reglu – og að gera meira að segja kröfur um að fá vissa sérmeðferð í nafni göfugrar ritlistar. Eða eins og hann segir í bréfi til umdæmisstjóra síns í reglunni: „Það þarf engan sálfræðing til að vita að sá sem er gæddur ótvíræðu listamannseðli þarf á sérstakri meðhöndlun að halda“ (361).

Sem rithöfundur gengur hann í gengum margkunnar sveiflur á milli vanmetakenndar manns sem telur sig flestum síðri og varla vita hvað bókmenntir eru og svo viss oflætis sem hlýtur að spretta af því mikla lofi sem hann fékk fyrir Nonnabækurnar. Þegar farið var að kalla hann „Mark Twain Evrópu“ eða „hinn nýja H.C. Andersen“ slær hann því tali upp í gamansemi og segir: „Þetta tengist víst eitthvað kenningunni um sálnaflakk“ (394). En hann er hátt uppi, sem vonlegt er. Glaður – eins og barn. Það er skemmtilegt að fylgjast með því hvernig metnaður og stolt skálds sverfur niður auðmýktarfjötrana sem jesúítauppeldið hafði komið á Jón Sveinsson. Og svo er það dálítið spaugilegt að áður en lýkur getur hann ekki frekar en aðrir frægir landar hans í rithöfundastétt staðist þá bráðsmitandi pest sem við getum kallað Nóbelsveikina. Það er að segja: hann trúir því að vel komi til greina að hann hljóti Nóbelsverðlaun í bókmenntum (412).

Í þessari ævisögu er margt að finna og þótt forvitni um merkilegan mann sé seint fullnægt verður ekki reynt að spyrja eftir einhverju því sem enn væri ósvarað um líf og verk æskuvinar okkar, Nonna. Bókin sætir tíðindum vegna þess sem fyrr segir: hér er beitt fundvísi, smekkvísi og elju til að skýra sem best einhvern sérkennilegasta ritferil íslenskrar bókmenntasögu og margt áður óþekkt í tengslum þess sköpunarstarfs við ekki síður fágætan æviferil. Lesandinn mun áður en lýkur hafa endurskoðað margt – en þó varla þær hlýju endurminningar sem Nonnabækur skildu eftir sig á hans eigin ferðalagi um bókaheiminn.

Árni Bergmann