Óvíd (Publius Ovidius Naso). Ummyndanir (Metamorphoses).

Kristján Árnason íslenskaði og ritaði inngang.

Mál og menning, 2010.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2010.

Allt breytist, ekkert eyðist. Andinn reikar, kemur þaðan og hingað og fer héðan þangað og sest að í hvaða líkama sem hann kýs sér, og úr dýrsham hverfur hann í líkama manns og aftur í dýrsham úr okkar líkama, og aldrei mun hann tortímast […] Allt streymir, og allt birtist í síbreytilegri mynd. Sjálfur tíminn líður fram í stöðugri hreyfingu á sama hátt og fljót. Því hvorki getur fljótið numið staðar né getur sviflétt stundin það, en líkt og alda er knúin áfram af öldu og sú alda í senn knúin af þeirri sem eltir og knýr jafnframt sjálf þá sem er á undan, þá flýr tíminn og eltir í senn og er sífellt nýr. Því það sem var áður er liðið, og það sem er ekki verður, og hver andrá felur í sér eitthvað nýtt. (413)

Ummyndanir (Metamorphoses)

Ummyndanir (Metamorphoses)

Þessi orð leggur Publius Ovidius Naso (43 f.Kr.–17/18 e.Kr.) í munn heimspekingnum Pýþagórasi í síðustu bók Ummyndana sinna og þau má nota til þess að draga fram tvo grunnþætti verksins. Annars vegar snýst það um titil sinn, nefnilega frásagnir af ummyndunum, hamskiptum, myndbreytingum. Á hinn bóginn fellir Óvíd slíkar sögur inn í ramma veraldarsögunnar, bók menntagreinar sem leitast við að lýsa sögu heimsins í tímaröð frá því er ár var alda og fram á daga sagnaritarans. Hann umgengst þó hefð veraldarsagna afar frjálslega; vissulega hefjast Ummyndanir við upphaf heimsins og sömuleiðis leiða stofnun Rómaborgar, dauði Sesars og ríki Ágústusar bálkinn til lykta, en milli þessa tveggja póla tímaássins þeytast upp fjölbreytilegar goðsagnir Grikkja í líflegri túlkun rómverska skáldsins. Hér birtast gamlir kunningjar eins og gullætan Mídas konungur, söngvarinn Orfeifur og Evridís hans, Narkissus og Ekkó, Medea og Jason, kraftakarlinn Atlas og vefarinn Arakna. Og líka persónur sem ef til vill eru íslenskum lesendum ekki eins kunnar – ég nefni af handahófi söguna af Myrru og sifjaspellsglæp hennar, eða viðskipti Aglárosar við Öfundina.

Sögurnar birta einatt skýringar á náttúrufari og heimsmynd (útskýra t.a.m. stjörnuhimininn) en fjalla um leið um dygðir og lesti – ekki síst um margvíslegar afleiðingar girndarbruna (sem ekki þarf að koma á óvart þegar ástarskáldið Óvíd á í hlut). Ein frásögn fæðir af sér aðra – líkt og öldurnar sem lýst er hér í upphafstilvitnun – svo Ummyndanir eru í raun frjálsar og leikandi í byggingu, sögurnar mislangar og tengsl þeirra oft lausleg. Við þetta bætist kynngi bragarins en verkið er ort undir hetjulagi, hinum hefðbundna bragarhætti mikilla söguljóða. Óvíd lætur þó mikilúðleika háttarins hvergi sliga sig heldur leikur á blæbrigði hans, eins og Kristján Árnason nefnir í prýðilegum inngangi sínum, „og kryddar auk þess allt með orðaleikjum, hljóðlíkingum og hljóðtengslum sem láta í eyrum eins og tónlist“ (27). Ummyndanir hafa enda átt miklum vinsældum að fagna um aldir, verið þýddar á fjölmörg tungumál og orðið skáldum, rithöfundum og listamönnum auðug uppspretta. Og nú höfum við eignast þær á íslensku. Það er mikið gleðiefni og ánægjulegt að Kristján hafi þegar verið sæmdur þýðingarverðlaunum fyrir afrek sitt.

Þegar bókmenntum eða leikverkum frá löngu liðnum tíma er komið á framfæri hérlendis, og þeir sem hlut eiga að máli hitta fjölmiðlafólk, má bóka að spurt sé: Hvaða erindi á verkið til okkar? Hvernig skírskotar þessi texti til nútímans? Viðhorfið að baki spurningunni er eindregið: allt skal réttlætast af meintum þörfum nútímans. En þetta er hrokafullt viðhorf sem efast fyrirfram um að hægt sé að læra nokkuð nýtt af gömlu. Og ef þetta gamla er þar að auki útlent eykst vandinn enn: Til hvers að vera að gefa út þýðingar? – Þær seljast svo illa! Geta þessir fáu áhugasömu ekki bara lesið þetta á útlensku? Þegar við nú höfum í höndunum nýja þýðingu á tvöþúsund ára gömlu verki sem sannarlega hefur staðist tímans tönn (eins og höfundurinn spáði í lokaorðum sínum) held ég að það færi okkur vel að snúa einu sinni spurningunni við. Spyrja ekki hvaða erindi Óvíd á við okkur heldur fremur hvaða erindi við eigum við hann. Hvernig getum við notið hans og notað hann?

Óvíd sjálfur taldi sig eiga erindi við bókmenntir fyrri tíðar því goðsagnirnar sem mynda uppistöðu Ummyndana eru arfur Grikkja sem Rómverjar tileinka sér, ávaxta og skila tvíefldum til seinni tíma eins og Kristján kemst að orði (9). Og það bókmenntaumhverfi sem Óvíd spratt úr lagði íslenskum bókmenntum raunar til eina meginstoð þeirra, því rómversk sagnaritun og viðleitni til þess að draga atburði fortíðar saman í heildstæða veraldarsögu setur mark sitt á bókmenntastarf á Íslandi á 12. og 13. öld, eins og sjá má af þýðingum á ýmsum latneskum ritum sem hér uppi mynduðu Rómverja sögu, Trójumanna sögu, Gyðinga sögu og Veraldar sögu. En þar að auki hefur Óvíd sjálfur verið samferðamaður íslenskra bókmennta nánast frá upphafi. Hann skýtur nefnilega fyrst upp kollinum sem truflandi element í Jóns sögu helga þegar Klængur Þorsteinsson, síðar Skálholtsbiskup, er staðinn að því að lesa Ars amatoria, leiðarvísi Rómverjans um ástalífið, útundir vegg á Hólum.

Óvíd var því þekktur hérlendis strax á miðöldum en hróður hans átti þó enn eftir að vaxa. Endurreisnin jók áhuga á fornöldinni og svo fylgdi húmanisminn í kjölfarið, en honum eigum við ekki bara að þakka endurnýjaðan áhuga á norrænum fornbókmenntum, heldur líka eflingu klassískra mennta á Íslandi. Þetta tvennt tengist skemmtilega í verkum Arngríms Jónssonar lærða (1568– 1648), sem öðrum fremur vann að því að kynna erlendum húmanistum íslenskar fornbókmenntir, en í skrifum sínum vitnar hann víða í Óvíd eins og Sigurður Pétursson hefur dregið fram (‘Arngrímur og Ovidius’, Milli mála. Ársrit Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur 2009). Óvíd hefur Arngrímur kynnst þegar í skóla. Latínuskólar biskupsstólanna voru áreiðanlega mjög sniðnir eftir dönskum latínuskólum þar sem verk klassískra höfunda voru uppistaðan í námsefninu, líkt og verið hafði í dómskólum miðalda. Þar á meðal voru Ummyndanir Óvíds, sem samkvæmt kirkjuskipan Kristjáns 3. frá 1537 voru meðal lesefnis í fjórða bekk, og Eneasarkviða Virgils, en báða þessa höfunda nefnir sr. Þorsteinn Pétursson á Staðarbakka í lýsingu á vist sinni í Skálholtsskóla 1729–34 (sjá samantekt Guðlaugs R. Guðmundssonar í bókinni Skólalíf: Starf og siðir í latínuskólunum á Íslandi 1552–1846). Eðli málsins samkvæmt var lestur þessara bókmennta bundinn við hina lærðu stétt, skólastofan var heimkynni klassískra texta og út fyrir hana rötuðu þeir ekki þótt áhrifa þeirra kunni að gæta í frumsömdum verkum Íslendinga á 17. og 18. öld, hvort sem var á móðurmálinu eða nýlatínu.

Með Hómersþýðingum Sveinbjarnar Egilssonar (1791–1852) breytist þetta allt. Þær spruttu vitaskuld af kennslu hans í Bessastaðaskóla – voru upphaflega versjónir ætlaðar skólapiltum – en rötuðu um síðir á prent og urðu áhrifavaldur í íslenskri bókmennta- og menningarsögu. Kristján Árnason fjallaði um Hómersþýðingar Sveinbjarnar í greinasafninu Grikkland ár og síð sem út kom árið 1991 og lýsir þar verðleikum þeirra á afar greinargóðan hátt. Hann ræðir m.a. um þann kost sem Sveinbjörn tekur, að snúa hetjulagi frumtextans yfir í laust mál og hvernig Sveinbjörn bætir sér bragleysið upp með stuðlasetningu og rismikilli hrynjandi. Kristján nefnir að lausamálsþýðingin hafi einnig þann kost að gefa þýðandanum frjálsari hendur um orðaval enda geri Hómerskviður með sínum miklu andstæðum harðar kröfur til hans. Þýðandinn þurfi því „að búa yfir víðtækum orðaforða og næmum smekk, nákvæmni í skilningi og hugkvæmni í orðavali og orðsköpun“ (bls. 23).

Nú vill svo til að þessi lýsingu má léttilega heimfæra upp á Kristján sjálfan og þýðingu hans á Ummyndunum Óvíds. Það er unun að lesa textann sem einkennist af fjölbreyttum orðaforða, léttleikandi stíl og áreynslulausum húmor. Kristján fylgir fordæmi Sveinbjarnar og þýðir verkið yfir á lausamál eins og Haukur Hannesson gerði í þýðingu sinni á Eneasarkviðu sem út kom fyrir áratug. Hann rökstyður þá ákvörðun í lok inngangsins en sýnir lesendum um leið hvernig niðurlag verksins gæti hljómað, væri það þýtt undir frumhættinum. Þetta sýnishorn er réttnefnd hungurvaka – það er lipurt og glæsilegt í senn og ekki laust við að mann langi til að sjá meira af svo góðu. Þýðandinn virðist reyndar gefa ádrátt um að til þess gæti komið – og væri það enn að fordæmi Sveinbjarnar sem á efri árum tók til við Hómersþýðingar í bundnu máli, reyndar undir fornyrðislagi. En í bili látum við okkur nægja lausamálsþýðingu Kristjáns, enda er það síður en svo rýrt hlutskipti.

Í umfjöllun sinni um Hómersþýðingarnar í fyrrnefndri grein nefnir Kristján hversu vel Sveinbirni tókst upp við að nota orðfæri íslenskra fornbókmennta til þess að endurspegla fornlegan blæ frumtextans. Sveinbjörn þurfti á stundum að „teygja aðeins á slíkum orðum“ eins og Kristján orðar það, „til að þau nái til grískunnar“ og jafnframt iðkaði hann að setja saman ný orð að fornri fyrirmynd. Slík orðasmíð er ekki einkenni á þýðingu Kristjáns, enda býr hann, þýðandi við upphaf 21. aldar, að hefð sem segja má að Sveinbjörn sé upphafsmaður að. Það þarf til dæmis ekki lengi að lesa í Ummyndunum áður en fyrir verður orðið ‘ljósvaki’ – í allri sinni fegurð – og er á sínum stað í lýsingu á tilurð heimsins. Manni verður hugsað til orðasmiðsins Jónasar Hallgrímssonar, sem var nemandi Sveinbjarnar og skóp þetta orð þegar hann þýddi stjörnufræði Úrsíns á íslensku, en jafnframt má hugleiða út frá þessu eina orði þá list sem virðist leika í höndum Kristjáns, að koma klassíkinni til okkar á léttu og leikandi nútímamáli sem er auðugt án rembings og ber áreynslulaust í sér hefð og auðlegð tungunnar.

Eftirtektarvert er hvernig hann leggur sig fram um að veita inn í textann margbreyttum og misgömlum orðaforða. Til dæmis má taka, að um þá skepnu sem er hálfur hestur og hálfur maður hefur Kristján bæði orðið ‘kentár’ og ‘elgfróði’ en fyrirbærið hét ‘bergrisi’ í Hómersþýðingum Sveinbjarnar. Eða þegar hann velur orðalagið ‘þrem sinnum’ í stað hins nútímalega ‘þrisvar’ þegar Medea svæfir drekann: „Eftir að hún hafði skvett yfir hann óminnissafa sérstakrar jurtar og haft yfir þrem sinnum orðin sem valda værum blundi …“(194). Þannig er nostrað við stórt og smátt með þeim árangri að setningar hrynja eðlilega, samfella er í stílnum en jafnframt ekkert lát á orðgnóttinni. Þetta er úrvalsþýðing.

Þýðingarstarfið sjálft er ein tegund ummyndana og nauðsynlegt viðgangi bókmenntanna. En þess utan ummyndast bókmenntir í myndir, myndir í tóna og þannig áfram þvers og kruss. Óvíd endurtúlkaði grísku sagnirnar, bjó þeim nýjan búning hetjulagsins og skóp þeim langlífi sem útbreiðsla latínunnar í Evrópu gulltryggði. Þar með var kominn sameiginlegur brunnur sem skáld og listamenn álfunnar sóttu stöðugt í með þeim afleiðingum að heimsókn í listasafn á meginlandinu leiðir iðulega til stefnumóts við einhverjar af hinum litríku persónum Ummyndananna. Íslensku þýðingunni fylgja ætingar úr franskri útgáfu verksins frá 1770 sem byggðar eru á teikningum eftir þarlenda málara og gefa hugmynd um þennan myndheim. Og enn verða til ný verk á þessum forna grunni – ég nefni hér frábæra bók enska skáldsins Teds Hughes, Tales from Ovid, sem kom út skömmu fyrir aldamót.

Hérlendis rötuðu hetjur úr sögum Óvíds inn í rímur sem vert væri að skoða nánar, en Ummyndanirnar sjálfar hafa ekki áður gengið á þrykk og verður gaman að sjá hvernig þeim farnast. Eins og áður sagði gerðu þýðingar Sveinbjarnar Egilssonar Hómerskviður að hluta íslenskrar bókmennta- og málsögu. Þannig urðu þær efniviður í hljóðskúlptúra Magnúsar Pálssonar, þess vegna kannast fólk við hina rósfingruðu morgungyðju og án Sveinbjarnar sæti skáldsaga Sjóns um Argóarflísina í öðru bókmenntalegu samhengi en ella. En allt þetta bendir okkur á að notkunin og nýsköpunin eru lykilatriði í umgengni við fornan arf. Honum þarf sífellt að miðla á nýjan hátt, ættarsilfrið þarf að taka fram úr skápnum, pússa það og fá nýjum kynslóðum til notkunar – í sumum tilfellum bræða það upp.

Og nú hefur Kristján Árnason semsagt fært okkur Óvíd nýpússaðan og skínandi. Til hvers getum við þá notað hann? Hér koma nokkrar tillögur:

Við getum skoðað okkar eigin bókmenntir í ljósi Óvíds. Hvernig orkar sköpunarsaga Snorra-Eddu til dæmis á okkur þegar við lesum hana við hliðina á upphafsbók Ummyndana?

Við getum tekið Ummyndanir sem áskorun til þess að efla þekkingu okkar á evrópskri listasögu. Förum í ferð gegnum listasöguna undir leiðsögn Óvíds og bjóðum öllum framhaldsskólanemum með!

Við getum skoðað stjörnuhimininn meðan við rifjum upp ástir og örlög guða og manna. Stjörnuskoðunarkvöld með Óvíd á Seltjarnarnesi?

Við getum gripið til Ummyndana sem uppflettirits um grískar goðsagnir. Þýðingunni fylgir nefnilega stutt ágrip hverrar sögu og einnig ómissandi nafnaskrá.

Og við getum hreiðrað um okkur, slökkt á símanum og sökkt okkur niður:

„Það mátti sjá limi hennar mýkjast, bein hennar svigna, neglur hennar linast. Og fyrst allra bráðnuðu fínlegustu líkamshlutarnir, blágrænt hárið, fingur og fótleggir, því að ekki er óravegur frá grönnum limum til kalds vatns. Næst á eftir þessu leysast axlir, bak, síður, og brjóst upp í mjóar vatnssprænur. Og loks, í stað lifandi blóðs, rennur tært vatn inn í holar æðar hennar, uns ekkert er eftir af henni sem festa má fingur á.“ (155)

Svanhildur Óskarsdóttir