Ísland BabýlónÁrni Snævarr. Ísland Babýlon. Dýrafjarðarmálið og sjálfstæðisbaráttan í nýju ljósi.

Mál og menning, 2022. 312 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2023.

 

„Dýrafjarðarmálið“ verður seint talið meðal stóratburða Íslandssögunnar og ætti naumast skilið meira en stutta neðanmálsgrein í sögubókum. Það hófst með því að verslunarráði bæjarins Dunkerque barst bænaskrá undirrituð af 21 útgerðarmanni 27. apríl 1855 þar sem þess var farið á leit að það beitti sér fyrir því að þeir fengju leyfi til að stunda fiskþurrkun á Íslandi. Bréfið var fengið í hendur de Mas, yfirmanni flotadeildar Frakka við Ísland, sem þá var að búa sig til ferðar, og tók hann síðan til við að kanna aðstæður fyrir væntanlega fiskþurrkunarstöð um leið og hann var kominn norður í áfangastaðinn. Af öllum stöðum leist honum best á Dýrafjörð, þar væru mörg og góð skipalægi. Hann beið ekki boðanna og skrifaði nokkrum Alþingismönnum bréf, reyndar í fullu óleyfi.

Málinu lauk síðan rúmum tveimur árum síðar, í júlí 1857, þegar það var lagt fyrir Alþingi, þá að undirlagi dönsku stjórnarinnar, og beiðninni hafnað. Þótt Alþingi væri enn ekki annað en ráðgefandi þing ákváðu Danir að taka niðurstöðuna gilda. Þá var líka komið í ljós að útgerðarmennirnir höfðu ekki bolmagn til að koma á fót neinni stórri bækistöð á Íslandi, hvorki til fiskþurrkunar né annars, og franska stjórnin hafði heldur engan áhuga á því. Málið datt niður og gleymdist síðan að mestu.

En þótt það virðist ekki annað en vindhviða í vatnsglasi eru á því angar sem teygja sig víða og varpa ljósi á alls kyns málefni tímans, jafnvel togstreitu heimsveldanna. Því hefur Árni Snævarr fundið ástæðu til að skrifa um það ritsmíð sem er ekki aðeins skemmtileg og fræðandi heldur upplýsir lesandann vítt og breitt um aldarháttinn. Hún gæti þannig verið eins konar inngangur að sögu 19. aldar.

Höfundur rekur vandlega gang málsins, bréfaskipti milli sendiherra og ráðherra fram og aftur, svo og skeggræður þeirra, og er óþarfi að tíunda það. Hins vegar er í hæsta máta athyglisvert að líta á afstöðu hinna ýmsu aðila og túlkanir þeirra á því sem var að gerast.

Bæði Danir á Íslandi og Íslencingar sjálfir voru andvígir því að Frakkar fengju að koma upp fiskþurrkunarstöð á Dýrafirði en alls ekki af sömu ástæðum. Dönsk yfirvöld kvörtuðu undan því að stjórn þeirra á Íslandi væri einungis kostnaður. Trampe greifi, stiftamtmaður á Íslandi, sagði við Napoleon prins, sem var þá í hinni frægu og nú gersamlega gleymdu ferð sinni til Íslands, að landið væri Danakonungi botnlaus hít, yfirráð yfir eynni kostuðu Dani morðfjár og lítið upp úr þeim að hafa. Prinsinn svaraði þá „í vitna viðurvist“, eins og höfundur tekur fram: „Því vill þá Danmörk vera að basla við slíkan ómaga?“ (46–47)

Þetta ætti að hafa komið við kaunin á Trampe greifa, ef hann hefði verið fær um að sjá heildarstöðuna á fullu ljósi. Í málum Íslands höfðu Danir nefnilega tvenns konar bókhald og vel aðgreint: dönsk stjórnvöld báru allan kostnað af rekstri landsins en gróðinn var hins vegar einkavæddur, hann rann svo til óskiptur í vasa dönsku kaupmannanna, og hann var mikill, heima hjá sér voru kaupmennirnir vellauðugir menn og bárust mikið á. Slíka stöðu ættu nútímalesendur að kannast við og dönsku yfirvöldin brugðust við á kunnuglegan hátt, með því að spara, hirða nánast ekkert um innviði landsins. Greifinn átti „fullt í fangi með að verja hve skammt á veg landið var komið á þróunarbrautinni miðað við önnur evrópsk ríki. Gestirnir [sem sé Napóleon prins og ferðafélagar hans] sáu hvorki byggingar né vegi, hvað þá kostnaðarsamt ríkis- og embættismannakerfi.“ (s.st.)

Þetta var það sem við myndum kalla óstjórn, en dönskum yfirvöldum, svo og vitanlega kaupmönnum sjálfum, var mest í mun að halda í óbreytt ástand, verja ofsagróða kaupmannanna. Þeir óttuðust mest af öllu að Frakkar tækju upp á því að versla á Íslandi, flytja kannske nýlenduvarning til landsins eða eitthvað það sem dönsku kaupmennirnir gætu ekki boðið upp á, a.m.k. ekki á sömu kjörum. Það stoðaði lítt þótt Frakkar reyndu að róa þá með því að fiskiduggurnar sem þyrftu að flytja með sér veiðarfæri og salt væru ekki beinlínis fallnar til innflutnings, hvorki á lúxusvarningi né öðrum. Kaupmönnum fannst að á skyldi að ósi stemma.

Andstaða bænda á Íslandi gegn áformum Frakka var af nokkuð öðrum rótum runnin, eins og skýrt kom fram á fundi sem haldinn var á Ísafirði 2. desember 1856 og bænaskrá sem þar var samin (213–215). Greinilegt er að bændur berjast með kjafti og klóm gegn hverju því sem kynni að stofna hinu hefðbundna og gersamlega staðnaða samfélagi þeirra í hættu, eins og það var með allri sinni stéttakúgun. Það sem er ofarlega á blaði hjá Ísfirðingum er að Frakkar kynnu að borga hærra kaup en hingað til hefur tíðkast og draga þannig vinnuafl frá íslenskum útgerðarbændum. Þannig gæti íslenskur útvegur lagst niður. Einnig óttuðust Ísfirðingar að kaup Frakka á landbúnaðarvörum myndi valda því að þær hækkuðu í verði, svo Vestfirðingar – sem urðu að flytja hluta af þeim frá öðrum landshlutum – myndu bíða skaða af. Í þennan streng tók Trampe greifi síðar með ýkjum stórum: hann sagði að frönsk atvinnustarfsemi, stór í sniðum, kynni að soga til sín vinnuafl úr sveitum landsins, svo að ástæða væri til að óttast hungursneyð (218). Svo er einnig í bænaskránni klausa frá G.J. nokkrum sem óttast að Frakkar kynnu að „innleiða hér verksmiðjur og ýmsan annan atvinnuveg“. Þannig er tæpt á nokkru sem var áberandi þá og lengi síðar: andstöðu bænda gegn þéttbýlismyndun í landinu.

Annað en þó skylt þessu kom einnig við sögu: alls kyns ótti við Frakka sjálfa, svo og siði þeirra og menningu. Þar reið Jón Guðmundsson, ritstjóri Þjóðólfs, á vaðið: „Þessar nýlendur af fiskiskríl Karkara [þ.e. sjómanna frá Dunkerque] og máske óbótamenn á 3–4 eða fleiri stöðum verða að 30 árum liðnum búnir að kyrkja hér allt þjóðerni. Það skal sannast“ (163). Á þessu hamrar hann í blaði sínu: „En veiti þessi óaldarskríll, 500–1000 manns, landsmönnum yfirgang eða óskunda, sem við má búast, eiga þá landsmenn að kæra á íslensku mál sín fyrir hinum frakkneska herskipaforingja? Skilur hann mál landsmanna, getur hann eða er bær og einfær um að rannsaka málavexti og skera úr þeim hlutdrægnislaust?“ (213) Jón gaf sér sem sagt að danska stjórnin myndi ekki vilja standa undir kostnaði við lögreglustjórn og því myndi hún koma í hlut Frakka. Þetta var vitanlega alveg rökrétt ályktun.

En hvers vegna voru Frakkar svo hættulegir? Á það bendir ritstjórinn: „Frakkar eru suðræns kynferðis og lundarlags; Bretar eru af norrænni rót runnir; […] liggja og Bretar oss miklu nær að öllu.“ (206) Þetta er enn skýrara í Skírni á sama tíma, 1856: „Það hefur lengi þótt ósiðavant í París, og margir hafa sagt um þá borg, að hún væri hin önnur Babýlon og engu betri.“ (204) Og Grímur Thomsen skrifaði fjölskyldu sinni, þá sjálfur staddur í París: „Það er eins og bros þeirra sé blóðugt og hláturinn komi neðan að. Þessi kæti getur allt í einu orðið að stjórnarbyltingu.“ (204–205) Ofan á allt annað voru Frakkar kaþólskir, og þótt á Íslandi væru enn í gildi lög frá 1665 sem skylduðu alla þegna til lútherstrúar (þau höfðu þá verið afnumin í Danmörku) var kaþólskt trúboð að komast á dagskrá. Breski sendiherrann áleit að þessi trúboðsviðleitni hlyti að vera í samhengi við beiðni Frakka um fiskþurrkunarstöð (207–209).

Suðrænn hlátur Frakka, sem gat allt í einu orðið að stjórnarbyltingu, var alvarleg ógn við íslenskt bændaþjóðfélag, og myndi þá lítið stoða því til varnar að setja lög til að fyrirskipa samræmda alvörugefni forna.

Sennilega var Jón Sigurðsson eini Íslendingurinn sem var á nokkuð öðru máli. Hann vildi ekki hafna samningi við Frakka að óséðu og taldi að með honum kynnu að opnast nýir möguleikar, nú væri afnám tolla og verslunarfrelsi sennilega á dagskrá í Frakklandi. Þetta var líklega skynsöm afstaða, en að þessu leyti var Jón í minnihluta (159–161).

En málið var ekki komið langt þegar það fór að tengjast valdatogstreitu stórveldanna og sennilega á sá hinn hláturmildi Þorleifur Repp stóran þátt í því. Seint í janúar 1856 sendi franski sendiherrann í Kaupmannahöfn danska utanríkisráðherranum bréf um fiskþurrkunarstöðina, að beiðni yfirboðara síns. Þar hreyfði hann nýrri röksemd: siglingar franskra fiskimanna til Íslands væru hagsmunamál fyrir Frakka, því þannig gætu þeir þjálfað sjómenn sem síðar væru tiltækir til þjónustu í flotanum. Sennilega hefur hann sagt þetta til að sneyða hjá því sem hann vissi að var Íslendingum að ásteitingarsteini, en þetta voru mistök, það sem utanríkisráðherrann las út úr þessu var að Dýrafjarðarstöðin væri að verulegu leyti hernaðarleg (103–106). Þá voru talsvert stærri hagsmunir í voða.

Ekkert gerðist þó fyrr en 11. september þetta sama ár. Þá færði ónefndur maður enska sendiherranum nafnlausa skýrslu, sem olli því að honum svelgdist á. Þar var sagt að Frakkar ætluðu að koma upp fiskveiðistöð á Dýrafirði sem myndi fljótlega verða að feiknarlegri hernaðarnýlendu. Og þar væri „einhver besta höfn í heimi […] sem gæti hýst allan franska flotann.“ Þaðan væri heldur ekki nema sextíu tíma sigling til norðurhluta Írlands. Skýrsluhöfundur taldi að allt frá valdatímum Lúðvíks Filippusar hefðu Frakkar haft áætlanir um að ná undir sig Íslandi og nú væri ætlunin að hrinda þeim í framkvæmd. (112–114). Í þessum sama septembermánuði 1856 birtust greinar, með tveggja daga millibili, í danska blaðinu Fædrelandet. Þær voru nafnlausar en sagðar vera „bréf frá Reykjavík“, dagsett 15. ágúst, og stóð þar að Frökkum hefði verið gefinn ádráttur um leyfi til „nýlendustofnunar“ á Íslandi. Þangað myndu koma tíu þúsund sjómenn á 800–900 skipum, og myndi þessi stöð verða Trójuhestur Frakka á Íslandi. Um síðir myndu þeir leggja landið undir sig, stofna þar flotastöð, og var vísað til framferðis Frakka í Tahítí, sem menn vissu þá að síst var til fyrirmyndar (138–139).

Bréfin hafa verið rakin til danskra kaupmanna í Reykjavík. En höfundur telur að nafnleysinginn hafi hins vegar ekki verið neinn annar en Þorleifur Repp, enda var þetta eðlilegur leikur í tafli hans sjálfs, hann vildi leysa Íslendinga undan Dönum en þar sem þeir væru svo smáir að þeir gætu ekki staðið á eigin fótum hlytu þeir þá að ganga inn í breska heimsveldið, það væri þeim til mestra hagsmuna. Þetta var hans stóra hugsjón. En ógnin um franska herstöð á Íslandi hlaut að kalla fram sterk viðbrögð Englendinga. Clarendon, utanríkisráðherra Bretlands, sendi þegar í stað fyrirmæli til Buchanan sendiherra í Kaupmannahöfn: „Reynið að koma í veg fyrir að danska stjórnin fallist á fyrirætlanir Frakka á Íslandi.“ (119) Buchanan fór strax af stað, og hefur verið látið að því liggja að hann hafi hótað utanríkisráðherranum danska „Evrópustríði“ (124). Þannig hefði Dýrafjörður kannske komist í sögubækur í staðinn fyrir Sarajevo sem upphaf stórstyrjaldar, en hún hefði þá orðið með nokkuð öðrum hætti en sú sem hófst 1914, og staðið milli Englendinga og Frakka. Reyndar voru þeir þá mestu keppinautarnir í nýlendukapphlaupinu og stundum á barmi styrjaldar. En reyndar er ólíklegt að Buchanan hafi verið svo skelfilega kjaftfor. Á sama tíma gekk enski sendiherrann í París á fund franska utanríkisráðherrans, og var málflutningur hans greinilega byggður á skýrslu nafnleysingjans. En ljóst er að Frakkinn hefur getað fullvissað Bretann um að ekki væri á dagskrá að reisa neina herstöð í Dýrafirði. Niðurstaðan af þessu öllu var sú, eins og höfundur bendir á, að Frakkar og Englendingar fóru ekki í hár saman út af Dýrafirði, heldur lögðu þeir á eitt að berja á Kínverjum í „Ópíumstríðinu“ örlagaríka og illræmda.

Á þessu máli eru reyndar enn fleiri hliðar, Rússar koma við sögu og einnig „skandínavisminn“ svokallaði, sem var í aðra rönd hugsaður sem nokkurs konar svar við ásókn Rússa í vestur, og er það allt áhugavert. En hér er rétt að láta staðar numið. Ég vildi einungis undir lokin grípa í annan þráð. Eins og sagt var í upphafi víkur bókin að ýmsum málefnum, jafnvel í fjarlægum hálfum. Eitt þeirra er saga arabíska leiðtogans Abdelkaders sem reyndist franska innrásarliðinu í Alsír óþægur ljár í þúfu um langt skeið.[1] Höfundur lýsir því hvernig franskir sjóliðar settu handtöku hans á svið sumarið 1843 í Tjörninni í Reykjavík, væntanlega til að sýna Mörlandanum mátt franska hersins og megin. Á hólmanum var reist virki með fallstykkjum, þar sem menn klæddir að arabískum sið bjuggust til varnar undir forystu Abdelkaders sem leikinn var af Aimé d´Estremont de Maucroix, sjálfum yfirmanni frönsku flotadeildarinnar við Ísland, svo reru franskir sjóliðar yfir úfna Tjörnina í átt að hólmanum, gráir fyrir járnum með ærandi skothríð. Bardaganum lauk með því að alsírski leiðtoginn synti og óð í land og gafst upp með því að kasta sér við fætur Juliane Vilhelmine Nielsine Christence Benzon, stiftamtmannsfrúar. Einn frönsku leikaranna sagði síðar að hinir góðu og dagfarsprúðu Íslendingar hefðu verið frá sér numdir af ákafa. Höfundur lyktar frásögninni með þessum orðum: „Af Abd-el-Kader er það að segja að hann gafst upp í árslok 1847 […] El-Kader var fluttur til Frakklands og var eftir það ýmist fangi Frakka eða útlagi það sem hann átti eftir ólifað.“ (88–89)

Þetta er allt mjög villandi, svo ekki sé meira sagt, en hér er drepið á sögu sem er í hæsta máta umhugsunarverð og ekki er úr vegi að rekja í stuttu máli. Með þessari sýningu voru Frakkar reynar „að halda upp á páska á undan jólum“, samkvæmt máltæki þeirra. Þótt franskur her hefði ráðist á búðir Abdelkaders hinn 16. maí þetta sama vor 1843 gekk hann þeim úr greipum. Hann gafst ekki upp fyrir neinni stiftamtmannsfrú og lék því enn lausum hala þegar barist var um Tjarnarhólmann, þess vegna hefði hann eins vel getað leikið sjálfan sig í Hólmanum. Hann gafst ekki upp fyrr en fokið var í öll skjól, 21. desember 1847, en þá með því skilyrði að hann fengi að fara í útlegð til Egyptalands. Það loforð sviku Frakkar og varð hann að dveljast í fangavist á ýmsum stöðum í fjögur ár. En á þeim tíma vann hann sér virðingu allra sem hann umgekkst og hitti að máli. Hann átti viðræður við fjölmarga, ýmsa kirkjunnar þjóna, biskupa og einn erkibiskup. Meðal þeirra sem heimsóttu hann í fangelsið var Ferdinand de Lesseps verkfræðingur, sem þá var ekki eins frægur og síðar varð, og urðu þeir ævilangir vinir. Á þeim tíma gerðust miklir atburðir í Frakklandi, gerð var bylting, konungi steypt af stóli og stofnað lýðveldi, það var „annað lýðveldið“ (nú eru þau orðin fimm). Lúðvík-Napóleon Bónaparte var kjörinn forseti þess og stóð Abdelkader í bréfasambandi við hann.

Fangavistin varð smám saman mildari og gat „emírinn“, eins og hann var titlaður, skoðað næsta umhverfið. Í október 1852 átti Lúðvík-Napóleon, sem var ekki enn orðinn Napóleon III, leið um Amboise þar sem Abdelkader var fangi. Hann gekk á fund Serkjans og ávarpaði hann: veitti hann fanganum frelsi og leyfi til að fara í útlegð, eins og hann hafði sjálfur farið fram á. Um leið harmaði hann að fyrri stjórnvöld hefðu svikið loforð sitt og lofaði honum ævilöngum lífeyri sem samræmdist hans tign (við það loforð var staðið). Lúðvík-Napóleon lauk ávarpi sínu með þessum orðum:

„Þú hefur verið fjandmaður Frakklands. Eigi að síður er ég fús til að viðurkenna fyllilega hugrekki þitt, staðfestu þína og jafnaðargeð í ógæfunni. Þess vegna lít ég á það sem heiður að binda enda á fangavist þína.“

Abdelkader var látinn laus og hann hélt til Parísar, þar sem honum var mjög fagnað. Honum var boðið í óperuna, þar sem Lúðvík-Napóleon tók á móti honum í stúku sinni. Sáu þeir saman „Móses“ eftir Rossini, sem hefur vafalaust vakið áhuga hins Kóran-fróða Serkja. Þeir Lúðvík-Napóleon voru síðan viðstaddir hersýningu, þeim báðum til heiðurs. Abdelkader dvaldist tvær vikur í París, þar sem hann ræddi við ýmsa menn, vísindamenn, trúarleiðtoga, stjórnmálamenn, hershöfðingja og prinsa. Hann gekk milli höfuðkirkna, m.a. Notre Dame, til að sýna umburðarlyndi Múhameðstrúar og gerðist félagi í „Asíska félaginu“, sem var vísindafélag. Fyrir það skrifaði hann pistil um nytsemi skynsemi til að skilja heiminn.

Eftir þetta fór hann í tíu daga ferð um Frakkland sem lyktaði í Marseille, þar sem hann sté á skipsfjöl. Napóleon gaf honum hest og síðar sendi Abdelkader Napóleon sverð að gjöf. Á ferð sinni austur kom hann við í Sikiley, þar sem hann skoðaði minjar um múslima frá miðöldum.

Hann settist fyrst að í Tyrklandi, þar sem yfirvöld tóku honum fálega, en fluttist síðan til Sýrlands, þar sem landstjórinn fékk honum veglegan bústað fyrir hann og fjölskylduna, sem taldi aldraða móður hans, eiginkonurnar Kheiru, Aichu og Embörku, og fjölmörg börn. Þar bjó hann æ síðan, fyrir utan mörg ferðalög. Hann safnaði um sig lærisveinum og stundaði kennslu, auk þess sem hann skrifaði um trúarbragðaspeki og orti ljóð. Hann komst aftur í heimspressuna 1860. Þá hófu múslimar í Sýrlandi blóðugar ofsóknir gegn kristnum mönnum sem stóðu í viku, landstjórnarmenn skriðu í felur og aðhöfðust ekki neitt en Abdelkader skaut skjólshúsi yfir marga kristna menn og bjargaði lífi þeirra. Eftir það fór hann í pílagrímsferð til Mekka með margvíslegum krókum til Egyptalands og víðar. Þegar hann fór frá Egyptalandi fylgdu honum áleiðis munkar, nunnur og kristnir trúboðar til að heiðra hann.

Abdelkader fór síðan tvisvar til Frakklands, 1865 og svo aftur á heimssýningu 1867. Í fyrri ferðinni skrapp hann yfir Ermarsund og ræddi við ýmsa menn í London, þar á meðal rithöfundinn William Thackeray. Í leiðinni skoðaði hann þinghúsið, Westminster Abbey, British Museum og verkamannasýningu í Kristalshöllinni. Í París hlýddi hann á fyrirlestur í Sorbonne-háskóla sem fjallaði um það hvernig Ágústus keisari hefði skipað málum í Norður-Afríku. Jafnframt gerðist hann frímúrari og skrifaði bræðrunum fjölmörg bréf.

Abdelkader var eindreginn stuðningsmaður þess að skipaskurður skyldi grafinn yfir Súes-eiðið. Það var vinur hans Ferdinand de Lesseps sem stóð fyrir því en sú framkvæmd var þá mjög umdeild. Honum var því boðið að vera viðstaddur opnun skurðarins 17. nóvember 1869, við hlið vinar síns Lesseps og alls kyns kóngafólks frá Evrópu.

Á þessum árum kom upp sú furðulega hugmynd, sem Napóleon III mun hafa bryddað upp á, að leysa Sýrland og Líbanon undan tyrkneskri stjórn, stofna þar konungsríki og gera Abdelkader að konungi yfir því. Þetta var loftkastali en konungsefnið batt enda á allar bollaleggingar af þessu tagi og tók skýrt fram að afskiptum hans af sjórnmálum væri að fullu lokið.

Abdelkader lést árið 1883. Eftir það sem hér hefur verið sagt ætti engan að undra að litið sé á hann sem þjóðhetju í Alsír og eru styttur af honum í Algeirsborg og víðar. En maður fær samt þá tilfinningu að Alsírbúar haldi ekki á lofti nema einni hlið af þjóðhetjunni, semsé leiðtoga andspyrnunnar, en vanræki aðra þætti í lífi hans. Hann var enn stærri og því er rétt að minnast þess að hann hafi verið persónugerður í Tjarnarhólmanum í Reykjavík.

 

Einar Már Jónsson

 

Tilvísanir

[1] Í því sem hér er sagt um arabíska leiðtogann er stuðst við ævisögu hans Abdelkader eftir Bruno Étienne, París 2012 (fyrsta útg. 1994).