Einar Már Guðmundsson. Hundadagar.

Mál og menning, 2015.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2016

HundadagarSvo hafa ýmsir söguspekingar sagt að fortíð mannsins sé ótæmandi, ekki aðeins atburðirnir bæði stórir og smáir að viðbættum gerendum þeirra, sem geta vitanlega leikið fjölmörg hlutverk hver og einn, heldur og hin ýmsu tengsl sem hægt sé að rekja á milli þeirra; því birtist hún sjónum þeirra sem í hana rýna eins og sjónhverfingar í kviksjá. Af þessu leiðir vitanlega að þeim sögum sem segja má af fortíðinni eru lítil takmörk sett.

Undanfarna áratugi hefur þetta verið að renna upp fyrir mönnum skýrar en áður, og má hafa til marks um það hinar fjölbreyttu gerðir sagnfræði sem nú eru skrifaðar; þær sérsögur sem samdar eru samkvæmt gamalli hefð gerast sífellt fjölbreyttari, þær segja kannske frá líðan fátæklinga fjarri hlýju hjónasængur eða þá frá kólerufaraldrinum í Hamborg árið 1892; atburðasaga, sem sumir fordæmdu einu sinni, er aftur hafin til vegs og virðingar í enn fjölbreyttari myndum en áður, t.d. eru samdar merkar bækur um einn einasta bardaga sem stóð þó ekki yfir nema stutta stund, svo sem orustuna í Bouvines í byrjun 13. aldar; það er mjög í tísku um þessar mundir og gefur góðan árangur að skrifa sögu eins einstaks árs og tengja þá saman fjölmargar ólíkar hliðar svo sem bardaga og bókmenntir, orustuna í Kvíbekk og Birting eftir Voltaire; svo má ekki síst nefna bollaleggingar manna um það hverjar afleiðingarnar hefðu orðið ef einhver atburður hefði farið á aðra lund en hann gerði, t.d. ef einn erkihertogi hefði ekki geispað golunni í Sarajevó, en þótt þetta sé umdeilt færa ýmsir rök að því að þetta sé fyllilega réttmætt, jafnvel nauðsynlegur þáttur sögunnar. Loks verður að telja sögulegar skáldsögur sem njóta ekki mikillar virðingar meðal sagnfræðinga þessa stundina, en voru einu sinni taldar fullgildur þáttur hennar, ekki síst vegna þess að þar var hægt að velta fyrir sér ýmsum spurningum, meðal annars í söguspeki, sem venjuleg sagnfræði átti erfitt með að taka til athugunar. Ekki er ólíklegt að þær eigi eftir að njóta aftur fullrar virðingar meðal fræðimanna ekki síður en lesenda, kannske í nýjum myndum, og margefldar.

Með þessu er vitanlega ekki sagt að þar sem sögunum af fortíðinni séu engin takmörk sett séu þær allar jafngildar, við samningu þeirra verður jafnan að fylgja hinum ströngustu reglum fræðanna – til þess vísa sennilega hin fleygu orð Rankes „wie es eigentlich gewesen“, hann vildi rýna í það sem traustustu heimildir greindu frá og vísa öðru á bug, – og auk þess eru þær mismerkar, skipta mismunandi miklu máli, og má reyndar segja að eitt verk sagnfræðingsins sé að sýna mönnum fram á að sú sérstaka saga sem hann er að segja komi þeim raunverulega við. Svo er það grundvallarspurningin, sem vafalaust eru mörg svör við, hvernig er hægt að gera grein fyrir þeim aragrúa mynda sem birtast í kviksjánni.

Hérna ætla ég að setja fram eina kenningu, fremur einfalda í sjálfu sér. Milli atburða sem gerast kannske á ólíkum stöðum og ólíkum tímum, og langt á milli, er stundum hægt að finna rökleg tengsl, einhvern sérstakan þráð, þannig að unnt sé að segja að fyrri atburðurinn sé á einhvern hátt „orsök“ hins síðari. Slík tengsl kunna oft að liggja í augum uppi, dæmi um það eru tengslin milli Versalasamninganna og heimsstyrjaldarinnar síðari, en önnur koma mönnum stundum mjög á óvart. En þess verður að gæta að þótt færa megi sterk rök að einhverjum tengslum, eru þau tengsl þó sjaldnast eða jafnvel aldrei tæmandi, yfirleitt er hægt að benda á einhver önnur sem skipta einnig máli, og verður þá að vega og meta þau hverju sinni. Það sýnir einnig dæmið um Versalasamningana og heimsstyrjöldina.

En fyrir utan þessa þræði sem liggja milli atburða eru aðrir þræðir mun fleiri og fínlegri, það eru allir þeir óteljandi þræðir sem liggja milli einstaklinga í þjóðfélaginu og geta þróast, slitnað og myndast aftur á alls kyns vegu. Dæmi um það eru hinir óvæntu endurfundir tveggja kvenna í upphafi síðustu kvikmyndar Almodovars, „Julieta“, sem draga mikinn dilk á eftir sér. Nú má vel vera að þessir síðastnefndu þræðir sem gjarnan eru tilviljunum háðir, eins og þetta síðasta dæmi sýnir, kunni einnig að tengjast þeim þráðum sem liggja á röklegan hátt milli stóratburða sögunnar, og valda einhverju meira eða minna um þá, vera sú hundaþúfa sem veltir þungu hlassi; kannske voru umsvif stúdentsins byssuglaða í Sarajevó afleiðing af einhverjum óvæntum kynnum í ölkrá.

Um þetta er sjaldnast hægt að segja neitt, en hins vegar hafa verið leidd rök að því að svokallaðar tilviljanir stafi af því að tveir óskyldir þræðir skerast. Sígilt dæmi um það í smáu, og reyndar að hluta til utan mannheima, eru teknir tveir ímyndaðir þræðir, annars vegar er maður í grandaleysi á daglegri leið til vinnu sinnar, hins vegar er þakhella smám saman að losna fyrir áhrif af veðri og vindum, þræðirnir skerast svo á þann hátt að hellan kemur manninum í koll. Annað dæmi og mun mikilvægara í hinni stóru sögu eru tveir voldugir þræðir í fornöld, annars vegar útbreiðsla kristindóms meðal hinna ýmsu stétta í Rómaveldi, um síðir meðal menntamanna, og hins vegar sveiflur heimspekinnar, þessir tveir þræðir skerast og tengjast á þeim tíma þegar nýplatónismi er orðin ríkjandi stefna í heimspeki, og aðrar stefnur fallnar í skuggann; hefur það haft ómæld áhrif allt til vorra daga.

Þetta er semsé þráðakenningin í sagnfræði, – menn gætu líka sagt strengjakenningin ef þeir vilja vera vísindalegir – og mætti kannske gera módel af víravirkinu, en því þyrfti að koma fyrir í mun fleiri víddum en okkar daglega tímarúm hefur upp á að bjóða.

Hundadagar eftir Einar Má Guðmundsson sýnir að sögulega skáldsagan lifir enn góðu lífi, þrátt fyrir efasemdir alvarlega þenkjandi sagnfræðinga, og af viðtökunum má ráða að hún höfði ekki síður til lesenda en áður. En þegar skrifuð eru orðin „söguleg skáldsaga“ fer því þó fjarri að allt sé sagt, því slíkar bókmenntir eru með afarmörgum hætti. Margir höfundar á því sviði fara þá leið að skálda inn í eyður hinnar rituðu sögu, búa til persónur sem voru ekki til en gætu svo sem alveg hafa fyllt lungun í blænum nokkrar ögurstundir; í sinni tilveru hefðu þær hvort sem er aldrei sett nein spor á blöðum sögunnar, því um Gagga Gú finnst því miður engin heimild nú, eins og Íslendingar vita. Þessar tilbúnu persónur geta höfundar svo haft sem sjónarvotta stóratburða, eins og Fabrice del Dongo á vígvellinum í Waterloo, og lýst því með tilfallandi íróníu hve mikið eða lítið þær skilja; á þann hátt leika höfundar sér á margan hátt og varpa með því nýjum ljósgeislum á söguna.

Einar Már Guðmundsson fer þó aðra leið, hann víkur hvergi svo heita má frá þeirri sögu sem skjalfest er, þótt hann geti í eyðurnar skáldar hann ekki í þær. Hins vegar er saga hans frumleg á annan hátt, hún er meira en saga Jörundar sjóla sem margir hafa sagt á undan honum, hún er í rauninni hliðstæð æfisaga Eldklerksins og Hundadagakonungsins með ýmsum útúrdúrum, þannig að sögurnar eru sagðar samtímis og lítt greindar að. Ég hef orðið þess var að þetta hefur vafist fyrir mörgum, þeir horfa hver á annan í forundran og spyrja: hvað eiga þessir menn sameiginlegt, þannig að það hafi einhvern tilgang að blanda þeim saman?

Þessi spurning ber vitni um skort á eftirtekt, þeir sem furða sig á þessu hafa semsé vanrækt að hugleiða mottó verksins, hin frægu orð T. S. Eliots: „History has many cunning passages …“ Þessi orðskviður gæti nefnilega sem best verið einkunnarorð þráðakenningarinnar, þar sem þræðirnir birtast reyndar í líki kænlegra undirganga, en það kemur í sama stað niður, og útfrá henni ber að túlka sögu Einars Más, hún er eins og tilraun í sögutúlkun út frá þessari sérstöku hugmynd. Þannig verður að sjálfsögðu að líta á gagnkvæma stöðu Jóns og Jörundar, þeir standa hvor við sinn endann á rammgerðum þræði, þeim sem tengir saman Skaftáreldana og fall Bastillunnar. Þegar ég var við nám í byltingarsögu á sínum tíma lögðu kennararnir mikla áherslu á þann þátt sem uppskerubresturinn 1788 átti í því að Parísarbúar risu upp ári síðar, brauðskorturinn virkaði eins og hvati og magnaði upp allar mótsetningar svo og pólitískan skilning fólks og reiði yfir þjóðfélagsástandinu yfirleitt. En kennararnir þekktu ekki ástæðuna fyrir þessum uppskerubresti, þeir vissu ekki að hann átti rætur sínar að rekja til eldgíga á Íslandi, til gosa sem höfðu stórfelld áhrif á loftslagið víða á norðurhveli jarðar og þá jafnframt á ökrum Frakklands. Þeir sáu ekki nema annan endann á þræðinum.

Séra Jón Steingrímsson er nú ekki aðeins besta vitnið sem til er um eldgosið og áhrif þess á Íslandi, heldur var hann og virkur þátttakandi í þeim örlagaríku atburðum sem því tengdust og jafnframt þolandi þeirra; því öllu lýsir hann á frábæran hátt. Í heild má svo segja að ferill Jörundar Jörundssonar hafi mótast af þeim atburðum sem urðu í Frakklandi, hann sogaðist inn í hringiðu sem spratt að verulegu leyti af uppskerubrestinum og öllum þeim kröftum sem hann leysti úr læðingi, allur hans konunglegi ferill á Íslandi er til vitnis um það. Milli beggja enda þessa þráðar er skýr samsvörun, því gerðir Jörundar á Íslandi eru eins og svar við þeirri niðurlægingu sem séra Jón varð að þola af hálfu heimskra og hrokafullra embættismanna, í eldmóði konungs eru Skaftáreldarnir komnir til baka og svíða sárt nýja kynslóð embættismanna og ekki betri. Jörundur hefnir semsé Jóns. Þess vegna er ákaflega vel til fundið að rekja þessar tvær sögur saman.

Nú vill svo til um þræði að þá má rekja í hvora átt sem vill, í þessu tilviki bæði fram og aftur í tímann og það nýtir Einar Már sér, því getur hann leyft sér slík ferðalög á hinu breiða sviði sögunnar. Væri það tilefni til margvíslegra hugleiðinga. En hann gengur lengra, hann skoðar einnig alls kyns þræði á hinu lægra stigi einkalífsins sem víxlast alla vega, svo sem þræðina í samskiptum Guðrúnar Johnsen, Jörundar og Finns Magnússonar sem hófust á þann hátt að Guðrún varð „Hundadagadrottning“, blíð ástmey Jörundar, en Finnur bauð ódeigur sjálfum Hundadagakonunginum byrginn, en lyktaði með því að Guðrún var orðin beiningakona í Kaupmannahöfn og sótti heim Finn sem hafði þá fengið slæman ryðblett á frægðarskjöldinn þegar hann las fornan skáldskap út úr jökulrispum; þau höfðu bæði misstigið sig við Eyrarsund.

Stíll Einars Más er á köflum líkt og rabb eða „causerie“ eins og íslenskir blaðamenn sögðu stundum í mínu ungdæmi, og getur hann því leyft sér að halda sumum þráðunum áfram og benda á alls kyns tengingar við nútímann, „byltingu“ Jörundar sem vildi setja á fót nýtt Ísland og „búsáhaldabyltinguna“ sem hafði sams konar markmið. Hann getur jafnvel slegið fram spurningu um það sem kynni að hafa gerst ef meginþráðurinn hefði haldið áfram á annan hátt en varð, ef uppátæki Jörundar hefði heppnast, ef hann hefði orðið yfirvald á Íslandi, en þá að sjálfsögðu í skjóli og umboði Englendinga. Væri gott fyrir menn á þessum síðustu tímum hnattvæðingarinnar að hugleiða það.

Allt þetta er listilega gert og skemmtilegt aflestrar; og væri tilvalið að Einar Már læsi upp úr bókinni í konungshöll Jörundar við Austurstræti. En þegar maður lokar henni lætur hann sig kannske dreyma um aðra sögu, einhvers konar framhald, um Móðuharðindi frjálshyggjunnar sem byrgðu allan sannleika í mósku, um fagnaðarlaust Hundadagaveldi ólígarkanna og um þá Skaftárelda sem brenndu upp eigur manna.

Einar Már Jónsson