Bergsveinn Birgisson. Svar við bréfi Helgu.

Bjartur, 2010.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2011

Svar við bréfi HelguLesendum Bergsveins Birgissonar hefur orðið tíðrætt um stílinn í verkum hans, enda er hann óvenjulegur, styrkur Bergsveins og sérstaða sem höfundar. Þjóðlegur andi og kjarnyrt mál ræður ríkjum í öllum þeim þremur skáldsögum sem Bergsveinn hefur sent frá sér. Honum tekst á afar sannferðugan hátt að skapa sögupersónum sínum kynngimagnað orðfæri sem er í senn alþýðlegt og litað af sagnaarfinum. Segja má að breytingar og þróun íslensks samfélags og tungutaks undanfarna áratugi afhjúpist í því hversu óvenjulegt og framandi listbragð í stíl slíkt málfar er orðið nútildags.

Það á eigi að síður einstaklega vel við í því samhengi sem Bergsveinn velur því og er nátengt grunnatvinnuvegum Íslands, sjávarútvegi og landbúnaði. Fyrsta skáldsaga Bergsveins, Landslag er aldrei asnalegt (2003), gerist í litlu þorpi norður við úthaf, sú síðasta, Svar við bréfi Helgu (2010), í ótilgreindri sveit. Og þótt sögusvið þeirrar í miðið, Handbókar um hugarfar kúa (2009), sé í borginni, er viðfangsefnið nátengt landbúnaði, auk þess sem sagan leysist að lokum upp í einskonar fantasíu byggða á þjóðsagnaarfi. Fyrir Svar við bréfi Helgu hlaut Bergsveinn sína aðra tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, en áður hafði hann verið tilnefndur fyrir Landslag er aldrei asnalegt, sem sætti nokkrum tíðindum þar sem um frumraun hans á sviði skáldsagnagerðar var að ræða.

Frásagnir Bergsveins af veðurfari, landslagi og atvinnuháttum til sjávar og sveita vísa víða með skemmtilegum hætti í bókmenntaarfinn. Veðurfarslýsingarnar minna til að mynda sumpart á skrif Þórbergs Þórðarsonar um það efni, en landslagslýsingar Bergveins kallast á við sveitarómantíkera á borð við Guðrúnu frá Lundi, ekki síst á þeim stöðum þar sem hegðun og umgengni við dýr verður táknræn fyrir innri líðan sögupersóna. Ein frægasta persóna Guðrúnar er Jón hreppstjóri í Dalalífi, en karlmennska hans kemur iðulega fram í gegnum hestana sem hann heldur, þeir og hann renna saman svo vart má á milli sjá hvort Jón er meiri foli eða hrossin. Því er líkt farið með Bjarna, söguhetju Bergsveins í Svari við bréfi Helgu: hann rennur saman við hrútana í „fengitíð“ lífs síns (bls. 46). Frásagnir af starfsháttum samsvara iðulega tíðarandanum úr ótal þjóðlífsþáttum og endurminningum fyrri tíðar eins og þær hafa til dæmis birst okkur í safnritum Gils Guðmundssonar.

Það eru ekki margir af kynslóð Bergsveins sem hafa gert sér mat úr þessum efniviði nema í tengslum við sögulegan skáldskap. Þessi ríka tilfinning fyrir málfari og tíðaranda er þó fyrir hendi í trílógíu Jóns Kalmans, Himnaríki og helvíti, Harmur englanna og Hjarta mannsins, en sögusviðið í þeim verkum heyrir fortíðinni til – ólíkt verkum Bergsveins.

*

Þegar Landslag er aldrei asnalegt kom út árið 2003, á uppgangsárum nýrrar aldar, var sögusvið það er Bergsveinn valdi sér ekki síður framandlegt en stíllinn. Saga um þorpslífið við hafið virtist í afgerandi andstöðu við tískuvæðingu efnahagsbólunnar og efnishyggju bankaræðisins. Samhliða því voru efnistökin sérkennilega gamaldags. Gegnumsýrð þjóðlegum lýsingum á frumatvinnuvegunum; sjósókn og landbúnaði og óvenju kjarnyrtu tungutaki í bland við forvitnilegar heimspekilegar vangaveltur.

Aðalsöguhetjan, Halldór Benjamínsson, er ungur trillukarl sem varð eftir í sjávarplássi norður við ysta haf er móðir hans og systkini fluttu á brott í kjölfar þess að faðir hans dó í vinnuslysi. Halldór er ósáttur við fólkið sitt og hefur orðið fyrir einelti í skóla. Sálarfrið finnur hann hvergi nema hjá öldnum frænda sínum, trillukarlinum Gusa, sem hefur verið hans stoð og stytta þegar aðrir brugðust. Halldór er eftirtektarverð karlpersóna, karlmannlegur í líkamlegu atgervi og við sjósóknina; sönn hetja hafsins. En hann á sér líka aðra hlið sem brýst helst fram í landi og umgengni við ókunnuga, þá er hann feiminn, heftur og lítill í sér.

Í verkinu eru víða pólitísk skot um togstreitu kvótakerfis og byggðastefnu. Trillukarlarnir hafa engan kvóta þrátt fyrir nálægðina við miðin og byggðirnar eru að leggjast í eyði. Reglur um sóknarmark setja sjálfstæðum fiskimönnum óþolandi skorður sem og getu þeirra til að sjá fyrir sér og skapa verðmæti. Hin þjóðlega sjálfsbjargarviðleitni alþýðunnar er lítils virði í því samhengi sem stjórnvöld boða að sunnan. Þetta kemur glöggt fram er þingmaður svæðisins kemur í heimsókn, og sveitapresturinn veitist að honum; „Ykkur er svoleiðis skítsama þó allt fari í eyði hér, því það borgar sig ekki samkvæmt amríkuhagfræðinni ykkar að hafa manneskjur í sveitum, nema yfir hásumartímann þegar þið komið til að dást að fjöllunum og viljið fá keyptar pulsur. Þið viljið ekki hafa neina litla kalla að veiða fiska í fjörðum, það sem þið viljið er að plægja gervallt grunnsævið og ryksuga upp hvern einasta titt á verksmiðjutogurum fullum af vélmennum. Af því það er hagkvæmast samkvæmt hagfræðinni ykkar. Þið viljið enga helvítis menningu á landsbyggðinni, og enga menningu yfir höfuð. Það er löngu útreiknað að það borgar sig ekki að leyfa litlum körlum að lifa.“ (Bls. 42.)

Þótt Handbók um hugarfar kúa fjalli um ungan mann úr borginni, menningarfræðinginn Gest, er sami undirtónn í samfélagsádeilu verksins og í Landslag er aldrei asnalegt. Hinn sprenglærði Gestur, sem er nýfluttur heim frá útlöndum með eiginkonu og dóttur, heldur uppi áþekkum málflutningi og sveitapresturinn og trillukarlarnir; „[…] fiskikvótar sem heilt byggðarlag hefur búið til og unnið fyrir eru seldir á einum eftirmiðdegi í Reykjavík í vasa nokkurra. Að drepa samfélagið – það er ekki bara sjálfsagt, það er ávísun á velgengni, eins og það myndi heita hjá greinendum bankabatterísins, […]“ (Bls. 66.)

Gestur er alinn upp af ömmu sinni og stjúpafa. Móðir hans, rétt eins og móðir hennar, amma Gests, varð ólétt óvart og alltof ung. Amman og stjúpafinn, kaldlyndir lögfræðingar bæði tvö, taka málið í sínar hendur og fá móður Gests úrskurðaða geðveika til að koma í veg fyrir að hún taki barnið með sér af heimilinu og afhjúpi um leið hræsnina sem þar ríkir. Eins og nafnið bendir til virðist Gestur því hvergi eiga raunverulega heima, og öfugt við Halldór í fyrstu bók Bergsveins, síst úti í náttúrunni. Upphafssena Handbókar um hugarfar kúa gerist í gönguferð sem Gestur fer með konu sinni og barni rétt utan við bæinn, en það er eina sena verksins sem ekki gerist í borginni. Þar birtast veikleikar Gests, hann afhjúpast sem fórnarlamb þeirrar yfirgangssemi sem síðan beinist að honum alla söguna út í gegn.

Gestur getur ekki borið hönd yfir höfuð sér, hvað þá trúað konu sinni fyrir ofbeldinu – enda ráðskast hún reyndar einnig með hann. Gestur býr sér því til virki gegn vanmættinum sem hann finnur fyrir gagnvart öðru fólki með smásmugulegri rannsóknarvinnu sinni. Hann hleður margvíslegum gögnum taumlaust upp í kringum sig þangað til ytri óreiða tekur að renna saman við óreiðuna í huga hans. Loks er svo komið fyrir honum að eina undakomuleiðin sem hann finnur er í sérkennilegu „hugarfjósinu“ þar sem einungis er hægt að færa langsóttar og nokkuð sjálfhverfar fræðimannshugsanir hans – eða „skítinn“ – til, því ógerningur er að moka honum út.

*

Þessar fyrstu tvær fyrstu bækur Bergsveins eiga ýmislegt fleira sameiginlegt en hinn pólitíska undirtón, ekki síst hvað aðalsöguhetjurnar varðar. Halldór og Gestur hafa báðir alist upp í brotnum fjölskyldum, þeir hafa verið afskiptir og búið við ástleysi og einelti. Báða skortir sjálfstraust og þeim fylgir umkomuleysi í tilraunum þeirra til að fóta sig í lífinu. Trillukarlinn Halldór og menningarfræðingurinn Gestur kenna báðir þunglyndis og þótt þeim fyrrnefnda takist fyrir tilstilli ástarinnar að vinna sig frá myrkrinu sem sækir á hann, verður Gestur fullkominni brjálsemi að bráð. Aukapersónur í þessum sögum, svo sem presturinn í Landslag er aldrei asnalegt og móðir Gests í Handbók um hugarfar kúa, fara heldur ekki varhluta af geðrænum vanda – hann leggur líf þeirra beggja í rúst. Í báðum verkunum kemur fantasía við sögu í þessu samhengi; sem yfirnáttúrulegur kraftur í fyrri bókinni er verður sögupersónunni til bjargar, en sem táknmynd alvarlegrar geðröskunar í þeirri í síðari þar sem Gestur hörfar inn í sitt eigið glugga- og hurðarlausa „hugarfjós“.

En þótt skyldleiki sé óneitanlega fyrir hendi með þessum tveimur sögupersónum Bergsveins, er talsverður munur á umhverfi þeirra og aðstæðum í úrvinnslu höfundarins. Alþýðumaðurinn Halldór býr við hið opna haf og leitar andlegrar fróunar í víðáttum sjóndeildarhringsins og náttúrunnar, hvort heldur sem er á láði eða legi. Hann hefur ekki rekist í skóla vegna eineltisins, er náttúrbarn sem dreymir um að njóta ásta utandyra, og verður gjarnan ómótt af húsalykt eða hita innandyra. Gestur er andstæða hans að þessu leyti. Hann er skilgetið afkvæmi borgarastéttar samtímans, langskólagenginn en hefur með vali sínu á menntun gert uppreisn gegn uppalendum sínum sem vildu að hann fetaði í fótspor þeirra sjálfra og yrði lögfræðingur. Hann er dæmigert borgarbarn, innilokaður hvert sem hann fer innan þess ramma sem honum er markaður í sögunni, að undanskilinni opnunarsenunni.

Andstæðurnar eru því augljósar í þessum verkum Bergsveins, þar sem sjósóknin er sett fram sem heilbrigðari leið til að ala önn fyrir sér – og halda geðheilsunni. Halldór trillukarl framleiðir verðmæti, bæði í eiginlegum skilningi og óeiginlegum – í það minnsta hvað þjóðlegu áhersluna og arfleifðina varðar. Í tilviki Gests er fræðastörfum, eins og þeim er sinnt í samtímanum, hins vegar stillt upp sem holradda og sjálfhverfri rýni sem ekki hefur neitt nýtilegt fram að færa heldur býr einungis til nýjar tengingar úr því sem þegar hefur verið hugsað eða skapað. Þessi endurvinnsla fræðanna bítur þannig í skottið á sjálfri sér án þess að skapa nokkuð sem máli skiptir.

Óhætt er að segja að þessar tvær fyrstu skáldsögur Bergsveins séu því gagnrýnar á samtímann og verðmætamat samfélagins eins og það hefur þróast, auk þess að setja fram kreppu karlmennskunnar eins og hún birtist í samtímanum. Ákveðinnar fortíðarþrár gætir gagnvart hinu einfalda og fábrotna lífi fyrri tíðar þar sem afkoman byggðist á því að færa sér gæði náttúrunnar í nyt. Samtímanum og neikvæðum áhrifum efnishyggjunnar eru gerð ágæt skil, þar sem foreldrar bæði Halldórs og Gests eru fórnarlömb lífsgæðakapphlaups sem í hvorugu tilfellinu hefur fært fjölskyldum þeirra raunverulega hamingju. Gildir einu í því sambandi hvort um verkafólk er flutti á mölina er að ræða, eins og í tilfelli Halldórs, eða menntaða broddborgara eins og í tilfelli foreldra Gests.

Það er þó ástin – eða öllu heldur ástleysið – sem er sterkasta hreyfiaflið í uppvexti þeirra Halldórs og Gests. Í Handbók um hugarfar kúa segir ólánsmaður sem Gestur hittir í strætó: „Veistu, allir glæpir hefjast með því að einhver er ekki elskaður. Síðan er bara formsatriði hvernig glæpurinn þróast: Nauðgun, þjófnaður, barnaníðsla, heimilisofbeldi, eiturútbreiðsla, svall, græðgi, fíkn […] misnotkun valds, spilling, þunglyndi, kaldhæðni, vanræksla, kuldi, einangrun, sjálfsmorð. Já eða morð.“ (Bls. 148–9) Ástin er það sem verður Halldóri að lokum til bjargar. Gestur er ekki jafn lánsamur, barnsmóðir hans yfirgefur hann og samband hans við ástkonu er of nátengt þráhyggju hans og vænisýki til að slá á ógæfuna.

Ef til vill liggur því bara beint við að þriðja skáldsaga Bergsveins, Svar við bréfi Helgu, skuli í grunninn vera hrein og klár ástarsaga, að mestu án þeirrar beinu samfélagsgagnrýni sem finna má í fyrri bókum hans þótt í undirtóni þessa síðasta verks gæti enn sem fyrr ótta vegna afleiðingar þess rofs sem orðið hefur í tengslum manna við náttúruna.

*

Svar við bréfi Helgu gerist í ótilgreindri sveit á Íslandi, á tveimur sveitabæjum. Á öðrum þeirra, Kolkustöðum, býr Bjarni með konu sinni Unni, en á næsta bæ býr Helga, eiginkona Hallgríms og tveggja barna móðir. Sagan er sögð í endurliti Bjarna sem orðinn er aldraður og bíður „hreppaflutninga“ (bls. 8) skaparans. Hann rekur lífshlaup þeirra allra í bréfi sem hann stílar á Helgu, en það er eins og titill skáldsögunnar gefur til kynna svar við bréfi sem hún sendi honum endur fyrir löngu.

Form verksins markast af bréfinu, sagan á sér öll stað innan þess en fer reyndar stundum út um víðan völl. Bjarna hættir til að missa þráðinn, „[e]n ég missi hann af ástæðu, mér finnst vont að rifja þetta upp“ (bls. 20), segir hann. Reyndin er því sú að í hvert sinn sem sögumaður missir þráðinn dýpkar sagan. Útúrdúrarnir verða sem sagt til þess að bréfið segir ekki einungis af lífi þessara tveggja fjölskyldna Bjarna og Helgu heldur einnig af sveitinni allri og því hvernig sveitamenningu hefur reitt af allt fram á þennan dag. Bergsveinn hefur því augljóslega ekki misst áhugann á hinni öru samfélagsþróun sem átt hefur sér stað á Íslandi frá miðri síðustu öld, þótt hann komi þeim fróðleik á framfæri í gegnum einkar persónulega sögu að þessu sinni. Þvert á móti gerir hann góða grein fyrir menningu sem er á undanhaldi allan ytri tíma sögunnar er spannar nánast öll þau 90 ár sem Bjarni hefur lifað eða lungann úr 20. öldinni.

Það virðist óhjákvæmilegt að með þeim Bjarna og Helgu takist ástir, því bæði eiga þau maka sem brugðist hafa væntingum þeirra. Unnur, eiginkona Bjarna, er honum mjög afhuga. Hún er óbyrja eftir misheppnaða læknisaðgerð fyrir sunnan og ófær um að stunda ástarlíf – hvað þá ala honum erfingja að jörðinni. Hallgrímur, eiginmaður Helgu, vanrækir bæði fjölskyldu sína og bú með tíðum ferðalögum til að sinna öðrum hugðarefnum. Bjarna er ljúft að aðstoða Helgu við það sem henni er ofviða einni og neistinn á milli þeirra tveggja verður að báli í tíðum ferðum hans til að aðstoða hana við bústörfin. Ekki síst er hann kemur með hrúta á fengitíma og þuklar féð til að kanna holdafar þess. Svar Bjarna við bréfi Helgu rekur aðdragandann að ástarævintýrinu, hápunkt þess og endalok, auk þess að takast á við tilfinningalegt uppgjörið og eftirsjána sem að lokum felst í því að lifa án þess sem maður elskar og þráir allt lífið.

*

Bjarni er bóndi af guðs náð og einlægur áhugamaður um sauðfjárrækt. Hvað það varðar svipar honum til Bjarts í Sumarhúsum. Tröllatrú Bjarna á sauðkindinni og samsömun við landið í gegnum féð vísar vitaskuld í þá átt, þótt allt annar og betri bragur sé á búskap Bjarna en Bjarts. Bjarni hefur ákaflega holdlega heimssýn í samræmi við þetta meginhugðarefni sitt. Í huga Bjarna rennur landið saman við lifendur svo tæpast verður greint á milli. Staðarheiti og nöfn draga þennan samruna fram þar sem engu er líkara en að líkamar fólks og fénaðar holdgerist í umhverfinu: Barnasker, Blóðbrekka, Freyjuskjól og Lambeyrar eru til marks um það. Hver staður þjónar sínu hlutverki í samræmi við nafnið, mönnum rís til að mynda hold í Freyjuskjóli.

Í myndmáli verksins og tvíræðum lýsingum höfundar á sögusviðinu slær glettni á angurværan tón eftirsjárinnar sem Bjarni kennir svo mjög. Kímnin kemur blessunarlega í veg fyrir að yfirdrifin tilfinningasemi nái tökum á frásögninni. Sagan af því er Bjarni þuklar féð að Helgu ásjáandi í fjárhúsunum er óneitanlega skemmtileg, ekki síst er hann ratar loks að brjóstum Helgu og Bjarni segir hana „brúnslétta“ líkt og ærnar (bls. 35). Það að Bjarni skuli bæta við örnefnaflóruna í nágrenninu og skíra sinn uppáhaldsstað því lýsandi nafni Helguþúfur, með vísan í brjóst ástkonu sinnar, er dæmigert fyrir tengingu hans við landið, enda má vart á milli sjá hvort hann elskar meira konuna eða jörðina.

Út í gegnum allt verkið rennur fólk og fénaður saman í lýsingum sögumannsins, mörkin á milli Helgu, landsins og fjárins verða afar óljós og kvenlíkaminn rennur saman við náttúruna í víðum skilningi. Slíkt myndmál á sér langa sögu bæði í bókmenntum og heimspeki karla þar sem konum er iðulega gerð upp jarðtenging (líkt og plöntum) en karlmönnum jafnað við andann. Í verki Bergsveins er ástkona Bjarna hlutgerð með áþekkum hætti. Jafnvel þótt slíkar samlíkingar séu sveipaðar ómótstæðilegri léttúð frá hendi höfundar, ólíkt því sem verið hefur í aldanna rás, verður að gera ráð fyrir að hann sé meðvitaður um hætturnar sem í samlíkingunni felast í samtímanum. Bjarni segist til að mynda ekkert hafa séð í lífi sínu er jafnist á við Helgu nakta, „dettur einna helst í hug þegar Farmallinn kom […]“ (bls. 52). Það hvernig höfundurinn lætur Bjarna hlutgera konuna í maskínunni setur óhjákvæmilega tóninn fyrir verkið sem heild og litar þau samskipti kynjanna sem þar er fjallað um. Ekki síst þar sem höfundur stenst ekki mátið og lætur Bjarna taka samlíkinguna alla leið og segja: „Þú varst dásamleg dráttarvél“ (bls. 52). Þessi samlíking bóndans á ástkonunni við dráttarvélina er óneitanlega fyndin í því samhengi sem Bergsveinn skapar henni – þótt brandarinn sé reyndar gamall og flestum kunnur.

Bergsveinn lætur lesandanum það eftir að gera það upp við sig hvort þarna er um gráglettni að ræða í einskonar uppgjöri höfundarins við kvenfyrirlitningu þar sem gamall karl er málpípa úreltra gilda liðinna tíma, eða hvort hann sjálfur sem höfundur fellur í þá gildru í myndmáli sínu að hlutgera konur og einblína einungis á þær sem kynverur. Eftir stendur þó að þessu myndmáli er haldið til streitu verkið út í gegn. Það er ekki laust við að það verði að þrástefi sem þegar upp er staðið reynir óþarflega á þolrif lesenda. Í það minnsta þeirra sem hafa tamið sér að hafa kynjafræðileg sjónarmið í huga – jafnvel þótt kímnin slípi af því mesta broddinn.

Þá er það umhugsunarefni í þessu sambandi að Unnur, eiginkona Bjarna, skuli ekki eiga sér viðreisnar von innan samhengis sögunnar einungis vegna þess að hún getur ekki alið börn. Sem persóna er hún fremur einhliða frá höfundarins hendi og flest sem henni viðkemur í verkinu er í tengslum við ófrjósemi hennar. Höfundur lætur hana ítrekað kalla sig ónýtan „gelding“ og gengur svo langt að láta bændur í sveitinni nefna það við Bjarna hvort hann eigi í erfiðleikum með „að láta Unni halda“ (bls. 68) – rétt eins og um hverja aðra skepnu sé að ræða. Báðar konurnar, Unnur og Helga, eru því seldar undir þetta myndmál.

Þriðja konan sem fær heldur óvirðulega meðferð í þessu verki birtist í einum skemmtilegasta útúrdúr Bjarna, þar sem hann segir af svaðilför sem hann fór við annan mann til að ná í lík gamallar konu á bæ langt úr alfaraleið. Þeir sitja svo lengi yfir kaffi með karlinum eiginmanni hennar að þeir gleyma að lokum líkinu og komast ekki aftur til að sækja það fyrr en löngu síðar. Þá kemur í ljós að karlinn brá á það ráð að reykja konu sína í reykkofanum, til að líkið rotnaði ekki fyrr en hægt yrði að jarða. Þessi saga er náttúrulega bráðfyndin og gildir einu þótt þarna sé beinlínis búið að framleiða skinku úr kerlingunni. Tengingin við þá niðrandi ímynd sem kvenkyns „skinkur“ hafa í samtímanum er sem betur fer langsótt, því fyrir það fyrsta er „skinka“ Bergsveins orðin til fyrir tilstilli væntumþykjunnar en ekki illgirninnar. Þessi óborganlega saga verður því ekki fönguð í snörur pólitískrar rétthugsunar, jafnvel þótt ritunartími sögunnar sé samtíminn og að höfundurinn tilheyri honum.

Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að allar kvenpersónur, ekki síst þær Helga og Unnur, eru dregnar fremur einföldum dráttum í þessu verki Bergsveins – sérstaklega ef miðað er við Bjarna sjálfan sem er mun margræðari, dýpri og gjöfulli karakter. Frásagnarmátinn býður ekki upp á miklar lýsingar á innra lífi kvennanna og fyrir vikið verða báðar óþarflega grunnar. Persónusköpun þeirra mótast að mestu af ytri lýsingum, nánast einvörðungu líkamlegum í tilfelli Helgu en flestum tengdum hegðun hvað Unni varðar. Ekki síst er hún tekur æðisköst yfir ófrjósemi sinni, en þar örlar aftur á brjálseminni sem við þekkjum úr fyrri bókum Bergsveins. Þessum tveimur kvenpersónum er annars teflt fram sem dæmigerðum andstæðum og sem slíkar eru þær bæði smættaðar niður og eins staðlaðar og kvenpersónur hafa orðið í gegnum tíðina. Helga hefur áhuga á nýtísku fatnaði og lifnaðarháttum, en Unnur vinnur klæði, húsbúnað og það sem þarf til heimilis samkvæmt fornri handiðnaðarhefð bændastéttarinnar. Helga er frjósöm en Unnur ófrjósöm, Helga hverfur til borgarinnar en Unnur verður eftir í sveitinni. Helga er dæmigert tálkvendi því hún á frumkvæði að öllu á milli þeirra Bjarna en Unnur er dyggðug. Helga er gerandi en Unnur þolandi.

Þótt Bergsveinn líki hinu kvenlega við landslagið á jarðbundinn hátt, fellur hann hreint ekki í þá gildru að sjá einungis samsvaranir á milli kvenna og dýra í þessu verki sínu. Helga er að vísu með „kýraugu“ og holdafar sem hver ær gæti verið stolt af, en svo allrar sanngirni sé gætt líkir Bjarni sjálfum sér ekkert síður við hrútana en konunum við skepnurnar. Hann leggst meira að segja svo lágt að níðast á ársgamalli gimbur er girndin ber hann ofurliði. Þukl hans á henni minnir hann með ómótstæðilegum hætti á Helgu angandi af keytu á þeirra fyrsta ástarfundi. Á öðrum stundum þegar Bjarni getur ekki fundið ástríðum sínum útrás með Helgu sjálfri fróar hann sér í lækjum og lautum. Hann leggst niður í Helguþúfur, „með höfuðið á milli brjóstanna“ (bls. 28) og ímyndar sér að hann sé í faðmi hennar. Eins og hann orðar það sjálfur gerir hann „jörðina að kærustu“ sinni – oft og tíðum í bókstaflegum skilningi (bls. 80).

Þá er iðulega lítil reisn yfir Bjarna sem karlmanni, t.d. þegar hann keyrir heim frá Helgu á traktornum eftir þeirra fyrsta ástarfund „sluprugur um innanverð lærin“ (bls. 36), þegar hann lýsir sig reiðubúinn til að „sladda á“ (bls. 52) henni að nýju og sömuleiðis er hann nefnir í framjáhlaupi að hann hafi „skotið ref skítandi“ (bls. 81) – svo fátt eitt sé nefnt. Kómík og hálfkæringur vokir þannig yfir öllum lýsingum eins og til að taka aðeins kúfinn af ofhlæði og tilfinningahita hins hagmælta sögumanns. Allt er þetta athæfi bréfritarans og aðalsöguhetjunnar sem sagt ýkt, sem ýtir undir þá tilfinningu að höfundur sé meðvitaður um þær hættur er kunna að leynast í því kynjapólistíska samhengi er verkið óneitanlega kallar fram. Því það er eins og áður var bent á stundum stutt í óþægilegar tengingar úr samtímanum. Lítill munur er t.d. á konunni sem „dráttarvél“ og margfrægum myndlíkingum Gilzeneggers um konur, þótt þær verði ekki tíundaðar nánar hér.

*

Þegar Bjarni bóndi fer að nálgast samtímann og ellina í bréfi sínu, fer kjarni verksins að taka á sig mynd. Þarna hefst um leið fegursti þáttur þessarar stuttu bókar hvort heldur litið er til stíls eða efnistaka. En Bergsveini tekst víða verulega vel upp við að kalla fram hnitmiðaðar myndir á þessum síðum þar sem um er að ræða grundvöll verksins; þ.e.a.s. spurninguna um eðli ástarinnar eða kærleikans. Það er ljóst að Bjarna þótti ætíð vænt Unni eiginkonu sína þrátt fyrir þrána sem hann bar í brjósti til Helgu. Ástin til eiginkonunnar er þó eftir á að hyggja mótuð af þeirri staðreynd að viðhorf hennar til heimilishaldsins og hinnar þjóðlegu hefðar er mun líkara afstöðu Bjarna sjálfs en til að mynda lífsviðhorf Helgu.

Helga þráir það helst sem nútíminn hefur fram að færa, hún hefur tískuvitund sem kemur frá útlöndum og yfirgefur hina þjóðlegri arfleifð bændalífsins án eftirsjár og lætur reyna á möguleika sína í borginni. Bjarni treystir sér ekki til að yfirgefa land sitt og búskapinn, þótt Helga biðji hann um það. Meginástríðurnar í lífi hans fara ekki saman, því hefðbundið líf sauðfjárbóndans á allt fram undir það síðasta sterkari ítök í honum en ástin. „En viljinn til þín var í holdi mínu“ (bls. 69) segir Bjarni eigi að síður. Alla ævi hefur hann talið sig bundinn Helgu vegna ástríðu sinnar, ástríðu sem í hans augum var ekki jafn göfug og ástin á landinu. Hann áttar sig þó seint og um síðir á því að sá neisti ástríðunnar var ekkert síður en önnur ást „af góðri náttúru kveiktur“ (bls. 71).

Eins og Bjarni bendir á fékk Helga „ávöxtinn af okkar blossa“ (bls. 72), dótturina Huldu. En hún leynir faðerninu og Bjarni lítur á það sem drengskaparmál að gera ekki kröfu til barnsins, þar sem slík krafa myndi óhjákvæmilega kasta rýrð á mannorð Helgu. Jörðin sem Bjarni naut í stað Helgu og dótturinnar rennur því til systkinabarns. Þegar upp er staðið breytti það engu um þróun samfélagsins, um framþróun og uppbyggingu sveitanna til frambúðar, hvort Bjarni ræktaði sína jörð eður ei. Þótt honum hafi – öfugt við Bjart í Sumarhúsum – tekist að greiða sínar skuldir fyrir fimmtugt og lifa af varð framtíðarsýn hans undir. Landbúnaðurinn er í sögulok ekki lengur sú kjölfesta sem Bjarni trúði að hann gæti orðið, framtíðin er í borginni. Eigi að síður er engum blöðum um það að fletta að borgin hefði valdið Bjarna vonbrigðum líka, þar hefði „lífsmegnið fjarað út“ (bls. 69) eins og hann orðar það.

Sú niðurstaða sem Bjarni kemst að um kærleikann er nátengd því þegar Helga bað hann að fylgja sér. Þá kom hann að vegamótum í lífi sínu: „Vegslóðinn sem ég hafði gengið fram að því greindist nú í tvennt. Ég fór þá báða. Og hvorugan þó. Í þeim skilningi að ég gekk annan þeirra – en hafði huga minn allan hinum megin. Hjá þér.“ (Bls. 82.) Það er ekki fyrr en Bjarni kennir nálægðar dauðans að hann treystir sér til að viðurkenna að ástríðan fór líklega saman við kærleikann eftir allt saman – en þá er Helga látin fyrir löngu. Svar hans við bréfi hennar kemur því of seint þótt það sé bæði ítarlegt, einlægt og fallegt.

*

Í raun er Bjarni líkt og Bjartur forðum svo mikill gallagripur á tilfinningasviðinu að lesandinn á tiltölulega auðvelt með að skilja þvergirðingsháttinn, stoltið og trúmennskuna gagnvart jörðinni. Samúðin er af sama toga og með Bjarti sem að lokum hverfur í faðm heiðarinnar til að heyja dauðastríðið með Ástu Sóllilju. Söguhetja Bergsveins býr þó ekki yfir slíkri reisn sem sést m.a. í því að í Svari við bréfi Helgu er það til að mynda ekki eiginkonan í verkinu sem drepur rollu til að halda lífi og hefna sín líkt og í Sjálfstæðu fólki, heldur hann sjálfur, sauðfjárunnandinn. Og ástæðan er í hans tilfelli skömm yfir að hafa níðst á henni fremur en lífsnauðsyn. Bjarni er bæði lítilmótlegur og kómískur á því augnabliki er hann drepur saklaust dýrið einungis af því hann getur ekki horfst í augu við það sem hann hefur sjálfur gert. Samvörunin við aðra sem ást hans og/eða losti hefur beinst að er augljós. Bjarna hefur ekki tekist að gera neinni þeirra þriggja kvenna er hann elskar nokkuð gott. Unni hefur hann svikið og gert að óhamingjusamri nöldurkerlingu, Helgu sveik hann líka með vali sínu og veit eftir það lítið um hvernig henni raunverulega reiðir af. Huldu dóttur sína hefur hann ekki stutt með nokkrum hætti, hún var alfarið á forræði móður sinnar sem sá ein um að koma henni til mennta í borginni.

Karlhetjur Bergsveins Birgissonar, þeir Halldór, Gestur og Bjarni, eiga það allir sameiginlegt að vera óvenjulega veiklyndir karlar, einskonar andhetjur. Þeir eru forvitnilegir út frá sjónarmiði karlmennskunnar, ekki síst vegna þess hve mjög þeir eru allir bundnir karlmannlegu atgervi – í sjávarútvegi, menntun og landbúnaði – sem samkvæmt venju ætti að duga til að færa þeim vald yfir eigin lífi. Það gerist þó ekki heldur standa þeir allir berskjaldaðir sem fórnarlömb átakamikils tilfinningalífs. Þessar söguhetjur eru eiginlega sprottnar úr „glufum“ þeim á sálarhurðum er almættið hefur smíðað mannfólkinu og Bjarni vísar til í upphafi bréfs síns. Hann finnur sig knúinn til þessa uppgjörs á lífi sínu af þeim sökum að „… allir eiga sér hurð. Og allir menn vilja hleypa sínum innri manni út um dyrnar. Og hurðin mín – það er gamla hurðin á fjárhúsunum hans pabba heitins hvar sólskinið kemur inn um sprungurnar, langt og mjótt á milli gisinna plankanna.“ Hann finnur dauðann nálgast, veit að hurðin hans „megnar ekki lengur að halda því innra aðskildu frá því ytra“ (bls. 8). Hið andlega, ástin eða kærleikurinn í formi ljóssins, hefur orðið hurðinni, eða því efnislega, yfirsterkara. Frammi fyrir dauðanum finnst Bjarna hann hafa valið rangt, en hann veit líka að hann er ekki fullkominn fremur en himnasmiðurinn. „Og kannski er það einmitt það góða við smiðinn – að hann er ekki fullkominn? Að það eru glufur og sprungur í verki hans sem hleypa sólskininu og lífinu í gegn.“ (Bls. 8.) Bjarna hefur sem sagt á langri ævi loks lærst að horfast í augu við ófullkomleika sinn – hann skilur að það er ekki hægt að endurskrifa líf sitt, einungis sætta sig við það.

Svar við bréfi Helgu er fyllri og hnitmiðaðri og betur mótuð en þær tvær bækur Bergsveins sem á undan komu. Hún felur jafnframt í sér stærri sannleika um mannlegt eðli þrátt fyrir að vera smá í sniðum. Þrátt fyrir gamaldags yfirbragð fylgir hressandi nýbreytni karlhetjum Bergsveins. Nýnæmið er ekki síst fyrir tilstilli sögusviðsins sem hann skapar þeim, ásamt óvenjulega djúpum skilningi á hefðum og fortíð sem Íslendingar hafa ef til vill ekki kært sig um að kljást of mikið við á undanförnum árum.

 

Fríða Björk Ingvarsdóttir