AprilsólarkuldiElísabet Jökulsdóttir. Aprílsólarkuldi.

JPV útgáfa, 2020. 143 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2021

 

Þótt Elísabet Jökulsdóttir sé oft bráðfyndin í verkum sínum er hún öðrum þræði tregans höfundur. Hún er höfundur sem „skrifar sig frá“ erfiðum tilfinningum og óþægilegum minningum. Hún hefur syrgt móður sína (Dauðinn í veiðafæraskúrnum, 2017 og Hvaða ferðalag er á þér? 2019), ófætt barnabarn (Lítil sál sem aldrei komst til jarðar, 2018) og erfið ástarsambönd (Heilræði lásasmiðsins, 2007 og Enginn dans við Ufsaklett, 2014). Umfram allt hefur hún þó syrgt föður sinn, sem má heita sínálægur í öllu hennar höfundarverki, og um hann fjallar hún einnig í Aprílsólarkulda.

 

Aðferðir skáldskaparins

Aprílsólarkuldi er nóvella eða stutt skáldsaga, 143 síður. Hún skiptist í þrjá kafla og hefst þegar söguhetjan Védís er um tvítugt. Vinnuna við að kynna söguna með hnitmiðuðum útdrætti hefur höfundurinn sjálfur séð um því strax á fyrstu síðu segir:

Þessi saga er um unga stúlku á norðurhveli jarðar sem missir pabba sinn og atburðina í kjölfarið þess. Hún veikist á geði því hún getur ekki sýnt nein sorgarviðbrögð. Hún verður ástfangin eftir dauða föðurins og kynnist dópi í leiðinni. Þegar kærastinn fer frá henni sýnir hún heldur engin sorgarviðbrögð, geðveikin nær tökum á henni því hún hefur fengið áfall ofaní áfall, fyrst misst föðurinn, svo kærastann, – sjúkdómur hennar er sennilega meðfæddur en brýst nú fram, – og hver veit hvort það að hún stendur á þröskuldi fullorðinsáranna hefur sín áhrif, hún vill ekki fara með barnið inní fullorðinsárin því fyrst þarf að næra og hugga barnið, bernskuna. En nú hefst sagan. (7)

Hér fer höfundurinn yfir söguna á hundavaði með skýringum rassvasasálfræðinnar og töluverðum einföldunum, en það getum við bókmenntafræðingar víst ekki gagnrýnt, því þrátt fyrir að sagan sé skrifuð í þriðju persónu og segi frá Védísi, þá búa þær Védís og höfundurinn að sameiginlegri lífsreynslu.

Í viðtölum hefur Elísabet Jökulsdóttir sagt að hún hafi ákveðið að „nota aðferðir  skáldskaparins“ á þessa frásögn og finna persónum sínum nafn, ekki skrifa í  fyrstu persónu eintölu. Ef hún hefði ekki dottið niður á þessa aðferð hefði sagan orðið „þúsund blaðsíðna doðrantur“. Þegar hún hafi sett upp ákveðin gleraugu hafi hún séð hlutina í öðru ljósi og það hjálpað til við skriftirnar.

Höfundurinn er þó sínálægur í Aprílsólarkulda og stekkur stöku sinnum fram til þess að minna sjálfan sig á að ekki tjói að fara um víðan völl í frásögninni, því söguefnið og sögutíminn er skýrt afmarkað (enginn vill þúsund blaðsíðna doðrant, er það?), líkt og þegar talað hefur verið um forfeður Védísar á nokkrum síðum og samband hennar við afa og ömmur í æsku: „… en þessi saga er ekki um barnæskuna, hún er bara um tímabilið apríl 1978 til september 1979.“ (49) Og: „Hún botnaði ekkert í því fyrr en löngu eftir að þessari sögu lýkur hversvegna hún var frekar höfð norður á Ströndum en í Kristjaníu.“ (37)

Frekari dæmi um „afskipti höfundar af textanum“ (ef svo undarlega má að orði komast) má finna þar sem Elísabet stígur fram til að dást að Védísi: „Þegar ég skrifa þessi orð skil ég ekki í hugrekki hennar. Það þarf ótrúlegan kjark til að bráðna, til að láta undan afli tilfinninganna, þegar maður hefur lært það frá vöggu að bæla þær, troða þeim niður, salta þær, frysta þær, fyrir alla muni finna þær ekki, því ekkert er eins hættulegt og tilfinningar.“ (39)

Það sem hinn afskiptasami höfundur lét ógert á fyrstu síðum bókar sinnar er að skipta köflunum eftir efni. Úr því skal bætt umsvifalaust fyrir lesendur Tímarits Máls og menningar.

Í fyrsta kaflanum segir af því þegar Védís fregnar andlát föður síns. Hún er stödd í smábæ úti á landi, ein með ungan son sinn, og verður fyrir miklu áfalli.

Í öðrum kaflanum verður Védís ástfangin og þau kærastinn elskast af offorsi, auk þess sem þau stunda grasreykingar og á þeim er gríðarlegt partístand.

Í þriðja kaflanum er kærastinn farinn úr landi og örvænting Védísar leiðir hana til alvarlegrar þráhyggju og áráttuhegðunar. Hún ráfar um borgina í leit að táknum og merkingu en missir tökin og er að lokum svipt sjálfræði og færð á Kleppsspítala.

 

Faðirinn, ástsýkin, geðveikin

Védís lýsir föður sínum sem gölluðum manni sem ýmist setti ofan í við hana eða hunsaði, jafnvel markvisst, á meðan hann var á lífi. Engu að síður leitaði hún stöðugt ástar hans og athygli og ótímabær dauði hans var henni mikið áfall. Áfall sem hún jafnar sig ekki svo auðveldlega á: „En einsog hún hafði verið föst í að eiga þennan ómögulega pabba festist hún nú í þessum ómögulega dauða.“ (14)

Védís finnur að hún getur ekki grátið, hún getur ekki syrgt föður sinn. Þegar hann er jarðaður stendur hún við gröfina og það er aprílsólarkuldi. Kuldinn er táknrænn fyrir tilfinningar Védísar, sem eru líkt og frosnar.

En á þessari stundu á grafarbarminum varð hún brjáluð af reiði út í hann, yfirkomin af sorg og að bugast af þrá eftir því að vera í návist hans en hún fann ekkert af þessu. Ekkert, allsekkert. (24)

Söguhetja okkar kemst að því að líkt sé komið á með henni og systkinum hennar og móður. Að þau kunni ekki að syrgja föðurinn vegna þess að í raun sé svo langt síðan þau hafi misst hann.

Þessi maður hafði ekkert gefið þessari fjölskyldu sinni nema það að vera langþráð takmark í fjarska og heilt búnt af óuppfylltum væntingum og sólin snerist í kringum hann uppá stallinum, þar sem þau höfðu komið honum fyrir, vegna hans eigin kröfu og þau elskuðu hann öll og biðu eftir því að hann myndi breytast. Þá myndi allt annað breytast. (25).

Og Védís finnur að hún gengur ekki lengur í takt við veröldina í kringum sig. Sú tilfinning heltekur hana að heimurinn sé ekki eins og hann eigi að vera – að hún sé á vitlausum stað og vitlausum tíma.

Í taugaáfallinu yfir andláti pabba hrundi heimurinn og hún ýtti honum aftur upp á himinhvolfið með því að gráta ekki. Ekkert af þessu passaði auðvitað, svo nú var hún komin á ská við heiminn. (30)

Védís upplifir sig ekki lengur sem hluta af þjóð sinni eða samborgurum og finnur það t.a.m. þegar hún gengur niður Laugaveginn sautjánda júní og lendir í skrúðgöngu. „Hún fann að hún tilheyrði ekki þessari skrúðgöngu. Þarna var þjóðin á gangi.“ (35)

Þegar Védís verður ástfangin sumarið eftir lát föður síns líður henni eins og hún hafi vaknað af þúsund ára löngum svefni. Eins og hún „verði til“. Hún stendur ekki lengur utan við heiminn eða á ská. „Hún var ástfangin af heiminum, hún var inní heiminum. Hún fann alltíeinu fyrir sér.“ (41) Um svipað leyti uppgötvar hún að bælingin, vanlíðanin og sú tilfinning að hún eigi ekki afturkvæmt af jaðrinum hverfur líka ef hún drekkur áfengi eða neytir annarra vímuefna. Hún á afar erfitt með að tjá sig og kemur varla upp orði þegar hún er allsgáð:

Hugsanir hennar sátu hnípnar og skjálfandi á hyldýpisbarminum og gátu ekki breyst í orð. Svo bættust alltaf fleiri og fleiri hugsanir við, allar vængstýfðar, þangað til hún var komin inní óminnisheim vímunnar. Þá leystist allt úr læðingi, hugsanirnar flögruðu með látum hver um aðra þvera og streymdu úr henni, eins og fljót sem streymir yfir bakka sína, yfir tún og skóga. (57)

Eina vímaða nótt hittir hún Kjartan og ást þeirra verður strax æði ofsafengin og yfirþyrmandi, nánast stjórnlaus. Unga parið hefur hvorki tíma til þess að vera í vinnu né skóla vegna þess að það þarf að elskast allar nætur og vera í sleik alla daga. „Þau voru svo upptekin af því að elska hvort annað að þau máttu ekki vera að því að læra kennitölurnar sínar.“ (56)

Yfirþyrmandi ást höfum við áður séð í bókum Elísabetar Jökulsdóttur. Ástina sem nærist á höfnun. Ástina sem kann sig ekki. Ástina sem verður geðveikisleg. Heilræði lásasmiðsins fjallar um strítt ástarsamband við hattagerðarmann frá Bandaríkjunum, Enginn dans við Ufsaklett um ofbeldissamband við íslenskan sjómann. Tryllingurinn í þessum samböndum er beint og óbeint rakinn til sorgarinnar vegna föðurins, eða eins og segir í Engum dansi við Ufsaklett: „Sorgin er einsog óværa. Og ég vil ekki losna við sorgina því þá ætti ég engan pabba. Sorgin er staðgengill pabba míns.“ (46)

„Ástin hefur gert mig geðveika,“ segir hún í upphafi þeirrar bókar og það þarf ekki að vera mjög spámannlega vaxinn til þess að sjá að ástarsambandið í Aprílsólarkulda á eftir að enda með ósköpum:

Þú elskar mig ekki nema þú hugsir stanslaust um mig. Ég elska þig í tánum. Þú elskar mig ekki nema þú stelir geirfuglinum af Náttúrugripasafninu, þú elskar mig ekki nema þú farir út á húsþak í fljúgandi hálku, þú elskar mig ekki ef þú ferð á sjóinn, þú elskar mig ekki ef þú horfir á annað fólk, þú elskar mig ekki ef þú getur ekki fyrirgefið mér að ég skuli hafa haldið framhjá, ég var bara fullur, þú elskar mig ekki ef þú ferð frá mér, það er bannað að fara frá mér, ekki fara frá mér, þú elskar mig ekki ef þú ferð eitthvað með vinum þínum og skilur mig eina eftir. Ást okkar er heilög. Við erum fyrsta fólkið sem elskar í heiminum. (67)

Það kemur að því að kærastinn fer. Fyrst á sjóinn og síðan til útlanda. Og þá tekur geðveikin við.

 

Að hverfa lengra og lengra inní sig

Elísabet Jökulsdóttir byrjaði snemma að fást við nokkur þemu eða stef sem síðan birtast endurtekið í verkum hennar. Innilokunin er eitt þeirra. Hún er lokuð inni í herbergjum, lokuð inni í fólki, lokuð inni í sjálfri sér. Í fyrstu bók höfundar, Dansi í lokuðu herbergi (1989), er ljóð um barn sem lokaðist inni, „því litla barnið varð svo óskaplega hrætt“ (10) og það skapast „hrikaleg ringulreið“ þótt litla barnið ætti að heita fullorðið.

Heilræði lásasmiðsins er ákaflega bersögul bók, sem greinir frá ástarsambandi Elísabetar við æði sérstakan hattagerðarmann. Þar koma skýrt í ljós erfiðleikar hennar við að setja mörk og hemja sig í tilfinningasamböndum og hvernig hún bókstaflega týnir sér í þeim sem hún elskar. Hún tengir líka markaleysið þrá sinni eftir föðurnum sem hún missti og segir í Lásasmiðnum: „Þetta kvöld varð sársaukinn líkamlegur, ég lagðist í rúmið og fór að gráta yfir dauða föður míns. Ég skal aldrei fyrirgefa þér að hafa dáið, sagði ég, þú læstir mig inni og hentir lyklinum.“ (23)

Þessi innilokun kallast að sumu leyti á við hina áþreifanlegu innilokun sem Aprílsólarkuldi endar á. Hún er til dæmis nefnd í Engum dansi við Ufsaklett: „ég er bara alein inní herbergi / og það er ekkert á veggjunum / og þá man ég loksins hvaða herbergi / þetta er herbergið 17. september / 1979 á Kleppsspítala.“ Það er engu líkara en sú innilokun ferðist um tíma og rúm í höfundarverki Elísabetar.

Í Aprílsólarkulda reynir Védís að skilja tilveruna og fólkið í kringum sig. Hún fær sér vinnu á Kleppsspítala þegar kærastinn fer á sjóinn og henni líkar starfið vel. „Hún var ein heima með litla stráknum sínum sem fór svo aftur um vorið í sveitina til afa og ömmu, sveitina þar sem tíminn var ekki til. Lífið var eins og það átti að vera.“ (81) Þegar kærastinn kemur heim reynir hún að setja honum mörk, segist ekki vilja partístandið lengur, en hann vill ekki gera neinar breytingar. „Svo hún fékk sér í pípu og í glas og smámsaman ruglaðist allt. Það endaði með því að hún fór og sagði upp í vinnunni. Hún hætti í vinnunni en byrjaði í partýunum.“ (82)

Því er lýst hvernig partíið dregst á langinn og tíminn rennur hjá. „Hún var að hverfa lengra og lengra inní sig.“ (85) Þegar kærastinn ákveður að fara til Noregs hrynur heimurinn: „Þetta var ekki til neins, allt var ruglað, allt var tómt, svo óendanlega tómt og ekki til neins.“ (87)

Í stjórnleysinu, sorginni og óörygginu, hefst þeysireið söguhetjunnar um Reykjavík. Ástin og geðveikin renna saman í huga hennar. „Védís fann að hún var knúin áfram af óskaplegu afli, það var kraftur sem var skyldur ástinni.“ (121) Hún þjáist af stöðugum höfuðverkjum og til þess að létta á þeim eigrar hún um borgina og leitar að táknum og skilaboðum. Ef hún fer í rétta átt, þá hverfa verkirnir. Dagana langa skynjar hún táknin, les skilaboðin úr umhverfinu og fylgir þeim í blindni. Hún ljáir tölum og númerum sérstaka merkingu, les heilræði úr mannanöfnum, bílnúmerum og nöfnum gatna sem hún gengur stöðugt og tryllingurinn eykst:

Svo var hún alltíeinu komin niðrá Laugaveg.

Það var örugglega rétti staðurinn, hún þurfti hreinsun.

Hún þurfti laug, tilað lauga sig í, tilað hreinsast alveg í gegn. Þetta voru örugglega réttu skilaboðin. Vatnið varð að streyma gegnum hana. Hún kom auga á einhverja sem hún kannaðist við en þegar þeir reyndu að ávarpa hana gat hún ekkert sagt og kom ekki upp orði, því hún mátti heldur ekkert segja, hún varð að finna út úr þessu, áðuren hún ljóstraði nokkru upp um leyndarmálið. Hún varð að flýta sér heim og fara í bað, hún varð að fara í eitthvað sérstakt bað, kannski Snorralaug, átti hún að fara uppí Borgarfjörð og lauga sig í Snorralaug? (92–93)

Geðveikin hefur náð yfirhöndinni, en í huga Védísar er hún einmitt að gera það sem nauðsynlegt er og hið rétta í stöðunni. Staðfestingu á því hvernig er komið fyrir henni fá lesendur í viðbrögðum fólksins sem hún hittir og umgengst. Það fylgist með henni skilningsvana; leigubílstjórar hafa áhyggjur, vinir hennar og fjölskylda vita ekki sitt rjúkandi ráð. Þegar Védís fer í heimsókn til móður sinnar kemur í ljós að hún unir sér ekki hvíldar, þrífur sig hvorki né matast og móðirin hefur þungar áhyggjur af geðheilsu hennar. Samræður þeirra mæðgna minna einna helst á leikverk eftir ónefnt íslenskt leikritaskáld:

– Þú vilt bara ekkert skilja.

– Það er nefnilega það.

– Þú verður að hlusta á mig.

– Varstu ekki að segja að ég skildi þig ekki.

– Mig langar svo mikið tilað þú skiljir mig.

– Ætli ég eigi ekki ansi langt í land með það.

– Langt í land?

– Langt í land, já.

– Sagðirðu langt í land … afhverju sagðirðu langt í land?

– Ég sagði bara svona.

– Maður segir ekkert svona … langt í land … kannski á ég langt í land.

– Védís.

– Ég verð að fara.

– Fara hvert?

– Ég veit það ekki. Mér er stýrt. Ég má ekki tala um þetta.

– Þú ert veik.

– Þó það líti þannig út þá er ég nefnilega allsekki veik heldur þvert á móti. En þér gæti sýnst ég vera veik en … ég má ekki segja meira. (126– 127)

Þessi lýsing á því hvernig manneskja veikist af alvarlegum geðsjúkdómi á sér enga hliðstæðu í íslenskum bókmenntum. Lesandinn fylgist skelfingu lostinn með þeysireið Védísar um Reykjavík og sjúklegum hugmyndum hennar – og kennir óskaplega í brjósti um hana. Textinn er ljóðrænn og á stundum skringilegur, harmrænn og fyndinn í senn. Til þess að lýsa honum mætti jafnvel sækja í smiðju Elísabetar sjálfrar og tala um töfra og galdur.

Oftsinnis hefur í fyrri bókum höfundar verið ýjað að atburðunum sem leiða til „hinnar eiginlegu“ innilokunar Védísar (ekki tilfinningarinnar um innilokun, sem við sjáum víða stað í verkunum), en í þessari sögu fáum við af þeim skýra og áþreifanlega mynd. Aprílsólarkuldi er því afar mikilvægur biti í það púsluspil sem er höfundarverk Elísabetar Jökulsdóttur.

 

Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir