Gyrðir Elíasson. Suðurglugginn.

Uppheimar, 2012.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2013

SuðurglugginnÁrið 2012 sendi Gyrðir Elíasson frá sér tvær bækur; á vordögum kom ljóðabókin Hér vex enginn sítrónuviður og um haustið skáldsagan Suðurglugginn sem hér verður í forgrunni. Hvað sem ólíku formi og framsetningu líður er skyldleiki þessara bóka augljós þegar litið er á umfjöllunarefnin, ekki síst hvað varðar pólitíska afstöðu verkanna eins og vikið verður að hér á eftir. Að auki er Suðurglugginn nátengdur öðrum nýlegum verkum Gyrðis, en í því sambandi er rétt að nefna sérstaklega skáldsöguna Sandárbókina frá 2007 sem er nokkurskonar systurbók Suðurgluggans.

Báðar fjalla bækurnar um listamenn, Sandárbókin um listmálara en Suðurglugginn um rithöfund. Þeir dvelja langdvölum á fremur afskekktum stöðum á Íslandi í sjálfskipaðri útlegð frá heimilum sínum í borginni en einnig sínum nánustu sem þeir hafa harla takmörkuð samskipti við. Öðrum þræði fjalla þessar tvær bækur um glímu listamannanna við það að skapa listaverk og við sköpunarferlið sjálft. Þessi glíma er undirstrikuð snemma í Suðurglugganum: „Skáldsögur eru myllusteinn um háls höfundarins“ [1] og í Sandárbókinni kemur snemma fram eitthvað svipað: „Ég hef að vísu ekki verið ötull við að mála eftir að ég fékk þessa vinnustofu, en ég tel mér trú um að það standi til bóta.“ [2]

Suðurglugginn skiptist í fjóra hluta eftir árstíðum, hefst að vori og lýkur um hávetur. Rithöfundurinn, sem jafnframt er sögumaður verksins, dvelur í sumarbústað í eigu vinar síns sem býr í Þýskalandi en heimsækir Ísland sjaldan. Bústaðurinn er staðsettur í sumarbústaðahverfi við sjávarsíðuna, væntanlega á Snæfellsnesi, þar sem þó má finna lítið kaffihús sem er opið yfir sumarmánuðina. Þorp í grennd við sumarbústaðabyggðina kemur einnig nokkuð við sögu enda sækir rithöfundurinn þangað vistir og á lítillega í samskiptum við nokkra þorpsbúa. Í sumarbústaðnum fæst hann við að skrifa skáldsögu um par sem á í erfiðleikum í sambandinu en sækist verkið seint. Ýmislegt í fari mannsins sýnir að hann á erfitt með samskipti við annað fólk og skiptir þá engu hvort um er að ræða ókunnuga nágranna hans, systur hans og móður, vininn sem á húsið eða konuna sem hann er ekki lengur í sambandi við en virðist skipta hann öllu máli.

Í grófum dráttum má segja að viðfangsefni Suðurgluggans séu þrjú og raunar mætti heimfæra þessi þrjú viðfangsefni að nokkru eða öllu leyti upp á nokkur nýleg verk Gyrðis. Þessi þrjú efni tengjast öll og hafa víxlverkandi áhrif hvert á annað. Í fyrsta lagi er fengist við einsemd og þunglyndi – efni sem lesendur Gyrðis þekkja m.a. úr Sandárbókinni. Nátengt þessu er annað viðfangsefnið sem er glíma listamanns við sköpunarferli í einsemd. Þriðja viðfangsefnið er svo nokkuð sem hefur orðið æ fyrirferðarmeira í höfundarverki Gyrðis hin síðari ár. En það er sú einarða pólitíska afstaða sem lesa má úr verkunum og lýtur að náttúru- og dýravernd, andúð á stríðsrekstri og gagnrýni á gegndarlausa peningahyggju samtímans. Um þessa pólitísku þræði gildir það sama og meginviðfangsefnin, þeir spinnast saman.

Pólitískir þræðir

Í grein um Sandárbókina, sem birtist í nýlegu greinasafni um verk Gyrðis, víkur Hermann Stefánsson rithöfundur að því hve pólitískt verk Sandárbókin er:

Því er stundum haldið fram að bókmenntaverk sem snúa með einhverjum hætti baki við samtíma sínum hljóti eðli málsins samkvæmt að vera ósamfélagsleg eða hlutlaus gagnvart samtímanum, að þau takist ekki á við hann. Ekkert gæti verið fjær sanni. Það er ekki til sterkari eða beinskeyttari yfirlýsing um samtímann en að snúa við honum baki. Sandárbókin er einhver mest afgerandi pólitíska yfirlýsing sem kom út á tímum góðærisins. [3]

Pólitísk afstaða Suðurgluggans felst einnig í því að snúa baki við samtímanum en hiklaust má segja að hún sé enn meira afgerandi en svo því í henni er mun beinskeyttari umræða um knýjandi pólitísk viðfangsefni samtímans.

Sögumaðurinn í Suðurglugganum hefur eins og fyrr segir lokað sig nokkurnveginn af frá umheiminum fyrir utan stopul samskipti við nágranna og fólk í þorpinu og fáein símtöl við vini og ættingja. Útvarpstækið er helsta tenging hans við líðandi stund og tímasetur söguna nokkuð nákvæmlega með þeim atburðum sem það ber manninum til eyrna: „Bin Laden er dauður. Forseti Bandaríkjanna, friðarverðlaunahafinn, hefur tilkynnt þetta stoltur“ (bls. 50). Raunar má segja að manninum berist stöðugt váleg tíðindi í gegnum útvarpstækið og þau draga úr honum allan mátt, ekki síður en „myllusteinninn“, þ.e.a.s. skáldsagan, sem hann fæst við að skrifa:

Helstu tengsl mín við umheiminn liggja í gegnum útvarpstækið. Þar logar öll veröldin í aftökum, umhverfisslysum, spillingu og gegndarlausri peningahyggju. Jafnvel óvenjulega bjartsýnn maður gæti kiknað undan fréttaflutningnum. Traustvekjandi raddir þulanna gera þetta allt þungvægara, svo maður gefur heiminum varla nema nokkra daga þegar mest er um að vera (bls. 21).

Í gegnum viðbrögð mannsins við þessum sífelldu válegu tíðindum má greina bæði sársauka og uppgjöf. Viðbrögð hans eru þau sömu og hann sýnir þegar skáldsagan er annars vegar: hann flýr. Hann slekkur á útvarpinu rétt eins og hann setur lokið á ritvélina.

Þögn og flótti eru trúlega viðbrögð okkar flestra við þeirri síbylju hörmunga og voðaverka sem dynja á okkur í gegnum fjölmiðla. Við hlustum, eða hlustum kannski ekki, á innihald fréttanna sem færa okkur tíðindin á meðan við stöppum kartöflurnar saman við soðna ýsu. Það sem greinir sögumanninn frá okkur flestum er það að hann tekur þessa atburði raunverulega inn á sig: „Ég slekk á útvarpinu, en það er of seint, skaðinn er skeður“ (bls. 18). Hin kröftuga pólitíska afstaða verksins felst í því að brugðið er upp spegli að andliti lesandans og þá blasa við annarsvegar vanabundin viðbrögð okkar að láta váleg tíðindi fara inn um annað eyrað og út um hitt yfir kvöldmatnum og hinsvegar sársaukinn sem þau valda sögumanninum. Verkið gefur okkur tilefni til að líta í eigin barm og endurskoða viðbragðaleysi okkar við fréttum sem við neytum smjattandi með kvöldmatnum.

Sögumaður Suðurgluggans er á margvíslegan hátt andsnúinn nútímanum, hraðanum og peningahyggjunni sem einkenna hann, rétt eins og sögumaður Sandárbókarinnar. Þetta birtist m.a. í því að hann heldur fast í þá fornfálegu aðferð að skrifa verk sín á gamla Olivetti ritvél. Hörðust er þó andstaða hans við peningahyggju nútímans í tengslum við stríðsátök: „Fréttirnar frá Sýrlandi fara langt með að klára alla lífstrú af tankinum. Eiginlega eru bara nokkrir dropar eftir af henni. Maðurinn gengur ekki fyrir olíu, hvað sem Bandaríkjamenn halda“ (bls. 25).

Meðferð mannfólksins á dýrum er einnig snar þáttur í pólitískri afstöðu verksins. Sögumanni Suðurgluggans er umhugað um dýr og hann hryllir við meðferð mannskepnunnar á þeim. Þetta á ekki síst við um sauðfé sem er einatt í nánasta umhverfi manna í íslenskum sveitum. Bókin spannar allar fjórar árstíðirnar og þar af leiðandi sláturtíðina að hausti. Hann sér sauðfé í flutningabíl á leið í sláturhúsið í þorpinu og finnur til djúprar samúðar með fénu: „Milli rimlanna aftan á [vörubílnum] sé ég glitta í döpur augu […] Ég set í gír og mjakast á eftir, vík mér undan að horfast í augu við skepnurnar sem híma aftan á pallinum […] Ég veit hvert þær eru að fara og ég sé á augnaráði þeirra að þær vita það líka“ (bls. 89). Að sláturtíðinni lokinni kemur hann í verslun þorpsins, í kjötborðinu er „heill valköstur af dýrum sem nutu lífsins í móanum fyrir nokkrum vikum. Hver hefur gefið okkur leyfi til að deyða þau öll?“ (bls. 114–15)

Hér að framan minntist ég á að hinir pólitísku þræðir sem rekja má í Suðurglugganum komi einnig fram í ljóðabókinni Hér vex enginn sítrónuviður. Í ljóðinu „Auga fyrir auga“ má í raun greina alla þá þrjá pólitísku þætti sem minnst var á hér að framan, þ.e. stríðsrekstur, peningahyggju og dýra- og náttúruvernd:

Maðurinn er grimmastur tegunda

Á haustin rekum við kindur sem
hafa notið sumarsins við hlið
okkar í sláturhús

Hreinkýr eru myrtar frá kálfum
sínum á fjöllum, af vel mettum
athafnamönnum, sem eftir á
gorta af drápinu í blöðunum

Slátrarinn klappar barni sínu
á kollinn að kvöldi, og
morguninn eftir fer hann
og drepur lambið sem
nötrar af ótta í stíunni

Fiskar fá ekki að synda upp
í árnar án þess að vera
kvaldir á önglum, og
margir virðast halda að
fiskar séu aðeins til
svo hægt sé að
pína þá með stöng (verstir
allra eru veiðimenn
sem „sleppa“ í nafni
falskrar mannúðar)

Fuglarnir sem fljúga
um loftið, yfirleitt í
mesta sakleysi, eru
felldir á miðju flugi
og hirtir upp í blóði
sínu, með brostinn
himin í augum

Og eins og þetta sé ekki
nóg, grisjum við jafnt
og þétt okkar
eigin tegund

(fullyrðingin í upphafi endurtekin) [4]

Rithöfundur án lesenda

Eitt áhugaverðasta viðfangsefni Suðurgluggans, sem ekki hefur verið minnst á hér, felst í margháttaðri umræðu um sjálfan skáldskapinn og sköpunarferlið. Þetta birtist ekki síst í viðfangsefni rithöfundarins, þ.e. skáldsögunni, eða myllusteininum, sem hann rogast með:

Það sem ég skrifa er saga um par sem fer á fjallahótel í útlöndum til að hressa upp á sambandið. Það gengur ekki vel að skrifa hana. Parið er einsog pappafígúrurnar sem amma klippti út fyrir mig þegar ég var lítill og ég lék mér að. Munurinn er sá að þær gæddi ég lífi með ímyndunaraflinu, en nú tekst það ekki. Fólkið liggur dauðalegt í hótelrúminu, sem er líka úr pappa (bls. 10).

Hér birtist afar áhugaverð hlið á fyrirferðarmikilli umræðu verksins um sköpunarferlið, þ.e.a.s. hvernig beinlínis er fjallað um tengsl skáldskaparins við sjálft viðtökuefni sitt – pappírinn. Í þessu sambandi er reyndar vert að minnast á að enn á ný kallast Suðurglugginn á við Sandárbókina því að þar fer einnig fram umræða um pappír í tengslum við teikningu og vatnslitamálun, sem aftur tengist viðfangsefni málarans, að mála eða teikna tré: „Mér finnst stundum eitthvað annarlegt við að teikna tré á það sem einusinni var líka tré – þennan hvíta pappír. Í því er einhver óskiljanleg mótsögn, einsog reyndar í allri list.“ [5]

Sú staðreynd að rithöfundurinn notar ritvél við að skrifa skáldsöguna dregur einmitt líka fram samband skáldskaparins við efnislegt form hans á pappírnum. Hin árangurslitla glíma við skáldsöguna, með ritvélina að vopni, er svo beinlínis raungerð með því að blekið í ritvélarborðanum er orðið afar dauft strax í upphafi sögunnar, auk þess sem eitthvað ólag er á bókstafnum b. Og til að bæta gráu ofan á svart, eða öllu heldur hvítu ofan á grátt, virðist ómögulegt fyrir rithöfundinn að nálgast nýjan borða í ritvélina. Skáldsagnagerðin er því ekki aðeins erfið með tilliti til viðfangsefnisins heldur einnig með tilliti til sjálfrar ritunaraðferðarinnar. Eftir því sem skrifin þokast áfram dofnar borðinn í ritvélinni uns letrið verður vart sýnilegt. Þetta virðist ekki trufla rithöfundinn: „Letrið verður sífelt daufara. Bráðum verða stafirnir ósýnilegir, og þá er ég búinn að ná fullkomnun í ritlistinni“ (bls. 41).

Lesandinn fær auk þess sterka tilfinningu fyrir því að verkefnið sé dauðadæmt frá upphafi enda gefur rithöfundurinn það í skyn á margvíslegan hátt, „ég held að þetta verði ekki skemmtileg bók. Ef ég væri lesandi mundi ég varla nenna að lesa hana“ (bls. 95). Skrifin ganga út á eitthvað allt annað en að ljúka bókinni og gefa hana út. Þau stafa af einhverri annarri þörf – innri þörf. Þetta sést bæði á því hve litlu það skiptir hann þótt orðin hætti að vera greinileg á pappírnum en einnig í samskiptum hans við útgefanda sinn: „Útgefandinn minn hringir og spyr hvort ég sé alveg ákveðinn að vera ekki með bók. Ekki veit ég hvernig honum dettur í hug að spyrja svona, á miðju hausti. Ég segist vera harðákveðinn“ (bls. 94).

Hér er enn vert að draga fram ákveðin líkindi með Sandárbókinni því sú sköpun sem málarinn ástundar, að mála og teikna tré, er af svipuðum meiði: „Ekki veit ég afhverju ég mála svona núna. Ég ætla ekki einusinni að selja þessar myndir eða sýna, svo ég þarf ekki þessvegna að mála stillimyndir úr náttúrunni. Mig langar einfaldlega bara til að mála svona. Í fyrsta sinn í mörg ár þykir mér aftur skemmtilegt að mála.“ [6] Og þótt ekki sé hægt að segja að rithöfundurinn í Suðurglugganum hafi ánægju af því að skrifa skáldsöguna eru aðrir textar sem koma til hans áreynslulaust: „Hef ekki reynt að yrkja ljóð í tuttugu ár. Allt í einu koma fáein orð úr þeirri deild. Ég þekki þau strax þegar þau birtast, þau raða sér öðruvísi saman en orð í sögu“ (bls. 12). Listin sprettur ævinlega fram í frjóum huga en þegar listamanninum er sett fyrir að framleiða markaðsvöru er eins og hún deyi í höndunum á honum.

Þótt ljóðin séu sjálfsprottin (ólíkt stritinu við skáldsöguna), á svipaðan hátt og trjáteikningar málarans, eru þau sama marki brennd og aðrir textar sem skrifaðir eru í verkinu; þeim er tæpast ætlað að komast í tæri við lesendur. Reyndar er það svo að engir textar sem skrifaðir eru í verkinu komast nokkurntímann í tæri við lesendur. Skáldsagan sem rithöfundurinn vinnur að hverfur smátt og smátt inn í hvítan pappírinn, af þeim sökum má efast um að hún komi nokkurntímann út, og raunar gefur höfundurinn sjálfur það í skyn. Bréf sem hann skrifar konunni sem er honum þó ofarlega í huga eru aldrei póstlögð, því þótt rithöfundurinn aki með þau í þorpið, alla leið að pósthúsinu, snýr hann alltaf við með þau ósend. Og bréfum sem konan sendir honum fleygir hann ólesnum á eldinn. Allir þessir textar hljóta því þau örlög að ná ekki til lesenda sinna og undirstrika þannig sambandsleysið við annað fólk. Auk þess má færa rök fyrir því að bæði rithöfundurinn og konan séu annaðhvort horfin úr þessari veröld eða u.þ.b. að hverfa.

Það er vert að gefa því sérstakan gaum hvernig hið sífellt dofnandi letur skáldsögunnar kallast á við andlegt og líkamlegt ástand rithöfundarins. Eftir því sem letrið dofnar á blöðunum um haustið er líkt og náttúran, landslagið og maðurinn sjálfur dofni með því og „allt [verður] gráleitt, vegurinn dökkgrár og votur, hraunið grátt, mosinn grár, þokan grá á fjallinu. Þegar ég lít í baksýnisspegilinn sé ég hvað hár mitt hefur gránað mikið síðasta árið“ (bls. 73). Þegar líður á veturinn hvítnar náttúran samhliða því sem letrið í ritvélinni hverfur nánast alveg. Samhliða þessu birtast svartir hrafnar sem halda til í grennd við bústaðinn, en einkum á þaki hans, líkt og fullkomnir svartir bókstafir á hvítu blaði náttúrunnar. Það eina sem stendur eftir er náttúran og mannskepnan er orðin henni framandi, passar ekki í hana, ekki frekar en texti rithöfundarins festist á blaðsíðurnar: „Það er einsog náttúran sé eitt óskrifað blað, og þegar ég geng út til að hvíla mig frá ritvélinni finnst mér einsog fótspor mín séu framandi letur sem skrifað er á þetta blað. Ekki á mínu færi að ráða í rittáknin, en ég veit að þau þýða eitthvað sem gæti skipt máli“ (bls. 114).

Að lokum

Spor mannsins í hvítum snjónum eru líkt og spor bleklausra hamra ritvélarinnar á hvítum pappírnum. Orðin sem tilheyra skáldsögunni eru að hverfa í hvítan pappírinn og þar með fólkið sem tilheyrir verkinu. Rithöfundurinn skynjar að hann er framandi í hvítri náttúrunni og hann veit að spor hans „þýða eitthvað sem gæti skipt máli.“ Hér erum við komin aftur á þær pólitísku slóðir sem áður var vikið að og snúa að náttúruvernd, manninum í náttúrunni, sambúð hans við hana og hve mjög mannskepnan hefur fjarlægst náttúruna – orðin að framandi letri í henni. Fagurfræðileg umfjöllun verksins, sú sem snýr að sköpunarferlinu og glímu listamannsins, rennur á þennan hátt áreynslulaust saman við pólitíska þræði verksins, og það sýnir svo ekki verður um villst hve þéttofinn merkingarheimur Suðurgluggans er.

Pólitísk afstaða Suðurgluggans vekur hugrenningartengsl við eitthvað sem kalla mætti niðurbælt öskur. Slíkt öskur er veikara en það sem fær fullkomna útrás. Engu að síður getur áhrifamáttur þess verið fullt eins mikill. Bælingin skilar nefnilega ekki aðeins til áheyrandans óhæfunni sem framkallar öskrið heldur einnig ofbeldinu eða uppgjöfinni sem felst í bælingunni.

Ingi Björn Guðnason

Tilvísanir

  1. Gyrðir Elíasson: Suðurglugginn, Uppheimar 2012, bls. 12. Hér eftir verður vísað til bókarinnar með blaðsíðutali í sviga.
  2. Gyrðir Elíasson: Sandárbókin: pastoralsónata, Uppheimar 2007, bls. 17.
  3. Hermann Stefánsson: „Myndkveikjur“, Okkurgulur sandur, ritstj. Magnús Sigurðsson, Uppheimar 2010, bls. 78.
  4. Gyrðir Elíasson, Hér vex enginn sítrónuviður, Uppheimar 2012, bls. 26–27.
  5. Sandárbókin, bls. 86.
  6. Sandárbókin, bls. 93.