eftir Naju Marie Aidt

Þýðandi Soffía Auður Birgisdóttir

úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2010

Naja Marie Aidt

Naja Marie Aidt / Mynd: Mikkel Tjellesen, 2016

Mars

Á fimmtudag hafði hann verið úti á lífinu alla nóttina. Hann var fullur. Kona á mjög háhæluðum, glansandi stígvélum reyndi við hann og hann fór með henni heim. Hann man ekki hvort nokkuð varð úr því annað en ómarkvisst fálm og svefn. Hann getur einfaldlega ekki rifjað það upp – höfðu þau samfarir eða ekki – hann getur ekki með nokkru móti munað það. Það fyrsta sem hann heyrði þegar hann vaknaði var undarlegt krafs. Krafs og klór og líka tíst. Eitthvað lifandi hringsólaði rétt hjá honum, ógnvekjandi, hann stirnaði upp. Hann opnaði augun. Það var fyrst þegar hann hafði reist sig upp á olnbogana að hann áttaði sig á hvaðan hljóðin komu: Ekki færri en fjörutíu hamstrar hlupu um í nokkrum búrum sem var staflað upp í háan turn, einn þeirra hvíldi framfæturna á vírnetinu og starði beint í augun á honum. Það fór hrollur um hann. Þá heyrði hann að einhver sturtaði niður úr klósettinu og síðan staulaðist konan, sem leit út fyrir að vera talsvert eldri en hann, náföl yfir gólfið á meðan hún þurrkaði sér um munninn með handarbakinu; hún hafði augljóslega verið frammi að æla. Hún féll stynjandi niður á rúmið og dró sængina til sín. Það var súrt og þungt loft í herberginu. Hann dreif sig á fætur og klæddi sig. Á leiðinni út tók hann eftir að það var ótrúlegt drasl í íbúðinni, einfaldlega drulluskítugt. Þegar hann kom niður á götuna gat hann í fyrstu ekki áttað sig á því hvar hann var staddur, en svo kom í ljós að hann var í útkantinum á Fredriksberg. Hann var furðu hress. Hann keypti sér kaffibolla í sjoppu og gekk af stað í áttina að miðbænum. Systir hans var að koma frá London í dag og þau höfðu ákveðið að fara beint af flugvellinum upp í sumarbústað. Það var lítilsháttar rigning. Rigningarúði. Fínt fyrir húðina. Hann leit á úrið og greikkaði sporið. Hugsanir hans flutu þægilega um höfuðið. Fínt að hann skyldi vera í svona góðu formi, það var líklega ástæðan fyrir því að hann var ekkert timbraður. Fínt að honum skyldi takast að ná sér í gellu. Fínt að það rigndi og fínt að hann var graður, fínt, því þá átti hann svo að segja eitthvað til góða. Hann gekk yfir Ráðhústorgið. Flokkur dúfna sem tíndu gráðugar upp í sig grjón við tröppurnar tvístraðist felmtraður þegar hann gekk inn í hópinn. Korteri síðar opnaði hann dyrnar að íbúðinni sinni í Christianshavn. Tuttugu mínútum síðar var hann búinn að baða sig og skipta um föt. Hann sauð tvö egg og pakkaði niður til helgarinnar. Síðan kreisti hann safa úr tveimur appelsínum og hitaði mjólk í annan kaffibolla. Hann rétt náði að fletta blaðinu og borða sig saddan áður en hann ók út á flugvöll.

Charlotta hafði keypt nýtt ilmvatn á ferðalaginu, hann tók eftir því undireins. Hann gat ekki áttað sig á því hvort það var jasmína eða appelsína sem var yfirgnæfandi. Hún leit vel út, hraustleg. Þau föðmuðust, hann kyssti hana á kinnina. Hún glotti yfir blóðhlaupnum augum hans og hann sagðist hafa farið út með strákunum á skrifstofunni, þeir hefðu neytt hann til að drekka nokkur skot. Hún klappaði honum á vangann. Hann gaf í. Það leit út fyrir ágætis veður. Þau töluðu um að hann hefði átt að slá grasið og að nokkrir sameiginlegir vinir ætluðu að kíkja í heimsókn og myndu gista. Þau ákváðu að elda lambakjöt í karrí. Hann átti kjöt í frystinum.

Hún hafði keypt ný sængurföt í London. Silkisatín. Og þrjú pör af skóm. Það hafði gengið vel á messunni. Hann hækkaði í græjunum, ljúf stemmingstónlist. Hún þagði og slappaði af. Allt í einu mundi hann að konan hafði verið í mjaðmabelti. Nú mundi hann eftir að hafa snúið nærbuxurnar af henni. Þetta yrðu áreiðanlega notalegir páskar. Bróðir þeirra kæmi með krakkana sína á sunnudaginn. Þá myndi hann fela páskaegg í garðinum og leika skemmtilega frændann. Hann brosti og leitaði að sólgleraugunum. Himinninn var heiðskír og vorbirtan var svo skörp að hann næstum blindaðist.

Um kvöldið lágu þau bara vafin inn í sængur sínar á svefnsófanum. Hún hafði lagað kardimommute. Hann horfði á fréttirnar á þremur mismunandi stöðvum, hún las tímarit. Þau baktöluðu móður sína og hlógu. Hann var þreyttur og heitur.

Næsta morgun fór hann út að hlaupa á ströndinni. Það var næstum enginn vindur. Sandurinn var rakur, það hafði rignt um nóttina. Hann naut hins kalda og salta sjávarlofts, honum fannst hann vera sterkur og vel upplagður og ákvað að taka á sprett síðustu metrana; melgresi, haf og sandur eins langt og augað eygði.

Þegar hann kom til baka var Charlotta að taka til hádegisverð í vetrargarðinum. Hann gerði æfingarnar sínar á jógadýnunni í forstofunni og gerði teygjur uppi við rimlana í holinu. Þau borðuðu. Hann setti meira brenni á eldinn. Hún stóð raulandi í eldhúsinu og hnoðaði brauðdeig. Hann lagði sig. Síðan hófst hann handa á grasflötinni. Nágranninn leit yfir hekkið og heilsaði. Charlotta veifaði úr eldhúsinu, hún var með handklæði vafið um höfuðið og með hvítan andlitsmaska. Hún leit út eins og trúður. Þegar hann hafði slegið blettinn fékk hann sér kaldan bjór. Það borgaði sig ekki að raka slægjunni saman meðan enn var rakt. Síðan byrjuðu þau að elda og um sexleytið komu Stína og Jakob með Emily í fóðraða kerrupokanum. Þau höfðu bæði þekkt Jakob síðan í grunnskóla og þeir höfðu líka verið bekkjarfélagar í menntaskóla. Charlotta hafði hengt lítil gyllt og silfurlituð egg á birkigrein. Maturinn var vel lukkaður og vínið var gott. Stelpurnar ræddu saman um búðina hennar Charlottu og um það hversu erfitt það væri að finna góða au pair. Hann sagði Jakobi frá því að hann hefði ráðið tvo nýja starfsmenn til að leita að fólki fyrir nýju lífsstílsþættina. Þegar Stína og Jakob höfðu komið sér fyrir í viðbyggingunni með ungbarnið um miðnætti, fór Charlotta líka í háttinn. Honum dvaldist drykklanga stund yfir koníaki á neðri hæðinni og tók eftir því hvernig ljósið úr eldhúsinu flæddi inn um dyragáttina og lenti á rimlunum í holinu svo það sló á þá rauðleitum og hlýjum glampa. Og allt í einu sá hann fyrir sér hvernig Maja, fyrrverandi kærasta hans, hallaði sér upp að þeim. Eitt kvöldið hafði hún legið lokkandi á rúminu en hann vildi heldur láta hana standa. Hún hafði gripið föstum tökum um rimlana en það var sterkum lærvöðvum hans að þakka að þau gátu gert það í þessari stellingu. Það dundi fyrir eyrum hans rétt áður en hann fékk það, kannski var það einmitt hluti af ánægjunni.

Hann brosti að tilhugsuninni, tæmdi úr glasinu og fór fram í uppvaskið.

Næsta morgun tók hann í fyrsta skipti eftir mýbitinu. Hann fann fyrir kláða á vinstri rasskinninni. Líklega hafði hann verið bitinn þegar hann sló grasið. Þau kvöddu Stínu og Jakob og fóru í langan göngutúr. Charlotta hafði á orði hversu indælt það væri að vera í fríi. Hún þarfnaðist þess virkilega eftir að hafa stritað við að flytja búðina sína í stærra húsnæði. Hún var sæt í grænu regnkápunni, næstum eins og þegar þau voru lítil. Hann fann lyktina af sjálfum sér. Þau gengu um furuskóginn; umhverfið var næstum alveg svart, svargrátt, rakinn steig upp frá jörðinni. Charlotta leit á hann og sagði eitthvað en augu hennar höfðu umbreyst í myrkar tóftir, hún minnir á beinagrind, hugsaði hann og stoppaði til að pissa.

Um kvöldið tók hann eftir að það hafði myndast fleiður á mýbitinu. Hann hlaut að hafa klórað sér. Það var laugardagur, þau horfðu á bíómynd og drukku restina af víninu. Charlotta sofnaði undir myndinni, hún hraut lágt með opinn munninn. Skyndilega mundi hann eftir því að konan í glansstígvélunum hafði rúllað jónu í rúminu. En hann mundi ekki enn hvort þau hefðu haft samfarir. Hann hristi höfuðið pirraður.

Þegar hann fór í bað á sunnudagsmorgninum var sárið virkilega aumt og bólgið. Hann fékk Charlottu til að kíkja á það. Hún hreinsaði það með einhverju sótthreinsandi, hann kveinkaði sér, hún sagði að hann væri kveif, hún sló í rassinn á honum, hann lét eins og það væri að líða yfir hann; spratt síðan upp og rak upp rándýrsöskur, hún elti hann um allt húsið; þau hlógu. Bíll flautaði hátt og lengi í innkeyrslunni, hurðin sviptist upp og Pede, bróðir þeirra, óð inn í húsið, rauðþrútinn og hávaðasamur. Krakkarnir hlupu strax út í garð til að klifra í trjánum. Hann fór sjálfur út til að ná í þau í hádegisverðinn, tók þau undir sitt hvorn handlegg og þau sprikluðu og skríktu af kæti bæði tvö.

Þau fengu síld og snafs. Charlotta reyndi að sýna börnunum vinsemd. En þau létu ekki að stjórn, spruttu án afláts upp frá borðum, fiktuðu í gylltu eggjunum, veltu um bjórflösku, klifruðu í fangið á honum og toguðu í skeggið. Honum fannst notalegt að hafa svona hlýjan barnskropp í fanginu en Charlotta var greinilega ekki hrifin. Hún var ekkert fyrir börn, var hún vön að segja, og núna virtist hún hreinlega örg. Pede virtist hins vegar ekki taka eftir látunum, hann talaði um skilnaðinn og æsti sig, að lokum neyddist hann til að gefa honum merki um að börnin væru til staðar og hefðu stór eyru. Charlotta stóð upp og klæddi þau í útiföt, þau tóku þegar á rás út og fóru að kasta nýslegnu grasinu hvort í annað. Meðan hann hlustaði á Pede áttaði hann sig á að hann hafði gleymt að fela egg. Ef hann drifi sig af stað gæti hann kannski náð í búðina. En hann nennti því eiginlega ekki, það skipti kannski engu máli héðan af. Pede skenkti þeim fleiri snafsa. Hann hafði alltaf verið svo taktlaus. Gat aldrei haft stjórn á neinu. Og nú hafði konan hans fengið nóg. Pete var æstur til augnanna, hann ýtti stólnum afturábak og rétti úr fótleggjunum, hann sló í borðið, „þetta er bölvað rugl, hún vill ekki leyfa mér að hitta börnin nema um helgar!“ Og svo kom það loksins á daginn að hún væri þegar búin að finna sér annan. Sem, til að kóróna það, væri gamall skarfur sem skiti peningum, eins og hann orðaði það. Charlotta ætlaði að fara að skammast en allt í einu virtist henni hundleiðast. Hún gekk fram til að hella upp á kaffi. Mýbitið plagaði hann verulega núna. Hann þreifaði á því og fann fyrir stærðarinnar kúlu. Það hafði greinilega ekki nægt að hreinsa það. Pede reyndi að róa sig. Síðan brast hann skyndilega í grát. Charlotta kom fram í gættina, ranghvolfdi augunum og hristi höfuðið, hún var að þurrka af grænni glerskál. Hann lofaði Pede að reyna að aðstoða hann við að finna betri íbúð. Kannski vissu þeir á skrifstofunni um eitthvað. Hann lofaði að hringja. Pede snýtti sér í servíettu. Þá komu krakkarnir stormandi inn, algjörlega útötuð í grasi og drullu.

Hann vaknaði um nóttina og leið herfilega. Hann fann fyrir slætti í rasskinninni. Hann vakti Charlottu sem fór nauðbeygð á fætur og kveikti ljósið. Hún sá að það var komin ígerð í bóluna sem var hörð og rauð. Þetta er víst að breytast í kýli, sagði hún og geispaði. Þá fékk hana hana til að taka nál, renna oddinum í gegnum gaslogann og stinga á kýlið. Hún kreisti vilsuna út á meðan hún hrópaði „oj“ og „hver andskotinn!“ Hann beit saman tönnunum. Hún sagði að hann gæti sjálfur náð sér í verkjastillandi frammi á baði og slökkti ljósið. Daginn eftir gerðu þau hreint og læstu húsinu. Hann bar töskurnar út í bíl og lokaði farangursrýminu. Svartþröstur söng sínar trillur í háu björkinni við innkeyrsluna og hann sá fjöldann allan af vetrargosum sem ljómuðu snjóhvítir á svartri, rakri jörðinni. Áður óþekkt tilfinning saknaðar, tómleika, angurværðar – hann átti erfitt með að henda reiður á því – helltist yfir hann. En því fylgdi líka hamingjukennd. Svartþrösturinn, blómin, sólin sem þegar var lágt á gráum himninum, hálffalin á bak við hvikul skýin. Þá kom Charlotta út og byrjaði að tala um að hann ætti að koma því í verk að fá mann til að leggja flottu hleðslusteinana á veröndina, sem hún hafði pantað fyrir hann frá Ítalíu. Hann myndi njóta hússins miklu betur í sumar ef það skartaði almennilegri verönd. Sagði hún.

Þegar hann kom heim biðu hans skilaboð frá móður þeirra. Hún hefði svo gjarnan viljað hitta þau um páskana, en kannski í næstu viku? Hann eyddi skilaboðunum og setti Red Hot Chili Peppers á, hann hækkaði í græjunum og opnaði dyrnar út á þakveröndina. Gullkúpullinn á Frelsisturninum lýsti mattur í rökkrinu. Hann fann fyrir púlsslætti í rasskinninni. Það líður hjá. Sagði hann við sjálfan sig, þetta er ekkert alvarlegt, það líður bráðum hjá. Hann fór í bað og skipti um föt, fékk sér nokkra öllara niðri á kránni og komst smám saman í gott stuð, hann spjallaði við barþjóninn, við nokkra peyja sem störfuðu hjá samkeppnisaðila, og þá sá hann hvar Heidi kom inn um dyrnar, vel tilhöfð og í samfloti með þybbinni vinkonu, það hentaði honum ágætlega, síðast þegar þau sváfu saman var það verulega notalegt, svo hann stóð upp frá borði keppinautanna og kallaði: „Hæ, Sæta!“ og hún féll um hálsinn á honum, hann fann sætkennda vínlykt af henni, þú kemur sem himnasending. Síðar um kvöldið skjögruðu þau heim til hans og rifu sig úr fötunum sem þau hentu á gólfið, hann sneri baki í hana til að kveikja á lampa, hún beygði sig niður til að smokra sér úr sokkabuxunum og þegar hún rétti úr sér aftur blasti rassinn á honum við henni. Hún æpti skelkuð upp yfir sig. Hann sneri sér að henni. „Snúðu þér aðeins við aftur. Hvað í fjandanum kom fyrir þig?“ Hann var næstum búinn að gleyma því. Hún gekk til hans, „snúðu þér við,“ en hann stóð kyrr, sussaði, tók utan um hana, kyssti hana á hálsinn og hún þreifaði eftir því sem hún hafði séð, stífnaði og dró sig frá honum, „ertu með graftarkýli? Nei, hættu nú, hættu! Ég get ómögulega gert það með þér meðan þú lítur svona út, hvað er þetta eiginlega, þetta hlýtur að vera ógeðslega sárt?“ Hann reyndi að tæla hana. „Þetta er ekki neitt, láttu ekki svona, Heidi.“ En Heidi vildi þvo sér um hendurnar. Og síðan vildi hún fara heim. Hún gleymdi sokkabuxunum. Hann var hundfúll. Hann hefði svo gjarnan vilja negla hana. Hann fann fyrir knýjandi þörf.

Nokkrum dögum síðar, þegar hann var á fundi með sænskum starfsbróður og Stíg, vinnufélaga sínum, var sársaukinn svo mikill að hann átti erfitt með að einbeita sér. Hann iðaði órólegur í sætinu. Eftir því sem leið á daginn hljóp bólga í alla rasskinnina. Um kvöldið var hann kominn með hita. Hann hringdi í Charlottu. Hann lá á maganum og skalf, Charlotta sagði: „Þú ættir bara að sjá sjálfan þig, þú ert eins og bavíani.“ Hún andvarpaði þungt og lagði höndina á mjöðm hans. Hún sagði að sér sýndist sem það væru komin ótal lítil kýli í kringum það stóra. Hún hringdi í frænda þeirra sem var læknir, hann hló og gerði að gamni sínu og sagði hann alltaf hafa verið dálítið rasssáran. Hann hringdi síðan sjálfur í vakthafandi lækni sem kom klukkan hálfellefu, leit örstutt á hann og spurði hvers vegna í ósköpunum hann væri ekki búinn að fara til læknis fyrir löngu og sendi hann á bráðavaktina. Þetta leit ekki vel út. Það varð að skera kýlin burt.

Og það var gert. Hann kastaði upp í pappabakka. Sársaukinn var ólýsanlegur. Á eftir setti hjúkrunarfræðingurinn þykka grisju á sárið og sagði að heimahjúkrun myndi koma og skipta um umbúðir þegar hann væri kominn heim aftur. Honum varð hugsað til gamals fólks sem þurfti að þvo og skipta um bleiur á. Hann var innlagður í nokkra daga, var settur á pensilínkúr, lá á hliðinni í rúminu, reyndi að vinna, mókti og horfði á sjónvarpið. Hitinn lækkaði aðeins. Hann vildi komast heim. Mamma náði í hann, hún ók bílnum, hann lá í baksætinu, þögull og fýldur. Mamma sagði: „Nú skaltu bara reyna að ná þér, ástin mín.“ „Æ, góða hættu þessu, ég er ekki VEIKUR,“ sagði hann, „þetta er bara mýbit, fjandinn hafi það.“

Hann hringdi í Stíg og sagði að hann yrði heima í nokkra daga. Hann tók pillurnar sínar. Á hverjum morgni kom hjúkrunarfræðingurinn, samviskusöm, teinrétt kona sem leit út fyrir að hafa verið mjög falleg á sínum yngri árum, og tók blóðugu grisjuna af honum, hreinsaði sárin og setti nýjar umbúðir. En hitinn fór hækkandi. Hann kallaði hana Sætu. Hún brosti og hristi höfuðið vandræðaleg á meðan hún mældi hann. Hann hafði enga matarlyst, en aftur á móti stöðugan hausverk og síðan fékk hann einnig verki í ennisholurnar. Átta dögum eftir að hann kom heim fékk hjúkrunarfræðingurinn því framgengt að hann var fluttur aftur með sjúkrabíl á spítalann svo hægt væri að gera frekari blóðrannsóknir. Þá kom í ljós að hann hafði fengið stafýlókokkasýkingu í fyrri innlögn sinni. Meiri fúkkalyf. Og síðan aftur heim. Charlotta kom í heimsókn með súpu og rauðvín. En um nóttina vaknaði hann upp í andnauð. Hann ýtti við Charlottu sem eins og venjulega hafði sofnað í öllum fötunum í stofusófanum, hún settist ringluð upp og kveikti ljósið. Síðan öskraði hún og greip fyrir munninn. Hann var óþekkjanlegur af bjúg, efri hluti líkamans, hálsinn, andlitið – rauðþrútið og aflagað. Charlotte hljóp kjökrandi í áfalli að símanum og hringdi á sjúkrabíl. Hann ætlaði að standa á fætur en hún hrópaði: „Liggðu kyrr! Liggðu kyrr!“ Þeir sprautuðu hann strax í bílnum. Þeir tóku púlsinn og blóðþrýstinginn. Síðan settu þeir sírenurnar á. Hann sá næstum ekki út úr augunum, þeir hlupu með hann fram og aftur langa ganga þar til þeir voru loksins komnir á áfangastað þar sem ótal áhyggjufull andlit mynduðu gráan seigfljótandi massa yfir honum.

Það var pensilínið. Hann þoldi það ekki. Læknirinn útskýrði það fyrir honum. „Þú fékkst alvarleg ofnæmisviðbrögð. Þú komst inn á síðustu stundu. Við getum glaðst yfir því hversu snögg systir þín var í símann!“ Læknirinn brosti og klappaði honum á herðarnar. En morguninn eftir fengu þau niðurstöður úr nýjum blóðprufum og nú kom í ljós að um var að ræða ónæmar bakteríur. Hann gargaði á starfsfólkið og neitaði að fara í þessa afkáralegu nátttreyju, að ekki væri talað um nærbuxurnar. Hann þoldi ekki matinn, hann þoldi ekki lyktina, allt var ógeðslegt, maður verður veikur af því að vera hér, hreytti hann út úr sér í bræði. Hann lá á stofu með mjóum gluggum. Spítalinn var byggður á þeim tíma sem menn gerðu allt til að spara rúðugler. Hann gat ekki hætt að hugsa um það. Í hvert skipti sem hann renndi augunum að þessum smáu gægjugötum út í heiminn hugsaði hann um það. 1973. Kannski 1975. Olíukrísa. Fólk hugsaði bara um að spara sér dýran efnivið eins og til dæmis gler. Það gerði hann brjálaðan.

Apríl

Hann var veikur. Þau sendu hann heim. Hann var lagður inn á ný. Fárveikur. Ný lyf. Heim. Sæta opnaði með lykli og sýslaði einhvers staðar í nálægð við hann. Svöl hönd hennar á heitri húð. Aftur inn á deild. Fleiri prufur, vefjasýni, blóðprufur, þvagprufur. Gröfturinn vall út um eyrun á honum, augu hans og nef lokuðust, samanklístruð af grænu slími, honum var stöðugt flökurt, fékk líka niðurgang, síðan blóðugan niðurgang. Hann lá og horfði á glæra slönguna sem dældi súlfablöndunni út í æðar hans í dropatali þrisvar á dag í gegnum brunn á handarbakinu. Frændi hans hringdi og óskaði eftir að fá að tala við yfirlækninn, þetta gat ekki staðist, það hlaut að vera eitthvað sem þeir gátu gert. Svo var ekki. „Ja, þannig er það víst,“ sagði Charlotta, „við verðum að biðja og vona að þér batni.“ Hann hafði hvorki orku til að biðja né vona. Hann fór smám saman að skynja sjálfan sig sem kjötflykki sem var að leysast upp. En líka: Þetta getur ekki verið. Afneitun. Árásargirni. Svo gáfu taugarnar sig, andnauð. Lyfjagjöfinni var breytt. Og enn á ný. Sýkingin breiddist út. Hann var fluttur á einkastofu. Hann fékk óráð. Pede kom í heimsókn og fékk hláturskast sem var ekki af þessum heimi. Þegar hann sá hvernig hann leit út. Og hann hló honum til samlætis, af bestu getu, næstum þakklátur bróður sínum fyrir hláturinn, hann var svo eðlilegur, djöfull er að sjá þig maður, þú lítur út eins og skítur! En það átti eftir að versna. Hratt. Engin orka til að setjast upp, hringja bjöllunni, klóra sér í löppinni, halda á vatnsglasi.

Læknirinn endurtók: „Því miður er um fjölónæmar bakteríur að ræða.“ Og hann settist á rúmið: „Við höfum ákveðið að flytja þig yfir á Ríkisspítalann. Ég er búinn að tala við þá, þeir taka við þér strax í kvöld.“ Læknirinn beygði sig niður að honum og sagði í trúnaði: „Ég neyðist til að segja það hreint út. Við getum aðeins vonað það besta.“

Júní

Sumar. Er það ekki? Hann reynir að lyfta hendinni til að heilsa. Charlotta brosir en Charlotta veit ekki hvað hún getur gert til að hughreysta hann. Hún hringir í mömmu þeirra, en það er það síðasta sem hann þarf á að halda. Mamma er slegin yfir hversu mjög hann hefur horast síðan síðast. Hún kemur með grillaðan kjúkling og kartöflumús og matar hann með teskeið. Hann ælir því öllu. Hann biður hana um að fara. Þetta áhyggjufulla, aldraða sorgmædda fés. Hún tárfellir ofan í kartöflumúsina. Hann skammast sín. Hann lokar augunum og læst sofa. Hann rifar augun og núna borðar hún sjálf restina af matnum, með teskeiðinni, beint upp úr tupperware boxinu. Að lokum sofnar hann. Og það fossar yfir kletta og hljóðið er að sprengja á honum hausinn. Er ekki komið sumar? Hann krýpur aftur á hnjánum í litla baðherberginu og kastar upp. Hann liggur á farsóttardeild Ríkisspítalans. „Við hleypum þér ekki út,“ sagði læknirinn, „ónæmiskerfi þitt er í rúst, ef svo má að orði komast, við gerum allt sem við getum en ég get ekki lofað neinu.“ Hann fær sveppasýkingu í munnholið, í endaþarminn, á hendurnar. Hann er allt að því hárlaus á höfðinu. Hann hefur misst 25 kíló á þremur mánuðum. Hann heyrir Charlottu hringja í Stíg; hún heldur að hann sofi: „Þegar ég var hér í gær hjálpuðu tvær hjúkrunarkonur honum á klósettið, þær ætluðu að reyna að setja hann í bað. Ég stend í dyrunum og hann ælir þunnum grænum vökva í vaskinn. Síðan tek ég eftir að það rennur skítataumur niður annað lærið. Síðan líður yfir hann, fjandinn hafi það! Ég hélt hann væri dauður, Stígur, datt bara niður. En þær fundu púls. Báðu mig að kalla eftir aðstoð og það þurfti þrjár manneskjur til að lyfta honum upp og bera hann í rúmið. Þetta er svo niðurlægjandi. Hann lyktar langar leiðir. Þú neyðist til að koma og heimsækja hann.“

Hann veltir fyrir sér hvað hann hafi snert, snerti hann ekki klósettið, snerti hann stólinn, studdi hann sig ekki við stólinn á leiðinni yfir að vaskinum, hann hefur náð sér í bakteríur, bakteríur sem kannski hafa fundið sér leið inn í líkama hans? Hann vill ekki að Charlotta komi of nálægt sér. Hann biður hana stöðugt um að þvo sér um hendurnar. Hún kemur sjaldnar núna, þarf að vera í búðinni, er að undirbúa útsölu, það er brjálað að gera, sumarútsalan að bresta á, sú allrastærsta. Og, eins og hún segir, grátandi og taugaspennt: „Ég verð að halda áfram að lifa, ekki satt? Ég verð líka að hugsa um sjálfa mig.“ Það er niðurstaðan sem hún er búin að komast að, segir hún, þetta er líka búið að vera langt ferli, þannig séð, það eru liðnir meira en þrír mánuðir. Hún drekkur frá sér allt vit í garðveislunni hjá Stínu og Jakobi. Hún situr í kjöltunni á svörtum manni og syngur.

Honum stendur á sama þótt hún láti ekki sjá sig í langan tíma. Svipir og skuggar og andlit nálgast hann um stund og hverfa síðan aftur. Ógleðin, snuðrandi hundur sem nuddar sínum blauta feldi að innanverðu vélinda hans. Stöðugur niðurinn frá pípulögnunum eða frá hans eigin líkama. Það er búið að flytja húð af læri hans yfir á rasskinnina. Hann man ekki eftir því. Charlotta segir: „En hvað þetta er orðið fínt.“ Hún trúir henni ekki. Mamma talar við hann eins og þegar hann var lítill, hughreystandi, ástúðlega. Hún talar við hann þar til hann róast. Hann róast, hann heyrir rödd hennar eins og hún komi að ofan, eins og hún fljóti um herbergið í formi vökva eða lofttegundar.

Loksins kemur Stígur í heimsókn. Hann opnar dyrnar og grípur sleginn fyrir munninn, það er eins og hann hafi séð draug. Hann bakkar út. Dyrnar falla að stöfum. Stuttu síðar gengur hann inn á stofuna og sest á stólbrún. Hann heldur á stórum fjólubláum blómvendi í fanginu. Hann hvíslar: „Hvað hafa þeir eiginlega gert við þig?“ Legusárin þjaka hann, hann getur þetta ekki. Haldið uppi samræðum, haldið höfði þannig að hann sjái Stíg. Og Stígur hreytir út úr sér: „Fjandinn hafi það maður, hversu lengi höfum við þekkst? Lengi. Ekki satt?“ Hann beygir höfuðið fram: „Ég hefði aldrei trúað …“ Og Stígur leggur blómin á náttborðið, leggur höndina á sængina, hnoðar sængina, kiknar. Farið burt með þessi blóm. Hann getur ekki hugsað um annað. Stígur hefur snert þau og síðan sængina, í guðanna bænum, ekki snerta mig. Stígur lítur biðjandi á hann. En hann lokar augunum og þegar hann opnar þau aftur er Stígur farinn. Um nóttina biður hann um spegil. Hjúkrunarfræðingurinn heldur honum upp að andliti hans. Innfallnir vangar, húðin hangir í stórum gráum fellingum, augun eru gul, hann er merktur dauðanum. Eins og liðið lík. Hann snýr höfðinu og skoðar bólgið eyrað. Hann var búinn að sjá holan brjóstkassann og sokkinn magann. Handleggi og fótleggi sem voru eins og húðþaktar beinaspírur. Hann hafði þreifað á skallanum. En andlitið. Hann langar að öskra en hann orkar það ekki. „Sofðu vel.“ Hjúkrunarfræðingurinn stendur í dyrunum og slekkur ljósið. Síðan fer hún. Þá grætur hann.

Júlí

Að sjá sitt eigið andlit. Nú fær hann hrikaleg kvíðaköst, þau gefa honum lyf; einnig við þessu gefa þau honum lyf og það hjálpar: Hann sefur lengur og betur, það er líkt og hugsanir hans séu innpakkaðar í þykka baðmull, þær rekast ekki lengur harkalega hver á aðra, hann fær næringu í gegnum slöngu, súrefni, morfín, hann hringir eftir bekkeni, hann biður um tónlist og verður að ósk sinni, hann liggur og hlustar á Red Hot Chili Peppers og það er eins og það taki broddinn úr sársaukanum.

Charlotta situr í gluggakistunni og sveiflar fótunum. Hikandi, brosandi segir hún að Stígur og hún séu farin hittast, reyndar séu þau núna kærustupar. „Er það ekki frábært?“ Hann stynur. „Segirðu ekki til hamingju?“ Þið hafið svikið mig. Hún, þarna í sólargeislanum með bláan himininn í baksýn, hann, getur bara tjáð reiði sína með snökti, engin orka. Charlotta segir: „Þetta er sniðugt, ekki satt?“ Ef þú hefðir verið til staðar hefði ég aldrei tekið eftir honum, ALDREI!“ Hún flissar. „Hann er nú enginn foli!“ Og síðan, tilgerðarlega: „En við náum svo frábærlega saman, ég hef rætt svo mikið við hann – um þig – ég meina, um sjúkdóminn – þannig kynntumst við náttúrlega. Ertu sofnaður?“ Hún hoppar niður og nálgast hann. Hann bandar henni frá sér með máttvana hendi. Hún horfir á hann með hryggðarsvip: „Ég hélt að þú yrðir glaður.“ Hann reynir að brosa. Allt er búið, hann gefst upp, getur ekki annað. Og dagarnir renna saman við ljósar nætur, hann fær skyndilega lungnabólgu, háan hita, fær martraðir um hamstrabúrin, dreymir að hann sé innilokaður með krafsandi kvikindunum; allt er á niðurleið, þau geta ekki náð honum aftur í jafnvægi.

Einn daginn sest yfirlæknirinn á rúmstokkinn og segist vera nauðbeygður til að tala hreint út: Það væri ekki slæm hugmynd að fjölskyldan hans á Jótlandi, systur hans og faðir, kæmu og heimsæktu hann núna. Læknirinn horfir áfram í augun á honum, alvarlegur, samúðarfullur, en hann skilur ekki hvað hann er að fara. „Hvers vegna í ósköpunum ætti þinn svokallaði faðir að koma núna? Hvaða erindi á hann hingað? Hann sem hefur ekki einu sinni haft rænu á að senda þér einn einasta blómvönd!“ Mamma æsir sig upp úr öllu valdi, hækkar róminn. Charlotta lítur hvasst á hana. Mamma snöktir og kreistir hönd hans. Hann ýtir við henni eins fast og hann getur. Hún sleppir takinu hrædd, hann biður Charlottu að þvo hendurnar á sér með vatni og sápu. „Og spritti! Farðu í hanska. Farðu í plasthanska áður en þú þværð mér.“ Mamma er þögul. Þær horfa báðar á hann eins og hann sé genginn af vitinu. Hann sveiflar sinni flekkuðu hendi. „Náðu í þvottapoka, fjandinn hafi það, NÚNA!“

Síðan kom faðir hans og hálfsysturnar. Og mamma og Pede. Pede, fölur og fjarlægur að þessu sinni. Þau eru að kveðja. Það er það sem er á seyði. Þau sitja við dánarbeð og reyna að verjast gráti. Loksins segir Charlotta: „Þetta er nóg. Hann er þreyttur.“ Þau bakka út af stofunni með myrk augu. Hún dregur sængina yfir hann. „Þú átt ekki að deyja. Þú deyrð ekki. Bíddu bara og sjáðu.“ Og hann sér ekki betur en hún brosi. En frammi á gangi fer hún í keng. Því hún veit að hún er búin að missa hann, en hún veit ekki hvort hún á einhverja sök á því. Hún hleypur við fót og þráir ekkert meira en að komast út í svalt sumarkvöldið. Þegar þau hafa staðfest heilabólguna fær hann nýja gerð að lyfjum sem leika nýrun grátt. Hann fær gulu. Þau óttast að hann muni missa vöðvamassann fyrir fullt og allt. Þau segja að lyfin geri sitt gagn. En blóðprufurnar sýna ennþá merki um sýkingu. Síðan virðist hún samt sem áður á undanhaldi. Og hann, hann áttar sig hreint ekki á þessu með dauðann. Hann hefur ekki hugsað sér að deyja. Hann skellir heyrnartólunum yfir eyrun: „Give it away, give it away, give it away now …“ Bassinn drunar, hann veltir höfðinu til og frá á koddanum og lítur út í kvöldblámann, á mánann sem er hálffalinn á bak við hvikul skýin. Hafði ég samfarir við hana eða ekki? Og allt í einu man hann: Þau höfðu ekki samfarir. Honum stóð ekki! Hann brosir með sjálfum sér, þetta er svo fyndið, kómískt, hugsa sér, hann gat ekki, hann var heilsuhraustur og sterkur, en hann gat ekki fengið tittlinginn til að láta að stjórn, og nú man hann líka að þau deildu með sér einni jónu á eftir, þegar hann hafði gefist upp, hún var svo blindfull að augun ranghvolfdust í höfðinu á henni, síðan sofnaði hún með hausinn á lærum hans, þannig var það.

 

Mars

Hann opnar útidyrnar og dettur út á götu. Það er rigning. Hann getur ekki staðið upp aftur. Hann reynir að fara á fjóra fætur en líkaminn mótmælir. Hann liggur einfaldlega kylliflatur á maganum á blautri og skítugri gangstéttinni. Á stoppistöðinni stendur hópur af fólki og horfir á. Að lokum ganga eldri hjón til hans. Þau gætu verið afi hans og amma. Hann grípur í hendur þeirra og hefur sig upp með miklum erfiðismunum. Nokkrir strákar reyna að bæla niður hlátur. Ung kona snýr sér undan. Hann þakkar þeim gömlu fyrir, nú styður hann sig við húsvegginn með annarri hendinni. Síðan staulast hann örstuttum skrefum fram eftir götunni. Fætur hans eru óstyrkir og hann er með náladofa eins og venjulega, þau segja að um króníska taugaskemmd sé að ræða. Charlotta er brjáluð út í hann. Það er á vissan hátt léttir. Hann vill ekki hitta neinn, nennir því einfaldlega ekki. Fötin hanga utan á honum. Hann lifir á steiktu svínakjöti með steinseljusósu, en það hleðst utan á magann á honum í stað þess að jafnast niður, handleggir og fótleggir minna enn á eldspýtur, en hann nennir ekki á æfingahjólið, nennir því ekki, það tekur hann minnst tíu mínútur að dragnast upp í íbúðina sem er á fjórðu hæð, skríða; hann reykir helling af hassi, það hjálpar, hann getur þá sofið og það slær á óróleikann – óttann, satt að segja; það er svo margt sem hann er farinn að skilja núna og sem hann þolir ekki að skilja: hann er hræddur við að deyja, hann er hræddur um að veikjast, krabbamein, hjartastopp, kýli á rassinum, augu hans eru að opnast fyrir svo ótalmörgu, veikleikanum sem lúrir undir, hversu nálægt brúninni hann var, og einnig þetta, að líf hans hefur molast í þúsundir örsmárra ósamstæðra brota; ekkert verður eins og áður, hann er ekki lengur hann sjálfur, á ekkert stolt, finnur hvorki fyrir gleði né sjálfum sér: HÉR ER ÉG, en hvað hann er veit hann hreint ekki, hann hefur ekki grænan grun um hvernig hann á að halda áfram með líf sitt, eins og Charlotta orðaði það þegar hún sagði honum einnig að hann mætti sigla sinn sjó og skellti hurðum, hann heyrði hana enn hrópa þegar hún stormaði niður stigaganginn.

Hann reykir, hlustar á tónlist, hækkar. Og fer skyndilega að hlæja, hátt og hjartanlega: fjandinn sjálfur, þegar hann var í brúðkaupi Pede og þeirrar nýju í síðustu viku kastaði hann upp og varð svo illt í maganum að mamma hans varð að keyra hann heim, fjandinn sjálfur, það var andskotans ekkert að honum, þetta var bara stress, allt þetta fólk, nei, ekki nokkur skapaður hlutur að, staðreyndin er bara sú að hann þjáist af ímyndunarveiki, það er sko bráðfyndið og skítt með þetta allt, hann er búinn að selja sumarbústaðinn, hann ætlar að selja Stíg sinn hlut í fyrirtækinu, hann ætlar að vera hér, hann pantar einn skammt af steiktu svínakjöti frá grillinu á móti, þeir eru svo vænir að koma með það upp, hann dregst niður og kaupir hass, og síðan endurnærandi hvíld, endurnærandi svefn, guði sé lof; hann er sestur í stólinn og opnar bjórflösku með eftirvæntingu, skyndilega líður honum eins og nýfæddu barni sem á allt til góða.