Sigrún Pálsdóttir. Sigrún og Friðgeir – Ferðasaga.

JPV útgáfa, 2013.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2014

Sigrún og Friðgeir – FerðasagaÞegar flett er í gegnum gömul ljósmyndasöfn þá er erfitt að velta því ekki fyrir sér að allt fólkið á myndunum sé dáið. Hver af þessum tvívíðu flötum varðveitir eitt einasta brotabrot úr sekúndu heillar ævi. Fólkið virkar oft óraunverulegt, enda ómögulegt að hleypa öllum þessum lifandi mannverum inn í sig. Það er yfirleitt ekki hægt þar sem sjaldan veit áhorfandinn nógu mikið um manneskjurnar sem þarna birtast til að geta tengst þeim. Nauðsynlegt er að lifa með fólki til að geta lifað sig inn í það og erfitt er að fá tilfinningu fyrir persónuleika ókunnrar manneskju með því að virða fyrir sér staka mynd. Til þess þarf meira til. Mun meira en þúsund orð.

Í bók eru örlögin alltaf þau sömu í hvert skipti sem hún er lesin. Bækur eru eins og fortíðin að því leyti að ekkert fær þeim breytt. Þau sem deyja í lok bókar deyja alltaf í lok bókar. Og oft veit lesandinn löngu fyrr, jafnvel frá fyrstu síðu, að svo muni fara. Andartakið þegar lesandi binst feigri sögupersónu tilfinningaböndum er hræðilegt. Lesandinn getur ekki annað en fylgt þessari persónu ofan í djúpið, laus við alla von en verður að lesa sig til enda. Þó að kannski líði margir dagar milli þess að bókin sé snert, þá er tíminn innan textans alltaf sá sami. Eitt orð í einu, kafli eftir kafla, þar til komið er að síðasta greinarmerkinu. Á meðan finnur lesandinn fyrir sting í hjartanu, sem verður nístandi þegar sögupersónan loks deyr.

Í lestri mínum á Sigrún og Friðgeir – Ferðasaga var andartakið tiltölulega seint í frásögninni, komið vel yfir miðju, þegar Óli Hilmar, elsta barn hjónanna Sigrúnar Briem og Friðgeirs Ólasonar, er „tvö hundruð fet undir yfirborði“ jarðar og „gengur um hellana í hálfgerðum ‚trans‘.“ [1] Á þessu augnabliki hætti Óli að vera bara sagnfræðileg persóna fyrir mér og varð að lifandi barni sem átti sér þrívíða tilvist í huga mér, en var ekki bara mannvera á gamalli ljósmynd. Ég gat ekki lengur hugsað um hann sem fjarlæga sögulega staðreynd, heldur var þetta drengur af holdi og blóði sem, í lok bókarinnar, átti eftir að farast ásamt foreldrum sínum og systkinum.

Hvers vegna nákvæmlega þetta atvik varð til þess að Óli braust gegnum textann og innst inn í huga minn er erfitt að segja. Ég gat sett þetta atvik í samband við eigin æsku, því ég man líka hve mikilfenglegir mér þóttu hellar sem barni, og líka í samband við æsku föður míns sem flutti ungur að árum með foreldrunum sínum til Bandaríkjanna. Líklega var þó lykilatriðið að ég hafði verið í textalegum félagskap við Óla og foreldra hans í hundrað blaðsíður. Þau voru orðin nokkuð hagvön í huga mínum og mér var farið að líka vel við fólkið. Ég var ekki lengur að lesa sagnfræði, heldur var ég orðinn að fylgdarmanni fjölskyldu á leið til drukknunar.

Sigrún, Friðgeir og Óli – Innflytjendasaga

Höfundurinn hefði þess vegna getað gefið bók sinni undirtitilinn Innflytjendasaga. Já, eða bætt nafni Óla við hlið foreldra sinna, en hann er mættur til frásagnarinnar á undan föður sínum. Fyrsta árið sem foreldrar hans eru vestanhafs er drengurinn í vist hjá vinfólki Sigrúnar á Ströndum. Það er ákaflega þungbært fyrir móður hans að skilja hann við sig. Móðurtilfinningar Sigrúnar til fjarverandi sonar síns eru þráður sem liggur gegnum frásögnina þangað til faðir fer til Íslands í þeim tilgangi að sækja hann. Þegar Sigrún er kynnt, um borð í Dettifossi á leið til New York, sýnir höfundur hana að vera að hugsa um son sinn. Sú sena kemur rétt á eftir stuttri lýsingu á örlögum bresku barnanna sem fórust með hinu fræga skipi City of Benares, [2] sem tundurskeyti þýsks kafbáts grandaði aðfaranótt 18. september 1940. Á sama tíma voru hjónin að sigla vestur um haf í fyrsta sinn. Þetta er eitt dæmi um það hvernig höfundur notar listrænar aðferðir til að vekja hughrif með lesandanum. Með því að stilla þessu tvennu saman, hugsunum Sigrúnar Briem um son sinn og drukknun sjötíu og sjö barna, er Óli settur í samhengi við þær milljónir sem létust í stríðinu. Um leið er vísað er til þess aldurtila sem fjölskyldan á í vændum. Þetta er ekki gert á klunnalegan hátt heldur er þessum tveimur myndum leyft að koma saman í huga lesenda og kalla fram þá þriðju. Höfundur beitir þessum og öðrum frásagnarbrögðum feikivel.

Ferð Friðgeirs til Íslands árið 1941 til að ná í Óla markar kaflaskil í frásögninni. Þau Sigrún og Friðgeir hafa þá verið ár vestanhafs og eru búin að koma sér nægilega vel fyrir í Norður-Ameríku til að geta fengið son sinn til sín. Bókin rekur á ýmsan hátt hefðbundna frásögn af ungu menntafólki sem reynir að hasla sér völl í nýju samfélagi. Fyrsta árið einkennist af basli við að fóta sig í nýju samfélagi. Þau sækja um stöður hjá fjölda sjúkrahúsa og læknaháskóla, en eiga erfitt að komast að þar sem fátt er vitað um læknadeild Háskóla Íslands. Að lokum fá þau stöður sem kandídatar við Knickerbocker-spítalann í Harlem. Í tengslum við það hefur höfundur að rekja annað ferli í lífi innflytjendanna. Þegar þau koma fyrst til Bandaríkjanna eru þau hálfgerðir heimalningar og illa að sér um fólk með aðra trú og litarhátt en þau sjálf. „Þau horfa á Gyðinga og velta fyrir sér útliti þeirra og ímynd sem fégráðugra kaupmanna“ [3] og stuttu síðar í bókinni rekur höfundur hvernig þau eru blind á allt það menningarlíf sem er í kringum þau í Harlem.

En Sigrún og Friðgeir verða víðsýnni eftir starf sitt sem læknar í fjölmenningarsamfélögum Norður-Ameríku. Þetta sést best tveimur árum eftir komu þeirra til Vesturheims þegar þau ráða unga þeldökka stúlku til að sjá um Óla og bróður hans Sverri, sem þá er kornabarn. Þeim þykir Marjorie, eftirnafns er ekki getið, vera „góð við strákana“ og „fögur mjög,“ [4] Kannski er besti vitnisburðurinn um það hve vel hjónin tóku henni ljósmynd [5] þar sem Marjorie heldur á Sverri og horfir til hans með elskulegum svip meðan Óli stendur þétt upp við hana. Myndin lýsir að henni hafi verið treyst af eindrægni og innileika, bæði af hjónunum og sonum þeirra.

Í sama kafla kemur fram að Óli „er byrjaður að tala svolitla ensku og hefur þegar eignast tvær vinkonur í götunni.“ Aðlögun fjölskyldunnar er fylgt eftir frá því þau koma fyrst til New York og nær ákveðnum hápunkti þegar Friðgeir kemst að í Harvard, einu helsta vígi bandarískrar yfirstéttar, og þau eignast dóttur sem er bandarískur ríkisborgari þar sem hún fæðist á þarlendri grund. Eins og allt annað í bókinni, þá er þessi þráður ekki sérstaklega dreginn fram af höfundi, heldur liggur hann í textanum, og lesandinn ræður því hvort hann rekur sig eftir honum.

Annar þráður er hin nýja staða Íslands í heiminum eftir innrás Þjóðverja í Danmörku. Hjónin eru bæði útskrifuð frá læknadeild Háskóla Íslands og vilja stunda framhaldsnám. Hinn hefðbundni menntavegur Íslendinga var að fara til Danmerkur, en þar sem nýlenduveldið er hersetið af Þjóðverjum og nýlendan af Bretum, þá er sú leið ekki lengur auðsótt. Þó að Sigrún og Friðgeir hafi alls ekki verið fyrstu Íslendingarnir til að fara til náms vestanhafs, þá eru þau dropar í læk sem á eftir að verða að flaumi. Ekki var lengur sjálfgefið að íslenskt námsfólk færi til Kaupmannahafnar. Það fór að dreifast um heiminn eftir því sem menningartaugin milli Danmerkur og gömlu nýlendunnar trosnaði hægt og rólega, þótt hún hafi aldrei slitnað alveg. Sigrún og Friðgeir eru varða á þessari nýju leið, sem „fyrstu læknakandídatarnir frá Háskóla Íslands til að halda þaðan beint í eiginlegt framhaldsnám í Bandaríkjunum.“ [6]

Það er aðdáunarvert að fylgjast með þessum tveimur Íslendingum, sem ná að koma undir sig fótunum í margmilljónasamfélagi. Með hjálp og stuðningi frá fjölda annarra. Þau eru hluti af efri lögum íslensks samfélags, sem sést til dæmis á því að Thor Thors, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, tekur að sér að greiða götu þeirra. Í því samhengi er það áhugavert hve auðvelda leið Friðgeir átti inn í efri stéttir, en hann fæddist á „nyrsta bæ í Strandasýslu og einni afskekktustu sveit landsins.“ [7] Það er ekki alveg sjálfsagt að ungur kommúnisti geti farið í læknanám og gifst dóttur póstmeistarans í Reykjavík, en það var hægt á Íslandi fjórða áratugar tuttugustu aldar.

Hjónin, eins og þau birtast lesendum bókarinnar, eru mjög viðkunnanleg. Sigrún er greinilega mjög fær læknir, góð við vini sína og skemmtilegur penni, þegar höfundur vitnar beint til orða hennar. Friðgeir er í senn snjall vísindamaður og hugulsamur faðir, sem bæði eldar og þvær bleiur. Þau eru nær nútímagildum en fólk sem allajafna birtist manni frá þessum tíma. Það er auðvelt að verða fordómum um fortíðina að bráð, og sjá fyrir sér staðalpersónur en ekki lifandi manneskjur. Maður getur ekki kynnst dánu fólki. Í besta falli hittir maður fyrir raunsannar eftirmyndir af því. Höfundi tókst að sannfæra þennan lesanda að hann hefði fengið að hitta fyrir þetta löngu látna fólk, sem er ekki lítið afrek.

Raddir í sögunni

Sumir sagnfræðingar kjósa að láta heimildirnar óáreittar. Frumtextarnir fá að tala sínu máli og eru einungis settir í samhengi. Í þessari bók kýs höfundurinn að fara aðra leið og endursegir allar heimildir. Beinar tilvitnanir, sem eru sjaldan meira en þrjár setningar og oftast mun styttri, eru fléttaðar inn í frásögnina. Í fyrstu þótti mér þessi frásagnaraðferð búa til óþarflega mikla fjarlægð milli umfjöllunarefnis bókarinnar og lesenda. Ég þráði að lesa meira af orðum Sigrúnar og Friðgeirs, að fá að sjá rödd þeirra í textanum. En svo fór ég að skilja tilganginn með þessari aðferð.

Heimildartextar eru óhjákvæmilega út og suður jafnt í framvindu og stíl. Til að skapa samfellda frásögn þarf að endursegja. Og höfundur nær að draga saman fjöldann allan af heimildum og raða saman í sögu sem er auðvelt að fylgja eftir. Þetta er sérstaklega vel gert í síðasta kaflanum þegar fjölda heimilda er skeytt saman til að fá yfirsýn yfir það hvað Sigrún, Friðgeir og börn þeirra voru að gera þessar örfáu mínútur sem það tók Goðafoss að sökkva eftir að tundurskeyti frá þýska kafbátnum U-300 hæfði það. Það hefur þurft ansi mikla túlkunarvinnu að koma öllu heim og saman en það er mjög sannfærandi hvernig höfundur setur fram það sem gerðist. Önnur frásagnaraðferð en endursögn heimilda hefði aldrei getað komið öllum þessum fjölda heimilda í skipulega atburðarás.

Þetta er ekki það eina sem þessi aðferð leyfir höfundi að gera. Rödd endursagnarinnar getur smeygt sér inn þar sem heimildir geta ekki. Skýrasta dæmið er þegar Sigrún sýnir okkur inn í huga Sigrúnar og Friðgeirs og segir okkur hvað þau séu að hugsa. Hér er dæmi, þegar Friðgeir hefur fengið að heyra að ekki sé hægt að treysta því að íslensk læknamenntun sé sambærileg að gæðum við bandaríska:

Og í fússi gengur hann í átt að lestarstöðinni og inn á næsta bar. Með bjórglas og viskístaup bölvar hann í hljóði, einn í Ameríku: „American Big Shots.“ Búinn að fá nóg af þeim. „I am very glad to meet you“ merkir ekkert úr þeirra munni. Hér ríkir í raun samkeppni um það eitt að fá að sýna hvað í manni býr. Hann lætur hugann reika um veröld sem hann veit að var, þegar læknar opnuðu stofur sínar eftir aðeins tveggja ára nám. Hann fer að hugsa um Mayo-bræðurna í Rochester, hvernig þeir tóku við sveitapraxís föður síns og „gerðu garð hans að þeim frægasta í víðri veröld“. Þar starfa nú um fimm hundruð læknar. Ætli Vilmundi landlækni þætti þar ekki „vera slælega unnið því að hver læknir fær ekki nýjan sjúkling nema annan hvern dag“, hugsar hann um leið og hann klárar úr glasinu og hraðar sér út til að ná lestinni aftur til New York. [8]

Þarna fer söguröddin og persóna Friðgeirs að renna saman. Sumt er ómögulegt fyrir lesanda að greina hvort sé hugsun hans eða söguröddin. Er það skoðun hans að í Bandaríkjunum sé það samkeppnisatriði að fá að sanna sig og að ekki sé hægt að reiða sig á vinsamleg orð? Eða er þetta söguröddin að setja viðbrögð hans og hugsanir í samhengi? Þarna er textinn mitt á milli þess að tjá það sem persónan er að hugsa og þess að túlka atburðarásina fyrir lesandanum.

Þetta er dæmi um „hálfbeina ræðu,“ (fr. discours indirect libre, e. free indirect speech) sem er eitt af tækjum skáldskaparins. Það er ekki sérstaklega gamalt í hettunni heldur á sér rætur í nítjándualdarskáldsögunni og blómstrar svo hjá módernistunum. Nú er það eitt af þeim tækjum sem skáldsagnahöfundar nota til að flétta persónur og sögu þeirra saman. Höfundur þessarar bókar notar þessa frásagnaraðferð til að flétta þær persónur sem hún er að fjalla um inn í söguna. Lífshlaupi Sigrúnar Briem og Friðgeirs Ólasonar er stjórnað af heimssögulegum atburðum. Það á við allar manneskjur að einhverju marki, en sú atburðarás sem rakin er í „ferðasögu“ þeirra hefði aldrei átt sér stað ef ekki hefði verið fyrir seinni heimsstyrjöldina. Þjóðverjar gera innrás í Danmörku, Bretar hertaka Ísland, og læknakandídatar þurfa að leita á nýjar brautir til að afla sér framhaldsmenntunar. Þau farast ásamt börnum sínum vegna kafbátahernaðar þýska flotans. Þau berast áfram með straumi sögunnar og stíll bókarinnar flæðir óhindrað milli hins persónulega og hins sögulega.

Klippimyndir

Sagnfræðitexti er gjarnan klippimynd. Heimildum er skeytt saman á tvívíðan flöt og búin til ný mynd. Eitt einkenni Sigrúnar og Friðgeirs er allur sá fjöldi ljósmynda sem prýðir bókina. Þær eru ekki einvörðungu myndskreyting, heldur einnig mikilvægar heimildir, sem höfundur byggir frásögn sína oft á. Í fyrstu mætti halda að þessar myndir væru undantekning frá stílnum. Hvað er mynd ef ekki bein ræða? En ef grannt er skoðað er það ekki svo. Höfundur notar myndirnar sem heimildir á svipaðan hátt og fléttar frásögn sína með þeim. Þær eru endursagðar, líkt og aðrar heimildir. Ljósmyndum er umbreytt í texta.

Gott dæmi er mynd sem er merkt: „Óli á Riverside Drive.“ [9] Myndin ein og sér er skemmtileg, Óli heldur brosandi á brauðpoka, sem hallar í átt að myndavélinni. Bak við hann eru dúfur á beit í almenningsgarði. En höfundur notar þessa heimild til að skapa litla senu og sýna þar með líf fjölskyldunnar í Bandaríkjunum:

Garðurinn er víða lagður stéttum og stígum og þar safnast dúfurnar saman, og allt í kringum Óla sem stendur þar með brauð í poka. Hann er í ullarfrakka utan yfir stuttbuxnadressinu, hnésokkum og leðurskóm með spennu um ökklann. Þegar hann hefur tæmt úr pokanum sest hann upp á þríhjólið sitt, teygir sig niður eftir akarni sem liggur á stéttinni, og kastar varlega í átt til íkornans áður en hann tekur stefnuna niður eftir, og Sigrún á hæla honum undir nöktum álminum. [10]

En einnig er hægt að líta á bókina sem myndaalbúm. Ef ég taldi rétt þá eru 60 ljósmyndir í bókinni, sem að meðaltali er meira en ein á hverjar þrjár síður af megintexta. Og þá eru ótaldar myndirnar á forsíðu og bakkápu. Gamlar ljósmyndir hafa alltaf yfir sér trega. Myndirnar varðveita eitt einasta augnablik ævi. Sum lífsskeiðin eru löng, önnur stutt. Þegar um myndir er að ræða sem eru meira en sjö áratuga gamlar, má gera ráð fyrir að flestar manneskjur á þeim séu dánar, allavega allar þær sem eru komnar af táningsaldri. Það er ekki auðvelt fyrir áhorfendur að virða fyrir sér myndir af fólki sem lést voveiflega. Hvað þá börnum. Það er ekki hægt að ná lifandi manneskjum til baka úr djúpinu, en það er hægt að skapa eftirmyndir.

Að renna yfir myndirnar í bókinni eftir að hafa lesið hana er eins og að skoða albúm af fólki sem maður þekkir vel. Sigrún, Friðgeir og Óli ná að kvikna til lífs í huga lesenda. En með því að gera látnar manneskjur að lifandi sögupersónum þá þurfa lesendur að takast á við sorg sem þau hefðu ekki annars upplifað. Það er útrás í því að hrærast með örlögum skáldsagnapersónu, en það er blendnara þegar feigðin kallar að fólki af holdi og blóði. Eða svo ég vitni í lokaorð frásagnarinnar: „Og myrkrið undir yfirborði sjávar sem verður svartara við hvert orð sem reynir að lýsa því sem þar hefur gerst.“

Eftirmáli

Sigrún og Friðgeir – Ferðasaga er bók án eftirmála. Henni lýkur með dauða aðalpersónanna. Það er vel, frásagnarlokin gætu ekki verið sterkari. Ýmsir lausir endar eru þó á frásögninni, sem er eðlilegt þegar ramminn er jafn þröngur. Fólk dettur inn og út úr lífi annarra. Sumt verður að óljósri minningu meðan sum líf tvinnast saman. Stundum verða manneskjur umhugsunarverðar langt umfram samfylgdartíma þeirra.

Tvær manneskjur í bókinni sitja eftir. Sigurður Briem póstmeistari, faðir Sigrúnar, hefur verið að setja saman sjálfsævisögu sem heitir Minningar. Hún kom út um svipað leyti og dóttir hans fórst. Sigurður áætlaði góðan hagnað af útgáfunni, 922,50 dollara, sem var ansi rífleg fjárhæð í þá daga. [11] Það er eitthvað broslegt við það að hugsa um póstmeistara sem býst við að endurminningar hans nái metsölu. Það gæti svo sem alveg hafa farið svo. Bókin upplýsir ekki um það. En þessi tenging mín sem rithöfundar við annan rithöfund leyfði mér að upplifa eftirmynd af sorg hans.

Hin manneskjan er Marjorie, unga stúlkan sem sá um bræðurnar Óla og Sverri. Fékk hún að vita að þeir hefðu drukknað? Það er ólíklegt að hún hafi verið í tengslum við nokkurn sem hefði fregnað slíkt. Hugsaði hún til íslensku drengjanna og foreldra þeirra síðar á ævinni? Lifðu þessir drengir í huga hennar, uxu úr grasi og komust til manns? Hvað ímyndaði sér hún að þeir myndu verða? Það er ómögulegt að segja. Og kannski dó Marjorie langt fyrir aldur fram. Það er ómögulegt að segja neitt um það sem engar heimildir eru til um, það líf sem er utan sögunnar.

Kári Tulinius

 

Tilvísanir

  1. Bls. 106. Allar tilvísanir eru í Sigrún og Friðgeir – Ferðasaga, 3. útg., JPV útgáfa, Reykjavík, 2014.
  2. Bls. 9. Nafn skipsins er misritað „City of Bernares“ í Sigrún og Friðgeir – Ferðasaga. Annars fer lítið fyrir villum af nokkru tagi, allavega af þeirri sort sem þessi ósagnfræðimenntaði lesandi gat fundið.
  3. Bls. 55.
  4. Bls. 109.
  5. Bls. 110.
  6. Bls. 39.
  7. Bls. 26. Reyndar saknaði ég þess í bókinni að ekki kom betur fram að faðir Friðgeirs, Óli G. Halldórsson, efnaðist á verslun á Ísafirði. Í frásögn höfundar er alveg sleppt að útskýra hvernig piltur sem fæddist á jafn harðbýlum bæ hefur efni á því að ganga menntaveginn.
  8. Bls. 63–4. Svo það sé á hreinu, þá efast ég ekki um það að hugsanir Friðgeirs hafi verið á þann veg sem höfundur segir. Vitnað er í bréf hans til tengdaföður síns, sem og dagbók þeirra hjóna.
  9. Bls. 94.
  10. Bls. 95. Samkvæmt neðanmálsgrein 4 í sjötta kafla er þetta „lauslega byggt á ljósmynd úr safni Guðrúnar Ísleifsdóttur og Sigurðar Briem.“ Ekki er tekið fram að myndin á blaðsíðu 94 sé myndin sem átt er við, en lýsingin gefur það sterklega til kynna. 1
  11. Bls. 134.