Fríða Ísberg: Merking.

Mál og menning, 2021. 266 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2022.

 

MerkingVið erum stödd í Reykjavík í nálægri framtíð, líklega í kringum árið 2050, og það ríkir órói í íslensku samfélagi. Fram undan eru kosningar um lög er kveða á um að skylda eigi alla þegna landsins í próf sem sker úr um hvort þeir búi yfir nægilega mikilli samkennd í garð annars fólks. Þau sem standast prófið eru „merkt“ og hafa aðgang að öllum helstu innviðum og rýmum samfélagsins; þeim sem falla er neitað um þann aðgang en boðin endurhæfing í formi sálfræðimeðferðar með það að leiðarljósi að þau standist prófið síðar. Merkingin svokallaða hefur verið við lýði í nokkurn tíma og lengst af verið valfrjáls, eins konar gæðastimpill sem stofnanir og fyrirtæki hafa getað innleitt. Kosningarnar marka hins vegar tímamót: Nær ríkisvaldið að kerfisvæða merkinguna? Og hvaða afleiðingar hefði það?

Þetta er sögusvið fyrstu skáldsögu Fríðu Ísberg, Merkingar, sem óhætt er að segja að hafi verið ein umtalaðasta og lofaðasta bók haustsins 2021. Hún var valin skáldverk ársins af bóksölum, fékk tilnefningu til Fjöruverðlaunanna og í tilkynningu frá Forlaginu kom fram að útgáfurétturinn hefði verið seldur til 14 málsvæða – meirihlutinn af þeim samningum hafði meira að segja verið gerður áður en Merking kom út á Íslandi. Aðspurð um velgengnina sagði kynningarstjóri Forlagsins, Embla Ýr Teitsdóttir, í viðtali við Fréttablaðið 17. desember að ástæðan væri ekki síst hið sérstaka erindi sem bókin ætti við vestrænan samtíma: Að hún fjallaði um hið viðkvæma en ágenga viðfangsefni slaufunarmenningu eða cancel culture.

Þau siðferðislegu málefni sem til umfjöllunar eru í Merkingu tengjast vissulega að ýmsu leyti spurningunni um slaufun sem hefur verið nokkuð áberandi í umræðunni víða á Vesturlöndum undanfarið: Hversu langt eigum við að ganga í að gera kröfu um að fólk axli ábyrgð á því að hafa farið yfir mörk annarra, beitt ofbeldi eða hagað sér ósiðsamlega? Er forsvaranlegt að sniðganga og hunsa aðila sem slíkt hafa gert, hversu langt á það ganga og hvað þarf fólk að gera til að öðlast aftur samþykki samfélagsins? Ég er hins vegar ekki á því að skáldsaga Fríðu fjalli fyrst og fremst um slaufun; erindi hennar við samtímann er margslungnara en svo. Mig grunar að hún eigi eftir að eldast betur en nokkur bók um slaufun fótboltakappa, tónlistarmanna eða kvikmyndaleikstjóra hefði getað gert og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að hún slái í gegn erlendis líkt og hér heima. Lykillinn að þeirri bjartsýni minni er söguheimurinn sem Fríða kýs að skapa og lýst er hér að framan, sem helst enn fremur í hendur við bókmenntagreinina sem Merking tilheyrir – vísindaskáldskap – og hvernig möguleikar hennar eru nýttir.

 

Sjónarhornaflétta

Merking er auðvitað ekki bara sögusvið, á því eru líka persónur. Sögumaður segir frá í þriðju persónu, sjónarhornið færist milli persóna við kaflaskipti og út frá fjölda þeirra kafla sem hver um sig fær má segja að aðalpersónurnar séu fjórar: Siðfræðingurinn Vetur sem starfar sem grunnskólakennari, viðskiptakonan Eyja, ungmennið Tristan og loks Ólafur Tandri, eða Óli, sem er aðalsprautan á bak við merkingarlöggjöfina. Sólveig, sálfræðingur og eiginkona Óla, fær líka einn kafla og Alexandria, móðir Tristans, einnig. Inn á milli kafla birtast enn fremur bréfaskipti vinkvennanna Laílu og Teu, sem tengjast ekki atburðarásinni beint en takast á um ýmiss konar siðferðisleg og samfélagsleg málefni, samskiptahætti og fleira sem fellur þematískt að efni bókarinnar.

Frásagnarformið er sum sé hópsaga þar sem engin ein aðalpersóna er í sviðsljósinu heldur hópur fólks sem tengist innbyrðis á misaugljósan hátt. Tengslin koma smám saman í ljós eftir því sem líður á Merkingu og þegar upp er staðið er hópurinn samofin heild, eins konar net einstaklinga sem upplifa ólíkar hliðar þeirra aðstæðna sem uppi eru og hafa ólíkar skoðanir á samkenndarprófinu. Í þessari sjónarhornafléttu liggur einmitt styrkur hópsöguformsins þegar kemur að því að fjalla um flókin hugmyndafræðileg eða pólitísk málefni. Einar Kárason beitti því í Sturlungaaldarbókum sínum til að undirstrika margslungnar víddir átaka og í Dægurvísu (1965) lét Jakobína Sigurðardóttir sögupersónurnar taka afstöðu til þátttöku íslenskra stjórnvalda í vígbúnaðarkapphlaupinu. Persónur hópsagna eiga einnig gjarnan í samskiptum innbyrðis, hafa áhrif hver á aðra og persónusköpunin er þannig samofin atburðarás og þema verksins. Það er ákveðin hætta á því að persónurnar verði einhliða og fari að þjóna atburðarásinni eða þemanu um of en Fríða fellur ekki í þá gryfju; þrátt fyrir að hlutverk persónanna í þeirri samfélagsmynd sem dregin er upp í Merkingu sé skýr hegða þær sér alls ekki eftir forskrift og koma lesanda jafnvel nokkuð á óvart í sögulok.

 

Trúin á hið góða líf og betri heim

Á meðan þessi ritdómur var í skrifum hlaut Fríða Ísberg Íslensku bjartsýnisverðlaunin, viðurkenningu sem Álverið í Straumsvík veitir listamanni á ári hverju. Hún er vel að þeim komin enda full ástæða til bjartsýni varðandi rithöfundarferil hennar, eins og ég tæpti á hér að framan. Frá árinu 2017 hafa komið frá henni tvær frábærar ljóðabækur og smásagnasafn auk Merkingar og allar hafa þær hlotið glimrandi viðtökur. Hins vegar er örlítið broslegt – en þó mögulega mjög viðeigandi – að einmitt núna hljóti Fríða verðlaun kennd við bjartsýni, afstöðu sem tekin er til rækilegrar naflaskoðunar í Merkingu.

Í gegnum Óla kynnast lesendur Merkingar aðdraganda samkenndarprófsins og merkingarinnar, með öðrum orðum þróuninni á þeim þremur áratugum sem liðið hafa frá ritunartíma bókarinnar til sögutímans. Sú þróun er knúin af bjartsýni og þrá eftir „betri heimi“. Þegar Óli er í menntaskóla, líklega einhvern tímann á þriðja áratugnum, er sálfræðiþjónusta innlimuð í heilbrigðiskerfið, nánar tiltekið geðheilbrigðiskerfið sem þá hefur verið komið á fót. Fólki er úthlutað ókeypis sálfræðitímum og Óli, líkt og fleiri landsmenn, lærir „að greina ólguna“ innra með sér (34), tækla erfið samskipti við föður sinn og fleira uppbyggilegt. Samhliða eflingu geðheilbrigðiskerfisins er samkenndarprófið fundið upp og fyrst notað sem mælitæki á árangur dæmdra afbrotamanna og sjúklinga. Síðar kemur hins vegar upp stórt pólitískt spillingarmál og stjórnmálamenn fara að nota jákvæðar niðurstöður úr samkenndarprófum í ímyndarherferðum. Smátt og smátt verður slík notkun algengari og almenningur gerir auknar kröfur um að fólk í ábyrgðar- og umönnunarstörfum sýni fram á gildi sitt með prófi.

Óli tekur virkan þátt í þessari þróun, lærir sálfræði, fer í háskólapólitík og starfar hjá samtökunum SÁL sem gera Kladdann – lista yfir fólk og prófniðurstöður þess – aðgengilegan almenningi. Og þar með er merkingin orðin til sem vottun og gæðastimpill á allt og ekkert, fólk, starfsemi, stigaganga, hverfi og verslanir, og ómerkt fólk kemst ekki inn í slík rými. Óli er sannfærður um að með þessum hætti sé hann að breyta heiminum og bjarga fólki, því hver vill ekki samfélag án ofbeldis og siðblindu en fullt af samkennd? Tölfræðin er hans jarðtenging, hún sýnir óyggjandi fram á að glæpatíðni í merktum hverfum er mun lægri en í ómerktum og flestir glæpamenn eru ómerktir. Merkingin er auk þessi ekki refsing í hans augum heldur forvörn: Þau sem falla á prófinu fá hjálp til að verða að betri manneskjum (78).

Og er þetta ekki einmitt rétt hjá Óla? Er þetta ekki hið fullkomna samfélag, útópían í öllu sínu veldi? Það er engum blöðum um það að fletta að hann meinar vel, sannfæring hans er ekki rekin áfram af gróðavon eða valdafíkn heldur raunverulegri trú á að þessi leið virki. Einmitt þess vegna er hann þó tilbúinn að líta fram hjá neikvæðum afleiðingum; tvískiptingu samfélagsins, kerfisbundinni jaðarsetningu ómerkta fólksins og afleiðingum þess að lifa í sífelldum ótta við að falla. Þetta skiptir ekki máli í stóra samhenginu að mati Óla:

Það liggur í augum uppi að þessar manneskjur þurfa aðstoð. … Og aðstoðin býðst þeim, hvenær sem er. Þess vegna nota ég ekki orð eins og útskúfa heldur frekar orð eins og innlima. Eins og ég sé þetta þá taka þessir einstaklingar ekki þátt í samfélaginu. En svona meðferðir eru ekki töfralausnir sem bjarga öllu á einni nóttu. Svona meðferðir taka tíma, mánuði og ár. Oft er þetta einmana fólk með brotna sjálfsmynd sem hefur ekki verkfærin til að vinna í sjálfu sér. Við viljum ekki bara efla heilbrigðiskerfið okkar heldur samfélagið sem heild. Við viljum lækna veikt fólk og bjóða því heilbrigða framtíð. (113)

Þetta er dæmi um það sem bandaríska fræðikonan Lauren Berlant, blessuð sé minning hennar, kallaði miskunnarlausa bjartsýni (e. cruel optimism) í samnefndri bók frá árinu 2011: Þegar það sem við þráum kemur í veg fyrir að okkur líði vel og njótum velgengni. Trúin á að eitthvað geri lífið betra sem er oft svo sterk að við neitum að horfast í augu við fórnarkostnaðinn. Í bók sinni fjallar Berlant um ýmsar birtingarmyndir miskunnarlausrar bjartsýni í Bandaríkjunum á áratugunum sitt hvorum megin við síðustu aldamót, svo sem hugmyndir um aukið jafnrétti, atvinnuöryggi og samfélag þar sem hæfileikar fólks fá að njóta sín og við þetta mæti bæta sjálfsþekkingu og sjálfsvinnu – hið endalausa verkefni sem snýst um að verða betri útgáfa af sjálfum sér. Það er ekkert að slíkri bjartsýni í sjálfu sér en Berlant vekur athygli á miskunnarleysinu sem hún felur gjarnan í sér – þetta er ekki spurning um gott og illt eða rétt og rangt heldur að koma auga á og viðurkenna neikvæðu hliðarnar en blindast ekki af þeim jákvæðu.

 

Útópía eða dystópía?

Miskunnarleysi draumsins um samkenndarsamfélagið kemur berlega í ljós í sögum og afstöðu hinna persónanna í Merkingu. Hjónaband Óla stendur á brauðfótum því Sólveig er mjög gagnrýnin á merkingarskylduna og bendir ítrekað á að samkennd sé flóknara fyrirbæri en svo að hægt sé að mæla hana með prófi. Tristan upplifir grimmdina á eigin skinni þar sem hann er ómerktur og rækilega jaðarsettur ungur maður sem hefur enga trú á að sálfræðimeðferð bjargi sér frá glötun, hann vill bara fá að vera í friði, kaupa sér íbúð og vera í vinnu. Eyja veit að sú staðreynd að hún kolféll á samkenndarprófinu er einmitt það sem gerir hana færa í sínu starfi – í viðskiptaheiminum þvælist of mikil samkennd hreinlega fyrir – en merkingin gerir að verkum að hún er hrakin út úr fyrirtækinu. Vetur er siðfræðingur og veit að merkingarskyldan er vafasöm, ekki síst þegar hún sér ótta nemenda sinna við prófið og framtíðina sem veltur á niðurstöðum þess, en um leið er hún hrædd við fyrrverandi kærasta sem sýndi ofbeldistilburði og þráir öryggið sem merkingin veitir henni.

Vandinn sem fólkið í Merkingu stendur frammi fyrir er sem sagt sá að fyrirmyndarsamfélagið sem Óli vill skapa er alls ekki fyrirmyndarsamfélag í augum allra. Útópía er blekking sem breytist auðveldlega í dystópíu og dystópían er ekki bara andstæða útópíunnar heldur líka hin hlið hennar, eins og Jón Ólafsson og Guðni Elísson benda á í inngangi að fyrsta hefti Ritsins árið 2002. Samfélag sem byggir á fullkominni kerfishugsun, stöðugleika og samræmi grundvallast líka á útskúfun og refsingu þeirra sem ekki falla inn í rammann, miskunnarleysi og grimmd, og dansar þannig alltaf á línunni milli útópíu og dystópíu, allt eftir því frá hvaða sjónarhorni er litið á það.

Um þetta er hægt að rökræða fram og til baka og á meðan samkenndarpróf er bara tékklisti í tölvum sálfræðinga eða fabúlering í skáldsögu er slík umræða meinlaus og jafnvel spennandi. En í Merkingu er sá tími að baki og komið að ögurstundu: Kosningum um merkingarskylduna. Þjóðaratkvæðagreiðslu um hvernig samfélagið á að vera. Árni Bergmann lýsir í grein í áðurnefndu hefti Ritsins dystópískum framtíðarskáldsögum frá 20. öld og bendir á að margar þeirra gerist í heimi þar sem nánast fullkomnum árangri hafi verið náð í samfélagsstýringu og atburðarásin hverfist um uppreisn einnar eða fleiri persóna sem vilja hverfa aftur til lífsins eins og það var. Í Merkingu er þessu ekki þannig farið. Fyrirmyndarsamfélagið er enn þá í mótun og bígerð, það er ekkert einræði eða bein kúgun að ofan í gangi (enn þá) og það er enginn að tala um afturhvarf til fortíðar, heldur er verið að taka lýðræðislega ákvörðun hér og nú um hvort útópían/dystópían verði að veruleika eða ekki. Og þar liggur óhugnaðurinn grafinn.

 

X-þátturinn

Ef skilgreiningin á vísindaskáldskap byggist á því, sem er nokkuð algengt viðmið, að um sé að ræða skáldverk sem gerist í framtíðinni eða mögulegum hliðarheimi þar sem tilteknar vísindalegar uppgötvanir eða breytingar hafa sett mark sitt á samfélagið – þá er Merking nokkuð hefðbundin vísindaskáldsaga. Sögusviðið í vísindaskáldskap er raunheimur ritunartímans með tvisti. Það er alltaf einhver þáttur, eitthvert X, sem gerir hann frábrugðinn raunheiminum og ólíkt fantasíum, sem gerast í öðrum heimi en okkar, innihalda vísindaskáldsögur almennt útskýringar á breytingunum sem orðið hafa en þær eru yfirleitt af manna völdum með aðstoð vísinda.

Hið áhrifaríka við X-þáttinn í Merkingu, það sem greinir Reykjavík ársins 2050 frá Reykjavík ársins 2021, er að hann er rétt handan við hornið og mögulega nú þegar inni í stofu hjá okkur. Það er ekkert fáránlegt eða fjarstæðukennt við þá þróun sem leitt hefur til samkenndarprófs og mögulegrar merkingarskyldu, bara nákvæmlega ekki neitt. Í umræðu um fjárlög ársins 2022 var tekist á um fjárframlög til niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu, krafan um aðgengilegri sálfræðiaðstoð verður sífellt háværari og ég hef enga trú á öðru en hún verði ríkisstudd í auknum mæli á næstu árum – rétt eins og gerðist á þriðja áratugnum í söguheimi Merkingar. Ég reikna líka fastlega með að til séu próf sem mæla samkennd á einn eða annan hátt, og ef þau eru ekki til nú þegar munu þau verða þróuð.

Sálfræðiþjónusta og samkenndarpróf eru alls ekki óhugnanleg í sjálfu sér heldur hvernig samfélagið í Merkingu hefur ákveðið að fara með þau. Það er að mínu mati mikilvægasti X-þátturinn í þessari vísindaskáldsögu: Ákvarðanirnar sem við gætum tekið í framtíðinni, samkvæmt Merkingu, eru glettilega líkar þeim sem við tökum eða gætum tekið í dag. Merking fjallar um samfélag sem líkt og okkar einkennist af umræðu þar sem lítið rými gefst fyrir ólíka afstöðu og flóknar eða þversagnakenndar hugmyndir og skoðanir. Þrátt fyrir alla tilfinningagreindarþjálfunina og sálfræðiþjónustuna hefur óttinn við mannlegan breyskleika tekið völdin í samfélagi Merkingar og samkenndin með þeim sem brjóta samfélagssáttmálann með því að hegða sér ósiðlega er horfin. Á tímum þar sem við erum í óða önn að brjóta okkur leið út úr áratuga- og aldagömlum viðhorfum og samskiptamynstrum sem ala á fordómum, ójafnrétti og þöggun erfiðra málefna á borð við kynferðisafbrot og ofbeldi er óþol gagnvart þeim sem ganga yfir mörk mjög skiljanlegt og oftast réttlætanlegt. En hversu langt nær það? Hvenær er rétt að sýna samkennd með þeim sem hugsa og haga sér öðruvísi en okkur þykir þægilegt – og jafnvel mjög óþægilegt? Hvar liggja mörkin milli okkar réttar til að líða vel og annarra? Milli góðrar bjartsýni og miskunnarlausrar bjartsýni? Það veit ég ekki en ég vona að við þurfum aldrei að kjósa um það í þjóðaratkvæðagreiðslu, við hljótum að geta unnið úr þessu á annan hátt.

 

Að lokum

Hið sérstaka erindi Merkingar við samtímann, og meginástæða þess að hún verður brátt komin út í fjölmörgum þýðingum um allan heim, er að mínu mati að hún fjallar af mikilli næmni um gildi, hugmyndir og samskipti fólks í samfélagi sem breytist svo hratt að það gæti alveg eins verið árið 2050 á morgun og árið 2000 í gær. Hvernig eiga rithöfundar eiginlega að fara að því að fanga þennan samtíma sem þeytist svo áfram að allt er orðið úrelt um leið og það verður til? Fríða fann góða lausn á því: Hún skrifaði samtímasögu í framtíðarbúningi, lausa frá hömlum raunsæisins en þó svo sanna og svo mögulega að lesandann óar við því; óhugnanlega og skemmtilega í senn. Í söguheimi Merkingar hafa loftslagsbreytingar valdið umtalsverðri hækkun sjávarmáls og búið er að byggja plexiglervegg meðfram sjávarsíðunni í Reykjavík – það er hrikalegt – en fólkið borðar enn kanilskonsur sem mér finnst nokkuð hugguleg tilhugsun. Það er erfitt, jafnvel óbærilegt, að gefa þeim möguleika undir fótinn að aukinn aðgangur að sálfræðiþjónustu og áhersla á samkennd og sjálfsþekkingu geti leitt okkur í þá átt sem Merking gerir en framtíðarsviðið og vísindaskáldsagnaformið gefa okkur færi á að sjá hlutina úr dálítilli fjarlægð. Þetta er jú enginn spádómur, þróunin þarf ekkert að verða svona. Við ráðum því að miklu leyti sjálf en líklega þurfum við að vanda okkur töluvert.

 

Ásta Kristín Benediktsdóttir