Þorsteinn frá Hamri. Skessukatlar.

Mál og menning, 2013.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2014

SkessukatlarÞorsteinn frá Hamri hefur átt sér tryggan lesendahóp í rösklega hálfa öld, rúm 55 ár eru liðin frá því hans fyrsta bók Í svörtum kufli kom út árið 1958 þegar hann var aðeins tvítugur að aldri, og vakti þegar mikla athygli fyrir óvenju þroskað verk. Æ síðan hafa lesendur getað sótt til hans djúpan skáldskap, þar sem skáldið bregst af heilindum og alvöru við tíðindum aldarinnar. Frumsamdar ljóðabækur hans eru nú orðnar tuttugu talsins og er Skessukatlar sú nýjasta.

Nafn bókarinnar er sótt í jarðfræðimyndanir en skessukatlar eru holur í bergi sem myndast við að steinhnullungar þyrlast í hringiðu. Kraftar náttúrunnar eru í þjóðtrúnni kenndir við skessur og þetta nýtir skáldið sér og velur bók sinni lýsandi nafn sem er hæfilega torrætt eins og reyndar allur skáldskapur Þorsteins þar sem sjaldan er allt sem sýnist. Ljóð hans standa föstum fótum í íslenskri hefð og sögu en þá er bara hálf sagan sögð því ljóðin eru jafnframt tjáning og andóf nútímamanns við áraun tímans.

Þar er margt mótdrægt og öfugsnúið eins og kemur glögglega fram í síðustu bókum skáldsins Allt kom það nær 2008 og Hvert orð er atvik 2011. Skessukatlar er ekki jafn pólitísk bók og þær, meira er hér um ljóð sem bera vitni um glímu ljóðmælandans við sjálfan sig og tímann. Mörg ljóðanna fjalla um hverfulleikann, hin óumflýjanlegu endalok mannlegs lífs og þá ógn sem steðjar að jörðinni. Skáldið beinir sjónum sínum inn á við og veltir fyrir sér merkingu mannlegrar tilveru frá ýmsum hliðum og varpar á hana skáldlegu ljósi. Eins og nafn bókarinnar gefur til kynna er jörðin skáldinu hugleikin í þessari bók og þeir kraftar sem á hana orka.

Dæmi um vangaveltur skáldsins um viðleitni mannsins á jörðinni er ljóðið „Landkönnuðir“:

Að hörfa til baka
er huganum einum fært

og við sem áttum í vonum
auglýsta, ylvolga svefnskóga
horfum, stjarfir
í núinu, fram af nöf,
á brimrótið stíga
hærra upp hamrana!

Of heitt,
of kalt …

Svo lýstur okkur sem leiftur
allt sem var rannsakað, rætt í þaula,
mulið til mergjar
og vitað:

Jörð og maður,
loft, lögur og tími.

Hér er mikið sagt í fáum, meitluðum ljóðlínum. Ljóðið hnitast um niðurstöðuna í lokalínunum þar sem höfuðskepnurnar koma við sögu nema í stað eldsins kemur tíminn. Það er ógerlegt að snúa við nema í huganum og þeir náðugu dagar sem dreymt var um virðast ekki í augsýn heldur ríkir óvissa um framtíðina. Umhverfismálin knýja okkur um svör við ýmsum óþægilegum spurningum svo ekki sé meira sagt. Ljóðið vekur hugrenningar um hlýnun jarðar og hækkandi vatnsborð sem ógnar byggð og mannlífi.

Annað ljóð sem nefnist „Heimsundur“ fjallar einnig um líf okkar nútímafólks og áreitið sem heilinn verður fyrir á öld internetsins og allra gervisamskiptanna og gervitíðindanna sem þar er að finna: „Heimsundrum rignir í heilann“ stendur þar og einnig „Allir á njósn hjá öllum, fjær eða nær!“ Þorsteinn lýkur síðan ljóðinu með hógværlegri áminningu um fábrotin gæði þess „að hollt gæti reynzt að vera einhverjum eitthvað“.

Hann minnir hér á þau einföldu sannindi sem vilja gleymast á öld þráðlausra samskipta að maðurinn hefur skyldum að gegna við samferðafólk sitt. Það kann að reynast nokkurs virði að vera vinur í raun og reyna að sporna við fótum gegn þeirri taumlausu sjálfsdýrkun og sýndarmennsku sem einkennir svo margt á okkar dögum. Á svipuðum slóðum er Þorsteinn raunar í ljóði sem heitir „… fór eg einn saman“ með vísun í frægt erindi Hávamála. Þar segir meðal annars að betra sé að hafa félagsskap en fara einförum: „„Tvennt,/sem tengist, fer betur en eitt,/skár en sundurleitt, trénað/ sjálfið í einum““.

Þorsteinn frá Hamri hugsar til baka til æsku sinnar þegar hann var sveitadrengur í ljóðinu „Innan garðs“. Hann íhugar þá þröngu en sælu heimsmynd þegar allt var í föstum skorðum og ekkert utanaðkomandi raskaði ró heimamanna. En afhjúpunin er miskunnarlaus undir lok ljóðsins: „hve fjarlægt að vita sig/eiga eftir að sundrast/utan hliðs!“. Persónuleg saga sveitadrengsins fær hér aukna túlkunarvídd og skírskotskírskotun.

Hægt er að lesa þjóðarsöguna líka hér inn í. Næsta ljóð á eftir virðist beint framhald og heitir „Rof“ og tekst skáldinu
að magna upp býsna sterkt andrúmsloft í því. Ljóðið er svohljóðandi:

Vetrarkvöldin,
voru það kvöld, eða sögur?

Ský og byljir, voru það
ský og byljir
eða myrk örlög manna?

Og sunnanblærinn, var það
sunnanblærinn
eða Sörli að þeysa í garð?

Slíks spurði enginn …

Svo splundraðist eitthvað
í mönnum og veðrum,
mönnum og orðum …

Mörgum orðum.

Það er hluti af galdri ljóðsins að varpa fram spurningum sem lesandanum er látið eftir að svara. Hér eru andstæður vetrar og sumars, náttúru og manns og skáldskapar og veruleika dregnar upp og vísað um leið í þekkta frásögn úr fornsögum, nánar tiltekið Ljósvetninga sögu eða Sörla þátt eins og skáldið getur um í Athugasemdum aftast í bókinni. Framan af ljóðinu ríkir jafnvægi í reynslu manna, innra lífi þeirra og ytra umhverfi, veðri og árstíð og orðum, en svo splundrast allt, samhengið hverfur. Rof er rétta orðið í samhengi þessa ljóðs. Ljóðið lýsir þannig í nokkrum hnitmiðuðum línum stórtíðindum 20. aldarinnar hér á landi, þegar nútíminn hélt innreið sína fyrir alvöru í íslenskt samfélag og umbylti öllu lífi landsmanna.

Þorsteinn frá Hamri hefur ávallt sýnt í ljóðum sínum undraverð tök á tungumálinu og ljóðstíl allra alda sem hann steypir saman í mjög persónulegan og auðþekktan stíl sem engum líkist nema honum sjálfum. Ekki er ort undir föstum bragarháttum en oft bregður þó fyrir ákveðinni hrynjandi og sama má segja um ljóðstafi. Endarím er reyndar algengara í Skessukötlum en í mörgum fyrri bókum Þorsteins. Ljóðið „Af jörðu“ er gott dæmi um hvernig skáldið beitir endarími á listilegan hátt:

Ég sé þig ekki
en samt ertu hér
í seilingarfjarlægð
rétt hjá mér

eins og þú viljir
vera til taks;

nú blikar við sólu
hvert blóm, hvert ax

og vötnin mín, innra
sem ytra, þau glóa
í aftanskini
með sýn til skóga …

Þeir vænta mín, hljóðir.

Þú verður til taks!
En dokaðu örlítið.

Ekki strax.

Hér er í senn miðlað mikilli kyrrð, magnaðri náttúrukennd og sterkri lífsþrá. Dregin er upp af listfengi fögur náttúrumynd af kvöldbirtu, vötnum og skógum sem leiðir hugann að öðrum Þorsteini sem stundum er ekki fjarri í ljóðum Þorsteins frá Hamri – Erlingssyni og línu hans úr ljóðinu „Lágnætti“: „vötn og skógar þegja“. Þetta er andartak þegar tíminn stendur kyrr og skáldið biður um að fá að njóta þess lengur. En titill ljóðsins – „Af jörðu“ – gefur líka vísbendingu um hver það er sem verður til taks innan skamms en er beðinn að doka svolítið lengur.

Þorsteinn frá Hamri kann öðrum skáldum betur þá list að fá lesendur sína til þess að staldra við í amstri daganna og hugleiða stað og stund, líf okkar andspænis ómæli tímans. Og við sem lesum tökum heilshugar undir með skáldinu þegar það segir:

Hve skært það ljómar
orðið …

Guðbjörn Sigurmundsson