Steinar Bragi. Konur.

Nýhil, 2008.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2009.

KonurOft hefur meira verið logið í bókakynningum en því að síðasta bók Steinars Braga, Konur, hafi vakið áhuga, umtal og lof gagnrýnenda. Það hefur heldur ekki farið fram hjá bókmenntaáhugafólki að Steinar Bragi hefur skapað persónulegan og einstakan tón í bókum sínum: þéttan, grófan og svolítið melankólskan. Þá er vísað til stíls, myndmáls og framsetningar sem hringsólar oftar en ekki um einhvers konar myrkur og innilokun. Oft fljóta draumur og veruleiki, fantasía og raunsæi saman þannig að erfitt er að sjá hvað er raunverulegt og hvað ímyndun og erfitt getur verið að sjá hvernig höfundurinn vill að sagan sé lesin. Húsin í sögum Steinars Braga eins og húsið í Turninum (1999), ranghalar og leyniherbergi í Áhyggjudúkkum (2002) og „andsetna“ blokkaríbúðin á Melunum í Sólkskinsfólkinu (2004) eru eins og undanfarar hússins og íbúðarinnar sem leikur svo stórt hlutverk í Konum (2008).

Í boði útrásarvíkinga

Sagan segir frá Evu sem kynnist elskulegum íslenskum bankamanni í New York og þegar hann fréttir að hún sé á leiðinni til Íslands býður hann henni að búa í íbúðinni sinni meðan hún þurfi og vilji. Íbúðin reynist vera á efstu hæð í glæsilegu fjölbýlishúsi fyrir ríkt fólk, merkjavörufólk, sem stundar líkamsrækt sér til hugarhægðar á daginn. Eva fer með stúlku sem hún kynnist þar á VIP bar þar sem blindfullt og útúrdópað verslunar- og viðskiptafólk sýnir sig og sér aðra. Þetta er Reykjavík fyrir hrunið – Róm fyrir brunann. Íbúðin á efstu hæðinni er eins og leiksvið og Eva uppgötvar smám saman að henni er ætlað ákveðið hlutverk á þessu sviði en hvar eru áhorfendurnir og hver hefur skrifað leikritið? Eva kemst á þá skoðun að ekki borgi sig að komast að því heldur sé best að koma sér burt enda gerist lífið í húsinu æ óhugnanlegra en þá uppgötvar hún að hún hefur verið læst inni. „Meðferðin“ stigmagnast og fram fer kerfisbundið niðurbrot á ungu konunni sem endar á dauða hennar.

Sérvalin

Þegar búið er að læsa Evu inni og byrjað að pynta hana rifjar hún upp kynni sín af íbúðareigandanum og skilur þá hvers vegna hún hefur fengið þetta kostaboð. Hún fer upphaflega til bankamannsins til að betla styrk vegna heimildamyndar sem hún hyggst gera, fellur saman fyrir framan hann og gusar því upp úr sér að hún hafi misst barn, sé að skilja, viti ekki hvað hún vill í lífinu og eigi enga fjölskyldu eða vini á Íslandi eða neinn sem þyki vænt um hana. Þar og þá velur bankamaðurinn hana þó að hann þurfi að ráðgast við menn. Eva skilur líka að þær sex manneskjur sem hún hefur kynnst í húsinu hafa frá upphafi verið að blekkja hana og leika í leikriti sem mun leiða til dauða hennar. Eins og Truman Burbank í kvikmyndinni The Truman Show er hún eina manneskjan sem veit ekki að hún býr í sýndarveruleika, umkringd lygurum og hún hefur verið blekkt og svikin. Hún skilur sömuleiðis að eftir að henni hefur verið gefið svefnlyf á kvöldin er hún færð út úr íbúðinni og öll ummerki um reiði hennar, ótta, einmanaleika og eiturneyslu eru fjarlægð svo að morguninn eftir er eins og ekkert hafi gerst. Hver fjármagnar þetta? Augljóslega standa auðugir aðilar á bak við þessa dýru sýningu en hverjir?

Losti

Frá fyrsta degi finnst Evu að horft sé á hana í íbúðinni og hún fær það staðfest seinna þegar henni er sýnt í sjónvarpinu að hún er stöðugt „í mynd“. Óafvitandi virðist Eva vera í beinni útsendingu, eins konar veruleikasjónvarpi, þar sem einhver eða einhverjir hafa aðgang að henni allan sólarhringinn. Þessir áhorfendur geta horft á vaxandi frelsisskerðingu þar til hún er lokuð inni. Þeir sjá hvernig vilji hennar er brotinn því henni er harðlega refsað fyrir sérhverja uppreisnartilraun, hún er hengd upp á fótunum, henni er nauðgað, hún er svívirt og til að forða sjálfri sér frá drukknun verður hún að drepa stúlkubarn. Hún er lömuð með eiturlyfjum og veruleikamat hennar er rugluð með ofskynjunarlyfjum. Einhver hefur af þessu mikla gleði.

Klámkvikmyndir hverfast alltaf um það að sýna allt – annars væru þær ekki klám. Venjuleg klámkvikmynd hefur í raun hefðbundnara og ósveigjanlegra form en oddrímað gagaraljóð. Klámmyndir hafa enga frásögn. Slavoj Zizek segir að ástæðan fyrir því að engin frásögn fær inni í klámmyndum sé sú að enga kröfu megi gera um túlkun eða tilfinningalega þátttöku. Ef þú vilt „sjá allt“ missirðu þetta, segir hann. Þú færð hins vegar að sjá sæði sprautast nokkrum sinnum og þetta er kallað „money shot“ því klámið er reðurmiðað, stefnt að karlmönnum og verður að sýna frammistöðu þeirra eins og virkan goshver, Strokk en ekki Geysi – ef út í það er farið. Vandamálið er að fullnæging kvennanna er ekki jafn áþreifanleg, áhorfandinn hefur ekkert til vitnis um að leikkonurnar séu ekki að gera sér upp læti. Þetta er hin sára staðreynd klámsins og þeim mun sárari sem þetta er mjög raunsæ kvikmyndagrein sem stendur í raun nær heimildamyndum en listrænum myndum.

Sagt hefur verið að klám snúist um tvennt; yfirráð og einmanaleika. Ef ekki er hægt að ná valdi yfir nautn konunnar er kannski hægt að ná valdi yfir kvöl hennar? En kvölin hörfar líka undan kvalaranum. Því þó að konan sé pyntuð í „sjónrænu æði“ („frenzy of the visible“) sem sviðsetur og leikgerir valdið – þá getur kvalarinn samt ekki treyst því að kvölin sé sönn og hún verður því fyrst og fremst vitnisburður um vald hans, segir Linda Williams í bókinni Hard core (bls. 203). Hún er að tala um klámmyndir þar sem allir aðilar leiksins hafa undirritað ráðningarsamning um að gera það sem þeir eru beðnir um. Og það er sem sagt ekki nógu gott fyrir þá sem vilja alvöru raunsæi.

Gjörningur?

Nú er kynnt til sögunnar athyglisverð persóna, fagurfræðilegur hryðjuverkamaður, Joseph Novak að nafni, forsprakki hópsins „Eyðileggingarinnar“ sem samanstendur af listamönnum frá lýðveldum fyrrum Júgóslavíu. Hann hefur slegið í gegn fyrir ofbjóðanlega „and-húmaníska“ list þar sem skelfilegir gjörningar eru látnir sýna áhorfendum helvíti á jörð. Novak er það hins vegar ekki nóg að vera höfuðpaurinn í þessu helvíti. Eftir að sýningu lýkur kemur venjulega túlkun áhorfenda og gagnrýnenda en Novak vill ekki að verkinu ljúki og hann vill ekki missa valdið yfir því. Listaverk hans sem Hannes Sigurðsson kaupir fyrir Listasafnið á Akureyri heitir „íþróttataska með lifandi eða dauðum hundi“ og enginn skilur verkið fyrr en Lúkasarmálið kemur upp. Merkingin kemur þannig á eftir verkinu og listamaðurinn getur búið til atburðarás eða keðju sem aldrei endar ef hann vill. Þetta er ástríðubúskapur hinnar afbrigðilegu kynnautnar sem hverfist um valdabaráttu sem aldrei lýkur. Öfugt við það sem gengur í venjulegu klámi beinist þrá kvalalostans að spennunni en ekki útrásinni því að í henni missir kvalarinn yfirráðin sem eru það eina sem skiptir hann máli. Yfirráðin yfir hverju? Oftast er það kona eða hið mjúka og kvenlega sem er pyntað því að kvalalostinn er tengdur hinum refsandi föður, valdinu og yfirsjálfinu. Um hið nýja listaverk sitt „Konur“ segir Novak að það verði hvorki vinsælt né fallegt. „Það verður hins vegar sigur listarinnar yfir viðtökunum, og lífinu.“ (164) Þetta er ótrúlega stórmennskubrjálað verkefni en listamaðurinn réttlætir það í raun með öðru enn viðameira verkefni sem er stríðið milli kynjanna.

Karlar sem hata konur

Novak segir við blaðamanninn að listaverkið „Konur“ verði kannski aldrei sýnt og hann segist ekki vita hvenær því ljúki og „kannski mun enginn hafa kynni af því, nema af afspurn – úr hverjum þeim réttarsal sem tekur það til sýninga!“ (168) Þrátt fyrir þessar dularfullu yfirlýsingar getur Novak þó ekki stillt sig um að sýna blaðamanninum verkið í tölvunni og þar blasir við mynd af „þremur styttum umhverfis borð, en í smærri römmum á skjánum eru konur sem virðast raða í sig töflum, og ein sem gengur um gólf og reykir.“ (168) Þessa sömu mynd sér Eva þegar hún stígur gegnum vegginn milli íbúðanna á efstu hæðinni í lokakafla bókarinnar og sest við borðið þar sem fyrir sitja Marie og Grace, dánu konurnar tvær sem voru forverar hennar í íbúðinni. Hún er síðasta konan af þeim þremur sem Novak hefur drepið með og í „list“ sinni eða „sigrinum yfir lífinu“ eins og hann kallar það. Smærri rammarnir sýna hlutskipti kvennanna eins og Novak vill sjá það, þær eru niðurlægðar, getulausar og gjörsigraðar. Ef út í það er farið er Eva því pólitískur fangi, stríðsfangi, með því að pynta hana og drepa staðfestir valdið að það má og getur farið svona með hana og þar með réttlætir það sjálft sig.

Steinar Bragi lætur Novak ekki fara dult með hatur sitt á konum eða þá fullvissu að honum og öðrum körlum sé skylt að halda þeim völdum sem þeim beri vegna yfirburða sinna og þetta stríð sé háð og verði að heyja á öllum vígstöðvum. Það leikur ekki vafi á herskárri andstöðu höfundarins gegn hugmyndafræði hinnar ýktu karlmennsku fasisma og hernaðarhyggju. Spurningin er hvort og hvernig bókinni Konum tekst að segja eitthvað um þetta viðfangsefni sem sýni það í nýju og gagnrýnu ljósi. Melódramað togar svolítið í þessa bók, sterk gildi takast á eins og í myndum Lars von Triers. Um mynd hans Dogville sagði einn gagnrýnandi að kvenhatur von Triers næði þar hæstum hæðum og myndin sýndi „hina augljósu listrænu gleði [höfundarins] yfir því að horfa á konu þjást“. Hér er því haldið fram að umfjöllun von Triers um sadisma sé sadistísk. Verði höfundurinn hins vegar of fordæmandi og móralískur breytist verk hans í tímalausa dæmisögu og missir sinn pólitíska slagkraft. Það er sem sagt nokkur hætta í því fólgin að ætla að beita hinu illa gegn því illa eða nota hið illa til að gera gott, eins og Galdra-Loftur sagði forðum.

Innsta lagið á fagurfræðinni?

Í ritdómum um bókina vekur það athygli hvað hún kveikir mikil hugrenningatengsl hjá ritdómurum: Gauti Kristmannsson nefnir verk Söru Kane og nýlistarsýningu í Frankfurt, Björn Þór Vilhjálmsson talar um kvikmyndaverk Michaels Haneke, Úlfhildur Dagsdóttir nefnir bíómyndirnar Slivers, Frontièr(s) og Hostel auk skáldsögunnar Sagan af O. Við þennan lista gæti ég líka prjónað og tengingarnar benda til þess að Steinar Bragi sé að vinna með þemu sem eru mjög áleitin í samtíma okkar, bæði í fjöldamenningu og íslenskum samtímabókmenntum. Tilfinningin um afmennskun, varnarleysi og getuleysi, tilfinningin um að vera viðfang gláps og græðgi annarra, hlutur meðal hluta, er líka til umfjöllunar í nýjum bókum Hermanns Stefánssonar, Guðrúnar Evu Mínervudóttur og Braga Ólafssonar svo að nokkur séu nefnd.

Steinar Bragi fjallar um neyslumenninguma þar sem allt gengur kaupum og sölum, ekkert líf er utan markaðar og fjölmiðla og stóri bróðir horfir á okkur eða það sem verra er – hann horfir ekki á okkur. Tilfinningaköld sjálfshyggja er forsenda þess klámfengna ofbeldis sem Steinar Bragi fjallar um og spurður um ofbeldi, klám og óþverra í verkum sínum svarar hann: „Hroðinn svokallaður er bara ysta lagið á fagurfræði sem er enn í mótun, en felur í sér meiri innlimun ljótleika en áður hefur verið í íslenskum bókmenntum, smíði flóknari frásagnarhátta, hugmyndakerfa, siðferðis, en rúmast hefur í kankvísri ‘segja-góða-sögu’ áherslu ’68-kynslóðarinnar, svo dæmi sé tekið.“ Þetta er vel og drengilega mælt en þessi róttæku loforð á hann samt eftir að uppfylla því að þó að bókin sé kynngimögnuð hefði vel mátt hugsa og vanda fagurfræði og framsetningu hennar betur. Tungumálið er vopnið sem höfundurinn berst með og eigi að nota það til stórræða verður það að bíta.

 

 

Dagný Kristjánsdóttir