Helgi Ingólfsson. Þegar kóngur kom.

Ormstunga, 2009.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2010.

Þegar kóngur komÍ góðum höndum er skáldskapurinn öflugt tæki til þess að varpa ljósi á sögulega atburði, því í krafti hans er hægt að komast handan við sagnfræðilegar girðingar af ýmsu tagi. Oft er nefnilega eins og ýmis söguleg atvik lokist inni í hinu stóra heildarsamhengi sagnfræðinnar og þá þarf eitthvað sérstakt til þess að þau taki sig út og ljómi í einstæði sínu. Til dæmis blasir það við, þegar búið er að benda manni á það í sögulegri skáldsögu, hvílíkur stóratburður koma Danakóngs og -Íslands til Reykjavíkur árið 1874 var í fábrotnu samfélagi þess tíma og hlaut að enduróma um allt land. Íslendingar höfðu almennt verið býsna jákvæðir í gegnum tíðina gagnvart kóngi lengstum, alþýðan hafði haft sinn arfakóng á hávegum eins og algengt var með þjóðum þar sem valdsherrann var fjarri vettvangi. Fjarlægðin gerir mennina mikla … Jafnvel harðir sjálfstæðissinnar 19. aldar voru furðu stimamjúkir gagnvart konungsvaldinu, hlífðu kóngi að mestu við ásökunum um bágan hag lands og þjóðar – en kenndu frekar embættismönnum um það sem aflaga fór, með réttu eða röngu. Hinn góði vilji konungs náði ekki í gegn né heldur náðu eyrum hans óskir þegnanna um réttlæti. Það hlaut því að vera stór stund þegar hans náð þóknaðist náðarsamlegast í fyrsta sinn í sögunni að stíga sínum konunglega fæti á þessa hjálendu sína og íslenskum almúga auðnaðist loksins að berja augum konung sinn og alvörueintak af eðalbornum með blátt blóð í æðum.

Það er því snjöll hugmynd hjá Helga Ingólfssyni að nota konungskomuna 1874 sem ramma utan um sögulega skáldsögu og nýta til þess að lýsa upp samfélagið. Heimsókn konungs kemur róti á hversdagsfásinnið og huga manna, og gefur þannig tækifæri til þess að draga upp breiðari mynd af íslensku samfélagi en ella því heimsóknin snertir alla, háa sem lága. Og sannarlega birtist okkur breið samfélagsmynd í sögunni Þegar kóngur kom; hér stígur fram vatnsberinn Sæfinnur á sextán skóm í daunillum hjalli sínum úti við Geirsbúð og svo meira eða minna flestir broddborgararnir sem eru vitaskuld á hjólum í kringum kónginn og reynir þar hver að ota sínum tota. Í því stjákli afhjúpast bæði hégómaskapur og minnimáttarkennd sem hafa víða almenna skírskotun.

Helgi Ingólfsson hóf rithöfundarferil sinn með tveimur sögulegum skáldsögum um Róm til forna, en skrifaði síðan nokkrar prýðilegar gamansögur úr Reykjavík samtímans. Sú fyrsta þeirra, Andsælis á auðnuhjólinu, um hinn seinheppna kennara Jóhannes hefur notið mikilla vinsælda og eftir henni var gerð samnefnd kvikmynd á síðasta ári. Helgi starfar sem kennari í MR, og þekkir greinilega vel til sögu þeirrar stofnunar og húsakynna, eins og glöggt kemur fram í Þegar kóngur kom. Vel má reyndar ímynda sér að dagleg viðvera hans í sögufrægu húsi Lærða skólans hafi beinlínis verið kveikja sögunnar eða einhverra atburða hennar. Til að mynda hefur þurft gagnkunnugan mann til að skrifa þáttinn um húsvörðinn Jón Árnason þjóðsagnasafnara og kolakjallarann.

Þegar kóngur kom er á yfirborðinu saga um glæp, en eftir því sem henni vindur fram skiptir morðið í upphafi sögu sífellt minna máli, en athyglin beinist þeim mun meira að barni hinnar stoltu en ógæfusömu Siggu tólf og meira er kynt undir spursmálinu um hver hafi verið barnsfaðirinn. Þessa fléttu notar Helgi til þess að draga upp mynd af mannlífinu í Reykjavík og er skemmst frá því að segja að sú mynd er í senn ótrúlega fjölhliða og trúverðug. Helgi hefur unnið heimildavinnu sína af mikilli gaumgæfni og komið auga á marga sniðuga atburði og smáatriði sem hann nýtir sem krydd í söguna og til þess að breikka mannlífsmyndina. Dæmi um slíkt er frásögnin af fallbyssuslysinu í Öskjuhlíð sem Helgi tengir meginfléttu sögunnar. Alveg frá upphafi sögu grunar lesanda raunar að meira hangi á spýtunni en morðið á Siggu tólf, og Helgi ýtir lævíslega undir slíka tilfinningu. Samt tekst honum að koma lesanda á óvart í lokin – og nú er rétt að tala undir rós til þess að spilla ekki fyrir væntanlegum lesendum – og um þann snúning allan má segja, eins og um söguna í heild, að hann er bæði trúverðugur og skemmtilegur í sögulegu samhengi. En við þennan snúning breytist eðli frásagnarinnar; Þegar kóngur kom verður skáldsaga sem veltir upp spurningum um samspil tilviljana í sögulegu samhengi og hvernig sagan hefði orðið önnur ef örlögin hefðu hagað sumum hlutum öðruvísi.

Um trúverðugleikann veldur mestu hvern höfundur velur til þess að segja söguna og vera í forgrunni hennar. Gömlu og sígildu bragði er þar beitt; handrit kemur í leitirnar, að þessu sinni gamalt handrit úr Vesturheimi, þar sem leynist frásögn Móritzar Halldórssonar læknis af atburðum sem urðu árið sem hann varð stúdent, konungskomuárið 1874. Eitt margra atriða sem gera Móritz stúdentsefni að hentugum sögumanni er faðir hans, Halldór Kr. Friðriksson yfirkennari sem kemur mjög við sögu. Halldór var alla tíð nátengdur Sóma Íslands, studdi hann gegnum þykkt og þunnt, og stóð að öðru leyti nokkurn veginn eins hátt á strái í íslensku samfélagi á þessum tíma og hægt var að komast, var til dæmis í forsvari fyrir undirbúning konungskomunnar. Halldór virðist hafa verið sérkennilegur maður, var sagður heldur þurrpumpulegur og stífur kennari, en hafði mikinn metnað og lenti í ýmsum útistöðum við menn, meðal annars Terka rektor, eins og vel er dregið fram í bókinni. Sú virðing sem Halldór Kr. naut var ekki síst sprottin af því að hann var síðasti ábyrgðarmaður Fjölnis, bar meðal annars ábyrgð á lokaheftinu sem geymdi kvæði og sögur Jónasar Hallgrímssonar. Þeir Jónas voru kunningjar, þó ekki væru þeir nánir. Jónas orti meðal annars um hann gamankvæði, nokkuð kaldranalegt, „Dóri litli dreptu yður …“ þar sem hann „leggst á kalið eyra“. Mynd Halldórs yfirkennara er sannfærandi í bók Helga, rímar vel við heimildir en honum tekst að gæða hann lífi og sérkennum. Saman ná feðgarnir utan um lungann af íslenskri borgarastétt; þeirra sem valdið hafa og þeirra sem munu landið erfa.

Fyrir utan stétt og stöðu þá hentar Móritz Halldórsson líka ágætlega sem sögumaður því hann hvarf að mestu leyti úr íslensku samhengi eftir að hann hrökklaðist frá Danmörku vestur um haf eftir að hafa setið í tukthúsi fyrir afbrot í starfi sínu sem læknir. Saga hans er út af fyrir sig merkileg; eins og svo margra er það saga um andstæður upplags og veraldargengis, mikils metnaðar og brostinna drauma. Móritz var áberandi meðal Íslendinga í Danmörku, var einn Velvakanda-manna sem svo voru kallaðir og börðust fyrir aukinni siðvæðingu á Íslandi og gagnrýndu mjög hart embættismenn og ýmsa valdamikla pósta á Íslandi. Á tímabili virðist Móritz hreinlega hafa verið einn lykilmanna þessa félagsskapar í Kaupmannahöfn, mjög orðaður við þingmannsframboð og veraldlegan frama. Þeim mun meira varð fall hans, en svo virðist sem hann hafi að einhverju leyti tapað áttum og dómgreind árin fyrir handtökuna, og er af því löng saga sem ekki verður rakin hér, en vísa má í hinar bráðskemmtilegu bækur Þorsteins Thorarensen um aldamótin, Gróandi þjóðlíf og Móralskir meistarar. En vel má gera sér í hugarlund hin þungu spor Halldórs Kr., yfirkennarans siðprúða, þegar hann siglir utan og gengur á milli valdamanna til þess að biðja um vægð fyrir hönd síns efnilega en fallna sonar.

Sú staðreynd að Móritz hneigist til náttúruvísinda og læknastarfs skiptir líka máli því það leiðir hann á fund skemmtilegustu persónu sögunnar, Jóns Hjaltalíns landlæknis. Jón Hjaltalín, fæddur 1807 og jafnaldri Jónasar Hallgrímssonar, var stórmerkur vísindamaður og frumkvöðull á sínum tíma. Hann stofnaði meðal annars mikla vatnslækningamiðstöð í Klampenborg, skammt fyrir utan Kaupmannahöfn, þangað sem margir fara enn á baðströnd eða á Bakken í Dyrehaven rétt hjá. Að einhverju leyti virðist sem enn lifi á Klampenborg hugsjón Hjaltalíns landlæknis um lækningamátt vatnsbaða, sem er skemmtilegt og sýnir framsýni hans. Þegar Hjaltalín varð landlæknir flutti hann heim, og kemur vel fram í sögunni hið erfiða hlutskipti vísindamannsins að búa í svo frumstæðu þjóðfélagi og hafa sálufélaga fáa. Hjaltalín gegnir lykilhlutverki í morðrannsókninni sem vindur upp á sig, er á stundum eins og Sherlock Holmes og dr. Watson er þá hinn bókhneigði alþýðumaður og lögregluþjónn Jón Borgfirðingur. Raunar er það Jón Borgfirðingur sem með glöggskyggni sinni beinir rannsókninni inn á óvæntar brautir, og Móritz er svo eins konar lærlingur í hópnum með körlunum, þriðja hjól sem nemur og meðtekur – rétt eins og lesandi.

Þótt sagan hefjist á morði og ráðgátan því tengd sé leiðarþráður skáldsögunnar, þá rís hún hæst í lifandi myndum af mannlífinu í Reykjavík. Ýmis smáatriði og nostur við blæbrigði skila sér í afar skemmtilegri og vandaðri lýsingu á bæjarbrag. Stéttskiptingin er til dæmis vel dregin fram, skólapiltar eru verðandi embættismannastétt, og hrokafullir eftir því, og broddborgarar stofna skotveiðifélag sem eins konar fyrirmennasport. Í misjafnlega mikilvægum hlutverkum eru svo ýmsir þjóðkunnir menn. Einna minnisstæðastir eru skólapiltarnir og síðar Verðandi-mennirnir Gestur Pálsson og Bertel Ó. Þorleifsson sem báðir tengjast atburðum sögunnar beint og skipta máli í framvindunni. Báðir eru þeir vel dregnar persónur og ganga alveg upp, Gestur þá þegar í nokkrum uppreisnarhug og hneigður til drykkju en Bertel stríðir við taugaveiklun.

En þótt þetta sé karlasaga úr karlasamfélagi þá felst mikilvæg vísbending í því að nútímalegasta persóna sögunnar er kona: Sigga tólf sem býður stéttskiptingunni byrginn og er framsækin í skoðunum og stoltri afstöðu sinni. Örlög hennar mega kallast táknræn og ekki fer heldur hjá því að örlög barns hennar fái sömuleiðis táknlega merkingu. Með óvæntum hætti talar sagan þannig allt í einu beint inn í okkar myrku tíma á Íslandi.

Stundum þykist maður sjá á lýsingum persóna hvaða heimildir Helgi hefur stuðst við. Til dæmis sýnist mynd þjóðskáldsins Matthíasar Jochumssonar að nokkru sótt í Dægradvöl Benedikts Gröndals, þar sem Bensi pirrar sig oft á hégómaskap Matthíasar sem honum fannst uppfullur af sjálfum sér og þurfa endalaust að troða sér að með kvæði sín og efni. Í þessu sambandi er rétt að nefna sérstaklega hversu samtölin eru vel gerð, og stílsnið hverrar persónu trúverðugt. Þó er þar ekki farin auðveldasta leiðin, og stundum teflt á hálan ís eins og með Hjaltalín landlækni og allar hans slettur. Þetta gefur sögunni aukið líf og skemmtigildi. En vitanlega koma fyrir persónur sem ef til vill eru leiddar fram sökum frægðar sinnar fremur en vegna tilgangs í sögunni. Hugsanlega hefðu einhverjir saknað Hannesar Hafstein úr persónugalleríinu, en einhvern veginn er hann svolítið úti á þekju, þótt vel megi hafa skilning á því að Helgi falli fyrir freistingunni að stilla upp svo frægum unglingi. En hugstæð er myndin af Sigurði Guðmundssyni málara, Sigga séní eins og hann er kallaður – sem minnir á að rétt er að hrósa Helga fyrir að nota viðurnefni til áhrifsauka – þar sem hann málar einn og afskiptur í tjaldi á Þingvöllum, í hinu fræga konungspartíi sem var haldið í óþökk Jóns Sigurðssonar og fór með fjárhag Þjóðvinafélagsins sem var víst aldarfjórðung að vinna upp tapið.

Og fyrst Jón er hér nefndur á nafn: Einhverjum kann að þykja sem hér falli blettur á hans mynd, en það er erfitt að fallast á slíka skoðun. Helgi fer smekklega með Sómann og ekkert sem honum tengist í þessari sögu getur talist ómaklegt eða fjarstæðukennt á nokkurn hátt. Þvert á móti má leiða gild rök að því að niðurstaða þessarar skáldsögu um Jón sé beinlínis mikilvæg fyrir þá mynd sem þjóðin ætti að hafa af hetju sinni: Þrátt fyrir allt þá var hann mannlegur.

 

Páll Valsson