Soffía Bjarnadóttir

Soffía Bjarnadóttir

eftir Soffíu Bjarnadóttur

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2013

 

I

Einn veturinn ætlaði ég að farga mér. Ég hafði reynt að taka mér ánamaðkinn til fyrirmyndar. Þegar hann er slitinn í sundur heldur hann áfram eins og ekkert hafi í skorist í tveimur pörtum.

Það er gott að sofa í moldinni dagana langa og vakna svo til lífsins á rigningarlegum nóttum, skríða upp úr myrkri vætunni sem tálbeita guðs. En ánamaðkurinn í mér var gatslitinn. Það var ekkert nema kvöl að koma sér upp úr bælinu síðdegis, ef það þá tókst. Náði yfirleitt að dröslast í kaffikönnuna rétt fyrir kvöldmatarleytið og þá fyrir tilstuðlan gæsku og vinarþels fólks sem droppaði skipulega við í tilbúnum erindagjörðum því það hélt að þetta væri einungis erfitt og sérstakt tímabil í lífi mínu en ekki viðvarandi ástand sjúkdóms og sjálfhverfu. Þetta var orðið gott. Ég hafði í hyggju að taka valdið í mínar hendur og hafa eitthvað um þessa vist að segja. Hvenær hún tæki enda í það minnsta. Ég kortlagði mögulegar aðferðir.

Henging er vissulega dramatísk sviðsetning sem hægt er að stilla fagmannlega upp með viðeigandi leikmunum. Leikskáldið Sarah Kane hengdi sig í skóreimum inni á baðherbergi á sjúkrahúsi. Ég velti þessu fyrir mér en þótti leiðinlegt að það yrði í verkahring saklauss borgara að skera hræið af mér niður eftir gjörninginn. Það gæti fylgt viðkomandi eins og svartur óþægilegur skuggi það sem eftir væri hans vesæla lífs.

Svefnlyf, dóp og annar fjári fannst mér of tilviljanakenndur brottfararmáti og miklar líkur á að enda bara á bráðadeild með uppköst og næringu í æð rétt yfir blánóttina. Það er aldrei vitað hvort maður ætlaði sér þetta eða ekki. Ekkert nema óvissan eins og í tilfelli Marilyn Monroe.

Svo var það auðvitað gasið. En ég kunni ekkert á gas til annars brúks en eldunar og gat ómögulega farið að spyrja SS-foringjann sem bjó á móti mér hvernig ætti að bera sig að. Ég var líka dauðhrædd um að stúta nágrönnum mínum í blokkinni við mögulegar gasíhlutanir. Þetta var reyndar ekki blokk í hefðbundnum skilningi heldur eitthvað limbó á milli kommúnu og blokkar. En vegna nálægðar við nágranna mína lét ég óra hugans ekki hafa mig út í neinar Sylviu Plath-stellingar, þótt mér væri nokk sama um afdrif þessa fólks. Þetta hefði getað endað með fjöldamorði á Klapparstíg 16.

Jæja, en annar möguleiki var vissulega að stökkva. Út úr kirkjuturni til dæmis eða fyrir lest eins og Anna Karenína hans Tolstojs. Ég var reyndar of huglaus fyrir stökkið og svo finnst mér slíkar aðfarir óþarflega sóðalegar ef satt skal segja. Þetta var einnig fyrir tíma lestarsamgangna á Íslandi. Ég var meira til í að láta mig hverfa svo að lítið beri á. Eins og ánamaðkur ofan í moldina. Og eins og ánamaðkurinn þá nærist ég á vatninu og þrái vatnið svo að drukknun var álitlegri kostur. Mér skilst reyndar að það sé sársaukafullur dauðdagi. Hver svo sem var til frásagnar um það. En best hefði verið að fá að sofna svo lítið bæri á í baðkarinu þennan kalda vetur því ég átti unaðslegt baðkar sem staðsett var undir opnanlegum þakglugga. Á glugganum var óvenjulangt stormjárn svo hægt var að halda þakglugganum galopnum og ímynda sér að maður væri að lauga sig undir berum himni umvafinn norðurljósum. Baðkar er sígild staðsetning. Minnir um margt á gröfina, næsti bær við rúmið.

Ég sá fyrir mér mynd eftir David þar sem byltingarleiðtoginn Marat liggur vafinn í sáraumbúðir í tígulegu baðkarinu. Hönd hans slútir fram af baðkarsbrúninni og fjaðurpenni hefur runnið úr hendi hans. Charlotte Corday drap hann reyndar svo hann hafði ekkert um sinn dauðdaga að segja. Hún stakk hann í baði. En ef ég hefði valið baðkarið þá lægi kveðjubréfið líkt og einmana laufblað á gólfinu sem hefði síðan sópast undir lausa fjöl eða flís og fyndist tvö hundruð árum síðar. Ég veit reyndar ekki hvað ég ætti að hafa skrifað í bréfið. Það hefði þurft að vera sótsvartur sannleikur sem ferðast milli kynslóða um tímalausa áþján manneskjunnar.

Kannski þægilegast að vera einfaldlega tekin af lífi. Fallöxin er afgerandi. Mér líka ekki núverandi aftökumátar. Að vísu má segja að það að skera í sundur æðar sé aðferð sem ánamaðkurinn þekkir. En það er helst til of hægfara ferðalag nema ef skorið er á slagæðar í hálsi. Ég hefði kosið vatnsbað frekar en blóðbað.

Hafið heillaði mest. Óendanlegt djúp og maður hefði verið dáleiddur þangað af selsaugum einum saman og förinni ekki heitið neitt annað en heim. Fallegt. Jeff Buckley fylgdi söng sírena út á reginhaf og hvarf. Virginia Woolf skellti steinum í vasann áður en hún hélt af stað héðan og sökk. Eða leggjast til svefns á ánni, loka augunum eins og Ófelía, viti sínu fjær. Öruggasta leiðin er þó eflaust að skjóta sig í hausinn á hóteli. Karlmannlegt. Hemingway og vískí. En æ nei, ég hafði nú ekkert byssuleyfi og var smeyk við að munda vopn.

Bálkestir og krossfesting komu líka upp í hugann þennan kalda vetur. Alvöru fórnardauði sem hæfði ástandinu. En þá hefði ég þurft að ráða til mín fólk í vinnu við að negla mig á krossinn og koma síðan krossinum og sjálfri mér upp á góðum stað með útsýni. Eða jafnvel að fá einhvern til að kveikja í bálkestinum. Bölvað vesen. Það er til of mikils mælst að notfæra sér hjálpsemi fólks til að ráðast í slíkt líknardráp.

Ef Lína langsokkur fengi nóg af lífinu hvernig myndi hún bera sig að? Hún myndi allavega sjá um þetta sjálf, það er morgunljóst. Færi bara á eilífðar fyllirí með hestum og öpum þessa heims, dröggaði sig inn í sjálfseyðingu og blús. Nei, að sjálfsögðu ekki hún Lína. Hún myndi kaupa sér bláan þyrlufugl sérhannaðan til handanferða fyrir gullið sitt. Myndi fylla fuglinn af pönnukökum og sýrópi, taka síðan af stað um miðja nótt án frekari ummerkja. Sjónarhóll yrði samur við sig og löngu síðar flytti þangað inn nýbökuð fjölskylda með viðkvæma hamingjuna í farangrinum. Það væri nú ekki svo slæmt. Að hefja nýtt líf á Sjónarhóli fimmtíu árum eftir dularfullt hvarf herragarðseigandans.

Af öðrum aðferðum má nefna útigang og óbyggðir, kynlíf, sjúkdóma, sult, ofát, drykkju og ástarmein. Ég hafði reyndar ekki hugarflug í að ganga svo langt að elska til dauða. Það hefur þó verið margreynt. En ég velti aðferðarfræði sjálfseyðingarinnar töluvert fyrir mér þennan kalda vetur þegar ánamaðkarnir ásóttu mig sem aldrei fyrr. Ég átti ótal andvökunætur. Bronkítis var orðið mitt vanalega ástand og ég ímyndaði mér að ég væri komin með tæringu. En þetta var ekki einu sinni lungnabólga heldur einungis þrálátur hósti og væg bólga í berkjum. Mér datt stundum Seltjörn í hug sem möguleg sviðsetning en fannst hún full nálægt mannabyggðum og Seltjarnarnesið eiginlega ekki nógu aðlaðandi. Þórbergur hafði löngum verið á leiðinni í Seltjörn eða í sjóinn frá Gróttu en aldrei tekist ætlunarverkið. Skórinn var eitthvað að þvælast fyrir honum. Það má nefnilega ekkert út af bregða þegar sjálfsaftaka er annars vegar. Flæktar reimar, gat í stígvélum, óvænt símtal getur gert út af við ráðagerðina.

II

Þetta var vetur ánamaðkanna. Ég bjó á Klapparstíg númer 16, ein með kanarífuglum sem fóru gríðarlega í taugarnar á mér. Eftir á að hyggja held ég að þeir hafi átt sökina á þessu djúpa þunglyndi sem sótti á mig. Ég deildi eldhúsi með fjölskyldu á neðri hæðinni en salerni með ungum tónlistarmanni sem svældi gras í öll mál og fyrrnefndum SS-foringja. Sá bauð aldrei góðan dag en gnísti þess í stað tönnum og barði saman hælum þegar maður heilsaði honum.

Þetta var sá alversti vetur sem ég hef lifað. Fólkið í húsinu stráféll úr hinum ýmsu meinum, fannst í nærliggjandi kjöllurum, baðkörum, bakgörðum og meira að segja einn nágranni dó sisvona á bekk í Hljómskálagarðinum. Gamla konan á móti dó inni hjá sér úr engu nema sjálfri sér. Fólkið átti sér einskis ills von, flutti inn í húsið á Klapparstíg og þá fór feigðin óðara að bæra á sér og fyllti þau djúpstæðri dauðaþrá. Sem er þrá sem býr með okkur öllum og óþarfi er að hræðast þó ekki sé meiningin að hún yfirtaki hverja einustu daglegu athöfn. En fólk sem almennt hafði ekki einu sinni hugmynd um að það væri dauðlegt fór að þrá dauðann líkt og um hinstu og einu ást heimsins væri að ræða.

Það var kominn nóvember. Mig minnir að Henrik Nordbrandt hafi skrifað að það séu fimmtán mánuðir í árinu: janúar, febrúar, mars, apríl, maí, júní, júlí, ágúst, september, október, nóvember, nóvember, nóvember, nóvember, desember. Eða voru þeir sextán? Nóvember, þegar dimman dettur á. Það var bæði skítugt og kalt á Klapparstíg og flestar hæðir hússins voru fullar af draugum. Risið, þar sem ég hírðist, var verst. Það var ekki þverfótað fyrir dánu fólki og það ekki beint hamingjusömum einstaklingum. Það gefur kannski auga leið þar sem þau voru að hanga í þessu skítapleisi við Klapparstíg eftir að hafa smeygt sér yfir limgerðið. Ég sá þau samt ekki en fann áþreifanlega mikið fyrir þeim og heyrði stanslausan umgang. Þetta var gjörsamlega óþolandi. Ef það voru ekki kanarífuglarnir þá var það þetta dauða lið sem hékk eins og mara inni í íbúðinni minni. Meira að segja á sameiginlegu klósetti okkar SS-foringjans fékk maður ekki frið fyrir þessu ósýnilega og heimtufreka fólki. Það var því ýmislegt að angra mig þennan vetur. Það var ekki einungis veröld ánamaðksins sem sótti að mér heldur einnig vonbrigðin. Veröldin breyttist í vonbrigði.

III

Fyrir valinu varð fimmtudagurinn 21. nóvember á fullu tungli. Ég hafði ákveðið að blanda saman að minnsta kosti tveimur aðferðum og hugðist byrja á því að halda vestur á Snæfellsnes í kirkjugarð ömmu. Það var eilítill beygur í mér og mér fannst ég þurfa að fá blessun frá gömlu konunni sem grafin er á Ingjaldshóli. Eftir það voru tveir möguleikar í stöðunni. Sá fyrri var að fara að Gufuskálum sem býr yfir æsandi indíánamannvirki.

Það gæti komið sér vel ef stökkið yrði fyrir valinu. En til að hugleysinginn hefði þor í slíkt hefði verið betra að taka inn kvíðastillandi áður. Vandinn er hins vegar að þegar kvíðastillandi er tekið inn þá eru hverfandi líkur á að ætlunarverkið takist því það slaknar á öllum veraldarvonbrigðum. Seinni möguleikinn var að láta hafið heilla sig með hjálp huldufólks. Ég vissi til þess að huldufólk byggi í kletti sem staðsettur er í fjöru neðan við Hellisand. Hugmyndin var að fara sjóleiðina og biðja huldufólkið um aðstoð við að kalla út sel úr nágrenninu sem ég gæti fylgt eftir.

Dagurinn var runninn upp og ferðaspenningurinn lét á sér kræla. Ég ákvað að skilja eftir litla nótu og þakklætisvott fyrir hjálpina í stríðinu til vinafólks sem hafði haft fyrir því að púkka upp á mig. Það voru fáir á lífi á Klapparstíg 16 og því hafði ég ekki áhyggjur af nágrönnunum. Þeir myndu ekki sakna mín. Kanarífuglarnir fundu hins vegar á sér að eitthvað stóð til, þeir hljóðnuðu í fyrsta sinn eftir að ég flutti inn í húsið. En þeir höfðu fylgt íbúðinni og því gerði ég fastlega ráð fyrir að þeir myndu ekki taka vistaskipti mín nærri sér.

Ég hafði ákveðið að taka rútuna vestur. Fyrst til Stykkishólms og þaðan inn nesið. Hver mínúta var skipulögð. En sá hængur var á að ég komst ekki út úr húsinu. Það var sama hvað ég reyndi, ég komst ekki upp úr sófanum í stofunni. Það var líkt og hin ósýnilegu öfl íbúðarinnar héldu mér fanginni. Eins öfugsnúið og það nú hljómar að dáið fólk haldi okkur föstum við tilvistina. Ég var bundin við Klapparstíg 16 og gat ekki með nokkru móti hreyft mig úr fjólurauðum antíksófa sem mér hafði áskotnast á unglingsaldri. Og sem ég sit þarna í gamla sófanum og býst til ferðar fimmtudaginn 21. nóvember árið 1999 þá finn ég hvernig ástin streymir til mín upp úr plussáklæðinu.

Vissulega hafði ég oft sofið hjá á þessum rauða bedda áður fyrr, elskað og riðið og hvað það nú allt heitir. Það var hægt að breyta sófanum í svefnsófa og hreint viðbjóðslegt að sofa á þessum legubekk en hreint ekki svo slæmt að sofa þar hjá. Það var ekki fyrr en dyrasíminn hringdi að ég virtist losna úr ástarálögum sófans. Ég hrökk upp úr honum aldeilis óviss um hvað biði mín nú við dyrnar. Ýtti varlega á hnappinn og spurði titrandi rómi: „Hver er það?“ Mér heyrðist röddin vera í karlmanni en var þó ekki viss og án þess að hugsa hleypti ég viðkomandi inn í hús dauðans. Eftir þónokkra stund var barið hressilega á dyr. Ég ákvað að setja keðjuna fyrir áður en ég opnaði því mér þótti harla ólíklegt að gesturinn væri þessa heims. Þegar ég kíkti fram á flúorlýstan ganginn sá ég jakkafataklæddan karlmann, rauðbirkinn og lágan vexti standa brosandi með skjalatösku í hendinni. „Blessuð vertu, afsakið hvað ég kem seint, gatan var lokuð og ég þurfti að leggja nokkuð langt frá. Þetta er eins og draugabæli hérna, ekki nokkur sála á ferðinni. En er ekki dásamlegt að vera í þessari kyrrð? Það gæfu nú margir mikið fyrir kyrrðina skal ég segja þér.“

Ég stóð enn kyrr og velti fyrir mér hver í ósköpunum hefði sent þetta hressa kvikindi.

„Þú ert …?“

„Jú, einmitt eins og við töluðum um. Á hádegi 21. nóvember,“ svarar maðurinn eins og ekkert hefði í skorist. Mér leið hreinlega eins og ég væri stödd í mynd eftir David Lynch nema þá hefði karlinn verið dvergur í rauðum fötum.

„Ég get alveg sýnt þér tryggingarnar hér á ganginum ef þér er illa við að bjóða mér inn,“ bætti hann svo við.

Ég opnaði fyrir honum og hann var óðara kominn inn ganginn og beina leið í stofuna. Áður en ég vissi af var hann sestur í fjólurauða antíksófann minn. Antík-ástarsófann minn. Hann opnaði skjalatöskuna af mikilli festu og ég bjóst við nærri hverju sem var upp úr töskunni, en þó ekki líftryggingarplöggum. „Jæja, elskan, við vorum búin að ákveða þetta allt í símanum og þú þarft ekkert að gera annað en að skrifa undir hér á tveimur stöðum, þá er lífi þínu borgið, ef svo má segja.“

Af hverju ætli maðurinn kalli mig elsku? hugsaði ég með mér og datt í hug hvort þetta væri sófanum mínum að kenna. Ég gat ekki með nokkru móti munað þetta símtal. „Fyrirgefðu, ég er ekki alveg með á nótunum, hvaða símtal ertu að vísa í?“ spurði ég ringluð.

„Nú, þú hringdir sjálf og baðst um líftryggingu. Þú baðst sérstaklega um að fá tryggingasölumann heim til þín að ári og það varð að vera nákvæm dagsetning, 21. nóvember. Enda stöndum við hjá tryggingarfélaginu Líf þitt er mitt, ávallt við gefin loforð.“

Ég starði á hann í smástund en greip svo pennann og skrifaði undir líftryggingarskjölin í snarheitum og nánast henti manngreyinu út, dauðhrædd um að antíksófinn færi að bæra á sér aftur.

Það varð ekkert af vesturferðinni þetta árið og nóvember liðaðist áfram slitinn milli heima.

 

*

 

Mér varð hugsað til Klapparstígs 16 og vetrar ánamaðkanna nú um nítján árum síðar þegar ég rakst á minningargrein í blaðinu einn morguninn. Hann hét Gunnar Helgason og það var ekki minnst einu orði á starf hans við tryggingarfélög en hins vegar staglast á því alla greinina hversu ómissandi hann hefði verið fyrir áhugamannaleikfélag í Hafnarfirði sem bar nafnið Sárabót. Ljósmyndin af honum í blaðinu var greinilega komin til ára sinna en á henni er hann í teinóttum jakka, með ferköntuð gleraugu og brosir sölumannslega til mín.

 

 

„Klapparstígur 16 og vetur ánamaðkanna“ er brot úr skáldsögunni Segulskekkju sem er í vinnslu.