Kristín Marja Baldursdóttir. Karlsvagninn.

Mál og menning, 2009.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2010.

KarlsvagninnTvennt dynur yfir geðlækninn Gunni á einum sólarhring; það er brotist inn til hennar og þjófarnir láta greipar sópa á meðan hún sefur. „Ómissandi“ hlutum eins og farsíma og tölvum er rænt. Daginn eftir þegar Gunnur er að tygja sig til brottferðar úr bænum til að jafna sig á áfallinu kemur kunnkona hennar og þvingar hana til að taka við 14 ára dóttur sinni, Hugrúnu Lind sem kölluð er Hind, og hafa hana í fóstri yfir helgina! Skáldsaga Kristínar Marju Baldursdóttur, Karlsvagninn, fjallar um átök Gunnar og Hindar.

Átök

Stúlkan Hind er hrjáð barn. Móðir hennar er önnum kafinn arkitekt sem hefur aldrei haft neinn tíma fyrir dótturina. Hún hefur unnið fyrir Gunni sem líkar vel við hana vegna þess að hún er flink, hress og flott ung kona, en hún hefur vanrækt dóttur sína og uppeldi hennar. Fjórtán ára er Hind mikil sund- og skautakona. Hún er hins vegar ósiðuð með öllu, kann ekki almenna mannasiði eins og borðsiði, kann ekki einföldustu húsverk, er alin upp á skyndibitum, kann enga sögu, þekkir hvorki land sitt né tungu. Hún er látin tala einhvers konar unglingamál sem sumum lesendum hefur fundist ýkt eða niðrandi. Ekki má gleyma því að það er sögumaður okkar, Gunnur, sem miðlar því til okkar og lætur um leið fá tækifæri ónotuð til að leiðrétta beygingar hjá Hind, gagnrýna og fordæma málfar hennar. Hið ýkta málfar Hindar er það mál sem Gunnur heyrir hana tala.

Enginn fullorðinn hefur hjálpað Hind til að fóta sig í mannlegum samskiptum. Þegar sagan sem sögð er í Karlsvagninum hefst, er hún komin á ystu nöf. „Samkennd hennar er að hverfa. Samkenndin sem gerir hana að manneskju, manneskjur verða svo þjóð.“ (151) Ef samkenndin hverfur er það oftast afleiðing af sálrænu áfalli eða annarri reynslu sem einstaklingurinn ræður ekki við. Hverfi samkenndin er ekki hægt að samsama sig öðrum af því að einstaklingurinn getur ekki lengur séð sínar tilfinningar í öðru fólki eða deilt þeim með því. Það fer að skoða aðra sem „hluti“. Þó að þetta ástand flokkist tvímælalaust undir geðtruflun er auðvelt að fela tilfinningaleysi af þessu tagi býsna lengi í samfélagsgerð okkar, í fjölskyldum og á vinnustöðum. Þrisvar sinnum í sögunni missir Hind stjórn á sér og þá brýst fyrirvaralaust út hamslaus reiði og illska sem gera Gunni bilt við.

Nei, og mér langar ekki feitt lengur að vera á þessu djöfuls draugasetri hérna sem er ekki einu sinni tengt, ég þarf að komast í bæinn svo ég geti sent ímeil og só on, þú getur bara fokkað þér hérna sjálf!
Maður segir mig langar, ekki mér langar, segi ég stillilega, en þá sprettur hún upp, gargar: vertu ekki alltaf með hausinn uppí rassgatinu á þér þarna kelling!“ (73)

Í síðasta æðiskastinu sem barnið tekur munar hársbreidd að hún verði Gunni að bana. Þegar Gunnur horfir í augun á henni er í þeim tilfinningakuldi morðingjans.

Uppgjör

Það tekur Gunni ekki nema þrjá sólarhringa að kortleggja sálarlíf stúlkunnar. Spurningin er hvað hún á að gera við hana. Hind hefur verið þröngvað upp á hana og Gunnur er full af andúð á henni frá því fyrsta. Um leið þekkir hún sjálfa sig í Hind á einhvern hátt sem kemur aftan að henni. Hún byrjar strax að reyna að ná til stúlkunnar en gengur beint á varnarveggi hennar. Leiðin sem hún velur næst er að nálgast hana frá hlið, gegnum sögur af sjálfri sér og uppvexti sínum. Hún setur þetta upp eins og sameiginlegan rannsóknarleiðangur þeirra tveggja enda er hann það. Í raun víxlast hlutverk Gunnar og Hindar þannig að Hind tekur við hlutverki sálgreinandans sem hlustar og gerir athugasemdir við sjálfsgreiningu og óstyrka leit Gunnar að upphafi og orsökum. Það er markatilfellið Hind sem hjálpar Gunni að ná áttum í sínum sjúka veruleika.

Saga Gunnar er saga af stanslausum höfnunum ástlausrar móður eins og saga Hindar. Feður beggja eru dánir eða fjarverandi. Gunnur á tvær systur og á æskuheimilinu var amma hennar og ein vinnukona, kvennasambýli og -samfélag eins og við þekkjum úr fyrri bókum Kristínar Marju. Í húsinu bjó gamalt fólk sem hlúði að henni, í búð móðurinnar fékk hún að gegna hlutverki og hún var látin vinna öll sumur frá barnæsku öfugt við Hind sem elst upp í sundrung og einsemd stórborgarsamfélagsins og talar aldrei við fullorðið fólk utan skóla nema móðurina sem kemur heim seint á kvöldin. Eins og Hind hefur Gunnur byggt upp æ sterkari varnarveggi en í þá hafa komið sprungur við innbrotið og þar á undan við áfall sem Gunnur hefur ekki greint, skilur ekki en veit að boðar ekkert gott. Eftir síðustu og verstu átök þeirra Hindar neyðir hugurinn Gunni til að horfast í augu við tilfelli þar sem hún hefði átt að sýna tilfinningar en gat það ekki af því að samúðina vantaði. Uppgjör Gunnar varðar þannig ekki aðeins hið ólíka gildismat og viðhorf þeirra Hindar. Það er fyrst og fremst sjálfsmat og uppgjör sem reynist taka til mun flóknari sviða en stuldar á farsímum og óþolandi borðsiða.

Hver talar?

Það hefur verið gert að umræðuefni í ritdómum um Karlsvagninn hve dómhörð, sjálfsupptekin og hrokafull Gunnur, sögumaður bókarinnar, er. Sannarlega er hún allt þetta og meira til. Hún hælir sér í bókinni af því að vera góður hlustandi, góður sögumaður og góð í flestu því sem hún tekur sér fyrir hendur. Það er óþægilegt fyrir lesanda að hlusta á hroka hennar og sjálfhælni en hvort tveggja er beinlínis viðfangsefni þeirrar sjálfskoðunar sem bókin lýsir.

Móðir Gunnar ól allt sitt heimilisfólk upp í þeirri trú að fjölskylda hennar væri sérstök og einstök og framúrskarandi. Fjölskyldan er harðgerð, dugleg, siðfáguð – með sögu og ættarstolt – og vanti eitthvað upp á glæsibraginn kann fjölskyldan að fela það, bjáti eitthvað á er það bælt og látið sem ekkert hafi í skorist. Heimilið er annálað fyrir hreinlæti og myndarskap. Strangar reglur gilda um hvaðeina. Árni prófastur Þórarinsson segir frá því í sinni miklu ævisögu hvernig strangt barnauppeldið sem hann hlaut í Árnessýslu gekk næst lífi hans en eftir það mat hann aðrar uppeldisaðferðir lítils og fannst öll börn illa uppalin sem ekki fengu sömu trakteringar. Hið sama gildir um Gunni í Karlsvagninum og henni skilst smám saman í sögunni hve mikið mein það hefur gert henni.

Á hverju sumri frá því hún var 6 ára var hún send í sveit, oftast á ókunn heimili. Síðasti sumardvalarstaðurinn sem Gunnur segir Hind frá er það sóðalegasta og lúsugasta heimili sem hugsast getur en jafnframt það sem breytir lífi Gunnar. Dvölin þar byggir hana upp, þar dáist heimilisfólkið að henni, þykir vænt um hana og gefur henni nýtt sjálfstraust. Þar var sá kærleikur sem hún hefur misst sjónar á síðustu árin.

Stílfærsla

Karlsvagninn er ólíkur síðustu bókum Kristínar Marju sem voru breiðar, epískar sögur um sterka persónuleika. Karlsvagninn er stílfærð saga; hún segir frá valdabaráttu tveggja kvenna í þrjá daga. Báðar eru veikar fyrir og hrjáðar en málið snýst um hvernig þær geta byggt upp gagnkvæmt traust sem gæti orðið grundvöllur uppbyggingar.

Karlsvagninn og saga Gunnar af stórfjölskyldu sinni hefur verið lesin sem táknsaga um fall íslenska samfélagsins (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir: Miðjan 09/12/2009). Íslenska fjölskyldan fyrir hrun var sannfærð um eigið ágæti, kulnuð, hrokafull og blind á þau gildi sem í raun skipta meginmáli; ást, vináttu og virðingu fyrir öðru fólki. Að ekki sé minnst á ábyrgð foreldra á börnum sínum og afleiðingar þess að víkjast undan þeirri ábyrgð. Bókin skilur lesanda eftir frekar vongóðan um að hægt sé að byggja á rústunum þrátt fyrir allt.

 

Dagný Kristjánsdóttir