Árni Heimir Ingólfsson. Jón Leifs: Líf í tónum – ævisaga.

Mál og menning, 2009.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2010.

Jón Leifs: Líf í tónum – ævisaga

Jón Leifs: Líf í tónum – ævisaga

I.

Bókin Jón Leifs: Líf í tónum – ævisaga er langt frá því að vera fyrsta tilraunin til að gera ævi Jóns Leifs skil. Kvikmyndin Tár úr steini (leikstjóri: Hilmar Oddsson) var frumsýnd árið 1995 og ævisaga Jóns eftir sænska tónlistarfræðinginn Carl-Gunnar Åhlén sem ber hinn lýsandi titil Jón Leifs, tónskáld í mótbyr kom út árið 1999 (Mál og menning). Það verður að segjast eins og er að bæði þessi verk draga upp nokkuð einhliða mynd af Jóni: hann er misskilinn snillingur í forpokuðu og ómenningarlegu umhverfi og honum minni spámenn vilja halda honum úti í kuldanum. Bók Åhléns er reyndar hálfgert varnarskjal; Jón fékk sögulega útreið eftir frumflutning Sögusinfóníunnar á Norræna tónskáldaþinginu árið 1950 og á tímum módernismans þóttu þau verk hans sem flutt voru á nokkrum norrænum tónskáldaþingum beinlínis hlægileg. Åhlén fékk áhuga á Jóni á slíku þingi árið 1964 og hefur bók sína á að rekja þessar ófarir allar. (Ahlén: Mál og menning 1999: 7–13). Kvikmyndin sýnir samband Jóns Leifs og Páls Ísólfssonar í nokkuð sérkennilegu ljósi, Páll er eins og einhvers konar Salieri á móti Jóni í hlutverki Mozarts og minnir að því leyti á kvikmynd Milosar Formans, þar sem Salieri er allt að því sakaður um að hafa stuðlað að fátækt og síðan dauða Mozarts.

Á báðum þessum verkum er helst að skilja að Jón hafi ekki fengið tækifæri vegna öfundar og skilningsleysis honum minni manna – íslenskt samfélag hafi ekki verið reiðubúið fyrir listamann af stærðargráðu Jóns. Höfundar beggja þessara verka virðast hafa einsett sér að leiðrétta þá mynd sem þeir telja að hafi verið ríkjandi af Jóni – að hann hafi verið sérvitringur sem samdi óspilandi tónlist.

Reyndar hafa líka verið skrifaðar háskólaritgerðir um Jón, meistarprófsritgerð Hjálmars H. Ragnarssonar við Cornell-háskóla í Bandaríkjunum árið 1980 fjallaði um ævi hans og tónlist og tónskáldið Ríkharður H. Friðriksson skrifaði BA-ritgerð sína við Háskóla Íslands um Jón. Árni Heimir skrifaði raunar líka B.Mus.-ritgerð um hann við Oberlin Conservatory of Music í Bandaríkjunum árið 1997, en þar var orgelkonsert Jóns í fyrirrúmi, ekki maðurinn og tónskáldið.

Þessi áhugi kvikmyndagerðarmanna og tónlistarmanna á Jóni Leifs segir sína sögu um manninn sjálfan. Hann var óneitanlega mjög sérstæður og umdeildur og tónlist hans stóð lengi vel eins og óárennilegur og ósigrandi klettur í íslensku tónlistarlandslagi.

Af þeim verkum sem gerð hafa verið um Jón verður bók Árna að teljast gefa heiðarlegasta mynd af honum, enda er það greinilega takmark Árna – að segja allt og draga ekkert undan. Það takmark er líka í góðu samræmi við orð Jóns sjálfs sem Árni vitnar í framan við meginmál:

Lífið er svo nátengt listinni, það á ekki að dylja neitt. Ég vil vera eins og opin bók, og allir mínir gallar og allar mínar syndir og allt saman má koma fram, því það er nátengt minni list. Það er allt opið. Við erum að gefa okkur sjálfa, við erum að gefa okkar sál frá dýpstu hjartarótum í listinni, og þá mega menn líka hafa hitt til skýringar ef þeir vilja. (Viðtal Jónasar Jónassonar við Jón í þættinum „Í vikulokin“ á rás eitt, árið 1964).

Árni segir í upphafi bókarinnar: „Ekki er hann ávallt viðkunnanleg söguhetja en hér er leitast við að bregða upp réttlátri mynd af kostum hans og göllum. Af hvoru tveggja átti hann nóg.“ (Bls. 8) Þetta er raunar kjarni málsins. Jón Leifs virðist hafa verið stórbrotinn bæði í göllum sínum og kostum og ekki hægt að afgreiða hann með einföldunum. En einkunnarorð bókarinnar gefa fleira upp um Jón en þá ósk hans að vera lesinn eins og opin bók. Líf hans og list eru tengd órjúfandi böndum, og allt hans líf var list hans í fyrsta sæti og ástvinir hans og vinir urðu að lúta því. Enda var Jón kornungur þegar tónlist og reyndar fleiri listgreinar áttu hug hans allan. Í æsku hélt Jón dagbók og þar er þessi færsla í janúar árið 1915. Jón var þá 16 ára.

Það er stundum, að það leggst á mig einhver löngun, til þess að skrifa hjá mér hugsanir mínar. Það er einkum ef hugsanirnar eru á einhvernhátt mikilsverðar, áköf hryggð, áköf gleði eða einhverjar aðrar æstar tilfinningar í hugsana-„formi“. Þá setur að mér einhverja löngun til að gera pennann og pappírinn að trúnaðarvinum mínum og ég skrifa og skrifa mér til hugsvölunar og ánægju. Þessir trúnaðarvinir mínir virðast létta undir með mér og svala huganum, ef málefninu er þannig varið. (Bls. 33)

Á þessum tíma fékk Jón útrás fyrir langanir sínar og hugsanir með ýmsum hætti, hann orti ljóð, sótti leiksýningar og æfði sig á píanóið – og lesefnið var sjaldnast skólabækurnar, heldur Werther ungi eftir Göthe og önnur rómantík – en tónlistin var þó alltaf efst í huga hans. Þetta sama ár, 1915, sá hann leiksýninguna Galdra-Loft og ákvað strax þá að semja tónlist við verkið um leið og hann hefði aflað sér þekkingar til þess – hann stóð við það og gekk með tónsmíðina í maganum árum saman.

Þrátt fyrir þá fullvissu Jóns frá fyrstu tíð að hann væri snillingur sem hefði mikilvægu hlutverki að gegna – eða kannski einmitt vegna þess – var líf hans varðað vonbrigðum á tónlistarsviðinu. Hann var á átjánda árinu þegar hann hélt til náms í Leipzig í Þýskalandi og ætlaði sér þá að verða mikill píanóleikari. Þegar á hólminn var komið reyndist það honum ofviða þrátt fyrir þrotlausar æfingar, undirstaðan var ekki næg og Jón orðinn of gamall þegar hann hóf námið af fullri alvöru. Umhverfið hefur líka skipt máli – Jón hafði aldrei farið á almennilega tónleika fyrr en hann kom til Leipzig og stóð ekki sterkum rótum í evrópskri tónlistarhefð – hann náði því aldrei þeim tökum á hljóðfærinu sem krafan bauð. Þá söðlaði hann um og setti stefnuna á hljómsveitarstjórn. Það sama gerðist, en hér kom líka til óþolinmæði Jóns sjálfs sem vildi að frægðin kæmi eins og skot. Honum buðust vissulega fá tækifæri, en hann fékk ekki slæma dóma miðað við byrjanda þegar þau gáfust.

Þrátt fyrir ákafa þrá eftir viðurkenningu má segja að þörfin fyrir píslarvætti hafi oft orðið ofan á. Jón neitaði oftar en einu sinni ágætum stöðum, þar sem honum fannst launin ekki nægilega há, eða staðan ekki nógu fín. Honum var boðin kennsla við tónlistarháskólann í Starbrücken fyrir ágæt laun, og þegar honum bauðst „að gerast æfingarstjóri í Halberstadt þar sem stóð til að opna glænýtt óperuhús með Tannhäuser eftir Wagner, eða Stralsund og Mönchen- Gladbach – neitaði hann á þeim forsendum að starfið væri óhentugt eða launin of lág.“ (Bls. 102–3) Honum til málsbóta má segja að stuttu áður hafði hann lokið sínu fyrsta sinfóníska verki sem státar af ópusmarkinu, op. 1, Trilogia piccola (árið 1924). Það fyllti hann miklu stolti og hann vildi bara semja, þrátt fyrir að hafa fyrir fjölskyldu að sjá þegar þar var komið sögu.

Þegar fram í sótti fór einstrengingslegt lundarfar Jóns að setja stórt strik í reikninginn og óþolinmæði hans gerði það að verkum að hann átti ekki auðvelt með að vinna með hljóðfæraleikurum. Skoðanir hans á túlkun þekktra verka stönguðust auk þess á við viðtekna túlkun þeirra á þessum tíma, hraðaval og styrkleikabreytingar hjá honum voru oft gerólík því sem þá tíðkaðist. Hann skrifaði grein um skoðanir sínar á túlkun klassískra verka sem hann nefndi „Gegen die Romantisierung klassischer Musik“ og birtist í Zeitschrift für Musik 92 (1925) og óbirt handrit að riti, Orchesterkultur, um þetta efni og hugði á stofnun hljómsveitarakademíu til að breiða út skoðanir sínar og aðferðir, en fékk engan hljómgrunn. Nú á tímum fer sagnfræðilega rétt túlkun klassískra verka nokkuð nálægt því sem Jón vildi – að leita í frumheimildir og skafa af þeim túlkun maestroa síðrómantíska tímabilsins. Þarna, eins og í ýmsu öðru, reyndist hann vera langt á undan sínum samtíma.

Fyrsta fullburða verkið sem Jón samdi var fyrir unnustu hans, píanóleikarann Annie Riethof, samið árið eftir að kynni tókust með þeim. Þetta er Torrek, dagsett 23. mars árið 1919, en þá var Jón rétt tæpra 20 ára. Tónsmíðarnar hafa þrátt fyrir allt ekki verið í þriðja sæti hjá Jóni, en hann tók þá ákvörðun aðeins ári síðar að sækja tíma í tónsmíðum og hljómsveitaútsetningu.

Hljómsveitarstjóradraumarnir fæddu þó af sér einhvern mikilvægasta tónlistaratburð á Íslandi á sínum tíma þegar Jón stóð fyrir því að hingað til lands kom hluti af sjálfri Fílharmóníusveit Hamborgar sumarið 1926. Jón stjórnaði henni vitaskuld sjálfur á tónleikum í Noregi, Færeyjum og hér á landi. Síðar átti hann eftir að standa fyrir komu þekkts strengjakvartetts, Prag-kvartettsins, hingað til lands, sem fékk líka frábærar móttökur.

Sumarið 1921 komu Jón og Annie Leifs til Íslands í brúðkaupsferð. Þessi ferð átti eftir að verða afdrifarík að tvennu leyti; Jón rakst á bók í bókaskápnum á bernskuheimili sínu og hann hóf að birta greinar í blöðum þar sem gífuryrðin fuku í allar áttir – en því átti hann eftir að halda áfram fram undir það síðasta. Bókin var Íslensk þjóðlög sem séra Bjarni Þorsteinsson hafði safnað og gefið út á árunum 1906–09 og hér opnaðist Jóni alveg nýr heimur. Fram að þessu hafði hann gert lítið úr íslenskum þjóðlagaarfi og sagt þjóðlögin „fá og ómerkileg“ en eftir þetta áttu þau eftir að setja mark sitt á allar hans tónsmíðar. Í næstu ferð hans hingað til lands árið 1925 reyndi hann að skrá niður þjóðlög eftir heyrn en komst þá að því að evrópskt nótnaskrifarkerfi gerir ekki ráð fyrir þeim kvarttónum og skrauti sem einkenna lögin, og varla einu sinni tóntegundunum heldur, og því hafði hann meðferðis nýmóðins upptökutæki frá Berliner Phonogramm-Archiv í næstu ferð. Jón gerði sér nokkrar ferðir til þjóðlagasöfnunar hér á landi eftir þetta en strax árið 1922 má heyra áhrif þjóðlaganna í Fjórum píanólögum op. 2. Jón ritaði einnig grein í Skírni sama ár, þar sem hann gerir grein fyrir eðli íslenskra þjóðlaga. Greinina nefndi hann „Íslenskt tónlistareðli“ og þar setur hann fram þá skoðun að þjóðlögin sjálf gætu ekki talist list heldur séu þau „efni í list“ – þ.e. eðli laganna frekar en lögin sjálf.

Eftir að Jón tók til við tónsmíðarnar af fullum þunga lagði hann mikið á sig til að koma þeim á framfæri í Þýskalandi. Framan af gekk það hreint ekki illa. Frumflutningur Trilogia piccola árið 1925 var reyndar afgreiddur sem „smáræði“ enda er hún byrjandaverk; en frumflutningur Orgelkonsertsins tíu árum síðar fékk almennt góða dóma og þegar þrjú verk eftir Jón voru flutt af ekki ómerkilegri hljómsveit en Berlínarfílharmóníunni árið 1936 var gagnrýnin ákaflega vinsamleg. Þegar Orgelkonsertinn var fluttur aftur nokkrum árum síðar, eða árið 1941, kvað hins vegar við annan tón, því þá var hann talinn „fátítt hneyksli“ – enda voru þá komnir aðrir tímar. Jón bugaðist þó ekki og tók þá þegar ákvörðun um að semja Sögusinfóníuna sem andsvar við hugmyndafræði nasismans.

Þýskaland var ekki auðvelt land að búa í þau ár sem Jón var þar.

Í ríki nasismans reyndi Jón að laga sig að aðstæðum og vernda fjölskyldu sína samhliða því sem hann vann áfram að list sinni. Tvennt varð til þess að flækja stöðu hans meira en ella. Hugmyndafræði hans átti ýmislegt sameiginlegt með draumi nasista um nýja list sem byggðist á norrænum arfi, og hann var reiðubúinn að gera hvað sem í hans valdi stóð til að tryggja verkum sínum útbreiðslu, jafnvel reyna að koma sér í mjúkinn hjá sömu stjórnvöldum og vildu fjölskyldu hans feiga. (Bls. 182)

Árni heldur áfram og ræðir ótrúlega einfeldni Jóns í pólitík, sem varð til þess að eftir að stríðinu lauk var Jóni gjarnan legið á hálsi fyrir að hafa gengist nasismanum á hönd þrátt fyrir gyðinglegan uppruna eiginkonu hans, enda eru hugmyndir hans um hinn norræna hetjuanda vel til þess fallnar að ýta undir slíkan misskilning. Hann lenti í raun á milli tveggja elda, því í Þýskalandi var honum varla vært vegna fjölskyldutengsla við gyðinga en þó ekki síður vegna sjálfrar tónlistarinnar.

Dökkur og frumstæður stíll Jóns snýr baki við mörgum helstu lögmálum þýskrar tónsköpunar og ekki síst áherslunni á kontrapunkt, að margar sjálfstæðar raddir hljómi samtímis. Þegar öllu var á botninn hvolft gátu hráar tónsmíðaaðfeðir Jóns Leifs aldrei orðið fyrirmyndin að þeirri hreinu list sem nasistar vildu rækta í ríki sínu. (Bls. 185)

Enda segir Árni: „Velgengnin sem Jón hafði notið í Þýskalandi á undanförnum árum gufaði upp á augabragði.“(Bls. 212)

Jón skrifaði síðar ritið Islands künstlerische Anregung eða Listhvöt Íslands sem var gefið út árið 1950. Þar reifar hann hugmyndir sínar til að hreinsa af sér þennan áburð og þar má segja að fáfræði hans kom berlega í ljós: „Ekki renndi hann grun í að bókin myndi koma mörgum fyrir sjónir sem útvötnuð nasistaheimspeki og ætti beinlínis eftir að stuðla að niðurlægjandi móttökum á tónlist hans.“ (Bls. 296)

Eftir stríð tók við dramatískasta tímabilið í ævi Jóns Leifs. Í stríðslok, eftir að hann hafði komið fjölskyldu sinni í öruggt skjól í Svíþjóð, skildi hann við eiginkonu sína enda hafði hjónabandið staðið á brauðfótum um árabil. Hún tók því mjög illa – hún hafði lagt allt í sölurnar fyrir hann og í raun hætt við sinn eigin feril til að gerast umboðsmaður hans. Trú hennar á hæfileika hans var óbilandi og náði út yfir allt – og ekki virðist hún hafa dregið úr þeim mikilmennskuórum sem greina má hjá honum strax uppúr tvítugu. Við dauða yngri dóttur þeirra, Lífar, sem drukknaði við strendur Svíþjóðar aðeins sautján ára gömul árið 1947 vann Jón sig útúr sorginni með því að semja tónlist sem beinlínis fjallar um dauða hennar. Afraksturinn var fjögur verk, meðal annars tvö af þekktustu verkum Jóns, kórverkið Requiem (1947) eða sálumessa sem jafnframt er ein best heppnaða tónsmíð hans, og Vita et mors (Líf og dauði, 1948–51) sem er annar strengjakvartett hans, þar sem hann vinnur með margar sömu hugmyndir og í kórverkinu. Jón hafði gert það sama þegar faðir hans lést árið 1929, verkin sem hann samdi í þeirri sorg eru t.d. sérkennilega fallegt lag við bænina Vertu guð faðir, faðir minn, útsetning á Allt eins og blómstrið eina og lag við upphafserindi Passíusálma Hallgríms, Upp, upp mín sál. Þjóðhvöt, sem hann samdi öðrum þræði í tilefni af Alþingishátíðinni árið 1930, varð líka requiem – sálumessa yfir föður hans, enda er það verk fullt af sorg og dauða. Þegar móðir hans lést svo árið 1961 samdi hann Hinstu kveðju fyrir strengjasveit.

Líf var grafin á Íslandi að ósk móður hennar, og eftir það gat Annie hvergi annars staðar hugsað sér að vera og hér bjó hún ásamt eldri dóttur þeirra, Snót, til dauðadags. Árni lýsir mjög átakanlega hvernig Annie dró fram lífið á örlítilli kennslu og stóð oft og horfði upp í gluggana á Freyjugötunni þar sem Jón bjó þá með síðustu eiginkonu sinni, Þorbjörgu.

Jón var þrígiftur. Hann átti í stuttu og sérkennilegu hjónabandi með sænskri konu á árunum 1950–56, en lengst af því tímabili var hjónabandið aðeins á pappírnum. Árið 1956 gekk hann svo að eiga Þorbjörgu Möller, sem tók sér eftirnafnið Leifs. Þau voru gift þar til Jón lést árið 1968 og eignuðust einn son.

Hugmyndir Jóns um vöxt tónlistarlífsins á Íslandi voru alla tíð mjög framsæknar og óhætt að segja að þar hafi hann verið langt á undan sinni samtíð. Allar götur frá árinu 1921 lét Jón sig íslenskt tónlistar- og menningarlíf miklu varða og átti í illdeilum við marga menn í tengslum við þann áhuga. Hann kom fram með margar hugmyndir til eflingar íslensku tónlistarlífi, hafði háar hugmyndir um ríkisútvarp og kom að starfsemi þess með skrautlegum hætti eins og hans var von og vísa og Árni rekur á greinargóðan hátt – hann kom að stofnun Tónskáldafélags Íslands, STEFS – Samtaka réttindahafa tónlistar, Bandalag íslenskra listamanna var stofnað að hans frumkvæði, og svona mætti lengi telja. En kapp hans og hvatvísi varð til þess að menn risu oft öndverðir gegn hugmyndum hans, ekki endilega vegna þess að hugmyndirnar sjálfar væru slæmar, heldur allt eins vegna framsetningarinnar. Hugmyndirnar voru reyndar oft taldar loftkastalar – og voru það kannski á þeim tíma sem þær komu fram, þótt margar þeirra hafi orðið að veruleika síðar.

II.

Jón Leifs lifði á viðsjárverðum og dramatískum tímum sem gerir sögu hans oft og tíðum mjög spennandi. En persónuleiki hans sjálfs er þó það afl sem veldur flestum viðsjám í lífi hans. Hann hafði alltaf óraunsæjar væntingar til allra hluta, hvort sem það var gildi verka hans og viðtökur eða þær stöður sem hann taldi sig eiga rétt á – og greiðslur fyrir unnin störf. Hann var sjálfselskur og sjálfmiðaður og allt sem hann tók sér fyrir hendur miðaðist við hann sjálfan, tónlist hans og þrá eftir því að verða mikið tónskáld. Þetta sést strax í bréfum hans þegar hann var ungur maður og þegar leið á ævi hans markaði þessi þrá öll samskipti hans við ástvini hans og vini. Dóttir hans Snót sendi honum óvægnar línur eftir dauða Lífar sem segja meira en mörg orð og sýna að hún hefur haft glöggan en um leið beiskan skilning á karakterbrestum hans.

Þú leist ekki á eiginkonu þína og börn sem sköpunarverk Guðs, sem þú barst ábyrgð á, heldur leistu á okkur sem verkfæri þinna eigin hugmynda. Að gera manns eigið vesæla sjálf að mælikvarða allra hluta er til vitnis um hættulega mikið sjálfsöryggi […] (Bls. 278)

Jón bjó við þann harm að eitt barna hans drukknaði rétt þegar lífið átti að vera að byrja, kannski var það afleiðing af erfiðum skilnaði foreldra hennar. Hin tvö þjáðust af geðklofa.

Það var í febrúar 1955 sem Helgi Tómasson (geðlæknir Snótar) tjáði Jóni að geðklofi Snótar væri líklega arfgengur og að Jón væri einnig „schizoid“ að upplagi. […] Samkvæmt sálfræðinni hefur geðklofalík persónuleikaröskun meðal annars í för með sér tilfinningakulda, litla getu til að tjá hlýju og ástúð. Þá eiga þeir sem henni eru haldnir einnig erfitt með að taka gagnrýni annarra. Þeir kjósa oftast starfsvettvang sem kefst einangrunar frá öðrum – eins og Jón í tónsmíðum sínum – en eiga innra tilfinningalíf sem stjórnast af sterku ímyndunarafli, stórum draumum og hugsjónum. (Bls. 282)

Hér er kannski komin skýringin á því munstri sem einkenndi samskipti Jóns við samferðamenn sína. Gott dæmi er samband þeirra Páls Ísólfssonar, sem var samtíða Jóni í námi í Leipzig. Í upphafi voru þeir nánir vinir, en smám saman þreyttist Páll á skapsveiflum og ofsa Jóns, sem túlkaði það sem undirferli og svik af hálfu Páls. Páll var góður organisti sem kaus að starfa að uppbyggingu tónlistar á Íslandi og fáir hafa starfað af jafn miklum heilindum á þeim vettvangi. Og Páll gerði hvað hann gat til að skapa sínum gamla vini tækifæri hérlendis – kom honum til dæmis í stöðu tónlistarstjóra hjá Ríkisútvarpinu sem Jón sinnti mjög stopult. Sambandi þeirra lauk með vinslitum en í heimildum er ekkert sem bendir til þess að Páll hafi ekki verið heill í vináttunni á meðan hún stóð.

III.

Árni Heimir fer þá leið að nota línulega frásögn í aðalatriðum; það er að segja, hann segir mjög nákvæmlega frá ævi Jóns þar sem einn atburður rekur annan og hann hefur raunar frásögnina nokkru áður en aðalpersónan sjálf stígur fram á sviðið. Árni fer hér í smiðju til reyndra ævisagnaritara, bæði í nálgun við viðfangsefnið og frásagnaraðferð. Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir og Guðjón Friðriksson hafa til dæmis bæði beitt því með ágætum árangri að bregða upp stuttri, skýrri mynd strax í upphafi bókar sem leiðir lesandann inn í söguna – Þórunn til dæmis í sögu Matthíasar Jochumssonar og Guðjón í sögum Jóns Sigurðssonar, Hannesar Hafstein og Einars Benediktssonar. Árni gerir þetta líka og myndin sem hann bregður upp er bæði lýsing á landslagi – því landi sem alið hefur báðar ættir Jóns mann fram og manni – og af föður Jóns ungum, hreppstjórasyninum Þorleifi Jónssyni, sem er að leggja af stað að heiman til að setjast á skólabekk í Lærða skólanum í Reykjavík. Þessi upphafsmynd er táknræn. Atburðurinn markar tímamót, ungur maður er á leið úr dalnum sínum til borgarinnar. Þéttbýli er að verða til, vísir að borgaralegri menningu sem var forsenda þess að tónlist gæti dafnað á Íslandi – brottflutningur og menntun foreldranna var því forsenda þess að tónskáldið Jón Leifs gæti orðið til. Því má heldur ekki gleyma að Ragnheiður Bjarnadóttir, móðir Jóns og systur hennar voru betur menntaðar en stúlkur almennt á sinni tíð – og kannski þar sé að einhverju leyti lykillinn að furðufuglinum Jóni Leifs. Reyndar má segja að Jón Leifs sjálfur hafi einmitt átt stóran þátt í því að sérstök íslensk borgaraleg hámenning varð til – ásamt Jóhannesi Kjarval og öðrum sérvitringum.

Tónn Árna í þessari upphafsfrásögn er örlítið stirður og ópersónulegur, og allt að því of nálægur tóni ofangreindra ævisagnaritara, það er engu líkara en virðing hans fyrir viðfangsefninu – það er að skrifa ævisögu þar sem nálgunin er ekki eingöngu tónlistarfræðileg – geri honum erfitt fyrir. Sjálft viðfangsefnið – Jón Leifs – er líka þannig maður að snúið getur hafa verið að finna rétta tóninn í frásögninni. Þetta er þó aðeins sjáanlegt í blábyrjuninni. Sjálfstraustið fer fljótlega vaxandi og stíllinn og frásögnin verða öruggari, enda er Árni mjög vel ritfær og þarf ekki að leita fanga hjá öðrum en sjálfum sér um frásagnarháttinn. Og smátt og smátt rennur upp fyrir lesandanum að frásagnarmátinn, línulegur og hefðbundinn og dálítið ópersónulegur, er einmitt rétti tónninn til að kljást við Jón Leifs. Leikræn tilþrif eru samt ærin.

Aftanmálsgreinar eru til skýringar, og þar má til dæmis lesa texta bréfa á frummálum, en standa ekki inni í eða fyrir neðan textann á hverri síðu, sem er kostur í bók af þessu tagi; lesandinn ræður hversu ýtarlega hann vill fara í saumana á textanum. Vilji lesandinn kafa djúpt er það auðsótt mál, því allt aukaefni er mjög vel unnið, og fengur að greinargóðum listum og skrám aftan við meginmál. Þetta er raunar lykillinn að nálguninni – Árni nálgast viðfangsefnið sem fræðimaður, enda má segja að nauðsynlegt sé að þekkja og skilja manninn til að geta greint tónlistina til fulls. Með því að lesa um þrjósku Jóns og öfgar í flestu því sem hann tók sér fyrir hendur, opnast ný sýn á staðfestuna í tónmálinu sem breyttist lítið eftir 1922, og á þessa ferköntuðu og sérstöku tónlist sem líkist engri annarri.

IV.

Og tónlistin er, þegar allt kemur til alls, það sem mestu máli skiptir. Strax þegar Jón var á sextánda ári má sjá í skrifum hans tvö leiðarstef sem fylgdu honum alla tíð – og Árni bendir á: Þetta eru áhugi á fornsögunum og hetjum þeirra, og hrifning á náttúru landsins, krafti hennar og fegurð. Og hvort tveggja var honum endalaus uppspretta hugmynda. Hér má nefna ýmis verk sem falla undir hið fyrrnefnda: Til dæmis sönglög eins og Þjú erindi úr Hávamálum op. 4, Ástarvísur úr Eddu op. 18b og sjálfa Eddu-óratóríuna, risavaxið verk í þremur hlutum sem hann hóf að semja árið 1935 og lést frá síðasta hlutanum ófullgerðum árið 1968, þar sem textar eru sóttir í Eddukvæði og Snorra-Eddu, og Sögusinfóníuna þar sem fornum hetjum er lýst með tónum. Undir hið síðarnefnda falla sinfónísku forleikirnir sem bera nöfn hinna ýmsu náttúrufyrirbrigða: Geysir og Hekla, bæði frá árinu 1961, Dettifoss frá 1964 og Hafís frá 1965. Þetta hvort tveggja sameinast svo í sviðsverkinu Baldri (1943–47) sem segir frá Loka og Baldri, hinum hvíta ás, og baráttu góðs og ills og lýkur á voldugu eldgosi, sem segja má að vísi fram á við, til Heklu. Jón var svo lega alltaf samkvæmur sjálfum sér og trúr ætlunarverki sínu, sem var að endurreisa norræna menningu og breiða út hróður hennar. Margir túlkuðu þetta sem daður við nasisma, sem vonlegt er, en ræturnar liggja miklu aftar, í bernsku hans á tveimur fyrstu áratugum 20. aldarinnar, löngu áður en Hitler og hans kenningar höfðu rutt sér til rúms í Þýskalandi.

Tónverk Jóns hljómuðu nýstárlega á sínum tíma en þegar betur er að gáð eiga þau fátt skylt við meginstrauma módernismans og verða ekki dæmd út frá forsendum hans. Tónlistin er samspil þriggja ólíkra þátta. Efniviðurinn og hugmyndirnar eru að sínu leyti gamaldags en útfærslan sjálf aftur á móti einkar frumleg. Þar er engu líkara en að Jón hafi tekið mið af tilraunum ýmissa jaðartónskálda á þriðja áratugnum sem þó ætluðu sér allt annað en hann með tónlist sinni. (Bls. 170)

Hvað snertir hugmyndirnar að baki verkunum er Jón fyrst og fremst afsprengi rómantíkurinnar, verk hans eru gegnsýrð þjóðerniskennd og sterkri upplifun á náttúrunni. Jón var síðrómantíker í eðli sínu og grunnur verka hans yfirleitt hefðbundnir hljómar þar sem hrein fimmund og tíð skipti milli dúr- og mollþríundar er eitt helsta einkennið – þótt oft hlaði hann ofan á hljómana sjöund eða níund. Enda gerðist það á tímum módernismans í kringum 1950 að allt í einu voru verk hans ekki lengur framúrstefnuleg og hneykslanleg, heldur orðin gamaldags og hlægileg. Verk Jóns fengu svo uppreisn æru á síðustu árum 20. aldarinnar og hafa síðan verið flutt oft og víða. Líklega skipti þá mestu að áhugi fólks óx á verkum sem brutu í bága við hin ströngu form módernismans – Árni nefnir tónskáld eins og t.d. Arvo Pärt og Henryk Górecki. Verk Jóns voru því flutt vegna áhuga á þeim sjálfum en ekki vegna þrýstings frá tónskáldinu – og færni hljóðfæraleikaranna hefur farið vaxandi. Verk Jóns Leifs hafa því hætt að standa einsog ókleifur hamar í landslaginu.

Það er greinilegt að þegar Árni segir frá og greinir tónlist Jóns Leifs er hann svo sannarlega á heimavelli; tónlistin verður sprell-lifandi og allt að því heyranleg í þeim köflum – enda er Árni alvanur því að lýsa tónlist með orðum og opna heim hennar fyrir jafnt leikum sem lærðum. Hann lýsir völdum verkum í sérstökum römmum í bókinni þannig að þær lýsingar standa sem sjálfstæður texti: Fyrst er kantatan Þjóðhvöt, þá er vögguvísa handa Líf við ljóð Jóhanns Jónssonar, Þey, þey og ró, Orgelkonsertinn er næstur, Edda I – Sköpun heimsins, Sögusinfónían, sviðsverkið Baldr, kórverkið Requiem, og sönglagið Torrek, sem Jón samdi á sama tíma til minningar um Líf og síðast Eddu-óratórían í heild – sem Jón lést frá ókláraðri.

Allar eru þær greinargóðar og skýrar og gera tónlistina ljóslifandi. Um Torrek segir Árni:

Jón hlaut að leita fanga í Sonatorreki Egils Skallagrímssonar til að endurspegla tilfinningarnar sem brutust um í brjósti hans. Torrek fyrir tenór og píanó er tregróf föður sem er viti sínu fjær af sorg. Kaldhamraður stíllinn fellur vel að ljóði Egils og oft er engu líkara en að textinn sé frá Jóni kominn ekki síður en tónarnir […] Dökkir píanóhljómar mynda hranalegar ómstríður og eru leiknir með hörðum áherslum eins og þung högg örlaganna dynji án afláts á meðan söngröddin tjáir sig á veikari nótum. Reiði og örvænting brýst fram í hverjum taktinum á fætur öðrum þar til þrumandi píanóleikurinn þagnar skyndilega og söngvarinn fer með síðustu hendinguna við undirleik örfárra veikra tóna. Þá bíður ekkert nema uppgjöf frammi fyrir duttlungafullum máttarvöldum. (Bls. 285)

Og um Requiem segir Árni meðal annars:

Requiem er sannkölluð perla, fullkomin í látleysi sínu og einfaldleika. […] Þegar kvenraddirnar bætast aftur við hefst einn áhrifamesti kafli verksins. Þótt karlarnir hafi aðeins sungið níu takta einir verður tær og bjartur sópranhljómurinn eins og smyrsl á sárin […] Á orðinu „dreyma“ leitar sópraninn fyrst upp í tóninn F sem er mollþríund í hljómnum, dökk og kvíðablandin. Ekki líða nemar örfáar sekúndur þar til Jón hefur skipt um tón, hendingin kemst skrefinu lengra upp í Fís og dúrhljómurinn gefur fyrirheit um að draumurinn um bjarta borg sé annað en tálsýn. (Bls. 286–7)

Hér er Árni óhræddur við að nota lýsingarorð sem undirstrika sterka skynjun hans á tónlistinni – við sjáum orðasambönd eins og „hranalegar ómstríður“, mollþríundin er „dökk og kvíðablandin“ en leysist upp og gefur fyrirheit um að draumurinn sé ekki tálsýn. Hugkvæmni Árna er skemmtileg og kveikir áhuga á tónlistinni og þótt hann noti orð eins og mollþríund og nefni tóna réttum nöfnum, geta allir auðgað skilning sinn á verkunum, burtséð frá því á hvaða stigi tónlistarþekkingin er. Lýsingar Árna á Eddu-óratóríunum eru mjög áhrifamiklar og best að lesendur kynni sér þær sjálfir í heild.

V.

Það er sérstök lífsreynsla að kynnast verkum Jóns innan frá – sem flytjandi og túlkandi. Undirituð hefur verið svo lánsöm að fá að kynnast mörgum verka hans á þann hátt, sem kórsöngvari. Jón bar ekki virðingu fyrir takmörkum hljóðfæra, eða mannsraddarinnar ef útí það er farið. Hann skrifaði til dæmis oft nótur sem ekki fyrirfinnast á hefðbundnum hljóðfærum eins og hörpu eða orgeli – og opinberar þar með ákveðna vanþekkingu í hljóðfærafræði, en honum var líka kannski bara sama. Hann skrifaði línur fyrir söngraddir sem eru allt að því ósyngjandi og lætur t.d. sópran í kórpörtum verka sinna iðulega liggja í margar blaðsíður í hæstu hæðum, sem er ekki á færi neinna og útheimtir stállungu – og gengur raunar þar í smiðju síns helsta átrúnaðargoðs, Beethovens. Stækkaðar ferundir, sem þykja ekki þægilegar til söngs, sjöundastökk og níundir eru jafn algengar og hljómþýðar þríundir og áttundir í verkum Jóns. Þó er þar að finna nóg af hreinum fimmundum, sem ganga eins og leiðarhnoða í gegnum höfundarverk Jóns allt frá árinu 1922. Sjöundir eru svo algengar að þegar loksins kemur að því að syngja hreina áttund lenda söngvarar í vandræðum og útkoman verður oftar en ekki hið ofurómstríða tónbil stór sjöund.

En þegar þeir erfiðleikar sem fylgja því að læra parta hafa verið yfirunnir og kemur að flutningi, verður galdurinn. Upphafstónarnir í verki eins og Eddu I, Sköpun heimsins eru þannig að þeir verða fremur skynjaðir en heyrðir – annars vegar fiðlutónar á hæstu tíðni og hins vegar dýpstu tónarnir sem kontrabassinn býr yfir – og smám saman vex þessi þunglamalegi og flókni vefur uns maður stendur inni í ærandi hljómnum sem kemur innyflunum á hreyfingu – og er eins og söngur fornaldarskrímslis. Þetta á jafnvel enn frekar við um Heklu, sem er einhver kraftmesta tónsmíð sem fyrirfinnst í gervallri veraldarsögunni eins og Árni nefnir. Verkið kraumar í iðrum jarðar og inni í mögum flytjendanna og sprengir sig síðan út með ógnarlátum og hávaðinn er eins og á þungarokkstónleikum – og allar vangaveltur um að Jón Leifs hafi verið orðinn hlægilegur á tímum módernismans verða sjálfar hlægilegar.

Árni hefur sett sér að gera fræðilega grein fyrir fyrirbærinu Jóni Leifs frekar en tilfinningalega. Þetta er helsti munurinn á bók Árna annars vegar og bók Ahléns og mynd Hilmars hins vegar. Hér er hægt að fullyrða að þetta hefur Árna tekist. Hann segir sögu Jóns Leifs eins og hún var, og dregur ekkert undan.

Því verður ekki neitað að Jón var mistækur listamaður. Mörg tónverk hans eru stórbrotin og áhrifamikil en önnur eru rýr og fram úr hófi langdregin. En þrátt fyrir alla varnagla var hann einn merkasti og óvenjulegasti listamaður Íslands á 20. öld. Hann lifði og dó sannfærður um að íslensk tónsköpun gæti átt erindi við heiminn og ruddi brautina af stórhug og elju. (Bls. 368)

Hér nær Árni að draga kjarnann í lífi og starfi Jóns saman í eina stutta setningu og segir tæpitungulaust bæði kost og löst á verkum hans.

Í bestu verkum sínum tókst Jóni Leifs ætlunarverk sitt. Þau eru farvegur djúprar persónulegrar tjáningar og í þeim fundu landið og sagan loksins sína hljómandi rödd. Tónlist hans er ómur elds og ísa, og hún mun eiga sinn sess meðal þjóðarinnar á meðan brimið dynur, fjöllin gjósa og jörð skelfur. (Bls. 368)

Þessi niðurlagsorð bókarinnar eru líka gott vitni um að Árni hefur – þrátt fyrir hreinan og beinan stílinn – orðið fyrir skáldlegum innblæstri í glímunni við Jón Leifs.

 

Ingibjörg Eyþórsdóttir