Jón Kalman Stefánsson. Fiskarnir hafa enga fætur.

Bjartur, 2013.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2014

Fiskarnir hafa enga fætur, skáldsaga Jóns Kalmans Stefánssonar, sem hlaut mikið lof á síðustu bókavertíð, kemur dyggustu lesendum hans líklega kunnuglega fyrir sjónir. Efnistökin og ekki síst málfarið er náskylt því sem helst styrkti rómaðan þríleik hans um líf fólks til sjávar og sveita um aldamótin þar síðustu. Viðfangsefni þessa nýja verks er þó fyrst og fremst samtíminn. Ytri ramminn er mjög knappur, ekki nema dagstund, en innri tími sögunnar er mun rýmri, þar sem í aðra röndina er um einskonar ættarsögu að ræða og fortíðinni er teflt fram til þess að ljá sögusviðinu samhengi og draga fram orsakir og afleiðingar í mannlegu hátterni.

Fiskarnir hafa enga fæturAðalsögupersónan, útgefandinn og skáldið Ari, er á heimleið til að sinna föður sínum sem virðist vera dauðvona. Forsagan um uppruna Ara og æviferil fram að þessari heimkomu er rakin með brotakenndum hætti af alvitrum sögumanni, en einnig með afturliti til æviskeiða forfeðra hans og formæðra á Austurlandi, sér í lagi afa hans og ömmu, Odds og Margrétar. Verkið fjallar um íslenskt alþýðufólk. Ari á ættir að rekja til sjómanna, faðir hans er múrari, en móðir hans sem lést fyrir aldur fram og „breyttist í fjarveru“ (bls. 23) bjó yfir listrænum streng líkt og hann sjálfur, Margrét amma og reyndar fleiri konur í ættboga Ara. Eins og gengur hefur lítið orðið úr listrænu framlagi þessara kvenna – höfundurinn dregur fram hefðbundnar ástæður fyrir því sem ríma við það sem við þekkjum af reynsluheimi þeirra í gegnum árhundruðin.

Ari hefur í uppvexti sínum og lífi mótast mjög af dauða móður sinnar. Enda breyttist hún ekki einungis í „fjarveru“ við dauða sinn eins og fyrr var getið heldur í „svarthol. Breyttist í sár sem aldrei var rætt: Sár sem aldrei er rætt, aldrei hlúð að, verður með tímanum að ólæknanlegu innanmeini“ (bls. 23). Leiða má líkur að því að heimkoma Ara snúist um að hlú loks að slíkum sárum, ekki bara hans eigin heldur einnig fjölskyldunnar allrar, ekki síst barna hans sem hann hefur átt í minna sambandi við en hann hefði viljað eftir að hann brást eiginkonu sinni þannig að það leiddi til skilnaðar. Svo virðist sem hann vilji græða „innanmeinin“; forðast það að líkjast sínum eigin föður, vera afskiptalaus og kaldur líkt og hann.

Mestalla söguna er Ari í flugvél frá Kaupmannahöfn og nálgast óðum Keflavík. Hann er í einskonar limbói, hvorki þar né hér. Þessi óræða staðsetning, eða millibilsástand, veitir sögumanni og Ara sjálfum tækifæri til að rifja upp og rekja söguna út og suður; til fortíðar, uppvaxtar og sameiginlegra minninga. Sá hængur er hins vegar á að þessi frásagnarmáti verður einnig til þess að sagan sjálf lendir í fullmiklu limbói og skortir skýran fókus.

Helsta sögusvið verksins er Keflavík, bærinn sem samkvæmt Fiskarnir hafa enga fætur átti sér tæpast viðreisnar von fyrr en Varnarliðið kom til sögunnar með straumum og stefnum bandarískra samfélagsgilda; súkkulaði, frosnum kalkúnum og rokki. Sagan lýsir því hvernig þetta litla samfélag lifði á þjónustu sinni við Varnarliðið, stundum án mikillar sjálfsvirðingar, nýtti sér allt það sem hægt var að hafa rétt eins og hersetan væri auðlind á borð við fiskimiðin og auðvelt að horfa framhjá sjálftöku.

Velmegun Keflavíkur varð þó skammvinn, kvótinn hvarf og herliðið líka og gamli rokkbærinn nú virðist jafn vonlaus staður í verki Jóns Kalmans og hin svarta Keflavík fyrri tíma sem lýst er í Jarðabók Árna og Páls Vídalín með þeim orðum að hvergi „á gervöllu landinu [búi] fólk jafn nálægt dauðanum“ (bls. 13). Það er einna helst að hægt sé að hressa upp á ímyndina með flugstöðinni og öllu því sem henni tilheyrir, þótt það sé óneitanlega þyrnir í gagnrýnum augum þeirra sem sjá stóru myndina betur en aðrir að þetta þjóðarstolt Íslendinga og hlið yfir í umheiminn skuli hafa verið byggt fyrir bandarískt fé; verið einskonar mútur fyrir lánið á landinu.

Ástarsögurnar tvær sem raktar eru í bókinni, þ.e.a.s. saga ömmu Ara og afa á Norðfirði og sagan af hans eigin hjónabandi hverfast að einhverju leyti um breytingar í samfélagsgerð og tíðaranda. Með því að draga fram stóru drættina í þessum tveimur hjónaböndum byggir höfundur undir kvenpólitíska afstöðu sögunnar og ítrekar hversu konum fyrri tíma var þröngur stakkur sniðinn hvað varðar ákvarðanarétt og þá óumflýjanlegu ábyrgð sem þær báru á fjölskyldu og heimilisrekstri. Amma Ara er gott dæmi, því þrátt fyrir að hafa forframast í Ameríku sem ung stúlka snýr hún aftur heim til Norðfjarðar í faðm bernskuástarinnar Odds; hins dæmigerða og æðrulausa sjómanns dægurlagatexta fyrri áratuga. Hún heldur tryggð við ættjörðina og ástina en gefur fyrir vikið listræna hæfileika sína upp á bátinn á kostnað geðheilsunnar.

Vandi Ara og Sigrúnar, eiginkonu hans, tilheyrir öðrum tíðaranda og er því af öðrum toga hvað jafnréttið varðar. Saga þeirra hefur eigi að síður sömu tengingu og Norðfjarðarsagan við áhrifin að utan, þ.e.a.s. Ameríku og þau gildi síðari tíma sem tengjast samskiptum okkar við Varnarliðið. Amma snéri heim frá Ameríku til að lifa með sínum manni af gæðum lands og sjávar og því myndar saga þeirra á Norðfirði – sem vitanlega er velþekkt vígi vinstri manna á Íslandi – mótvægi við Keflavíkursöguna og afleiðingar þess að glata sjálfstæði sínu gagnvart Varnarliðinu. Birtingarmyndir ástarinnar verða því ólíkar allt eftir því hvernig ástin endurspeglast, annars vegar hjá fólki sem hefur sjálfsvirðingu þess sem lifir af landinu og hins vegar fólki sem lifir á sníkjum.

Stíll sögunnar er eins og höfundar er von og vísa ákaflega ljóðrænn og upphafinn á köflum. Jóni Kalmani lætur einstaklega vel að láta hið smáa eða hversdagslega afhjúpa stóra samhengið – eða jafnvel alheimsvitundina. Frásögnin leitar því stundum yfir í heimspekilegar vangaveltur, ekki síst um það sem höfundi virðist hugstæðast, svo sem eilífðina, dauðann, ástina og skáldskapinn. Margt af því sem í þessu verki er sett fram með slíkum hætti er fallega skrifað, en einnig dálítið fyrirsjáanlegt frá þessa höfundar hendi. Jafnvel stundum svo mjög að það hljómar helst til kunnuglega út frá öðrum verkum Jóns Kalmans.

Form sögunnar er nokkuð brotakennt eins og tímaramminn býður upp á, ekki síst þar sem hlutverk sögumannsins er órætt og margir mikilvægir átakaþræðir liggja undir; kvótakerfið, hlutverk Varnarliðsins í þróun íslensks samfélags, örlög kvenna í karllægum heimi. Þar fyrir utan fjallar verkið um þau stóru þemu bókmenntanna sem tengjast örlögum einstaklinga og þætti þeirra sjálfra í að móta lífshlaup sitt. Hið brotakennda form miðar að því að auka yfirsýn lesandans og þjónar verkinu vel til að sýna samsvaranir frá ólíkum tímum jafnframt því að afhjúpa mótandi þætti uppeldis og aðstæðna. Miðað við upp á hve mörgu er fitjað stingur því nokkuð í stúf hversu fátt er til lykta leitt í þessari sögu. Það er einna helst að saga hersetunnar skili sér í augljósu uppgjöri höfundar í verkinu, en önnur pólitísk mál sem fitjað er uppá – sérstaklega ranglæti kvótakerfisins og feminísk sjónarhorn – fjara út áður en þeim eru gerð þau skil sem söguþráðurinn þó virðist bjóða upp á.

Snemma í verkinu eru hugrenningar um kvótakerfið settar í hnotskurn við hamborgaravagninn í Keflavík þar sem matseðillinn býður m.a. upp á „sægreif[ann] (sá sem allt gleypir)“, „Kvótasvindlið: Stór borgari með öllu“, og „Keflavíkurkvót[ann]: Hamborgarabrauð án hamborgara“ (bls. 57). Matseðlinum er fylgt úr hlaði með pólitískri yfirlýsingu sjómannsins sem nú rekur hamborgaravagninn, þar sem hart er deilt á þjóðina, ekki síst í lokasetningu yfirlýsingar hans: „Í stað þess að rísa upp, þá bugtum við okkur. Í stað þess að mótmæla, þá látum við traðka á okkur“ (bls. 57). Orð þessi vísa beint til sjálfstæðisbaráttunnar og fleygra orða Jóns Sigurðssonar forseta, en þegar lengra sækir fram í söguna er eins og þessi sterki þráður og afstaða rakni upp og missi þrótt sinn sem sú undirstaða í heildarmyndinni sem hún hefði getað orðið.

Svipað er upp á teningnum með femínismann eða þá afstöðu með konum sem höfundurinn tekur í verkinu. Hann veltir t.d. upp hvernig heimurinn yrði ef karllæg dagblöð kaldastríðstímans í uppvexti Ara hættu að horfa til hjarta kommúnistaleiðtogans Títós í fyrrum Júgóslavíu; til „hjarta valdsins, karlmannsins, okkur er það hugleikið, en horfði þess í stað með augum konunnar“. Hann spyr; „værum við jafnvel ekki sömu manneskjurnar?“ (bls. 224). Hann veltir því fyrir sér hver kjarni okkar sé; „er hann jafnvel ekki til og við lítið annað en ílát, fyllt upp að börmum af ríkjandi skoðunum, samþykktum viðhorfum, og eygjum þar af leiðandi nær aldrei frjálsa hugsun í lífi okkar, nema þá í leiftrum sem eru kæfð, slökkt, jafnóðum af stöðluðum hugmyndum í fréttum, auglýsingum, kvikmyndum, dægurlögum; sönnum dægurvísum?“ (bls. 224).

Þótt vitaskuld sé ekki hægt að ætlast til þess að skáldsaga veiti einhlít svör við jafnstórum tilvistarspurningum og ofangreindum, þá hefði úrvinnsla þessa efniviðar mátt vera meiri í verkinu sem heild – ádeilan hefði fyrir vikið orðið sterkari. Þegar upp er staðið kemur ekkert fram um þessa siðferðislega pólitísku þætti sem ekki er á almanna vitorði nú þegar. Tækifæri til að vinna með þessa afstöðu og leiða umræðu um þessi mikilvægu mál í verkinu fer þannig fyrir lítið þótt höfundinum séu þau augljóslega mikilvæg. Meira að segja uppgjör það sem verður þegar Ari áttar sig á því að það sem hann taldi vera ástarfund stúlku og fullorðins karlmanns áratugum fyrr var í raun nauðgun – veldur takmörkuðum straumhvörfum í sögunni. Breytir í raun engu öðru en því að meðvitund Ara um afstæði upplifana sinna eykst og hugsanlega umburðarlyndi hans gagnvart þeim sem hann þarf að sinna við heimkomuna.

Jón Kalman hefur áður sýnt og sannað að hann hefur afburða tök á því brotakennda og óræða, þar sem honum tekst að láta heildarmynd og tilfinningu fyrir hinu stóra samhengi ganga upp að lokum. Þetta kemur hvað skýrast fram í þríleiknum sem festi orðspor hans í sessi sem eins áhugaverðasta höfundar samtímabókmennta á Íslandi. Í Fiskarnir hafa enga fætur tekst honum þó ekki að nýta þessa aðferð með jafn áhrifamiklum hætti. Honum liggur mikið á hjarta, sem vissulega er gott hjá rithöfundi, og á mörg brýn erindi við þjóð sína. En ljóðrænn og hægur stíll fer ekki jafn vel við nútíma-ádeilu og þegar fjallað er um fjarlæga og á köflum þjóðsagnakennda fortíð líkt og í trílógíunni. Nástaða gerir vart við sig, auk þess sem endurtekningar í myndmáli geta jaðrað við tilgerð þegar þeim er ekki fundinn sannfærandi farvegur eða hlutverk.

Sem dæmi um þetta er notkun höfundar á orðinu „öskur“ sem kemur víða fyrir í myndmáli verksins: „inn í hraun sem er fyrst gamalt öskur, síðan mosavaxin þögn“ (bls. 11), listin „er í senn leit og ögrun, ásökun og öskur“ (bls. 61), „[s] ú hreyfing [að sópa leirtaui af borði] er öskur“ (bls. 68), „þetta er ekki spurning, líkist frekar ásökun, öskri yfir lífinu“ (bls. 69), og stuttu síðar „þetta er öskur, ekki spurning“ (bls. 69). Á bls. 105 segir af því sem Ari gaf út „áður en heimurinn öskraði“ og á bls. 255 fljúga þoturnar yfir, „þessi öskur í bláu loftinu.“

Vissulega er einhver hugsun eða þráður um ofbeldi í klifuninni en hún er það ómarkviss að eftir stendur einungis óskýr hugmynd um að allt sem kemur af miklu afli eða offorsi, hvort sem það er hraun, heimiliserjur eða þotur, sé einskonar öskur eða samnefnari fyrir ofbeldi.

Í versta falli getur slík framsetning ýtt undir þá tilfinningu að textinn hafi ekki verið unninn til enda, ekki verið meitlaður eða mótaður nægilega mikið til að hugsun höfundar nái í gegn með skýrum hætti. Það örlar jafnvel á tilfinningu fyrir því að sum textabrot – ekki síst þau háfleygustu – séu einskonar endurvinnsla svo sem í lýsingu á snjókomu þar sem Ari óttast að verða úti í „hugsunum engla“ (bls. 101). Samsláttinn við snjókomuna sem „harm englanna“ í samnefndri skáldsögu Jóns Kalmans úr þríleiknum fyrrnefnda má vitaskuld túlka sem tilbrigði við stef. Sem slík er endurvinnsla texta í prinsippinu allra góðra gjalda verð svo lengi sem hún þjónar megintilgangi verksins og fellur vel að samhengi þess. Í þessu tilfelli verður líkingin þó helst til klisjukennd og einfaldlega of kunnugleg.

Ofhlæðið sem víða örlar á dregur að sama skapi úr áhrifamætti góðs og frumlegs myndmáls á heildarmynd verksins. Það virðist óþarfi að hlaða skrúði á þá einföldu þætti sem ekki skipta miklu máli í samhengi textans. Sem dæmi um slíkt má nefna mann sem talar svo mikið að hann gleymir sér yfir kaffisopa, sem fyrir vikið verður að „köldu myrkri í rósóttum bollanum,“ (bls. 188). Sama stílbragðið getur einnig orðið hvimleitt ef því er beitt of oft eða í miklu návígi. Þannig notar Jón Kalman iðulega upptalningu með skemmtilegum snúningi í endann með áhrifaríkum og smekklegum hætti. Dæmi um slíkt er t.d. á bls. 189 þar sem segir; „annars virðist vindurinn sífellt ná að þyrla einhverju upp til að óhreinka loftið, takmarka víðsýni íbúa, þurri mold, ryki, sælöðri, vonbrigðum, atvinnuleysi.“ Öllu má þó ofgera og þegar lesandinn rekst á sama stílbragðið í tengslum hótelstarfsmanna tveimur síðum síðar missir það heldur marks; [hótelstarfsmaðurinn er] „eins og skapaður til að bera eitthvað verulega þungt, sementspoka, vonbrigði okkar, byrðar heimsins“ (bls. 191).

Það kann að virka eins og smámunasemi að hafa orð á þessum þáttum í texta höfundar sem er annálaður fyrir orðkynngi sína og auðugt málsnið. En þegar slík hleðsla í orðfæri safnast upp án augljóss tilgangs hvað tíðaranda, sögusvið, framvindu eða hugmyndafræði varðar verður hún til þess að draga úr áhrifamætti verksins sem heildar.

Fiskarnir hafa enga fætur fjallar um mörg helstu mál samtíma okkar, hvort heldur sem er innan lands eða utan. Þrátt fyrir góða spretti og skemmtilega uppbyggingu verksins tekst ekki að gera neinu þessara mála viðunandi skil. Verkið varpar hvorki nýju ljósi á umræðuna né skerpir sjónarhornið á það almenna sem lesandi veit fyrir. Boðskapur verksins er einkum sá að listin komi okkur til bjargar, hún varnar því „að við klofnum,“ eins og aðalsöguhetjan Ari skrifar sjálfur í formála að bók frænda síns, það sem varnar því að við „rifnum í sundur, verðum að ógæfu, vætlandi sári eða hreinni grimmd, er skáldskapurinn, tónlistin: Listin. Í senn fyrirgefning og réttlæting á tilveru okkar, í senn leit og ögrun, ásökun og öskur, og ástæða þess að okkur tekst, þrátt fyrir ósamrýmanlegar andstæður innra með hverri manneskju, að lifa án þess að brjálast, án þess að rifna í sundur, verða að sári, ógæfu, byssu.“

Listin er sem sagt að mati Ara: „Ástæða þess að maðurinn getur þrátt fyrir allt, fyrirgefið sjálfum sér það að vera manneskja“ (bls. 61). Sjórinn, eða öllu heldur lífsins ólgusjór, er í þessu verki hið dæmigerða tákn undirmeðvitundarinnar, hann er það sem mótaði forfeður Ara og raunar flestalla í Keflavík sömuleiðis. Sjórinn er jafnframt það dýpi sem enginn getur fótað sig á svo fiskarnir þurfa enga fætur (bls. 312). Eða með öðrum orðum; umhverfið er stærsta mótunaraflið; um leið og maður gerir sér grein fyrir því er hálfur sigur unninn og það er veganesti Ara inn í framtíðina við sögulok.

Jón Kalman Stefánsson er án efa einn hæfileikaríkasti rithöfundur Íslands um þessar mundir og nýtur almannahylli sem slíkur. Honum tekst þó ekki alltaf jafn vel upp og þessi síðasta skáldsaga hans ber þess nokkur merki. Þótt það sé vitanlega engra annarra en höfunda sjálfra að greina hvenær ritverk þeirra eru fullunnin, þá er erfitt að verjast þeirri hugsun að meiri ígrundun og úrvinnsla hefði í þessu tilfelli skilað sterkari skáldsögu, ferskari hugsun og skarpari ádeilu.

 

Fríða Björk Ingvarsdóttir