Icelandic Art Today. Ritstj. Christian Schoen & Halldór Björn Runólfsson.

Hatje Cantz, Þýskalandi, 336 bls.

The End: Ragnar Kjartansson. Ýmsir höfundar.

Hatje Cantz, Þýskalandi, 119 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2009.

Icelandic Art Today

Icelandic Art Today (2009).

Óneitanlega fylgja því blendnar tilfinningar að blaða í gegnum bækurnar tvær sem liggja hér fyrir framan mig og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar (CIA) hefur kostað, en forstöðumaður hennar, dr. Christian Schoen, ber sérstaka ábyrgð á. Önnur nefnist Icelandic Art Today og inniheldur fræðilegar umsagnir um fimmtíu íslenska listamenn sem fæddir eru eftir 1950, hin er The End: Ragnar Kjartansson, sem er gefin út í tilefni af sýningu listamannsins á yfirstandandi Myndlistartvíæringi í Feneyjum. Öðrum þræði er fagnaðarefni að alþjóðleg útgáfa á borð við Hatje Cantz, sem dreifir bókum sínum um allar þorpagrundir, skuli taka þátt í þessum verkefnum af faglegum myndarskap –  raunar vitum við ekki enn hve mikla peninga íslenska ríkið lagði í púkkið – og þarna skuli samankomið heilmikið af ágætu lesefni eftir ágæta höfunda um marga ágætustu myndlistarmenn okkar tíma ásamt með myndefni í hæsta gæðaflokki. Eitt til viðbótar mætti telja Icelandic Art Today til tekna: greinar skrifaðar á íslensku eru þýddar á ensku af óvenjulegri leikni og smekkvísi.

Efasemdir mínar snúa að því hvernig staðið var að samsetningu þessara bóka heima í héraði, nánar tiltekið þær forsendur sem ábyrgðarmenn þeirra lögðu upp með. Þegar fréttist að CIA væri með í smíðum kynningarrit um íslenska samtímamyndlist í formi greinasafns um fimmtíu frækna fulltrúa hennar, þótti fleirum en mér hugmyndin dáldið gamaldags. Að því er ég best veit hafa menn víðast hvar gefist upp á safnritum eða samsýningum þar sem tilteknu úrvali listamanna er ætlað að varpa ljósi á myndlist heillar þjóðar, og borið fyrir sig efasemdum um vægi hins „þjóðlega“ í straumkasti alþjóðavæðingar. Auk þess hefur afstæðisstefna póstmódernismans vakið upp hræðslu við gæðahugtakið, það að gera upp á milli listamanna á grundvelli erindis eða erindisleysu verka þeirra. Það er ekki að sjá að þeir Schoen og samverkamaður hans, Halldór Björn Runólfsson, setji fyrir sig efasemdir af þessu eða öðru tagi. Fyrir Schoen er bókin einfaldlega eins konar „litróf“ (spectrum) samtímalistarinnar á Íslandi og HBR tekur í svipaðan streng, og bætir við að alls ekki megi líta á bókina sem samantekt yfir „fimmtíu bestu“ listamenn landsins af yngri kynslóð.

En vöntun á frekari lýsingu á aðferðafræði þeirra félaga, misvísandi yfirlýsingar HBR í fjölmiðlum um þær forsendur sem réðu vali listamanna – t.a.m. mátti á honum skilja að þeir sem væru duglegir að kynna sig í útlöndum hafi haft einhvern forgang, sömuleiðis lét hann að því liggja að bók þeirra væri mótvægi við of mörgum veglegum bókum um óverðuga listamenn á íslenskum markaði – og ekki síst gloppurnar í sjálfu valinu, gerir að verkum að Icelandic Art Today hlýtur að kom þorra lesenda fyrir sjónir sem tiltölulega tilviljunarkennt val tveggja sjálfskipaðra sérfræðinga. Óneitanlega er það fyrirhyggjueða dómgreindarleysi af þeim Schoen og HBR að baktryggja sig ekki með hlutlægri verklýsingu eða skipan valnefndar, þar sem ganga mátti að því vísu að í okkar litla þjóðfélagi mundi opinberlega kostað og útgefið „úrval“ af þessu tagi auka enn frekar á það sundurlyndi sem fyrir hendi er í hinum stóra hópi íslenskra myndlistarmanna. Og álitamál hvort HBR hefði, stöðu sinnar vegna, átt að taka þátt í samsetningu þessarar bókar án varnagla af því tagi.

Þreytt og snubbótt

Talandi um gloppur, þá er auðvitað margt í vali þeirra tvímenninga sem ekki þarfnast sérstakrar réttlætingar. Skárra væri það. Nokkrir myndlistarmenn fæddir eftir 1950 hafa klárlega stimplað sig inn í íslenska samtímalist með svo afgerandi hætti að ekki verður framhjá þeim gengið. Enda eru þau öll á vísum stað í þessari bók: Eggert, Georg, Gabríela, Helgi Þorgils, Hlynur, Hrafnkell, Ólöf, Rúrí, Steingrímur, Tumi og Co. En hví ekki býsna aðsópsmiklir jafnaldr-  ar þeirra, til að mynda Daníel Þ. Magnússon, Einar Garibaldi, Finna Birna Steinsson, Guðjón Ketilsson, Guðrún Einarsdóttir, Helgi Hjaltalín, Húbert Nói, Kristinn G. Harðarson, Kristinn E. Hrafnsson, Kristján Steingrímur, Sólveig Aðalsteinsdóttir og Þorvaldur Þorsteinsson? Þá hefði Ólafur Elíasson gjarnan mátt vera með í þessari púllíu, rétt eins og þær Inga Svala Þórsdóttir, Katrín Sigurðardóttir eða Þórdís Aðalsteinsdóttir, sem eytt hafa stórum hluta starfsævinnar utan Íslands. Þess má geta að eldri „útlagar“ eins og þau Erró og Steina Vasulka eru ávallt talin meðal íslenskra myndlistarmanna. Og hvar eru svo allir ljósmyndararnir sem sett hafa mark sitt á listsýningar á landinu undanfarin ár: Ívar Brynjólfsson, Katrín Elvarsdóttir, Pétur Thomsen, Spessi?

Hvað er það þá sem þeir Schoen og HBR leggja megináherslu á í vali sínu? Ef á heildina er litið virðist þeim í mun að halda fram hlut innsetningar- og vídeólistamanna, einkum þeirra sem eru að stíga sín fyrstu spor. Verða þá ýmsir eldri og þroskaðri innsetningar- og vídeólistamenn útundan, til dæmis Finnur Arnar Arnarson og Ósk Vilhjálmsdóttir. Sem er umdeilanlegt og óútskýrt eins og margt annað í þessari bók. Sömuleiðis virðast þeir Schoen og HBR hafa takmarkaðan áhuga á málverkum, nema hægt sé að finna þeim stoð í einhvers konar heimspeki (blómamálverk Eggerts Péturssonar kalla því á umtalsverða hugarleikfimi …). Því detta úr skaftinu flestir listmálarar sem fram komu á níunda áratugnum og ýmsir sporgöngumenn þeirra, til dæmis flestir „Gullpenslarnir“ (Daði G., Jón Axel, Erla, Valgarður G., Jóhann L., Sigtryggur B, Hallgrímur, Ransú). Og þá gefur augaleið að þeir tvímenningar hafa ekki áhuga á hræringum í nýrra málverki: graffítimálverki Daníels Arnar Halldórssonar og Huldu Vilhjálmsdóttur eða plexíglermálverki Bjarna Sigurbjörnssonar.

HBR fylgir samantektinni um listamennina úr hlaði með löngum formála um stefnur og strauma í íslensku myndlistarlífi frá upphafi SÚM. Þetta er því miður býsna þreytt og snubbótt uppsuða úr ýmsum fyrirliggjandi textum um þetta tímabil; hún sýnir hve brýnt er að taka gjörvallt SÚM til gagngerrar listsögulegrar endurskoðunar, fá á hreint hvernig fyrirbæri á borð við „arte povera“ höfðu áhrif á nokkra listamenn, greiða úr því hvernig menn skynjuðu og unnu úr áhrifum Dieters Roth, meta áhrif popplistar á SÚM-listamenn og svo framvegis. Formála HBR lýkur í þann mund sem flestir listamennirnir í bókinni eru að koma fram á sjónarsviðið, en þá segir höfundur einfaldlega að „erfitt sé að lýsa áhrifum eldri listamanna á þá yngri“, sem ég hélt að væri tilgangurinn með tilskrifinu.

Það verður að segja hverja sögu eins og hún er, að það er allnokkur fljótaskrift á allri þessari samantekt HBR, og kemur hún bæði niður á málfari og staðreyndum. Nokkur dæmi: Roberto Matta hefur mér vitanlega aldrei verið kenndur við abstrakt-expressjónisma, sömuleiðis er vafasamt að flokka verk Svavars Guðnasonar undir þá stefnu, Dieter Roth dvaldi aldrei sjö ár samfleytt á Íslandi, Ásmundur Sveinsson notaði járnafganga í verkum sínum á undan Jóni Gunnari Árnasyni, Sigurður Guðmundsson vísar að sjálfsögðu í póker í þeim verkum sínum sem kennd eru við „Fullt hús“ og þeir Magnús Pálsson og  Jón Gunnar Árnason eiga ekki heiðurinn að stofnun „deildar í mótun“ við MHÍ, heldur Hildur Hákonardóttir.

Einlægni, rómantík og bjór

En eins og minnst er á hér í upphafi komast aðrir höfundar yfirleitt vel frá sínum textum. Sumar greinanna eru í styttra lagi; e.t.v. vegna þess að ferill viðkomandi listamanna er ekki mjög langur, eða þá að ekki myndast nauðsynlegt trúnaðarsamband milli listamanns og höfundar. Textar um Huldu Stefánsdóttur, Siggu Björgu Sigurðardóttur, Egil Sæbjörnsson og Unnar Örn Auðarson eru áberandi stuttaralegir. Texti Evu Heisler um Harald Jónsson er ansi innihaldsrýr. Ólafur Gíslason bregður á það ráð fjalla mestmegnis um Heidegger í grein sinni um Hannes Lárusson og um mínimalisma í greininni um Þór Vigfússon. Einna læsilegastir eru bandarísku höfundarnir, Gregory Volk og Shauna Laurel Jones, en þau Æsa Sigurjónsdóttir, Margrét Elísabet Ólafsdóttir og Þóra Þórisdóttir hafa einnig margt athyglisvert að segja um „sína“ listamenn.

Icelandic Art Today er auðvitað ekki gagnslaust rit, en gagnlegra hefði verið að setja saman samfellda sögu íslenskrar myndlistar síðustu þrjá áratugi, þar sem fleiri listamenn kæmu við sögu; þannig rit mundi þá nýtast bæði til landkynningar og kennslu eða almennrar fræðslu innanlands.

The End: Ragnar Kjartansson

The End: Ragnar Kjartansson (2009).

Þeir Schoen og HBR koma einnig að vali listamanns á Myndlistartvíæringinn í Feneyjum, umfangsmestu (og dýrustu) kynningu á íslenskum listamanni erlendis sem íslenska ríkið stendur að. Val þeirra á Ragnari Kjartanssyni, 33 ára gömlum skemmtikrafti og æringja, hefur vakið töluverðar umræður í okkar litla listheimi, sem þó hafa ekki ratað inn í fjölmiðla nema að litlu leyti. Ákvörðunin hefur verið gagnrýnd á svipuðum forsendum og Icelandic Art Today; þar hafi vantað upp á röksemdafærslu og gegnsæ vinnubrögð. Þá eru þeir tvímenningar a.m.k. sjálfum sér samkvæmir. En vissulega hafa galgopalegar yfirlýsingar Ragnars sjálfs ekki hjálpað til, svo og lýsingar á því frómt sagt fáránlega raunveruleikasjói sem nú stendur yfir í Palazzo Michiel dal Brusá við Grand Canal í Feneyjum undir merkjum „einlægni“, „rómantíkur“ og Nastro Azzurro-bjórs. En menn geta huggað sig við það að þetta hefði getað farið enn verr: Ragnar hefði sem best getað ákveðið að fara til Feneyja sem gamalt hliðarsjálf, „Mr. Arse Farting“, til að setja saman viðhafnarstúku Hitlers sem hann fékk senda í pörtum frá Berlín fyrir nokkrum árum. Þá hefðu spunameistarar Schoens, þeir sem koma við sögu bókarinnar um listamanninn, loksins fengið verðugt verkefni.

Leikhús og lifandi uppákomur eru að sjálfsögðu komin inn í myndlistina til að vera; hægt er að rekja þær aftur til dada og jafnvel lengra aftur í tímann. Fram á sjöunda áratuginn voru þær sama marki brenndar og hefðbundin listsköpun í móderníska kantinum, voru hluti af framsækinni – og afskaplega alvarlegri – listrænni umræðu um mannlegt eðli og þjóðfélagið. Með tilkomu yfirborðskenndrar popplistar á sjöunda áratugnum færðist „lifandi“ list í átt til  sýndarmennsku í víðasta skilningi, menn fóru í auknum mæli að búa til tilfyndnar eða beinlínis skemmtilegar uppákomur og steyptu þá saman leikhúsi, uppistandi, sjónvarpsstíl og rokki og róli, í því augnamiði að hafa ofan af fyrir sýningargestum í fimmtán mínútur eða svo. Í seinni tíð hefur starf myndlistarmannsins því þróast í átt til eins konar „viðburðahönnunar“, framleiðslu á skyndibitum fyrir listhús. Ungur maður sem kallar sig „Curver“ – einhverra hluta vegna hefur hann farið framhjá þeim Schoen og HBR – bjó nýlega til sýningarviðburð í vita úti á landi, þar sem hann framleiddi lundapizzur í gríð og erg um nokkurra vikna skeið.

Goðsögn verður til

Ragnar Kjartansson hefur notið óvenju mikillar velgengni allt frá því hann útskrifaðist úr Listaháskólanum, enda er hann allt í senn geðþekkur, hæfileikaríkur og vel ættaður. Ólíklegustu aðilar hafa tekið hann upp á arma sér og greitt götu hans; 2005 lýsti breskur sýningarstjóri því yfir að hann væri með efnilegustu listamönnum sinnar kynslóðar í heiminum, en þau ummæli bárust um veröld víða eins og um véfrétt væri að ræða. Verulegt bakslag hefur ekki komið í stuttan feril Ragnars, nema hvað sýning á landslagsmyndum í Galleríi I8 leiddi í ljós að honum var fyrirmunað að mála slíkar myndir; raunar sló hann þá vopn úr höndum gagnrýnenda með því að segja að hann hafi alltaf ætlað að mála vondar/einlægar myndir. Uppákoma tengd áðurnefndum leifum af viðhafnarstúku Hitlers varð Ragnari heldur ekki til framdráttar, þar sem hann gafst upp á því að setja hana saman á sýningu eins og hann hafði áformað að gera; aftur sneri hann á úrtölumenn með því að lýsa því yfir að uppgjöf sín væri í raun eins konar gjörningur. Svo mikill var meðbyr Ragnars að þetta fremur ógeðfellda daður hans við minjar tengdar Hitler virtist ekki vekja upp neinar efasemdir um dómgreind hans. Ekki hefur heldur verið talað opinberlega um dómgreindarleysi í tengslum við kaup Listasafns Íslands á þessari viðhafnarstúku Hitlers, eins og Ragnar skildi við hana. Kaupverð verksins hefur ekki verið gefið upp.

Nú láir enginn Ragnari þótt hann grípi þau tækifæri sem menn leggja honum upp í hendur, svo fremi sem hann fær að syngja, tralla og skemmta fólki. Og það verður ekki ráðið af ummælum hans, hvort sem er í dagblöðum eða bókinni frá Hatje Cantz, að honum gangi mikið annað til en að „leika listamann“. Hér er það sem spunameistarar Schoens koma við sögu og búa til goðsögn sem hæfir Feneyjafara. Í bókinni um Ragnar eru kallaðir til hvorki fleiri né færri en átta höfundar frá ýmsum löndum, og gaumgæfa þeir hinar ýmsu hliðar á listamanninum. Maður að nafni Adam Budak fjallar um „dagdrauminn og leikhúsið“ í verkum Ragnars og nefnir til sögunnar mannvitsbrekkur á borð við Artaud, Wagner, Heine, Tómas af Akvínó, Bergson, Frederic Jameson, Deleuze, Guattari, Prampolini, Duchamp, Carrouges, Breton, Alan Badiou, Buster Keaton og Beckett. Annar höfundur, Caroline Corbetta, er meira á bókmenntalínunni og vitnar í Philip Roth, Ishiguro og Shelley, en  einnig Caspar David Friedrich, Paul Klee, Zygmunt Bauman, Meranovich, Gino di Dominicis og Carlo Sini. Þriðji höfundurinn, Cecilia Alemani, er höll undir kvikmyndir og sjóbisniss, í grein hennar koma við sögu Frank Sinatra, Douglas Sirk, Marilyn Monroe, Ingmar Bergmann, en einnig Beckett (aftur) og svo auðvitað Kierkegaard. Kona að nafni Florencia Malbran fjallar um það þegar Ragnar skrapp eitt sinn til Bandaríkjanna og nefnir Hudson River School, impressjónista, Action Painting, en líka Claude Monet, Carolee Schneeman, Harold Rosenberg, Vladimir Nabokov og Rudolf Wittkower. Fátt fer framhjá þessum höfundum; dagbókarlýsing Ragnars á bjórdrykkju sinni og vindlareykingum upp í sveit verður síðastnefnda höfundinum tilefni til allt að því grátbroslegra hugleiðinga um tilvistarkreppu nútímalistamannsins. Loks er í bókinni tiltölulega hófstillt lýsing sýningarstjóranna, Markúsar Þórs Andréssonar og Dorothée Kirch, á The End, sjálfu sýningarprójektinu í Feneyjum.

Til að gefa bókinni „respectable weight“, eins og það er kallað, eru síðan búin til og birt bréfaskipti þeirra Ragnars og sænsks gagnrýnanda, Andreas Ejiksson, sem eiga augsýnilega að vera á persónulegum nótum. Út af fyrir sig kemur þar fátt fram sem ekki hefur verið rætt út í æsar annars staðar í bókinni, nema hvað listamaðurinn verður á köflum býsna sjálfhverfur í lýsingum sínum. Hámark þessarar sjálfhverfu er sennilega að finna í fyrsta bréfi Ragnars til Svíans, en þá situr hann í sólinni fyrir utan útrýmingarbúðirnar í Auschwitz, sem hann er nýbúinn að skoða, en getur ekki um annað talað en fyrirhugaða sýningu sína.

 

Aðalsteinn Ingólfsson