Fjodor Dostojevskí: Hinir smánuðu og svívirtu. Skáldsaga í fjórum hlutum með eftirmála.

Gunnar Þorri Pétursson og Ingibjörg Haraldsdóttir þýddu. Forlagið 2018. 555 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2019

Áður en Ingibjörg Haraldsdóttir, okkar dýrmætasti rússneskuþýðandi, lést var hún byrjuð að þýða enn eitt stórvirkið eftir Fjodor Dostojevskí, Hina smánuðu og svívirtu, og komin nokkuð á veg inn í annan hluta sögunnar. Þá tók Gunnar Þorri Pétursson við verkinu sem kom út í ritröðinni Erlend klassík hjá Forlaginu sl. vor, íslenskum aðdáendum rússneska risans til mikillar gleði.

Hinir smánuðu og svívirtuSögumaður í ætt við höfund sinn

Hinir smánuðu og svívirtu hefur, sýnist mér, svolítið svipaða stöðu meðal skáldsagna Dostojevskís og Salka Valka meðal skáldsagna Halldórs Laxness, hún er annaðhvort talin síðasta æskuverkið eða fyrsta verk hins fullþroska höfundar. Hún kom út árið 1861, þegar höfundurinn stóð á fertugu, fyrst sem framhaldssaga í tímariti Dostojevskíbræðranna, Fjodors og Míkhaíls, síðan í bók sama ár og sló rækilega í gegn, enda prýdd flestum kostum heillandi afþreyingarsögu fyrir utan allt annað. Fimm árum síðar kom Glæpur og refsing (á ísl. 1984) og síðan hver af annarri, Fávitinn 1869 (á ísl. 1986–7), Djöflarnir 1872 (á ísl. 2000) og Karamazov-bræðurnir 1880 (á ísl. 1990–91), svo ég stikli bara á tindunum.

Hinir smánuðu og svívirtu er líka eitt fyrsta verkið sem Dostojevskí skrifar eftir þá hryllilegu reynslu að hafa verið dæmdur til dauða (fyrir að vera í bókaklúbbi þar sem bannaðar bækur voru ræddar) en náðaður frammi fyrir aftökusveitinni og sendur í fangabúðir í Síberíu. Í fangavistinni og útlegðinni sem fylgdi á eftir fárveiktist hann hvað eftir annað og má sjá merki um þá reynslu í Hinum smánuðu og svívirtu, því sögumaður bókarinnar, Ívan Petrovítsj (hann segir okkur aldrei ættarnafn sitt), kallaður Vanja, er veikur þegar hann skrifar söguna.

Vanja hefur gefið út eina skáldsögu þegar hann byrjar sögu sína, og í frásögninni af henni nýtir Dostojevskí líka eigin reynslu, því sú saga er greinilega skyld fyrstu skáldsögu Dostojevskís sjálfs, Fátækt fólk, sem hefur ekki verið þýdd á íslensku ennþá. Þeirri sögu var tekið með kostum og kynjum eins og sögu Vanja, meira að segja sömu gagnrýnendur fjölluðu um báðar bækur eins og Gunnar Þorri upplýsir okkur um í fróðlegum skýringum og eftirmála.

Það er ungur maður sem segir frá í Hinum smánuðu og svívirtu og þetta er „ung bók“, flestar helstu persónur eru á aldrinum 12–25 ára. Svo ungæðislegur er sögumaður að þegar hann lýsir einni persónu sögu sinnar, 28 ára gamalli greifynju, tekur hann fram að hún sé „ekkert unglamb lengur … og einhvern tímann, á sínum sokkabandsárum, hafði hún án nokkurs vafa verið forkunnarfögur“ (330)! Þessi ungi maður er í mikilli geðshræringu nánast alla frásögnina. Lesandinn getur vel orðið lúinn á því að fylgja honum á hröðum hlaupum hans um Pétursborg í öllum veðrum. Stundum er eins og hann stöðvi tímann, þá kemur hann fleiru í verk á einum degi en manni finnst mögulegt.

Tíminn er líka erfiður því nokkrum sögum vindur fram á sama tíma en þær fléttast ekki endilega saman, þannig að stundum þarf Vanja að tengja með setningum á borð við „Nú get ég haldið áfram þar sem frá var horfið í sögunni“ (74) eða „En fyrst verð ég að greina frá því sem gerst hafði undanfarnar tvær vikur …“ (411).

In medias res

Upphaf Hinna smánuðu og svívirtu er sterkt og óvenjulegt, eiginlega er eins og við séum stödd í miðri bók, og fyrsti kaflinn virðist um hríð laustengdur við meginfrásögnina, gæti jafnvel verið sjálfstæð smásaga. „Í fyrra, tuttugasta og annan mars, að kvöldlagi, varð ég fyrir stórundarlegri reynslu.“ Þannig hefst sagan. Reynslan sem hefur þessi djúpu áhrif á Vanja er að fylgjast með örsnauðu gamalmenni og einstaklega ógæfulegum hundi hans á síðustu stundunum í lífi þeirra. Vanja er sjálfur með hitasótt á spani um borgina í leit að þokkalegra húsnæði en hann býr í um þær mundir og lifir sig af áköfum tilfinningahita inn í ömurlegt ástandið á þessum auma samborgara sínum.

Vanja er hissa á hvað hann tekur eymd þessa ókunnuga manns nærri sér en eitthvað segir honum að þessi maður komi honum við og þar reynist hann sannspár. Í fyrsta lagi flytur Vanja inn í íbúð mannsins; þótt ótótleg sé er hún skárri en það sem hann hefur. Enn örlagaríkari afleiðing verða kynni Vanja og stúlkunnar Nellýjar, dótturdóttur gamla mannsins, sem kemur til að leita að afa sínum eftir að Vanja er fluttur inn í íbúðina. Loks reynist örlagavaldur í lífi afans og dótturdótturinnar vera hinn sami og rústar hamingju Íkhmenevs-fjölskyldunnar, fósturfjölskyldu Vanja. „Smásagan“ í fyrsta kaflanum teygir sem sé anga sína um alla bók og snertir margar aðalpersónur hennar.

Það var „í fyrra“ sem Smith gamli, afi Nellýjar, dó, en á ritunartíma sögunnar liggur Vanja á sjúkrahúsi, „dauðvona, segja þeir“ (21), heltekinn af ákafri löngun að koma á blað frásögn af árinu sem liðið er og hefur verið gríðarlega viðburðaríkt. Þeir viðburðir snúast fyrst og fremst um Íkhmenevs-fjölskylduna og þá einkum um dótturina, Natöshu. Þau Vanja og Natasha hafa verið alin upp eins og systkini, hún er þrem árum yngri en hann, rétt um tvítugt þegar sagan gerist. Þau höfðu smám saman ræktað með sér ástarhug en áður en þau tóku á sig rögg og opinberuðu trúlofun sína varð Natasha svo heilluð af öðrum fóstursyni foreldra sinna, Aleksej Petrovítsj Valkovskí eða Aljosha, að sambandið milli þeirra Vanja leystist upp án átaka. Vanja er ekki maður átaka og ást hans á Natöshu er fullkomlega laus við eigingirni. Það eina sem hann óskar er að hún verði hamingjusöm.

En Aljosha er ekki maður til að gera nokkra konu hamingjusama og allra síst Natöshu. Hann er ekki slæmur strákur, raunar vill hann vera alveg óskaplega góður, hann veit bara ekki sitt rjúkandi ráð og sveiflast milli ákvarðana, er ýmist á valdi Natöshu eða föður síns og skipana hans. Hann veit ekki að það er aldrei hægt að vera góður við alla og hlýða öllum bendingum, það endar með því að maður er ekki góður við neinn. Í angist fylgist lesandinn með þjáningum Natöshu með augum Vanja og skilur engu betur en hann hver þessi eitraða tilfinning er sem hefur stúlkuna svona á valdi sínu. Natasha fórnar beinlínis öllu fyrir þennan pilt. Hún yfirgefur hús foreldra sinna og flytur til Aljosha án þess að vera gift honum, slítur þar með sambandið við föður sinn og móður sem unna henni heitar en lífinu í brjósti sér – enda er hún einkabarn þeirra – og segir í rauninni skilið við æru sína í samfélagi þeirra tíma. Kannski trúir hún því framan af að Aljosha muni giftast henni en ekki lengi. Ofan á allt saman eiga feður þeirra Aljosha, Valkovskí fursti og Níkolaj Sergejítsj Íkhmenev, í illvígum deilum um fjármál þar sem furstinn hefur tögl og hagldir.

Valkovskí fursti er hinn illi örlagavaldur sögunnar, óforskammaður siðleysingi sem þó getur verið heillandi ef hann vill það við hafa. Hann er harðákveðinn í að gifta son sinn til fjár og Natasha kemur ekki til greina sem tengdadóttir, blásnauð eins og hún er. Átökin milli ástar og græðgi eru römm og það er að sjálfsögðu græðgin sem hefur betur.

Saga um ást

Hinir smánuðu og svívirtu er ástarsaga – en ekki beinlínis í anda þeirra rauðu. Natasha er áhrifamikil og sannfærandi mynd af konu sem elskar of mikið. Sálfræðingur með margra ára reynslu af að meðhöndla slíka fíkn gerir ekki betur en Dostojevskí með sitt næmi. Natasha er gáfaðri en Aljosha, betur að sér og skynsamari, en hún er haldin tilfinningu sem hún veit sjálf að er óheilbrigð. Brjáluð. „En hvað ef ég finn hamingjuna í sársaukanum sem hann veldur mér?“ spyr hún Vanja í vanmætti sínum (62). Hún gengur út í sambandið við vingulinn með bæði augu galopin og sættir sig við hvað sem er bara ef hún fær að vera hjá honum. Lýsingin á tilfinningum hennar er greinandi og skýr og sýnir vel glögga innsýn höfundar í tilfinningalíf manna. Handa Vanja á hún einungis vináttu á móti innilegri og óeigingjarnri ást hans.

„Að elska of mikið, þýðir ekki að margir verði ástarinnar aðnjótandi,“ segir fjölskylduráðgjafinn Robin Norwood í bókinni Konur sem elska of mikið (Iðunn 1987, 10), „eða að ást hennar sé of djúpstæð. Í sannleika sagt þýðir það að fá mann „á heilann“ og kalla þessa þráhyggju ást. Og samtímis því er opnuð leið þess að þráhyggjan fái vald yfir tilfinningum og hegðun viðkomandi konu, þrátt fyrir að hún geri sér ljóst að áhrif þessa ástands eru neikvæð fyrir heilsu og vellíðan. … Ástin er í slíkum tilfellum mæld í hlutfalli við þann sársauka sem hún upplifir.“

Þetta gæti verið skrifað um Natöshu og þessi grannskoðun á tilfinningalífi hennar er áhugaverðasti hluti skáldsögunnar, býður upp á endalausar vangaveltur um orsakir og afleiðingar. Ekki tafar ástarfíkn hennar af skorti á góðu fjölskyldulífi eða hamingju í uppvextinum, eins og mun algeng ástæða fyrir þessari áráttu. Er Natasha ef til vill of stór persónuleiki fyrir einfalt líf með ástríkum eiginmanni? Er hún haldin sjálfstortímingarhvöt – og hvað gæti þá valdið henni? Eru þau feðginin of náin þannig að hún þurfi að flýja hann, jafnvel út í smánarlegt líferni? Sem hliðstæðu við hana höfum við móður Nellýjar sem einnig elskaði of mikið, afneitaði líka sínum föður og fórst í hamförum óheilbrigðrar ástar. Þannig getur farið fyrir Natöshu, virðist Dostojevskí benda á, ef hún snýr ekki af þessari braut og tekur sjálfa sig fram yfir viðfang sinnar sjúku ástar.

Robin Norwood býður líka upp á þá skýringu á ástarfíkn að hún tengist yfirdrifinni löngun til að gera gagn: „Konan sem elskar of mikið spyr … örugglega einhvers staðar í leynum hugans: „Þarfnastu mín?““ segir Norwood, en spurning mannsins sem velur sér hana sem fylginaut er hins vegar: „Viltu annast mig og leysa vandamálin fyrir mig?“ (97) Það rímar fullkomlega við persónuleika Aljosha.

Önnur ástarsaga bókarinnar og ekki áhrifaminni er um Nellý sem fær djúpa og óslökkvandi ást á Vanja eftir að hann leitar hana uppi og bjargar henni – á síðustu stundu – frá hórumömmunni Búbnovu og körlunum sem hún hafði selt barnið. Nellý er vissulega barn að aldri en eins og allir vita sem hafa verið tólf ára stelpa þá eru ástir þeirra ekkert plat. Á móti fær hún vináttu Vanja sem er eins konar föðurást og það er henni stundum nóg en stundum ekki.

Dostojevskí hafði áhuga á örlögum ungra stúlkna, án baklands og varnarlausra. Hann finnur innilega til með þeim í klónum á sér miklu eldri mönnum – ég minni bara á Nastösju Filippovnu í Fávitanum. Barnavændi er engin ný bóla á okkar tímum. Í Fávitanum fullkomnar Dostojevskí líka myndina af manninum sem er svo góður að hann er nánast heilagur en Vanja er greinilega tilraun til að skapa þannig mann. Reyndar er líklega réttara að segja að Myshkin fursti, margbrotinn eins og hann er, sé settur saman úr þeim báðum, Vanja og Aljosha.

Fyrir utan þessar plássfrekustu ástarsögur þjáumst við með Níkolaj gamla Íkhmenev sem bugast þegar einkadóttirin stingur af til að lifa í synd með Aljosha. Anna kona hans þjáist líka en sem kona skilur hún Natöshu betur og skilningurinn hjálpar henni.

Sá sem öllu illu veldur

Persónan sem smánar og svívirðir, eins og titillinn leggur áherslu á, er Valkovskí fursti, faðir Aljosha. Ástin, þetta aðalrannsóknarefni sögunnar, snertir hann ekki og hefur kannski aldrei gert. Hann er eins og andstæðan sem er nauðsynleg til að draga aðalatriðið betur fram. Hann elskar ekki einu sinni son sinn. Hann er persónugervingur hins illa í sögunni en þrátt fyrir það er hann vel og skemmtilega gerð persóna, sjarmerandi maður sem hættir til að lifa um efni fram og er þess vegna stöðugt á höttunum eftir meira fé.

Valkovskí hefur sigtað út vellauðugt konuefni handa syni sínum, stúlkuna Kötju sem er yngri en Natasha og eins fögur og hefur ekkert fyrir því að töfra vindhanann Aljosha. Sjálfur stígur
furstinn í vænginn við stjúpu Kötju, Zínaídu Fjodorovnu greifynju. Konurnar sem hann hefur svikið á leið sinni gegnum lífið trufla hann ekki hið minnsta. Þó freistar hann þess að ná sambandi við Nellý, sem reynist vera dóttir hans, en stúlkan bregst við eins og hann sé pokurinn sjálfur. Það gerir Natasha líka þegar Valkovskí býðst til að kynna hana fyrir auðugum greifa sem geti „séð um“ hana (443) þegar Aljosha er horfinn á önnur mið. Vanja tekur fram að furstinn hafi „oftar en einu sinni liðkað til fyrir greifanum N., þeim gamla munúðarsegg, í málum af þessu tagi“ (443). Það er svartasti bletturinn á persónunni. Langt samtal Vanja og furstans á veitingahúsi seint í sögunni er einn af hápunktum hennar. Þar opinberar furstinn sinn innri mann af fádæma hreinskilni, enda síður en svo feiminn við sitt siðlausa eðli.

Þýðingin

Ég bý svo vel að ég hef undir höndum það sem Ingibjörg Haraldsdóttir var búin að þýða af þessari sögu áður en hún veiktist. Þetta er að sjálfsögðu uppkast sem hún átti sjálf eftir að betrumbæta og mér finnst Gunnar Þorri fara ákaflega vel með það, laga það í hennar anda en gefa þessari sögu líka sitt sérstaka yfirbragð sem eflaust er komið beint úr frumtextanum. Það er ákveðinn hitasóttarbragur á textanum alveg frá byrjun, enda fárveikur maður sem segir okkur söguna, og þann brag dregur Gunnar Þorri jafnvel betur fram en sjá má í uppkasti Ingibjargar.

Ef maður svo ber þennan texta saman við eldri þýðingar Ingibjargar þá finnst mér hann alveg sambærilegur við það besta sem frá henni kom. Eitt er víst og það er að við höfum eignast þýðanda úr rússnesku sem jafnast á við Ingibjörgu Haraldsdóttur í næmi og málsnilld. Sé hann velkominn á svið íslenskra bókmennta.

Silja Aðalsteinsdóttir