Huldar Breiðfjörð. Færeyskur dansur.

Bjartur, 2009.

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2011.

Færeyskur dansurFæreyskur dansur eftir Huldar Breiðfjörð ber undirtitilinn „ferðalýsing“ og við fyrstu sýn virðist óþarfi að bera brigður á það. Huldar lýsir komu sinni til Færeyja í febrúar 2009 og virðist helsti hvatinn að ferðinni hafa verið sá velvilji sem færeyska þjóðin sýndi Íslendingum eftir hrun, „þeir virtust ekki geta hætt að bjarga okkur“ (24), eins og segir í bókinni. Huldari rennur blóðið til skyldunnar og ákveður að rannsaka þessa þjóð: „Það var eitthvað sem ég gat gert – sjálfur ferðamaðurinn“ (25), segir hann.

Frásögn Huldars er trúverðug. Honum tekst ágætlega að gera grein fyrir því sem fyrir augu ber, dregur upp ljóslifandi myndir af eyþjóð sem honum finnst vera á sérkennilegum stað í huganum, „ýmist í kunnuglegri fjarlægð eða framandi nálægð“ (25). Fljótlega tekur hann að gantast með sjálfan sig sem „hinn vana ferðalang“ og bókin verður í aðra röndina að úttekt á stöðu hans. Huldar brýst aldrei út úr hinu takmarkaða hlutverki ferðalangsins sem sér allt utan frá og hefur viðmiðin meðferðis. Honum virðist ekki sérstaklega í mun að grafast fyrir um orsakir hlutanna og ekki er að sjá að hann hafi kynnt sér fyrirheitna landið að marki áður en hann lagði af stað eða eftir að ferðinni lauk. Hann er ekki heldur sérlega ágengur ferðalangur og hefur eiginlega meira af Íslendingum að segja en Færeyingum. Einu sinni kemst hann þó í kynni við Færeying, gamlan sjómann, fær að gista hjá honum og róa með honum eftir beitukóngi.

Bera má aðferð Huldars saman við aðferð Runólfs Ágústssonar í bókinni Enginn ræður för, reisubók úr neðra, en þar lýsir Runólfur nokkurra vikna ferðalagi um Ástralíu. Hann hefur greinilega lesið sér vel til áður en hann lagði af stað og því verður ferðin að hluta til markviss leit að merkisstöðum, ekki tilviljankennt ráf. Hann uppfræðir lesandann jafnóðum sem hægir á leiðarlýsingunni. Þegar hann kemur á slóðir Jörundar hundadagakonungs birtist t.d. alllöng greinargerð um ævi hans og störf og gleymist þá ferðalagið á meðan. Hann fjallar líka talsvert um stöðu frumbyggja í Ástralíu. Í lok bókarinnar birtir Runólfur sex síðna heimildaskrá sem sýnir hve ítarlega hann hefur lesið sér til.

Huldar fer á hinn bóginn afskaplega fínt í að bæta inn utanaðkomandi upplýsingum og þarf því enga heimildaskrá. Hann segir frá öllu á afslappaðan og stundum svolítið hnyttinn hátt. Hann gerir sjálfan sig að persónu, eins og Runólfur, og fylgir lögmálum persónusköpunar að því leyti að hann hikar ekki við að opinbera eigin breyskleika, með þeim árangri að persóna hans verður trúverðugri. Þetta er ekki tíðindamikil ferð en frásögnin heldur manni samt vel, ekki síst fyrir það að Huldar skrifar hana eins og skáldsögu, notar sviðsetningar og samtöl og er athugull. Allt verður þetta því læsilegt og sannferðugt.

Þangað til við komum að næstsíðasta kaflanum. Þá birtist allt í einu skáletrað dagbókarbrot sem virðist skrifað á Hótel Örk í Hveragerði. Þar vinna þeir Högni og Danni en menn með þeim nöfnum hafa verið fyrirferðarmiklir í Færeyjafrásögninni. Höfundurinn segist síðan vera kominn til að „gera loks eitthvað við þessa hugmynd sem hefur sótt á mig svo lengi; að segja sögu af ferðalagi sem aldrei var farið“ (148). Bíddu við, spyr maður sig þegar þarna kemur sögu, er hann að segja að bókin sé skáldskapur, hann hafi aldrei farið til Færeyja? Í framhaldinu veltir sögumaður einmitt vöngum yfir eðli frásagnar: „Eins veit ég að allar skáldsögur eru ferðasögur,“ segir hann. „Og að engin ferðasaga er sönn“ (148).

Ef verkið hefur verið skáldað fram að þessu þá ber Huldar skáldskapnum fagurt vitni. Hitt er svo annað að sumir eru þeirrar skoðunar að „hinn söguleiki „veruleiki“ … verði því aðeins merkingarbær að hann sé endurskapaður samkvæmt lögmálum bókmenntanna“, eins og Sigurður A. Magnússon orðaði það eitt sinn (Í tíma og ótíma, 30). Í þeim skilningi er allt eins konar skáldskapur, lögmál skáldskaparins einu aðferðirnar sem okkur standa til boða til að koma veruleikanum á framfæri og því allt í vissum skilningi skáldað. Það eitt að skrifa feli í sér skáldun eins og bandaríski rithöfundurinn Philip Roth hefur sagt; þegar reynt sé að flytja raunverulega persónu inn í texta umbreytist hún í eitthvað annað. Hlutverk skáldskaparins í miðlun er að margra mati, ekki síst póstmódernista, mjög fyrirferðarmikið og sagnfræðingar hafa velt því töluvert fyrir sér á undanförnum áratugum. Þeir hafa orðið meðvitaðri um tungumálið sem félagslega afurð og að orðaforði og orðræðuhefð hafa áhrif á frásögn og túlkun sagnfræðingsins. Eins hafa þeir gert sér grein fyrir því að textinn „hefur ávallt ákveðna bókmenntalega eiginleika sem hafa ekki með vísindi að gera heldur rithefðir“, svo vitnað sé í grein eftir Guðmund Jónsson sagnfræðing (Hvað er sagnfræði? 66–67).

Í dagbókarbrotinu undir lok bókar Huldars er minnst á að sögumaður hafi rambað inn á bókasafn. Lýst er einni „af þessum gráhærðu bókanunnum“ (14) eins og það er orðað. Sögumaður segist síðan hafa farið í landafræðihilluna og fyrr en varði verið sestur með bók sem hét Faroe Islands: the Bradt Travel Guide. Ég leitaði að bókinni á netinu og komst að því að þetta var raunveruleg bók. Þá fór ég í Gegni, upplýsingaveitu bókasafnanna, og athugaði hvort bókin væri til á bókasafninu í Hveragerði. Svo reyndist ekki vera en aftur á móti var til eintak á Selfossi.

Þegar hér var komið sögu mátti ekki á milli sjá hvað væri satt og hvað logið. Ég ákvað að hringja á bókasafnið í Hveragerði. Fyrir svörum varð Hlíf S. Arndal og af röddinni að dæma var hún ekkert farin að grána. Hún sagðist muna eftir Huldari og hafa skemmt sér yfir lýsingu hans á sér í bókinni. Ég spurði hvort áðurnefnd ferðahandbók væri til á safninu og sagðist hún halda að svo væri ekki en bauðst til þess að ganga úr skugga um það fyrir mig. Stundarkorni síðar fékk ég svohljóðandi tölvubréf frá henni, birt með leyfi bréfritara:

Eins og mig minnti eigum við ekki þessa kilju sem Huldar segist hafa blaðað í hér í safninu, þótt við eigum nokkrar bækur um Færeyjar. Það er því hans skáldaleyfi.
Ég get staðfest að hann kom hingað og honum dvaldist við landafræðihilluna og fletti þar bókum og las smávegis, en þessa bók fékk hann ekki að láni hjá okkur.
Lýsingin á bókaverðinum (mér, geri ég ráð fyrir) er mjög líklega nærri sannleikanum og það var eiginlega fyndið að uppgötva hvernig maður kemur ókunnugum fyrir sjónir niðursokkinn í vinnuna þegar róleg stund gefst.
Ég hef lesið þennan kafla nokkrum sinnum á bókakynningum og almennt hefur fólk haft gaman af.

Svarið þýðir að ekki er hægt að ganga að sannleiksgildi þessa kafla vísu. Til að bæta gráu ofan á svart spyr sögumaður í lok dagbókarbrotsins hvort Hveragerði teljist til landsbyggðarinnar og endurómar þar meginstef úr Færeyjaferðinni, nefnilega hvort Færeyjar séu í útlöndum.

Fór kauði til Færeyja eða ríslaði hann sér bara á Hótel Örk og spjallaði þar við Danna og Högna milli þess sem hann spann upp ferðasögu með aðstoð ferðahandbóka?

Nokkrum dögum eftir lestur bókarinnar hitti ég útgefanda Huldars; vissi hún hvort hann hefði farið til Færeyja? Hún sagðist vita það en kysi að svara því ekki. Það er greinilegt að bæði Huldar og forleggjarinn vilja halda því opnu hvort hann fór eða ekki og í framhaldi af því má spyrja hvað þau telji að unnið sé með því.

 

Rúnar Helgi Vignisson