Eiríkur Örn Norðdahl og Elías Rúni: Frankensleikir – eða hinn nýi Aurgelmir.

Mál og menning, 2022. 94 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2023.

 

FrankensleikirÉg skal viðurkenna að ég varð nær forviða þegar ég frétti af þessari bók. Jólasaga úr penna Eiríks Arnar Norðdahl? Barnabók sem hefst á því að tilvist jólasveina er hafnað – og heitir FRANKENSLEIKIR? Nú hlyti höfundurinn að hafa runnið til á ísfirsku svelli og dottið beint ofan á harðkúluhattinn, hugmyndirnar lekið út um koll skáldsins og hlutgerst í þessari án efa óviðeigandi bók. Það er kannski kvikindislegt að viðurkenna að einmitt þess vegna fannst mér ég þurfa að lesa þessa bók. „Hvernig dettur manninum þetta í hug?“ spurði ég mig oftar en einu sinni meðan ég beið eftir bókinni og hugmyndir mínar um hana ágerðust í sífellu. Svo þegar á hólminn kom reyndist bókin vera allt öðruvísi en ég átti von á, bæði mun ógeðslegri en ég gat gert mér í hugarlund, og hafði ég þó mínar væntingar, og miklu fyndnari og skemmtilegri sömuleiðis, þó að ekki hefði ég gert mér minni væntingar þar að lútandi. Hvern þremilinn var ég svo eiginlega að lesa? Ég veit það ekki alveg, en ætla þó að útmála mig eitthvað um það hér eftir bestu getu.

Vart þarf að taka fram að bæði titill og undirtitill vísa til gotnesk-rómantísku vísindaskáldsögunnar Frankenstein, eða hinn nýi Prómeþeifur eftir Mary Wollstonecraft Shelley. Þessi tenging er tekin alla leið frá upphafi bókar til enda. Systkinin Fjóla og Hrólfur fá þaðan hugmyndina að sínum Frankensleiki og á bakkápu sést hin auðþekkjanlega kápa íslenskrar þýðingar Böðvars Guðmundssonar á bók Shelley sem skógjöf í glugga, en sú þýðing kemur sömuleiðis við sögu. Sjaldan hefur ein bókarkápa orkað jafn ómótstæðilega á mig eins og sú á Frankensleiki, af þeim ástæðum sem að ofan eru taldar, og það er eitthvað við grallaralegt bros höfundar á bakkápu sem gefur til kynna að innihaldið eigi eftir að koma aftan að lesandanum.

Það gerir innihaldið sannarlega. „NEI, HA?“ er sennilega það sem ég missti oftast upp úr mér meðan ég las bókina. Fjóla er sex ára og veraldarinnar mesta jólabarn, en foreldrar hennar, þau Garðar Flautland Garðarsson og Brynja Vídalín – alls ekki vont fólk en heldur stíf og kannski svolítið ferköntuð, með sífelldar áhyggjur af því að þau séu að skemma börnin sín með vanhugsuðum uppeldisaðferðum – taka Fjólu á eintal og segja henni blákalt að jólasveinarnir séu ekki til. Sem er auðvitað alger vitleysa eins og öll börn vita. Eða kannski voru þeir einu sinni til, malda þau reyndar í móinn, en þeir eru það bara ekki lengur, gáfust kannski upp á rólunum eins og þar segir. Hrólfur, stóri bróðir Fjólu og sérfræðingur í varúlfum, skrímslum og uppvakningum, reynir að hughreysta hana með því að þótt þeir séu dauðir þá séu þeir kannski ennþá til, zombíandi gjafir ofan í skó barna um land allt. „Það sem deyr er ekki endilega alltaf dautt,“ segir hann og hljómar eins og tíu ára H.P. Lovecraft.

Frankensleikir

Frankensleikir, bakkápa. Myndhöfundur: Elías Rúni.

Fjóla tekur þessari uppljóstrun foreldranna hreint ekki af léttúð heldur æðir upp í fjöll þegar fjölskyldan er sofnuð, staðráðin í að strjúka að heiman. Uppi í fjalli finnur hún helli og innarlega í honum finnur hún grafir – einar þrettán, hver og ein merkt sínum jólasveininum. Hér komum við að því sem mér þykir einna skemmtilegast við bókina, sem er frásagnartæknin. Auðvitað er fjall beint upp af bænum og auðvitað eru jólasveinarnir grafnir einmitt í því fjalli fyrir Fjólu að finna. Það er alveg sjálfsagt. Hvert mannsbarn veit jú að jólasveinarnir búa einmitt í fjalli síns bæjar. Reykvíkingar trúa því að sveinarnir búi í Esjunni rétt eins og Bolvíkingar (ímynda ég mér) telja þá búa í Bolafjalli. Það er semsagt ekki verið að flækja hlutina neitt að óþörfu með einhverri fullorðinslegri rökvísi og það er mikill kostur. Þetta sést best á því sem Fjóla gerir næst: hún grefur upp alla jólasveinana, sundurrotnir sem þeir eru, safnar saman líkamshlutum þeirra og dröslar niður af fjallinu heim í bílskúr. Eins og stelpur gera.

Fyrst ástandið á jólasveinunum er svona þá þarf að gera eitthvað til að laga þá og bjarga jólunum. Þar á Fjóla hauk í horni þar sem bróðir hennar skrímslafræðingurinn er. Við erum rétt búin að ljúka fyrsta kafla bókarinnar þegar staðfest er að jólasveinarnir eru í senn raunverulegir og eins steindauðir og hugsast getur, og að loknum öðrum kafla er búið að sauma saman einn spánýjan jólasvein úr heillegustu leifum þessara þrettán og skila restunum ofan í ruslatunnu nágrannanna. Lesandi veit að ráðabrugg barnanna hlýtur að vera dauðadæmt. Finna nágrannarnir ekki LÍKAMSPARTA FJÖLDAMARGRA KARLA ofan í tunnunni hjá sér næst þegar þeir fara út með ruslið? Mér verður hugsað til jólasveinaparta (ég meina byssu) Tsjekhovs, en bókinni er sama um svoleiðis tittlingaskít. Þetta er vandamál fyrir aðra bók og það gleður mig á einhvern kvikindislegan hátt sem ég vissi ekki að ég ætti til í mér að engin tilraun sé gerð til að leysa úr þessu. Og þessu hlær maður að eins og óður væri, ekki síst fyrir tilstilli myndlýsinga Elíasar Rúna af aðskiljanlegum líkamspörtum jólasveina og samansaumuðum Frankensleiki með iðrin úti sem einhver ráð hljóta að vera með að vekja til lífsins. Já, hvað í ósköpunum erum við að lesa? Ég er ekki viss, en það er jafn sjúkt og það er skemmtilegt.

Þarna heldur lesandi kannski að hann viti hvað muni gerast næst. Ég skal aðeins fullyrða fyrir sjálfan mig, að ekki óraði mig fyrir því sem tók við. Það tekst nefnilega ekki að lífga Frankensleiki við. En verandi samsettur úr öllum þrettán jólasveinunum þá vaknar fyrst staurfóturinn undir honum þá nótt sem Stekkjarstaur er vanur að koma til byggða, og einhvern veginn dregur lifandi staurfóturinn hræið (hræin?) af sveinkunum út úr bílskúrnum og gefur öllum börnum í skóinn. Næstu nótt vaknar rassinn af Giljagaur, sprautar konfettí úr skorunni af gleði og gefur í skóinn, og svo koll af kolli. Þetta er ekki beint hátíðlegt. Nú átta börnin sig á því að sennilega hefði allt verið í himnalagi ef þau hefðu ekki búið til þennan óskapnað sem Frankensleikir er. Rétt eins og Viktor Frankenstein áttar sig á því að tilraunir hans til að finna lausn á dauðanum hafa snúist upp í hrylling (sem hefði að vísu mátt gera gott úr hefði hann ekki verið svona dæmalaust hégómafullur), þá skilja Fjóla og Hrólfur nú að þau hafa eyðilagt jólin. En skyldi enn mega gera gott úr þessu? Geta þau farið betur að sínu ráði en Frankenstein?

Þetta er án nokkurs efa ógeðslegasta barnabók sem ég hef lesið. Þetta er svona barnabók sem væri bönnuð innan sextán ára ef hún væri bíómynd. Kynni einhver að spyrja sig hvort svona bók sé yfirleitt við hæfi barna má gera ýmsar atlögur að svari við þeirri spurningu. Svarið sem mér sýnist blasa við er að foreldrar þekkja sín börn best og vita hvað er við þeirra hæfi, og þó held ég að fleiri börn verði hrifin af bókinni en sum foreldri myndu trúa eða vilja viðurkenna. Mörg börn elska hrylling og nægir að benda á ýmsar hryllingsbókmenntir fyrir börn og sömuleiðis eftir börn, til að mynda sænska safnritið Grænu höndina og íslenska systurbók hennar Eitthvað illt á leiðinni er. En svo eru önnur börn sem alls ekki vilja láta hræða sig eða vekja með sér viðbjóð. Sjálfur hefði ég verið himinlifandi með svona bók þegar ég var sex-sjö ára og kominn fast að fertugu er ég líka himinlifandi, en kannski á annan og ögn meiri miðaldra hátt. Ekki sá ég fyrir mér að líkamshorror yrði nokkru sinni hluti af íslenskri barnabókmenntasögu en hingað erum við komin og skyndilega virðist (næstum) allt vera hægt.

Eiríkur Örn Norðdahl hefur lengi viljað fara ótroðnar slóðir í verkum sínum, sumar að vísu kannski troðnari en aðrar, en hér held ég að honum hafi tekist að rata hárfínt á ólíklegustu grensur án þess að fara nokkurs staðar yfir þær, og niðurstaðan er að það er mjög erfitt að segja nokkuð um hvers konar bók þetta er. Ég veit ekki um aðra hennar líka en það skrifast kannski á mitt eigið þekkingarleysi. Er þetta barnabók? Andskotakornið, nei – en jú, víst! Þetta gæti ekki verið annað en barnabók. En samt er þetta líka bók sem ég held að höfði sérlega vel til foreldra (nema foreldrarnir séu pempíur, það er). Þetta er bók fyrir börn á aldrinum sex til hundrað og sextíu ára, svo lengi sem húmorinn er sæmilega svartur og kveikt á honum. Myndlýsing Elíasar Rúna undirstrikar þetta hárfína jafnvægi sem bókin dansar á, í senn vel gerðar myndir í sakleysislegum barnabókastíl en efniviður þeirra er á móti gróteskur, hryllilegur og temmilega klikkaður.

Hvern skrattann var ég að lesa? Viðbjóðslega, skemmtilega, og viðbjóðslega skemmtilega barnafullorðinsbók? Það er kannski rétta svarið. Ég finn engan ljóð á bókinni, ekkert sem mér þætti betra að væri öðruvísi. Ég sé enga leið til að hún gæti orðið betri en hún er. Það besta við hana er að hún er. Tilvist hennar er óvænt, en um leið svo gleðileg. Kannski svolítið eins og tilvist jólasveinanna, samansaumaðra í einn góðan Frankensleiki. Rétt eins og fígúran Frankensleikir gerir ekki annað með tilveru sinni en að gleðja börn á sinn undarlega og óhefðbundna hátt þá held ég að eins sé farið með bókina Frankensleiki. Þetta er bók sem gleður og mun halda áfram að gleðja á komandi jólahátíðum, um leið og hún vekur með okkur síendurtekna furðu og þessa nagandi spurningu: Hvern djöfulinn er ég að lesa?

 

Arngrímur Vídalín