Fríða Ísberg. Kláði.

Partus, 2018. 197 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2019

KláðiSkýringin á óvæntu heitinu á smásagnasafni Fríðu Ísberg, Kláði, fæst í síðustu sögunni, „Undanhlaupi“, sem birtist reyndar fyrst í þessu tímariti í fyrra (TMM 2 2018): „En svo er hitt,“ segir kerlingin á neðri hæðinni við sögukonu, „að hvað sem er getur orðið að kláða og í þínu tilfelli er það sorgin. Þú viðheldur henni bara með því að vera sífellt að fikta í henni. Það er skammtímalausn að klóra sér. Láttu kláðann í friði þangað til hann er hættur að angra þig.“

Það er einmitt þetta sem persónur sagnanna eiga margar hverjar svo erfitt með. Þær festast í umhugsun um það sem pirrar þær en sjaldnast fáum við að vita hvernig endirinn verður. Sögurnar verða í heild eins konar rannsókn á þeim mörkum sem fólk setur gagnvart sínum nánustu; hvað þolum við þeim og hvað ekki. Rannsakendur Fríðu eru fólk af báðum kynjum og á ólíkum aldri sem segir frá ýmist í fyrstu eða þriðju persónu en flestar sögurnar (tíu af fjórtán) hafa stúlku eða unga konu í sögumannshlutverki. Mörkin snerta oftast samskipti kynjanna.

Ljósakrónan dinglar til og frá

Fyrsta sagan, „Ljósakrónan“, er sögð í fyrstu persónu fleirtölu frá sjónarhorni miðaldra hjóna. Aldrei kemur fram hvort þeirra segir söguna en það sem sögumaður tekur eftir – það sem hann „sér“ – finnst mér frekar tengjast kvenlegri sýn, sjá til dæmis lýsingu á tengdadótturinni á bls. 11: „Hún leit út eins og frönsk leikkona; í fallegum hnepptum kjól úr hör, þykkt hárið bundið í snúð, viðbeinin framstæð, hálsinn langur og brothættur eins og á klukkublómi.“

Sagan fjallar um ergelsi hjónanna yfir sambúð með syninum og kærustu hans. Unga fólkið tekur ekkert tillit til eldra fólksins, kærir sig kollótt þótt húsið endurómi af dynkjum og stunum þegar þau elskast. Svo er kærastan svo berorð að jaðrar við klám! Sögumaður fær útrás við að niðurlægja unga fólkið í huganum/frásögninni, en myndi aldrei segja neitt af því upphátt, hjónunum er í mun að missa ekki sambandið við soninn. Frábær og launfyndin lýsing á illþolandi ástandi sem ekki sér fyrir endann á þegar sögu lýkur.

Afar berorð og blátt áfram ung kona er líka persóna í næstu sögu, „Að kúga eða kúgast“. Þar segir ungur maður frá og höfundur gengur vísindalega til verks. Ég hef ekki áður lesið eins nákvæma og afhjúpandi lýsingu á hegðunareinkennum fólks og getur lesandi skemmt sér við að máta sig við þau. Ungi maðurinn er í sambandi við kærustu númer þrjú og hún skorar framan af vel í samanburði við hinar fyrri. Hún er hreinskiptin og tilgerðarlaus og hann er orðinn vongóður um að sambandið muni endast. En þegar þau fara að búa saman koma skekkjumörkin í ljós og listinn er laaangur – á báða bóga! Klósettmúrinn verður erfiður yfirferðar og endanleg mörk hans reynast liggja við að pissa í sturtunni.

Í „Dúkku“ eru mörkin skoðuð frá sjónarhóli ungrar konu. Henni bregður í brún þegar hún finnur klám í tölvu sambýlingsins og finnst það vera svik við sig. En málið reynist ekki alveg svo einfalt.

Sambúðarvandamál eru líka könnuð í „Einmitt“ en þar eru sambýlingar tveir ungir karlmenn, Ingi og Siggi. Siggi hefur tekið líf sitt yfir á næsta stig þegar við hittum hann, eignast konu og barn, en skilið Inga eftir í einbýlinu og vanþroskanum. Lýsingin á því hvernig Siggi togast milli saknaðar eftir áhyggjuleysi yngri ára og yfirþyrmandi andstyggðar á gamla sambýlinu er skýr og þó margslungin.

Í „Fingri“ er sögukona á leið til kærastans til að segja honum upp – hún getur ekki vanist lyktinni af honum. Við erum á leiðinni til hans með henni og hún er að æfa sig á því sem hún ætlar að segja við hann. Inn á milli talar hún við umferðina í kringum sig og við mömmu sína í síma svo úr verður skemmtilega óreiðukennt eintal/samtal.

Sögukona og Indriði eru hætt saman í „Bláum dögum“, foreldrum hennar til mikillar gremju. Þrýstingur frá foreldrum varðandi sambúð og/eða framtíðaráætlanir barna sinna kemur víðar fyrir í bókinni en þessi saga er meira um ráðaleysi sögukonu sem vinnur á Grund og veit ekki hvað hún á að gera við líf sitt. Hún sér mann í Sorpu sem hana fer að dreyma dagdrauma um og kannski er endirinn á þeirri sögu rómantískur. Ef svo er þá er það eini votturinn af rómantík í Kláða.

Það má hlæja eins og hafið

Nokkrar sögur birta myndir úr lífi ungra kvenna í reykvískum samtíma. Þar er „Heim“ mest sláandi, saga í annarri persónu um týpíska stelpu á leið heim að næturlagi, labbandi. Þetta er hress stelpa sem lætur ekki „hálfan bjór fara til spillis þó svo að vinir þínir séu á heimleið, eða þótt djammfélagi þinn hafi fundið sér viðeigandi skyndikynni.“ (37) Lýsingin á því hvernig hún býr sér til gaddakylfu úr húslyklunum er í senn átakanleg og fyndin. Ætti hún að hringja í mömmu sína sér til halds og trausts? Mamma myndi skilja það. „Aftast í höfðinu er leyndarmálið sem þú lofaðir að segja engum, aldrei. Að henni var.“ Þá setningu þarf ekki að klára. Og stúlkan er reið yfir því að hún skuli vera hrædd í borginni sinni – „Að það sé búið að taka nóttina frá ykkur.“

„Sumar konur“ gæti þess vegna gerst á undan „Heim“ því hún segir frá undirbúningi undir að fara á djammið og frá djamminu sjálfu, ekta stelpusaga, skondin og skemmtileg. Titillinn er vísun í lag Bubba Morthens um konurnar sem hlæja eins og hafið. Sögukona og Kata vinkona hennar eru dásamlegar persónur og ansi miklu betur á vegi staddar en fatahönnuðurinn Sesselía í „Prófíl“ sem er að reyna að búa til úr sér nýja og betri persónu og eignast nýtt og betra líf. Með þessa ömurlegu sjálfsmynd á hún langt í land en vonandi getur hún einhvern tíma tekið mark á sálfræðingnum sem messar yfir henni: „Þegar þú verður óörugg, minntu þig þá á hvað þú raunverulega ert. Án lækanna og samfélagsmiðlanna. Klár, fyndin, skemmtileg ung kona.“ (115)

„Grenitré“, „Sjö“ og „1. apríl 2006“ hverfast um bernsku- eða æskuminningar. Best þeirra er sú síðasttalda sem hefur fermingardag sögukonu í miðju en heldur áfram þaðan nokkrum sinnum og hverfur svo til baka aftur. Skemmtileg sögutækni sem kemur vel út. Í lokasögunni, „Undanhlaupi“, notar Fríða svo bréf til að koma söguefninu til skila. Sögukona er í húsnæði Rithöfundasambandsins í litlum bæ úti á landi og á að vera að skrifa skáldskap en er svo illa haldin af sorgarkláðanum sem ég nefndi hér í byrjun að hún getur ekki skrifað neitt nema bréf til tvíburabróður síns sem hún hefur misst. Það er erfitt að gera upp á milli sagnanna en ég held að þessi sé best. Enda má segja að hún geymi lausnina fyrir sögurnar í heild – að láta kláðann vera!

Fjörugt og kraftmikið myndmál

Fríða Ísberg hóf feril sinn sem ljóðskáld og þess sér víða stað í sögunum. Stíllinn er oft ljóðrænn og orðanotkun og myndmál stundum alveg einstakt. „Hvað er hægt að kalla þessa fullorðnu unglinga?“ spyr sögumaður í „Ljósakrónunni“, „Hálforðið fólk? Funglinga?“ (16) Kærastan í „Að kúga eða kúgast“ sönglar „endalausar lagleysur, tóna sem fara óreiðukennt þvers og kruss um allt rýmið, eins og flugur í leit að opnum glugga.“ (22) „Það er ekki beint hægt að segja að sólin rísi á næststysta degi ársins,“ segir í „Grenitré“ (137): „Hún sest upp í rúminu, situr á rúmbríkinni, horfir í kringum sig, á fatahrúgurnar, óhreinu sokkana. Það er kalt. Það er dimmt. En það er hlýtt í rúminu. Hún lyppast aftur niður.“ Stelpan í „Bláum dögum“ býst við að verða afbrýðisöm út í nýjar kærustur Indriða: „En þegar hún hefur fyrst veður af bólförum fyrrum unnusta síns þá þarf hún a þukla á sjálfri sér og leita að öfundsýki í vösunum. Finnur hana hvergi.“ (179)

Það er nautn að lesa svona vel gerðar smásögur sem þar að auki opna manni sýn inn í líf ungs fólks á okkar tímum þegar allt á að vera svo frjálst en er í raun og veru múlbundið í gamlar venjur og nýjar kröfur og kvaðir.

Silja Aðalsteinsdóttir