Bróðir

Halldór Armand. Bróðir.

Mál og menning, 2020. 292 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2021

Bróðir er fjórða skáldsaga Halldórs Armands Ásgeirssonar sem merkir bækur sínar höfundarnafninu Halldór Armand. Umfjöllunarefni hans hafa verið samtíminn, en í fyrri bókum sínum, báðum sögunum í Vince Vaughn í skýjunum og í skáldsögunum Drón og Aftur og aftur, er fjallað um þær óðabreytingar á veruleika okkar sem tölvuvæðingin með öllum sínum algrímum, sjálfvirkni og gervigreind hefur gert okkur að lifa með. Allt eru þetta snarpar samtímasögur sem einkennast af tilraunum með form raunsæisfrásagnarinnar þar sem gjarnan er vísað til hugmyndasögu sem og sögu bókmennta og skáldskapar.

Síðastnefndu þættirnir eru talsvert fyrirferðarmeiri í nýjustu skáldsögu Halldórs Armands og má jafnvel segja að söguþráður og persónusköpun heyi á síðunum nokkra glímu í hinum heimspekilega brotsjó í innri átökum aðalpersónunnar, Skarphéðins Skorra, og hugleiðingum hans um siðfræði og réttlæti.

Samkvæmt baksíðutexta, sem tekinn er úr síðasta kafla bókarinnar, er um að ræða sögu „um hrylling og ofbeldi ástarinnar, […] grimmd örlaganna […] um það hversu lítið manneskjur hafa um það að segja hvernig líf þeirra fer. En þetta er líka saga um venjulegan mann […] sem hafði – til að orða það groddalega – drepið systur sína og vildi […] að heimurinn vissi að honum hefði aldrei gengið nema gott eitt til.“ (259) Hér er með öðrum orðum á ferðinni saga um réttlætingu sem hljómar kannski ekki spennandi, því slík saga hlýtur að liggja í hring, enda þar sem hún byrjaði, nefnilega á þeirri atburðarás sem þarfnast réttlætingar og síðan ekki söguna meir. Lífið heldur áfram. Eða er í því samhengi eitthvað meira að hafa? Já, þar er meira að hafa.

Saga um réttlætingu snýst óhjákvæmilega um alvarlegan atburð, jafnvel glæp og það ríður á að vegferð réttlætingarinnar búi yfir hæfilegum útúrdúrum sem skapi spennu. Sú er raunin í skáldsögunni Bróðir þar sem Halldór Armand beitir ólíkum og oft afar frumlegum frásagnartækilegum brögðum. Til að mynda er tímalína frásagnarinnar rækilega brotin upp með því að leggja hana í munn óáreiðanlegum sögumanni sem veit ekkert um þann leyndardóm sem sagan snýst um heldur verður í frásögn sinni að reiða sig á tilviljunarkenndar upplýsingar um það hvað gerðist þar sem samhengi milli orsaka og afleiðinga er ekki alltaf skýrt. Aðferð sem eykur spennu og virkjar lesandann í eigin ályktunum. Þá er frásögnin með markvissum hætti fleyguð leikrænum stakhenduþulum sem veita sannfærandi innsýn í myrkan huga aðalpersónunnar og tengja söguna við leikrit Shakespeares, einkum Hamlet, eins og síðar verður vikið að.

Í skáldsögu verður og nefnd vegferð réttlætingarinnar að afhjúpa einhvers konar sannindi, dýpri merkingu þess sem gerðist eða, eins og hér virðist raunin, að það sé einmitt engin dýpri merking, engin sannindi. Í þessum þætti sögunnar tekst höfundinum Halldóri Armand ekki eins vel upp og með vegferð réttlætingarinnar, þrátt fyrir að fara vítt og breitt um bókmennta- og hugmyndasögu hins vestræna heims, allt frá grísku harmleikjunum og Biblíunni til Shakespeares, Kants, Hegels og Sörens Kirkegaards. Allir eiga þessir hugsuðir og skáld sammerkt að hafa í skrifum sínum tekist á við tilvist manneskjunnar í heiminum; ræður einstaklingurinn einhverju um örlög sín eða er hann leiksoppur í keðju tilviljunarkenndra atburða og að lífið snúist um að sætta sig við þetta sem lífið snýst um að sætta sig við það eða beinlínis farast? Í skáldsögu sinni rannsakar Halldór Armand þetta orsakasamhengi, og eins og ljóst má vera fetar hann þar ekki einfalda leið, hvorki í hugleiðingu sögunnar, formi hennar og framvindu né í persónusköpun, hvað þá sögulokunum.

 

Fortíðin er lifandi ímyndun þrædd saman úr ótal minningum

Sagan er svolítið lengi í gang. Höfundur þarf að fara víða bæði í tíma og rúmi til að hlaða vörður svo lesandinn megi átta sig á hnitum skrykkjótts söguþráðarins í gegnum þau um það bil tuttugu ár sem sagan spannar.

Bókin hefst á nokkurs konar forleik sem er skemmtilegt að lesa aftur eftir að lokið hefur verið við bókina og öll kurl eru komin til grafar. Í þessum upptakti hittum við Skarphéðin Skorra í þann mund sem hann stígur upp í leigubíl ásamt sínum gamla vini, Pésa, sem Skorri hafði reyndar fyrir löngu misst allt samband við en bauð samt með sér til Nice. Þeir eru að nálgast þrítugt, félagarnir fyrrverandi, með sameiginlega fortíð í lögfræðinámi og við fáum fljótlega að vita að Pésa hefur farnast vel, eins og það er kallað, orðinn saksóknari. Skorri gerði réttarheimspeki að sínu fagi, sem kannski dugir skammt til lífsviðurværis eða er það eitthvað annað sem veldur því að hann rekur nú ásamt kærustu sinni, Kíöru, kaffihús í nágrenni Borgarness. Á þessari stundu, í sólinni í Nice í Frakklandi, er þó allt hvunndagsamstur fjarri. Árið er 2016 og félagarnir eru með miða á leikinn við Englendinga. Allar áhyggjur, allar tengingar heima, hafa verið settar á pásu; ekki hægt að gera neitt í neinu þessa daga sem ævintýrið í útlöndum stendur yfir. „Allt má,“ eins og segir svo yfirlætislaust í upphafi bókarinnar (5). En svo er ævintýrið í Nice á enda, við sigruðum Englendinga, og sögunni víkur til Borgarness.

Það er enn sumarið 2016 og Hanna Sunnudóttir segir frá í fyrstu persónu. Hanna er nýkomin upp í Borgarnes þar sem hún ætlar að dvelja sumarlangt við ritstörf, því hún trúir því „að heimurinn verði aðeins nýr í gegnum það sem hann var“ og að „(a)ðeins hið gamla sé raunverulega nýtt“ (61). Hér skulu drög að hennar fyrstu bók verða til. Sú bók verður hins vegar allt önnur en hún hafði gert ráð fyrir án þess að greint sé frá þeim áformum, eða er Hanna Sunnudóttir alls enginn rithöfundur heldur handbendi í átökum sem hún þekkir ekkert til?

Fyrir tilviljun hittir Hanna Skaphéðin Skorra og hugur hennar hvarflar til menntaskólaáranna þegar hún, businn, gerði hina þöglu og leyndardómsfullu Hrafntinnu Helenu, yngri systur Skorra, að átrúnaðargoði sínu án þess að þekkja hana nokkurn skapaðan hlut. Þær Tinna og Hanna kynnast aldrei en Hanna á í huga sér fáeinar myndir af tilviljanakenndum samskiptum þeirra sem hafa fylgt henni í gegnum lífið, jafnvel litað það og mótað.

Við ráðum svo litlu um það sem mótar líf okkar, einföld og í sjálfur sér ómerkileg hversdagsatvik verða örlagavaldur, eins og til dæmis það að unglingur er beðinn um að „passa vel upp á systur sína“ sem er talsvert yngri en hann (63). Faðir systkinanna er á leið á fyrsta stefnumótið við verðandi stjúpmóður þeirra en móðir þeirra hafði látist fjórum árum fyrr. Systirin litla hefði átt að sofa þetta kvöld og unglingurinn, Skarphéðinn Skorri fjórtán ára, hefði átt að geta orðið nánari skólasystur sinni, Unni, sem hann hafði boðið heim til sín í fjarveru föðurins til að horfa á mynd. En nei, það gerist ekki. Hrafntinna fær martröð, sem ekki er einsdæmi, og stóri bróðir verður að standa sig, „passa upp á hana“ eins og hann á alla tíð eftir að gera og því fer sagan eins og hún fer. Sagan sem Hanna skrifar, eða skrifar ekki, sagan sem lesandinn heldur í höndum sér, en samkvæmt henni gerir Skorri Hönnu að tæki sínu, segir beinlínis við hana þegar allt er komið í endanlegan hnút í lífi hans: „Ég er bókin sem þú komst hingað til að skrifa.“ (166) Hanna segist jú vera rithöfundur og það eru „einna helst rithöfundar sem taka alvarlega gjammið í Kant um að koma fram við annað fólk sem markmið en ekki tæki og dæmi fólk þess vegna ekki, heldur sjái það einfaldlega sem karakter í skáldsögunni sem er líf þess.“ (44)

Skarphéðinn Skorri segir Hönnu, og þar með okkur lesendum, frá lífi sínu, nokkuð hispurslaust og stundum af mikilli ástríðu, ekki í réttri tímaröð og aldrei allt. Hanna verður því að fylla í eyðurnar, geta sér til um undirrót sársaukans sem hún skynjar í fari hans. Er þetta „norræni sársaukinn […] sársauki manns sem þjáist af því að þjást ekki nóg“ eða „heimspekilegur sársauki“, „örvænting áhyggjuleysisins“, „samviskubitið yfir því að vera ekki í lífshættu allan liðlangan daginn?“ (47) Við lesendur getum ekki hjálpað henni að svara þessum spurningum því við vitum ekkert meira en hún. Þessi frásagnaraðferð, þar sem haltur leiðir blindan, forvitinn lesandi óáreiðanlegan sögumann, er afar snjöll, útfærð af vandvirkni og snerpu en líka miklum leik með byggingu, form og tímalega framvindu.

Líkt og öll leikrit Shakespeares skiptist skáldsagan Bróðir í fimm hluta og eins og boltasnillingur sólar hún öll í kringum meginviðburð sögunnar, spyrnuna örlagaríku sem öllu skiptir. Viðburður þessi, hrunið í lífi systkinanna, er staðsettur í miðju bókarinnar. Hrun íslensks efnahagslífs skömmu síðar kemur síðan endanlega í veg fyrir að tekist sé á við hið fyrrnefnda. Efnahagshrunið reddaðist, eins og við vitum, hitt reddast ekki.

Sagan af því hvernig lögfræðingurinn Skaphéðinn Skorri endar sem hettupeysuklæddur grænmetisræktandi og kaffihúseigandi verður með frásagnaraðferðinni sem hér var lýst spennandi samtímasaga um eldkláran, ungan mann í uppreisnarhug. Starf hans að loknu stúdentsprófi sem lyfjasendill á Landspítala Háskólasjúkrahúsi átti að verða fyrsta skrefið á framabraut hans að „yfirmannsstöðu tengdri bráðaþjónustu hjá spennandi Sameinuðu þjóða-verkefni í þriðja heiminum“ (48) en verður til þess að honum snýst hugur um leið og hann öðlast mikilvæga vitneskju um skammhlaupið sem getur orðið milli markmiðs og drauma. „Markmiðið er löngun í möguleikann, draumur er þráin eftir ómöguleikanum.“ (150)

Á lyfjalager Landspítalans starfar eilífðarhippinn Harpa Glódís sem hefur sæst á að vinna að uppreisn og réttlæti í heiminum einmitt þar. Hún reykir hass í kaffipásunum en stelur líka sjúkrarúmi og selur til þess að Elísa, samstarfskona hennar frá Dóminíska lýðveldinu, geti loks eftir margra ára þrældóm í láglaunastarfi á Íslandi flogið heim og hitt foreldra sína. Með orðum Hörpu Glódísar: „Að stela sjúkrarúmi af íslenska ríkinu er bara leið til þess að endurheimta einhvern vott af réttlæti handa Elísu.“ (99) Senan þegar rúminu er ekið eftir Eiríksgötunni, troðið um borð í sendiferðabíl og ekið til viðtakandans í fína húsinu hans í besta hverfi Kópavogs er óborganleg. Nýstúdentinn Skaphéðinn Skorri fær í samskiptum sínum við Hörpu Glódísi góða bónusa, eins og þá sannfæringu að hann geti „með ákvörðunum sínum haft tafarlaus og raunveruleg áhrif á gang heimsins,“ (108) hvorki meira né minna. Mikilvægara er þó fyrir gang sögunnar, að hann eignast skilningsríkan trúnaðarvin og fær góða æfingu í alþýðlegri rökræðu um réttlæti og sanngirni í samfélaginu sem á eftir að nýtast honum í rökræðum við föður sinn, meltingarlækninn Alfreð, sem einnig er mikilvægt fyrir framvindu sögunnar.

Í fína einbýlishúsinu þar sem allt er til alls eiga þeir feðgar eftir að deila um margt; framtíð Skorra, fasisma Mikka mús og flóttamannavandamálið, og hin barnunga Hrafntinna tekur jafnvel þátt í rimmum feðganna með sínum hætti. Þessar deilur milli föðurins og móðurlausra barna hans ná hápunkti í sumarbústað fjölskyldunnar þar sem framferði goðumlíkrar móðurinnar heitinnar í lifanda lífi er afhjúpað og Skorri flýr hinn óbærilega sannleika og tekur systurina með sér. Faðirinn er of drukkinn til að hindra þessa för sem á eftir að ákvarða líf beggja, hvort sem það „sem gerðist, gerðist fyrir mistök,“ (207) eins og segir í hendingu einnar af hinum leikrænu shakespearesku þulum, sem fleyga frásögnina reglubundið.

Það sem gerist þéttir böndin milli systkininna, litlu systur og stóra bróður, sem nú geyma með sér leyndarmál sem enginn má nokkru sinni vita um. Lýsingin á innri baráttu Skarphéðins Skorra eftir þetta atvik er sannfærandi en er ekki til þess fallin að vekja samúð með ungum manni sem hefur verið sviptur ljóma minninga um látna móður og aukinheldur eignast leyndarmál sem „er öllum dauðlegum mönnum ofviða,“ (292) eins Hrafntinna orðar það á síðustu síðu bókarinnar. Skorra sjálfum er hins vegar, eins og hann þreytist ekki að staðhæfa, mikilvægast að vernda systur sína, sem er í raun vernd hans sjálfs. Þegar svo örvæntingin andspænis lífi, sem óhjákvæmilega verður þrungið íhugun um glæp og refsingu, nær hápunkti og stíflan brestur – því það hlýtur hún ítrekað að gera – brestur um leið raunsæisfrásögn sögunnar og yfir lesandann flæða stakhendar einræður í flutningi grískrar harmleikjahetju; prinsins sem getur ekki gert neitt rétt eftir að hann hefur gert eitt rangt, heldur aðeins stöðugt leitað réttlætingar á því að svara aldrei spurningunni um orsakasamhengi glæps og refsingar og fá því aldrei endurlausn fyrir yfirsjónina, hvorki fyrirgefningu né makleg málagjöld.

Hér erum við komin að kjarna málsins, kjarna skáldsögu Halldórs Armands, sem er heimspekilegar vangaveltur sjálfhverfs millistéttarkarlmanns um tilgang lífsins; lífs sem einstaklingurinn ræður engu um og ævinlega endar með dauða. En í lífinu er líka ást, til dæmis á milli systkina eins og klassísk bókmenntasaga er full af; ást sem ýmist er heilandi örvun og vernd eða eyðileggjandi afl og kúgunartæki. Verndandi ást Skorra til systur sinnar er rót þess sem gerist í sögunni og umbreytist við það í eyðileggjandi valdabaráttu.

Í angist sinni sviptir bróðirinn systur sína því dýrmætasta sem hún á, skriftunum, því „það sem er skrifað lifir.“ (198) Skorri rífur í sundur bækurnar hennar og beitir hana þar með líkamlegu ofbeldi. Með líkamlegu ofbeldi reynir hann líka að koma í veg fyrir að hún fari til Berlínar, þótt sjálfur sé hann á leið til framhaldsnáms í Oxford, sem reyndar fer litlum sögum af. Í Berlín finnur Hrafntinna, frjáls undan vernd bróðurins, aftur leið til skriftanna, þess sem ljómar „bæði í huganum og á síðunni,“ (223) aldrei þó undir eigin nafni. Það kemur lesandanum hér í fjórða og næstsíðasta hluta sögunnar ekki á óvart að nýtt djammskáld klúbbasenunnar í Berlín skuli velja sér dulnefnið Raving Hamlet þótt líf danska prinsins, ákvarðað af svikum, morðum og misvísandi leiðsögn úr öðrum víddum, eigi meira sammerkt með bróðurnum en Tinnu sjálfri.

Endanlegt uppgjör Skarphéðins Skorra við örlög sín á sér stað við Öxará á Þingvöllum. Örn lokkar hann fram á bjargbrún þar sem hann í shakespeareskum díalóg kemst í samband við látna móður sína og fær frið við orð hennar: „Að lokum hljótast makleg málagjöld / þá lítil systir kveður þína sögu.“ (208) Og systirin kveður, ekki einu sinni heldur aftur og aftur. Hún fer til Berlínar, hún verður skáld, hún verður ástfangin og er svikin – og ekki bara hún heldur allir vinir hennar í Berlín. Áður hafði bróðirinn gert henni að velja milli kærastans og sín. Hrafntinna valdi kærastann sem reyndist svikari. Hún hverfur en bróðirinn finnur hana og að lokum eru systkinin aftur saman. Saga þeirra hefur verið kveðin, sagan sem við vorum að lesa, skrifuð af Hönnu Sunnudóttur, alias Hrafntinnu Helenu Alfreðsdóttur, en þó fyrst fremst af Halldóri Armand.

 

Nokkur orð að lokum um bláþræði, spekiþyngd og persónur sem fá ekki að vera

Eins og ljóst má vera er Bróðir tilraunakennd og frumleg skáldsaga með sterkum hugmyndasögulegum dráttum. Hér er jafnframt á ferðinni svokölluð sjálfssaga (metafiction) en slíkar sögur hverfast meðal annars um eigin tilurð og oftar en ekki einnig um ástæðuna fyrir því að viðkomandi saga hafi þurft að verða til. Eins og lýst var hér að framan er atburðarás sögunnar sett fram í miklum stökkum fram og aftur í tíma, sem reynist snjöll aðferð til að skapa spennu en við það verða til bláþræðir sem stundum eru teknir upp síðar en líka oft einfaldlega látnir liggja. Það má kallast nokkuð djarft að skilja með þessum hætti eftir göt í svo spennandi frásögn en slíkt virkjar lesandann til að spinna þræði áfram sjálfur. Hvað gerðist í Nice nóttina eftir sigur Íslendinga á Englendingum? Hvernig gat Hrafntinna orðið ástfangin af Espen? Hvers vegna lét móðir systkinanna ekki reyna á rithöfundardrauma sína og hvaða mann hafa Hanna Sunnudóttir, Kíara, Pésinn, og Sigga, sem verður stjúpmóðir systkinanna, raunverulega að geyma. Flestar nefndra persóna fá einhvers konar kynningu en sú nær sjaldan lengra en nauðsyn krefur til að styðja við meginsöguna um hin tragísku systkini í leit þeirra að hlutverki í lífi sínu.

Aðrar persónur en systkinin verða því gloppóttar og skreppa stöðugt undan sambandi við lesandann, nema ef vera skyldi Harpa Glódís sem fær að stíga fram á eigin forsendum. Í upphafi virðist ætla að verða eitthvað úr persónu Hönnu Sunnudóttur, að þau Skorri eigi raunverulegt samtal á grundvelli heimspekilegs áhuga beggja, en af því verður ekki því Skorri gleypir hana umsvifalaust. Einnig hefði verið áhugavert að fá að kynnast Hrafntinnu Helenu betur, öðlast innsýn í aðdáun hennar á stóra bróður og þá einnig skilning á ástarsambandi hennar við svikarann. En Skorri gerir hana ekki síður en Hönnu að tæki og sjálfan sig að markmiði í hennar lífi. Allt til þess að verða ekki dæmdur? Eða til þess að í krafti þess að játning hans birtist opinberlega á bók finni hann huggun í trúarlegum, Kirkegaardískum skilningi, lærist að vona þrátt fyrir hræðilegan glæp og að allt verði gott á ný. Faðirinn, broddborgarinn og meltingarlæknirinn, fær reyndar ket á sín bein og lýsingarnar á starfi hans við endaþarmsskoðun og ást hans á jeppanum sínum eru skemmtilega jarðbindandi í heimspekilegu flugi sögunnar. Það að láta efnahagshrunið jafna út manndráp verður hins vegar frekar lágkúrulegt en afhjúpandi fyrir firringu nútímamannsins.

Um móður systkinanna, konu sem lét sig dreyma um þoku, „ekki til þess að leita einhvers í henni, heldur til þess að týnast“ (150) fær lesandinn fátt að vita, annað en að hún hafi verið orðin ofurleið á lífinu sem eiginkona læknisins áður en hún veiktist af krabbameini og dó. Og hún skrifaði „af sama náttúrulega léttleikanum og fuglarnir syngja,“ (189) eins og faðirinn orðar það þegar hann réttir syninum handskrifuð bréf hennar. Hvað í þessum bréfum stendur fylgir ekki sögunni, enda tilgangur þessara upplýsinga augljóslega fyrst og fremst að staðfesta að Hrafntinna á ekki langt að sækja skáldgáfuna. Þess vegna verður Skorri að eyðileggja bækur Tinnu. Afhjúpun leyndarmálsins er í húfi og gangverk skáldsögunnar snýst um að hindra það en ekki um samskipti misbreyskra persóna. Það er hinn hái, myndarlegi Skarphéðinn Skorri, svo fluggáfaður og íhugull, sem einn ræður þessu gangverki. Eina ógnin er Hrafntinna, sú sem leyndinni er ætlað að vernda. Aðrar persónur birtast í ákveðnum tilgangi og hverfa þegar hlutverki þeirra fyrir framvinduna er lokið. Kannski er þetta hluti af aðferð höfundarins til þess halda saman meginviðfangsefni skáldsögu sinnar, goðsagnakenndri frásögum um heimspekilega rannsókn þess hversu lítið manneskjur hafa að segja um eigið líf.

Skarphéðinn Skorri hefur framið hræðilegan glæp og við honum fæst líklega engin endurlausn önnur en sú svíun sem sannleikurinn veitir, að ganga í verkin – taka trúarstökkið, „treysta án tilefnis“. (25) En Skorri er enginn Abraham heldur er hann þvert á móti svo uppfullur af sjálfum sér, sínum gáfum og sínum rétti, að hann getur ekki gengist við sannleikanum og þar með því að í „myrkri óvissunnar verðum við fyrst mikilfengleg“ (25). Eða er það einmitt það sem höfundur er að segja okkur að Skorri geri þegar hann fellur í rúmið í káetu skipsins sem fjölskyldan siglir með um Miðjarðarhafið, „krossleggur ökklana og liggur á bakinu í uppgjöf með handleggina útrétta yfir rúmstokkinn þar til augun lygnast aftur og höfðuðið veltur til hliðar“ (289).

Það er ekkert einleikið í þessari skáldsögu Halldórs Armands, Bróðir, þar sem lesandinn er stöðugt minntur á grundvallarspurningu Sörens Kirkegaards um að allt sé hvorki-né og samtímis annaðhvort-eða. Um það og fleira í víðfeðmum vísanavef sögunnar eiga háskólanemar framtíðarinnar ugglaust eftir að skrifa lærðar ritgerðir. Spennuuppbygging og stílfærni Halldórs Armands gerir hins vegar að verkum að hér er á ferðinni áhugaverð og frumleg skáldsaga sem vekur fleiri spurningar en hún svarar, ekki síst um margvíslegar aðferðir skáldskaparins.

 

Jórunn Sigurðardóttir