Steinunn Jóhannesdóttir. Heimanfylgja: Skáldsaga um uppvöxt Hallgríms Péturssonar byggð á heimildum um ættfólk hans og samtíð.

JPV útgáfa, Reykjavík, 2010.

 

HeimanfylgjaHallgrímur Pétursson er stórveldi í íslenskri bókmenntasögu síðari alda. Passíusálmar hans hafa verið prentaðir allt að 83 sinnum síðan árið 1666 þegar þeir komu fyrst út. Þeir hafa verið þýddir á fjölda tungumála og eru enn lesnir upp á föstunni í ríkisútvarpinu og kirkjum landsins. Aðrir sálmar hans og kvæði hafa verið prentuð í sérstöku hefti allt frá árinu 1755, og nú um stundir er verið að gera vísindalega útgáfu á heildarverki hans á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Andlátssálmur hans, Allt eins og blómstrið eina, er sunginn við margar jarðarfarir nútíma Íslendinga (eða að minnsta kosti erindi úr honum) og flestir kannast sjálfsagt við heilræðavísur hans, Ungum er það allra best, en skólabörn voru lengi látin læra þær utanbókar í grunnskólum landsins. Ævisaga Hallgríms, eða öllu heldur ágrip af ævisögu hans, hefur verið skrifuð nokkrum sinnum, líklega fyrst af séra Jóni Halldórssyni (1665–1736) í Hítardal, [1] en einnig af fleiri 18. aldar mönnum í bókmennta söguritum þeirra og rithöfundatölum. Magnús Jónsson guðfræðiprófessor skrifaði um Hallgrím á fyrri hluta 20. aldar og Margrét Eggertsdóttir í byrjun 21. aldar, svo nokkuð sé nefnt. [2] Ekkert hefur þó verið skrifað um æsku Hallgríms og uppvöxt, enda litlar sem engar heimildir til um það efni. Steinunn Jóhannesdóttir ræðst í það verkefni að gera sögulega skáldsögu um æskuár Hallgríms, eða heimildaskáldsögu eins og hún kallar söguna, enda hefur hún rannsakað allmargar heimildir um fyrstu áratugi 17. aldar, og heimildir frá þeim tíma, sem hún nýtir sér óspart í skáldsögu sinni.

Í eftirmála skáldsögunnar, „Til lesarans“, greinir Steinunn frá því hvernig spurningar um æskuár Hallgríms hafi tekið að leita á sig þegar hún vann að skáldsögu um samband Hallgríms Péturssonar og Guðríðar Símonardóttur. Hún fór að velta því fyrir sér hvað hafi gert hann að skáldi og kemst að þeirri niðurstöðu að um hann gildi hið sama og mörg önnur skáld, eftir því sem finnskar rannsóknir hafi leitt í ljós, þau hafi haft góðan aðgang að bókum í æsku, haft persónuleg kynni af skáldi eða rithöfundi og orðið fyrir trámatískri reynslu eða áfalli sem kallaði á úrvinnslu í frásögn (sjá bls. 381). Sýnist henni allt þetta geta átt við um skáldið Hallgrím Pétursson.

Sagan hefst á eins konar ferðalagi, fæðingu barns, [3] og henni lýkur með því að sama barn hleypir heimdraganum og heldur af landi brott. Áfangastaður fyrra ferðalagsins voru hlýjar móðurhendur og nærandi móðurmjólk en í lok sögunnar sendir amma strákinn út í heim með „hangikjötsbragð á tungunni“ (bls. 377). Þannig mynda ferðalög og fæða ramma um söguna af uppvaxtarárum þjóðskáldsins, en hvort tveggja er einnig þáttur í erfiðri lífsreynslu stráksins, og þar með þroska hans, á þeim árum sem sagan fjallar um. Flutningurinn úr Gröf, frá móður og systkinum, var sú trámatíska reynsla sem mest áhrif hefur haft á skáldið í túlkun Steinunnar, auk þess sem ferðalög bæði Hallgríms sjálfs, föður hans og annarra sem við sögu koma enda oft með ósköpum, drukknun og slysförum. Matur kemur oft við sögu (sem eðlilegt getur talist í samfélagi þar sem matur var tíðum af skornum skammti) og hefur stundum áhrif á tilfinningalíf stráksins; opinberar jafnframt fyrir lesendum djúpan söknuðinn eftir móðurinni.

Þegar hann heimsækir Margréti, móður Kristjáns vinar síns á Hólum, í fyrsta sinn og fær að borða graut með eplavíni sem er „ættað úr sjálfum aldingarðinum Eden“ og saltan síðubita, sem hann nagaði „þangað til ekkert var eftir nema sleikt beinin“, veitir maturinn honum unað og slær á heimþrá og söknuð eftir móður og systkinum. „Það fór um hann sælukennd við að horfa á þessa konu … Hallgrími fannst hann vera um það bil að eignast hlutdeild í öllu því sem Kristján átti. Jafnvel móður hans, systur og bróður“ (bls. 110–111). Margrét og fjölskyldan í brytabænum ganga honum í fjölskyldustað upp að vissu marki. Um nóttina eftir veisluna góðu dreymir hann mömmu sína og eplagrautinn (móðurmjólkina) en í draumnum breytist mamman skyndilega í Margréti. Adam var þó ekki lengi í Paradís, viku síðar er honum kippt niður á jörðina þegar hann fréttir af drukknun unnusta frænku sinnar, einmitt þegar hann er að gæða sér á súpu hjá Margréti. Hann missir lystina á súpunni (bls. 113). Brytafjölskyldan getur aldrei fullkomlega komið í stað móður og systkina.

Grautarsletta Halldóru biskupsdóttur er þó sá matur sem veldur mestum straumhvörfum í lífi söguhetjunnar. Þröngt er í búi á staðnum og „tók Halldóra sér stöðu við hlið Ingveldar matráðskonu og fylgdist sjálf með því að enginn fengi of stóran skammt úr grautarpottinum en allir eitthvað. Hallgrímur rétti fram askinn sinn og fékk slettu úr sleifinni sem varla gat talist botnfylli. Hann var svo svangur að garnirnar í honum gauluðu“ (bls. 364). Hallgrímur fer að dæmi Ólivers Twist og biður um ábót en fær ekki meira, ekki frekar en Óliver í sögu Charles Dickens. Í reiði sinni yfir þessu ranglæti (prestarnir sem höfðu tekið þátt í nýafstaðinni biskupskosningu höfðu fengið krásir að snæða á sama tíma og vinnufólkið fékk ekki fylli sína) yrkir Hallgrímur níðvísu um Halldóru biskupsdóttur (bls. 367). Höfundur Heimanfylgju gefur sér að vísan sú, ásamt annarri sem Hallgrímur orti um Arngrím lærða, hafi orðið til þess að hann var rekinn úr Hólaskóla með skömm. [4]

Andleg næring skiptir einnig máli í sögu Hallgríms, enda eitt af höfuðskilyrðum fyrir því að verða skáld samkvæmt finnsku rannsókninni sem höfundur nefnir í eftirmála sínum. Hallgrímur kynnist bæði Grettis sögu (hjá afa) og Vísnabókinni (hjá pabba) heima hjá sér í Gröf en það er á Hólum sem augu hans opnast fyrir heillandi heimi bókmenntanna: „Hann gat ekki hætt að hugsa um allar bækurnar sem hann hafði séð í prenthúsinu. Hann hefði ekki getað ímyndað sér að til væru svona margar bækur á öllu landinu“ (106). Hann ver miklum tíma í prentsmiðjunni, lærir að lesa, er látinn fara með kveðskap fyrir aðra (á vinnumannaloftinu) og kastar sjálfur fram stöku við og við. Hann kemst í kynni við helstu menntamenn landsins, eða er að minnsta kosti í námunda við þá, og kynnist verkum þeirra á bókmenntasviðinu.

Guðbrandur biskup er þar í öndvegi þótt aldraður sé og veikur, sr. Magnús skáld Ólafsson í Laufási kemur við sögu og meira að segja Jón lærði með sína Fjandafælu, svo nokkrir séu nefndir. Hér má einnig nefna guðrækniritið Eintal sálarinnar, eftir þýska prestinn Martin Moller, sem Arngrímur Jónsson þýddi og tileinkaði þeim systrum Halldóru og Kristínu Guðbrandsdætrum. [5] Danski bókmenntafræðingurinn Arne Møller færði fyrir því rök í doktorsritgerð sinni [6] að Hallgrímur hefði verið innblásinn af þessu riti þegar hann orti Passíusálmana.

Steinunni tekst vel að notfæra sér þessa vitneskju í sögunni. Hún lætur Pétur, föður Hallgríms, lesa Eintalið sér til huggunar eftir að hann hefur misst eiginkonu sína í dauðann: „Brandur hafði lánað Pétri bók sem hét Eintal sálarinnar. Þessa bók vildi hann helst ekki leggja frá sér. Hann svaf með hana undir koddanum og hafði hana með sér upp í klukknahúsið … sagðist finna huggun í því að hugleiða pínu og dauða frelsarans“ (bls. 137). Það gerir hann oftar, til dæmis eftir að Þórður bryti, vinur hans, ferst af slysförum: „Enn einu sinni leitaði hann huggunar í Eintali sálarinnar“ (bls. 350). Þannig tengir höfundur hina trámatísku reynslu Hallgríms af móðurmissi við hvort tveggja í senn, sorg föðurins og þann skáldskap hans sem hæst rís, Passíusálmana, og vísar þetta enn fremur áfram til þeirrar sorgar sem birtist í harmljóðunum sem Hallgrímur orti eftir dóttur sína, Steinunni. Þetta rit, sem var svo hugleikið Pétri í sögunni, verður að lokum veganesti sonar hans: „Hafðu þetta með þér þótt bókin sé að vísu engin barnalesning. Þú hefur kannski not fyrir hana síðar“ (bls. 376). Þetta varð að áhrínsorðum, eins og gefið er í skyn í skáldsögunni.

Liður í persónusköpun stráksins Hallgríms er að nota Gretti Ásmundar son úr Grettis sögu sem eins konar leiðarstef í þroska hans. Grettis sögu kynnist Hallgrímur hjá afa sínum í Gröf. Hann er í fyrstu hræddur við Gretti, svo hræddur „að hann þorði varla að horfa í átt til eyjarinnar“ (bls. 19). Ekki bætir úr skák þegar galsi hleypur í fólkið í baðstofunni í Gröf við upplestur afa úr Grettis sögu og vinnumaður reynir að fá Hallgrím litla til að leika eftir bakklór Grettis á föður sínum á afa: „Hallgrímur skildi ekki hvers konar galsi var hlaupinn í fullorðna fólkið. … Hann vildi ekki vera eins og Grettir“ (31). Viðhorf Hallgríms til Grettis breytist smám saman eftir að hann er tekinn úr Gröf og sendur til Hóla. Þá fer hann að líta á Gretti sem eins konar fyrirmynd, þótt höfundur slái stundum varnagla við því: „Honum fannst hænsnin heldur heimskuleg dýr og hugsaði til Grettis sem þótti það lítið verk og löðurmannlegt að gæta heimagása föður síns. Hann lét sér þó ekki detta í hug að fara að dæmi óknyttastráksins og vinda háls á kjúklingum …“ (135). Oftar mátar strákur sig þó við hetjuna Gretti, einkum með tilvísun í skáldskap: „Hallgrímur horfði út á fjörðinn. Það stóð skýjastrókur upp af Drangey. Það var líka strókur í brjóstinu á honum. Hann langaði svo til þess að geta svarað með vísu eins og Grettir hefði gert“ (bls. 77).

Annað dæmi tengist viðureign við illvígan geithafur sem stangar Hallgrím til blóðs, og býður Heiða, leiksystir hans, honum arminn „en hann gat ekki þegið að láta stúlku styðja sig. Það hefði Grettir aldrei gert. Hann hefði frekar kastað fram vísu“ (bls. 124). Loks má nefna hugsanir stráksins meðan busavígslan stóð yfir í skólanum: „Sjálfur lét hann ekkert hljóð út fyrir sínar varir en hugsaði til Grettis. Þegar Grettir var niðurlægður tók hann jafnan hraustlega á móti … hann náði sér líka niðri á fjendum sínum með því að yrkja um þá níð.“ Hallgrímur fer þarna að dæmi Grettis og yrkir níðvísu um kvalara sína (bls. 331–332). Samanburðurinn við Gretti kemur þó skýrast fram í lok sögunnar, þótt allt sé þar með mildari og kristilegri hætti en þegar Grettir hélt úr föðurgarði. Grettir skildi við föður sinn „með litlum kærleikum“ en móðir hans gaf honum sverð að skilnaði, eins og frægt hefur orðið. [7]

Samband þeirra feðga, Péturs og Hallgríms, er oft stirt eftir aðskilnaðinn við fjölskylduna í Gröf, og einkum eftir móðurmissinn. Hallgrímur kennir föður sínum á vissan hátt um andlát Solveigar, móður sinnar, og getur ekki unnt föður sínum þess að leita til annarra kvenna. Pétur, faðir hans, vekur samúð lesandans í sorg sinni og einmanaleik, og ekki er laust við að Hallgrímur fari stundum í taugarnar á þessum lesanda þegar hann sýnir tilfinningum og aðstæðum föður síns lítinn skilning. Það gæti verið efni í langa ritgerð að gera samskiptum þeirra feðga í sögunni skil og þætti þeirra samskipta í þróun persónu Hallgríms. Hér skal þó látið nægja að segja að sambandi þeirra sé lýst á nærfærinn hátt í sögunni.

Hallgrímur er þrátt fyrir allt látinn skynja sorg og söknuð Péturs og það er til hans sem Hallgrímur leitar eftir brottreksturinn úr latínuskólanum: „Bara að hann gæti komið föður sínum til að brosa … Hann var þreyttur og hann lokaði augunum. Það færðist værð yfir hann. Svo sofnaði hann. Það var í fyrsta skipti sem hann svaf í nálægð föður síns í meira en hálft annað ár“ (372). Pétur er ekki hrifinn af bón Hallgríms um að fá að fara utan með þýska herskipinu sem liggur í fjarðarmynninu. Amma drengsins gegnir hér hlutverki Ásdísar, móður Grettis. Hún mælir þau örlagaríku orð að „Gegn útþrá farmannsins væri gagnslaust að berjast“, snýr sér svo að Hallgrími og mælir: „Ekkert á ég sverðið að gefa þér að skilnaði, Hallgrímur minn, en farir þú – þá farðu í Jesú nafni“ (bls. 375). Veganesti Hallgríms verður ólíkt því sem Grettir hlaut á sínum tíma. Hallgrímur fer af landi brott með „hangikjötsbragð á tungunni“, árnaðarorð ömmu sinnar í eyrunum og Eintal sálarinnar frá föður sínum í farteski sínu, sem átti eftir að færa honum huggun rétt eins og Pétri föður hans áður, og hafa gríðarleg áhrif á hann sem sálmaskáld.

Halldóra Guðbrandsdóttir er ein af eftirminnilegustu persónum sögunnar við hlið Hallgríms og gerir höfundur sér mat úr heimildum um þátt hennar í rekstri Hólastóls og ráðsmennsku á staðnum til þess að draga upp mynd af stórbrotinni konu, sem stjórnaði einu helsta valda- og menningarsetri landsins í upphafi 17. aldar, og bauð ráðríkum körlum birginn, ekki síst stórhöfðingjanum og mági sínum Ara í Ögri þegar hann hyggst taka staðarforráð í veikindum Guðbrands biskups (bls. 257–259). Halldóra „ber karlmannshug í konubrjósti“ eins og sagt er um hana í skólameistarasögum Jóns Halldórssonar í Hítardal [8] og Steinunn notfærir sér þann dóm í sögu sinni.

Stundum gengur höfundur ef til vill aðeins of langt með beinni heimildanotkun. Þannig kemur fyrir að þjóðháttalýsingar séu svo ítarlegar og langar að þær nánast trufli framvindu sögunnar og hið sama má segja um afar langa bókatitla 17. aldar rita sem nefnd eru á nokkrum stöðum í sögunni og hefði vel mátt stytta eins og algengt er að gera. Enn fremur er upptalningum á bókum stundum ofaukið (sbr. t.d. bls. 194–196). Einfalda hefði mátt uppskrift af bréfum Kristjáns konungs V. þar sem hann felur Halldóru forsjá staðarins (bls. 307) og lýsingar á blekgerð (bls. 285) eru fróðlegar en virka engu að síður sem innskot í söguna. Hið sama má segja um útskýringar Þorláks Skúlasonar á því hvernig hann fór að því að sleppa við farsótt sem gekk í Höfn og lýsingar hans á uppbyggingu Kristjánsstaðar á Skáni (bls. 304– 306). Þetta er þó allt saman fróðlegt og segir líklega nútímalesanda skáldsögunnar margt um tíðarandann og samfélagshætti þessa tíma.

Bókin er skemmtilega 17. aldarleg, ef svo má að orði komast. Titill hennar dregur til dæmis dám af þeirrar tíðar bókatitlum, hann er langur og lýsandi, og um hann er skrautlegur rammi. Auk þess eru teiknaðir bókahnútar á eftir hverjum þætti sögunnar eins og gjarnan er gert í síðari alda ritum. Kaflinn „Til lesarans“ þar sem Steinunn segir frá tilurð bókarinnar og lýsir aðferð sinni og heimildanotkun, er einnig dæmigerður fyrir fyrri alda rit, bæði prentaðar bækur og handrit.

Ekki eru til miklar heimildir um líf barna á fyrri hluta 17. aldar en lýsingin á Hallgrími, systkinum hans og leiksystkinum er heillandi lesning. Höfundur skapar hér persónu sem lesendur geta vel ímyndað sér að hafi verið skáldið Hallgrímur Pétursson í æsku. Strákur sem hafði orðið fyrir trámatískri reynslu, hafði góðan aðgang að bókum á sínum æskuárum og kynni af skáldum og andans mönnum, hafði alla burði til að verða skáld. Skáldsagan Heimanfylgja er þó meira en bara saga stráksins Hallgríms. Hún er ekki aðeins þroskasaga skálds heldur einnig og ekki síður saga menningar- og menntasetursins Hóla í Hjaltadal á öðrum áratug 17. aldar, saga af ástum og örlögum karla og kvenna, bæði sögulegra persóna og uppdiktaðra. Steinunn Jóhannesdóttir hefur dregið upp trúverðuga mynd af horfinni öld og gengnum kynslóðum landsins. Skáldsagan geymir sannfærandi samfélagslýsingu, enda er hún byggð á traustri heimildavinnu, góðu innsæi rithöfundarins í tíðaranda aldarinnar og oft og tíðum lipurlegri túlkun heimildanna. Það verður enginn svikinn af lestri þessarar heimildaskáldsögu.

 

Þórunn Sigurðardóttir

 

Tilvísanir

  1. Sjá Jón Samsonarson, „Ævisöguágrip Hallgríms Péturssonar eftir Jón Halldórsson“, Afmælisrit til dr. phil. Steingríms J. Þorsteinssonar prófessors 2. júlí 1971, bls. 74–96. Reykjavík 1971.
  2. Magnús Jónsson, Hallgrímur Pétursson. Æfi hans og starf I–II. Reykjavík 1947; Margrét Eggertsdóttir, Barokkmeistarinn. List og lærdómur í verkum Hallgríms Péturssonar. Reykjavík 2005.
  3. Barnsfæðingu hefur oft verið lýst sem ferðalagi. Þetta má til dæmis sjá á heimasíðu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, http://www.heilsugaeslan.is/pages/773, þar sem segir: „… og þá hefst ferðalag barnsins niður fæðingarveginn“.
  4. Í ævisöguágripi sr. Jóns Halldórssonar í Hítardal segir um þetta mál: „Hallgrymur komst i ölempe fyrer kvedskap edur annann þesshättar ungiædisskap vid fyrer kvennfolk a Hölum. eg meina ä seinustu ärum Halldoru Gudbrandzdottur …“ (sjá Jón Samsonarson, sama rit, bls. 84–85). 5 Lesa má formála Arngríms fyrir útgáfunni 1599 á www.bækur.is (Soliloqvia de passione IESV Christi). 6 Arne Møller, Hallgrímur Péturssons Passionssalmer. En studie over islandsk salmedigtning fra det 16. og 17. aarhundrede. Kaupmannahöfn 1922. 7 Sjá Íslenzk fornrit VII, bls. 49–50. Reykjavík 1936. 8 Jón Halldórsson, Skólameistarar í Skálholti eptir séra Jón prófast Halldórsson í Hítardal og Skólameistarar á Hólum eptir séra Vigfús prófast Jónsson í Hítardal. Sögurit XV. Reykjavík 1916–1918, bls. 53. Þess má geta hér að Guðbrandur Hólabiskup var um tíma skólameistari í Skálholti.