Adolf Smári Unnarsson: Auðlesin.

Mál og menning, 2022. 235 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2022

Auðlesin

Auðlesin (2022)

Auðlesin er önnur skáldsaga Adolfs Smára Unnarssonar en sú fyrri, Um lífsspeki ABBA og Tolteka (eða líf mitt sem Olof Palme), kom út árið 2017 og sagði frá lífi ungs manns í Reykjavík af mikilli frásagnargleði og skáldskaparkrafti. Höfundurinn telst til yngri kynslóðar rithöfunda, er fæddur árið 1993. Hann hefur starfað í leikhúsheiminum, er menntaður á því sviði frá bæði Listaháskóla Íslands og listaakademíunni í Prag, og hefur bæði skrifað og leikstýrt leikritum. Þessar upplýsingar og fleiri má lesa á greinagóðri wikipedíusíðu um höfundinn sem á einhvern lævísan hátt vísar í viðfangsefni skáldsögunnar sem hér er til umræðu.

Auðlesin er hnyttin og hryssingsleg, fyndin og nöpur. Ég veit að þessi orð – hryssingsleg og nöpur – eiga ef til vill betur við um veðurfar en bækur, ekki síst þá vinda sem blása um litlar eyjur norður í Atlantshafi, en þau má ef til vill einnig nota til að lýsa því samfélagsástandi sem þar ríkir. Eða öllu heldur því sjónarhorni eða viðhorfi til íslensks samfélags sem birtist í skáldsögunni Auðlesin. Hryssingur sem klæddur er í fyndinn búning gefur til kynna að verkið kinki kolli til bókmenntagreinarinnar satíru eða háðsádeilu. Hæðni textans jafnt sem írónía og næstum því fimmaurabrandarar hafa brodd og fela í sér ádeilu á tvískinnungshátt neyslusamfélagsins sem um þessar mundir virðist undirlagt og gegnsýrt samfélagsmiðlum og stafrænni markaðssetningu.

Upphafssíður bókarinnar eru dálítið stirðar en svo er eins og frásögnin detti í gang og er þá lipurlega skrifuð. Frásögnin er hröð sem gerir að verkum að sagan er nokkuð fljótlesin, jafnvel auðlesin, en það býr margt undir yfirborði textans, svo lesandi þarf stundum að staldra við og velta fyrir sér einstaka textabrotum. Sagan sem sögð er á yfirborðinu virkar ef til vill einföld en undir lónar borgarísjaki harðrar en lymskulegrar gagnrýni.

Bygging verksins er nokkuð einföld og blátt áfram. Lesendur kynnast tveimur sögupersónum, þeim Bjarti og Nínu, sem eru aðalpersónur í tveimur ólíkum söguþráðum sem fléttast saman á köflum. Bjartur minnir á hefðbundinn skáldskaparpólitíkus. Hann er embættismaður en skapgerð hans virðist hafa að geyma hárrétta samsetningu af hugsjónum og tækifærismennsku. Í upphafi sögunnar er hann að undirbúa grillveislu fyrir vini sína og velgjörðamenn þegar á vegi hans verður örmagna býfluga. Bjartur er trúlega einn af þeim sem hefur heyrt ákall sjálfs Davids Attenboroughs á samfélagsmiðlum um að bjarga beri öllum býflugum í vandræðum því þær skipti sköpum fyrir heilbrigði lífríkisins. Á tímum hamfarahlýnunar verður að stuðla að líffræðilegum fjölbreytileika og vera meðvitaður um hringrás náttúrunnar og hvaða hlutverki skordýr gegna í þeirri keðju. Bjartur bjargar býflugunni með hárréttri blöndu af sykri og vatni, og það sem meira er, hann tekur björgunina upp á myndband og deilir því á samfélagsmiðlum. Þetta er veigamikið atriði fyrir söguna og karaktersköpun Bjarts. Bjartur gegnir mikilvægu starfi hjá Reykjavíkurborg sem verkefnastjóri grænna lausna eða „grænna framtíðarleiða“ og hefur staðgóða menntun á því sviði, í einhvers konar grænum frumkvöðlafræðum, en tekið er fram að minnsta kosti tvisvar í skáldsögunni að hann hafi stundað framhaldsnám við háskólann í Glasgow og útskrifast af „afar virt[ri] braut sem lagði áherslu á græna hugmyndastefnu ásamt frumkvöðla- og leiðtogastarfi“ (29). Honum er annt um umhverfi sitt en þykir ef til vill mikilvægast af öllu að minna samborgara sína á hversu vænt honum þyki um umhverfið. Þegar líður á söguna er nokkuð ljóst að hugsjónir Bjarts rista ansi grunnt en aðalatriðið er, samkvæmt honum, að hafa góða samvisku og koma vel fyrir, skapa sér ákveðinn þægindaramma sem ekki má vera of þægilegur, en sem má heldur ekki fara út fyrir. Eins og hann kemst að orði í samtali við vin sinn felst líf hans í að „hjálpa á daginn, grilla á kvöldin“ (31). Og hér er vert að taka fram að Bjartur grillar bæði pulsur og bulsur.

Nína er ungskáld í vonlausum aðstæðum nýfrjálshyggjunnar. Hana dreymir um að semja ljóð sem breyta heiminum og miðla þannig hugsjónum sínum til lesenda, en svo virðist sem enginn hafi áhuga á ljóðum lengur og að fólk lesi aðeins skáldskap sem skrifaður er af höfundum sem eru nú þegar þekktir í samfélaginu. Það er ekki verra ef höfundarnir eru áhrifavaldar eða að minnsta kosti fyrirferðarmiklir á samfélagsmiðlum og með myndarlegan hóp fylgjenda. Þá býr hún á vonlausum leigumarkaði og er við það að missa íbúðina sína þegar hún fær gylliboð frá ungum athafnamönnum sem framleiða bækur undir nafninu Auðlesin. Hér er mikilvægt að undirstrika að athafnamennirnir eru ekki bókaútgefendur í hefðbundnum skilningi, þeir gefa bækurnar ekki út heldur framleiða þær, og frásagnirnar í þessum bókum byggjast á algóritma sem mælir út frá stafrænum miðlum hvað það er sem lesendur vilja; hvernig hagstæðast er að raða saman þessum mismunandi bókstöfum sem mynda bækur, svo vísað sé í titil þessarar greinar sem fenginn er að láni úr samtali Nínu við athafnamennina. Bækurnar verða svo að hljóðbókum sem lesendur hlýða á í gegnum snjallsímaforrit.

Fyrirtækið Auðlesin minnir á einhvers konar dystópíska hugmynd um bókamarkað sem er ofurseldur markaðsetningu og þar sem bækur eru farnar að minna á innlegg á samfélagsmiðlum; þar sem sjálft skáldverkið er aðeins aukaatriði notað í þeim tilgangi að selja ákveðna þjónustu. Að vissu leyti er þessi hugmynd óhugnanleg, jafnvel hrollvekjandi, því hún er afar nærri veruleikanum ef hugsað er til þess vægis sem samfélagsmiðlar hafa nú á dögum og hvernig efnið sem þar birtist er framleitt sem auglýsingar í dulargervi afþreyingar. Þá er þessi aðferð samfélagsmiðla, að birta „content“ eða efni sem fólk gerir sér ekki endilega grein fyrir að eru auglýsingar, farin að hafa áhrif á aðra miðla, til dæmis sjónvarp og sjónvarpsþætti, en nýleg umræða um raunveruleikaþætti í íslensku sjónvarpi sem framleiddir eru af auglýsingastofu sem sérhæfir sig í kostaðri afþreyingu (e. branded entertainment) kemur upp í hugann.

Áhrif samfélagsmiðla á bókmenntaheiminn eru trúlega einhver þó að erfitt geti verið að koma auga á þau í skáldskapnum sjálfum. Í sögu Adolfs Smára er Nína fengin til að skrifa afar bragðdaufa skáldsögu sem minnir á sjónvarpsþættina Friends en í seinni tíð, og ekki síst á tímum kóvidfaraldursins, hafa þeir þættir orðið að því sem kallað er „comfort tv“ eða „þægindasjónvarp“ – huggulegir þættir sem hafa að geyma kunnuglegar persónur og átakalítinn söguþráð og bjóða upp á flótta frá einmanalegum raunveruleikanum.

Ef til vill er ég á villigötum en ég held að lesendur nenni ekki að lesa skáldsögur sem eru eins og Friendsþáttur vegna þess að miðillinn, skáldsagan, er allt öðruvísi en sjónvarp. Það er eitt að horfa á sama þáttinn aftur og aftur, hafa kunnugleg andlit og stef í bakgrunni á meðan maður vinnur aðeins í tölvunni eða skrollar niður instagram, en skáldsögur eru blessunarlega öðruvísi, að minnsta kosti þær sem maður les af bók; þar sem lesandinn verður að hafa augun á textanum og nota hendurnar til að halda á bókinni. Með öðrum orðum, þá krefst prentbókin þess að allur líkaminn taki þátt í lestrinum – og til þess að geta fylgt frásögn og atburðarás verður að beita fullri einbeitingu. Í því liggur kraftur skáldsögunnar, hún er hér og nú og meðan á lestrinum stendur er ekkert annað til.

En hér er ég auðvitað að gleyma því að Auðlesin framleiðir hljóðbækur sem eru af allt öðrum toga en prentaða bókin sem lesandi heldur á og les sjálfur í hljóði. Hljóðbókin krefst þess ekki að lesandinn sé í kyrrstöðu og einbeiti sér að lestrinum; hér má varpa skáldsögunni upp í raftæki og láta hana rúlla í bakgrunninum á meðan farið er út að hlaupa eða tekið í handavinnu.

Forsprakkar fyrirtækisins Auðlesin gera þá kröfu að Nína komi fyrir auglýsingum á ákveðnum stöðum í sögunum sem hún skrifar og þeir framleiða. Þessi krafa birtist á eftirfarandi hátt í skáldsögunni:

[Sniðmát. (Kafli 11. Liður 3.1.)]
„Mig vantar _____,“ sagði Anna.
„Mig líka. Maður getur aðeins treyst einum aðila í þeim bransa.
Og það er ________,“ svaraði Lísa.
„Já, sammála, hjá _____ fæ ég alltaf gæðavörur
og persónulega þjónustu,“ sagði Anna spennt. (197)

Í kjölfarið fáum við lesendur svo nokkur dæmi um hvernig þetta birtist í skáldskapartexta Nínu. Þessi umræða um auglýsingar skírskotar að sjálfsögðu til samfélagsmiðla samtímans og hvernig efnið sem þar birtist er búið til. Um leið endurspeglar hún írónískan leik höfundar, því hver og einn sér strax að auglýsingar ganga tæplega í skáldskapartexta; þær verða einfaldlega strax of augljósar og óþolandi. Auglýsingar í bókmenntatexta er dæmi sem ekki virðist ganga upp eða hef ég allt of útópískar hugmyndir um bókmenntir og skáldsögur? Mun ég þurfa að éta hattinn minn eftir nokkur ár þegar fyrsta samfélagsmiðlaskáldsagan lítur dagsins ljós, hlaðin auglýsingum, ýmist í dulargervi eða óduldum?

Þessar hugmyndir um skáldskap og miðla samtímans vakna við lestur á Auðlesin sem ber þess vitni hversu vel henni tekst að bregða upp mynd af samfélagi líðandi stundar og vekja spurningar í huga lesanda. Þar fyrir utan er hún bráðfyndin en húmorinn byggir ekki síst á þeim pínlegu aðstæðum sem sögupersónurnar finna sig í, skapa sjálfar eða kalla yfir sig. Nína er dugleg að „skammast sín“ og svo að „skammast sín fyrir að skammast sín“, og þó að hugmyndir og framkvæmdagleði Bjarts eigi sér göfugar rætur er útkoman oft æði grátbrosleg, eins og verkefnið sem ber nafnið „Svín í þínu hverfi“ er gott dæmi um. Þá eru myndlíkingarnar margar hverjar eftirminnilegar. Til dæmis þegar Nína, sem er hálfmiður sín í útgáfuhófi í tilefni ljóðabókar sinnar, er kölluð upp á svið á eftir þekktum rappara og áhrifavaldi sem einnig var að gefa út ljóðabók: „Nína Kristín. Nafnið sem hún hafði alltaf álitið kröftugt og sterkt hljómaði nú einsog vatn sem sturtað var niður úr klósetti.“ (43) Sagan er stundum skrifuð eins og leikhandrit þar sem bið eða þögn er gefin til kynna á milli samtala með orðinu „dvöl“ skáletruðu, sem ég velti fyrir mér hvað ætti að tákna. Eru þetta enskuskotin áhrif úr sjónvarpinu eða skírskotun til leikritunar og leikhúsbakgrunnar höfundar? Hvað sem því líður er ljóst að Auðlesin er afar nútímaleg skáldsaga sem skemmtir lesandanum um leið og hún vekur hann rækilega til umhugsunar.

Vera Knútsdóttir