Auður Ava Ólafsdóttir. Undantekningin: De arte poetica.

Bjartur, 2012.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2014

I

Meginvandi skáldskaparins er sá að hann reynir að lýsa ólínulegri tilvist mannsins á línulegu formi bókmenntanna. Listform sem gerir ráð fyrir því að byrjað sé á ákveðnum stað og endað á öðrum er ekki sérlega vel til þess fallið að ná utan um hið tilviljunarkennda og óvænta. Þetta þýðir ekki að frávikin hafi ekki verið viðfangsefni skáldskaparins. Þau hafa þvert á móti haft mikið aðdráttarafl fyrir skáldin. Þetta þýðir einfaldlega að línulegt form prentaðs texta fellir frávikin iðulega að sínu lögmáli. Þetta hljómar ekki að öllu leyti vel. Er skáldskapurinn þá nauðbundinn af einhvers konar kerfi?

UndantekninginSkoðum málið frá annarri hlið. Frásagnir hafa frá alda öðli endurspeglað óreiðuna í heiminum með einhverjum hætti. Furðusagnir fyrri alda eru ágætt dæmi. En frásögnum hefur einnig verið ætlað að koma reglu á óreiðuna, gera tilviljunarkennd tákn að skiljanlegum heimi; goðsagnir breyttu kaosi í kosmos. Þetta hefur einnig verið markmið vísindanna. Vísindalegur skilningur virtist um tíma jafnvel geta fellt heiminn í eitt samfellt kerfi og bókmenntirnar fylltust um leið trú á að þær gætu lýst þessu kerfi með raunsæislegri nákvæmni. En síðan áttuðu vísindamenn sig á því að það væri ekki að öllu leyti hægt að fella heiminn í línulegt kerfi. Undantekningarnar væru of margar. Til þess að ná utan um þær dugðu ekki línulegar jöfnur stærðfræðinnar sem sýndu kerfið bregðast við áreiti í réttu hlutfalli við styrk áreitisins. Undantekningarnar kölluðu á ólínulegar jöfnur sem byggja ekki á neinum almennum aðferðum. Og enn eru vísindin skammt á veg komin með að skilja þau ólínulegu kerfi sem hafa áhrif á líf okkar á hverjum degi. Skáldin standa því aftur (og enn) frammi fyrir óreiðu sem þau reyna öðrum þræði að koma skipan á.

En skáldin eru ekki bara reglupésar. Flókin heimsmynd vísindanna hefur ekki síður kallað á tilhneigingu til þess að lýsa óreiðunni eða endurspegla hana í bókmenntunum. Grundvallarþáttum í þeirri bókmenntahefð sem myndast hafði í gegnum aldirnar hefur til að mynda verið ýtt til hliðar í sumum verkum sem einkum hafa verið kennd við framúrstefnu og módernisma. Línulegri frásagnarframvindu er þá riðlað og sömuleiðis röklegum merkingartengslum í tungumálinu, persónusköpun verður brotakennd, sjónarhorn flöktandi og fleira mætti nefna. En höfuðverkurinn er eftir sem áður sá að bókmenntirnar sitja uppi með miðilinn sem þær eru kenndar við og línulegt form hans. Enn eru ekki til ólínulegar bækur og varla ólínulegar bókmenntir (þrátt fyrir áðurnefndar tilraunir með að brjóta upp línulegan lestur prentaðs texta). Að minnsta kosti virðast bókmenntirnar ekki komnar lengra en vísindin með það verkefni að skilja eða lýsa þeim ólínulegu kerfum sem hafa áhrif á líf okkar á hverjum degi. Til þess duga engar almennar aðferðir, ekki í skáldskapnum frekar en í stærðfræðinni.

Svarið við spurningunni hér að framan er því já, bókmenntirnar eru bundnar af tilteknu línulegu kerfi sem þær hafa lengi reynt að brjótast út úr eða breyta. Þessi klemma er meginumfjöllunarefni nýjustu skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur, Undantekningarinnar (2012). [1] Auður hefur sjálf bent á það í fyrirlestri um skáldskapinn að undirtitill bókarinnar de arte poetica vísi „í þá skáldskaparlíkingu að ólíkt mannlegri hegðun sem sé óútreiknanleg, ófyrirsjáanleg og óreiðukennd, þá byggi skáldsaga á röð og reglu sem birtist til dæmis í því að hún hefur upphaf, endi og miðju“. Hún segir að Undantekningin viðri þannig „efahyggju í tengslum við samband skáldskapar og raunveruleika“ en sú efahyggja „beinist hins vegar ekki að möguleikum skáldskaparins til að gefa óreiðu lífsins og þversögnum mennskunnar merkingu og tilgang“. [2] Bæði skáldsagan og fyrirlesturinn eru óneitanlega hreinskilin útlistun rithöfundar á takmörkunum listformsins. En Undantekningin leiðir jafnframt í ljós hvað skáldskapurinn er stór hluti af lífinu.

II

Undantekningin er öðrum þræði eins konar konseptverk. Hún er það ekki aðeins vegna þess að bókin hverfist um tiltekna hugmynd heldur einnig vegna þess að verkið fjallar umfram allt um sig sjálft, tilurð sína, takmörk og eðli. Undirtitill bókarinnar de arte poetica þýðir: skáldskaparlistin. Skáldsagan tilheyrir með öðrum orðum þeim stóra flokki verka sem kallaður hefur verið sjálfsögur (e. metafiction). Hér á landi hafa skáldsögur af þessari tegund verið nokkuð áberandi undanfarin ár. Höfundar sem kannski mest hafa lagt sig eftir forminu eru Bragi Ólafsson, Eiríkur Guðmundsson og Hermann Stefánsson. Það er óþarft að benda á það – og skiptir líklega engu í stóra samhenginu – að þetta eru þrír karlar og þeir tengjast allir (en þó mismikið) bókaforlaginu Bjarti sem gefur einmitt út Undantekningu Auðar Övu. Það skiptir sennilega heldur ekki höfuðmáli að kona skrifar Undantekninguna, en í samhengi verksins er það hins vegar nokkuð mikilvægt atriði að aðalpersónurnar eru konur og karlar yfirleitt grunnsamlega mikið fjarverandi þótt þeir séu orsök helstu atburða – og ógæfu aðalpersónunnar.

En svo það sé tekið fram strax, þá er Undantekningin ekki (bara) einhvers konar tilraun um skáldskaparfræði og alls ekki þunglamaleg bókmenntafræðileg stúdía frekar en bækur þeirra höfunda sem nefndir voru hér að framan. Þetta er afar læsileg og margbrotin saga um ást og óendurgoldna ást, um blekkingar og sjálfsblekkingar, um blindu fólks á nánasta umhverfi og vanmátt þess gagnvart hinu ófyrirséða, um það hvað annað fólk hefur mikil áhrif á manns eigið líf og sjálfsskilning. Bókin er skrifuð af tilgerðarlausu listfengi og léttleika sem gæðir kunnugleg stef nýju lífi. Kunnugleiki er raunar enn eitt mikilvægt þema þessarar bókar og tengist hugmyndinni um undantekninguna sem er auðvitað andstæða endurtekningarinnar sem Auður Ava bendir á í fyrrnefndum fyrirlestri að einkenni söguefni rithöfunda almennt. [3] Við komum aftur að því hér á eftir.

III

Eins og fyrir stærðfræðilega nákvæmni byrjar Auður söguna með því að gefa upp tiltekin upphafsskilyrði – sem eru nauðsynleg þegar reikna á út hvað líklegt er að gerist í framhaldinu. Það er gamlárskvöld. Klukkan er ellefu mínútur fyrir miðnætti og það fer fram „úrslitaorrusta milli gamla og nýja ársins“ (8). Hitastigið er mínus tíu gráður og snjór þekur jörð. Hjón standa úti á svölum. Eiginmaðurinn segir eiginkonunni að hann sé ástfanginn af samstarfsmanni sínum. Eiginmaðurinn og ástmaðurinn heita báðir Flóki og eru báðir sérfræðingar í óreiðukenningunni – sem fjallar einmitt um áhrif frávika í náttúrunni.

Skýringin sem Flóki gefur á skyndilegum viðsnúningnum er rökleg og vísar til sérgreinar hans: „Þú ert undantekningin í lífi mínu“ segir hann (10) – hann hefur sem sagt að öðru leyti verið upp á karlhöndina. Konan, sem heitir María, á aftur á móti bágt með að skilja það sem er að gerast. Þetta eru sannkölluð tímamót, allt gamalt og gott virðist fuðra upp og framundan blasir við nýtt líf, algerlega nýjar aðstæður, óvissa. Viðbrögð hennar virðast órökleg en þau fela í sér ákveðinn lykil að verkinu: „Hefur þetta eitthvað með það að gera að þið heitið sama nafninu? Flóki er ekki algengt nafn.“ (10). Hún telur nafnið vera það sem aðskilur þau Flóka eins og Júlía taldi ættarnafn Rómeós standa í vegi fyrir því að þau mættu eigast: „Hvað binzt við nafn? Það blóm sem nefnt er rós hefði jafn-ljúfan ilm með öðru nafni“ (þýð. Helgi Hálfdanarson). Svar Auðar Övu við spurningunni er annað en Júlíu. Ýmislegt geti nefnilega falist í nafni, ekki síst merkingin og jafnvel tilgangurinn sem við gefum hlutunum. [4]

IV

Fremst í bók Auðar Övu er vitnað í Hin hyru visindi eftir Friedrich Nietzsche: „Við viljum verða ljóðskáld okkar eigin lífs fyrst og fremst í hinum smæstu og hversdagslegustu atriðum.“ Meginframlag Nietzsches til vestrænnar fagurfræði fólst í því að hann gerði engan greinarmun á raunveruleika og skynjun mannsins. Heimurinn er þannig huglægur, hann er það sem við hugsum. Og listin er þar með ekki aðeins lýsing á því hvernig maðurinn skynjar yfirborð hlutanna; með listinni mótar maðurinn sjálfan heiminn. [5] Í Undantekningunni birtist þessi hugmynd í ýmsum myndum. Bókin fjallar um sögurnar sem við segjum um sjálf okkur og þann skilning sem við leggjum – eða leggjum ekki – í sögurnar sem aðrir segja. María stendur frammi fyrir því verkefni að móta nýjan heim á rústum þess gamla sem hrundi með sambandsslitunum við Flóka. Hún þarf að gerast ljóðskáld síns eigin lífs í „hinum smæstu og hversdagslegustu atriðum“. En það er ekki aðeins ný framtíð sem hún þarf að skapa heldur glímir hún einnig við að endurskapa fortíðina. Aftur og aftur rifjar hún upp liðna atburði og frá byrjun má ljóst vera að upplifun hennar stangast á við það hvernig aðrir sjá hlutina og reyna. Líf hennar virðist að stórum hluta hafa verið hennar eigin skáldskapur. Ekki hefur aðeins samkynhneigð Flóka farið algerlega fram hjá henni heldur reynist sú fallega hugmynd sem hún hafði gert sér um hjónaband sitt nánast alger blekking. Hugmyndir hennar og hugtök virðast með öðrum orðum ekki passa við veruleikann. Nietzsche sagði einmitt að hugtök okkar bæru frekar vott um sköpunargáfu en getu til þess að lýsa hlutunum í sjálfum sér. [6]

En María er einnig eins og persóna í skáldskap annarra og kannski hefur hún verið það umfram allt annað. Hún getur þannig ekki talist höfundur – ekki einu sinni meðhöfundur – þeirrar sögu sem móðir hennar hefur sett saman um líf sitt og eiginmanns síns – stjúpföður Maríu – og hún er heldur ekki mjög glöggur lesandi þeirrar sögu. Í byrjun bókar skýtur blóðfaðir Maríu upp kollinum, sem aldrei hafði verið hluti af lífi þeirra mæðgna – eftir því sem María best vissi – og það er út frá honum sem hinn meginþráðurinn í endurritun hennar á ævisögu sinni er spunninn. Í byrjun sögu stendur María sem sagt frammi fyrir því að þurfa að endurskoða eða endurtúlka og umskapa eigið líf út frá fjarveru tveggja karla.

V

Hér virðist sagan augljóslega bjóða upp á freudískan lestur. Föðurduld Maríu gæti til dæmis hafa leitt til bælingarinnar sem veldur blindu hennar á eigin umhverfi. Föðurleysi Maríu er undirstrikað með því að blóðfaðir hennar lætur lífið eftir þeirra fyrsta fund; María verður þannig föðurlaus aftur, ef svo má segja. Sé lesandinn ekki vakandi fyrir freudískum lestri, þá er sá möguleiki einnig undirstrikaður með annarri aðalpersónu sögunnar, dvergnum Perlu sem er sálgreinir, sérhæfður í fjölskyldu- og hjónabandsráðgjöf, og að auki rithöfundur. Perla býr (auðvitað) í kjallaranum hjá Maríu og kemur iðulega upp (á yfirborð sögunnar) þegar María þarf mest á því að halda.

En hér er kannski ekki allt sem sýnist frekar en oft þegar sálardjúpin eru annars vegar. Þótt ýmislegt í Undantekningunni ýti undir freudískan lestur, þá lítur út fyrir að margt í henni gangi einnig grunnsamlega mikið gegn slíkri túlkun. María virðist til dæmis ekki sakna þess hætishót að eiga föður. Ekki verður betur séð en að fósturfaðir hennar hafi fyllt algerlega í skarðið án þess þó að gegna neinu meginhlutverki í lífi hennar. Og þegar María kemst að því að móðir hennar og blóðfaðir hafa til skamms tíma átt í leynilegu ásarsambandi, þá snertir það hana varla nokkurn skapaðan hlut. María er að minnsta kosti engin Elektra.

Meira að segja sálgreinirinn í kjallara Maríu leggur ekki mikið upp úr því að lesa í sálarlíf nágrannakonunnar út frá sérsviði sínu. Perla hefur beinlínis lagt draumráðningabækurnar á hilluna; hún rifjar upp að það var raunar síðasta viðvik Flóka fyrir skilnað að setja upp hilluna í eldhúsi hennar (129). Sá sem helst er valdur að sálarflækjum Maríu aðstoðar þannig við að setja aðalverkfæri sálgreinisins til hliðar. Þegar María fær að kíkja í splunkunýja verkfærakistu Perlu kemur í ljós að hún er:

[…] ekki ósvipuð og smiðir nota. Hún [Perla] lyftir upp lokinu og sýnir mér fyrst borvél, dregur síðan upp hamar og handleikur þrjár stærðir af skrúfjárnum. Þá sýnir hún mér einnig nokkur smábox með mismunandi gerðum af skrúfum í. Hún segist hafa ákveðið að koma sér upp stofni af nytjahlutum. (129)

Perla D. Sigríðardóttir ber nafn með rentu; hún er hinn smái, fagri og kannski umfram allt harði kjarni sem vex inni í skelinni. Hún er sjálf föðurlaus eins og eftirnafnið gefur til kynna. Og henni þykir heldur ekki mikið til þess koma að hafa aldrei átt föður. Föðurleysið skiptir engu máli og skýrir hvorki eitt né neitt eins og Perla útskýrir fyrir Maríu:

Nei, ég hef ekki fundið hjá mér þörf fyrir að leita uppi líffræðilegan föður minn, nei, mér finnst ekki eins og saga mín sé hálfsögð þótt ég þekki ekki föður minn, það er ekki hægt að sakna þess sem maður átti ekki, mér finnst ég ekki þurfa að endurheimta hluta af sjálfri mér. Ég þarf ekki föður til að komast að því hver ég er enda er fátt meiri skáldskapur en ævisaga manns og minningar hápunktur skáldskaparlistarinnar, de arte poetica. (142)

Perla segist hafa meiri áhuga á móðurlegg sínum enda megi þar finna bæði hina skáldlegu æð og smæðina í ættmóður sem „sögð var „ljóðelsk og lágvaxin““ (142). Perla segir móður sína hafa verið einstaklega heilsteypta konu og hafa farið með faðernið í gröfina. Hún hafi hins vegar verið „með eftirprentun af Las meninas eftir Velazques í stofunni. „Til að ég vissi hvaðan ég kæmi“, eins og hún orðaði það“ (140). Perla á þannig uppruna sinn í skáldskapnum en Las meninas er eitt frægasta dæmi listasögunnar um málverk sem fjallar um tilurð sína, eðli og takmarkanir.

VI

Perla er ekki aðeins rödd kaldhamraðar skynseminnar í kjallara Maríu heldur einnig hinnar sjálfsvituðu sögu. Og hún tekur bæði þessi hlutverk mjög alvarlega. Hún reynir annars vegar að fyrirbyggja að lesið verði í sögu og sálarlíf Maríu út frá freudískum klisjum þótt það virðist að ýmsu leyti liggja beinast við og hins vegar bendir hún ítrekað á að María sé „fagurfræðileg persóna“ (173) og (skáld) sagan um hana takmörkunum háð; reynslan hafi kennt sér að mannleg hegðun sé „tilviljunarkennd, duttlungafull og ófyrirsjáanleg“ og ef maður ætli að sjá fyrir viðbrögð manna þurfi að „gera ráð fyrir öllum möguleikum sem sé ómögulegt“ (37). Lífið rúmast því ekki innan skáldsögunnar, að mati Perlu:

Ef við tökum sem dæmi það sem gerst hefur í lífi þínu undanfarnar vikur, María, þá sé ég ekki fyrir mér að það sé hægt að koma böndum á óreiðuna og troða inn í ramma tvö hundruð áttatíu og fimm blaðsíðna bókar. Það eru of margir útúrdúrar sem koma við sögu. (231)

Það þarf ekki að koma lesendum á óvart að blaðsíðufjöldin sem Perla nefnir stemmir nákvæmlega við Undantekninguna.

Hlutverk Perlu fer með öðrum orðum saman við það verkefni höfundar sögunnar að í senn forða verkinu frá eilífri endurtekningu skáldskaparins og horfast í augu við skorðurnar sem honum eru settar. Markmiðið hlýtur ævinlega að vera að fanga undantekninguna sem gerir lífið að hápunkti skáldskaparins.

Þröstur Helgason

 

Tilvisanir og athugasemdir

  1. Auður Ava Ólafsdóttir, Undantekningin. De arte poetica, Reykjavík: Bjartur, 2012. Hér eftir verður vísað til þessarar bókar með blaðsíðutali innan sviga í meginmáli.
  2. Auður Ava Ólafsdóttir, „Dvergar og stríð: Um lítil og stór viðfangsefni í skáldskap, hávaxnar og smávaxnar sögupersónur, rifhöfunda sem tilheyra annars vegar dvergþjóð og hins vegar stórþjóð og hugmyndir um eyjar og meginlönd bókmenntanna“, Timarit Mals og menningar 4/2013, bls. 13–25, hér bls. 15.
  3. Sama heimild, bls. 16. 4 Þess má geta í þessu sambandi að Vera Knútsdóttir bendir á að Undantekninguna megi lesa sem stúdíu „í táknrænu gildi nafna í skáldsögum“. Sjá Veru Knútsdóttur, „Um skáldskaparlistina í Undantekningunni“, bókmenntir.is: http://www.bokmenntir.is/ desktopdefault.aspx/tabid-3409/5648_read- 34318/6711_view-5191/ [sótt 18. febrúar 2014]. 5 Clive Cazeaux (ritstj.), „Introduction“, The Continental Aesthetics Reader, London og New York: Routledge, Taylor & Francis Group, 2000, bls. 3–15, hér bls. 12. 6 Sama heimild, bls. 14.