Kristín Svava Tómasdóttir: Farsótt – Hundrað ár í Þingholtsstræti 25.

 

Sögufélag 2022, 350 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2023.

 

Farsótt. Hundrað ár í Þingholtsstræti 25.Brúna tvílyfta timburhúsið númer 25 við Þingholtsstræti á sér langa og fjölbreytta sögu. Fyrst var þar sjúkrahús, síðan stofnun til að einangra þá sem veiktust af þeim farsóttum sem gusu upp með reglulegu millibili í Reykjavík fram eftir 20. öld, pestir sem ýmist bárust til landsins erlendis frá eða áttu upptök sín í landlægum sóðaskap og draslarahætti bæjarbúa. Síðan var þar um tíma geðsjúkrahús þar sem gerðar voru tilraunir með nýjustu aðferðir í geðlækningum þeirra tíma og minna, sumar hverjar að minnsta kosti, á lokasenuna í Stellu í orlofi. Að lokum voru þar til húsa þeir sem gerst höfðu full ötulir verkamenn í víngarði drottins. Alla þessa sögu dregur Kristín Svava Tómasdóttir sagnfræðingur og ljóðskáld saman í þeirri bók sem hér er til umfjöllunar. Þetta er ekki bara saga hússins heldur speglar höfundurinn í gegnum frásögnina það samfélag sem Farsótt, eins og húsið var gjarnan kallað, þjónaði og greinir þær breytingar sem urðu jafnt á húsinu sem í samfélaginu.

Segja má að tónninn sé sleginn strax í fyrsta kafla bókarinnar. Þar segir frá ungri konu úr alþýðustétt sem vísað hafði verið úr landi í Noregi árið 1925 og var með smitandi kynsjúkdóm. Mál hennar notar höfundur til að varpa ljósi á ríkjandi viðhorf og fordóma í samfélaginu á þessum tíma og má með sanni segja að það sé rauði þráðurinn í bókinni. Þetta er eins konar heilbrigðissaga sem rannsökuð er neðan frá, í gegnum menningarlega og félagslega þætti en ekki, eins og oft vill verða raunin, út frá framförum í heilbrigðisvísindum þótt slíkt komi vissulega við sögu.

Í fyrsta hluta bókarinnar segir frá baslinu við að koma upp og reka sjúkrahús í Reykjavík og þar kemur strax fram nokkuð sem segja má að hafi verið leiðarstef í heilbrigðismálum Íslendinga alla tíð síðan og er að nokkru enn; áhugaleysi yfirvalda á þessum málaflokki og manni liggur við að segja, á köflum, meinbægni. Það var félag áhugamanna úr hópi betri borgara, með lækna bæjarins í broddi fylkingar, sem beitti sér fyrir rekstri og byggingu Sjúkrahúss Reykjavíkur, yfirvöld komu þar lítið við sögu.

Málið hafði verið á dagskrá um hríð en þegar stíga skyldi skrefið til fulls taldi J.G. Schierbeck, þá nýskipaður landlæknir, óvíst að Sjúkrahúsfélagið hefði bolmagn til að standa undir byggingu sjúkrahússins og vildi fá yfirvöld að borðinu svo sjúkrahúsið stæði undir nafni en innlend yfirvöld drógu lappirnar. Það verður seint sagt að framkvæmdagleði hafi einkennt þá sem réðu ferðinni á Íslandi á fyrri hluta landshöfðingjatímabilsins og taldi þorri þingmanna mikilvægara að sýna ráðdeild og safna í sjóði frekar en að fara út í opinberar framkvæmdir. Landlæknir leitaði þá til yfirvalda í Danmörku en þar hefur honum væntanlega verið bent kurteislega á að heilbrigðismál væru eitt af sérmálum Íslendinga samkvæmt Stöðulögunum og því ekki á valdsviði ráðamanna í Danmörku. Niðurstaðan varð því sú að byggja mun minna sjúkrahús en þörf var á frekar en byggja ekki neitt.

Á árunum kringum aldamótin 1900 urðu gríðarlegar framfarir í læknisfræði og öðrum heilbrigðisvísindum. Einkum má nefna allt sem varðaði sýkingavarnir, sótthreinsun og hreinlæti og veitti ekki af, að minnsta kosti hér á landi. Þótt þeir Schierbeck og eftirmaður hans, Jónas Jónassen, breyttu ýmsu til hins betra var það þó heimkoma Stór-Guðmundar, Björnssonar, Hannessonar og Magnússonar, sem skipti öllu máli. Þeir fara að nota sótthreinsun á mun kerfisbundnari og markvissari hátt en áður hafði verið gert með þeim afleiðingum að það heyrði til undantekninga að sjúklingar létust af völdum sýkinga en slíkt hafði áður verið býsna algengt. Til dæmis notaði Jónassen sótthreinsivökvann sem pjatt frekar en til raunverulegrar sótthreinsunar. Hann var hins vegar svo flinkur skurðlæknir að samtímamaður hans sagði að örin eftir skurðaðgerðir hans væru eins og listaverk. Það sama var ekki hægt að segja um örin eftir aðgerðir Guðmundar Björnssonar en sjúklingarnir lifðu. Ekki lenti hann þó í sömu hremmingum og nafni hans Hannesson sem var kærður fyrir sýslumanni í Eyjafirði fyrir galdra á þeirri forsendu að flestallir sjúklingarnir sem hann gerði aðgerðir á lifðu. Kærunni mun hafa verið stungið undir stól.

Þeir nafnar beittu sér og fyrir bættu hreinlæti, svo sem með lagningu á vatnsveitu og holræsum en vatnspóstarnir í Reykjavík voru ein af uppsprettum ýmissa umgangspesta, mis alvarlegra, enda sumir staðsettir hjá opnum skolpræsum og skítahaugum. Verst þótti taugaveikin en taugaveikifaraldrar komu alltaf upp öðru hvoru. Alvarlegur taugaveikifaraldur, sem kom upp í Skuggahverfinu, varð svo dæmi sé tekið til þess að ýta á að komið yrði upp vatnsveitu. Í sambandi við kaflann um sóttvarnirnar er rétt að benda lesendum á stórmerkilegt smitrakningarkort sem Matthías Einarsson læknir gerði í tengslum við þennan faraldur (bls. 120–121). Það er athyglisvert að í þessum pestum var það sama upp á teningnum og í Covid-faraldrinum; spurningar vöknuðu um hve langt ætti að ganga í sóttvörnum og sýndist sitt hverjum.

Á þeim árum sem Farsótt var spítali var þetta í raun háskólasjúkrahús landsins. Þarna fór fram kennsla í læknisfræði, bæði bókleg og verkleg. Piltarnir, því það voru bara karlar sem lögðu læknisfræði fyrir sig á þessum tíma þótt formlega séð væri stúlkum það heimilt, æfðu sig þar í því að greina sjúklingana, fylgdust með læknunum að störfum og horfðu á skurðaðgerðir. Í bakgarðinum var svo reist líkhús fyrir spítalann og þar var líkskurðarstofa þar sem krufningar fóru fram, svo sem réttarkrufningar ef grunur var um glæpsamlegt atferli, en piltarnir fengu einnig lík til að kryfja sem hluta af náminu og voru þau oftar en ekki af fólki sem hafði þegið sveitarstyrk. Þekktastur þeirra sem enduðu feril sinn á líkskurðarborðinu var áreiðanlega Þórður malakoff sem Björn M. Olsen gerði ódauðlegan í kvæðinu sem Íslendingar kyrja enn á góðri stund. Þarna gerðist og ein mergjaðasta draugasaga síðari tíma, þegar Júlla káta gekk aftur á meðan verið var að kryfja hana. Líkhúsið var illu heilli rifið 1986 en gólfið er enn á sínum stað, lagt ljósum og svörtum flísum. Allt fram á þennan dag telja sumir sig verða vara við einhvern slæðing nálægt líkhúsgrunninum að næturlagi en hvort þar er á ferðinni einhver þeirra sem þar voru vistaðir eða bara afleiðingar af þaulsetu á börum bæjarins skal ósagt látið.

Árið 1920 hafði ræst nokkuð úr spítalamálunum Reykjavík og því skipti Farsótt um hlutverk og varð að eiginlegu farsóttarhúsi og þjónaði sem slíkt til 1955–1956 þegar Heilsuverndarstöðin tók við því hlutverki og Farsótt var gerð að geðsjúkrahúsi fyrir „léttgeðveika sjúklinga“.

Ekki verður hjá því komist að geta lítillega um þær konur sem réðu ríkjum á Farsótt og störfuðu þar, því segja má að húsið hafi verið sannkallað kvennaríki. Á meðan Farsótt var spítali var þar spítalaráðskona, Guðrún Jónsdóttir, en auk hennar störfuðu þar ýmsar starfsstúlkur, þar á meðal um tíma Júlíana Jónsdóttir skáldkona sem varð fyrst íslenskra kvenna til að gefa út bók á prenti. Heimildir um Guðrúnu eru fremur fátæklegar en það á ekki við um þá sem tók við og hefur löngum verið nátengd Farsóttarhúsinu en það var stórveldið María Maack sem þar réð ríkjum til 1964. Ýmsar aðrar konur koma við sögu hússins og margar þeirra bjuggu þar en ekki gefst tækifæri til geta þeirra hér. Rétt er þó að nefna að það var ekki bara læknaskólinn sem var til húsa í Farsótt. Þar fór líka fram kennsla í ljósmóðurfræðum, sem var lengi eina formlega menntunin sem stóð konum til boða á Íslandi en landlæknir sá um hana.

Síðasti hluti bókarinnar fjallar svo um það tímabil þegar Farsótt var gistiheimili fyrir húsnæðislausa alkóhólista. Þessi hluti bókarinnar er í raun yfirlit yfir þróun áfengismála á Íslandi á síðari hluta 20. aldar og má segja að Farsóttarhúsið sjálft sé þar í aukahlutverki því höfundur fjallar einnig um hörmulegar aðstæður drykkjumanna og -kvenna í Reykjavík fram að þeim tíma er gistiheimilið í Farsóttarhúsinu tók til starfa og ýmsar misvelheppnaðar tilraunir til að ráða bót á þeim, en einnig er fjallað almennt um áfengisvarnir hérlendis. Það gekk ekki átakalaust fyrir sig að taka Farsótt undir gistiskýli. Til dæmis lagðist Tómas Helgason yfirlæknir á Kleppi gegn því af mikilli hörku og taldi húsnæðið óviðunandi. Tómas hefur án efa viljað byggja upp skilvirkari meðferð fyrir drykkjusjúklinga en ef til vill hefur hann grunað að þótt tekið væri skýrt fram að um bráðabirgðalausn væri að ræða, þá væri það hugtak teygjanlegt hugtak hér á landi og reyndist svo í þessu tilfelli eins og svo oft áður því gistiheimilið var rekið í húsinu til 2014.

Gistiheimilið leysti stóran vanda. Þar fengu gestirnir rúm til að sofa í, aðstöðu til að fara í bað og þrífa sig, og svo staðgóðan morgunverð. Enda var haft á orði, eftir að gistiheimilið var tekið í notkun, að það væri orðið erfitt að greina rónana á götum bæjarins frá góðborgurunum. Reyndar má vera að þar hafi einnig spilað inn í að skjólstæðingar gistiheimilisins uppgötvuðu fljótlega að fatahengi Menntaskólans í Reykjavík var á jarðhæð skólans og greið leið var í gegnum húsið. Þannig var auðvelt að koma við í fatahenginu og verða sér úti um einhverja yfirhöfn á leiðinni niður í Lækjargötu. Menntaskólanemarnir urðu hins vegar að koma sér heim skjálfandi á beinunum í norðanþræsingnum.

Hér hefur aðeins gefist tækifæri til að drepa á örfá atriði í þessu viðamikla verki. Bókin er stórfróðleg og bráðskemmtileg aflestrar, myndefnið er fjölbreytt, umbrot fallegt og frágangur allur til fyrirmyndar. Sem sagt til mikils sóma. Þó er það svo að ég fann ekki Schierbeck landlækni í nafnaskránni.

 

Guðmundur J. Guðmundsson