Steinar Bragi. Hálendið.

Mál og menning, 2011.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2012

Lítill hópur ungs fólks – tvö pör – fer í ferð upp á hálendið með það að markmiði að skynja náttúruna, efla vináttuna, eða bara flýja kreppuna um stund. Þau eru illa undir ferðina búin, tæknin sem á að tryggja þeim öryggi virkar ekki, samskiptin innan hópsins eru slæm og eyðilendur landsins villandi. Eftir að hafa týnt veginum og eyðilagt bílinn aukast enn hremmingar þeirra og allt endar þetta illa; þó önnur ungu kvennanna lifi af er hún illa sködduð, bæði líkamlega og andlega.

Þetta er plott sem allir sannir hrollvekjuaðdáendur bera kennsl á um leið, enda löngu orðin klassísk formúla. Segja má að hún hafi fyrst orðið verulega fræg með kvikmyndinni Texas Chainsaw Massacre (1974), en uppruninn er mun eldri – þannig séð má sjá ummerki hennar í skáldsögu Brams Stoker, Drakúla (1897) og mynd Hitchcocks, Psycho (1960), svo tvö ólík dæmi séu tekin.

HálendiðHálendið eftir Steinar Braga vakti töluverða athygli þegar hún kom út á síðasta ári, og hlaut almennt afar jákvæða dóma. [1] Steinar Bragi er að margra mati einn helsti samtímahöfundur Íslands, að því leyti að í verkum sínum fjallar hann um ýmis samtímamein, meðal annars kreppuna, í skáldsögunni Konum (2008), smásögum í Himinninn yfir Þingvöllum (2009) og nú Hálendinu. Í annarri skáldsögu sinni, Áhyggjudúkkum (2002), tókst Steinar Bragi á við íslenskt menningarlíf, en sú saga bar jafnframt ýmis merki hrollvekjunnar, líkt og Sólskinsfólkið (2004) og fyrrnefndu bækurnar þrjár.

Verkin hafa almennt hlotið góðar viðtökur, kannski sérstaklega Konur sem margir töldu sérlega vel heppnað verk og kraftmikla ádeilu á íslenskt samfélag gróðæris og græðgisvæðingar. Sem dæmi má nefna orð Davíðs K. Gestssonar í ritdómi hans um Hálendið, en hann byrjar hann á því að segjast hafa óttast að verkið stæði ekki undir væntingum vegna þess hversu ‚hár gæðastuðullinn‘ hafi verið og því gæti „óhóflega kröfuharður lesandi […] hæglega orðið fyrir vonbrigðum“. [2]

Nú er ég svo heppin að mér fannst Konur sérlega slæm bók og því hafði ég engar sérstakar væntingar til Hálendisins, umfram það að hafa alla tíð haft trú á að Steinar Bragi væri fær um að skrifa góðar bækur, það hefði bara ekki tekist fyllilega ennþá. [3] Ég nálgaðist því Hálendið án sérstakra væntinga og gladdist mjög þegar í ljós kom að hér er á ferðinni haganlega smíðuð hrollvekja, sem býr yfir ýmsum af bestu kostum formsins, sem meðal annars felast í snarpri samfélagslegri ádeilu, auk áhugaverðra tenginga við staðsetningu og þjóðsagnaarf. Með öðrum orðum, þá hefur Steinar Bragi tekið hina útlensku formúlu hrollvekjunnar og heimfært hana saumlaust upp á íslenskan veruleika. [4]

Og hver er svo þessi íslenski veruleiki? Það sem blasir fyrst við er staðsetningin, umhverfið: Hálendið. Íslensk náttúra leikur lykilhlutverk í skáldsögunni, en annað heimaræktað – og náttúrutengt – fyrirbæri eru þjóðsögurnar, sem vísað er reglulega til á fjölbreyttan hátt. Reyndar er það ekki bara íslensk náttúra, heldur mun frekar samband manns og náttúru sem liggur verkinu til grundvallar, en það þema endurspeglar svo gagnrýnina á íslenskt samfélag, nánar tiltekið gróðærið og efnahagshrunið sem fylgdi í kjölfar þess.

Sú gagnrýni kemur hvað helst fram í köflum sem fjalla um aðalpersónurnar fjórar og lýsa ævi þeirra fram að þessari ferð, en í þeim kemur fram að ungu mennirnir tveir tóku virkan þátt í græðgisvæðingunni, en konurnar fylgdu meira svona í kjölfarið. Í sjálfu sér finnst mér þessi hluti sögunnar óáhugaverðastur og umfjöllunin um þetta fólk frekar óspennandi og óþarflega ítarleg – þetta eru einfaldlega upplýsingar sem lesandi hefur þegar getið sér til um að einhverju leyti, þó vissulega hafi sum af þessum æviatriðum lagt sitt af mörkum til smíði verksins.

Á hinn bóginn má segja að þetta er eitt af einkennum hrollvekjunnar, að sveiflast milli ofgnóttar og mínímalisma: og það er áhugavert að spegla þessar greinargerðir um persónurnar í þeirri hófsemi sem einkennir lýsingarnar á hryllingnum sjálfum, en þar heldur Steinar Bragi öllu vandlega til haga sem einmitt skiptir höfuðmáli fyrir áhrifamátt verksins.

Það þarf sem sagt ekki allar þessar upplýsingar til að greina gagnrýnina sem í verkinu felst, hún kemur strax fram í því hvernig þetta unga fólk nálgast náttúruna, í stórum jeppa, fullum af ríkulegum útbúnaði, góðum mat og áfengi (samt gista þau stundum á hótelum, nenna ekki að tjalda), með GPStæki sem ekki virkar; þau eru með öðrum orðum full hroka og líta á náttúruna sem hverja aðra sjónvarpsmynd:

það sló hann skyndilega hversu absúrd þetta var, að svífa þarna fjögur yfir sandana norðan við Vatnajökul, í myrkrinu og þokunni, næstum eins og það væri sjálfsagt; súpandi á mexíkóskum bjór, léttklædd í hita sem þau stilltu með því að snúa takka á borði fyrir framan sig, með tónlist í eyrunum; berast hreyfingarlaus yfir landið, heyra ekki marrið og sargið þegar dekkin möluðu grjótið, hafa ekki áhyggjur af neinu […] meðan þau horfðu á náttúruna líða framhjá þarna úti – [5]

Hugleiðingar bílstjórans Hrafns í upphafi bókarinnar gefa strax tóninn og þó það sé ekki endilega frumlegt að fjalla á þennan hátt um náttúruna, þá öðlast þessi lýsing aukinn kraft í ljósi þeirra atburða sem fylgja í kjölfarið. Myrk þoka verður þess valdandi að þau villast af leið og keyra beinlínis inn í hús sem stendur í miðri auðninni. Bíllinn er ónýtur og þau neyðast til að þiggja fremur óvinveitta gestrisni íbúa þess, undarlegrar konu og karls sem er greinilega ekki alveg andlega hress.

Strax fyrstu nóttina gerast undarlegir atburðir sem þau leiða hjá sér og daginn eftir hefjast tilraunir þeirra til að fara. En þær misheppnast allar, gamli jeppinn sem þau fá lánaðan hjá heimafólkinu skemmist þegar þau keyra ofan í djúpa holu á veginum – holu sem Hrafni sýnist vera nýlega grafin. Í ljós kemur að í nágrenni hússins er stífla og yfirgefin mannvirki en þar finna þau ekkert annað en aukin undarlegheit. Allt gefur til kynna að náttúran sé fjandsamleg – bæði fjórmenningunum og þeim sem byggðu mannvirkin – og að þau séu langt frá því að ráða við aðstæður.

Í umfjöllun um Hálendið á bókakaffi Borgarbókasafns Reykjavíkur og Gerðubergs í nóvember 2011 benti Björn Unnar Valsson á að í sögunni má vel sjá tilvísanir til verka bandaríska hrollvekjuhöfundarins H.P. Lovecraft, sem var upp á sitt besta á þriðja og fjórða áratug tuttugustu aldar. Í verkum hans birtist einmitt fjandsamleg náttúra, byggð óvættum frá forneskju (yfirleitt einskonar guðum utan út geimi), en Lovecraft setti fram þá kenningu um hrylling að hann ætti sér uppsprettu í því óþekkta, sem meðal annars felst í ókönnuðum víðáttum handan mannlegs skilnings og greiningar:

Tiltekið andrúmsloft kæfandi og óskýranlegs ótta við ytri, óþekkta krafta verður að vera til staðar“ segir Lovecraft í ritgerð sinni um yfirnáttúrulegan hrylling í bókmenntum, og bætir við síðar: „Prófraunin á hið virkilega undarlega er einfaldlega þessi – hvort það takist eða ekki að vekja með lesandanum djúpstæða tilfinningu ógnar og gefa til kynna snertingu við óþekkt svið og öfl; hárfína áherslu á óttablanda hlustun, eins og eftir slætti svartra vængja eða krafsi annarlegra skugga og vera sem byggja ystu mörk hins þekkta heims. [6]

Sýn Lovecrafts er náskyld hryllingi þeim sem Joseph Conrad lýsir í Innstu myrkrum (1899), en þar er það einmitt hið ókannaða svæði, utan landkönnunar og vestrænnar siðmenningar, sem býr yfir hinum hreina hryllingi: „Þetta er hryllingur! Hryllingur!“ [7] Þessar hugmyndir birtast greinilega í Hálendinu, þar sem persónur deila um hvort kalla megi umhverfið eyðimörk en önnur kvennanna, Vigdís, bendir á þá einföldu staðreynd að „Þriðjungur Íslands er skilgreindur sem eyðimörk“ (32). Auðnin er að auki byggð undarlegu dýralífi, en svo virðist sem hjúin á bænum haldi skepnur – sem þau þó sjá aldrei, og hæni að sér tófur, sem eiga seinna eftir að taka ýmisskonar hamskiptum.

Allt eru þetta kunnugleg stef úr verkum Lovecraft. Maðurinn með fálmarana upp úr hausnum sem Anna sér í leyniherbergi hússins er þó líklega skýrasta tilvísunin, en óvættir með marga fálmara eru vinsælir í verkum höfundarins, og vísa iðulega í einhverskonar tegundablöndun, aðallega milli manna og neðansjávarvera:

maður með stórt, klunnalegt höfuð, gapandi munn og pírð augu; húðin sigin og að því er virtist of stór, eins og henni hefði verið fleygt yfir hann. Upp úr höfðinu stóðu svartir fálmarar í iðandi kös sem teygðu sig eftir henni – (115)

Og líkt og vísindamenn í verkum Lovecrafts virðist svo sem kallinn í húsinu á Hálendinu hafi eitt sinn verið frægur vísindamaður sem hafi stundað varhugaverðar tilraunir á mönnum, auk þess að hafa getið börn við systur sinni.

Tilvísanir til annarra hrollvekja er mikilvægur hluti af sögu hrollvekjunnar, en annar þekktur tengslaheimur hennar er þjóðsagan. Steinar Bragi nýtir sér vel íslenskan þjóðsagnaarf, sem, líkt og tök hans á tilvísanaheimi hrollvekjunnar, verður aldrei íþyngjandi eða ofaukið. Sem dæmi má nefna að konan heitir Ása, eins og ein af systrunum þremur í tröllaævintýrinu um Kolrössu krókríðandi.

En það eru ekki aðeins beinar skírskotanir af þessu tagi sem tengja söguna við þjóðsögur; líkt og með tengslin við náttúruna og umhverfið sem eyðimörk, ræða persónur bókarinnar beinlínis aðstæður sínar í ljósi þjóðtrúar. Egill segist hafa hitt rithöfund sem:

hélt því fram að á ákveðnum svæðum landsins, þar sem eru engin símamerki eða útsendingarbylgjur eða nokkuð af þessu drasli sem fyllir loftið í bænum, söfnuðust allir draugarnir saman, og púkarnir og útburðirnir, huldufólkið, álfarnir, landvættirnir, skrímslin. Af því þau kæmust ekki fyrir annars staðar. (50)

Þetta finnst Hrafni hljóma skynsamlega. Í kjölfarið ímyndar Egill „sér hvernig hefði verið að alast upp þarna, á söndunum. – Á nítjándu öld. Eða átjándu eða sautjándu, sextándu. „Ég skil ekki hvernig fólk gat búið hérna í gamla daga. Hugsaðu þér þögnina hérna og myrkrið. […]““ Samræður þeirra félaga enda svo í frekari vangaveltum um „íslenska menningu“ og fulltrúa hennar, sem er útgerðarmaður sem er „ákafur lesandi Arnalds, „áskrifandi“ að verkum Arnalds“ (51–52). Hér mætti lesa kergju í garð þess höfundar Íslands sem nýtur hvað mestrar velgengni, heima sem heiman, og hefur að auki átt mikilvægan þátt í því að auka veg og virðingu afþreyingarbókmennta á Íslandi.

En jafnframt felur tilvísunin í sér samtal við verk Arnaldar, bæði hvað varðar stöðu þeirra innan takmarkaðs umfangs afþreyingarbókmennta í íslensku bókmenntalandslagi, og svo þá einföldu staðreynd að Arnaldur fjallar líka um auðnina í verkum sínum, en bróðir aðalpersónu bókanna týnist í hríðarbyl á fjalli og mótar sá atburður ekki aðeins perónuna Erlend Sveinsson heldur setur óvægin íslensk náttúra og ‚íslensk menning‘ mark sitt á bækurnar allar. Erlendur lögreglumaður situr í frístundum og les ritið Hrakningar á heiðarvegum og annað rótgróið þjóðlegt lesmál um villur á öræfum, en segja má að Hálendið sé að sínu leyti nokkurs konar 21. aldar innlegg í þá bókmenntagrein.

Steinar Bragi sýnir því á ýmsan hátt meðvitund sína um formið, sögu þess og stöðu innan íslenskra bókmennta og menningar. Hann vinnur markvisst með hrollvekjuformúluna og nýtir hana vel. Þetta kemur meðal annars fram í persónunum, sem eru allar frekar klisjaðar, bæði fjórmenningarnir, sem eru dæmigert glamúrfólk úr miðbæ Reykjavíkur, og gamla fólkið sem býr á bænum, en þau eru ekta fulltrúar furðulegra – og á stundum ógnandi – íbúa landsbyggðarinnar. Þessi tök á forminu eru örugg og tilgerðarlaus, en þar skiptir einmitt miklu máli fyrrnefnd meðvitund, sem þó verður aldrei íþyngjandi.

Jafnfram því að tefla fram viðeigandi klisjum í persónusköpum heldur höfundur þétt utanum söguna sem hrollvekju. Hin hreina hrollvekja kemur hvað best fram í lokaköflunum þar sem fjórmenningarnir tapa endanlega tökum á tilverunni og umhverfinu, og týnast einn af öðrum inn í heim hryllingsins.

Fyrst til að verða fyrir barðinu á hinum óþekktu óvættum er Anna, en það er vel við hæfi því fram hefur komið að hún búi yfir afar ríkri kynhvöt – samkvæmt hrollvekjuformúlunni er kynlíf alltaf banvænt. Hin týnast svo burt eitt af öðru og að lokum virðist Vigdís ein hafa lifað af, en þó ekki heil, eins og áður hefur komið fram. Þetta er líka samkvæmt formúlunni, Vigdís hefur alltaf verið rödd skynseminnar og rík hefð er fyrir því að slík kvenpersóna sé sú eina sem eftir stendur. [8]

Hvað það er sem verður þeim að falli er þó aldrei ljóst, ógnin er aldrei skýrð eða afhjúpuð, þó lesandi hafi fengið fjölmargar vísbendingar þá vísa þær allar í ólíkar áttir. Meðal annars kemur í ljós að húsið er alls ekki hús, heldur klettur, ef marka má myndir sem lögreglan sýnir Vigdísi. Reyndar sýnist Hrafni húsið í fyrstu vera klettur, eftir að hann hefur keyrt inn í það:

Fyrir framan bílinn var náttmyrkrið þéttara, eins og klettur teygði sig upp í himininn og gnæfði yfir þeim, dimmur og þögull. Hrafn velti því fyrir sér hvenær sólin kæmi upp, hvort hún næði yfir brúnina á þessu svarta ferlíki […]. (13)

En svo léttir þokunni í höfði hans og hann sér að kletturinn er í raun hús, svart hús á svörtum sandi. Nema þegar í ljós kemur að húsið er í raun klettur, eins og hann hélt fyrst, þá hlýtur lesandi að velta fyrir sér hvort allt það sem á milli fer hafi aðeins verið ofskynjanir, kallaðar fram af neyslu áfengis og eitur lyfja, en þó umfram allt hinni ríku sjálfseyðingarhvöt sem ungmennin fjögur búa yfir. En hvað af því eru þá ofskynjanir?

Húsið og íbúar þess, væntanlega, og þar með sú lausn að hinar óþekktu óvættir séu afleiðingar tilrauna hans eða sifjaspellsins, en það kemur ekki í veg fyrir að fjórmenningarnir farast (þó Vigdís lifi af er hún illa sködduð). Eru þau þá fórnarlömb hvert annars? Eða sjálfra sín – eða græðginnar, hrunsins og þess samfélags sem skapaði fullkomnar aðstæður fyrir þetta? Í því ljósi má sjá landið sem tákn fyrir þjóðina og hvorttveggja sem öfl eyðileggingar.

Vissulega bendir ýmislegt til þess að túlka megi söguna á þennan hátt, og afgreiða hana þannig sem táknsögu um hrunið, en slíkar afgreiðslur eru óþarflega vinsælar þegar kemur að bókmenntagreinum afþreyingarinnar, sérstaklega vísindasögum, fantasíum og hrollvekjum. Enda hafa höfundar slíkra oft nýtt sér formúlur formanna til að koma á framfæri boðskap.

En það er hægt að koma boðskap á framfæri án þess að skapa honum einfeldningslegan táknbúning og fæst þeirra formúluverka sem ná ‚bókmenntalegu‘ máli fella sig á einfaldan hátt að táknrænni yfirfærslu af þessu tagi. Enda væri þá ekki mikið varið í þau í sannleika sagt. Það sem gerir hrollvekjuna að því eðla formi sem hún er, er einmitt hæfileiki hennar til að hafa hamskipti og bregða sér í allra kvikinda líki. Þetta hefur verið mikilvægur þáttur hennar allt frá upphafi í gotnesku skáldsögunni á átjándu öld.

Strax þá komu fram sögur sem skiptu sér í grófum dráttum í tvo flokka; annarsvegar eru sögur sem gefa sér að hið yfirnáttúrulega sé til, og hinsvegar sögur sem hafna hinu yfirnáttúrulega og skýra alla dularfulla atburði út á raunsæjan hátt. Bent hefur verið á að slíkar skýringar séu iðulega nokkuð hæpnar, en það kemur ekki í veg fyrir að búlgarski bókmenntafræðingurinn Tzvetan Todorov hafi smíðað kenningu byggða á þessum aðskilnaði. [9]

Í leit sinni að eðli fantasíunnar eða hins fantastíska, kemst Todorov að þeirri niðurstöðu að það búi í efanum, hikinu sem kemur á lesandann – og / eða er byggt inn í verkið – að lestrinum loknum. Ef sagan endar þannig að lesandi getur ekki verið viss um hvað í raun og veru gerðist er kjarna fantasíunnar náð að mati Todorovs.

Og einmitt þannig er Hálendið. Þó það geti verið þægileg lausn að túlka verkið sem táknsögu um gróðærið og hrunið er sú skýring of billeg – án þess þó að vera fyllilega óréttmæt. Það er einfaldlega svo margt annað sem sagan tekur til, meðal annars fyrrnefnd tök á og átök við íslenska náttúru og íslenska menningu.

Vissulega má segja að átökin um íslenska náttúru og hin íslenska menning eins og hún birtist í þjóðarsálinni tengist græðgisvæðingunni og kreppunni á ýmsan hátt, en hvorttveggja hefur þó víðari skírskotanir. Og það eru þessar víðari skírskotanir sem koma í veg fyrir að sagan felli sig fyllilega að einföldum útskýringum; Hálendið má fullt eins lesa sem hreina hrollvekju með kreppuívafi (hrollvekjan, líkt og glæpasagan, hefur löngum tekið á ýmsum þjóðfélagsmálum), og sem hrollvekjandi myndhverfingu um kreppuna.

Hver er til dæmis staða Hrafns innan sögunnar? Í ljós kemur að hann er illa skaddaður – er hann mögulega sökudólgurinn, sá sem stendur á bakvið alltsaman? Hann er bílstjórinn og það er hann sem villist út af veginum. Og hvað með hjónin á bænum? Gætu þau ekki verið draugar, eða fólk sem hefur gengist á hönd tröllum eða álfum eins og gerist í þjóðsögunum?

Allt þetta, og miklu fleira, er möguleiki í heimi Hálendisins, skáldsögu sem að hætti meistara Lovecrafts skapar „andrúmsloft kæfandi og óskýranlegs ótta við ytri, óþekkta krafta“ og tekst „að vekja með lesandanum djúpstæða tilfinningu ógnar og gefa til kynna snertingu við óþekkt svið og öfl“ og lesandi getur ekki annað en hlustað eftir „slætti svartra vængja eða krafsi annarlegra skugga og vera sem byggja ystu mörk hins þekkta heims“. Og þessi heimur á ystu mörkum er okkar veruleiki, eyðimörkin Ísland.

 

Úlfhildur Dagsdóttir

 

Tilvísanir

  1. Allavega samkvæmt því sem ég fann á netinu: Davíð K. Gestsson, „Sumu tekur maður bara eftir í myrkrinu“, ritdómur um Hálendið eftir Steinar Braga á Bókmenntavef Borgarbókasafnins, bokmenntir.is, http://www.bokmenntir.is/desktopdefault. aspx/tabid-3967/5648_read-29856/, Björn Þór Vilhjálmsson, ritdómur um Hálendið fluttur í Víðsjá, nóvember 2011, http:// www.ruv.is/frett/bokmenntir/halendideftir- steinar-braga, Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir, „Hryllingur á hálendinu“, ritdómur um Hálendið eftir Steinar Braga birtur í Fréttablaðinu 13. nóvember 2011, http://www.visir.is/hryllingur-a-halendinu/ article/2011711129999 og Ingi Freyr Vilhjálmsson, „Hrunið á hálendinu“, ritdómur um Hálendið eftir Steinar Braga birtur í DV 26. nóvember 2011, http://www.dv.is/ menning/2011/11/26/hrunid-halendinu/. Eini neikvæði ritdómurinn sem ég sá var eftir Arnar Eggert Thoroddsen, „Innstu myrkur“, og birtist í Morgunblaðinu, 12. nóvember 2011, http://www.mbl.is/greinasafn/ grein/1399886/?item_num=3&search id=4d40b23ca89d1c9a489bb8ed065b9b40 48917ede&t=1350821627.11. Arnar Eggert finnur bókinni einmitt það til lasts sem ég tel henni til tekna.
  2. Davíð K. Gestsson, „Sumu tekur maður bara eftir í myrkrinu“, ritdómur um Hálendið eftir Steinar Braga á Bókmenntavef Borgarbókasafnsins, bokmenntir.is, http://www.bokmenntir.is/desktopdefault. aspx/tabid-3967/5648_read-29856/.
  3. Sjá ritdóma mína á bókmenntir.is, um Sólskinsfólkið (http://www.bokmenntir.is/desktopdefault.aspx/tabid-3409/5648_read- 21232/) og Útgönguleiðir (http://www. bokmenntir.is/desktopdefault.aspx/tabid- 3409/5648_read-21280/).
  4. Þess má geta að ekki eru allir aðdáendur Steinars Braga eins hrifnir og gagnrýnendurnir, en ýmsir (yngri, karlkyns) kunningjar mínir, sem hafa áður lýst yfir mikilli hrifningu á fyrri verkum hans, fussa og sveia yfir Hálendinu. Út af fyrir sig finnst mér þetta áhugavert og segja sitt um hvernig gildismatið getur verið gerólíkt; fyrir þessum drengjum hefur Steinar Bragi í raun svikið lit með því að skrifa ‚góða bók‘, eitthvað sem miðaldra kvenkyns gagnrýnandi er afskaplega ánægð með. Í ljósi þessa mætti vel velta fyrir sér að þrátt fyrir að hafa farið lengra inn á svið formúlubókmennta og þar með afþreyingarbókmennta, þá hafi Steinar Bragi fjarlægst svið neðanjarðarbókmennta, sem einkennast oft af hráum stíl og hrákasmíð – sem getur einmitt verið mjög heillandi á sinn hátt.
  5. Steinar Bragi, Hálendið, Reykjavík, Mál og menning 2011, bls. 9. Héðan í frá verður vísað til skáldsögunnar með blaðsíðutali í sviga.
  6. H. P. Lovecraft, Supernatural Horror in Literature, New York, Dover 1973 (1927), bls. 15 og 16. Þýð. úd.
  7. Joseph Conrad, Innstu myrkur, þýð. Sverrir Hólmarsson, Reykjavík, Uglan, íslenski kiljuklúbburinn 1992 (1899), bls. 124.
  8. Sjá um þetta í bókum þeirra Carol J. Clover, Men, Women, and Chainsaws: Gender in the Modern Horror Film, London, BFI Publishing 1992 og Vera Dika, Games of Terror: Halloween, Friday the 13th and the Films of the Stalker Cycle Rutherford Madison Teaneck, Faileigh Dickinson University Press (Associated University Press, London and Toronto), 1990. Sjá einnig grein mína um hrollvekjur í kvikmyndum, „Af-skræmingar, af-myndanir og aðrar formlegar árásir: Hrollvekjan í daglegu lífi og starfi“ í Heimur kvikmyndanna, ritstj. Guðni Elísson, Reykjavík, art.is og Forlagið 1999.
  9. Tzvetan Todorov, The Fantastic. A Structural Approach to a Literary Genre, ensk þýðing Richards Howard, Ithaca, New York, Cornell University Press 1987 (1970).