Jón Kalman Stefánsson. Eitthvað á stærð við alheiminn.

Bjartur, 2015.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2016

… hvernig skyldi heimurinn líta út eftir að maður deyr? hvernig getur allt verið til þegar maður sér það ekki lengur? – eða hættir maður aldrei að sjá?
Skurðir í rigningu 1996

Eitthvað á stærð við alheiminnI

Í ekki svo mjög fjarlægri framtíð mun það virka einkennilega á fólk að skrifaðir hafi verið ritdómar um Eitthvað á stærð við alheiminn. Álíka merkilegt og að það skuli vera til umsagnir um Hús skáldsins og Hið ljósa man þegar þær komu út. Vonandi hefur enginn bókmenntaunnandi eytt dögunum milli jóla og nýjárs í fyrra í að lesa nýjustu bók Jóns Kalmans Stefánssonar án þess að hafa áður lesið Fiskarnir hafa enga fætur (2013), sem jafnast á við að byrja á bls. 355 í stórri skáldsögu. Saman mynda bækurnar órofa heild, eina stóra ættarsögu. Hvað hún verður látin heita í útgáfum framtíðarinnar verður gaman að sjá.

II

Órofa heild. Þar spilar líka inn í form sögunnar, þar sem uppistaðan er fléttuverk þriggja ólíkra tímaskeiða. Nútíminn, þar sem bókamaðurinn Ari snýr aftur úr sjálfskipaðri útlegð og heldur til fundar við deyjandi föður sinn í þeirri efnahagslegu rúst sem Keflavík æsku hans er orðin. Unglingsár Ara þar í bæ og í aðdraganda þess að faðir hans og stjúpa flytja þangað. Og loks ástar- og baráttusaga ömmu hans og afa á Norðfirði snemma á síðustu öld. Atburðarás þeirrar síðastnefndu og nútímasögunnar er nokkurnveginn í réttri tímaröð en upprifjanir úr fortíð Ara lúta fremur duttlungum minnisins. Einföld tímalína frá því Margrét amma og Oddur afi fella hugi saman til bæjarhátíðarinnar í Keflavík í sögulok hefði getað gert bindin tvö að sjálfstæðum verkum. Þræðirnir sem liggja þvers og kruss um líf kynslóðanna binda þau þétt saman. Fyrir vikið er illgerlegt að einangra umfjöllun við Eitthvað á stærð við alheiminn og næsta víst að fiskarnir fótalausu fljóti með.

Þessi frásagnaraðferð gerir söguna líka þannig úr garði að mynd fjölskyldunnar teiknast út frá nokkrum upphafspunktum frekar en að verða línuleg framvinda orsaka og afleiðinga. Þéttist frekar en að vera leidd til lykta.

Efnistengsl bókanna tveggja við önnur verk höfundar eru líka margvísleg og mjög auðgandi að grúska í fyrir þá sem vilja gangast honum á hönd af alvöru. Við verðum fyrst vitni af einu lykilatvika þessarar sögu, nauðguninni á sláturhúsballinu, í Skurðum í rigningu 1996. Skýrastur er þó skyldleikinn við hina sjálfsævisögulegu æskusögu Snarkið í stjörnunum. Ari deilir hinni sáru reynslu móðurmissis með aðalpersónunni þar, sem og þeim jarðvegi harðneskju og kulda sem fylgir.

Í Eitthvað á stærð við alheiminn mildast sú mynd allnokkuð þegar við fáum innsýn í persónuleika föður hans og stjúpu sem bæði virðast á endasprettinum en hafa fundið einhverskonar frið og – að minnsta kosti hún – innsýn í hvað orsakaði andrúmsloftið á heimilinu, og hverjar gætu hafa verið afleiðingar þess. Bréf stjúpu til Ara undir lok bókarinnar er fallegur texti, kannski strangt til tekið of fallegur, en fallegt af höfundinum að ljá þessari þreyttu og hörðu konu eitthvað af stílmýkt sinni þar sem hún kveður okkur. Gott ef það er ekki einfaldlega réttlætismál að hörkutól og hrúðurkarlar af báðum kynjum fái aðgang að skáldlegu ímyndunarafli og mjúkum alheimshúmanisma höfundar. Skáldlegt réttlæti.

Þetta er stór og breið fjölskyldusaga og þjóðfélagslýsing með tvær persónur stærstar í forgrunni: hin sterka og siglda en viðkvæma Margrét og Ari sonarsonur hennar. Bæði eru þau að nokkru utanveltu í samfélögum sínum, í hálfgerðu stríði við þau. Það er í gegnum þann núning sem einkenni samfélaganna, mótin sem þau ætla fólki að passa í, verða sýnileg. Harðneskja sameiginlegt einkenni beggja skeiðanna. Við fylgjumst með heitri ást Odds og Margrétar veðrast í harðri lífsbaráttunni og flótta Ara frá keflvískum kulda og sinnuleysi föður og stjúpu eftir heimsslit móðurmissisins í skjól heyrnartólanna, tónlistarinnar. Og verðum vitni að einmanalegum drykkjustundum föður hans með Megas í eyrunum. Tónlistin skiptir miklu máli í nútímahluta bókarinnar, mikið er vitnað í söngtexta og sagt frá upplifunum og hugljómunum henni tengdri.

III

Á sjálfum fæðingardegi Þórbergs sem seinna varð líka dánardagur William Heinesens; svoleiðis dagar rúma allt: hafið, himinhvolfið, skáldskapinn.
(Birtan á fjöllum 17)

Hugljómanir er mikilvægt orð til að hafa í huga þegar við tölum um stíl, eða kannski frekar efnistök, Jóns Kalmans. Eitt af hans eftirlætissbrögðum er að tengja saman hið stærsta og hið smæsta. Það sem hrærist innra með manninum og alheiminn sjálfan:

… einungis í upphafi sem orkuframleiðsla ástarinnar er svo mikil og stríð að allir erfiðleikar virðast gufa upp, verða að engu. Síðan hægist á. En hitinn getur þó verið áfram til staðar, liggur djúpt og er jafnvel nægur til að hita plánetur … (184)

Það er þá Prefrontal cortex sem tók ákvörðun um að slá Ara, en Jakobi er vorkunn, að sama svæði stjórni dómgreind, tilfinningum og forsjálni, það fer ekki vel saman, hlýtur eiginlega að flokkast sem hönnunarmistök, því dómgreind, tilfinningar og hið vitræna búa hvert á sinni plánetunni, eru tæpast í sama sólkerfi, ekki er að undra að okkur gangi jafn illa að fóta okkur, séu úr lagi gengin, heimurinn hart leikinn. (153)

Og hugsaði líka, lífið er þá fallegt! En síðan hafa liðið mörg ár. Um það bil þrjúþúsund (Fiskarnir 233)

Stílbragð, já, en algerlega samgróið heimsmynd bókanna. Allt tengist, og það er sálin og fegurðin sem á sér samhljóm í óravíddum geimsins og stjörnunum. Þetta er það sem er. Það sem verðmætt er. Hugsun sem endurómar í margívitnaðri staðhæfingu Mahlers um að sinfóníur skuli endurspegla alheiminn. Hugmynd sem á sér hliðstæðu í læknislist gullgerðarmanna eins og Paracelsusar. Maðurinn sem smækkuð mynd heimsins.

Stundum hvarflar að lesandanum að Jón Kalman ofnoti þetta stílbragð. Og sé kannski almennt of óspar á orð eins og „hjarta“, „stjörnur“ og „alheimur“. En um leið grípur mann tilfinningin að þegar maður hugsi þannig sé maður að ganga í lið með hrúðurkörlununum óhamingjusömu, taka afstöðu gegn textanum. Og maður leyfir sér að ganga Jóni á hönd. Það er þess virði.

IV

Það er ekki hægt að gera neinar kröfur til þeirra sem vinna og leggja sig fram við það, ekki hægt að ætlast til þess að þeir hafi tíma til að taka eftir sársauka lífsins, hafi tóm til að ræða það sem er viðkvæmt, þvæi tæplega hrærum við steypuna saman með sársauka og tárum, ekki byggjum við undir vatnsbretti með tilfinningum: Jakob greip hallamálið, bar það upp að einhverju og sá að allt var rétt. (142)

Um hvað er Jón svo að fjalla í þessari miklu sögu? Hugur lesandans staldrar fyrst við andstæðu og togstreitu hversdagslífs og brauðstrits við heim tilfinninga, sköpunar, lista og tilfinninga. Þetta síðarnefnda er varnarþing höfundar, hann og fulltrúi hans, sögumaðurinn, er talsmaður þeirra persóna sem gangast því á hönd. Því þetta stríð er að mun meira leyti háð milli fólks en innan þess.

Við horfum á glímu sægarpsins Odds og Margrétar konu hans um sál og framtíð sonarins Þórðar frá sjónarhóli hennar. Margrét er þungamiðja fortíðarkaflanna, við fylgjumst með hennar viðkvæma en grunnsterka sálarlífi veðrast í hvunndagsraununum og mælum kostnaðinn við baráttu hennar við að halda sjálfri sér á andlegu lífi og að halda opinni leið Þórðar út úr hinum harða heimi sjómennskunnar. Glíma sem hin heimsku örlög dæma tapaða með harmrænu fráfalli Þórðar í blóma lífsins.

Kannski nær svo fléttueðli verksins hápunkti sínum þegar við, loksins, fáum að gægjast í bréf Gunnars Gunnarssonar skálds til Margrétar þar sem hann talar um móðurást og móðurmissi við konuna sem missti son sinn og augastein en las aldrei bréfið, en við lesum það yfir öxlina á Jakobi sem einmitt missti konu sína og sonur hans móðurina, og faðirinn soninn í framhaldinu.

Það er rétt að kalla glímuna tapaða því sjónarhorn sögunnar er alls ekki hlutlaust í þessari baráttu allri. Jón Kalman stendur með sköpuninni. Það er hægt að lesa söguna sem uppgjör við íslenskan hörku-, vinnu- og kuldakúltúr í hundrað ár og kannski er hún aldrei eins sannfærandi og í lýsingunni á hvernig sannfærðir stríðsmenn þeirrar menningar eru jafnframt fórnarlömb hennar.

En sagan er samt ekki einfeldningslegt áróðursrit fyrir lífi í listum og anda. Eitt meginstef hennar er skoðun á tveimur stórum sögulegum atriðum sem kippa grundvellinum undan blindri vinnusemismenningunni: hernum og kvótakerfinu. Hið fyrra með mannsæmandi launum án þess að skrifa undir stritmenningu heimamanna, hið síðara með því að rústa samfélögum á borð við Keflavík, um leið og þau eiga þátt í að binda enda á lífshætti sem Oddur, ættfaðir sögunnar, lítur á sem náttúrulögmál, nánast trúarbrögð.

Firringin sem þessi uppbrot hafa í för með sér á sér hliðstæðu í viðureign þeirra sögupersóna sem helst eru handgengnar heimi andans við hversdaginn og harða kröfu lífsbaráttunnar. Við sjáum hvernig sjálfsmynd Margrétar veðrast og lífsgleðin fölnar í stritinu og vegna þess hvernig Oddur og samfélagið allt gengur að því sem gefnu að hún – og Þórður – lúti valdi hefðanna, vanans og vinnunnar; þó að það sem einmitt dragi hann að henni sé að hún er ekki „af þessum heimi“ strits og þumbaraháttar. Um tíma virðist von til þess að einhverskonar sátt verði þar sem sagan um jarðbundna vinnuþjarkinn og hina heillandi og skapandi eiginkonu endurtekur sig í lífi foreldra Ara. En á einni eftirminnilegri kvöldstund er fótunum kippt þar undan. Jakob fellur á því prófi að geta einlæglega samfagnað unnustu sinni með fyrsta útgefna skáldskapinn.

V

Jón Kalman hefur í bókum sínu farið ýmsar leiðir með frásagnarhátt. Stundum stendur sögumaður utan við og sér í hug allra, í öðrum bókum rekur aðalpersónan söguna í fyrstu persónu. Forvitnilegt og áhrifaríkt er stílbragð sem hann bregður fyrir sig í Sumarljós og svo kemur nóttin (2005). Þar er rödd sögumanns nokkurskonar kór, talar um sig með persónufornafninu „við“ og tilfinningin verður sú að allt þorpið tali. Í þríleiknum sem hófst með Himnaríki og helvíti er eins og hinir framliðnu hafi orðið.

Hér kemur enn eitt tilbrigðið, sögumaður sem er hluti sögunnar, talar um sig sem frænda og samferðamann Ara og á sér einhverskonar samsvarandi og samhliða tilvist, en er þó þokukenndur, alvitrari en svo að hann sé alfarið af þessum heimi og virðist leysast upp í lokin. Þetta er áhrifarík aðferð og Jón fer ákaflega fimlega með hana. Eins og reyndar öll sín stílbrögð.

VI

Að mínu mati er tvíleikurinn um Odd Norðfjarðarskipstjóra og keflvíska afkomendur hans mikilvægasta verk Jóns Kalmans til þessa. Sú einarða vígstaða sem hann tekur með þeim sem leyfa sér að hrærast í heimi andans og ástarinnar er skýrust hér og í þríleiknum sem hófst með Himnaríki og helvíti (2009).

En með því að stika vígvöllinn í nútímanum, láta hann varpa ljósi á samfélag okkar og ýmis mein sem einkenna það, gerir hann okkur öllum greiða.

Staða og horfur tilfinningalífsins er umræða sem við verðum að taka og enginn er hæfari til að stýra þeirri greiningardeild en Jón Kalman Stefánsson.

Þorgeir Tryggvason