Bragi Ólafsson. Staða pundsins: sjálfsævisaga, en ekki mín eigin.

Bjartur, 2019.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2020.

Staða pundsins: sjálfsævisaga, en ekki mín eiginÞað er alveg svakalega mikið að gerast í skáldsögu Braga Ólafssonar, Staða pundsins. Samt gerist eiginlega ekki neitt, eins og títt er í sögum hans, en eins og hann bendir á í viðtali þá gerir hann ekki þá kröfu að finna „eðlilega framvindu í skáldsögu, eða hefðbundið upphaf, ris og niðurstöðu.”[1] Segja má að Bragi hafi sérhæft sig í að forðast allt slíkt, en þó eru verk hans yfirfull af allskonar framvindum og kannski sérstaklega risum eða vendipunktum. Ekkert af þessu birtist þó á þann hátt eða þeim stöðum í textanum sem kunnugt er úr raunsæisverkum. Þetta kemur hvað helst fram í því að í sögunni er framið morð, aðalpersónurnar lenda í hættulegum aðstæðum, ættingi deyr óvænt og það verða vatnaskil í lífi þeirra. Auk þessa má nefna að áður en sagan hefst hafa verið framin tvö sjálfsmorð og annað morð, einnig hefur mögulega átt sér stað kynferðisleg misnotkun á barni. Allt eru þetta þekktir dramatískir atburðir í skáldsögu, en í Stöðu pundsins verða þeir að hálfgerðum aukaatriðum, gerast ‚utan sviðsins‘, eru stundum bara nefndir í framhjáhlaupi og fá í það heila lítið rými í sögunni, miðað við, til dæmis, stöðu pundsins, sem er síbreytileg og birtist í kaflafyrirsögnum.

Í fyrrnefndu viðtali kemur fram að skáldsagan hafi upphaflega átt að heita ‚Hetjur‘. Hetjurnar sem um ræðir eru tilvísun í samnefnda hljómplötu og lag eftir David Bowie, en tónlist hans ómar víða, auk þess sem annað tengt tónlist hans – og þá sérstaklega Berlínar-plötunum tveimur, „Heroes“ og Low – dúkkar reglulega upp í sögunni, sérstaklega í lokahlutanum. Hetjurnar eru svo auðvitað líka söguhetjurnar sem söguhetjunni sjálfri finnst ‚einkennileg smíð‘: „Furðulegt orð sem íslenskan hefur komið sér upp – orðið söguhetja. Einkennileg smíð, rétt eins og orðið sjálfsvíg“ (232). Hún heitir Mjaðveig en er alltaf kölluð Madda, hún kærir sig ekki um að nota nafn sitt þó hún vísi til þess með ýmsum hætti. [Mér finnst synd að hún hafni þessu fallega nafni, mamma vildi skíra mig Mjaðveigu, en pabbi ekki.] Saga pundsins er að mestu leyti hennar saga, að hluta til byggð á dagbókarskrifum, að hluta til í upprifjunum, vangaveltum og ímynduðum samtölum sem ekki er alltaf auðvelt að átta sig á ‚hver‘ segir. Bragi sjálfur áttar sig jafnvel ekki heldur á því: „Madda er þó ekki eini sögumaður bókarinnar, og sjálfur veit ég ekki alltaf hver talar hverju sinni, eða hver á þær skoðanir sem settar eru fram í textanum”.[2] Hún er þó ‚vitundamiðja‘ bókarinnar, líkt og frú Ramsay í To the Lighthouse eftir Virginiu Woolf, sem Madda les, á ensku. Íslenska þýðingin, Út í vitann, kom ekki út fyrr en árið 2014, en Madda er að lesa Woolf árið 1976. Staða pundsins gerist að mestu árin 1976 og 1977, og svo fjörutíu árum síðar, 2017. Önnur aðalpersóna – eða ‚hetja‘ – er sonur Möddu, Sigurvin, en hann kemur af stað tónlistarlegri vakningu hjá Möddu. Mæðginin eru að jafna sig eftir fráfall Sigurvins eldri, sem er alltaf kallaður Eldri, en hann framdi (misheppnað) sjálfsmorð. Faðir Möddu hafði líka fyrirfarið sér og sjálfsvíg Eldra virkar því eins og endurtekning. Á sama hátt felst endurtekning í morðinu á Hönsu, vinkonu Möddu, sem er myrt af kærasta sínum, en í næsta húsi við Möddu og Eldra býr maður í bílskúr, sá hafði drepið konu sína.

Sagan segir í stuttu máli frá því að Sigurvin fær í hendur pöntunarlista yfir hljómplötur sem þau mæðginin leggjast yfir og leggja í kjölfarið í það að panta plötur frá Bretlandi með aðstoð Tómasar frænda, eða ‚major Tom‘, sem vinnur í banka og hjálpar til með gjaldeyrinn – þess vegna er staða pundsins mikilvæg. Jafnframt þessu skipuleggja þau ferð til Bretlands að heimsækja gamlan vin Eldra sem rekur stjórnleysingjakommúnu á sveitabýli. Viðfangsefnið er því einskonar tónlistarleg vakning, ekki síður móðurinnar en sonarins, því hún hlustar á plöturnar þegar drengurinn er ekki heima. Umræður um tónlist, tónlistarmenn og ekki síst efnislegt form tónlistarinnar, kassettur, vínilplötur og umslög utanum þær, með tilheyrandi mynd- og lesefni, eru yfir og allt um kring. Inn í þetta blandast síðan, eins og gengur og gerist, minningar og endurlit af ýmsu tagi, meðal annars margt sem tengist Eldra og gefur ekki af honum góða mynd.

Ættingjar og vinkonur koma víða við, auk nágranna. Meðal annars er vísað til persóna sem koma fyrir í öðrum sögum Braga, en hluti höfundarverks hans er skáldaður heimur skálda og skáldleysingja sem dúkka upp hér og þar, í misviðamiklum hlutverkum. Og svo er það menningarlandslag áranna tveggja, þarna undir lok áttunda áratugarins þegar svo margt var að gerast og gerjast í menningu og listalífi. Þessi tími kallast meðal annars á við minningaskáldsögu Ólafs Gunnarssonar, Listamannalaun, en skáldið Dagur Sigurðarson kemur við sögu í báðum bókum. [Reyndar kemur annar Dagur, Þorleifsson, líka við sögu, en þó ekki. Ævisaga sem hann skráði er nefnd, Ég vil nú hafa mínar konur sjálfur, en hún kom einmitt út árið 1976. Þessi Dagur er pabbi minn, sá sem vildi ekki að ég héti Mjaðveig.] Módernisminn er enn ríkjandi, en Madda, sem fylgist vel með, sér tilkynningu um nýja bók eftir Thor Vilhjálmsson, Mánasigð. Reyndar er hún kölluð Mánasig í annarri tilkynningunni, en sú er úr Morgunblaðinu sem fer alltaf rangt með, öfugt við Þjóðviljann sem Eldri starfaði hjá. [Pabbi vann líka á Þjóðviljanum.]

Það er ekki úr vegi að skoða Stöðu pundsins í samhengi við módernismann og þá sérstaklega hið móderníska textaflæði sem einkennir bæði Mánasigð og Út í vitann. Nema þetta vitundarflæði móderníska textans hefur hér lent í þeytivindu póstmódernismans sem dregur allt í efa og frestar allri leit að merkingu og niðurstöðum. Reyndar gerir módernisminn það líka, en á annan hátt – eins og sést vel í Stöðu pundsins þar sem óáreiðanleiki minninga er alltaf rættur í raunsæi: „Ég lít á minn skáldskap sem raunsæislegan í grunninn“ segir Bragi í fyrrnefndu viðtali. En þetta sögðu módernistarnir reyndar líka, að þeirra sögur væru raunsærri en raunsæisskáldsagan.

Munurinn felst kannski helst í því að textinn er í stöðugri samræðu við sjálfan sig, eins og kemur fram í framsetningu. Sumir hlutar eru innan hornklofa og svo eru gæsalappir um yfirskriftir hlutanna, „„Hann““, „„Ég““ og „„Hún““, eða ekki sé talað um yfirstrikunina á „„Ég“ aftur“. Segja má að þessi textalega meðvitund sé léttúðugari og meira áberandi en hjá módernistunum, auk þess sem tilfinningin fyrir efa verður að viðfangsefni, bæði í framsetningu og efnistökum. Svo er það undirtitillinn, sjálfsævisaga, en ekki mín eigin, sem dregur strax athyglina að höfundinum sjálfum, Braga Ólafssyni, sem er þekktur fyrir að hafa spilað með hljómsveitunum Purrki Pillnikk og Sykurmolunum. Hann er fæddur árið 1962 og er því á sama aldri og Sigurvin árið 1976, fjórtán ára, og líkt og Sigurvin verður Bragi faðir ungur – þó ekki alveg jafn ungur. Ekki má heldur gleyma bæklingnum sem fylgir með útgáfunni, en þar birtast yfirstrikaðar síður úr handriti og ljósmyndir af senum og atvikum úr sögunni. Segja má að bæklingurinn raungeri dagbókaskrifavitundarflæðið. En auðvitað eru þetta allt villuljós, með því að kalla skáldsöguna sjálfsævisögu vísar Bragi til þeirrar bylgju sjálfsævisögulegra verka rithöfunda sem einkennt hefur síðustu áratugi. Og með því að ítreka að þetta sé ekki hans ‚eigin‘ saga vísar hann frá þeim skrifum – en jafnframt til þeirra aftur, því við vitum að þeir sem mótmæla of mikið eru grunsamlegir. Þannig fær Bragi (ekki) bæði að eiga sjálfsævisöguna og ekki.

Allt er þetta svo í takt við frásagnaraðferðir bókarinnar sem einkennast af samtali við skrifin, eins og áður hefur komið fram. Jafnframt er þetta samtal við tímann sjálfan, sögutímann, eða kannski réttara sagt, þann tíma sem búinn er til inni í verkinu, en hann er ári á undan, eins og fram kemur í „Athugasemdum“ aftast í bókinni : „Hljómplatan í appelsínugula umslaginu sem Madda sér í Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur á bls. 154 var gefin út árið 1977, ekki 1976“ (272). Mögulega misminnir Möddu að hún hafi séð plötuna þarna síðla árs 1976, en miðað við hversu stórt hlutverk verkið Low eftir David Bowie leikur í síðasta hluta sögunnar má vel hugsa sér að hún sé með allt á hreinu og að Staða pundsins gerist í sínum eigin tilfærða tíma.

Þetta birtist ágætlega í tveimur upphöfum sögunnar, fyrst í kafla merktum „Hann“ og svo í kafla merktum „Ég“. „Hann“ segir:

Í raun ættu alltaf að vera gæsalappir utan um um titla. Og nú hljómar í höfði hans lítill tónbútur af plötunni svarthvítu, nokkurra sekúndna brot sem hann tengir alltaf minningunni um unglingaherbergið, þegar botninn dettur úr tónlistinni sem hann er að spila, eins og hátalarinn rifni og allur bassi hverfi; en svo verður allt aftur eins og það á að vera: bassinn hljómar á ný, og botninn nær aftur upp á yfirborðið. Þetta litla augnablik hefur enn sömu dularfullu merkinguna í huga hans og það hafði á sama tíma, og kannski er það þess vegna sem hann er ennþá unglingur, þótt í árum talið sé hann fullorðinn maður.
Það er annars einkennilegt fyrir höfund að vera með í höndunum efnivið í sögu sem frá fyrsta orði virðist öll miðast við að ákveðinn atburður muni eiga sér stað í lokin, en þegar að honum kemur er síður en svo ljóst hvort hann gerist í raun og veru. Það er aftur á móti ljóst að bókin sem sagan byggir á, dagbók M. L. (Möddu), nær ekki lengra en rétt inn í nóttina áður en dagurinn rís, sá dagur þegar hinn tiltekni atburður á að gerast. (8)

Nokkrum blaðsíðum síðar hefst svo sagan sjálf, eða hvað? Allavega byrjar fyrsti „Ég“ kaflinn á þessu:

Það hefur tekið mig tvo eða þrjá daga að ákveða hvort ég eigi að vera að þessu. Ég hafði séð bókina í glugganum hjá Lárusi Blöndal á Skólavörðustíg, það var um miðjan október; og líklega var það áferðin á spjöldunum, einhvern veginn hrjúf en þægileg að snerta (virtist vera) sem fæddi, eða endurfæddi, þá hugmynd mína að færa dagbók. Það hafði hvarflað að mér áður að byrja á einhverju slíku, en ég hafði alltaf drepið þá hugmynd í fæðingu, því þegar ég reyndi að sjá fyrir mér hvernig fyrsta setningin yrði, þá reyndi ég alltaf „of mikið“. Vandaði mig um of. Og þar af leiðandi varð setningin aldrei nógu góð. En nú er bókin keypt. Og fyrsta setningin komin. Ekki neitt sérstaklega „góð“, enda átti hún ekki að vera það. Og kemur því ekki í veg fyrir að ég haldi áfram. Þvert á móti er þetta upphaf að dagbók þrjátíu og fjögurra ára gamallar ekkju nógu „laust í sér“ til að hún hafi ástæðu til að gera betur í framhaldinu.

*

Til að forða þessari fyrstu setningu frá því að hljóma eins og fyrsta setning í dagbókarfærslu dettur mér í hug að Sigurvin, sem fylgist með mér sitja við borðstofuborðið og opna bókina, hugsi sem svo að móðir sín sé að færa einhvers konar heimilisbókhald, þótt auðvitað eigi hann að vita að ekkert sé að færa. Ekkert debit eða kredit. (17-18)

Skáletruðu kaflarnir í bókinni virðast eiga að vera upp úr dagbókinni – eins og kemur hvað best fram í síðustu færslunni undir lok bókarinnar – en þó virðist ekki vera nóg af þeim til að byggja frásögnina á, eða hvað? Og hver er þessi „hann“ sem segir söguna, er það sonurinn Sigurvin? Sem skrifar þá söguna í orðastað móður sinnar?

Allavega byrjar bókin aftur og aftur, fyrst í kafla „hans“ sem hann er ekki viss um hvaða yfirskrift eigi að hafa, síðan í „ég“ kaflanum, en þar eru tvö upphöf, á fyrstu síðu. Báðir kaflarnir fela svo í sér hið stöðuga skrið í tíma sem einkennir allt verkið, „hann“ ferðast til unglingsáranna og til baka, „ég“ er að hugleiða að byrja að skrifa dagbók og íhuga fyrstu setninguna, sem svo er komin og gefur strax til kynna framhald og ímyndaða lesendur, en á næstu síðum heldur samtalið um dagbókina áfram, meðal annars við vinkonuna Hönsu. Hún telur að dagbókarskrifin muni hjálpa báðum mæðginunum að „sefa þá sorg sem ég beri eftir andlát Eldri – sem ég hljóti að bera í hjartanu (orðalag Hönsu) – og hún, Hansa, geti líka vel trúað því að slíkt samtal við sjálfa mig muni þjóna því hlutverki að létta á mér (og hér nefnir hún samlíkinguna við salernið, sem ég veit ekki alveg hvað mér á að finnast um)“ (18). Og svona halda vangavelturnar áfram, hvað verði um bókina, skrifin, soninn – sem skrifin virðast miðast við, enda er það kannski hann sem er að skrifa bókina upp úr þessum skrifum – en samt ekki, því „hvern er ég að ávarpa með þeim fáu línum sem eru komnar í þessa bók mína?“ (19).

Þessar tilvísanir til óljósra einstaklinga, ‚hans‘, ‚mín‘ og ‚hvers‘ verða síðan enn óvissari í ljósi þess að öll nöfn eru á reiki og randi eins og áður hefur komið fram. Madda kallar sig öðru nafni, Eldri sömuleiðis og svo er vinurinn í Englandi búinn að skipta um nafn. Í samtali við Tómas frænda (en nafn hans felur í sér allavega tvær tilvísanir) ruglar hann þeim samnefndu feðgum stöðugt saman og þannig eru nöfn ítrekað notuð til að bæði tengja og rugla. Og ekki má gleyma Hönsu vinkonu (nafn hennar er auðvitað stytting, líkt og hjá Möddu), en hennar nafn vísar í tónlistarheim verksins; stúdíóið þar sem Berlínarplötur Bowie voru teknar upp heitir Hansa.

Hér er allt á sandi kvikum. Það eina sem er ljóst að skrifin og tónlistin eru nátengd, því tónlistartilvísanir af ýmsu tagi eru stöðugt stef [afsakið] og ef ég vissi meira um tónlist myndi ég sjálfsagt getað skáldað upp úr mér lýsingu á hljómfalli, takti og allskonar sem fellir saman tónlistina og textann. Þannig gæti ég notað tónfræði til að lýsa því ævintýralega skemmtilega fyrirbæri sem saga Braga er og tengt lesturinn við þær tilfinningar fagnaðar sem tónar uppáhaldstónlistar minnar [sem er tónlist David Bowie, að sjálfsögðu] vekja hjá mér. Og ég myndi getað tínt til hinar margvíslegu tónlistarlegu tilvísanir í þetta tímabil þegar svo margt var að gerast, pönkið var byrjað að banka uppá og menningarbylting í uppsiglingu.

Og ég gæti fjallað um tímann. Því annað einkenni er, eins og fyrr segir, hvernig ringlað er með tímann, sem sveiflast eins og taktlaus taktmælir og lýtur eigin lögmálum, og leikur með lesandann. En ég ekki nægilega tónlistarlærð og gríp því einfaldlega til líkingarinnar í lýsingu „hans“ á þegar tónlistin þagnar skyndilega og rís svo á ný, en slíkar dularfullar merkingardýfur eru einmitt einkennandi fyrir textann í Stöðu pundsins, svo ekki sé talað um stöðu pundsins.

 

Úlfhildur Dagsdóttir

 

Tilvísanir

[1] „Engin frásögn segir alla söguna“, Fréttablaðið 13112019, https://www.visir.is/g/2019191119580

[2] Sama.