Árni Bergmann. Glíman við Guð.

Bjartur, 2008.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2010.

Glíman við Guð

Glíman við Guð

„Nú herm frá trúarbrögðum þínum mér.“ Þannig þýðir Bjarni frá Vogi eina þekktustu spurningu í þýskum bókmenntum, Grétuspurninguna, eða spurninguna sem Gréta ber upp við Fást („Nun sag, wie hast du’s mit der Religion?“ I. 3415.) Hún á ekki von á miklu enda er spurningum um trú ekki auðsvarað og þá allra síst spurningum um Guð enda fær Gréta ekki óyggjandi svör frá Fást þar sem höfundurinn Jóhann Wolfgang von Göthe hafði ekki skýr svör á reiðum höndum við slíkri spurningu þótt annað kæmi á daginn í uppfærslu Borgarleikhússins s.l. vetur.

Glímu mannsins við Guð linnir ekki, hún birtist í ýmsum myndum allt frá því Jakob, einn ættfeðra Ísraelsmanna, glímdi við „mann“ nokkurn heila nótt samkvæmt Fyrstu Mósebók og hafði sigur. En þegar sól rann upp kom í ljós að maður þessi var Guð, Jakob gekk haltur eftir glímuna „vegna mjaðmarinnar“. Það felst í sögunni að glíman er ekki aðeins hugarleikfimi heldur er maðurinn allur undir lagður, líkami og sál, allt sem honum heyrir til, tilvist hans öll mætti jafnvel segja. Þannig er glíma mannsins við Guð, þar er ekkert undan skilið. Og spyrja mætti hvort nokkur maður geti verið hér stikkfrí. Sögur af þessum viðskiptum eru því margar en langt er síðan Guð hefur mætt manninum sem jafningi eins og í þessari sögu.

Mynd mannsins af Guði tekur breytingum og þar af leiðandi einnig sú glíma sem hann er boðaður til. Það var ekki að ástæðulausu að Karen Armstrong, fyrrverandi nunna, tók sig til og skrifaði Sögu Guðs (1993), sem varð metsölubók, undirtitill bókarinnar er Frá Abraham til samtímans: fjögurþúsund ára leit að Guði. Þar er hennar eigin glímu einnig lýst. Grétuspurningin er sjaldan langt undan, það sýnir meðal annars sá bókafjöldi sem um efnið birtist á öllum heimsins tungumálum og margar þeirra lenda á metsölulistunum. Þeir sem hafa ótvírætt svarað spurningunni um tilvist Guðs játandi telja það kannski ekki lengur eins sjálfsagt og áður og þeir sem töldu afdráttarlaust nei vera rétta svarið eru einnig í óvissu.

Guðshugtakið hefur ekki reynst guðfræðingum tuttugustu aldar auðvelt viðfangs, enda hefur trúin og allt sem henni heyrir til sjaldan ef nokkurn tíma lifað eins erfiða tíma og frá lokum nítjándu aldar og fram eftir allri tuttugustu öld, þá stóð ein lengsta og skæðasta aðför að guðdóminum sem vestræn menning hefur séð. Heimspekingarnir túlkuðu Guð sem spegilmynd mannsins (Feuerbach), ópíum fyrir fólkið (Marx) og sálfræðingar sem sjálfsblekkingu mannsins sem neitar að þroskast (Freud). „Guð er dauður og við höfum drepið hann“ sagði prestssonurinn Friedrich Nietzsche, lengra varð ekki komist í þá átt. Vísindin fóru sigurför um menningarsviðið, listin var ný trú og listamenn irnir hin nýja prestastétt. Guðleysið virtist oftar en ekki fara með sigur af hólmi í glímu mannsins við Guð. Nýir tímar án Guðs voru runnir upp að því er virtist, öld styrjalda, þjáningar og dauða gekk í garð. En jafnvel þótt Guð fengi að vera inni í myndinni, hvernig var hann þá, persónulegur, ópersónulegur? Vandinn virtist óyfirstíganlegur að fá svör við þessum spurningum. Og einnig við upphaf tuttugustu og fyrstu aldar þegar guðir trúarbragðanna voru komnir óþægilega nærri hver öðrum: hver þeirra er hinn sanni Guð? Í einum og sama stigagangi í Breiðholtinu eru hugsanlega fulltrúar allra heimstrúarbragðanna til heimilis. Grétuspurningin er samt ekki horfin úr huga mannsins. Það er svo annað mál að guðleysið á sér einnig sögu, hún er enn býsna nærtæk tuttugustu aldar manninum og verður sjálfsagt rituð fyrr en varir. Það verður spennandi saga.

Það er hægara sagt en gert að halda utan um viðfangsefni eins og þetta, sem spannar í það minnsta fjögurþúsund ár, alla ritaða sögu mannsins, öll svið menningarinnar og öll trúarbrögð heimsins. Árni Bergmann sýnir því talsverða áræðni með bók sinni Glíman við Guð, sem kom út 2008. „Glíman við Guð er saga vonbrigða“ segir höfundur (111). Það virðist samt eiga að takmörkuðu leyti við hans eigin glímu. Hann fer þá leið að rekja söguna bæði í formi samtals vinanna Einars og Sveins, sem eru hans annað „ég“, en einnig með hraðferð yfir sviðið eins og það kemur honum fyrir sjónir og er meginefni bókarinnar.

Árni Bergmann rekur bernskuminningar úr Keflavík; trú barnsins var einlæg: „Ég ólst upp við friðsæla trú mömmu og ömmu og afa“ (180). En tímar hennar líða í lífi mannsins og veruleiki trúarinnar kemur til hans á ný í ýmsum myndum eftir flóknum leiðum úr óvæntum áttum. Spurningar trúarinnar sækja á hægt og sígandi, þær koma til hans í reynslunni, í vitsmunalegum pælingum, í siðferðislegum ákvörðunum; í raun virðast fá svið lífsins undanskilin. Höfundur sýnir með dæmum hvernig þessir hlutir gerast.

Hann rekur viðhorf margra fræðimanna en sækir þó einkum í sjóð fagurbókmenntanna þar sem hann er á heimavelli og sýnir með vel völdum dæmum hvaða myndir glíman við Guð hefur tekið á sig í bókmenntum síðari tíma. Réttilega segir hann að það hafi verið „rússnesku meistararnir sem glímdu við Guð af mestum glæsibrag“ (181). Árni segist fyrst hafa skilið það við lestur verka Dostojevskíjs „hve frábær vettvangur skáldsagan er til að lýsa Jakobsglímunni miklu, innri átökum um hinstu rök“ (182). Sjálfur fór hann í fótspor snillinganna að þessu leyti í meistaraverki sínu um Þorvald víðförla sem „tekur þátt í sígildri leit að trausti á tilverunni“ (188). Hann sleppir ekki átökum um efnið milli trúar og raunvísinda, sálfræðin fær sinn skammt. Sjónarhornið er ekki aðeins kristnar hugmyndir um Guð heldur einnig annarra trúarbragða, þar sýnir höfundur styrk sinn í þekkingu á gyðingdómi en fjallar einnig lítils háttar um islam og búddhisma. Þekking hans á kristinni guðfræði síðustu aldar leynir sér ekki og í reynd er þar meginstyrkur bókarinnar.

Glíman við Guð snýr ekki aðeins að Guði heldur er sú spurning aðeins hluti af spurningunni um trú almennt. Hvað er trú, hvers virði er hún? Rökin fyrir því að maðurinn velur trúna búa innra með honum, þau eru samofin tilvist hans í þessum heimi: „Maðurinn trúir vegna þess að hann óttast tómið, hann óttast tilgangsleysi eigin lífs og allra, hann óttast eigin smæð og vanmátt og einsemd. Hann óttast dauðann. Hann þarf liðsinni og vernd, huggun og von. Hann leitar að því grundvallartrausti á tilverunni sem er ekki háð duttlungum sögunnar …“ (135). Höfundur gengur út frá því að maðurinn eigi enga valkosti í þessu efni, hann sé knúinn til glímunnar hvort sem honum líkar betur eða verr, það megi lesa út úr langri sögu mannsins, ekki síst á okkar tímum.

Trúin er samofin mannlegri reynslu, hún er manninum eðlislæg þrá eftir handanlægum veruleika, eftir huggun. En þarf hún endilega að beinast að Guði, getur hún ekki beinst að hverju sem er? Árni virðist ekki í vafa um að trúarleg þrá mannsins geti heldur betur lent á villigötum eins og dæmin sýni á síðari hluta tuttugustu aldar, hún hefur orðið fórnarlamb skurðgoða. Vísindin hafa iðulega komið í stað trúarinnar, ástin einnig, pólitískar hugsjónir, hvort sem það er þjóðernishyggja eða sósíalisminn, listinn gæti verið lengri (68 o. áfr.). Þrátt fyrir hina sterku þrá innra með manninum eftir lífi, sem felur í sér markmið og tilgang, bjóðast honum valkostir. Í því efni hefur hann óneitanlega verið býsna iðinn við að láta eitt og annað fara að skipta sig öllu máli í lífinu án þess að svo ætti að vera. Það sem hefur minni háttar tilgangi að gegna í lífi mannsins fer að skipta hann öllu máli. Í því felst hefðbundin skurðgoðadýrkun en skurðgoðið uppfyllir ekki þrá mannsins eftir tilgangi og merkingu þegar á reynir, þess í stað fellur það yfir hann að lokum og gerir út af við hann. Árni sýnir með mörgum dæmum hvernig þetta gerist, ofarlega eru honum þar í huga þær systur markaðshyggja (125 o. áfr.) og neysluhyggja samtímans (88).

Árni telur að of mikið hafi verið gert úr því að mannfólkið taki trú að skipan valdsmanna og höfuðklerka. Trúin er þrá sem býr innst í vitund mannsins. Í því efni vitnar Árni til heimspekingsins og félagsfræðingsins Max Horkheimers (d. 1973) sem var einn af talsmönnum Frankfurtarskólans, hann er út af fyrir sig ekkert á móti hefðbundnum trúarbrögðum, hlutverki þeirra og áhrifum „að því tilskildu að menn viðurkenni að þau boða þrá en ekki rétta kenningu“ (168). Einnig orðað hjá Horkheimer sem „þrá eftir því sem er Allt annað“ (201). Árni segir að málið snúist um leit „að merkingu og því algleymi sem leyfir mönnum að komast út fyrir sjálfa sig. Og menn verða að leggja nokkuð á sig til að höndla þetta. Kannski væri best að skoða trúarbrögðin sem listform, að minnsta kosti er það vænlegra til árangurs en rökhyggja, ef menn ætla að komast inn á svið hins heilaga. Finna „hina miklu nærveru“ sem ýmsir trúmenn kunna frá að segja og gefur þeim traust á að lífið hafi tilgang og gildi …“ (164–5). Það er því „gott að trúa. En ekki hverju sem er og ekki hvernig sem er“ (138).

Reynslan var einmitt leið þess tímamótaguðfræðings upplýsingartímans sem nefndur hefur verið faðir nútímaguðfræði, Friedrichs Schleiermachers, prófessors í guðfræði við Humboldtháskólann í Berlín (d. 1834). Hann var áhrifavaldur á rómantíska guðfræði Fjölnismanna eins og vel kemur fram í Ferðasögu Tómasar Sæmundssonar sem hitti Schleiermacher í Berlín. Hann skrifaði þessi spámannlegu orð í bréfi til vinar síns: Skyldi hnútur sögunnar rakna þannig að kristindómurinn lendi í slagtogi með lágkúrunni en raunvísindin með vantrúnni? Þessi orð Schleiermachers eru nú letruð stórum stöfum í nýbyggingu guðfræðideildar Humboldtháskólans í Berlín og segja mikið, einnig nú tveimur öldum síðar. Sá kristindómur sem blasir við sjónum fjöldans er iðulega kristindómur sem hefur orðið lágkúrunni að bráð og þau raunvísindi sem við blasa í þessu samhengi hafa lengst af verið í slagtogi með vantrúnni. Slíkar alhæfingar eru til umhugsunar.

Rómantíska guðfræðin á nítjándu öld hafði mikil áhrif á myndlist þar sem maðurinn er ýmist að upplifa hina fögru og svipbrigðaríku náttúru sem er samofin veruleika skaparans eða hann er einn á óendanlegri strandlengjunni með ógnvekjandi úthafið fyrir augum, hann er lítill depill í víðáttumiklu fjalllendi eða ofursmátt kríli í klettaklungri. Smæð mannsins og umkomuleysi – ekki synd hans – eiga að vekja og afhjúpa þörf hans fyrir guðdómlegan veruleika sem tekur hann upp að brjósti sér og veitir honum huggun í ráðvilltum heimi. Einn þeirra sem hefur haldið á lofti guðfræði Schleiermachers á tuttugustu öld var Paul Tillich sem Árni Bergmann fjallar lítið eitt um. Tillich var eins konar guðfaðir Frankfurtarskólans þar sem hann kenndi heimspeki uns honum var vísað úr landi vegna mótmæla sinna gegn nasismanum. Á undanförnum árum hefur Jürgen Habermas (grand old man Frankfurtarskólans í nútímanum) fært rök að gildi trúarinnar í nútímasamfélagi og hafa þær skoðanir vakið mikla athygli.

Í guðfræði sinni gerir Tillich greinarmun á „guðdómi ofar öllum trúarbrögðum“ og „guðum trúarbragðanna“. Hann talar ekki um Guð í anda Fyrstu Mósebókar sem mann sem býður til glímu á förnum vegi. Guðdómurinn sjálfur (Sein selbst, Being itself) hefur engin nöfn en guðir trúarbragðanna bera mörg nöfn og koma fram hver með sínum hætti. Guðir trúarbragðanna, þar með gyðing-kristinna trúarhefða, taka breytingum frá einum tíma til annars.

Ofar þeim er guðdómurinn, hinn leyndi Guð sem gefur sig til kynna í öllu sem til er, innan allra trúarbragða, og í menningu og listum, hvarvetna er hann nærri í þrá mannsins til þess veruleika sem er utan seilingar en samt drifkrafturinn í lífi hans og skiptir hann öllu máli (ultimate concern): hann er hugrekkið sem hann þráir í ótta sínum, ástin sem hann þráir í firringu sinni, lífið sem hann þráir í vitund sinni um forgengileika lífsins. Sá guðdómur sem er hinn eiginlegi Guð og jafnframt „Grunnur tilvistarinnar“ (Ground of Being) er sá Guð sem málið snýst um.

Í bók Árna Bergmanns er þessi strengur einnig sleginn. Hann kemst þannig að orði: „Nútímamaðurinn leitar inn á við í sinni glímu við Guð, það er mjög skiljanlegt. En hann er varla sáttur við að vera einn á ferð og honum er ekki nóg að vita af öðrum mönnum í svipaðri leit. Honum finnst einatt að Guð þegi, en samt kallar hann á Hann sem er eitthvað annað en við sjálf en á um leið heima í okkur, er hluti af því undri sem vitund okkar er“ (171).

Sú hugsun er höfundi nærri að Guð nálgist manninn ekki utanfrá heldur sé hann öllu heldur grundvallarþáttur í tilvist mannsins sem lætur hann ekki í friði fyrir þessari spurningu og birtist honum sem þrá til handanlægs veruleika annars vegar en hins vegar sem huggun og traust í þessum heimi. Hann vitnar í breska söguheimspekinginn Michael Oakeshott sem skilgreinir trú á þann veg að hún sé „sú stefna sem sálin tekur, reynsluvídd sem er um leið hin fullkomnasta reynsla. Að taka þessa sönnu trú Oakeshotts eða ganga inn í hana þýðir, að hans mati, að menn bjargist hér og nú undan vélrænu striki sérgæskunnar og þeirri harðstjórn sem heimtar af manninum „árangur“ og engar refjar“ (200).

Mikið vatn er runnið til sjávar síðan guðfræðingar og heimspekingar miðalda töldu sig geta sannað tilvist Guðs með rökfræðinni, einnig síðan nútímaheimspekingar töldu sig geta afsannað tilvist hans með fræðilegri nálgun. Maðurinn sjálfur vill komast að með reynslu sína og fá orðið. Þar er glíman við Guð enn í fullum gangi, stundum virðist hún falla í einn farveg, stundum marga. En hún er ekki horfin úr veruleika mannsins. Í hans eigin tilvist vaknar hún og þar er tekist á við hana. Hinni mýstísku guðsmynd er oft stillt upp sem andstæðu spámannlegrar guðsmyndar, annars vegar er hinn leyndi og hljóði Guð en hins vegar er hinn vígreifi Guð sem berst fyrir réttlæti og gegn misrétti. Í reynd fara þessar guðshugmyndir oft saman. Það á við um bók Árna Bergmanns. Annars vegar er spurningin um grundvallartraust sem vaknar innra með manninum: er mér óhætt í þessum heimi, hann segir: „Ég er þar sem ég er staddur vegna þess að mér þætti ekkert að því að eignast grundvallartraust á tilverunni“ (221). Það hefði Móður Teresu sjálfsagt heldur ekki þótt verra, svo understatementi höfundar sé haldið: Hann veltir fyrir sér hvernig þessi mikla trúkona hafi liðið fyrir að fá árum saman „enga huggun eða styrk frá Guði í sinni þjónustu við þá alsnauðustu í heiminum – allt er kalt í kringum hana, Guð þegir. Eina svar hennar er þá að finna í samsömun með Jesú á Golgata forðum og hrópa með honum: Guð, því hefur þú yfirgefið mig“ (220). Jesús slær ekki aðeins í gegn sem súperstar heldur hittir hann einnig í mark sem maðurinn í öllu sínu umkomuleysi og á þverstæðukenndan hátt sem maðurinn í öllum sínum styrkleika, þeim styrkleika sem hann fær þegar hann nálgast Guð. Jesús er því maðurinn sem hrópaði: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig“. Það hróp þekkir hver maður, þar er einn tengipunkturinn.

Þegar líður að lokum bókarinnar er ljóst að Jesús verður lykillinn að Guðsskilningi höfundar þar sem hugtök eins og samlíðun fá þungavigtarmerkingu. Það er fyrir Jesúm sem höfundur skynjar mannúð sem hefur í reynd verið manninum í senn athvarf í hörðum heimi og spámannlegt umbótaafl fyrir hugsjónum sem ávallt eru í gildi. Til þess að leita svara við spurningum sem fjalla um sannleiksgildi trúarinnar beinir höfundur ræðunni að Jesú Kristi. Kannski hefði bók um Jesúm verið mun auðveldara viðfangsefni en bók um Guð því að Jesús er nánast hafinn yfir gagnrýni í bókmenntum tuttugustu aldar, áhrif hans í menningu og listum eru svo yfirþyrmandi og einnig í hversdagslegu lífi mannsins.

Bók Árna Bergmanns um glímu mannsins við Guð er afar lærdómsrík fyrir hinn almenna lesanda. Hann gefur góða innsýn í sögu glímunnar en um leið hefur hann persónugert þessa glímu og gert hana aðgengilega fyrir lesandanum sem fylgist spenntur með frá upphafi til enda því að höfundur býður lesandanum til samtals, hugsar upphátt í léttum og leikandi texta. Árni rekur áhugaverð dæmi sem gefa innsýn í hinn stóra heim guðshugtaksins, þar er af nógu að taka. En hann sýnir einnig skilning á guðfræði líðandi stundar sem er óneitanlega mikils virði á bókamarkaði sem er afar rýr á þeim vettvangi og koma þá orð Schleiermachers um hnút sögunnar aftur upp í hugann. Lesandinn er leiddur inn í vitsmunalega umræðu um trú sem er raunar eina umræðan sem hæfir slíku efni. Það hefur Árna Bergmann tekist með þessari bók, fyrir það á hann þakkir skildar, í það minnsta frá þeim sem vilja forða umræðunni um það sem skiptir manninn mestu máli frá því að verða lágkúrunni að bráð.

En aftur að Grétuspurningunni sem Árni Bergmann víkur að í bókinni. Í leikritinu Fást vaknar Jóhann að lokum og draumnum er lokið, hann er einn með sjálfum sér á elliheimilinu í uppfærslu Borgarleikhússins. Þá birtist okkur nýr Jóhann, nú er trúin ekki grín og spaug eins og hún hafði verið áður heldur lífsins dýpsta alvara og hann krýpur á kné og flytur magnaða bæn: Almáttugi Guð. Himneski faðir. Ég bið þig: Heyr mína bæn. Ég er þinn. Ég bið til engla himinsins. Grípið mig. Grípið mig og takið við mér. Takið við minni aumu sál. (Og þegar árarnir taka ekki við honum heldur hann áfram): Ég bið um eitt tækifæri enn. Gefðu mér aðeins eitt tækifæri. Fyrirgefðu mér, Drottinn. Ég þarf bara eitt tækifæri enn. – Gerðu það! Ég geri hvað sem er. Hvað sem er, – hvað sem er … Spurningin um Guð er í reynd ekki annað en spurning mannsins um tilgang lífsins, þá spurningu mætti kalla hina trúarlegu spurningu samtímans.

 

Gunnar Kristjánsson